Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Stefán Guðmundsson:
    Herra forseti. Það er búin að vera býsna fróðleg umræða sem hér hefur komið upp og ég tek undir það með þeim sem orð hafa haft á að það er býsna táknrænt að þessi umræða skuli koma upp núna í dag rétt um það leyti þegar við erum að hverfa til okkar heima. Vissulega hefði verið ástæða til að ræða þetta meira í allan vetur og hafa það hreinskiptari umræður. Ég skal ekki lengja þessa umræðu vegna þess að ég veit að menn hafa gert ákveðið samkomulag og við það verður reynt að standa.
    Menn hafa vikið mjög að Framsfl. og viljað kenna honum um það sem miður hefur farið í sjávarútvegsmálum. Mér finnst það mikil einföldun á málum að það sé aðeins við Framsfl. að sakast og Framsfl. hafi lítið gert. Grundvöllur fyrir því að við drögum fisk úr þessu hafi held ég að sé fyrst og fremst að okkur hefur borið gæfa til þess að færa út fiskveiðilandhelgi Íslands í nokkrum miklum áföngum. Ef ég man rétt held ég að fiskveiðilandhelgi Íslands hafi aldrei verið færð út nema Framsfl. hafi setið í ríkisstjórn. Ég held að það sé grundvallaratriðið að okkur hefur borið gæfa til þess að vinna rétt á hafinu. (Gripið fram í.) Já, ef menn telja það að hér sé farið rangt með mál er ástæða til þess, en ég fer með rétt mál.
    Menn hafa einnig talað um endurnýjun togaraflotans sem eitthvert vandamál. Ég vil segja það og hvika ekki frá því er ég greip inn í áðan hjá hv. ræðumanni Guðmundi H. Garðarssyni að endurnýjun togaraflotans hefst 1970. Þá hefst endurnýjun togaraflotans sem betur fer. Ég verð að segja að ég harma þau ummæli sem hér hafa fallið og þá miklu einföldun sem menn hafa hér haft á orði og ég er agndofa og undrandi að hlusta á ræðumenn eins og Guðmund H. Garðarsson og Skúla Alexandersson sem eiga að gjörþekkja sjávarútvegsmál. Er það virkilega maklegt að skella allri skuld á útvegsmenn og þá sem í fiskvinnslu starfa á Íslandi, að þeir hafi búið til það vandamál sem við sé að fást í sjávarútvegi í dag. ( SkA: Að stórum hluta.) Útvegsmenn og fiskvinnslumenn? ( SkA: Forustusta þeirra.) Forusta þeirra. Ég mótmæli þessu harðlega. ( KP: Er þá átt við sjómenn líka?) Já, auðvitað er átt við sjómenn líka og ég mótmæli því mjög. Við skulum athuga það og hefðum átt að fjalla um það betur og fyrr hvert var útlitið, hverjar voru horfurnar og hver var sú sýn sem menn sáu þegar togaraflotinn var byggður upp og hraðfrystiiðnaðurinn. Hver var hún? En þegar menn voru búnir að byggja sig upp sáu menn fram á að menn gátu ekki sótt það magn í hafið sem reiknað hafði verið með þegar menn fóru út í þessar fjárfestingar. En það er enginn vandi að vera vitur eftir á. ( GHG: Ég skal skýra þetta allt saman.) En þetta vildi ég taka fram. Mér finnst það ómaklegt að vega að útvegsmönnum og þeim sem í fiskvinnslu standa og reyna að telja fólki trú um að þeir hafi búið til þann vanda sem við er að fást í sjávarútvegi á Íslandi.