Starfslok neðri deildar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Í nafni okkar þingdeildarmanna þakka ég hæstv. forseta góða og réttláta fundarstjórn á því þingi sem nú er komið að lokum. Ég þykist ekki taka of djúpt í árinni þegar ég segi að hæstv. forseta hefur með lagni sinni og lipurð tekist að laða fremur óstýrilátan þingheim til samstarfs. Því hefur starf þingdeildarinnar gengið vel þrátt fyrir mikinn ágreining oft og tíðum milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég hef átt samskipti við hæstv. forseta bæði sem stjórnarliði og stjórnarandstæðingur og ég get því vel borið um réttsýni hans.
    Hæstv. forseti hverfur nú af þingi til annarra mikilvægra starfa á erlendum vettvangi. Honum og fjölskyldu hans fylgja góðar óskir frá þingdeildarmönnum.
    Ég vona að mér verði virt það til betri vegar þegar ég nota þetta tækifæri til þess að þakka hæstv. forseta fyrir langt og ánægjulegt samstarf í kjördæmi okkar, Reykjaneskjördæmi. Ég ítreka árnaðaróskir til hæstv. forseta og fjölskyldu hans og vona að honum farnist vel í hinu nýja og mikilvæga starfi.
    Ég bið hv. þingdeildarmenn að taka undir þessar óskir mínar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]