Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. minni hl. heilbr.- og trn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Það er greinilegt að hinn mikli staðgreiðslufrömuður, formaður Alþfl., ætlar ekki að taka til máls, ætlar ekki að svara spurningum um þetta mál, ætlar með öðrum orðum að verða frumkvöðull að því að stíga fyrsta skrefið í því að grafa undan og eyðileggja hið nýja staðgreiðslukerfi skatta. Þetta er hin raunverulega aðild þessa virðulega ráðherra að þessu máli. Maðurinn sem eignar sér annarra manna verk varðandi staðgreiðsluna en átti að vísu aðild að framhaldi málsins er núna að taka á sig ábyrgðina á því að hverfa til baka, hverfa til baka yfir í kerfi smáskatta án þess að lækka staðgreiðsluhlutfallið á móti. Hvort tveggja algjörlega óverjandi ákvarðanir að mínum dómi bæði út frá sjónarmiðum framkvæmdar í staðgreiðslunni og út frá sjónarmiðum skattheimtu almennt. Það er reisn yfir þessu, herra forseti. Það fer vel um hæstv. utanrrh. í framsóknarfjósinu þessa dagana. Það er ekki annað að sjá.
    En menn skulu ekki halda að það fari fram hjá fólki hvað hér er verið að gera. Það er verið að hverfa til baka inn á þá braut sem ég hélt að hefði verið almenn samstaða um hér á Alþingi að undanskildu Alþb. að víkja frá sem vill hafa þennan nefskatt. Ég vissi ekki betur en að það væri samstaða í þinginu meðal annarra flokka um að hætta við þessa litlu skatta og það er búið að áætla fyrir þeim í staðgreiðsluhlutfallinu og það er verið að láta fólk borga hérna tvívegis sama hlutinn.
    Hér var áðan, herra forseti, gerð tilraun til að gera grein fyrir brtt. meiri hl. heilbr.- og trn. Ég er ekki viss um að þingheimur almennt geri sér grein fyrir því í hverju þessar breytingar felast, en ég skal taka að mér að útskýra það fyrir hönd þeirra sem að því standa. Það er eingöngu verið að fresta gildistöku þessa máls um eitt ár. Í stað þess að lauma nefskattinum í gegnum þingið nú á síðustu dögum þingsins þannig að hann taki gildi í sumar á hann að koma á næsta ári. Það er það sem þessi brtt. þýðir. Í prinsippinu skiptir þessi brtt. engu máli vegna þess að þetta er jafnmikið fráhvarf frá grundvallaratriðum staðgreiðslukerfisins. En þetta er þó viðurkenning á okkar málflutningi í gær á því siðleysi, sem til stóð, að lauma þessum skatti inn til álagningar í ár ofan á alla hina skattana sem þessi stjórn hefur þröngvað upp á landsmenn. En grundvallaratriðið stendur kyrrt. Það á að viðhalda nefskattinum í þessu frumvarpi án þess að lækka hið almenna staðgreiðsluhlutfall á móti. Það á að taka upp nýjan nefskatt og tryggja að enginn Íslendingur verði framvegis skuldlaus við gjaldheimtuna eins og þó var hugmyndin með staðgreiðslukerfinu. Allir munu koma til með að skulda þennan skatt til viðbótar hugsanlega eignarsköttum og eftiráuppgjöri annars konar. Það er aldeilis glæsibragur yfir þessu hjá hinum mikla staðgreiðslufrömuði og frömuðum í Alþfl.
    Hæstv. heilbrmrh., sem talaði í gær með málefnalegum hætti um þetta mál, svaraði í nokkrum orðum gagnrýni minni um þetta atriði. Hann taldi m.a.

að nefskattur eins og þessi væri öruggari vegna þess að hann mundi skila sér betur til þess málefnis sem um er að ræða. En auðvitað er engin trygging fyrir því, því að þennan skatt er hægt að skerða með lánsfjárlögum á ári hverju eins og mörg dæmi eru um. Það gildir nákvæmlega sama ef menn eru að hugsa um fjármagn til þessa málefnis, sama hvort um er að ræða sérstakan tekjustofn eða tekjur af almennu staðgreiðslufé.
    Ráðherra var líka að velta því fyrir sér að það væru kannski ekki svo margir sem um væri að ræða sem mundu þurfa að skila þessum skatti til viðbótar þeim sem hvort eð er eru í eftiráuppgjöri.
