Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Aðeins nokkur orð og fyrst og fremst í sambandi við það sem hv. 14. þm. Reykv. fullyrti að ég hefði sagt um hina vondu stefnu framsóknar.
    Við áttum orðaskipti, ég og hv. þm. Stefán Guðmundsson, og ég var aðeins að svara innskoti hans þegar ég sló því fram að staðan hefði fyrst og fremst versnað frá því að Framsfl. settist í sæti sjútvrh. En fyrst keyrir um þverbak þegar Sjálfstfl. og Framsfl. fara að stjórna saman og fyrst fer flotinn að stækka, sem hv. 14. þm. Reykv. gerði mikið úr, þegar samstarfið verður, ef maður mætti orða það þannig, algert, forustumenn í útvegssamtökum landsmanna verða samherjar ríkisstjórnar og samherjar sjávarútvegsstefnu hvort sem það eru forustumenn sjávarútvegsfyrirtækja Sambandsins, Sölumiðstöðvarinnar eða þá LÍÚ. Ég hef ekki heyrt mikla gagnrýni frá þessum aðilum á þá stefnu sem við höfum búið við á undanförnum árum, sjávarútvegsstefnuna. Ég ætla ekki að verja Framsfl. sérstaklega, en það er alveg fráleitt að tala um að Framsfl. hafi sérstök áhrif á þessi fyrirtæki nema þá ef vera skyldi sjávarafurðadeild Sambandsins.
    Stækkun togaraflotans og breyting togaraflotans hefur fyrst og fremst átt sér stað á síðustu þremur til fjórum árum undir hinni nýju fiskveiðistefnu sem rekin er bæði á þann veg að hún hefur mjög góðan stuðning í fjölmiðlum og mjög öflugan bakstuðning hjá þeim stofnunum sem ég var að nefna áðan. Þessi stefna hefur leitt til þess sem hér er verið að nefna, stækkun togaraflotans úr 80 skipum í 116, byggingu 20 frystitogara og ekki nóg með að þessi breyting hafi orðið á sjálfum togaraflotanum heldur er stór hluti bátaflotans orðinn að eins öflugum togurum og minni togararnir voru í kringum 1980 og jafnvel öflugri en þeir margir hverjir. Þarna hefur átt sér stað svo aukin sóknargeta í togaraflotanum á togveiðum að fiskistofnarnir þola það ekki eða þorskstofninn að öllum þessum fiskiflota sé beitt á fiskimiðunum. Þetta er stefna Sjálfstfl. og Framsfl. Það er ekki rétt að taka annan flokkinn út undan og segja að hinn sé saklaus á þessu sviði.
    Við blasir svo það, sem þeir hafa verið að segja hér hv. 14. þm. Reykv. og 2. þm. Norðurl. e., að meginhluti sjávarútvegsfyrirtækja er á hausnum. Ástandið í Fiskveiðasjóði er þannig að það er ekki um neitt að velja eins og hæstv. sjútvrh. sagði. Það er um það að spyrja hvort það á að tapast með gjaldþroti eða hvort Fiskveiðasjóður á að gefa það eftir eða kaupa ný bréf í hlutabréfasjóði. Þetta er tapað. Stjórnarstefnan, fiskveiðistefna framsóknar og Sjálfstfl. er búin að leika íslenskan sjávarútveg á þennan hátt. ( HBl: Það er einn og einn útgerðarmaður fyrir vestan sem stendur upp úr.) Alveg rétt, það er einn og einn útgerðarmaður fyrir vestan sem stendur upp úr. Af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að þeir voru ekki alveg tilbúnir að dansa eftir þessari pólitísku stefnu, þeir sem hafa greitt stundum Sjálfstfl. atkvæði og hafa gert það allt of oft brutu sig út úr stefnunni og ráku sín fyrirtæki öðruvísi en almennt er rekið og

hlutirnir hafa verið reknir eftir stjórnarstefnunni.
