Stjórnarráð Íslands
Laugardaginn 20. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég er fylgjandi aukinni umhverfisvernd og betra skipulagi á umhverfismálum en nú er. Það má gera með ýmsu móti og er sjálfsagt að vinna ötullega að þeim málum. En þegar allt kemur saman og þessi mál eru rædd í hinum ýmsu málaflokkum mun fljótlega koma í ljós að þar verða miklir árekstrar og því er miklu meiri nauðsyn á því að koma á samræmdum aðgerðum og samræmdri stjórn í umhverfismálum en að stofna til nýs ráðuneytis. Það þing sem nú er að ljúka, þetta skrítna þing að mínum dómi, og tala ég af langri reynslu, hefur verið aðgerðalítið mánuðum saman og aðgerðalaust jafnvel, en þegar komið er að lokadögum sprikla menn hver um annan þveran og þurfa öllu að koma fram án þess að það þurfi að taka neitt til ítarlegrar umfjöllunar.
    Ef við lítum til baka yfir þau mál sem hafa verið afgreidd á þessu þingi, sem er vonandi að ljúka í dag eða þá næstu daga ef eitthvað kemur upp á, væri fróðlegt að fram færi úttekt á því hve mikil ný útgjöld hafa verið samþykkt á þessu þingi. Þau eru ekki í tugum milljóna heldur í hundruðum milljóna. Í raun og veru spyr enginn innan þessara veggja hvað hitt eða þetta kosti. Það er bara: Þetta þarf ég að fá og þetta verð ég að gera því að ég get orðið vinsæll af því ef ég fæ þetta fram. Það er höfuðatriðið. En vitaskuld eigum við, ég tek undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e., að búa í sátt við fólkið í landinu. Til þess erum við kosnir. Ég hef ekki orðið var við áhuga hjá fólkinu í landinu á að stofna ný ráðuneyti og auka útgjöldin. En ég er alveg viss um að það er hárrétt hjá hv. þm. að fólkið í landinu vill fá betri stjórn á umhverfismálin. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að samþykkja frv. Og ég er þeirrar skoðunar að heldur eigi að endurskoða lögin um Stjórnarráð Íslands með það í huga að fækka ráðuneytunum en ekki fjölga þeim. Það sem ég segi er á mína ábyrgð og er mín skoðun. Ég tel auðvelt að fækka um þrjú ráðuneyti. Við höfum ekkert að gera með sérstakt landbrn. Við eigum að sameina landbrn. og sjútvrn. í eitt ráðuneyti. Þetta er gert hjá miklu stærri þjóðum og mannfleiri en okkar. Við getum sameinað iðnrn. og viðskrn. Auðvelt verk. Við getum lagt niður félmrn., sett sósíalverkefnin undir heilbr.- og trmrn. og sveitarstjórnarmálin undir fjmrn. ef við viljum, ef við meinum eitthvað með því að það eigi að veita aukið aðhald og spara í þessu landi. En það er aldrei talað um það. Hér er fullt af fólki sem sér þessi góðu mál, þessi mjúku mál sem er alltaf verið að segja hvað séu nauðsynleg og vinsæl, en það er ekki lengur hægt að ná þessum skattpeningi út úr fólki. ( Utanrrh.: Er nokkur þörf á sérstöku varnarmálaráðuneyti?) Nei, alls ekki þörf á því, hæstv. utanrrh. Það mætti alveg eins flytja tillögu um að stofna eitthvert hrossaræktarráðuneyti eins og varnarmálaráðuneyti. Ekki er nokkur þörf á því. Og meira að segja er ekki þörf á öllu því hermangi sem er hérna líka og ekki heldur þörf á því að ákveðnir aðilar sem hafa einhvern hernámsgróða séu að leggja peninga í útgerð

á einum stað á landinu en ekki öðrum og væri fullkomið tilefni til að fara út í þá sálma.
