Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Vel má það vera að hv. formaður fjvn. hafi talið sig vera búinn að taka ákvörðun eða hafi talið að það væri búið að taka ákvörðun um skiptitölu á milli kjördæma. Það var ekki gert og var ekki á það minnst og ég fann að því sterklega á fundi nefndarinnar um önnur mál að það skyldi ekki hafa verið gert og ekki gengið frá einum einasta lið þessarar ályktunartillögu áður en farið væri í skiptingar. Það getur vel verið að í hugarheimi hv. formanns hafi hann haldið að það væri búið að ganga frá málum, en það er ekki það sama og að gera það á fundi með formlegum hætti eða a.m.k. tala um það, enda þótt það sé vissulega sannleiksbroddur í því að eftir að tilteknar skiptitölur eru komnar til kjördæmahópa verður þeim trauðla breytt. Það er svo önnur saga. En afgreiðsla og ákvörðun hafði ekki verið tekin. Hún varð bara til af sjálfu sér. Það er ekki vinnulag sem ég vil telja að sé viðunandi. Mál eiga ekki að verða til af sjálfu sér í fjvn. Það á að taka þar ákvarðanir en ekki bara það verði til af sjálfu sér í hugarheimi formannsins að ákvörðun hafi verið tekin. Það gengur ekki.
    En ég ætla ekki að lengja þetta, enda hef ég aðeins leyfi til að gera stutta athugasemd. Ég ætla ekkert að segja um meðnefndarmenn mína í minni hl., en við stöndum að því áliti sem við skrifuðum þó svo hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson skrifaði undir það með fyrirvara. Ég ætla síðan ekki að hafa fleiri orð um þetta efni. Ég vil vænta þess, vegna þess að ég þykist hafa reynslu í þessari nefnd og þykist skynja það og vita það, ég hef bæði verið þar í meiri hl. og minni hl., að það sé nauðsynlegt að hafa hrein skipti á málum og hreinar ákvarðanir og eðlileg vinnubrögð, að það háttalag, sem ég kalla svo, sem notað var að þessu sinni þar sem meiri hl. nefndarinnar og kannski formaðurinn einn hélt málum hjá sér að heita mátti í mánuð verði ekki haft til fordæmis fyrir störf nefndarinnar á komandi árum.