Vaxtalög
Laugardaginn 20. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég tel til hlýða að einn af andstöðumönnum fyrirliggjandi brtt. taki til máls örstutt og rifji upp að þau orð, sem lagt er til að falli út úr frv., eru orð sem voru inni í stjfrv. í upphafi og hæstv. ríkisstjórn var ekki að leggja til að breytt yrði.
    Í öðru lagi hefur það komið skýrt fram í skjölum í hv. Ed. að sá sem samdi þetta lagafrv. á sínum tíma, prófessor Jónatan Þórmundsson, hafi fullgilda ástæðu til að setja þessi þrjú orð inn og skýrir það mætavel í greinargerð með frv. þar sem hann bendir á að um refsiviðurlög er að ræða og nauðsynlegt er að viss sveigjanleiki sé fyrir dómara til að taka tillit til siðferðis- og réttlætissjónarmiða því að auðvitað getur brot verið stórt eða lítið og nauðsynlegt fyrir dómara að hafa ákveðinn sveigjanleika þegar hann kveður upp sinn dóm. Prófessor Jónatan Þórmundsson vísar í því efni m.a. til almennra hegningarlaga og skýrir mjög vel hvers vegna þessi þrjú orð eru inni í þessari grein. Ég hvet hv. þm. til að kanna vel hvort það sé við hæfi að breyta lagagreininni með tilliti til þess að í henni eru ákvæði sem veita dómstólum heimild til að dæma menn í allt að tveggja ára fangelsi. Eftir að hafa skoðað málið hygg ég að nauðsynlegt sé að hafa þessi orð inni og held að málflutningur þeirra sem barist hafa gegn þessum þremur orðum, a.m.k. sumra hverra, sé á misskilningi byggður.
    Aðrir hafa rætt efnisatriði málsins. Þar sem hér var flutt ræða til að mæla með samþykkt brtt. hvet ég hv. þm. að greiða atkvæði gegn tillögunni, enda hafa úrslit í þessari atkvæðagreiðslu engin áhrif á lokaniðurstöðuna hvort heldur tillagan verður samþykkt eða felld, ef einhver heldur að svo sé, en um það hafa menn verið að fjalla í hliðarsölum í Alþingishúsinu.