Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 1 . mál.


Nd.

1. Frumvarp til laga



um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Með verðbréfi er í lögum þessum átt við hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum.
    Með verðbréfamiðlun er átt við milligöngu, sem veitt er gegn endurgjaldi, um kaup eða sölu verðbréfa og sérfræðiráðgjöf um slík viðskipti.
    Með verðbréfamiðlara er átt við einstakling sem fengið hefur sérstakt leyfi viðskiptaráðherra til verðbréfamiðlunar, sbr. 3. gr., og þá sem starfa undir stjórn og á ábyrgð hans að verðbréfamiðlun.
    Með verðbréfafyrirtæki er átt við fyrirtæki sem sérstaklega er stofnað skv. III. kafla laga þessara til þess að annast verðbréfamiðlun, fjárvörslu og skylda starfsemi fyrir einstaklinga og lögaðila. Verðbréfafyrirtæki annast einnig rekstur verðbréfasjóða og sölutryggingu markaðsverðbréfa.
    Með markaðsverðbréfi er átt við verðbréf í flokki framseljanlegra verðbréfa, þar með talinna hlutabréfa, sem boðin eru einstaklingum og/eða lögaðilum til kaups með almennu útboði þar sem öll helstu einkenni bréfa í hverjum flokki eru hin sömu, þar á meðal nafn útgefanda (skuldara), fyrsti vaxtadagur og endurgreiðslu-, vaxta- og uppsagnarákvæði eftir því sem við getur átt. Markaðsverðbréf skulu ætíð skráð á nafn.
    Með verðbréfasjóði er átt við sjóð, er saman stendur af skuldabréfum, hlutabréfum eða öðrum auðseljanlegum verðbréfum samkvæmt fyrir fram ákveðinni og kunngerðri fjárfestingarstefnu að því er varðar áhættudreifingu, þar sem almenningi eða þrengri hópi manna er gefinn kostur á að eignast hlutdeild í sjóðnum samkvæmt útgefnum skírteinum er að kröfu eiganda þeirra fást innleyst hjá sjóðnum í reiðufé samkvæmt nánari ákvæðum í reglum sjóðsins.
    Með viðskiptavaka er átt við verðbréfafyrirtæki eða annan aðila sem skuldbundið hefur sig til þess að kaupa og selja fyrir eigin reikning ákveðin markaðsverðbréf í því skyni að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á verðbréfunum og til þess að auðvelda þeim, sem áhuga hafa á kaupum bréfanna, að fá þau keypt og þeim sem selja vilja slík bréf að fá kaupanda að þeim.

2. gr.

    Sérhverjum þeim aðila, sem býr yfir trúnaðarupplýsingum um útgefanda markaðsverðbréfa eða um önnur atriði sem ekki hafa verið gerð opinber en líklegar eru til þess að hafa veruleg áhrif á markaðsverð bréfanna ef opinberar væru, er óheimilt að kaupa eða selja viðkomandi verðbréf fyrir eigin reikning eða reikning vandamanna sinna í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón. Hann má heldur ekki veita öðrum aðila vitneskju byggða á trúnaðarupplýsingum sem ætla verður látna í té í því skyni að sá aðili hagnist eða forðist fjárhagslegt tjón með kaupum eða sölu verðbréfanna. Ákvæði þetta tekur jafnt til einstaklinga sem lögaðila.

II. KAFLI

Um verðbréfamiðlara.

3. gr.

    Til þess að annast milligöngu um kaup og sölu verðbréfa og ráðgjöf um slík viðskipti gegn þóknun þarf leyfi viðskiptaráðherra. Leyfi til verðbréfamiðlunar eru aðeins veitt einstaklingum sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
a.     Eru búsettir hér á landi og hafa íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt í öðru Norðurlandaríki.
b.     Hafa náð 20 ára aldri.
c.     Hafa óflekkað mannorð og hafa aldrei verið sviptir forræði á búi sínu.
d.     Hafa sótt námskeið í verðbréfamiðlun sem ráðuneytið gengst fyrir í samvinnu við stjórn Verðbréfaþings Íslands og hafa lokið þar prófi samkvæmt þeim prófkröfum sem settar eru.
e.     Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingarfélagi eða aflað sér bankatryggingar er bæti viðskiptavinum tjón er hann kynni að baka þeim með störfum sínum við verðbréfamiðlun. Nánari skilyrði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála hennar skulu ákveðin með reglugerð.
    Héraðsdóms- og hæstaréttarlögmönnum og löggiltum endurskoðendum er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt í einstökum tilvikum að veita viðskiptamönnum sínum þjónustu sem samkvæmt lögum þessum telst til verðbréfamiðlunar, enda sé hún veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni svo sem búskiptum eða félagsslitum.

4. gr.

    Verðbréfamiðlara ber ávallt að haga störfum sínum á þann hátt að viðskiptamenn hans njóti við kaup og sölu verðbréfa jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör. Skal hann að teknu tilliti til hags og þekkingar viðskiptamanns veita honum greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem honum standa til boða.

5. gr.

    Verðbréfamiðlara er skylt að halda fjármunum viðskiptamanns á sérstökum nafnskráðum reikningi og haga varðveislu verðbréfa hans með tryggilegum hætti.
    Skylt er verðbréfamiðlara að annast um að markaðsverðbréf, sem hann hefur í vörslum sínum, sé skráð á nafn eiganda enda leiðir slík nafnskráning ekki til ábyrgðar framseljanda á efndum skuldbindingarinnar.
    Verðbréfamiðlara er heimilt að framselja verðbréf í nafni viðskiptamanns síns hafi hann fengið til þess skriflegt umboð, en skylt er honum að láta kaupanda verðbréfs í té samrit umboðsins sé þess krafist. Í slíkri framsalsáritun verðbréfamiðlara ber að geta þess að verðbréf sé framselt samkvæmt varðveittu umboði. Verðbréfamiðlara er skylt að varðveita slík umboð svo lengi sem réttindi verða byggð á verðbréfi sem hann hefur framselt með þessum hætti.
    Sá sem veitt hefur verðbréfamiðlara umboð skv. 3. mgr. getur ekki beint kröfum að framsalshafa verðbréfs með stoð í heimildarskorti verðbréfamiðlarans nema umboð hans til framsals hafi sýnilega verið ófullnægjandi.
    Framsalsáritun verðbréfamiðlara á verðbréf skv. 3. mgr. telst ekki slíta framsalsröð þótt umboð til hans fylgi ekki verðbréfinu.

6. gr.

    Verðbréfamiðlara er óheimilt að kaupa verðbréf sem honum er falið til sölu eða að selja eigið verðbréf í rekstri sínum nema um sé að ræða skráð verðbréf á Verðbréfaþingi Íslands.

7. gr.

    Verðbréfamiðlurum og starfsmönnum þeirra er skylt að gæta þagmælsku um öll viðskipti sem þeir hafa milligöngu um og um persónulega hagi viðskiptamanna sem þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema þeim sé gert að veita upplýsingar um þessi efni með dómsúrskurði eða þeim sé að lögum skylt að veita þær. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

8. gr.

    Skylt er verðbréfamiðlara að kunngera viðskiptamanni sínum fyrir fram hverja þóknun hann muni áskilja sér fyrir þjónustu sína og skylt er að senda viðskiptavini skilagrein eftir ósk hans um þau viðskipti sem gerð hafa verið fyrir hans reikning.

9. gr.

    Verðbréfamiðlara ber eftir almennum reglum að bæta viðskiptamanni sínum það tjón sem hann bakar honum með störfum sínum sé ekki mælt fyrir á annan veg í lögum þessum.
    Glatist heimildarskjal eða fjármunir sem verðbréfamiðlari hefur í vörslum sínum í þágu viðskiptamanns ber verðbréfamiðlara að bæta allt það tjón er af því hlýst. Verðbréfamiðlara ber reglulega að koma verðbréfum og öðrum fjármunum viðskiptavina sinna til vörslu í öryggishólfi í viðskiptabanka, sparisjóði eða öðrum viðurkenndum fjárvörslustofnunum.
    Nú skortir verðbréf einhverja þá kosti sem ætla má að áskildir hafi verið og ber þá verðbréfamiðlara að bæta viðskiptamanni sínum það tjón sem af því hlýst, enda verði talið verðbréfamiðlara til gáleysis að hafa ekki vakið athygli viðskiptamanns síns á anmarkanum.

10. gr.

    Verðbréfamiðlara er starfar samkvæmt þessum kafla er óheimilt að reka verðbréfasjóði eða taka við fjármunum frá almenningi til ávöxtunar gegn útgáfu skuldarviðurkenningar eða hlutdeildarskírteina. Honum er einnig óheimilt að veita sölutryggingu á markaðsverðbréfum.

III. KAFLI

Verðbréfafyrirtæki.

11. gr.

