Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Seint koma sumir en koma þó. Fjvn. hefur lokið umfjöllun sinni um till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1989--1992 og flytur brtt. við hana á þskj. 1237.
    Allir fjárveitinganefndarmenn standa að þeirri brtt., en að sjálfsögðu með venjulegum fyrirvörum um að þeir kunni að flytja brtt. við einstök viðfangsefni eða fylgja slíkum ef fram koma. Auk þess hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni lýst andstöðu sinni við þá ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna, sem tekin var við afgreiðslu fjárlaga og staðfest er nú við afgreiðslu vegáætlunar, að halda eftir í ríkissjóði 682 milljörðum kr. af tekjustofnum Vegasjóðs.
    Við meðferð þessa máls í fjvn. hefur nefndin eins og jafnan áður notið hjálpar og fyrirgreiðslu Snæbjarnar Jónassonar vegamálastjóra og annarra starfsmanna hans hjá Vegagerð ríkisins og vil ég fyrir hönd fjvn. færa þeim þakkir fyrir það samstarf sem hefur verið með ágætum eins og jafnan áður.
    Ég mun á eftir víkja að helstu breytingum sem fjvn. leggur til að gerðar verði á till. frá upphaflegri gerð hennar eins og hún var lögð fyrir Alþingi. Í þáltill. eins og hún var í upphaflegri gerð voru allar tölur settar fram á áætluðu verðlagi 1998. Þá var reiknað með að verðhækkun á milli áranna 1988 og 1989 yrði 15%. Raunhækkun á milli þessara ára stefnir nú í 22--23%. Með hliðsjón af verðþróunarspám sem nú liggja fyrir til loka ársins er meðaltalshækkun milli áranna 1989 og 1990 áætluð 19%. Samkvæmt því yrði vísitala vegagerðar 4066 stig á árinu 1990. Í brtt. nefndarinnar er þetta verðlag notað fyrir 1990--1992 öll þau ár. Eru allar tölur teknar og gjalda hækkaðar í samræmi við þetta. Tölurnar fyrir 1989 eru hins vegar óbreyttar frá því sem í till. segir. Þessi uppfærsla hefur sem sé ekki áhrif á útgjaldaáformin því að tekjustofnar Vegagerðarinnar eru hækkaðir um sama hundraðshluta eins og útgjöldin eftir þetta endurmat á verðlagi.
    Í sambandi við þróun markaðra tekna frá árinu 1990 til 1992 ítreka ég að þarna er um sambærilegt verðlag að ræða og tekjuaukinn af bensíngjaldi milli áranna er því fenginn með áætlun um magnaukningu á bensínsölu.
    Fjvn. hefur skoðað sérstaklega stöðu Vegasjóðs um sl. áramót gagnvart ríkissjóði og einnig hefur hún skoðað samskipti ríkissjóðs og Vegasjóðs, en ríkissjóður sér eins og kunnugt er um innheimtu tekjustofna Vegasjóðs og útgreiðslu til reksturs Vegagerðar ríkisins og til vegaframkvæmda. Tekjuár Vegasjóðs er annað en almanaksárið, þ.e. það er frá nóvember til nóvember ár hvert.
    Við skoðun fjvn. og samkvæmt upplýsingum frá ríkisbókhaldi kom í ljós að tekjur Vegasjóðs sem ríkissjóður hafði innheimt umfram það sem hann hafði greitt út vegna reksturs og framkvæmda námu 170 millj. kr. um sl. áramót og er þar um að ræða uppsafnaðar tekjur umfram útgreiðslur frá árunum þar á undan.
    Fram hefur komið áður á Alþingi að ef um

innheimtar tekjur yrði að ræða umfram útgreiðslur ætti að standa Vegasjóði á því skil enda eru engar heimildir til annars, en tekið skal fram að þrátt fyrir það höfðu slík skil þó aldrei fullkomlega verið gerð. Í brtt. fjvn. er hins vegar nú lagt til að þau skil verði gerð og að ríkissjóður greiði til Vegasjóðs þær 170 millj. kr. sem hann hefur innheimt af mörkuðum tekjum Vegasjóðs umfram útgjöld ríkissjóðs til vegamála og skal ég þar taka fram eins og áður að hér er um uppsafnaða fjárhæð að ræða frá fleiri en einu ári.
