Framhaldsskólar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds):
    Herra forseti. Það er vissulega rétt að æskilegt hefði verið að hæstv. menntmrh. hefði getað verið hér í dag og tekið þátt í umræðum, en hann hefur haft alla forustu um undirbúning frv. Hann er hins vegar bundinn af skyldustörfum sínum og hafði fyrir löngu lofað sér austur á land í gær og í dag og ekki hafði þá verið gert ráð fyrir að þing sæti svo lengi sem raun varð á þannig að ekki var um annað að ræða, eins og komið var málum, en að hann væri fjarstaddur í gær og í dag.
    Vafalaust er það alveg rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að frv. þetta er seint á ferðinni og á það hefur verið bent að menntmn. fékk ákaflega skamman tíma til umfjöllunar um málið og ekki bætti það úr skák að kennaraverkfall hefur staðið um nokkurra vikna skeið þannig að ekki var kostur á að kalla fulltrúa kennara til skrafs og ráðagerða um það. En úr því að svona mikið er lagt upp úr því af talsmönnum Sjálfstfl. að ávíta hæstv. menntmrh. fyrir slæleg vinnubrögð verður ekki undan vikist að benda á að frv. sem samþykkt var í þinginu í fyrra um framhaldsskólamálin var bersýnilega ófullkomið eins og við bentum á þegar málið var til meðferðar í þinginu. Það var á margan hátt vansmíð. Ég held að ádrepur hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar hitti kannski engan annan en hann sjálfan ef verið er að taka þetta mál upp og ræða það á breiðum grundvelli. Ég held að hæstv. menntmrh. hafi ekki komist hjá því að undirbúa breytingar á þessu frv. vegna þess að það var illframkvæmanlegt að framfylgja lögunum eins og þau lágu fyrir og ég hika ekkert við að segja hér og nú að á lögunum var ýmiss konar vansmíð sem greiða þurfti úr.
    Ég get hins vegar fúslega viðurkennt að hefði ég sjálfur mátt ráða má vel vera að ég hefði með ýmsum hætti tekið öðruvísi á þessum málum en var gert í menntmrn. við undirbúning þessa máls. Ég flutti sjálfur frv. um framhaldsskóla í þinginu í fyrra og hittifyrra og þar voru ýmis önnur áhersluatriði en eru í þessu frv. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ekki hafi verið hjá því komist að framkvæma breytingar á framhaldsskólalögunum eins og þau lágu nú fyrir, og þess vegna tek ég þátt í því nú, þó að ég sé kannski ekki alls kostar ánægður með þær tillögur sem hér liggja fyrir, að breyta lögunum. Aðstæður valda því, og þar á meðal það kennaraverkfall sem nú hefur staðið um nokkurt skeið, að ekki var hægt að hafa það samráð við kennara sem æskilegt hefði verið eins og ég hef þegar rakið. Við því er hins vegar ekkert að gera og auðvitað gefst kostur á að lagfæra þessa löggjöf á síðara stigi ef talin er þörf á því.
    Ég hef hins vegar ekki trú á því að kennarar hafi neitt við það að athuga að í staðinn fyrir setningu komi ráðning eins og gert er ráð fyrir í þessum lögum.
    Vegna þess að mikið hefur verið lagt upp úr því í umræðum um framhaldsskólafrv. að láta að því liggja að hæstv. menntmrh. hafi ekki unnið þetta mál vandlega heldur sé frv. einhver hrákasmíð vil ég láta

það koma fram að endingu við 3. umr. málsins, vegna þess að mín framsöguræða við 2. umr. var heldur stutt, að á fund menntmn. kom formaður Skólameistarafélagsins, Ingvar Ásmundsson. Hann tjáði okkur að þetta mál hefði verið rætt í Skólameistarafélaginu, stjórn þess, og að þeir mæltu mjög eindregið með samþykkt frv. eftir þá lagfæringu sem gerð var í Ed. Ég sé að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir virðist ekki vera mér alls kostar sammála, en ég fullyrði þetta og ítreka að hann sagði á fundinum að Skólameistarafélagið mælti eindregið með samþykkt frv. Hann tók hins vegar kannski ekki ósvipað til orða og ég gerði áðan hvað hann sjálfan snerti, að hann hefði getað hugsað sér eitt og annað með öðrum hætti í frv., en hér væri málamiðlunarleið farin og hann sætti sig við frv. eins og það lægi fyrir og teldi bót að því að það næði fram að ganga, sérstaklega eftir þá breytingu sem fékkst fram í Ed.
    Þetta læt ég koma fram vegna þess að hæstv. ráðherra Svavar Gestsson er fjarstaddur og hefur ekki aðstöðu til að gera grein fyrir undirbúningi þessa máls, en auðvitað er það staðreynd að málið er svo seint fram komið sem raun ber vitni vegna þess að það var vandlega undirbúið í ráðuneyti hans.