Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Herra forseti. Þetta er bráðnauðsynleg umræða vegna þess að hún skýrir málin og það er mjög gott þegar hv. þm. eins og Stefán Guðmundsson koma upp og rifja upp fortíðina vegna þess að það gefur okkur tækifæri til að minna á góðverk annarra.
    Svo að ég víki fyrst að fiskveiðilandhelginni og þeim málum öllum út af fyrir sig er það hinn herfilegasti misskilningur að þar sé Framsfl. sérstaklega um að kenna. ( StG: Það sagði ég ekki.) Ég vildi segja að það væri góðum mönnum úr flestöllum flokkum að þakka hve vel hefur til tekist í þessum efnum. Ég sé að hv. þm. Stefán Guðmundsson samþykkir það. En ég vek alveg sérstaklega athygli á því að það verk að útfæra íslenska fiskveiðilögsögu hófst í tíð ríkisstjórnar Ólafs Thors þegar hann var í forustu rétt eftir stríð. Þegar sú ríkisstjórn, nýsköpunarstjórnin, var sett á laggirnar var það eitt af stefnumarkmiðum þeirrar ríkisstjórnar að það skyldi unnið sérstaklega að því að undirbúa frá lagalegu sjónarmiði að afmarka fiskveiðilögsögu Íslands. ( StG: Hve margar fermílur?) Það verk var unnið þannig, ég kann ekki nákvæmlega stefnuskrána ... ( StG: 756 þús. fermílur er hún nú.) Virðulegi forseti. Ég verð að fá að ræða um hvernig þetta hófst því það er mikið atriði að gera sér grein fyrir hvert var upphaf þeirrar niðurstöðu sem við stöndum frammi fyrir.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Thors, nýsköpunarstjórnarinnar, var eitt aðalatriðið undirbúningur að því að kanna og vinna hina lagalegu hlið í sambandi við væntanlega útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu. Til þess verks var m.a. ráðinn sérstaklega mjög hæfur maður, Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur, sem allir þekkja af góðum verkum. Þar kom hann til starfa í íslenska utanrrn. ef ég man rétt og vann alla tíð síðan að útfærslu þessara mála. Þetta er staðreynd. Fyrsta skrefið í þessa átt var útfærslan 1952. Ég ætlaði ekki að fara að þakka Sjálfstfl. það sérstaklega. Ég tók það sérstaklega fram að góðir menn úr öllum flokkum hafi átt hér hlut að máli.
    En varðandi stækkun flotans og stöðu útgerðar og fiskvinnslu vil ég minna á það og ég vil leiðrétta það sem kom rangt fram í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar áðan. Hann vék þar að forustumönnum samtaka sjávarútvegs og fiskiðnaðar og sagði að þeir hefðu átt frumkvæði að því að fjölga í fiskveiðiflotanum. Ég minnist þess að á aðalfundi LÍÚ í nóvember 1982 varaði formaður LÍÚ, Kristján Ragnarsson, sérstaklega við því að flotinn yrði stækkaður. Ég sé að hv. þm. Stefán Guðmundsson kannast við þetta. Það var ekki hlustað á hans orð. Og hvers vegna var ekki hlustað á hans orð? Vegna þess að íslenskir stjórnmálamenn --- og ég geri ráð fyrir því að það sé hægt að finna þá í öllum flokkum en með mismunandi miklum áherslum --- tóku þátt í því að fjölga í flotanum. Ég verð að segja að því miður fyrir Framsfl. hafði Framsfl. öðrum flokkum betur tækifæri til að hindra að þessi mikla aukning yrði í togaraflotanum sérstaklega vegna þess að Framsfl. fór

með sjávarútvegsmálin og ráðherrar í sjávarútvegsmálum hafa verið á undanförnum árum hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og hæstv. núv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson. Ég er vanur því ef mér er falið eitthvert verk í samstarfi við aðra að bera ábyrgð á því verksviði sem mér er falið. Ég kenni ekki öðrum mönnum um það sem illa fer á þeim vettvangi sem ég ber ábyrgð á. Það verður að segjast eins og er að hæstv. sjútvrh. verður að þola að hlusta á að þetta skrifast á hans reikning.
