Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það er orðið áliðið á þessu kvöldi og mér skilst að hér séu í húsinu jafnmargir þingmenn og eru starfandi í hv. fjvn. Það eru einhverjir utan þeirrar nefndar sem hér eru, m.a. ráðherra og forseti, þannig að ekki eru allir nefndarmenn einu sinni hér til að vera viðstaddir umræður um vegáætlun. Það er þó sá hópurinn af þingmönnum sem fjallar fyrst og fremst um þessa áætlun og er búinn að hafa hana til skoðunar drjúgan tíma. Ég vil lýsa því að mér finnst reisn hv. Alþingis ansi lítil á þessari stundu þegar verið er að ræða jafnmikilsvert mál og vegáætlun að hér skuli ekki vera fleiri hv. þm. en ég nefndi áðan og vel hefði getað fækkað um einn frá því að ég var frammi í ganginum fyrir stundu.
    En hv. 1. þm. Vesturl. segir að þetta hafi alltaf verið svona. Það held ég að sé ekki rétt. Oftar hefur verið fullur salur þingmanna þegar við höfum rætt um þessi mál og oftar hefur farið fram allmikil umræða um vegáætlun þó að því miður hafi þetta farið frekar minnkandi á síðari árum.
    Hv. ræðumenn í kvöld voru meira að segja að tala um að við þyrftum að fara að huga að áætlun, ekki aðeins aldamótaáætlun heldur jafnvel hugsað svolítið lengra fram í tímann. Það væri frekar stutt í aldamótin. ( SighB: Það fer nú eftir því hvaða aldamót þú ert að tala um.) Það er rétt, og sjálfsagt er rétt að hugsa til hinna sem eru dálítið lengra en þessi ellefu ár sem bíða næstu aldamóta. Ég held að það hafi verið meining ræðumanns að það væri jafnvel of stutt að hugsa til þess, það þyrfti að hugsa um áætlunargerð lengra fram í tímann. Ég get að vissu leyti tekið undir að það sé nauðsynlegt að hugsa og skipuleggja fram í tímann, en þegar við erum að tala um það er held ég fyrst að gera kröfu um að það sé staðið við þær áætlanir sem við búum við, höfum gert okkur yfir þann tíma sem við erum að hrærast í. Það hefur því miður ekki gerst eins og hér hefur komið fram. Það hefur ekki verið staðið við langtímaáætlun. Það hefur ekki verið staðið við það fjármagn sem ætlað hefur verið til framkvæmda í vegagerð og það hefur heldur ekki staðið einn einasti þáttur í framkvæmdum. Þó að hv. formaður fjvn. hafi verið að tala um í ræðu sinni að það hefði staðist framkvæmdin í sambandi við bundnu slitlögin ( SighB: Og rúmlega það.) er það því miður ekki rétt vegna þess að stór hluti þeirra bundnu slitlaga sem lögð hafa verið á á undanförnum árum er ekki á þann hátt sem áætlað var í langtímaáætlun. Það var áætlað í langtímaáætlun að það væru ekki lögð bundin slitlög á aðra vegi en þá sem væri búið að byggja upp. En eins og við vitum hefur verið gripið til þess ráðs, sem er ekki gagnrýnisvert í sjálfu sér, að leggja bundið slitlag á hálfuppbyggða vegi vítt um landið. Meira að segja í næsta nágrenni við Reykjavík, á leiðinni fyrir Hvalfjörð, eru langir kaflar sem eru hálfbyggðir upp og lagt á bundið slitlag.
    Í framhaldi af þeirri umræðu sem var í kvöld, þ.e. umræðunni um byggðaáætlun, þar sem menn voru að sýna fram á mikinn áhuga sinn í því að ræða frekar

þau mál og nauðsyn þess að byggja upp einhverja framtíðarsýn í stuðningi við landsbyggðina og meira að segja hæstv. forsrh. gagnrýndi stofnun sem undir hann er sett, Byggðastofnun, fyrir að hafa ekki forustu í því að koma á stefnumörkun í uppbyggingu á landsbyggðinni, þá er ég alveg hissa á því að sá maður sem ætlast til þess að stofnun eins og Byggðastofnun, sem varla er hægt að ætlast til þess að marki stefnu langt umfram það sem ríkisstjórnin sjálf á að gera, skuli ekki sitja hér og fylgjast með umræðum um vegáætlun og heyra hvað menn eru að leggja til og hvers menn óska í sambandi við það. Ég held að það hefði verið skemmtilegt og það hefði verið svolítið meiri reisn yfir því að það hefði verið fleiri en einn ráðherra viðstaddur umræðu um vegáætlun. Það er ekki svo. En menn geta talað um að það sé æskilegt að þessi eða hin stofnunin marki stefnur.