    Í annan stað hafa á sl. tveimur árum orðið til vanskil vegna óinnheimts eða álagðs þungaskatts sem nemur samanlagt vegna áranna 1987 og 1988 219 millj. kr. Í þeirri fjárhæð eru dráttarvextir ekki meðtaldir, en fyrir tveimur árum var fyrst farið að reikna dráttarvexti vegna álagðs en óinnheimts þungaskatts. Fram hefur komið að ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að herða þessa innheimtu, enda er óeðlilegt að svo há skuld hafi myndast á aðeins tveimur árum. Til samanburðar skal þess getið að áætlaðar tekjur af þungaskatti fyrir árið 1989 nema 265 millj. kr., en vanskilin vegna síðustu tveggja ára þar á undan af þungaskatti nema hartnær sömu fjárhæð eða 219 millj. kr. þannig að þau vanskil sem orðið hafa á tveimur árum nema því sem næst heils árs innheimtu á þungaskatti eins og hann er áætlaður á árinu 1989 og sést af því hve veruleg þessi vanskil hafa orðið á aðeins tveimur árum og hve nauðsynlegt er að gera átak til innheimtu á þessum tekjustofni vegagerðar.
    Eins og fyrr segir er reiknað með að setja nokkurn kraft í þessa innheimtu sem hefur nokkuð slaknað á þessum tveimur árum og er reiknað með því að á árinu 1989 takist að innheimta 50 millj. af þessum 219 millj. sem út af standa um sl. áramót og er reiknað með þeirri fjárhæð í brtt. fjvn. á tekjuhlið þingsályktunartillögunnar. Fram skal tekið að hér er um áætlun að ræða um árangur innheimtu. Það sem óinnheimt kann hins vegar að verða af umræddri fjárhæð, hvort sem það verður 160 millj. kr. meira eða minna, verður svo að sjálfsögðu til innheimtu eftir áramótin.
    Í þessu sambandi skal sérstaklega tekið fram að vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa þar sem menn fóru árið 1987 í fyrsta sinn að reikna dráttarvexti
af álögðum en óinnheimtum tekjum Vegasjóðs kemur til álita hvernig með dráttarvexti skuli fara af mörkuðum tekjustofnum sem ríkissjóður innheimtir fyrir aðra. Hefur fjvn. orðið sammála um að leita álits og úrskurðar Lagastofnunar Háskóla Íslands í því máli.
    Í þriðja lagi liggur svo fyrir að vegna mjög snjóþungs vetrar hefur kostnaður við vetrarviðhald hjá Vegagerðinni farið langt fram úr áætlun. Talið er að á árinu 1989 vanti frá upphaflegri áætlun eins og hún var lögð fyrir Alþingi 90--100 millj. vegna vetrarviðhalds á vetrar- og vormissiri 1989 og svo 50--60 millj. kr. vegna vetrarviðhalds á haustmissiri eða 140--160 millj. kr. í heild. Í till. fjvn. er lagt til

að þetta mál verði leyst þannig að bensíngjald verði hækkað umfram áformin í þáltill. um allt að 1,25 kr. á lítra og komi sú hækkun innan skamms. Mun þetta auka tekjur Vegasjóðs um u.þ.b. 100 millj. kr. á innheimtutímabilinu á árinu 1989 eins og fram kemur í brtt. og er lagt til að því fé öllu verði varið til vetrarviðhalds og á það að nægja og ríflega það til þess að kosta vetrarviðhald á vetrar- og vormissiri 1989. Enn er þá óleyst vandamál sem upp kann að koma vegna vetrarviðhalds á komandi hausti og verða þau mál skoðuð í sumar með tilliti til þess hvernig tekjustofnar Vegasjóðs innheimtast í samanburði við innheimtuáætlun. Verði þá talin þörf á auknum tekjum vegna snjómoksturs á komandi hausti er ráð fyrir því gert að bensíngjald verði hækkað aftur síðar á árinu sem nemur þeirri viðbótartekjuþörf umfram innheimtuhorfur eins og þær kunna þá að vera hvað varðar innheimtu fastra tekjustofna Vegasjóðs.
