Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Innan um allan skætinginn í ræðu hv. 17. þm. Reykv. Geirs H. Haarde innan um allan skætinginn og saman við hann kom þó ein jákvæð setning. Hún var sú að hv. þm. fagnaði því að fram væri komin tillaga sem felur í sér að umræddur nefskattur verður ekki lagður á á þessu ári. Og hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að sú tillaga er fram komin?
    Það er ekki bara vegna málflutnings hv. þm. Það er vegna þess að á seinustu stundu þegar þetta mál var skoðað verður það að játast eins og er að í forsögu þessa máls hentu ákveðin slys. Þau slys virðast hafa orðið á bestu bæjum, sbr. það t.d. að þetta mál með þessum ákvæðum um nefskattinn fer í gegnum Ed. og fer þar m.a. í gegnum heilbr.- og trn. athugasemdalaust líka frá fulltrúum Sjálfstfl.
    Nú er best að segja hverja sögu eins og hún gengur. Það var andstaða í þingflokki Alþfl. gegn þessum nefskatti og það er andstaða gegn honum af þeim rökum sem hv. þm. skilur mætavel. Engu að síður, vegna þess að við erum ekki að ræða staðgreiðslukerfi skatta, við erum að ræða hér um allt annað mál, málefni aldraðra, gaf þingflokkurinn grænt ljós á að málið færi fram með fyrirvara um þetta mál. Það mundi takast upp aftur innan ríkisstjórnar sem var gert. Niðurstaðan varð sú þá að vísa málinu til samstarfsnefndar þingflokka, en undanskilið að málið kæmi aftur á borð ríkisstjórnar. Það gerðist ekki. Þegar t.d. alþýðuflokksmenn unnu að málinu í Ed. höfðu þeir gefið grænt ljós á málið sem slíkt, en treystu því að sá fyrirvari stæði að málið kæmi aftur áður en það kæmi á lokaafgreiðslustig á borð ríkisstjórnar. Þetta gerðist ekki. Með öðrum orðum: það henti slys við undirbúning málsins. Þess vegna er þessi tillaga fram komin um að koma í veg fyrir að nefskatturinn verði á lagður á þessu ári einfaldlega til þess að vinna tíma til að vinna að lausn málsins vegna þess að hv. fyrirspyrjandi má vel vita að sá sem hér stendur er andvígur þessum skatti af þeim rökum sem fram hafa komið í hans máli. Þegar upp var tekið staðgreiðslukerfi skatta átti að útrýma þessum nefsköttum og staðgreiðslukerfið gerði ráð fyrir því að það kæmi í staðinn. Svo einfalt er nú málið. Það kemur með öðrum orðum fyrir á bestu bæjum að það verða slys af þessu tagi. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir þetta slys, en á seinustu stundu þegar hér var komið sögu var ekki unnt að gera betur en að ná samkomulagi um að fresta gildistökunni. Við það vinnst tími til að halda öðruvísi og með traustari tökum á málinu í framhaldinu.