    Þegar tillagan um langtímaáætlun um vegagerð var lögð fyrir Alþingi á vordögum 1983 töldu menn sig sjá fram á stórstígar framfarir í vegamálum og vegagerð og bættum samgöngum um land allt. Fjárhagslegu forsendurnar voru þær, eins og hér hefur komið fram í umræðunni og kemur jafnan fram þegar verið er að tala um þessi mál, að 2,2% af vergri þjóðarframleiðslu skyldi árlega varið til vegagerðar. Hlutfall þetta bæri að skoða sem lágmark. Það skyldi aukið í 2,4% innan þriggja ára. Gert var ráð fyrir að auka þetta fjármagn þegar teknir yrðu fyrir lengri og heillegri vegarkaflar.
    Áætlunin var þannig úr garði gerð að auka mátti framkvæmdahraða ef meira fjármagn kæmi til en áætlunin gerði ráð fyrir, þ.e. 2,4% af þjóðarframleiðslu. Slík var bjartsýnin í þá daga að gert var ráð fyrir umframfjármagni við 2,4% af vergri þjóðarframleiðslu til að setja í stórframkvæmdir. Þetta hefur aldrei skeð. Ég er nokkurn veginn viss um að hv. þm. sem voru að undirbúa þessa langtímaáætlun og þeir sem fjölluðu um hana á hv. Alþingi þá trúðu því að það mark mundi nást að fjármagna vegaframkvæmdir með 2,4% af þjóðarframleiðslu og það þyrfti að grípa til þess af og til í sambandi við stórframkvæmdir að auka það fjármagn.
    Það er rétt að taka fram að útreikningi á vergri þjóðarframleiðslu hefur verið breytt og að 2,14% nú jafngilda áður 2,4%. Það sem ég nefni í samanburði
við verga þjóðarframleiðslu hér á eftir miðast við þessa nýju útreikninga.
    Í vegáætlun var aðeins ráðstafað 80% af framkvæmdafénu. 20% skyldi varið til að sinna uppáfallandi verkefnum. Það var farið svo varlega í framkvæmdaáætlunina á þessum dögum að menn ráðstöfuðu aðeins 80% og ég held að menn hafi verið mjög trúaðir á að 20% yrði varið til ýmissa hluta sem væru ófyrirséðir, bæði uppáfallandi verka og til að auka og styrkja áætlanir á öðrum framkvæmdum. Ég tel sem sagt að þingmenn hafi treyst því að áætlað fjármagn í vegáætlun væri lágmark þess sem ráðstafað yrði til þessara mála næstu árin. Sumir höfðu jafnvel talið að hlutfallið af vergri þjóðarframleiðslu væri

nefnt of lágt. Það mátti t.d. benda á að á árunum 1961 til og með 1974 var hlutfallið frá 2,36 niður í 2,14%. Það er alltaf jafnt eða fyrir ofan hlutfallstölu hinnar nýju langtímaáætlunar. Það var því ekki í mikið ráðist að áætla 2,14% af vergri þjóðarframleiðslu til vegagerðar. Þar var öllu stillt í hóf. Það var þó greinilegt að stóra hluti væri hægt að gera þótt ekki yrði meira til ráðstöfunar en þessi 2,14%.
    Svo kom að efndunum: 1983 1,77%. 1984 1,79%. Þessi tvö ár voru kölluð erfiðir tímar eins og núna, mjög erfiðir tímar. Menn sættu sig við hlutina eins og núna. Staðið var við áætlunina miðað við áætlaðar framkvæmdir, þ.e. 80% framkvæmdafjárins. 20% til þess að ráðstafa og aftur til að auka og taka til uppáfallandi framkvæmda duttu upp fyrir. Auk þess kom í ljós að þeir áætlunargerðarmenn hjá Vegagerð ríkisins voru góðir fyrirhyggjumenn og áætluðu framkvæmdakostnað af nokkru öryggi gagnvart fjárveitingavaldinu. Þökk sé þeim.