    Þetta kannski kemur eins og köld vatnsgusa yfir þingmenn sem eru svo uppteknir af sjálfum sér, að koma fram eyðslumálunum og bæta alltaf nýjum böggum á þjóðina og auka erlendar skuldir og halda áfram á sömu braut. Það er alveg sama hvaða snillingar fara í ráðherrstóla eða fara úr þeim og nýir koma. Þeir halda allir áfram á þessari sömu braut. Nú sjá þeir ekkert nema umhverfisráðuneyti, nýtt bákn þar, til að koma á deilum og illindum á milli ráðuneyta og stofnana. Það verður árangurinn af því. Höfuðatriðið er að koma á auknu samstarfi og auknum skilningi á betri umhverfismálum en nú. Þau fást ekki á þann hátt sem Kvennalistinn leggur alltaf til. Það eru bara mjúku málin sem koma, en þegar á að fara að tala um tekjur og fjáröflun vilja þær helst ekki koma nálægt þessu.
    Hér hafa verið rædd æðimörg mál undanfarna daga. Síðast í gærkvöld, ég hafði ekki þrek í að sitja lengur á þingfundi en til kl. að ganga níu í gærkvöld, fékk maður í gegnum útvarpið ákaflega yndislega kveðju frá hæstv. forsrh. varðandi byggðamál, um að þeir hefðu ekki staðið sig nógu vel sem þar stjórna. Þetta kom auðvitað strax í Ríkisútvarpinu. Þegar þessi byggðaskýrsla var til umræðu flutti ég hér allítarlega ræðu en reyndi þó að stytta mál mitt vegna tímaskorts og ræddi fullkomlega málefnalega stöðu höfuðatvinnuvegs þjóðarinnar. Ekki kom minnsta frétt um það, enda var ekkert í það varið. Það var verið að bregða upp mynd af mikilli vinnu manna og sérfræðinga, hvernig ástand og horfur voru sem þjóðina varðar miklu og flestar byggðir landsins. Engin frétt. Það er ekki fréttnæmt. En ef einhver heggur í annan og ef einhver segir eitthvað sem getur móðgað annan kemur fréttin alveg á svipstundu. Þannig er fréttaflutningurinn. Þannig er starfsemin og auglýsingin sem þingið fær. Yfirleitt komast ekki þau mál til umfjöllunar í fjölmiðlum sem þjóðin þarf að vita um. En ef það er skætingur og skammir, illindi eða einhverjum verður á eitthvert mismæli, ég held að það hafi komið einu sinni eða tvisvar fyrir hjá aðalforseta þessarar deildar að mismæla sig sem getur hent okkur öll, er birt stórfrétt um það. Við hlógum mikið hérna um árið að Dönum er það kom einu sinni fram í þingræðu að æðarkolla hefði komið fram á miðilsfundi. Það var
eina fréttin sem kom frá Alþingi Íslendinga í Danmörku þann veturinn. Það kom í Politiken. Þeir eru sennilega búnir að læra, íslensku fjölmiðlarnir, af frændum sínum Dönum. Það er gott að þeir geta eitthvað lært af þeim.
    Ég ætla að segja nokkur orð við hæstv. forsrh. því það fylgir töluvert því máli sem hér er til umræðu. Ég skal reyna að vera afskaplega stuttorður. Ég er undrandi á þessum ummælum hæstv. forsrh. um Byggðastofnun. Ég er undrandi af því að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur skorið fjármagn til Byggðastofnunar gersamlega niður við trog. Það er í raun og veru ekkert framlag. Hún byggir á rándýrum lánum,

aðallega á erlendum lánum og í vaxandi mæli þarf að sinna sífellt fleiri atvinnufyrirtækjum og byggðarlögum sem eiga ekki tryggingar fyrir þessum erlendu lánum. Hvað fá þá þeir sem þarna sitja ef þeir taka dýr erlend lán, lána hinum og þessum sem engar tryggingar setja og stofnunin tapar því og hún verður gjaldþrota? Hver verða eftirmælin? Það voru fífl sem stjórnuðu þessari stofnun. Það tekur enginn upp hanskann fyrir þá sem þar voru. Það er þetta sem ég á við, að ríkisstjórnir á hverjum tíma, ekki eingöngu þessi ríkisstjórn heldur allar ríkisstjórnir, eiga að venja sig á að hafa hóf á beiðnum, bæði til þessarar stofnunar og annars staðar, til að létta af sér pressunni og varpa yfir á aðra og koma síðan og gagnrýna þá menn, að þeir hafi ekki gert þetta eða hitt. Það er alveg eins og í umhverfismálunum, hæstv. forsrh. Það þarf meiri skilning á milli manna, á milli hins æðsta stjórnvalds og þeirra stofnana annarra sem eru að starfa í þjóðfélaginu á hinum ýmsu sviðum.