Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. minni hl. heilbr.- og trn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Í umræðum um þetta mál í gær óskaði ég sérstaklega eftir því að hæstv. utanrrh. yrði boðaður í salinn til þess að ég gæti beint til hans nokkrum spurningum er vörðuðu hina skattalegu hlið þessa máls. Ráðherrann var svo vinsamlegur að koma og hlýða á mínar spurningar, en þeim var beint til hans þar sem hann er fyrrv. fjmrh. og hefur stært sig mjög af breytingum á skattkerfi landsins, þar á meðal í sambandi við staðgreiðslu, og því var eðlilegt að spyrja hann sem fyrrum fjmrh. og formann Alþfl. að því hvort hann ætli að standa að því að grafa undan staðgreiðslukerfi skatta með þeim hætti sem hér er gert með því að taka upp nefskatt án þess að lækka staðgreiðsluhlutfallið á móti. Hvort tveggja gengur alveg á móti þeim fyrirheitum sem hann og aðrir hafa gefið í sambandi við þetta mál. Ég vil undir þingskapaformi spyrja hæstv. utanrrh. að því: Ætlar hann að svara þessum spurningum hér eða ekki? Ætlar hann að láta þessum spurningum ósvarað eða ekki? Ætlar þessi staðgreiðslufrömuður, höfundur og eigandi staðgreiðslukerfisins eins og hann telur sig vera, m.a. í eldhúsdagsumræðum nýlega, að láta þessu ósvarað?