    Verðbréfafyrirtæki, sem sérstaklega er stofnað í samræmi við ákvæði laga þessara, getur fengið rekstrarleyfi viðskiptaráðherra og skal fyrirtækið geta leyfisins í firmanafni sínu eða með sérstöku einkenni sem ráðuneytið samþykkir.
    Verðbréfafyrirtæki má ásamt verðbréfamiðlurum annast verðbréfamiðlun gegn þóknun og því skal einnig heimilt að veita sölutryggingu á markaðsverðbréfum, annast fjárvörslu fyrir einstaklinga og lögaðila, reka verðbréfasjóði og skylda starfsemi. Öðrum aðilum en verðbréfafyrirtækjum með fullgildu rekstrarleyfi er óheimilt að annast þá starfsemi er að framan greinir eða einkenna sig sem verðbréfafyrirtæki. Þetta raskar þó eigi rétti innlánsstofnana til þess að reka slíka starfsemi, sbr. lög nr. 86/1985, um viðskiptabanka og lög nr. 87/1985, um sparisjóði, enda sé um að ræða viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi eða þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við hana. Að öðru leyti fer um verðbréfaviðskipti innlánsstofnana samkvæmt ákvæðum laga þessara.
    Skilyrði fyrir leyfi til rekstrar verðbréfafyrirtækis eru sem hér segir:
a.    Fyrirtækið sé hlutafélag með innborguðu hlutafé að fjárhæð a.m.k. 10 milljónir króna.
b.    Stjórnarmenn skulu vera a.m.k. fimm talsins og skulu þeir fullnægja skilyrðum a–c liða 3. gr. laga þessara. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá skilyrði um búsetu og ríkisfang í einstökum tilvikum.
c.    Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fullnægi skilyrðum til að stunda verðbréfamiðlun skv. a–d liðum 3. gr.
d.    Endurskoðun á reikningum fyrirtækisins skal framkvæmd af löggiltum endurskoðendum.
e.    Fyrirtækið skuldbindi sig til þess að veita Seðlabanka Íslands þær upplýsingar um rekstur sinn og viðskipti sem hann telur nauðsynlegar vegna eftirlits með starfseminni og til hagskýrslugerðar.
f.    Fyrirtækið skuldbindi sig til þess að hafa eigi með höndum starfsemi óskylda þeirri sem um getur í 2. mgr.
    Umsókn um rekstrarleyfi skulu fylgja afrit af samþykktum félagsins og gögn er m.a. staðfesti fjárhæð innborgaðs hlutafjár. Jafnframt skulu fylgja umsókn upplýsingar um hvenær fyrirhugað er að fyrirtækið hefji starfsemi sína. Áður en leyfi er veitt skal afla umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
    Heimilt er verðbréfafyrirtæki að starfrækja útibú enda uppfylli daglegur stjórnandi þess skilyrði til að stunda verðbréfamiðlun skv. a–d liðum 3. gr. Tilkynna skal bankaeftirliti Seðlabanka Íslands um stofnun útibús.

12. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. er verðbréfafyrirtæki óheimilt að reka verðbréfasjóð eða verðbréfasjóði nema eigið fé þess nemi a.m.k 1% af höfuðstól verðbréfasjóðsins eða samanlögðum höfuðstól þeirra verðbréfasjóða sem verðbréfafyrirtækið rekur.
    Verðbréfafyrirtæki má eigi taka að sér sölutryggingu verðbréfa fyrir hærri fjárhæð en sem nemur tuttuguföldu eigin fé fyrirtækisins.

13. gr.

    Ákvæði 4.–9. gr. laga þessara eiga einnig við um verðbréfafyrirtæki eftir því sem við á. Heimilt er að ákveða með reglugerð að verðbréfafyrirtæki skuli setja tryggingu fyrir tjóni sem þau kunna að baka viðskiptavinum sínum og skal hámarksfjárhæð tryggingar og fjárhæð í hverju tjónstilviki nánar ákveðin í reglugerðinni.
    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laga þessara er verðbréfafyrirtæki þó heimilt að kaupa fyrir eigin reikning eða selja úr eigu sinni verðbréf, enda hafi fyrirtækið formlega tekið að sér að vera viðskiptavaki varðandi verðbréfin og hafi kunngert það fyrir fram viðskiptavinum sínum og bankaeftirliti Seðlabanka Íslands.

14. gr.

    Verðbréfafyrirtæki skal veita viðskiptavinum sínum greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem það býður varðandi ávöxtun fjár og skal þess gætt að í auglýsingum og annars konar kynningarstarfsemi komi fram réttar og nákvæmar upplýsingar. Verðlagsstofnun setur nánari reglur um slíka upplýsingagjöf að fengnum tillögum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

15. gr.

    Almennt útboð markaðsverðbréfa annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla skal ætíð fara fram með milligöngu verðbréfafyrirtækja. Skal verðbréfafyrirtæki tilkynna markaðsútgáfu verðbréfa til Seðlabanka Íslands eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu ásamt upplýsingum um öll helstu einkenni útgáfunnar svo sem fjárhæð, fyrirhugað sölutímabil,
sölustaði og sameiginleg einkenni bréfanna. Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um gerð útboðsgagna og hann getur sett reglur um fyrsta söludag einstakra verðbréfaflokka í því skyni að koma í veg fyrir sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðnum.
    Við lok sölu eða í lok hvers ársfjórðungs, séu þau fyrr, skal verðbréfafyrirtæki tilkynna Seðlabankanum um heildarsölu bréfa í flokknum á nafnverði og markaðsverði samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum og í lok hvers árs skal enn fremur tilkynna um útistandandi eftirstöðvar í flokknum. Sama gildir um almennt útboð markaðsverðbréfa á vegum annarra aðila eftir því sem við á. Seðlabanki Íslands skal birta reglulega upplýsingar um markaðsverðbréf samkvæmt þessari grein.

16. gr.

    Verðbréfafyrirtæki er skylt að senda þeim viðskiptavinum, sem það tekur við fjármunum frá til ávöxtunar í verðbréfum á annan hátt en í almennum verðbréfasjóði, skilagreinar með reglubundnum hætti eða eftir beiðni þeirra þar sem fram kemur hver verðbréf eða aðra fjármuni viðskiptavinur hefur átt í vörslum þess við lok hvers tímabils, hvaða verðbréf hafi verið keypt eða seld í þágu hans á tímabilinu og á hvaða verði þau viðskipti hafi átt sér stað. Ársyfirlit fyrir næstliðið ár skal senda viðskiptavinum eigi síðar en fyrir lok janúarmánaðar.

17. gr.

    Skylt er verðbréfafyrirtæki að kunngera viðskiptavinum sínum fyrir fram, hverja þóknun það muni áskilja sér fyrir þjónustu þess. Óheimilt er verðbréfafyrirtækjum að sammælast um gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og gilda um það ákvæði laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.
    Breytingar á þóknun endurtekinnar þjónustu er skylt að tilkynna með nægum fyrirvara þannig að unnt sé að endurmeta þau viðskipti sem verið hafa milli aðila.

IV. KAFLI

Verðbréfasjóðir.

18. gr.

    Verðbréfafyrirtæki getur rekið einn eða fleiri verðbréfasjóði, sbr. 6. mgr. 1. gr. Verðbréfasjóð má stofna sem sjálfstætt hlutafélag eða með öðru
félagsformi og skal hver verðbréfasjóður hafa samþykktir og sérstaka stjórn. Verðbréfafyrirtæki kemur fram í eigin nafni fyrir hönd verðbréfasjóðs og tekur ákvarðanir varðandi sjóðinn í samræmi við rekstrarsamning skv. 3. mgr. Í löggerningum, sem varða sjóði í vörslu fyrirtækisins, er skylt að geta þess sjóðs sem verðbréfafyrirtækið kemur fram fyrir hverju sinni. Verðbréfasjóður getur eigi verið aðili að dómsmáli nema málið fjalli um samskipti sjóðsins og verðbréfafyrirtækis sem sér um rekstur hans.
    Í samþykktum verðbréfasjóðs skulu m.a. koma fram eftirfarandi atriði:
a.    Nafn sjóðs og nafn þess verðbréfafyrirtækis, sem rekur sjóðinn.
b.    Hvort sjóðurinn starfar óskiptur eða í aðgreindum deildum.
c.    Fjárfestingarstefna sjóðsins, þ.e. í hvaða tegundum verðbréfafjármunir sjóðsins verði ávaxtaðir og í hvaða hlutföllum áformað sé að fjárfesta í hverjum flokki miðað við heildarverðbréfaeign sjóðsins á hverjum tíma og hvaða lausafjárkvöð sjóðnum er sett.
d.    Útgreiðsla arðs (vaxta), þ.e. hvort arður eða annar hagnaður af verðbréfum sjóðsins verði greiddur út eða honum bætt við höfuðstól hans.
e.    Hvernig reikna skuli út raunvirði hvers hlutar í sjóðnum og hvernig háttað skuli innlausn hlutdeildarskírteina.
f.    Nafn verðbréfafyrirtækis sem ætlunin er að sjái um rekstur sjóðsins.
g.    Hvert sé reikningsár sjóðsins.
h.    Hvernig háttað sé vali stjórnarmanna og endurskoðanda sjóðsins og hvert sé hlutverk stjórnar.
i.    Hvort hægt sé að breyta samþykktum sjóðsins og hvernig skuli að breytingunum staðið.
    Tilkynna skal stofnun verðbréfasjóðs til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands sem heldur sérstaka skrá yfir verðbréfasjóði. Óheimilt er að hefja starfsemi verðbréfasjóðs nema bankaeftirlitið hafi staðfest samþykktir hans.
    Verðbréfasjóður skal hafa samning við verðbréfafyrirtæki um rekstur sjóðsins. Skal rekstrarsamningur jafnan vera aðgengilegur viðskiptavinum sjóðsins. Í rekstrarsamningi skal kveða á um þóknun verðbréfafyrirtækis fyrir hvers konar umsýslu með sjóðinn, kaup og varðveislu verðbréfa, innlausn hluta, kostnað við endurskoðun, auglýsingar o.s.frv. Einnig um það hvernig reikna skuli út þær greiðslur sem koma í hlut verðbréfafyrirtækisins fyrir sölu og innlausn á sjóðshlutum og hver sé hámarkssöluþóknun og hámarksfrádráttur frá ákvörðuðu sölu- eða innlausnarverði hvers hlutar í sjóðnum.
    Stjórn verðbréfasjóðs getur ákveðið breytingu á samþykktum sjóðsins ef ekki er öðruvísi kveðið á í stofnsamþykktum hans. Breytingar á samþykktum verðbréfasjóðs taka eigi gildi nema bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi staðfest þær. Samþykktir verðbréfasjóðs og breytingar á þeim skulu staðfestar ef þær eru í samræmi við lög, enda séu þær í meginatriðum í samræmi við hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina og engar aðrar fullgildar ástæður mæli móti staðfestingunni. Skjóta má synjun bankaeftirlitsins til endanlegrar ákvörðunar ráðherra, en einnig má bera hana undir dómstóla með málshöfðun innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun bankaeftirlitsins var kunngerð stjórn sjóðsins.
    Tilkynna skal eigendum hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði um hverja breytingu á samþykktum verðbréfasjóðs og jafnframt skal auglýsa hana opinberlega. Breyting á samþykktum verðbréfasjóðs tekur gildi þremur mánuðum eftir að breytingin hefur verið staðfest og tilkynnt til verðbréfasjóðaskrár nema bankaeftirlitið gefi önnur fyrirmæli þar að lútandi.