    Í meðförum fjvn. hefur tekjuhlið vegáætlunar fyrir árið 1989 þannig samtals verið hækkuð um 320 millj. kr. 100 millj. af þeirri hækkun er ráðstafað í till. nefndarinnar til aukins vetrarviðhalds eins og fyrr segir vegna óvenjulega mikils kostnaðar við snjómokstur og 220 millj. kr. er síðan ráðstafað til aukinna framkvæmda við almenn verkefni við vegagerð, þ.e. til annarra framkvæmda en svonefndra ,,stórverkefna``.
    Þá hefur fjvn. tekið til athugunar skiptingu milli kjördæma á fé til stofnbrauta og þjóðbrauta og byggjast ákvarðanir nefndarinnar á tillögum sem fram komu frá Vegagerð ríkisins. Þingmenn einstakra kjördæma hafa síðan samkvæmt venju ákvarðað skiptingu á verkefni í hverju kjördæmi og flytur fjvn. tillögur sínar í samræmi við þær ákvarðanir. Við skiptingu stofnbrautafjár á milli kjördæma er viðhöfð sama aðferð og áður. Reiknaðar eru hlutfallstölur út frá kostnaði við endurbætur stofnbrauta í fyrsta lagi, í öðru lagi ástandi stofnbrautanna og í þriðja lagi arðsemi framkvæmda þeirra. Tölur um þessi atriði miðast við stöðu mála í árslok 1988.
    Þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu eru utan hlutfallsskiptingar svo og önnur stórverkefni að því marki sem hinar sérstöku fjárveitingar til þess verkefnaflokks greiða kostnað við framkvæmdirnar. Gert er ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar að stórverkefnasjóður greiði 80% kostnaðar við jarðgöng og 62,5% kostnaðar við stórbrýr og fjarðaþveranir, en kjördæmin leggja fram það sem á vantar af sínum hlut. Niðurstöður þessara útreikninga, sem liggja síðan til grundvallar skiptingu á milli kjördæma, eru síðan sýndar á bls. 3 í nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 1236 og vísa ég í þá töflu til frekari skýringar.
    Miðað er við að hin nýju hlutföll gildi fyrir árið 1991 og 1992 og þá án frávika. Er það nýmæli. Frávik þau, sem áður reyndust nauðsynleg þegar stærri framkvæmdir voru á döfinni og gátu raskað nokkuð þessum hlutfallstölum sem byggðu á skiptingu milli kostnaðarástands og arðsemi, leysast nú í gegnum stórverkefnaflokkinn þannig að það er ekki lengur þörf fyrir þessi frávik og er því frá þeim fallið frá og með

árinu 1991.
    Fyrir árin 1989 og 1990 er reiknað með óbreyttum hlutföllum frá gildandi vegáætlun. Þessi tvö ár eru síðari hluti annars tímabils langtímaáætlunarinnar, en henni á að ljúka eins og kunnugt er árið 1994. Við endurskoðun vegáætlunar 1987 voru samþykkt ákveðin hlutföll fyrir tímabilið í heild og fyrir einstök ár. Fjvn. telur eðlilegt að þau hlutföll haldist nú fyrir árin 1989 og 1990.
    Á bls. 3 í nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 1236 er síðan sýnd hlutfallaskiptingin milli kjördæmanna samkvæmt framansögðu eins og hún verður á áætlunartímabilinu, þ.e. fyrir árin 1989, 1990, 1991 og 1992, og á það við um skiptingu á framkvæmdafé vegna stofnbrauta.
