Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera málefni hlutabréfasjóðs að umræðuefni í ræðu minni og hefði kannski verið eðlilegra að gefa hæstv. forsrh. tækifæri til að svara þessum spurningum strax. Mig langaði aðeins að staldra við þá breytingu sem hefur orðið á þessu frv. í Nd., en það varðar nýja grein sem fjallar um tekju- og eignarskatt og fjallar fyrst og fremst um álagningu eignarskatts. Þar er fjallað um að eftirlifandi maki sem situr í óskiptu búi skuli greiða eignarskatta eins og um hjón væri að ræða næstu fimm ár eftir lát maka.
    Út af fyrir sig hlýt ég að fagna þeirri breytingu sem hefur verið gerð á frv. þannig að það er tekið tillit til þess réttlætismáls sem við vöktum sérstaka athygli á þegar við áttum í viðræðum við stjórnarflokkana í janúar sl. Þá var það einmitt ein af þeim kröfum sem við settum fram að það yrði að taka tillit til eftirlifandi maka með þeim hætti sem hér er verið að leggja til. Hins vegar lögðum við á það mikla áherslu að eignarskattsaukinn illræmdi sem var lagður á um sl. áramót yrði að fara í burtu því að eignarskattur með þeim hætti sem nú er lagður á er kominn út fyrir öll velsæmismörk í þessu þjóðfélagi. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að það stendur þarna að þetta skuli gilda næstu fimm ár eftir lát maka. Það virðist benda til þess að þessi illræmdi eignarskattsauki sé kominn til með að vera. Af þessu hef ég miklar áhyggjur því ég var satt að segja nokkuð öruggur um að þetta væru mistök sem yrðu leiðrétt um næstu áramót, en nú virðist allt benda til þess að þessi gífurlega hái eignarskattur, þ.e. eignarskattsaukinn, eigi að festast í sessi. Af þessu hef ég miklar áhyggjur.