Framhaldsskólar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. 1. minni hl. menntmn. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Í allri meðferð þessa máls, bæði í Ed. og jafnframt hér í Nd., höfum við sem skipum 1. minni hl. og reyndar 2. minni hl. líka, þ.e. þingmenn Sjálfstfl. sem eru í menntmn. og þingmaður Kvennalistans, vakið rækilega athygli á því að frv. er mikið flýtisverk. Það er illa unnið. Í því eru mjög hvatvíslegar breytingar á framhaldsskólalögunum. Þess vegna lögðum við til við 2. umr. þessa máls að þessu máli yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá.
    Við höfum í umræðunum bent á fjöldamörg atriði sem eru órökstudd, hvatvísleg. Við 2. umr. þessa máls benti hv. 3. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, sérstaklega á að ef frv. yrði samþykkt eins og búið var að ganga frá því við 2. umr. mundu hinir fjölmörgu kennarar, sem hér eftir verða ráðnir, eins og nú á að heita, en verða ekki settir, missa rétt til orlofs sem er auðvitað mikið hagsmunamál kennara, að geta notið orlofs. Eftir að hún hafði vakið atygli á þessu varð menntmn. sammála um að reyna þó að bæta í eitt gatið af mörgum sem er í frv. og þess vegna er þessi tillaga flutt.
    Það er furðulegt að við skulum vera að ræða þetta frv. og gera á því breytingar að hæstv. menntmrh. fjarstöddum þannig að hann geti ekki gefið skýringar á hvernig í ósköpunum stendur á að frv. er þannig úr garði gert, en hæstv. menntmrh. hefur kosið að vera fjarverandi bæði í gær og í dag og við því er ekkert að segja. Það lýsir hins vegar því að hann ber ekki mjög mikla virðingu fyrir því handarverki sínu sem hér er verið að fjalla um.
    Ég ítreka að í frv., eins og það liggur fyrir, eru fjöldamörg atriði af þessu tagi sem eiga eftir að koma upp við nánari skoðun og nánari athugun. Það er tilviljun að þetta atriði var sérstaklega tekið út úr. Það var vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. vakti sérstaka athygli á því við umræðuna. Ég fullyrði að fjöldamörg slík atriði eru fyrir hendi í frv. þegar farið verður að framkvæma það. Ég vil enn og aftur ítreka það sem ég sagði við 2. umr. þessa máls, að það er dæmalaust að í frv. skuli vera ákvæði um að gerbreyta réttarstöðu kennara. Þetta er ekki formbreyting eins og hv. 4. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, sagði. Það er veruleg efnisbreyting á ráðningarkjörum kennara. Það er alveg ljóst að það er munur á því hvort maður er ráðinn eða skipaður, ráðinn eða settur. Ráðning er mun laustengdara samband milli ríkisins annars vegar og starfsmanns hins vegar. Hér er því verið að breyta starfskjörum kennara og því hefur verið harðlega neitað í deildinni að um það megi ræða við kennarana. Það hefur enginn fulltrúi kennara fengið að koma til að tjá sig um þetta mál. Athygli þeirra hefur ekki verið vakin á þessari miklu breytingu sem nú er verið að gera á ráðningu kennara. Tveimur dögum eftir að þeir eru að ljúka verkfalli er laumað í gegnum Alþingi breytingu af þessu tagi sem, eins og ég sagði, gerbreytir réttarstöðu kennara.