Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég byrja á því að þakka formanni fjvn. samstarfið í vetur svo og öðrum nefndarmönnum og segir það sitt um hlutina. Þó að menn takist kannski stundum á um einhver mál í nefndinni hafa menn það eins og einherjar í Valhöll forðum að þeir rísa upp kátir að kveldi og ýta ágreiningi til hliðar.
    Ég stend upp fyrst og fremst til að eiga orðastað við hæstv. samgrh. Ég held að í vegamálum stöndum við frammi fyrir ýmsum mjög stórum spurningum og ég er ekki að fara fram á svör í nótt við þeim öllum, en mér þætti vænt um ef ráðherra hefði svör á reiðum höndum á haustdögum.
    Fyrsta spurningin sem ég vil leggja fyrir ráðherra er sú hvort hann telur eðlilegt að Vegagerðin sé A-hluta stofnun eða B-hluta stofnun. Það fer ekki á milli mála að þegar mjög mikið var óunnið í vegagerð í þessu landi og mátti segja að hægt væri að líta á megnið af framkvæmdunum sem félagslegar framkvæmdir og ríkissjóður hygðist leggja tekjustofnum Vegagerðarinnar til sérstaka fjármuni fram yfir það sem hún hafði sem tekjustofna, þá var eðlilegt að hafa hana sem A-hluta stofnun. Mér sýnist aftur á móti sem öll rök í dag mæli með því að breyta henni í B-hluta stofnun og skal nú minnst á nokkur þeirra.
    Það liggur fyrir samkvæmt arðsemisútreikningum að ákvarðanir um að taka ákveðnar stofnbrautir og klára þær mundu skila um 20% arði. Þegar það er orðið gersamlega vonlaust að viðhalda malarvegi vegna umferðar er þetta ekki bara hagnaður Vegagerðarinnar heldur einnig þeirra sem eiga bílana. Og maður spyr: Hvað kostar sú hringavitleysa að moka snjó á vonlausum vegi miðað við hvað tækni vorra tíma býður upp á eftir að búið er að gera veginn akfæran með bundnu slitlagi?
    Ég man eftir þeirri þróun í snjómokstri að fyrst var það jarðýtan, svo komu heflarnir, svo snjóblásarar og núna eru það vörubílar með tönn þar sem vegirnir eru orðnir uppbyggðir. Það er verulegur munur á vörubíl sem ekur með 50--60 km hraða með tönn framan á sér og hreinsar snjó eða jarðýtu sem ferðast með innan við 10 km hraða.
    Ég held einnig að það stærsta sem órætt er í þessu sambandi sé spurningin um verklagið. Það þurfti að fara út í þá dreifingu á framkvæmdum varðandi bundið slitlag til að sameina íslenska þjóð um að það væri rétt að byggja vegi upp úr snjó og hafa þá með bundið slitlag. Ég held að það sé einhugur um það í dag. Hvað kosta framkvæmdirnar miklu meira vegna þess hvernig við stöndum að þeim? Ég hefði talið að þær kostuðu minnst 25% meira en þær þyrftu að kosta ef það verklag yrði upp tekið að standa að framkvæmdunum í mun heillegri og stærri áföngum en nú er gert. Allt þetta kallar í sjálfu sér á ákvörðun um hvort ekki sé rétt að breyta Vegagerðinni í B-hluta stofnun og heimila henni lántökur til stofnbrautanna á fyrsta stigi.
    Það er sagt að í engri atvinnugrein í heiminum muni fjölga meir fram til næstu aldamóta en í

ferðamannaþjónustu og það væri ekkert arðbærara fyrir íslenska þjóð en það ef hærri fjárhæðir af því fé sem Íslendingar verja til ferðalaga færu í ferðalög eftir íslenskum vegum. Ég verð að segja eins og er að ég skil að mörgu leyti það þéttbýlisfólk sem í dag keyrir á bundnu slitlagi og vill ekki fyrir nokkurn mun álpast út í grjóthríðina á íslenskum malarvegum. Það eru ekki litlir fjármunir sem fara í að sprauta bíl eftir slíka útreið að maður tali ekki um ljósin sem meira og minna hrynja á hverju ári nema menn hafi grjótgrind framan á bílnum.