    Á árinu 1985 fóru hinir erfiðu tímar að breytast yfir í góðæri og á árinu 1986 og 1987 dundi yfir okkur óskaplegt góðæri. Hvað skyldi hafa gerst þá með framlögin til vegamála? Við skulum skoða það. Árið 1985 var hlutfallið af vergri þjóðarframleiðslu 1,62%, árið 1986 með áframhaldandi betra góðæri 1,40% og 1987 með hinu mesta góðæri sem yfir okkur hefur gengið 1,16% í stað fyrirheitsins úr langtímaáætlun sem var 2,14%. Útkoman varð allt að því helmingi minni. Árið 1988 kemur út með 1,25%, en á því ári var lánsfé stór hluti framkvæmdafjárins og reyndar líka á árinu 1987 eins og kemur fram í þeim plöggum sem hafa komið frá fjvn. þannig að prósenttölur sem ég nefni hér, 1,25 og 1,16 fyrir árin 1987 og 1988, eru sjálfsagt í veldi sínu mikið lægri ef lánsfé er tekið frá og ég horfi með skelfingu til prósenttölunnar sem kemur út úr árinu 1989 ef á að gera eins og nú er stillt til að borga sem mest af skuldunum sem teknar voru 1988 og 1987. Framkvæmdaféð gæti þá farið niður fyrir 1%. En það gæti bjargað stöðunni pínulítið að við erum á erfiðum tímum, minnkandi þjóðartekjur skapa betri prósentutölu. Vanefndirnar frá 1985--1988 miðað við langtímaáætlun eru því hrikalegar og eiga mjög mikinn þátt í erfiðri stöðu landsbyggðarinnar nú um stundir. Því miður ber sú vegáætlun sem hér er verið að fjalla um of mikinn svip þeirrar síðustu. Það er ömurlegt til þess að hugsa að stjórnleysi síðustu ára skuli þurfa að valda því að skerða þurfi framlög til vegamála eins og þessi vegáætlun sýnir.
    Ég hef orðið að sætta mig við það og sætti mig við það að það þrotabú sem núv. ríkisstjórn er að taka við verði að mæta þeirri stöðu á þann hátt sem hv. 2. þm. Norðurl. v. lýsti hér. Það verður að taka einhvers staðar peninga til að jafna þann hallareikning og því miður hefur orðið að taka slurk af tekjustofnum til vegagerðar. Ég vil ekki kenna þeirri ríkisstjórn sem nú situr, síst af öllu þeim hæstv. samgrh. sem er hjá okkur, um að þannig stendur á í ár að orðið hefur að skerða fasta tekjustofna. Það er fyrst og fremst óráðsíu

fyrri ára að kenna.
    Ráðleysi fyrrv. tveggja síðustu ríkisstjórna verður sennilega dýrt á marga vegu, ekki síst landsbyggðinni. En þrátt fyrir það, þótt viðskilnaður ríkisstjórnar Jóns Baldvins, Steingríms og Þorsteins hafi verið vondur, tel ég að það hafi verið röng stefna hjá núv. ríkisstjórn að ráðstafa ekki meiru fé til vegamála en gera á samkvæmt þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir til umfjöllunar. 1 milljarður kr. til viðbótar í ár hefði verið gott spor í rétta átt, síðan stærra skref á næstu árum. Ráðherrar sem telja sig vera í ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju þurfa að láta verkin tala.
    Frá því að ég kom á þing fyrir tæpum tíu árum hef ég aldrei fengið eins mörg bréf og eins mörg viðtöl um vegamál úr mínu kjördæmi yfir þingtímann og á því þingi sem nú er senn lokið. Það liggur þó ljóst fyrir að á þessum tíu árum hafa vegirnir úti um land og líka á Vesturlandi batnað mikið. En þeir hafa ekki batnað nógu mikið. Ástandið í vegamálum er verra en það var fyrir tíu árum miðað við breytta tíma. Umferðin hefur aukist, farartækin stækkað og þyngst, þörfin fyrir betri vegi eykst með degi hverjum. Flutningahættir eru allt aðrir nú en við upphaf langtímaáætlunar. Sumardagsumferð t.d. á Vesturlandi hefur aukist um 50% frá 1983. Meðaltalsumferð í júní/september 1988 á aðalvegum á Vesturlandi með og án bundins slitlags var komin upp í 285 bíla á dag. Svipaða sögu er að segja annars staðar á landinu. Það þýðir ekki að vera með malarvegi með slíka umferð. Það er enginn möguleiki að halda þeim akfærum við þær aðstæður.