    Um skiptingu þjóðbrautafjár á milli kjördæma er það að segja að einnig þar er notuð sama aðferð og undanfarið. Þar eru reiknaðar hlutfallstölur kjördæma út frá kostnaði við endurbætur þjóðbrauta, út frá ástandi þeirra og umferð á þjóðbrautum. Hér er um að ræða tvo sömu þætti og varða stofnbrautirnar, þ.e. kostnaður og ástand, en þriðji þátturinn í þessum útreikningum er hvað þjóðbrautir varðar umferðarþungi þar sem hins vegar hvað stofnbrautir varðar er notast við arðsemisútreikninga. Miðað er við stöðu mála í árslok 1988 eins og gildir um stofnbrautirnar og eru niðurstöðurnar einnig sýndar í töflu þar sem sýndar eru gildandi skiptitölur milli kjördæma og kemur sú tafla fram á bls. 3 í nál. meiri hl. fjvn. og vísa ég í þá töflu til frekari skýringa. Síðan er svo reiknað með að gildandi skiptitölur séu notaðar 1989, en nýjar
taki svo gildi árið 1990.
    Sérstök stórverkefni eru nýmæli í þeirri till. til þál. um vegáætlun sem lögð var fram á Alþingi fyrr í vetur. Fjvn. gerir tillögur um að fjárveitingar til þessara stórverkefna skiptist á þrjá verkefnaflokka, þ.e. í fyrsta lagi jarðgöng, í öðru lagi stórbrýr og fjarðaþveranir og í þriðja lagi til höfuðborgarsvæðisins. Verkefni þau sem leysa þarf innan þessa verkefnaflokks á komandi árum eru allmörg og sum hver mjög dýr og er fyrirsjáanlegt að þessi stóru verkefni verða ekki leyst nema áætlað sé sérstaklega fyrir þeim í vegáætlun eins og gert hefur verið. Markar því sú stefnumótun tímamót hvað gerð vegáætlunar varðar. Með þeirri vegáætlun sem hér er lögð fram er gerð tillaga um það og raunar gert ráð fyrir því að hægt sé að hefjast handa við stórverkefni af þessu tagi.
    Þau jarðgangaverkefni sem tekin hafa verið inn í áætlanir og útreikning á þessu stigi eru eftirfarandi: Ólafsfjarðarmúli, en eins og kunnugt er eru framkvæmdir þegar hafnar þar og miðar vel áfram, Breiðadals- og Botnsheiði og loks Fjarðarheiði og Oddsskarð.
    Það er ekki búið að ljúka fyllilega áætlunum um kostnað við þessa jarðgangagerð að Ólafsfjarðarmúla frátöldum, en samkvæmt lauslegum áætlunum má giska á að kostnaður verði um 7--8 milljarðar kr. og samanlögð leið þessara jarðganga yrði um 30 km.
    Þau verkefni sem tekin hafa verið með í útreikningum í flokki stórbrúa og fjarðaþverana eru:

Kúðafljót, Markarfljót, Laxá í Kjós, Botnsvogur, Gilsfjörður, Dýrafjörður, vesturós Héraðsvatna, Skjálfandafljót í Köldukinn, Jökuls á Dal hjá Sellandi, Breiðdalsá og Jökulsá í Lóni. Af þessum stórbrúaverkefnum voru áður að hluta til á vegáætlun Markarfljót, Dýrafjörður og Breiðdalsá, en hin verkefnin ekki. Athugun á þessum verkefnum er að sjálfsögðu einnig misjafnlega langt á veg komin og einnig kostnaðaráætlanir, en áætlað er, miðað við þær lauslegu upplýsingar sem fyrir liggja, að þessi verkefni kosti samanlagt um 2,3 milljarða kr.
    Þriðji stórverkefnaflokkurinn er síðan höfuðborgarsvæðið, en verkefni þar eru bæði mörg og dýr og ýmist á þjóðvegum eða þjóðvegum í þéttbýli. Lausleg úttekt bendir til að fjárþörf þar sé a.m.k. 400 millj. kr. á ári næstu árin. Það fjármagn mun nýtast bæði til að draga úr slysum á höfuðborgarsvæðinu og greiða fyrir umferðinni, en alkunna er að umferð hefur þyngst mjög á höfuðborgarsvæðinu hin síðari ár, miklu meira en menn gerðu ráð fyrir þegar umferðarspá var gerð fyrir höfuðborgarsvæðið og hefur það valdið miklum vandkvæðum.