    Ég hefði skorað á hæstv. ráðherra að efna til ráðstefnu í sumar, kalla þar til verkfræðinga, frammámenn í ferðamannaiðnaði og reiknimeistara og láta þá meta hvað það mundi þýða í auknum tekjum fyrir Vegagerðina ef menn gerðu stórt átak í því að hraða framkvæmdum í vegamálum á Íslandi. E.t.v. munu sumir segja sem svo að þetta séu óraunhæfar hugmyndir vegna þess í hvaða stöðu við erum efnahagslega og margt fleira. Ég held aftur á móti að við séum að sóa fé eins og við stöndum að málunum. Það getur verið ágætt á pappírunum að setja fram að við ætlum að fjölga snjómokstursdögum á ákveðnum svæðum. En því aðeins er vit í því að vegirnir séu komnir í visst lágmarksástand. Það er ekki skynsamlegt að standa þannig að þeim málum að við sóum fjármunum til að moka skafla með kannski 3 eða 4 km millibili á vegakerfi sem væri hér um bil snjólaust og opið til umferðar alla daga vikunnar ef snjóastaðirnir yrðu teknir fyrir. Ég segi þetta vegna þess að það er staðreynd að sums staðar kostar snjómoksturinn á einum vetri meira en það mundi kosta að laga veginn yfir sumarið. Í sumum tilfellum sækir það einnig á minn hug hvort ekki væri skynsamlegt að bjóða þennan snjómokstur út og þá horfi ég m.a. á hvort ekki væri hagkvæmt til sveita fyrir mjólkurbúin að bjóða í þennan snjómokstur og setja tönn framan á bílinn sem fer um sveitir.
    Mönnum finnst kannski skrýtin blanda að segja þetta. En það er samt svo að sums staðar er um svo langar vegalengdir að ræða að það öfluga tæki sem þar fer um hentar betur og er hreinn sparnaður að láta það hafa tönnina og vinna þetta verk. Mér er ljóst að þetta fer eftir aðstæðum á hverjum stað.
    Ég minntist lauslega á í umræðu um byggðamál að hæstv. forsrh. hefði undir
höndum skýrslu sem breskir sérfræðingar hefðu unnið þar sem þeir lögðu mat á efnahagslega möguleika þjóða og settu Ísland í eitt af efstu sætunum um möguleika þjóða í Evrópu. Forsrh. svaraði lauslega sumu í mínu máli, en hann minntist ekki á þessa skýrslu. Hann gagnrýndi aftur á móti ekki eða dró ekki í efa að hún væri til. Ef það er rétt sem þeir gera ráð fyrir miða þeir við það að innan tíu ára verði tæknin slík að við flytjum rafmagn á milli landa með hagkvæmum hætti og þá má gera ráð fyrir að Íslendingar fari í stórvirkjanir og selji raforku til útlanda. Mér sýnist margt benda til þess að fram að þessum tíma eigum við að snúa okkur að því að koma vegagerðinni áfram og reka vegina á Íslandi

eins og fyrirtæki, fyrirtæki sem lifir á því að vera til og veita þjónustu.
    Það væri kannski fróðlegt að spyrja: Hvar stæðum við í virkjunarmálum hefðum við aldrei tekið krónu að láni til þeirra? Hvar stæðum við í flugmálum ef ekki hefði verið tekið fé að láni og væri tekið til flugvélakaupa? Erum við sannfærðir um að sú stefna, sem hefur verið fylgt að undanförnu, að reka þetta sem A-hluta stofnun og standa að þessu eins og gert var til forna með kirkjubyggingar, koma því áfram með mjög prúðmannlegum hætti, erum við sannfærðir um að þetta sé það skynsamlegasta verklag sem við getum haft á þessu sviði?
    Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og vil segja það enn einu sinni nú: Ef maður eyðir 100 þúsundum eða 200 þúsundum í sumarfríinu sínu og fer til útlanda, hvað ætli það sé stór upphæð sem fer þá í ríkiskassann? Ætli hún sé ekki harla lítil? En ef maður eyðir 100 eða 200 þúsundum í sumarfríinu sínu í ferðalögum innan lands, hvað ætli fari þá mikið í ríkiskassann og í þessu tilfelli til Vegagerðarinnar að hluta til? Ætli það sé ekki svo að það sé ansi stór hluti sem fer til ríkisins og Vegagerðarinnar? Það hefur hvarflað að mér að það færu hátt í 70%, hvorki meira né minna.
