Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Vegna orða hv. 1. þm. Vestf. vil ég fullvissa þingheim um að ég hef hvorki gengið á veggi né trassað þetta mál. Á árinu 1986 var skipuð nefnd til að endurskoða lögin með aðild þingflokka og eigenda sjóðsins undir forustu sjútvrn. Þessi nefnd skilaði áliti og þá var ekki sameiginleg niðurstaða í nefndinni. Síðan voru þrír menn skipaðir í hóp til að endurskoða lögin að nýju í tíð síðustu ríkisstjórnar og sú nefnd lagði einfaldlega til að Verðjöfnunarsjóðurinn yrði lagður niður. Síðan hefur orðið sú breyting á að það er byrjað að borga út úr ákveðnum deildum Verðjöfnunarsjóðs án þess að innstæður séu þar fyrir hendi, en fyrri nefndin hafði lagt til að það sem væri til í deildum sjóðsins yrði greitt út á 24 mánuðum.
    Ég tel tímabært að nýju að skipa nefnd í þetta mál, en ég tel óeðlilegt að það sé gert án aðildar eigenda sjóðsins og aðildar sjútvrn. Ég mun hins vegar skipa nefnd til að endurskoða lögin enn á ný til þess að leitast við að ná þar samstöðu og mun leita til þingflokka um aðild að þeirri nefnd. En ég tel á allan hátt óeðlilegt að slík endurskoðun fari fram án aðildar þeirra sem eiga þennan sjóð, en eigendur sjóðsins hafa meiri hluta í sjóðsstjórninni.