    Þá kem ég að því: Hvernig stóð á því að flotinn jókst svona mikið? Það er m.a. vegna þess að á árunum 1979--1986 var gífurleg eftirspurn eftir fiski bæði í Bandaríkjunum og á öðrum mörkuðum og þá vildu allir komast að gullnámunni. Þá vildu allir komast að til að fá fisk til að selja hann á háu verði. En þar gerðu framsóknarmenn því miður eina grundvallarskyssu sem þeir og við öll erum að súpa seyðið af. Í stað þess að nota aðferðina sem hv. þm. Skúli Alexandersson lýsti svo vel áðan og menn notuðu áður fyrr, að láta eðlilega endurnýjun eiga sér stað í sjávarútvegi og fiskvinnslu, ( StG: Er það eins og hjá Gröndal?) að láta eðlilega endurnýjun eiga sér stað, endurnýjun sem byggðist á því að það væri verið að efla þau fyrirtæki sem fyrir voru á grundvelli þeirrar fagþekkingar sem var í fyrirtækjunum, bæði hjá útgerðarmönnum og sjómönnum, var gripið til þess ráðs að fjölga skipunum með skrifborðsaðferðinni suður í Reykjavík vegna þess að það passaði vel inn í það ,,apparat`` sem samvinnuhreyfingin var að byggja upp í samvinnu við aðra um hráefnið, um fiskinn. ( SkA: Helmingaskiptareglan?) Nei, það var ekki einu sinni helmingaskiptareglan, hv. þm. Þó að Sjálfstfl. væri í ríkisstjórn, sem var nú ekki, því að það var ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens sem þá var við völd og réði mestu um þessa þróun, því miður ... ( SkA: Var ekki Sjálfstfl. þar?) Flokksráð Sjálfstfl. tók afstöðu um að taka ekki þátt í myndun þeirrar ríkisstjórnar þannig að sú ríkisstjórn er ekki á ábyrgð Sjálfstfl. Það var á þessum árum þegar hæstv. forsrh. var sjútvrh. sem það slys gerðist að togurunum fjölgaði, ekki um einn eða tvo heldur um tugi, og stærsti hlutinn af þessari endurnýjun fór til fyrirtækja sem voru á vegum samvinnuhreyfingarinnar. Þess vegna er svo komið sem komið er fyrir íslenskri
samvinnuhreyfingu. Þetta er stærsti hlutinn af vandamálum samvinnuhreyfingarinnar, sú mikla fjárfesting sem var í útgerð og fiskvinnslu hjá samvinnuhreyfingunni víðs vegar um landið frá 1982--1983 til dagsins í dag. Þetta er staðreynd, hv. þm. ( StG: Þetta er rangt.) Það er ekki rangt. Ef þinginu væri ekki að ljúka hefði ég óskað eftir því að hæstv. forsrh. birti lista yfir þau fyrirtæki sem eru í mestum vanda og ég þori að leggja þar undir að þau einkafyrirtæki sem þar eru á listanum annars vegar og samvinnufyrirtækin hins vegar standa ekki eins illa og samvinnufyrirtækin vegna þess að nýfjárfestingin var meiri hjá samvinnuhreyfingunni á þessum árum. Þetta er staðreynd og ég veit að hæstv. sjútvrh. mundi ekki treysta sér til að standa upp á eftir og hrekja þetta.

( StG: Ég verð að fá að gera það.) Þú getur það ekki vegna þess að þú hefur ekki þau gögn undir höndum sem þú þyrftir. Það er fullyrðing á móti fullyrðingu sem síðar verður sönnuð eða afsönnuð.
    Við skulum rekja hlutina eins og þeir eru. Það var bardaginn annars vegar á milli samvinnuhreyfingarinnar og þeirra fyrirtækja sem voru fyrir, m.a. fyrirtækis hv. þm. Skúla Alexanderssonar, um hráefnið sem réði mestu um neikvæða þróun í fjárfestingu í fiskvinnslu og útgerð á þessum árum. Ég segi: Því miður. Þar urðu undir þau sjónarmið, sem hv. þm. Skúli Alexandersson lagði réttilega áherslu á, að þarna ætti sér stað eðlileg endurnýjun bæði í fiskiskipum og í uppbyggingu fiskvinnslufyrirtækjanna á grundvelli reynslu og þekkingar og getu. (Gripið fram í.) Ég er ekki með fyrir framan mig skýrslu Byggðastofnunar. Ef einhver hv. þm. er með þá skýrslu get ég lesið fyrir hv. þm. Stefán Guðmundsson listann yfir veitt lán hjá Byggðastofnun frá 1988 þar sem segir í sambandi við lán til einstakra fyrirtækja allt í kringum landið: ,,Lán vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar.`` Hvað þýða þessi orð?
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að lána mér skýrsluna. Ég ætla ekki að lesa upp einstök fyrirtæki. Ég sé að hæstv. ráðherra er kjarkmaður og hann veit að ég ætla ekki að nota tíma minn í að lesa upp nöfn einstakra fyrirtækja. En ef hv. þm. lesa listann yfir lánveitingar Byggðastofnunar 1988 munu þeir taka eftir því að mjög víða er talað um lán vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar. Ef litið er yfir listann taka menn eftir því að hæstu upphæðirnr eru sérstaklega til hraðfrystihúsa allt í kringum landið. Ef menn þekkja eitthvað til fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskiðnaði sjá menn um leið og þeir líta yfir listann að þessar háu upphæðir, það eru tugir milljóna í mörgum tilvikum, eru hjá þeim fyrirtækjum sérstaklega sem hafa fjárfest á síðustu árum í nýjum skipum.
    Ég sagði áðan að þau væru hlutfallslega fleiri á listanum en einkafyrirtækin og ég þakka ráðherranum fyrir að staðfesta það. Þetta staðfestir það sem ég sagði. Hann gerir sér grein fyrir því að ég ætla ekki að lesa upp fyrirtækin. Mér finnst það ekki viðeigandi.
    Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en vildi láta þetta koma fram vegna þess að það staðfestir að við erum illa stödd vegna þess að það hefur ekki verið haldið rétt á þessum málum. En ég ítreka að það er ekki hægt að segja að forustumenn samtaka útgerðar og fiskvinnslu beri ábyrgð á því hvernig komið er. Þeir gera það að hluta, en alls ekki alltaf.