    Ég minnist þess þegar var verið að ganga frá breytingum á lögum varðandi eignarskatt í vetur að eignarskattsgjaldendur í landinu eru tæplega 50 þús. manns, 48 þús. Skattgreiðendur í heild munu vera um 180 þús. manns. Við erum að tala hér um 130 þús. manns til viðbótar. Hvað kostar það í framkvæmdinni? Hvað kostar það í auknum umsvifum og ómaki fyrir kerfið og fyrir fólkið sjálft? Ég held að menn verði að átta sig á því hvers lags brautir hér er verið að fara út á til viðbótar því að það er búið að lofa almenningi því að þessi skattur komi ekki upp aftur. Greinargerð frumvarpsins er villandi þó ráðherra hafi í gær verið að bera blak af henni. Þar stendur að þetta sé í samræmi við gildandi lög. Það er rétt svo langt sem það nær, en það vantar að gera grein fyrir því í frumvarpinu og í greinargerðinni að þessi skattur hafi ekki verið innheimtur upp á síðkastið og að það sé búið að taka hann inn í staðgreiðsluna. Að því leyti til er greinargerðin villandi og ónákvæm og að því leyti til er það ekkert skrýtið að þingmenn í Ed. hafi ekki eftir þessu tekið vegna þess að þeir byggja á þeim upplýsingum sem fyrir þá eru lagðar. Þetta er vítavert.
    Við sem höfum flutt brtt. um að Framkvæmdasjóðnum verði tryggðir með beinu framlagi þeir peningar sem hér er um að ræða hljótum að fagna því að með brtt. meiri hl., sem stjórnarflokkarnir hafa að því er virðist verið að kokka frá því um miðjan dag í gær fram á þennan dag --- reyna að ná einu moðsamkomulaginu enn í þeim hópi --- er komið til móts við okkar ábendingar að
því leyti til að hún er viðurkenning á því, sem við höfum hér sagt, að það stóð til að lauma inn 200 millj. kr. aukinni skattheimtu nú í sumar. Sem betur fer á að hætta við það samkvæmt þessari brtt. Það er þá ekki til einskis barist í þessu máli ef menn hafa orðið við þeirri ábendingu okkar og séð að sér þegar á þetta var bent á síðustu dögum þingsins þegar þetta mál er komið á síðasta stig.
    En það stendur auðvitað eftir að á næsta ári á að taka þennan nefskatt upp á nýjan leik og það er engin yfirlýsing um að það eigi þá að lækka staðgreiðsluhlutfallið á móti. Það á sem sagt að taka þennan skatt á næsta ári á tveimur stöðum. Það er meginathugasemdin við þetta mál. Ég skora á hæstv. utanrrh. að svara því hvort þetta er það sem hann sá fyrir sér í staðgreiðslukerfi skatta, að nefskattarnir

kæmu einn af öðrum inn í kerfið á nýjan leik til að rugla myndina, til að eyðileggja þá einföldun sem að var stefnt. Er þetta það sem hann hefur verið að grobba sig af um víðan völl að undanförnu á Alþingi og annars staðar? Er þetta það kerfi sem hann telur sér sæmandi að stæra sig af? Er þetta það kerfi, hæstv. ráðherra? Er það þetta sem ráðherrann er að grobba sig af út um landsins byggðir í sambandi við staðgreiðslu skatta? Er þetta það sem Alþfl. hefur séð fyrir sér varðandi staðgreiðsluna? Ráðherrann getur svarað því úr sæti sínu ef hann vill. Er það þetta sem vakti fyrir mönnum? Er það þetta sem Alþfl. var að berjast fyrir þegar hann þóttist vera að berjast fyrir auknu réttlæti og meiri einföldun í skattkerfinu? Var það þetta?
    Nei, það er lítil mannsmynd á þessu, herra forseti. Og þetta er allt hið háðulegasta mál. Þetta er háðulegt fyrir framsóknarmennina í ríkisstjórninni sem stóðu með okkur á sínum tíma að því staðgreiðslukerfi sem upp var tekið og bera á því ábyrgð. Alþfl. var þá reyndar í stjórnarandstöðu þó hæstv. utanrrh. haldi enn að hann hafi fundið upp staðgreiðsluna. Þetta er háðulegt fyrir framsóknarmennina sem stóðu með okkur að þessu. Og það er leiðinlegt að þeir skuli láta plata sig út í þetta að kröfu Alþb. sem hefur alltaf lagt áherslu á þetta mál. En þetta er háðulegast af öllu fyrir Alþfl. og fyrir hinn virðulega formann Alþfl. sem hvað eftir annað hefur barið sér á brjóst í nafni einföldunar í skattamálum, í nafni meiri skilvirkni og meira réttlætis í þeim efnum. Er þetta það sem Alþfl. var að berjast fyrir, hæstv. ráðherra? Vill ráðherra svara því úr sæti sínu ef hann vill ekki koma upp í ræðustól? Vill hann kannski segja já við því og svo nei á eftir eins og í mjólkurbúunum? Hann vill bara sitja þarna þegjandi í sínu framsóknarfjósi, sínu alþýðubandalagsfjósi.
