Hlutafélög
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um hlutafélög sem er nú raunar gamalkunnugt mál á hinu háa Alþingi vegna þess að það hefur verið til meðferðar á ekki færri en þremur ef ekki fjórum þingum.
    Þetta mál hefur hlotið mjög ítarlega umfjöllun í fjh.- og viðskn. Nd. Þar voru gerðar á því nokkrar breytingar sem að vísu varða ekki meginatriði að því er varðar efni máls eða eru til lagfæringar. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. eins og það kom frá Nd., en þó með þeirri breytingu að lögin öðlist ekki gildi fyrr en 1. mars 1990. Um það er flutt brtt. á þskj. 1318 sem nefndin flytur og fylgir.
    Halldór Blöndal var fjarverandi afgreiðslu málsins en undir þetta rita sex nefndarmenn, þar af einn með fyrirvara, Guðmundur Ágústsson.
    Það er ljóst að margt bendir nú til þess að e.t.v. kunni að þurfa að endurskoða og breyta hlutafélagalögum frekar á næstu missirum, einkum með tilliti til samstarfs okkar við grannþjóðirnar í Evrópu, og það gefst þá ráðrúm til þess. Við í fjh.- og viðskn. treystum því að áfram verði unnið að athugun þessara mála og að sveigja þessi lög að þeim reglum sem gilda í löndunum í kringum okkur.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri, en nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með brtt. á þskj. 1318 sem varðar gildistökuákvæðið.