    Til viðbótar fé af stórverkefnum bætist svo þarna við fjármagn til þjóðvega í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu, um 100 millj. kr. á ári, þannig að samanlagt er þörfin með framlagi af þéttbýlisvegafé höfuðborgarsvæðisins um 500 millj. kr. á ári næstu árin og er það ekki alllítið fé. Reiknað er síðan með að þau kjördæmi sem hafa stórverkefni í gangi leggi fé af hlutfalli sínu af vegafé á móti fjárveitingu af stórverkefnum og borgi 20% af kostnaði við jarðgöng og 37,5% af kostnaði við stórbrýr og fjarðaþveranir eins og áður er getið.
    Rétt er að benda á varðandi stórverkefnin og þá framkvæmd sem áætlað er að vinna með tilstyrk fjárveitinga til stórverkefna á árinu 1989, þ.e. jarðganga í Ólafsfjarðarmúla, að fyrir liggur að það verk hefur gengið mun greiðar en upphaflega var áætlað og greiðslur hafa af þeim ástæðum fallið hraðar til en gert var ráð fyrir, en verksamningur með ákvæðum um greiðslur í samræmi við hversu verkinu miðar áfram liggur fyrir varðandi gangagerðina. Miði verkinu áfram jafnvel og nú horfir er líklegt að enn vanti miðað við verðlagsspá um 90 millj. kr. til verksins umfram það sem rennur til jarðgangagerðarinnar úr ,,stórverkasjóði`` og af framlagi kjördæmisins, en um það verður þó ekki endanlega neitt sagt fyrr en lengra líður á árið. Sá viðbótarkostnaður sem hér er rætt um að verða kunni mun þó ekki falla til fyrr en á síðustu mánuðum ársins. Þegar séð verður hvort svo fer og um hve mikið fé getur verið að ræða munu fjmrh. og samgrh. í samvinnu við ríkisstjórn og fjvn. gera tillögur um það á haustþingi hvernig með skuli fara og mun Alþingi um það mál fjalla og afgreiða.
    Tímabili tólf ára langtímaáætlunar í vegamálum á að ljúka árið 1994. Í langtímaáætluninni var gert ráð fyrir því að höfuðáhersla yrði lögð á uppbyggingu stofnbrautakerfisins og á bundin slitlög. Hvað varðar hin bundnu slitlög hefur fram til þessa verið unnt að

halda áætluninni og rúmlega það, en í öðrum efnum hefur svo ekki reynst vera. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli manna á súluriti á bls. 6 í nál. meiri hl. fjvn. þar sem sýnd eru slitlög á stofnbrautum samkvæmt langtímaáætlun 1982 og staðan eins og hún er um áramót 1988/1989. Af þessu súluriti má sjá að í öllu kjördæmum að einu undanskildu hefur tekist að ná þeim áfanga við slitlagsgerð á stofnbrautum að um sl. áramót var búið að leggja slitlag á stofnbrautir í kjördæmunum álíka mikið og gert var ráð fyrir að lagt yrði til loka ársins 1990. Aðeins eitt kjördæmi stingur þar nokkuð í stúf, þ.e. Norðurland eystra, þar sem nokkuð vantar enn á að því markmiði sé náð varðandi gerð slitlaga á stofnbrautum, en
segja má um öll önnur kjördæmi að þessu markmiði hafi svo til verið náð miðað við stöðuna um sl. áramót og er það þó jákvætt í þessu að tekist hefur með þessum hætti að halda langtímaáætlun í vegagerð um gerð bundinna slitlaga og vel það.