    Auðvitað veit ráðherrann vel, það vita allir alþýðuflokksþingmennirnir sem láta nú ekki einu sinni sjá sig í deildinni þegar þetta mál er til umræðu, að þeir eru að gera þetta gegn betri vitund. Þeir vilja þetta auðvitað ekki mennirnir. Þeir vita vel að þeir eru að verða hér við kröfu Alþb. þó að þeir viti að þetta er bæði óréttlátt og illframkvæmanlegt og að öllu leyti hið versta mál. Auðvitað vita þeir það. Það er þess vegna sem utanrrh. treystir sér ekki til að standa upp. Það er vegna þess að hann veit að það sem ég er að segja er allt saman rétt og er mér alveg innilega sammála og sér eftir þessu öllu innst inni. En hann mun eiga erfitt með það framvegis, og það vil ég leggja áherslu á, að koma fram í nafni Alþfl. og stæra sig af staðgreiðslukerfinu sem hefur verið tekið upp. Nú er hann að taka á sig ábyrgðina af því að stíga fyrsta skrefið í þá átt að taka hér upp nýja smáskatta og gera hluti sem lofað var að væri verið að hverfa frá með staðgreiðslukerfi skatta. Ég treysti því að ráðherrann hafi rætt þetta mál sem fyrrv. fjmrh. við til að mynda þá sem framkvæma staðgreiðslukerfið, yfirmenn skattkerfisins. Ég treysti því að sjálfsögðu. Það þarf ekki að spyrja um það. En þó veit maður aldrei því ég lýsti því yfir í gær þegar við vorum að

tala um aðstöðugjöld að ég treysti því að ráðherrann ætlaði ekki að hverfa frá fyrri afstöðu sinni og þeirri yfirlýsingu sem ég las, en hann lét sig nú ekki muna um það þannig að sjálfsagt lætur hann þetta yfir sig ganga.
    En ég vil að það komi skýrt fram af minni hálfu og annarra sjálfstæðismanna sem að þessum málum hafa komið að við erum ekki búnir að gefa þetta mál frá okkur þó svo það kunni að enda í samræmi við þá brtt. sem nú liggur fyrir. Brtt. gerir ráð fyrir því að þetta mál komi ekki til framkvæmda nú í sumar. Það er þó sú uppskera sem við höfum haft í þessu máli í gær og í dag. En ég er ekki búinn að samþykkja það og sætta mig við það að á næsta ári verði tekinn upp þessi nefskattur án þess að staðgreiðsluhlutfallið verði þá lækkað til samræmis. Það er lágmarkskrafa. En auðvitað er nefskatturinn hið versta fyrirbæri í því staðgreiðslukerfi sem hér er búið upp að taka og það er vel hægt að sjá fyrir þörfum Framkvæmdasjóðs aldraðra með beinni fjárveitingu sem yrði jafntryggilega frá gengið og okkar brtt. gerir ráð fyrir. Það er aðalmálið gagnvart Framkvæmdasjóðnum að honum sé séð fyrir þeim peningum sem hér er um að ræða og það er engin nauðsyn á því að taka upp sérstakan nefskatt sem mundi rugla svo myndina í staðgreiðslunni sem ég hef hér greint frá. Ég geri allan fyrirvara um þetta atriði varðandi framhald málsins og áskil mér að
sjálfsögðu allan rétt og okkur sjálfstæðismönnum til að taka þetta mál að nýju upp í haust þó svo við mundum ekki verða til þess að tefja gildistöku hinna nýju laga um málefni aldraðra vegna þeirra faglegu málefna sem þar er um að ræða. En háðung þeirra sem að standa skattahlið málsins, háðung þeirra með hliðsjón af fyrri yfirlýsingum, háðung þeirra með hliðsjón af þeim bumbuslætti sem átt hefur sér stað varðandi staðgreiðslukerfið er mikil og henni verður ekki gleymt.