Vaxtalög
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. (Kristín Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mjög mörg orð um þetta mál, enda þingmenn orðnir nokkuð heimfúsir, en vinur vor Ragnar Reykás hefði líklega sagt að þetta hefði verið hið versta mál eða það hefði verið hið besta mál eftir því í hvorri deildinni hann hefði verið staddur. A.m.k. er þetta orðið afar sérkennilegt mál og hálfgerð þrætubók. Það hefur nú flakkað á milli deilda um hríð og hvorug deildin viljað láta af sínu.
    Nd. hefur tvisvar sinnum fellt orðið ,,á óréttmætan hátt`` út úr 7. gr. frv., þ.e. 1. mgr. 17. gr. vaxtalaganna sem fjallar um okur, en Ed. hefur jafnoft bætt þeim inn í aftur. Það er út af fyrir sig sigur í málinu að hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur nú fært rök fyrir þeirri skoðun sinni að þessi orð skuli vera inni. Slík rök hefur að margra mati skort þótt eftir þeim hafi verið gengið og m.a. kallað ákaft eftir útskýringum hæstv. ráðherra við umfjöllun málsins í annað sinn í Nd. Þeirra skýringar voru nú að mínu mati fremur rýrar og nánast ,,af því bara``.
    Nú liggja þessi rök fyrir á þskj. 1013 með tilvísun til athugasemda frá fyrri tíð og rökfærslan er byggð á því að nauðsynlegt sé að hafa ákveðinn sveigjanleika eða fyrirvara fyrir dómstóla um mat á refsiverðleika háttseminnar og þrengingu á efnissviði ákvæðisins.
    Það er mjög gott að hafa fengið þessa röksemdafærslu fram, en það breytir ekki skoðun þeirrar sem hér stendur. Ég hef ásamt hv. 6. þm. Norðurl. e. enn lagt fram brtt. á þskj. 1230 um að orðin ,,á óréttmætan hátt`` falli brott.
    Ástæðan fyrir því að ég vil þessi orð út er byggð á máltilfinningu og réttlætiskennd og niðurstaða Ed. breytir þar engu um. Þessi fyrirvari er inni í lögunum og hefur e.t.v. sýnt þar ágæti sitt og gagn m.a. með því að ég held að það sé aldrei eða nánast aldrei kært með tilvísun til þessara laga.
    Þetta mál hefur nú verið í nokkru reiðileysi í allnokkra daga og virtist um tíma sem hv. stjórnarþingmenn væru endanlega búnir að klúðra því þar sem þeir þorðu ekki að láta það koma til atkvæða í Sþ. Lendingin var auðvitað brosleg, að ekki sé meira sagt, þegar fullbúið frv. birtist á borðum þingmanna í gær og virtist ætlast til ljúfrar afgreiðslu þess í gegnum báðar deildir þingsins í einum grænum hvelli. Það frv. var samhljóða því frv. sem hér um ræðir að öðru leyti en því að málsgreinin sem mestum vandanum og fjaðrafokinu hefur valdið var nú utan pappírs og það hlálega er að hún þurfti aldrei að vera í frv. því í henni felst engin breyting frá gildandi lögum. Þessi margumræddu orð ,,á óréttmætan hátt`` eru --- svo og reyndar öll önnur í þeirri málsgrein eins og hún birtist upphaflega í frv. --- í núgildandi lögum. Frv. sem birtist í gær var svo afturkallað eftir þenkingar á smáfundi í ýmsum kimum þessa húss og hér verður þá innan tíðar atkvæðagreiðsla um þetta mál sem slíkum vandræðum hefur valdið. Það bendir til þess að stjórnarflokkarnir hafi tryggt sér fullnægjandi stuðning við frv. sem þarf eins og

mönnum er kunnugt fleiri atkvæði í Sþ. en í deildunum samanlagt. Það verður því fróðlegt að fylgjast með atkvæðagreiðslu á eftir og tekið vel eftir því hverjir hafa nú fengist til liðs við ríkisstjórnina.
    Það er svo e.t.v. að lokum við hæfi að færa höfundum frv. og ríkisstjórninni svo og auðvitað nefndarmönnum í hv. fjárhags- og viðskiptanefndum beggja deilda sérstakar þakkir fyrir að vekja svo rækilega athygli á þessum margnefndu orðum, glufunni, fyrir þá sem telja réttlætanlegt að hagnýta sér fjárþröng manna og aðstöðumun.