Stjórnarráð Íslands
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. 2. minni hl. allshn. (Valdimar Indriðason):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hl. allshn., en ásamt mér er það virðulegur þingmaður Kristinn Pétursson sem skipar þann minni hluta.
    Í gærmorgun kl. 9 var boðaður fundur í allshn. þessarar hv. deildar og þar var allt í einu komið upp á borðið að það var lögð áhersla á það, að mér skildist af hæstv. ríkisstjórn, að þetta mál kæmi inn í þingsali á seinasta degi þingsins eins og nú er orðið. Ég skal engum getum að því leiða hvernig á því stóð að þetta var tekið á síðustu dögum. Ég er ekki nógu kunnugur málinu áður af því að ég er hér sem varamaður, en mér þótti nokkuð einkennilega að staðið að leggja svo þunga áherslu á að ætla að viðra þetta þingmál, sem er mjög mikilsvert þingmál, áður en þingi lyki. Ég ætla ekki að vera með neinar getsakir eða spádóma í þeim efnum, hver ástæðan er.
    En frv. sem hér er um að ræða, frv. til l. um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, er aðeins fylgifrv. með aðalfrv. sem er frv. til laga um umhverfismál. Með því að samþykkja frv. um Stjórnarráð Íslands er það 1. gr. sem ræður úrslitum, að bætt er inn í þá 1. gr., að eftir að búið er að telja upp ráðuneytin hér á landi er bætt inn einu ráðuneyti sem heitir umhverfisráðuneyti.
    Ég þarf ekki að orðlengja að við sjálfstæðismenn erum mjög fylgjandi því, eins og ég held að við flest séum og öll, að gæta alls hins besta í sambandi við umhverfi okkar viðkvæma lands, en við erum ekki sammála því að stofna sérstakt ráðuneyti til að fjalla um þessi mál. Það hefur komið fram og ég bendi á frv. sem lagt var fram af allnokkrum sjálfstæðismönnum fyrr í vetur. Það er þingmál nr. 431 og fjallar ítarlega um tillögur sem þeir gera í þessum málaflokki. Ég vil að hann sé kannaður, en ég er ekki tilbúinn að gangast undir að við, núna á síðasta degi þingsins, göngum í að samþykkja 1. gr. frv. til l. um Stjórnarráð Íslands um að stofna nýtt umhverfisráðuneyti. Það er meira en að segja það að stofna nýtt umhverfisráðuneyti. Ég held að við höfum nóg að gera í okkar stjórnsýslu. Þetta mál þarf ekki að fara neitt halloka þó að það sé skoðað og það sett í ráðuneyti sem geta um það fjallað sérstaklega en ekki sértakt ráðuneyti. Því erum við mótfallin.
    Því var lofað að hafa ekki mörg orð um þessi mál og ég skal verða við þeirri ósk, en álit okkar í 2. minni hl. er, það er á þskj. 1293, með leyfi forseta:
    ,,Annar minni hl. er andvígur því að ráðuneytum verði fjölgað eins og lagt er til í þessu frv.
    Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa á þessu þingi flutt frv. um samræmda stjórn umhverfismála (230. mál) þar sem lögð er til skynsamleg stjórnskipan umhverfismála án þess að fjölga ráðuneytum. Við undirritaðir teljum að þær tillögur feli í sér mun hagkvæmari og skilvirkari skipan stjórnkerfis umhverfismála en lagt er til í þessu stjfrv.
    Annar minni hl. leggur til að frv. verði fellt.``