    En ástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að halda áætlunum hvað aðra þætti varðar er sú að aldrei frá upphafi hefur verið staðið við þá fjármögnun vegagerðarverkefna sem langtímaáætlunin gerði ráð fyrir. Þrátt fyrir það að menn hafi samþykkt umrædda áætlun hefur Alþingi aldrei staðið við þá fjármögnun sem langtímaáætlunin gerði ráð fyrir. Hin síðari ár hefur vantað fé til þess að hægt væri að standa við markmið langtímaáætlunarinnar sem nemur allt að 1% af vergri landsframleiðslu. Munar þar um 3 milljörðum kr. á ári á núverandi verðlagi og jafnvel þótt, eins og fram hefur komið, ýmsum þyki nokkuð langt frá því að það mark náist á árinu 1989 er þó það að segja að þó nokkuð lengra er stigið en á sl. ári þannig að hafi eitthvað breyst frá árinu áður hefur þokað í rétta átt þó lítið sé. Þessi fjárvöntun hefur auðvitað gert það að verkum að langtímaáætlun hefur verulega raskast í öllum atriðum öðrum en að tekist hefur að halda áætluninni um gerð bundinna slitlaga. Til þess að svo mætti verða hafa menn m.a. notað fé sem verja hefur átt til viðhalds slíkra verkefna.
    Með tilkomu stórverkasjóðs nú hafa önnur ný viðhorf einnig haldið innreið sína sem áhrif hafa á langtímaáætlunina. Hvað varðar hin almennu vegagerðarverkefni, þ.e. gerð stofnbrauta, slitlaga, þjóðbrauta og sérverkefna, mun tilkoma stórverkefna þó ekki hafa umtalsverð áhrif ef horft er á meðaltal áranna 1983--1988 nema á árinu 1989. Á föstu verðlagi hafa framlög til þessara almennu vegagerðarverkefna verið 1002 millj. kr. á ári á þessu árabili. Þau verða hins vegar á yfirstandandi ári 861 millj. kr. á sama verðlagi eða nokkru minni en að meðaltali næstu árin á undan, en árið 1990 verður framlagið þegar orðið 1030 millj. kr. eða nokkru meira en meðaltalinu nemur og önnur ár tímabilisns, árin 1991 og 1992, verður framlagið um það bil 1000 millj. kr. þannig að á áætlunartímabilinu verður tilkoma stórverkasjóðs ekki til þess að raska eða draga úr almennum vegagerðarframkvæmdum öðrum nema á árinu 1989. Þá er einnig rétt að nefna að innan stórverkefnaflokksins eru tekin nokkur verkefni sem

áður voru í hópi almennra vegagerðarverkefna og er því sá samanburður sem ég var að nefna áðan almennu vegagerðarverkefnunum hagstæðari en samanburðurinn eins og ég nefndi hann áðan gat gefið tilefni til. Þess ber þó að geta að í hópi þeirra verkefna sem óunnin eru í stofnbrautum af viðfangsefnum langtímaáætlunarinnar eru mjög mörg dýr viðfangsefni og hefur það að sjálfsögðu áhrif á áætlunina. Þessi atriði, bæði ný atriði sem til hafa komið eins og varðandi tilkomu stórverkasjóðsins og eins hitt að það hefur aldrei á öllu áætlunartímabili langtímaáætlunar í vegagerð verið staðið við ákvarðanir Alþingis um fjármögnun, ekki eitt einasta ár af þessu tímabili, hafa gert að verkum að menn horfa fram á það nú að það verði tæpast staðið við langtímaáætlunina og því telur fjvn. Alþingis tímabært að taka nú þegar til endurskoðunar þessa áætlun í ljósi reynslu og nýrra aðstæðna og hefur nefndin vilja til að beita sér fyrir því að það verk geti hafist þegar á þessu ári.