19. gr.


    Í verðbréfasjóðaskrá, sem Seðlabanki Íslands heldur, skal skrá þá verðbréfasjóði sem fengið hafa staðfestingu bankaeftirlits Seðlabanka Íslands á samþykktum sínum. Þar skal einnig skrá hvaða verðbréfafyrirtæki rekur verðbréfasjóð, svo og nöfn stjórnarmanna og endurskoðenda sjóðsins. Þess skal gætt við skráningu að nöfn verðbréfasjóða séu eigi svo lík að valdið geti misskilningi viðskiptavina.
    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um staðfestingu á samþykktum verðbréfasjóðs eða breytingu á þeim og um nöfn stjórnarmanna og endurskoðenda sjóðsins. Einnig skal þar taka fram nafn þess verðbréfafyrirtækis er rekur sjóðinn. Óheimilt er að taka við fjármunum til ávöxtunar í verðbréfasjóði fyrr en tilkynningin hefur verið birt.

20. gr.

    Gefa skal út verðbréf í formi hlutdeildarskírteina til þeirra sem fá verðbréfafyrirtæki fjármuni til ávöxtunar í verðbréfasjóði. Skírteini þessi skulu ætíð skráð á nafn. Allir, sem eiga hlutdeild að verðbréfasjóði eða sérgreindri deild hans, eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar í hlutfall við eign sína og skírteinin eru staðfesting á tilkalli til skuldabréfaeignar sjóðsins. Eigandi hlutdeildarskírteinis hefur réttarstöðu lánardrottins gagnvart verðbréfasjóði.
    Sala hlutdeildarskírteina fer fram hjá viðkomandi verðbréfafyrirtæki, en það getur einnig falið öðrum aðilum að annast þá sölu svo sem sjálfstætt starfandi verðbréfamiðlurum, bönkum og sparisjóðum.

21. gr.

    Í hlutdeildarskírteini skal eftirtalinna atriða m.a. getið:
a.    Nafns og kennitölu upphaflegs eiganda skírteinis, nafns verðbréfasjóðs og nafns verðbréfafyrirtækis.
b.    Númers hlutdeildarskírteinis.
c.    Hvernig sjóðshlutur verði innleystur og/eða hvaða reglur gildi um arðgreiðslur.
d.    Hvar finna megi samþykktir verðbréfasjóðs, ársfjórðungsskýrslur og aðrar skýrslur um starfsemina.
e.    Nafns og kennitölu framsalshafa, hafi hlutdeildarskírteini gengið kaupum og sölum án innlausnar hjá því verðbréfafyrirtæki er annast rekstur verðbréfasjóðsins.
    Hlutdeildarskírteini skal vera dagsett og undirritað af stjórn verðbréfasjóðs eða þeim sem hún hefur gefið umboð til þess. Nafnritunin má vera prentuð eða framsett á annan sambærilegan hátt.

22. gr.

    Verðbréfafyrirtæki skal færa skrá yfir öll hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði. Í skránni skal m.a. koma fram:
a.    Nafn eiganda og kennitala.
b.    Númer skírteinis og söludagur þess.
c.    Nafnverð skírteina.
d.    Heildarfjöldi útistandandi skírteina.
    Eigendaskipti að hlutdeildarskírteinum, sem eigandi tilkynnir um til verðbréfafyrirtækis og aðrar þær upplýsingar sem því berast varðandi eignarhald að skírteinum, skulu færð inn á skrána ásamt því að heimild tilkynningar er skráð.
    Kjósi eigendur hlutdeildarskírteina fulltrúa í stjórn verðbréfasjóðs samkvæmt samþykktum sjóðsins skal gera nafnaskrá ásamt upplýsingum um atkvæðafjölda þar sem fram komi nöfn allra eigenda sem lýsa áhuga á að taka þátt í kosningunni. Öllum eigendum, sem áhuga hafa, er heimilt að fá afrit af þessari skrá gegn greiðslu ljósritunarkostnaðar eigi síðar en þremur vikum fyrir kjörfund.

23. gr.

    Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum hans við innlausn, svo sem skuldum sjóðsins við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum.
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um útreikning innlausnarvirðis hlutdeildarskírteina.

24. gr.

    Eignum verðbréfasjóðs skal halda aðgreindum frá eignum verðbréfafyrirtækis sem rekur sjóðinn. Eignir hans verða ekki kyrrsettar eða teknar fjárnámi vegna skulda verðbréfafyrirtækis, sbr. þó kröfur vegna lánveitinga til innlausnar á bréfum og öðrum eignum sjóðsins skv. 27. gr. Eigendur hlutdeildarskírteina verða eigi gerðir persónulega ábyrgir vegna skuldbindinga verðbréfasjóðsins umfram verðmæti eignar þeirra í sjóðnum.

25. gr.

    Verðbréf verðbréfasjóða er skylt að varðveita í öryggishólfi. Rétt er verðbréfafyrirtæki að fela viðskiptabanka eða sparisjóði vörslu verðbréfa og aðrar fjárvörslur er stjórn þess telur nauðsynlegar eða ákveðið er í samþykktum fyrir verðbréfasjóð sem það rekur.

26. gr.

    Verðbréfafyrirtæki má eigi hafa viðskipti við verðbréfasjóð í umsjón þess með því móti að starfsmenn fyrirtækisins, eigendur eða stjórnarmenn selji sjóðnum verðbréf eða kaupi af honum önnur verðbréf en hlutdeildarskírteini sjóðsins sjálfs. Sama gildir um nána venslamenn þeirra ef ætla má að viljaafstaða þess, sem gætir hagsmuna verðbréfasjóðsins, mótist af venslunum. Undantekningu má þó gera með verðbréf sem skráð eru í Verðbréfaþingi Íslands, enda sé þar ekki á neinn hátt um óvenjuleg viðskipti að ræða og þau séu samþykkt af stjórn sjóðsins og bókuð í gerðabók hennar.

27. gr.

    Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að taka önnur lán í nafni verðbréfasjóðs en skammtímalán til að innleysa bréf eða eignir sjóðsins. Slík lán mega þó eigi fara upp fyrir 20% af eignum sjóðsins. Óheimilt er að veita peningalán úr verðbréfasjóði eða láta hann ganga í ábyrgðir fyrir aðra.

28. gr.

    Óheimilt er að fjárfesta meira en 5% af eignum verðbréfasjóðs í bréfum útgefnum af einum skuldara (skuldabréf eða aðrar viðskiptakröfur) eða í hlutabréfum eins fyrirtækis. Þetta gildir þó eigi ef um er að ræða verðbréf með ríkisábyrgð, ábyrgð innlánsstofnana eða önnur verðbréf sem teljast sambærilega örugg og verslað er með á Verðbréfaþingi Íslands, svo og meðan heildareign sjóðsins hefur eigi náð 5 milljónum króna. Meðan heildareign verðbréfasjóðs er innan við 5 milljónir króna skulu þó skuldabréf útgefin af einum skuldara, önnur en verðbréf með ríkisábyrgð, ekki nema meira en 33% heildarverðbréfaeignar verðbréfasjóðsins.
    Óheimilt er að fjárfesta meira en 5% af eigum verðbréfasjóðs eða einstakra deilda hans í verðbréfasjóðum sem reknir eru af öðrum verðbréfafyrirtækjum.
    Verðbréfasjóður má ekki eiga meira en 10% hlutabréfa í einu félagi.
    Eigi má fjárfesta eigur verðbréfasjóðs í fasteignum. Verðbréfafyritæki fyrir hönd verðbréfasjóðs er þó heimilt að yfirtaka fasteignir til að tryggja fullnustu kröfu er sjóður kann að eiga. Fasteignirnar skulu þó seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt að mati sjóðsstjórnar og eigi síðar en innan 18 mánaða frá yfirtöku fasteignarinnar. Heimilt er þó í undantekningartilvikum að draga sölu fasteigna lengur en í 18 mánuði enda sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu fasteigna skal tilkynna bankaeftrliti Seðlabanka Íslands sem getur þá krafist sölu á fasteignum innan viðeigandi tímafrests.

29. gr.

    Verðbréfafyrirtæki skal kappkosta að verðbréfasjóðir í umsjá þess hafi ætíð yfir að ráða lausu fé til að geta innt af hendi greiðsluskuldbindingar sínar. Þó skal laust fé aldrei nema lægra en 2% af innlausnarverðmæti verðbréfa í sjóðnum á hverjum tíma. Með lausu fé er átt við peninga í sjóði, óbundin nettóinnlán í bönkum, ríkisvíxla eða önnur verðbréf sem öruggur kaupandi er að innan 30 daga. Einnig skal telja að 2 / 3 hlutum væntanlegar afborganir og arð af verðbréfum sem sjóðurinn fær á sama tíma.
    Heimilt er bankaeftirliti Seðlabanka Íslands að veita tímabundna undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því.

30. gr.

    Ráðherra getur heimilað Seðlabanka Íslands að láta sömu reglur gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru
innlánsstofnunum skv. 1.–3. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.

V. KAFLI

Ársreikningar og endurskoðun.

31. gr.

    Reikningsár verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis skal ákveðið í samþykktum þeirra. Ársreikning skal semja fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma ársskýrslu, rekstrarreikning og efnahagsreikning.
    Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju bæði að því er varðar mat á hinum ýmsu liðum og framsetningu. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings í reglugerð.

