Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Mér finnst, virðulegur forseti, hafa komið fram nokkuð skýr spurning til eins af hv. ráðherrunum sem er fyrrv. fjmrh. og það hefur nokkuð mikið með mál þetta að gera því að í raun og veru er verið að breyta því sem hann lýsti yfir á sínum tíma að hefði kannski verið það eina sem síðasta ríkisstjórn gerði af viti. Það var að setja staðgreiðsluskattalög með þeim hætti að sameina nokkra í einum skatti og láta aðra hverfa. Nú kemur í ljós í umræðunni sem hefur átt sér stað fyrr í dag og reyndar á undanförnum dögum að verið er að hverfa frá þessu og það reyndar gert með nokkuð lymskulegum hætti eins og margoft hefur komið fram í þessum umræðum.
    Beint hefur verið fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem hefur vægast sagt haft stór orð um þessi mál. Þessi sami hæstv. ráðherra hefur síðan orðið að viðundri á síðustu dögum með því að greiða til skiptis atkvæði með og á móti sömu tillögunum, kúgaður af samstarfi við yfirboðara sína í Alþb. Ég verð að segja að ég hélt að við værum að gera hæstv. ráðherra greiða með því að bjóða honum hér og nú, með því að beina til hans fyrirspurnum, að segja sitt álit á þessu máli, jafnmikill baráttumaður og hann hefur verið fyrir þessu. Hann hefur lagt sig svo mikið fram að hann hefur barið sífellt á heilum stjórnmálaflokkum og stjórnmálaforingjum fyrir það að þeir hafi ekkert gert annað en að vera í fríi í útlöndum á sama tíma og hann einn manna í fyrrv. ríkisstjórn hafi gert það sem gert var þar. Hann hefur sagt aftur og aftur þegar hann var spurður að því hvað þetta eina væri sem gert var: Það var frv. um skattamálin. Það var staðgreiðslukerfið sem Alþfl. og einkum og sér í lagi ég, formaður Alþfl., beitti mér fyrir.
    Nú er verið að rústa þetta kerfi og hæstv. ráðherra, sem hefur lagt pólitískt líf sitt undir og ríkisstjórna í þessu landi út af þessu og öðrum slíkum málum, er annaðhvort fárveikur og hefur misst málið eða þá að það hefur verið sest svo rækilega á hann að það er full ástæða til þess hér í þessum þingskapaumræðum og umræðum í dag að undirstrika það rækilega að í lok þessa þings hafi þessi einn mesti kjaftaskur allra tíma í íslenskum stjórnmálum nánast litið út eins og tunguskorinn. Það verður satt að segja fróðlegt að sjá hvernig því verður lýst í blöðum og ekki síst Alþýðublaðinu á næstu dögum.