    Ef aðeins er stiklað á því allra stærsta sem ekki hefur enn verið nefnt í brtt. á þskj. 1237 þá er fyrst rétt að nefna að í skiptingu útgjalda á bls. 2 er reynt að bæta með litlum hætti upp það sem hefur verið gert á undanförnum árum við afgreiðslu vegáætlunar, en það er að reynt hefur verið að klípa eins mikið og menn hafa treyst sér til af almennum rekstrarkostnaði Vegagerðar ríkisins. Þess ber að geta í því sambandi að stjórnendur Vegagerðar ríkisins hafa náð mjög umtalsverðum árangri í sparnaði í rekstri og aðhaldi í útgjöldum. Hins vegar verður líka að viðurkenna að alþingismenn hafa hneigst til þess þegar þeim hefur verið fjár vant í einstök verkefni að taka e.t.v. meira af rekstrarkostnaði Vegagerðarinnar og verja til framkvæmda en ástæða væri til. Mönnum þótti rétt að skoða þessi mál að nýju og það er reynt í tillögunum nú að gera nokkuð betur við þessi rekstrarverkefni en gert hefur verið á undanförnum árum.
    Í annan stað er rétt að benda mönnum á að í skiptingu útgjalda er rætt um fjárveitingar til sýsluvega. Þær skulu vera fyrir árið 1989 140 millj., 190 millj. fyrir 1990, 200 millj. fyrir 1991 og 205 millj. fyrir árið 1992. En nú verður sú breyting eftir að þetta ár líður með breyttri verkaskiptingu að mótframlög sýslna til sýsluvega falla niður. Yrði við það staðnæmst væri ljóst að úr vegagerð vegna sýsluvega mundi mjög draga ef þau mál yrðu ekki skoðuð betur á milli áranna 1989 og 1990. Það er vilji fjvn. að það verði gert þegar fyrir liggur nú í árslokin og menn hafa fengið meiri tíma til að skoða það hvernig menn hyggjast bregðast við þeim breyttu aðstæðum. Menn hafa ráðrúm til þess á þeim mánuðum sem eftir lifa þessa árs að gera tillögur um hvernig við skuli bregðast og fjvn. mun taka það mál til skoðunar ásamt samgrn. og vegagerð á næsta ári við afgreiðslu fjárlaga.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, er leiðrétting sem ég þarf að koma á framfæri
á texta í brtt. á þskj. 1237. Mér fannst ekki, og bar mig nokkuð saman um það við fjvn., ástæða til að

prenta allt þskj. upp vegna rangs texta sem kom þar inn á einum stað og leita heimildar hjá forseta til að mega leiðrétta það úr ræðustól, en á bls. 7 í kaflanum um Ó-vegi stendur: ,,61 Djúpvegur 01-04, tenging Inn-Djúps 17 millj. kr.`` Þarna er rangt með farið. Tenging Inn-Djúps hefur aldrei verið á Ó-vegafé og stendur ekki til að svo verði heldur á þarna að standa í staðinn fyrir tenging Inn-Djúps og vegnúmer sem því fylgir: 25 Óshlíð. Þarna er um að ræða lokaverkefni samkvæmt Ó-vegafé á Óshlíð. Þau verkefni sem óunnin eru þar munu á árunum þar á eftir verða tekin inn á hið almenna vegafé sem kemur í hlut Vestfirðingafjórðungs. Ég vona, hæstv. forseti, að mér sé heimilt að leiðrétta þetta héðan úr ræðustól. Þarna er um rangan texta að ræða, mistök sem ég biðst velvirðingar á en ekki breyta neinu um tölur sem er meginatriði málsins.
    Ég vek einnig athygli á því, virðulegi forseti, að eins og vegáætlunin er lögð fyrir í tillögum fjvn. og eins og hún var lögð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar til Alþingis er gert ráð fyrir því að markaðar tekjur Vegasjóðs renni óskiptar til Vegasjóðs öll árin 1990, 1991 og 1992 þannig að skerðing sú sem ákveðin var við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár komi aðeins fram fyrir árið 1989, en seinni þrjú ár tímabilsins sé um að ræða óskerta tekjustofna Vegasjóðs. Þetta ákveður Alþingi við fjárlagagerð hvert ár fyrir sig, en það liggur fyrir, bæði í tillögunni frá ríkisstjórninni og í brtt. fjvn., að þar er ekki lagt til að hverfa frá því að verja mörkuðum tekjustofnum Vegagerðar ríkisins til vegamála. Það er ekki lagt til að hverfa frá því markmiði önnur ár áætlunartímabilsins en hið fyrsta.