32. gr.

    Endurskoðun skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Endurskoðandi verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis má ekki sitja í stjórn þeirra, vera starfsmaður eða að öðru leyti starfa í þeirra þágu að öðru en endurskoðun.
    Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eigum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum verðbréfasjóðs og jafnframt skulu starfsmenn verðbréfafyrirtækis veita honum allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.

33. gr.

    Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Þeir skulu gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Þeir skulu láta í ljós álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
    Telji endurskoðandi að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
    Endurskoðanda er skylt að veita bankaeftirlitinu allar þær upplýsingar um málefni verðbréfafyrirtækis og verðbréfasjóðs og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir og hann getur látið í té.
    Ef endurskoðun leiðir í ljós verulega ágalla á rekstri verðbréfasjóðs varðandi framkvæmd rekstursins, greiðslutryggingar eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins skal endurskoðandi sjóðsins gera stjórn hans og bankaeftirlitinu viðvart.

VI. KAFLI

Eftirlit.

34. gr.

    Rekstur verðbréfasjóðs er háður eftirliti bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Um eftirlitið skulu gilda sömu reglur og gilda um eftirlit með innlánsstofnunum, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, eftir því sem við getur átt. Þyki bankaeftirlitinu rekstur verðbréfasjóðs vera athugaverður og eigi fæst þar bætt úr við ábendingar þess getur það lagt til við ráðherra að hann afturkalli rekstrarleyfi viðkomandi verðbréfafyrirtækis. Þetta á t.d. við, ef verðbréfafyrirtæki brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim, fjárhagur þess þykir ótraustur ef eigi er farið eftir þeirri stefnumörkun um tegundir verðbréfa og áhættudreifingu sem bundin er í samþykktum sjóðsins, ef rekstraraðili heldur eigi fjárreiðum sjóðsins aðgreindum frá öðrum þáttum starfsemi sinnar eða ef rekstraraðili stendur eigi bankaeftirlitinu skil á þeim upplýsingum um reksturinn sem krafist er í lögum þessum. Sé leyfi verðbréfafyrirtækis afturkallað skal ráðherra skipa þriggja manna skilanefnd sem sér um ráðstöfun þeirra verðbréfasjóða sem fyrirtækið hefur rekið, um flutning þeirra til annars verðbréfafyrirtækis eða um slit þeirra, sölu verðbréfaeignar og skil á innkomnu söluverði til eigenda hlutdeildarskírteina og annarra kröfuhafa. Skilanefnd skal leitast við að hafa samráð við eigendur hlutdeildarskírteina um ráðstöfun viðkomandi verðbréfasjóðs.
    Senda skal bankaeftirliti Seðlabankans endurskoðaða ársreikninga verðbréfasjóðs í síðasta lagi 30 dögum eftir undirritun þeirra og eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Reikningunum skal fylgja skýrsla löggilts endurskoðanda þar sem m.a. komi fram hvernig útreikningi á verðbréfaeign sjóðsins er háttað. Meginniðurstöður ársreikninga skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu einnig liggja frammi í starfsstöðvum viðkomandi verðbréfafyrirtækis og vera aðgengilegar fyrir viðskiptamenn.
    Ársfjórðungslegt efnahagsyfirlit í því formi, sem bankaeftirlitið ákveður, skal einnig senda því og það skal liggja frammi á starfsstöðvum verðbréfafyrirtækis.
    Auk reikninga verðbréfasjóða samkvæmt ramangreindu skal einnig senda bankaeftirliti Seðlabankans endurskoðaða ársreikninga verðbréfafyrirtækis í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs og verðbréfafyrirtækjum er skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1986.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

35. gr.

    Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum verðbréfamiðlara, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða vegna viðskipta þeirra með erlend verðbréf í samræmi við þær reglur sem gilda um starfsemi þess.

36. gr.

    Brot á lögum þessum varðar sektum eða fangelsi allt að átta mánuðum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
    Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

37. gr.

    Viðskiptaráðherra er heimilt að svipta verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtæki starfsleyfi um stundarsakir standi yfir opinber rannsókn vegna meints brots leyfishafa á ákvæðum laga þessara. Í slíku tilviki skal ráðherra skipa umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir til þess að tryggja hag viðskiptamanna viðkomandi aðila.

38. gr.

    Viðskiptaráðherra getur í reglugerð hækkað lágmarksfjárhæð hlutafjár skv. 11. gr. í samræmi við verðlagsbreytingar frá gildistöku laga þessara.

39. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru þá úr gildi felld lög nr. 27 frá 2. maí 1986, um verðbréfamiðlun.

Ákvæði til bráðabirgða.


1.    Við gildistöku laga þessara ber þeim, sem telur til eignar eða annars réttar yfir markaðsverðbréfi, sem fullnægir ekki ákvæðum 5. mgr. 1. gr. laga þessara, að árita það um eignarhald sitt eða réttindi til þess. Sama skylda hvílir á þeim sem varðveitir slík verðbréf í umboði eiganda við gildistöku laga þessara.
2.    Verðbréfamiðlurum, sem hlotið hafa réttindi samkvæmt lögum nr. 27/1986, ber að tilkynna útgáfu markaðsverðbréfa skv. 5. mgr. 1. gr., sbr. 14. gr. laga þessara, sem átt hefur sér stað með milligöngu þeirra fyrir 1. janúar 1989, á þann hátt sem fyrir er lagt í 14. gr.
3.    Þeir sem við gildistöku laga þessara starfrækja verðbréfamiðlun skv. lögum nr. 27/1986, verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði skulu uppfylla ákvæði laga þessara eigi síðar en 1. mars 1989. Bankaeftirliti Seðlabankans er þó heimilt að veita lengri frest mæli sérstakar ástæður með því. Slíkur frestur verður þó aldrei veittur lengur en til 1. júní 1989.
.    Þeir sem fengið hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum nr. 27/1986 við gildistöku laga þessara skal eigi skylt að sækja námskeið skv. d-lið, 3. gr.
4.    Hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum, sem út hafa verið gefin fyrir gildistöku laga þessara, halda gildi sínu þótt þau fullnægi ekki ákvæðum 21. gr. laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til þess að tryggja að öruggar og sanngjarnar reglur gildi um hvers konar starfsemi á fjármagnsmarkaði og að sams konar reglur gildi um sams konar starfsemi á þessu sviði. Á síðustu árum hafa verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir vaxið mjög og því brýn þörf orðin á því að setja reglur um þessa starfsemi til þess að tryggja öryggi og eftirlit með þessum viðskiptum.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Lög verða sett um hvers konar starfsemi á fjármagnsmarkaði.“ Og í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum segir: „Sett verða lög um starfsemi á fjármagnsmarkaði utan bankakerfis á grundvelli fyrirliggjandi frumvarpa.“ Þetta frumvarp er eitt þeirra.
    Frumvarpið er að stofni til samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði hinn 16. febrúar 1988 til að fjalla um starfsemi á fjármagnsmarkaði utan banka
og sparisjóða. Viðskiptaráðherra hefur aukið í frumvarpið, eins og nefndin gekk frá því, 30. gr. sem heimilar að sömu reglur gildi um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum.
    Í nefnd þeirri sem samið hefur frumvarpið voru: Björn Friðfinnsson, aðstoðarmaður ráðherra, formaður, Tryggvi Axelsson, deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu, Guðmundur H. Garðarsson alþingismaður, Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður, Kjartan Jóhannsson alþingismaður, Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Sveinbjörn Hafliðason, lögfræðingur Seðlabanka Íslands, Þórður H. Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
    Vegna anna Guðmundar H. Garðarssonar gat hann eigi mætt nema á fáum nefndarfundum, en Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, tók sæti hans í staðinn.
    Nefndin ákvað að láta endurskoðun á lögum nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun, og samningu lagaramma um verðbréfasjóði almennt verða fyrsta verkefni sitt og skilaði hún tillögum sínum þar að lútandi til viðskiptaráðherra í apríl 1988. Sú niðurstaða var einnig eðlileg þar sem við setningu þeirra laga var ráðgert að endurskoða þyrfti löggjöfina innan fárra ára.
    Í fyrsta lagi tók nefndin fyrir starfsemi verðbréfamiðlara, en frá setningu laganna nr. 27/1986 hafa alls 39 einstaklingar fengið leyfi til verðbréfamiðlunar (1. september 1988) og hafa þeir stundað verðbréfamiðlun ýmist eingöngu í eigin nafni eða á vegum fjármálastofnana. Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á lagaákvæðum um verðbréfamiðlara, snúa einkum að hæfisskilyrðum manna til að fá leyfi til verðbréfamiðlunar, sbr. II. kafla frumvarpsins, og nánari afmörkun á starfssviði þeirra gagnvart verðbréfafyrirtækjum.
    Í III. kafla frumvarpsins eru svo ákvæði um verðbréfafyrirtæki, en það eru fyrirtæki sem sérstaklega eru stofnuð til þess að annast verðbréfamiðlun, fjárvörslu og skylda starfsemi fyrir einstaklinga og lögaðila sem ávaxta vilja fjármuni í verðbréfum. Einnig geta verðbréfafyrirtæki annast rekstur verðbréfasjóða og sölutryggingu verðbréfa. Gerðar eru mun strangari kröfur til verðbréfafyrirtækja en verðbréfamiðlara varðandi fjárhagsstöðu og tryggingar og er það í samræmi við hið víðtæka starfssvið verðbréfafyrirtækjanna.
    Í IV. kafla er að finna ákvæði um verðbréfasjóði. Starfsemi verðbréfasjóða hér á landi hófst árið 1985, en hún er fólgin í því að festa fé í mismunandi tegundum verðbréfa í ákveðnu hlutfalli og selja hlutdeildarskírteini í sjóðnum til almennings. Eru þetta stundum nefndir gagnkvæmir verðbréfasjóðir þar sem
almenningur nýtur þeirrar meðalávöxtunar, sem viðkomandi sjóður hefur af verðbréfaeign sinni. Í árslok 1987 voru 13 verðbréfasjóðir starfandi hérlendis.
    Starfandi verðbréfasjóðir hafa einkum fest fé í skuldabréfum, en búast má við að í framtíðinni verði settir á stofn sjóðir sem sérhæfa sig í fjárfestingu í hlutabréfum og öðrum gerðum verðbréfa en nú er, þannig að tilboð verðbréfasjóðanna til sparifjáreigenda verði fjölbreyttari og hefur verið tekið nokkuð mið af því við samningu þessa frumvarps.

