Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Örfá orð. Hér hafa talað þrír af fjórum fulltrúum minni hl. í fjvn. Tveir af þessum þremur hafa ekki fundið hjá sér neina hvöt til að halda slíkar ræður eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur gert í tvígang. Þvert á móti hefur annar af þessum tveimur fundið hjá sér sérstaka þörf til að taka það fram, bæði með undirskrift sinni á nál. minni hl. og í ræðustól, að hann sé ekki sammála þeirri lýsingu, þeirri gagnrýni sem hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur haft á vinnubrögð í fjvn. Hinn fulltrúi minni hl. sem hér talaði minntist ekki á þessi mál einu aukateknu orði.
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. vitnaði í orð hv. þm. Geirs Gunnarssonar frá árinu 1977 og gerði þau að sínum um vinnubrögð í fjvn. nú. Það voru tvö atriði sem hv. þm. Geir Gunnarsson gagnrýndi sem hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði að gagnrýnisatriðum hjá sér. Annað var það að meiri hl. fjvn. hefði aleinn og án þess að hafa nokkurt samráð um það við minni hl. eða gefið honum tækifæri til þess að hafa neitt um það að segja ákveðið skiptingu á einstaka verkefnaflokka annars vegar og kjördæmi hins vegar og ég sýndi fram á það áðan að það eru ósannindi hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að ætla að gera þessa lýsingu hv. þm. Geirs Gunnarssonar að sinni lýsingu á vinnubrögðum fjvn. nú. Þetta eru ósannindi. Fram hjá því kemst hv. þm. ekki vegna þess að gögnin vitna á móti honum, þau gögn sem hann sjálfur hefur veitt viðtöku.
    Í annan stað er það ekki heldur rétt að ákvarðanir um þetta, skiptingu á milli kjördæma o.s.frv., hafi ekki verið teknar fyrr en í einu slengi, eins og hann sagði, sem er ekki upprunalega frá mér komið heldur frá öðrum þingmanni sem stóð honum eitt sinn nær en ég. Það er ósatt að þessar ákvarðanir hafi ekki verið teknar fyrr en 17. og 18. þ.m. Þessar ákvarðanir voru teknar þegar fjvn. ákvað að senda til kjördæmahópanna til úrvinnslu þær tillögur sem þá lágu fyrir fjvn. því að þá spurði ég um hvort það væru einhverjar athugasemdir við skiptitölurnar á milli kjördæmanna áður en menn samþykktu að senda málin inn í kjördæmahópana. Það gefur auga leið því ef ekki hefði verið búið að fallast á skiptinguna á milli kjördæmanna, hvernig í ósköpunum hefðu menn þá fallist á að senda úrvinnsluna inn í kjördæmahópana eftir þessari skiptingu? Það mál var ekki afgreitt 17. og 18. þ.m. Það mál var afgreitt þegar vegáætlunin var send til áframhaldandi meðferðar kjördæmahópanna því að kjördæmahópunum var send bæði skiptingin milli þjóðbrauta og stofnbrauta og skiptingin á milli kjördæma. Þarna er enn ein rangfærslan frá hv. þm. Það sem var hins vegar ákveðið og afgreitt á fundunum 17. og 18. þessa mánaðar var tvennt. Á fyrri fundinum var ákveðin skiptingin á 50 milljónunum sem komu á síðasta stigi afgreiðslunnar á tillögum meiri hl. og sú skipting var ákveðin ekki að tillögu meiri hl. heldur að tillögu Vegagerðar ríkisins sem kynnt var jafnsnemma fyrir meiri og minni hluta. Annars vegar var sú ákvörðun tekin á

fyrri fundinum um þessar 50 millj. og hins vegar sú ákvörðun að senda þessar 50 millj. kjördæmahópunum eftir þeim skiptireglum sem menn höfðu þá samþykkt og byggðar voru á sömu skiptireglum og áður höfðu verið samþykktar þann 6. maí og óskað eftir því við kjördæmahópana að þeir tækju sjálfir afstöðu til þess hvernig þeir vildu skipta þessum 50 millj. eða sínum hluta af þeim milli stofnbrauta og þjóðbrauta. Það var þessi ákvörðun sem tekin var á fyrri fundinum hinn 17. maí. Á seinni fundinum var um leið og kynntar voru tillögur kjördæmahópanna eins og þær komu í lokin tekin endanleg afstaða af hálfu fjvn. til samþykktar á tillögunum eins og þær komu frá kjördæmahópunum og formlega þá um leið afgreidd þáltill. öll eða breytingartillögurnar allar. Svona gekk þetta nú fyrir sig, virðulegi forseti.
    Ég ætla ekki að munnhöggvast frekar við hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég vildi aðeins upplýsa þetta til viðbótar við það sem fram kom áðan. En það sem er mest til merkis um hvort hans gagnrýni er réttmæt á störf fjvn. eða ekki er að enginn annar fulltrúi minni hl. sem hér hefur talað hefur séð ástæðu til að víkja hálfu orði að þeim málum og annar af tveimur hefur fundið hjá sér sérstaka hvöt til að skera sig frá þessari gagnrýni, bæði héðan úr ræðustól og með því að rita undir nál. með fyrirvara.