Vaxtalög
Laugardaginn 20. maí 1989

     Ragnar Arnalds:
    Virðulegi forseti. Ég tel að ákvæði laga um vaxtatöku séu ófullkomin og að þetta ákvæði, sem er eina ákvæðið í lögum um okurvexti, sé allt of veikt og að það beri eins og hægt er að stuðla að því að fastar sé kveðið að orði í lögum um þessi efni. Ég lít svo á að orðin ,,á óréttmætan hátt`` geri textann lítt skiljanlegan. Ég tek undir það sem seinasti ræðumaður sagði áðan að það er ekki lagamál að miða sekt og refsingu við eitthvað sem er óréttmætt. Þetta er til þess eins fallið að gera ákvæðið loðið og lítt skiljanlegra en efni standa til. Þessi orð veikja þetta eina ákvæði sem til er í lögum gegn okurvöxtum. Þess vegna hefði ég talið ágætt skref að réttu marki að fella þessi orð út, lét það sjónarmið mitt koma skýrt fram við umræður um málið í hv. Nd. og er enn sömu skoðunar og fyrr þótt flutningsmaður till. sé nú annar en þá var, þ.e. við fluttum þetta mál á sínum tíma allmörg í fjh.- og viðskn. deildarinnar. Vissulega kom til álita á tímabili að gefa slaka í þessu máli ef málið í heild væri í hættu, en nú hefur verið upplýst að svo muni ekki vera og ég ætla að standa fast á skoðun minni í þessu efni og reyna að stuðla að því að þau lítt skiljanlegu hugtök, sem eru í lagatextanum og umdeild eru í þessu tilviki, falli brott.