    Fjárhagsstaða íslenskra verðbréfasjóða í árslok 1985–1987 var sem hér segir (í milljónum króna talið):


     1985 1986 1987
Eignir:
Sjóður og innstæður .................................     51325

Verðbréfaeign .......................................      379 1.255 3.649

Spariskírteini ....................................     125
Með bankaábyrgð ...................................     368
Með fasteignaveði .................................     1.401
Með sjálfsskuldarábyrgð ...........................     795
Stuttar viðskiptakröfur ...........................     498
Annað .............................................     462

Eignir samtals ......................................     3841.2683.674

Skuldir:
Útgefin hlutdeildarskírteini .......................     3791.2683.674
Eigið fé og annað, nettó ............................     3139

    Eins og sjá má af framangreindu er hér þegar um mikilvægar stofnanir í fjármálum þjóðarinnar að ræða. Nefndin er sammála um það, að megintilgangur laga um verðbréfamiðlun og verðbréfasjóði eigi að vera að stuðla að heilbrigðri þróun á verðbréfamarkaði, m.a. með því að tryggja hag þeirra sem kjósa að ávaxta sparifé sitt með kaupum hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðunum. Í því sambandi þarf að aðskilja fjárhag
verðbréfafyrirtækja sem reka verðbréfasjóði og sjóðina sjálfa, setja ákvæði varðandi upplýsingagjöf slíkra fyrirtækja gagnvart viðskiptavinum sínum svo og ákvæði um samþykktir verðbréfasjóða.
    Þá hefur nefndin endurskoðað ákvæði laganna frá 1986 um verðbréfamiðlun í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur og hún hefur leitast við að gera í tillögum sínum greinarmun á starfi verðbréfamiðlara annars vegar og verðbréfafyrirtækja hins vegar. Nefndin hefur í starfi sínu haft hliðsjón af löggjöf nágrannaríkjanna um verðbréfamiðlun og verðbréfasjóði og þá einkum nýleg ákvæði í finnskri löggjöf.
    Í V. kafla frumvarpsins eru ákvæði um ársreikninga og endurskoðun, í VI. kafla eru ákvæði um eftirlit með starfseminni og loks eru í VII. kafla frumvarpsins gildistöku- og refsiákvæði. Þá eru í lok frumvarpsins ákvæði til bráðabirgða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.



Um I. kafla.


    Í I. kafla frumvarpsins er annars vegar fjallað um skýringar á hugtökum sem notuð eru í frumvarpinu og hins vegar um svokölluð „innherjaviðskipti“ sem á enskri tungu nefnast „insider trading“. Þau hugtök, sem hér um ræðir eru byggð að nokkru á skilgreiningunum sem lög nr. 27/1986 höfðu að geyma, en önnur eru nýmæli sem miðast við viðfangsefni þessa frumvarps.

Um 1. gr.


    Hugtökin verðbréf, verðbréfamiðlun og verðbréfamiðlari hafa áður verið skilgreind í lögum nr. 27/1986.
    Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga er hugtakið verðbréf afmarkað á þann veg að það nær ekki aðeins til skuldabréfa, hlutabréfa, víxla og annarra áþekkra viðskiptabréfa heldur einnig til loforða um peningagreiðslu af öðru tagi svo sem tékka og greiðslukortanótur. Fyrsta atriði skilgreiningarinnar er að um sé að ræða „hvers konar framseljanleg kröfuréttindi“. Hún er því ekki bundin við ákveðið form skuldbindingar, heldur nægir að skuldbinding sé hæf til framsals og gildir einu hvort slík framsöl þurfi að fara fram skriflega eða með öðrum hætti. Skilgreining þessi byggir á því að hin framseljanlegu kröfuréttindi séu að meginreglu „til peningagreiðslu eða ígildis hennar“. Skiptir ekki máli hvort kveðið sé í skuldbindingu á um efndir hennar með greiðslu ákveðinnar peningafjárhæðar eða öðrum verðmætum sem almennt verðgildi hafa. Hugtakið hefur jafnframt
víðtækari merkingu því að einnig er ætlast til að það nái til framseljanlegra skilríkja fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða sérstaklega ákveðnum lausafjármunum. Nær hugtakið samkvæmt þessu t.d. til framseljanlegra farmskírteina, en hins vegar ekki til skilríkja fyrir eignarréttindum að fasteign né heldur til skilríkja fyrir eignarrétti að bifreiðum eða áþekkum lausafjármunum.
    Hugtakið verðbréfamiðlun er einnig skilgreint í lögum nr. 27/1986. Þar er það skilgreint á þann hátt að um sé að ræða hvers konar milligöngu um kaup eða sölu verðbréfs. Milliganga sem þessi fælist væntanlega tíðast í því að hafa með höndum rekstur sem hefur að tilgangi að koma á viðskiptum milli tveggja utanaðkomandi aðila með verðbréf. Það skiptir hins vegar ekki máli í þessu sambandi hvort milligöngumaðurinn hefur atvinnu af slíkri starfsemi eða ekki njóti hann endurgjalds eða ávinnings af einhverju tagi fyrir framlag sitt til að koma viðskiptasambandi á.
    Til verðbréfamiðlunar telst enn fremur að kaupa eða selja verðbréf í annarra þágu og er enginn greinarmunur á því gerður hvort þau viðskipti eigi sér stað í nafni milligöngumannsins eða umbjóðanda hans. Skiptir hér ekki heldur máli hvort milligöngumaðurinn hefur atvinnu af umboðsmennsku sem þessari eða ekki, en það skilyrði hins vegar sett að hann njóti endurgjalds eða ávinnings af öðru tagi fyrir atbeina sinn að viðskiptunum.
    Til verðbréfamiðlunar í skilningi frumvarpsins telst enn fremur veiting sérfræðilegrar ráðgjafar um verðbréfaviðskipti gegn endurgjaldi. Þykir eðlilegt að þessi þáttur verðbréfaviðskipta falli undir hugtak þetta og verði þar með háð veitingu starfsleyfis þar sem sérfræðiráðgjöf í ágóðaskyni til annarra um kaup eða sölu verðbréfs getur eðli málsins samkvæmt verið ein þýðingarmesta ástæðan til ákvörðunar kaupanda eða seljanda um viðskiptin.
    Hugtakið verðbréfamiðlari er skilgreint í lögum nr. 27/1986 á sama hátt og hér er gert. Er það sá einstaklingur sem hlut á að verðbréfaviðskiptum með þeim hætti sem skilgreint er í 2. mgr. Fá þarf sérstakt leyfi til þess að mega starfa sem verðbréfamiðlari og gilda um það ákvæði 3. gr. Leyfishafi getur haft menn í þjónustu sinni sem starfa undir stjórn hans og á hans ábyrgð. Hafi slíkir starfsmenn ekki sjálfstætt leyfi til verðbréfamiðlunar teljast þeir í starfi sínu koma fram í umboði leyfishafans. Þeir teljast samkvæmt ákvæði þessu verðbréfamiðlarar í skilningi frumvarpsins og hvíla því á þeim sömu skyldur í starfi og á leyfishafanum sjálfum. Af þessu leiðir að leyfishafinn telst skaðabótaskyldur baki starfsmaður hans viðskiptavini tjón með starfi sínu við verðbréfamiðlun og getur að sama skapi glatað leyfi til
verðbréfamiðlunar vegna athafna starfsmanns. Verður að ætla að þetta leiði til þess að leyfishafi komi í reynd til með að stjórna starfseminni, en ljái ekki aðeins nafn sitt til hennar. Í frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að rýmkuð verði skilyrði um menntun verðbréfamiðlara, en þess í stað krafist að þeir sæki námskeið og taki sérstök próf til þess að fá leyfi til verðbréfamiðlunar. Þannig telur nefndin æskilegt að inntökuskilyrði séu rúm og þeir er við verðbréfamiðlun starfa, aðrir en forstöðumenn verðbréfamiðlunar eða verðbréfafyrirtækis, sæki einnig námskeið samkvæmt þessari grein.
    Um verðbréfafyrirtæki er fjallað í fyrsta sinn í þessu frumvarpi og er leitast við að greina á milli verðbréfafyrirtækis og verðbréfamiðlara í greininni, en verðbréfafyrirtæki hefur mun víðtækara verksvið en verðbréfamiðlari eins og verksvið verðbréfafyrirtækis er skilgreint í III. kafla frumvarpsins.
    Verðbréfafyrirtæki eru sérstaklega stofnuð til þess að annast verðbréfamiðlun, sbr. 2. mgr., fjárvörslu og skylda starfsemi fyrir einstaklinga og lögaðila sem ávaxta vilja fjármuni í verðbréfum. Þessi fyrirtæki annast einnig rekstur verðbréfasjóða, sbr. 6. mgr. þessarar greinar og IV. kafla frumvarpsins, og jafnframt annast þau sölutryggingu markaðsverðbréfa (sem á enskri tungu er nefnt „underwriting securities“). Þessa starfsemi, þ.e. rekstur verðbréfasjóða og sölutryggingu markaðsverðbréfa, er verðbréfamiðlurum, sbr. skilgreiningu 3. mgr., hins vegar óheimilt að hafa með höndum, sbr. 10. gr. frumvarpsins.
    Skilgreiningin á markaðsverðbréfi er nýlunda. Þar er átt við skuldabréf eða hlutabréf sem eru hlutdeildarbréf í flokki samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups.
    Rétt þykir að greina slík verðbréf frá öðrum vegna upplýsinga sem talið er nauðsynlegt að afla og birta opinberlega eins og greint er nánar í athugasemdum við 15. gr.
    Sé um skuldabréf að ræða er þess meðal annars getið að endurgreiðsluákvæði bréfa í tilteknum flokki skuli vera hin sömu. Með því er m.a. átt við að öll bréf í flokknum hafi sama, eða sömu, gjalddaga. Slík stöðlun auðveldar mat á verðmæti bréfanna og stuðlar því að greiðum viðskiptum með þau.
    Gert er ráð fyrir að markaðsverðbréf séu ætíð skráð á nafn. Það getur tryggt hagsmuni eiganda ef bréf glatast og fá þarf það ógilt með dómi vegna útgáfu nýs bréfs í þess stað. Samkvæmt lögum nr. 13 frá 10. apríl 1979 er skylt að skrá verðtryggðar fjárskuldbindingar á nafn kröfueiganda. Með nafnskráningu allra markaðsverðbréfa, verðtryggðra og óverðtryggðra eins og
gert er ráð fyrir í greininni, er komin á nokkur samræming í þessum efnum. Þá má ætla að nafnskráning sé til þess fallin að vekja traust á verðbréfaviðskiptum og stuðla að heilbrigðri þróun þeirra. Loks má nefna þá framtíðarsýn að verðbréfaviðskipti verði „pappírslaus“, þ.e. einungis skráð í tölvu, en ekki prentuð á pappír. Slík tækni hefur þegar verið tekin upp í nágrannalöndunum („værdipapircentral“), en grundvallaratriði í því sambandi er að nafn kröfuhafa sé einnig skráð. Skuldabréf af öðru tagi en því sem lagaákvæði þetta tekur til hafa þó einnig gengið kaupum og sölum í ríkum mæli, svo sem verðtryggð skuldabréf sem ekki eru markaðsverðbréf en ætíð skulu hljóða á nafn og skuldabréf sem ekki eru verðtryggð og hljóða á handhafa bréfsins. Hér er skylda til nafnskráningar bundin við markaðsverðbréf, en vafalaust munu óverðtryggð skuldabréf, sem ekki teljast markaðsverðbréf og gefin eru út til handhafa, áfram ganga kaupum og sölum milli manna.
    Í 6. mgr. er skilgreint hugtakið verðbréfasjóður, en með því er átt við sérhvern lögaðila, sbr. IV. kafla frumvarpsins, sem hefur það markmið að kaupa og selja verðbréf í eigin nafni, en almenningur getur átt aðild að. Sú starfsemi, sem hér um ræðir, er nýlega til komin hérlendis. Markmið hennar yrði jafnan það að taka við fjármunum til sameiginlegra fjárfestinga til hagsbóta þeim sem leggja fé af mörkum í því skyni og dreifa þannig áhættu af áföllum í verðbréfaviðskiptum. Sá lögaðili, sem hefur slíka starfsemi með höndum, getur gegnt hlutverki sínu með ýmsum hætti, en gera verður ráð fyrir að það verði jafnan gert með því að kaupa verðbréf og selja í nafni lögaðilans í því skyni að afla ávinnings. Skilgreining þessa hugtaks er í frumvarpi þessu bundin við að lögaðili af þessu tagi sé í hlutafélagsformi eða hafi sett sér samþykktir í samræmi við 18. gr. frumvarpsins og að skilríki fyrir aðild að honum felist í skuldarviðurkenningu hans — hlutdeildarskírteini í sjóðnum. Það er einnig skilyrði þess að félag eða stofnun með þessum tilgangi teljist verðbréfasjóður í merkingu frumvarpsins, að almenningur eða þrengri hópur manna eigi kost á aðild að honum. Eins og síðar er vikið að ráðgerir frumvarpið að það sé skilyrði fyrir rekstri verðbréfasjóðs í þessum skilningi að hann sé rekinn af verðbréfafyrirtæki skv. III. kafla frumvarpsins.
    Hugtakið viðskiptavaki er nýmæli í lögum, en þar er um að ræða aðila sem tekist hefur á hendur ákveðnar skyldur á verðbréfamarkaði. Slíkir aðilar nefnast „market makers“ á enskri tungu og er það forsenda fyrir starfsemi þeirra að þeir hafi skuldbundið sig til þess að kaupa og selja fyrir eigin reikning markaðsverðbréf ákveðinnar gerðar í því skyni að auðvelda þeim sem kaupa vilja slík bréf að finna seljanda og þeim sem selja vilja bréfin að
finna að þeim kaupanda. Starfsemi viðskiptavaka þykir til þess fallin að auðvelda eðlilega verðmyndun á viðkomandi markaðsverðbréfum.

