Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Hér var spurt um afstöðu Fiskveiðasjóðs til hlutafjársjóðs. Þetta mál hefur verið rætt mikið í stjórn Fiskveiðasjóðs á undanförnum vikum. Sl. þriðjudag var það samþykkt af stjórn Fiskveiðasjóðs að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja í gegnum hlutafjársjóð. Fiskveiðasjóður hefur hafið vinnu við að fara í gegnum reikninga þessara fyrirtækja og mun afgreiða þar hvert fyrirtæki fyrir sig. Hins vegar hefur það komið fram í stjórninni að hún vill gjarnan fá meiri heildarmynd á málið áður en málið verður endanlega afgreitt þar.
    Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að næsti reglulegur fundur stjórnar Fiskveiðasjóðs er 6. júní. Hins vegar er ekkert sem kemur í veg fyrir að stjórnin sé kölluð fyrr til fundar og ég vænti þess að svo geti orðið. En aðalatriðið er að Fiskveiðasjóður hefur ákveðið að taka þátt í þessari fjárhagslegu endurskipulagningu. Þar mun sjóðurinn þurfa að gæta sinna fjárhagslegu hagsmuna og í mörgum tilvikum liggur ljóst fyrir að það þjónar betur hagsmunum sjóðsins að kaupa skírteini í hlutafjársjóð en að horfa upp á það að viðkomandi eignir séu seldar á nauðungaruppboði.
    Ég hygg að það hafi verið þetta sem hv. þm. var að spyrja um, en nánari upplýsingar um málefni Fiskveiðasjóðs að því er þetta varðar get ég ekki gefið að svo stöddu.