    Ég hygg að jarðgöng eins og Ólafsfjarðarmúli muni draga að sér mikinn ferðamannastraum fyrst þegar þau verða komin upp. Það verða margir bæði að vestan og austan og sunnan sem hafa áhuga á að sjá þetta mannvirki. Ég man eftir því þegar vestur á fjörðum var gert gat í gegnum berggang sem var og er á Súðavíkurhlíðinni. Þá fóru menn af stórum svæðum á Vestfjörðum keyrandi til að skoða þetta merkilega fyrirbrigði. Ég fékk m.a. sem ungur drengur að fara og sjá þetta. Ég er þess vegna sannfærður um að um leið og við förum af stað í þessa jarðgangagerð eða réttara sagt um leið og þau eru orðin að veruleika einhvers staðar á landinu í jafnstórum stíl og verið er að tala um núna og þau verða það fyrst í Ólafsfjarðarmúlanum, þá mun það kalla á verulega umferð ef menn þora út á vegina.
    Ég vænti þess að hæstv. samgrh. taki þessi orð mín ekki sem einhverja gagnrýni á hans störf. Hann er nýsestur í það embætti sem hann er í nú. En ég vænti þess að hann gefi sér tíma til að hugleiða þetta út frá nýjum sjónarhornum. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það mikil hógværð hjá stjórnarandstöðunni þegar hún talar um að snúa sér að þjóðbrautunum eftir að við erum búnir með stofnbrautirnar. Hvaða tímalengd eru menn að tala um? Er verið að tala um 15 ár? Ætlum við þá að fara að snúa okkur að þjóðbrautunum? Og hvaða þjóðbrautum? Gengur það yfir höfuð upp að standa þannig að þessu? ( PJ: Hvaða rugl er þetta?) Ég heyri sagt úr hliðarsal: Hvaða rugl er þetta? Mér finnst eiginlega að það sé yfirlýsing um að hv. 2. þm. Norðurl. v. vill að við verðum búnir með stofnbrautirnar mun fyrr. En horfi ég til svæða eins og Vestfjarða og þeirra vegalengda sem við þurfum að byggja þar upp eða Austfjarða ( AS: Það eru fleiri á Vesturlandi.) og hér er minnst

á Vesturland einnig, þá sýnist mér að það tefjist fyrir að koma stofnbrautunum í eðlilegt horf.
    Ég vil aftur á móti ekki láta hjá líða að taka undir það í málflutningi hv. 7. þm. Norðurl. e. að horfa á samgöngurnar sem eina heild og það er alveg greinilegt að þeim mun betra sem vegakerfið verður, þeim mun lengri vegalengdir eru það sem menn kjósa heldur að fara akandi en með flugvélum þannig að það þarf að horfa á þessa hluti í samhengi. Hins vegar verð ég að segja að þar sem var minnst á mjög fróðlega skýrslu um olíu og olíuþurrð sem e.t.v. gæti orðið mega menn alls ekki undir nokkrum kringumstæðum láta sér detta í hug að tækni okkar tíma stöðvi að menn hafi orku á þau farartæki sem þeir ætla að nota í framtíðinni. Möguleikarnir á því að velja úr orkugjöfum eru slíkir á okkar dögum að bíllinn mun halda velli þó að orkugjafinn sem hann notar e.t.v. breytist.
    Ég hallast að því að sú mikla bið sem mundi fylgja því að hafa sama verklag og verið hefur í uppbyggingu veganna muni leiða til þess að byggðaröskun í landinu verði orðin svo mikil að sumir telji óþarfa að fara í vegalögn á vissum svæðum á eftir. En ég held að það sé eitt af því sem bindur menn við þetta land og gerir þá víðsýnni sem Íslendinga á hagi hvers annars að þeir ferðist um þetta land og ég held að það sé eitt af þeim markmiðum sem við eigum að stefna að og ég er sannfærður um að ef hraðað verður uppbyggingu vegakerfisins, sem ekki verður gert nema með lántökum, mun það skila
Vegagerðinni mun hærri tekjum en menn eru að tala um í þeim áætlunum sem fram hafa verið settar og eru rökréttar miðað við það verklag sem við höfum haft.