Um 2. gr.


    Hér er fjallað um „innherjaviðskipti“, en á það getur t.d. reynt í viðskiptum með hlutabréf að menn notfæri sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir eiga aðgang að, til þess að afla sér skjótfengins gróða. Á ensku nefnist sá aðili, sem býr yfir trúnaðarupplýsingum í merkingu þessarar greinar, „insider“ og er hér notað orðið „innherji“ um slíkan aðila.
    Innherjaviðskipti hafa að undanförnu verið mjög á dagskrá í nágrannaríkjunum vegna lögbrota sem þar hafa komið upp og er þar nú rætt um að setja strangari reglur um þetta atriði. Í mörgum ríkjum eru ákvæði í lögum þess efnis að aðili, er býr yfir viðkvæmum upplýsingum um tiltekið fyrirtæki, skuli ekki hagnast á því með viðskiptum með bréf þess fyrirtækis á markaði. Slíku athæfi er jafnað við auðgunarbrot. Í Bandaríkjunum eru ströng viðurlög við innherjaviðskiptum og eru mörg dæmi þess að þeim hafi verið beitt. Innan Evrópubandalagsins eru ákvæði um þetta efni í lögum þriggja landa, Bretlands, Frakklands og Danmerkur og er framkvæmdin virkust í Bretlandi. Nú er lagt til að öll bandalagslöndin setji ákvæði um innherjaviðskipti í lög sín fyrir árið 1992 þegar sameiginlegur „innri“ markaður á að taka gildi. Verður e.t.v. tilefni til að endurskoða ákvæði 2. gr. innan fárra ára með hliðsjón af þróun löggjafar í nágrannalöndunum á þessu sviði og í ljósi reynslunnar hérlendis.
    Orðalag 2. gr. er í samræmi við ákvæði í norskum og dönskum lögum um verðbréfaviðskipti. Þó nær ákvæðið þar aðeins til verðbréfa sem skráð eru í kauphöll, þ.e. á verðbréfaþingi. Ákvæði frumvarpsins nær til allra markaðsverðbréfa hvort sem þau eru skráð á þinginu eða ekki. Til glöggvunar þykir rétt að birta hér lagatexta þessara ríkja um bann við innherjaviðskiptum.
    Í norsku lögunum er textinn á þessa leið: „Kjöb eller salg av börsnoterte verdipapirer maa ikke foretas af noen som har fortroligeopplysinger som gjælder forhold vedrörende det foretak som har utstedt verdipapirene, og som kan antas aa faa vesentlig betydning for kursen paaverdipapirene.“
    Í dönsku lögunum er textinn svohljóðandi: „Köb eller salg af et börsnoteret værdipapir maa ikke foretages af nogen, der har kendskab tilendnu ikke offentliggjorte oplysninger vedrörende den paagældende udsteder,saafremt saadanne oplysinger maa antages at faa betydning for kursdannelsen paaværdipapiret.“
    Samkvæmt framansögðu þykir rétt að lögfesta hér á landi refsiákvæði er taki til innherjaviðskipta. Verknaðarlýsing ákvæðisins tekur til þeirra aðila, einstaklinga og lögaðila, sem nota í viðskiptum sínum trúnaðarupplýsingar er þeir hafa undir höndum varðandi útgefanda að markaðsverðbréfi og þær upplýsingar geti haft áhrif á markaðsverð verðbréfanna eða þeir veita öðrum slíkar upplýsingar. Tilgangur þess, sem fremur slíkt brot, er að hagnýta sér þær trúnaðarupplýsingar, sem hér um ræðir, í auðgunarskyni eða hann veitir öðrum slíkar upplýsingar í sama tilgangi. Ákvæði þetta lýsir þannig ólögleg viðskipti þeirra aðila sem yfir trúnaðarupplýsingum búa um markaðsverðbréf í því skyni að forða sér, vandamönnum sínum eða þriðja aðila frá tjóni eða færa þessum aðilum hagnað. Gildir það sama um lögaðila og einstaklinga. Trúnaðarupplýsingar, er ákvæði þetta tekur til, geta verið af ýmsum toga og eru þær ekki skilgreindar nánar í greininni. Hér er þó átt við fyrst og fremst þær upplýsingar sem menn afla sér vegna starfa sinna og leynt skulu fara eða trúnaðarupplýsingar þeirra fyrirtækja sem um er að ræða hverju sinni og ekki er ætlunin að verði opinberar í bráð. Birting þeirra væri til þess fallin að hafa áhrif á verð markaðsverðbréfa og sá sem fær þær áður en þær eru almennt kunnar, kemst í þá aðstöðu að geta umfram aðra hagnast eða forðast tap.
    Jafnframt því, að lagt er til að sett skuli refsiákvæði í íslensk lög um innherjaviðskipti, telur nefndin eðlilegt að þess verði krafist af útgefendum markaðsverðbréfa að upplýsingum, er áhrif kunna að hafa á verð viðskiptabréfanna, verði komið á framfæri án ástæðulauss dráttar af hálfu þeirra fyrirtækja eða lögaðila er hlut eiga að máli. Slík framkvæmd er einnig til þess fallin að ekki komi til þess að beita þurfi refsiákvæði þessarar greinar frumvarpsins um innherjaviðskipti.
    Um tilraun og hlutdeild í broti samkvæmt þessari grein fer nánar eins og greinir í VII. kafla þessa frumvarps. Að öðru leyti þarfnast ákvæði þessi ekki skýringa.

