Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Herra forseti. Ég nota tækifæri þetta til að þakka formanni heilbr.- og trn. fyrir gott samstarf og góða forustu. Í nefndinni voru málefni aldraðra mikið rædd á mörgum fundum og ég harðneita því að einhverjum atriðum hafi verið smyglað þar inn eða menn hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Það er öðru nær. Það var farið yfir allt frv. og vegin og metin hver einasta grein og ýmsu breytt sem við töldum að betur mætti fara. Því er haldið fram og ég get að mörgu leyti skilið að það sé eðlilegt að hafa skattprósentuna eina og sem minnst af aukasköttum og alls ekki nefskatta. Hitt er annað mál að ég tel að þarna hafi verið um skatt að ræða sem allir Íslendingar hefðu unað mjög vel við. Menn hafa verið mjög sáttir við að taka upp svona nefskatt vegna þess að það er næstum því á hverju einasta heimili sem fólki er ljós sú neyð sem er í málefnum aldraðra á landinu þar sem fjöldi gamals fólks þarf að lifa við kröm og böl, þar sem byggingar eru hálfbyggðar og ekki hægt að taka þær í notkun vegna fjárskorts og það er ekki hægt að sinna öldruðu fólki sem skyldi vegna þess að fjármuni vantar svo sárlega. Ég veit að það var gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður fengi ákveðna upphæð af tekjuskattsstofninum og ég skildi það svo að með þessu ákvæði í frumvarpi til laga um málefni aldraðra mundi fást miklu meira fjármagn en áður. Ég var mjög kátur yfir því og hefði viljað að það yrði góð sátt um það (Gripið fram í.) af þeim ástæðum sem ég var að tilgreina að ástandið í málefnum aldraðra er hvergi nærri nógu gott.
    Ég minnist þess, og ég hverf aftur að staðgreiðslukerfinu, að það var ein krafa verkalýðshreyfingarinnar, sem gerði kröfu um það í kjarasamningum að staðgreiðslukerfi yrði komið á, að ýmiss konar aukaskattar yrðu niður felldir. Það var gert og var ákveðið að gera ráð fyrir ákveðnu framlagi til Framkvæmdasjóðs aldraðra. En ég taldi að með því að samþykkja frv. eins og það var værum við að tryggja mikið meira fjármagn í þessa hluti, skapa tækifæri til að gera stórátak í þessum málum og því var ég ekki andvígur því ákvæði, alls ekki.
    Hitt er annað að mér sýnist að við þær brtt. sem gerðar eru sé þess freistað að tryggja tekjustofn, þ.e. það sé enn þá betur tryggt en var áður. Þess vegna mun ég una við það. En ég legg á það áherslu að þó að fjármagn sem rennur til Framkvæmdasjóðs aldraðra yrði hækkað um helming væri það ekki nóg að mínu mati.