Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Frv. það sem hér um ræðir er komið til þessarar deildar til einnar umræðu. Í Nd. voru gerðar á því nokkrar breytingar sem allar mega teljast til ívilnunar.
    Það er í fyrsta lagi að fleiri vörutegundir bætist við í 4. gr. frv., þ.e. undanþegnar vörugjaldi.
    Í öðru lagi, varðandi þá breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem gert var ráð fyrir í þessu frv., komi ný málsgr. við 81. gr. laganna nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem orðist svo: Á sama hátt skal við álagningu eignarskatts skipta eignarskattsstofni eftirlifandi maka sem situr í óskiptu búi og reikna eignarskatt hans eins og hjá hjónum væri næstu fimm ár eftir lát maka.
    Þriðja efnisbreytingin er: Við gildistöku laga þessara er fjmrh. heimilt að fella niður vörugjald og jöfnunargjald á aðföngum til fiskeldis og loðdýraræktar.
    Í nefndinni var samstaða um að mæla með þessum breytingum en einstakir nefndarmenn, tveir, hafa fyrirvara um frv. í heild.