Um II. kafla.


    Í II. kafla er fjallað um verðbréfamiðlara, en um þá er nú fjallað í lögunum um verðbréfamiðlun nr. 27/1986. Farin hefur verið sú leið að fella meginatriði þeirra laga inn í þennan kafla frumvarpsins, en jafnframt hefur verið breytt þeim skilyrðum sem sett eru fyrir leyfi til verðbréfamiðlunar. Í þeim tilgangi að hraða myndun virkra verðbréfaviðskipta hér á landi telur nefndin mikilvægt að breyta þeim skilyrðum, sem nú gilda, á þann veg, að sérstök próf um kunnáttu í verðbréfaviðskiptum komi í stað tiltekinnar
háskólamenntunar sem ekki er víst að veiti slíka kunnáttu. Slík námskeið og próf væru einnig til þess fallin að auka þekkingu þeirra er þessi störf stunda á þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. 3. gr. er fjallað um skilyrði fyrir leyfisveitingum til verðbréfamiðlara og er þeim breytt frá gildandi lögum. Í b-lið er tiltekinn lágmarksaldur verðbréfamiðlara, í d-lið er námskeið og próf í verðbréfamiðlun gert að skilyrði í stað tiltekinnar háskóla- eða endurskoðendamenntunar og í e-lið eru sett breytt ákvæði um tryggingar sem verðbréfamiðlarar þurfa að setja fyrir því valdi þeir viðskiptavinum sínum tjóni. Var í því efni höfð hliðsjón af þeim tryggingum, sem fasteignasölum er nú gert að setja til þess að öðlast leyfi til fasteignasölu, sbr. lög nr. 34/1986. Samkvæmt núgildandi lögum er krafist bankatryggingar að fjárhæð tvær milljónir króna miðað við lánskjaravísitölu maímánaðar 1986, 1432 stig. Hér er lagt til að tryggingar verði ákveðnar með reglugerð sem auðveldar breytingar fjárhæða í samræmi við verðlagsbreytingar og umsvif verðbréfafyrirtækja, en skoðun nefndarinnar er að lágmarkstryggingar skuli eigi lækka frá því sem nú gildir.
    Í 2. mgr. 3. gr. er bætt við orðunum „svo sem búskiptum eða félagsslitum“ í lok málsgreinarinnar og er það gert til þess að afmarka skýrar efni þeirrar heimildar sem þar er veitt, en að öðru leyti er átt við hefðbundin störf þeirra manna er greinin tekur til í þágu viðskiptamanna.

Um 4.–5. gr.


    Greinarnar eru efnislega samhljóða 6. og 7. gr. núgildandi laga um verðbréfamiðlun. Að öðru leyti þarfnast þær ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 8. gr. núgildandi laga um verðbréfamiðlun að öðru leyti en heimild verðbréfamiðlara til þess að kaupa eða selja verðbréf úr eigin eigu er einskorðuð við skráð verðbréf á Verðbréfaþingi Íslands, en í núgildandi lögum geta aðrar tegundir verðbréfa komið til greina ef viðsemjanda verðbréfamiðlara er kunnugt um hver gagnaðili hans er. Ekki þykir rétt að hafa slíka heimild í lögum þar eð hún kann að leiða til margs konar réttarágreinings.

Um 7. gr.


    Greinin er samhljóða 9. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að við hana er bætt ákvæði um að þagnarskylda haldist þótt látið sé af starfi.

Um 8. gr.


    Þessi grein kemur í stað 10. og 11. gr. núgildandi laga. Greinin skýrir sig sjálf.

Um 9. gr.


    Þessi grein, sem fjallar um fjárhagslega ábyrgð verðbréfamiðlara gagnvart viðskiptamanni, er samhljóða 12.–14. gr. núgildandi laga og kemur málsgrein í stað hverrar greinar.
    Í 2. mgr. er þó að finna viðbót við ákvæði núgildandi laga þar sem lagt er til að verðbréfamiðlara sé skylt að koma reglulega þeim fjármunum, sem honum eru fengnir til ávöxtunar, í öruggar fjárhirslur. Ákvæði þetta getur haft áhrif við sakarmat vegna hugsanlegra málaferla samkvæmt þessari grein. Með orðinu „reglulega“ er átt við að farið sé með verðbréf og aðra fjármuni í öryggishólf í lok hvers vinnudags eða á öðrum tímum eftir umfangi starfseminnar. Bankar og flestir sparisjóðir munu hafa sérstaklega útbúin öryggishólf til varðveislu fjármuna. Einnig er hugsanlegt að sérstök fyrirtæki yrðu sett á fót til að taka að sér varðveislu verðbréfa og annarra fjármuna á öruggan hátt.
    Lokamálsgrein 9. gr. er samhljóða 14. gr. núgildandi laga um verðbréfamiðlun.

Um 10. gr.


    Í frumvarpinu er lagt til að glöggur greinarmunur verði gerður á verksviði verðbréfamiðlara annars vegar og verðbréfafyrirtækis hins vegar. Verksvið verðbréfamiðlara er hér skilgreint neikvætt að því leyti að honum er óheimilt að stofna og reka verðbréfasjóð eða taka við fjármunum frá almenningi til ávöxtunar gegn útgáfu skuldarviðurkenningar eða hlutdeildarskírteina. Honum er einnig óheimilt að veita sölutryggingu á markaðsverðbréfum. Verðbréfamiðlari er fyrst og fremst milliliður milli kaupenda og seljanda einstakra verðbréfa og ráðgjafi um verðbréfaviðskipti gegn þóknun.

Um III. kafla.



Um 11. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um stofnun og starfssvið verðbréfafyrirtækis og
þau skilyrði sem það þarf að fullnægja til þess að fá og halda rekstrarleyfi. Fram kemur í greininni að verbréfafyrirtæki mega taka að sér að veita almenna sölutryggingu á markaðsverðbréfum og hafa heimild til þess að reka verðbréfasjóði.
    Lagt er til að um sé að ræða hlutafélag með innborguðu hlutafé að fjárhæð a.m.k. 10 milljónir króna. Þrátt fyrir þetta ákvæði geta viðskiptabankar og sparisjóðir einnig starfrækt verðbréfafyrirtæki með nánar tilteknum skilyrðum laga þessara að því leyti, sem það samrýmist ákvæðum annarra laga er um þær stofnanir gilda. Umsóknir um rekstrarleyfi skulu sendar viðskiptaráðuneytinu, en því er skylt samkvæmt frumvarpinu að afla umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands áður en ákvörðun er tekin. Í a–f liðum þessarar greinar eru skilyrði fyrir leyfisveitingu rakin og skýra ákvæðin sig sjálf. Ráðherra er heimilt að hækka lágmarksfjárhæð hlutafjár í hlutfalli við verðbreytingar frá gildistöku laganna, sbr. VII. kafla frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um eigið fé verðbréfafyrirtækis. Það verður að nema a.m.k. 1% af höfuðstól þess verðbréfasjóðs eða verðbréfasjóða, sem fyrirtækið rekur og ef fyrirtækið tekur að sér sölutryggingu markaðsverðbréfa má fjárhæð slíkrar skuldbindingar eigi vera hærri en sem nemur tuttuguföldu eigin fé fyrirtækisins.

Um 13. gr.


    Í þessari grein er mælt fyrir um að lagaákvæði um verðbréfamiðlara, sem fjalla um almennar starfsreglur þeirra, skráningu bréfa, framsal þeirra, kaup og sölu á eigin verðbréfum, þagmælsku, upplýsingagjöf um þóknun og ákvæði um ábyrgð, eigi einnig við um verðbréfafyrirtæki eftir því sem við getur átt. Þá er lagt til í greininnni að ákveðið verði með reglugerð upphæð og form þeirra trygginga sem krefjast skal af verðbréfafyrirtæki. Fordæmi fyrir slíku ákvæði er að finna í lögum nr. 34/1986, um fasteigna- og skipasölu, sbr. einnig athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um upplýsingagjöf verðbréfafyrirtækja til viðskiptavina sinna og er tilgangur greinarinnar að tryggja að upplýsingar fyrirtækjanna séu áreiðanlegar og að viðskiptavinir þeirra séu ekki beittir blekkingum. Lagt er til að Verðlagsstofnun setji um þetta nánari reglur og er
þar t.d. átt við reglur um útreikning ávöxtunar sem birt er í auglýsingum. Með því er stefnt að hugtakið „ávöxtun“ fái skýrari merkingu en nú er. Gert er ráð fyrir að Verðlagsstofnun setji slíkar reglur í samvinnu við bankaeftirlit Seðlabanka Íslands. Talsverð óvissa ríkir um þetta atriði í dag, t.d. hvernig einstök verðbréfafyrirtæki hafa reiknað afföll inn í heildarávöxtun verðbréfasjóðs. Þá væri rétt að í reglunum væri sú regla staðfest sem nú gildir samkvæmt reglum samstarfsnefndar verðbréfasjóða að einungis sé auglýst hver ávöxtunin hafi verið á tilteknu liðnu tímabili, en eigi sé gefið loforð um fyrir fram ákveðna ávöxtun fram í tímann.

Um 15. gr.