    Sú staða blasir við að því verður ekki frestað í nokkur ár að ljúka við
uppbyggingu allra aðalvega á landinu og leggja á þá bundið slitlag. Ég tel að strax á næsta ári verði að fá aukið fjármagn til vegamála umfram það sem áætlað er í þeirri vegáætlun sem hér er til umræðu og því þurfi á næsta þingi að endurskoða strax þessa áætlun. Mér finnst ekki vera mikil reisn yfir nál. minni hl. fjvn. þar sem sagt er að leggja þurfi á það áherslu þegar langtímaáætlun lýkur 1994 að lagt verði mikið fé í þjóðbrautir. Ætli það þurfi ekki að hugsa um þetta svolítið fyrr. Að bíða eftir verulegum framkvæmdum í þjóðbrautum fram yfir árið 1994 finnst mér vera fráleitt að tala um ef halda á byggð á þeim svæðum þar sem samgöngur byggjast á þjóðbrautum.
    Ég fagna því að farið er að líta til stórverkefna í vegagerð, jarðganga, fjarðaþverana og stórverkefna á höfuðborgarsvæðinu. Þessi verkefni sum hver hafa verið hálfgert feimnismál á undanförnum árum og er gott að þeim er lyft núna til umfjöllunar. Það hafa vitaskuld allir vitað um að það yrði ekki komist hjá þessum framkvæmdum, en þótt nefnd séu mörg stórverkefni í tillögunum og nál. fjvn. eru mörg stórverkefni önnur sem við blasa og sinna þarf sem fyrst, en þau eru hvergi komin á blað. Ég held að þau þurfi að koma á blað helst fyrir aldamótaáætlunina.
    Á Vesturlandi vil ég nefna nýja vegagerð um Búlandshöfða, brú yfir Kolgrafarfjörð, brú yfir

Álftafjörð og svo göng undir Hvalfjörð. Hv. 1. þm. Vesturl. nefndi líka, og það er nefnt í nál. meiri hl. fjvn., brúna yfir Gilsfjörð. Ég nefni verk sem ekki eru komin í forgangsröð en þyrftu að koma inn í umfjöllun til þess að hægara sé að gera sér grein fyrir því hve verkefnin á þessum vettvangi eru stórkostleg og að hægagangur á vegaframkvæmdum eins og verið hefur undanfarin ár og verður í ár er fráleitur og hættulegur.
    Ég óska hæstv. samgrh. til hamingju með þann stórhug sem hann sýnir með því að taka þessi stóru verkefni inn í vegáætlun nú. Það hefði verið betur fyrr gert. En betur má ef duga skal. Aukið fjármagn verður að koma til þess að stórverkefnin verði ekki til að draga úr öðrum framkvæmdum. Sl. vetur er einn sá snjóþyngsti sem menn muna. Snjómokstur á vegum var mikill og kostnaðarsamur. Þegar snjórinn var sem mestur í vetur gaf hæstv. samgrh. út nýjar snjómokstursreglur um að ýmsum leiðum skyldi haldið opnum fleiri daga í viku hverri en áður. Ráðherra hefur og gefið fyrirheit um að enn verði bætt úr í þessu efni á næsta ári og því þar næsta. Þetta var búið að vefjast fyrir samgrh. fyrri ríkisstjórna ansi lengi, en núv. ráðherra hafði ekki setið nema í mánuði þegar hann kom þessu til framkvæmda. Hafi hann þökk fyrir.
    Á síðustu mánuðum hefur farið fram nokkur umræða um gerð jarðganga undir Hvalfjörð utanverðan. Ef úr slíkri jarðgangagerð yrði tengdist Akranes betur en nú er vegakerfinu til Vestur- og Norðurlands þar sem aðalvegurinn færðist þá suður fyrir Akrafjall og leiðin vestur og norður styttist verulega. Þrjú stór fyrirtæki hafa sýnt því áhuga að taka að sér að fjármagna og vinna þetta verk. Ég fagna því að hæstv. samgrh. hefur sýnt þessu máli áhuga og vænti þess að þetta mál verði meðhöndlað af stjórnvöldum af velvilja og fyrirhyggju.
    Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur viljað láta kalla sig ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju og ráðherrar hafa farið um það mörgum orðum að þeir vildu styrkja stöðu landsbyggðarinnar. Nokkur rök eru fyrir því að halda í við fjárveitingar í ár meðan verið er að jafna stöðuna vegna óráðsíu síðustu ríkisstjórnar. Jafnréttis- og félagshyggjuviljinn og áhuginn fyrir því að styrkja búsetu á landsbyggðinni verður því að koma í ljós með stórauknu framlagi til vegamála árið 1990, 1991 og 1992 og mikið umfram það sem áætlað er í þeirri vegáætlun sem hér er til umræðu.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.