Hlutafélög
Laugardaginn 20. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er nú til 2. umr. hefur eins og fram hefur komið verið flutt og rætt að stofni til nokkrum sinnum á fyrri þingum, reyndar líklega á tveimur þingum á undan þessu, og ekki síst var það vandlega rætt á 110. þingi í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. En allt er þegar þrennt er og ég fagna því að nú skuli málið komið á lokastig og ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að í frv. eru ýmis gagnleg nýmæli og réttarbætur sem ekki er rétt að dragist lengur að komist í lög.
    Ég er hins vegar alveg sammála því, sem kom fram hjá hv. frsm. fjh.- og viðskn. og hjá 8. þm. Reykv., að nú er ör þróun í félagarétti í Evrópu. Þar eru mörg mál í deiglu. Þar er stefnt að samræmdri löggjöf og reyndar, eins og kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv., jafnvel víðtækari samræmingu. Þess vegna má vel vera rétt að þörf muni reynast fyrir að gera breytingar á hlutafélagalöggjöf okkar á næstu missirum. Það er þess vegna vel ráðið að mínum dómi og hyggilegt hjá hv. fjh.- og viðskn. að leggja til að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir en fresta gildistöku þess til 1. mars á næsta ári.
    Það er rétt, eins og fram kom í máli hv. 8. þm. Reykv., að tíðar breytingar á rammalöggjöf af þessu tagi eru ekki æskilegar, en hins vegar nauðsynlegt að ljúka verkum eins og þeim sem hér hafa legið fyrir þremur þingum. Ég er þess vegna algerlega samþykkur því að skapa þetta svigrúm til frekari endurskoðunar á okkar félagalöggjöf, ekki síst með tilliti til þeirrar þróunar sem nú verður innan EFTA og í samstarfi EFTA-ríkja við Evrópubandalagsríkin þótt það sé að sjálfsögðu, eins og fram kom í máli hv. 8. þm. Reykv., algerlega óháð því hvort við erum þar beinir aðilar eða ekki.
    Ég hlýddi með athygli á mál hv. 8. þm. Reykv. um sögu íslenskrar félagalöggjafar sem hann er gagnkunnugur og eins kom fram í máli hans og hv. 5. þm. Reykv. að vel mætti að því huga hvort þörf væri fyrir sérstök lagaákvæði fyrir almenningshlutafélög önnur en þau sem gilda um þau hlutafélög sem nú eru í lögum. Ég vil skoða þá hugmynd og hygg gott til þess að eiga samstarf við hv. þm. þessarar deildar um það mál. En vegna orða hv. 5. þm. Reykv. um stofnun málamyndafélaga, gervifélaga, þá vil ég taka það fram að nú er unnið að því í dómsmrn. og viðskrn. að setja við slíkri háttsemi skorður. Ég er þeirrar skoðunar að sennilega sé réttara að hafa það í sérstakri löggjöf, þ.e. einhvers konar varnir gegn misneytingu félagsformsins því að auðvitað er erfitt að setja þar skorður við óréttmætri framkomu, ólögmætri hegðan þannig að það sé bundið í eitt félagsform. Þess vegna tel ég heppilegra að það sé í einhvers konar almennri löggjöf.
    En virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið í hv. Ed. og vonast til þess að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem getur á þskj. 1318 og hv. fjh.- og viðskn. flytur sameiginlega.