    Við t.d. á Snæfellsnesi og vestur á fjörðum víða sem betur fer, það er ekki alls staðar, erum ekki endilega að tala um þá óskaplegu nauðsyn að byggja upp eitt stórt atvinnufyrirtæki í hverri byggð annaðhvort undir stjórn SH eða framsóknar. Við höfum byggt upp mörg fiskvinnslufyrirtæki og við höfum ekki endilega verið að stefna að því að fá einhverja stórtogara til að afla í fiskvinnslufyrirtækin okkar. Ég held ég geti sagt það með nokkru stolti í þessum ræðustól að í minni heimabyggð þurftu þeir sem sóttu til Atvinnutryggingarsjóðs ekki endilega að gera það en til að styrkja stöðu sína svolítið gerðu það held ég eitt eða tvö fyrirtæki. (Gripið fram í.) Fyrirtækin hafa komist yfir erfiðleika rekstursáranna síðustu vegna þess að þau ráku ekki fyrirtækin eftir framsóknar- og íhaldsstefnunni. Stefnan var eins og hv. þm. sagði: Sameina, sameina! alveg burtséð frá því hvaða tilgangi það átti að þjóna. Alveg eins og núna er sagt: Minnkið þið, minnkið þið flotann! alveg burtséð frá því hvaða tilgangi það á að þjóna. Það er ekki leitað að ástæðunum, af hverju er flotinn of stór og það er ekki heldur leitað að ástæðunum í dag, af hverju gengur svo illa hjá fiskvinnslufyrirtækjunum. Ástæðan er stefna framsóknar og íhalds í efnahags- og fiskveiðimálum og það, fyrst og fremst í sambandi við fiskvinnslumálin, að við stöndum núna frammi fyrir því að í ár og á næstu árum getum við ekki sótt í aðalstofninn okkar, þorskinn, meira en 300 þús. tonna afla. Vitaskuld er flotinn okkar allt of stór til að sækja það aflamagn á miðin okkar, en leiðin sem við eigum að grípa til núna er ekki sú að minnka flotann heldur að byggja stofninn upp í það að hann geti skilað okkur árlega eins og hann hefur gert á undanförnum árum 400--450 þús. tonna afla. ( GHG: 600 þús. þorskfiskafla.) Meðaltalsþorskafli á Íslandsmiðum á árunum 1950--1960 ( GHG: Já, þorskurinn. Það var þorskur.) Já, þorskurinn. Hvað var hann, hv. þm.? Hann var 460 þús. tonn, meðaltalsafli þessa áratugar. ( HBl: Þá var líka viðreisn.) Ekki 1950--1960. Það voru alls konar stjórnir þá. Þær voru sumar skrýtnar. Má ég segja ráðherra hver meðaltalsafli var 1960--1970? ( GHG: Já.) Hann var um 400 þús. tonn. ( GHG: Þá
var viðreisnarstjórn.) Já, þá var viðreisn og fór illa með og gerði togaraflotann nærri því alveg magnlausan, sem betur fer má segja það ef maður fer að hugsa um þorskinn. En samt sóttum við þá um 400 þús. tonn á ári. ( KP: Það er bara eldhúsdagur hér eða hvað.) Það var ekki svo vont ástandið á síðustu árum, frá 1970 og fram yfir 1986. Þið voruð með 360 tonna meðalafla, en núna er það beint niður og niður fyrir 300 þús. tonn og þá er lausnin sú: Sameinið þið fyrirtækin, minnkið þið fiskiskipaflotann og helst, eins og núna er, fleiri og fleiri frystitogara. Vinnið þið aflann úti á hafi. ( Gripið fram í: Leggið niður byggðarlögin.) Já leggið niður byggðarlögin. ( Gripið fram í: Já.) ( GHG: Þetta er stefnan.) Já, þetta hefur verið stefna Sjálfstfl. og Framsfl. og þetta er sú stefna sem enn er haldið fram. Og það er haldið uppi svo

ótrúlegum áróðri bak við þessa stefnu og þögnin yfir því hvað misfarist hefur er svo algjör og samstaðan svo pottþétt að það má alls ekki heyrast að þarna hafi neitt mistekist. Hafið þið heyrt hv. þm. Halldór Blöndal eða Guðmund H. Garðarsson tala um hvernig þróunin hefur verið í sambandi við stærð þorskstofnsins? Nei, nei, nei. Nú heyrum við bara fréttir af því: Mjög aukinn afli á Íslandsmiðum til þessa. Mikið betri vertíð en í fyrra. Fjölmiðlarnir halda þessu fram og ræða mjög um þetta. Nota bene: Vertíðin í fyrra er einhver lélegasta vertíð sem yfir Ísland hefur gengið. Viðmiðunin er góð fyrir stefnu sjútvrh. og stefnu Sjálfstfl. og Framsfl. Miðað við aumasta aflaár Íslandssögunnar er aflinn í ár sæmilegur. Og vegna þess að stór hluti þeirra sem við sjávarútveg vinna og fjölmiðlamenn er hættur að kannast við eðlilegan vertíðarfisk sem veiddur var á miðum sunnan lands fyrr á árum eða á árunum 1950--1960 og 1960--1970 eru núna birtar stórmyndir í blöðum ef einn og einn stórþorsk ber að landi. Það er hlaupið með kvarnirnar úr honum inn á Hafrannsóknastofnun til að kanna þennan fisk sem stórmerkilega uppákomu. Ja, það er uppbyggileg umræða sem haldið er uppi í fjölmiðlum og af sumum forustumönnum íslensks sjávarútvegs í þeim hrunadansi sem haldinn er með þeirri efnahagsstefnu og með þeirri sjávarútvegsstefnu sem Framsfl. og Sjálfstfl. hafa staðið fyrir og standa fyrir enn.