    Það er kannski ástæða til þess í lokin að vekja athygli manna á því að undir flokknum Sérstök verkefni eru tvö nýmæli. Annað var í hinni upphaflegu tillögu frá samgrh. og ríkisstjórn, þ.e. að vegurinn um Mýrar sé tekinn inn sem sérstakt verkefni, Ólafsvíkurvegur um Mýrar, og sú breyting hefur orðið í meðförum fjvn. frá upphaflegri tillögu ráðherra að annar nýr vegkafli, vegurinn um Fljótsheiði, hefur verið tekinn inn í sérstök verkefni og gert ráð fyrir 17 millj. kr. fjárveitingu til þess verkefnis á árinu 1992.
    Að lokum, virðulegi forseti, vísa ég á sundurliðunina á bls. 7 um höfuðborgarsvæðið, það sem þar er gert ráð fyrir að framkvæma á áætlunartímabilinu sem stórverkefni á því svæði. Um það hefur að sjálfsögðu verið haft samráð við þingmenn Reykjavíkur og Reykjaneskjördæma. Það sem þar er lagt til er að sjálfsögðu eins og önnur stórverk grundvöllur þess að hægt sé að ráðast í þær nauðsynlegu framkvæmdir sem eru orðnar mjög knýjandi á þessu svæði.
    Að lokum vek ég athygli á því, virðulegi forseti, sem segir á bls. 8 varðandi stórbrýr. Þar er gert ráð fyrir að Dýrafjarðarbrú verði lokið að mestu á árunum 1990--1991. Mestur þungi af framkvæmdum við brú yfir Markarfljót komi á árið 1992. Ég taldi upp áðan þau verkefni sem eru á undirbúningsstigi varðandi þær

brýr sem ekki hafa hingað til verið að hluta til inni á vegáætlun og árin 1990, 1991 og 1992 er lagt til að verja nokkru fé til undirbúnings næstu verkefna í stórbrúagerð, 1 millj. kr. árið 1990, 6 millj. kr. árið 1991 og jafnhárri upphæð árið 1992. Með þessu er stefnt að því að við næstu endurskoðun vegáætlunar, sem fram fer fyrir árið 1991, verði valin næstu stórbrúaverkefni sem takast á á við af þeim verkefnum sem talin eru upp á bls. 4 í nál. meiri hl. þannig að það liggi fyrir við næstu endurskoðun vegáætlunar hvaða stórbrúaverkefni valin verði á eftir þeim sem nefnd eru á bls. 8 og þegar hafa verið að hluta til á vegáætlun.
    Virðulegi forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um vegáætlun enda er klukkan orðin margt. Ég vil í lokin aðeins geta þess að það er rétt að það hefur orðið nokkur bið á afgreiðslu þessa máls í fjvn. Fyrir því eru tilteknar skýringar. Við berum að sjálfsögðu í meiri hlutanum ábyrgð á afgreiðslum þar. Við höfum átt mjög gott samstarf við stjórnarandstæðinga og minni hlutann í fjvn. þó að ég geri mér fulla grein fyrir því og taki að sjálfsögðu á mig sem formaður nefndarinnar þá sök, ef sök skyldi kalla, að ekki hefur e.t.v. verið unnt að halda eins tíða fundi og ástæða hefði verið til og vilji nefndarmanna sjálfsagt allra hefur staðið til. Engu að síður hefur það ekki orðið okkur að stórdeilumálum í nefndinni. Menn hafa vonandi skilið þá aðstöðu sem við höfum verið í og ég vil nota þetta tækifæri til að færa samnefndarmönnum mínum bæði í stjórn og stjórnarandstöðu þakkir fyrir ágætt samstarf í nefndinni nú eins og áður.
    Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði brtt. fjvn. á þskj. 1237 samþykktar.