    Hér er mælt fyrir um það í 1. mgr. að útboð markaðsverðbréfa annarra en ríkisskuldabréfa, ríkisvíxla eða skuldabréfaflokka með ríkisábyrgð, eins og t.d. skuldabréfaflokka sem gefnir yrðu út af Byggingarsjóði ríkisins, skuli ætíð fara fram með milligöngu verðbréfafyrirtækja. Hér er um mikilvægt ákvæði að ræða sem ætlað er að tryggja vandaðan undirbúning á útgáfu og sölu slíkra verðbréfa. Hér er um sérhæfða þjónustu að ræða sem er veruleg trygging fyrir aðila að Verðbréfaþingi Íslands og almenna kaupendur markaðsverðbréfa og að bréfin séu gallalaus. Gert er ráð fyrir að Seðlabanki Íslands geti sett nánari reglur um gerð útboðsgagna markaðsverðbréfa umfram þær meginreglur sem settar eru í greininni. Seðlabankinn getur einnig ákveðið fyrsta söludag einstakra flokka markaðsverðbréfa (emission control) í því skyni að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á markaðnum. Reglur um slíkt tíðkast víða, en óheppilegt getur verið að láta útgáfu fleiri en eins flokks markaðsverðbréfa bera að á sama tíma. Ákvæði þetta girðir ekki fyrir sölu einstakra verðbréfa sem fram fer án þess að um almennt söluútboð sé að ræða svo sem sölu fyrirtækja á eigin hlutabréfum eða verðbréfum.Gert er ráð fyrir að ríkissjóður og stofnanir, sem gefa út verðbréf með ríkisábyrgð, annist útboð markaðsverðbréfa sem þessir aðilar gefa út, en þar er um mjög stóran hluta af heildarframboði verðbréfa að ræða.
    Í 2. mgr. er ákvæði um tilkynningarskyldu verðbréfafyrirtækis til Seðlabanka Íslands um sölu einstakra flokka markaðsverðbréfa. Sama gildir um önnur útboð markaðsverðbréfa svo sem útboð ríkissjóðs eftir því sem við á, þ.e. í tilvikum þar sem Seðlabankinn sér ekki um útboð ríkisskuldabréfa. Sú skylda er lögð á Seðlabankann að birta reglulega þær upplýsingar, sem hann fær samkvæmt þessari grein.

Um 16. gr.


    Ákvæðið fjallar um skyldu verðbréfafyrirtækis til að senda viðskiptavinum sínum skilagreinar yfir þau viðskipti sem átt hafa sér stað fyrir þeirra reikning sé þess óskað. Senda skal skilagreinar reglulega, t.d. hálfsárslega, ársfjórðungslega eða eftir beiðni viðskiptamanns, allt eftir því hver háttur er fyrir fram kynntur eða um saminn gagnvart viðskiptamanni. Þá er skylt að senda fyrir lok janúarmánaðar hvers árs skilagreinar um viðskipti næstliðins árs.

Um 17. gr.


    Ákvæðið er sett til þess að tryggja hag viðskiptavina verðbréfafyrirtækis að því leyti að þeir fái fyrir fram upplýsingar um þá þóknun sem fyrirtækið tekur fyrir þjónustu sína. Einnig er tekið fram, að verðbréfafyrirtækjum sé óheimilt að sammælast um gjaldskrá fyrir veitta þjónustu.
    Þá er mælt fyrir um að breytingar á þóknun fyrir endurtekna þjónustu þurfi að tilkynna með nægum fyrirvara. Gefst þá viðskiptavinum kostur á að flytja viðskipti sín annað til þess að forðast breytingu á þóknun til hækkunar.

Um IV. kafla.


    Ákvæði þessa kafla fjalla um verðbréfasjóði, en um þá skortir að mestu ákvæði í núgildandi löggjöf. Undantekning er þó 5. gr. laga nr. 27/1986 sem fjallar eingöngu um forstöðu og endurskoðun verðbréfasjóðs. Ákvæði kaflans eru fyrst og fremst við það miðuð að tryggja réttarstöðu þeirra sem ávaxta vilja fé í verðbréfasjóðum gagnvart verðbréfafyrirtæki. Í því skyni er m.a. að finna ákvæði í þessum kafla um rekstur verðbréfasjóða, útgáfu hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði og atriði er varða innlausn þeirra. Einnig er hér lagt til að eignum verðbréfasjóða sé haldið aðgreindum frá eignum verðbréfafyrirtækis, enda verði þær ekki teknar fjárnámi eða kyrrsettar vegna skulda þess. Ákvæðin miða að því að auka öryggi þeirra er fjármuni eiga í slíkum verðbréfasjóðum.

Um 18. gr.


    Hér eru ákvæði um stofnun verðbréfasjóða þar sem einstaklingum og lögaðilum er boðið upp á ávöxtun reiðufjár á verðbréfamarkaði. Verðbréfasjóði má samkvæmt ákvæðum greinarinnar stofna sem sjálfstætt hlutafélag eða með öðru félagsformi og skal hver verðbréfasjóður hafa samþykktir og sérstaka stjórn. Síðan eru talin upp atriði sem m.a. skal taka afstöðu til í samþykktum verðbréfasjóðs. Að öðru leyti skulu gilda ákvæði í lögum sem sett kunna að
vera varðandi samþykktir félaga, sbr. hér t.a.m. lög nr. 32/1978, um hlutafélög.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði tilkynningarskylda um stofnun verðbréfasjóða til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og jafnframt lagt til að haldin verði sérstök skrá yfir verðbréfasjóði til hagsbóta fyrir viðsemjendur þeirra. Samkvæmt ákvæðinu getur starfsemi verðbréfasjóðs ekki hafist fyrr en formkröfum greinarinnar hefur verið fullnægt og samþykktir hans hafa verið staðfestar.
    Í 3. mgr. er ákvæði um að skylt sé að gera rekstrarsamning við verðbréfafyrirtæki varðandi rekstur þess á sjóðnum og umsýslu þess að öðru leyti, sbr. 1. mgr. þessarar greinar.
    Í 4. mgr. er ákvæði um hvernig fara skuli með breytingar á samþykktum verðbréfasjóðs.

Um 19. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands haldi sérstaka skrá yfir verðbréfasjóði þar sem skráðar eru ýmsar upplýsingar um sjóðina. Einnig skal birta tilkynningu um stofnun verðbréfasjóðs og fleiri atriði í Lögbirtingablaði. Þá er í greininni ákvæði sem miðar að því að ekki skapist hætta á ruglingi varðandi nöfn verðbréfasjóða sem skráðir eru í verðbréfasjóðsskránni.

Um 20. gr.


    Hér eru ákvæði um útgáfu hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði til þeirra sem fá verðbréfafyrirtæki fjármuni til ávöxtunar í sjóðnum og um sölu slíkra skírteina. Þau skal ætíð skrá á nafn. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að gefa út tiltekna flokka af hlutdeildarskírteinum og innan hvers flokk skal þess gætt að hver eining veiti aðilum sama rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar hans.
    Hlutdeildarskírteini er skilríki fjármagnseiganda fyrir þeim fjármunum er hann hefur lagt í þann sjóð sem skírteinið ber með sér og er það jafnframt skuldarviðurkenning sjóðsins.

Um 21. gr.


    Hér er að finna ákvæði um þau atriði sem m.a. skal skrá á hlutdeildarskírteini.
    Í 2. mgr. er að finna sérákvæði sem heimilar nafnritun hlutdeildarskírteina með prentun á skírteinin í stað nafnritunar með eigin hendi og er það gert til hagræðis fyrir verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði. Á hinn bóginn er ekki nauðsynlegt að framkvæma nafnritun með þessum hætti og verður það því í ákvörðunarvaldi stjórnar verðbréfasjóðs hvorn háttinn hún velur. Þá er ákvæði um að framsal skuli jafnan skrá á hlutdeildarskírteini þar sem eigendaskipti eiga sér stað án innlausnar hjá verðbréfafyrirtæki og útgáfu á nýju skírteini.

Um 22. gr.


    Í 1. mgr. er að finna ákvæði um skráningu verðbréfafyrirtækis á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóði.
    Í 2. mgr. er ákvæði um rétt eigenda hlutdeildarskírteina í sjóði, þar sem þeir kjósa fulltrúa í stjórn samkvæmt samþykktum sjóðsins til þess að fá afrit af nafnaskrá þeirra eigenda sem hyggjast taka þátt í kosningunum. Ekki er víst að allir eigendur kjósi að taka þátt í kosningunum þar eð þeir vilji ekki upplýsa aðra eigendur um að þeir eigi hlutdeildarskírteini í sjóðnum.

Um 23. gr.


    Hér er að finna ákvæði um það hvernig innlausnarvirði hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði skuli fundið. Ákvæði þetta er í samræmi við þær reglur sem aðilar að samstarfsnefnd íslenskra verðbréfasjóða hafa sett sér og notaðar eru í rekstri þeirra. Þá er í greininni heimild fyrir ráðherra til þess að setja í reglugerð nánari ákvæði um þetta atriði og er þá haft í huga að e.t.v. þyrfti að taka af öll tvímæli um mismunandi reikningsreglur við útreikning innlausnarvirðis.

Um 24. gr.


    Hér er að finna skýr ákvæði um að eignum verðbréfasjóðs beri að halda aðgreindum frá eignum verðbréfafyrirtækis sem rekur sjóðinn. Er þetta í samræmi við þá stefnu, að hver verðbréfasjóður sé sjálfstætt hlutafélag eða annar lögformlegur aðili er hefur sérstakar samþykktir og sérstaka stjórn sem gerir rekstrarsamning við verðbréfafyrirtæki vegna reksturs sjóðsins. Skuldbindingar, sem kunna að falla á verðbréfafyrirtæki, eru því alls óviðkomandi verðbréfasjóðum á þess vegum og með sama hætti eru skuldbindingar hvers verðbréfasjóðs fyrir sig skýrt aðgreindar, sbr. jafnframt ákvæði 18. gr. frumvarpsins.
    Í samþykktum hvers verðbréfasjóðs er kveðið á um með hvaða hætti sjóðsstjórn skuldbindur sjóðinn, um dreifingu áhættu og fleiri atriði. Í greininni er skýrt tekið fram að eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði verði ekki gerðir persónulega ábyrgir vegna skuldbindinga verðbréfasjóðsins umfram verðmæti eignar þeirra í sjóðnum. Þeir geta tapað andvirði sjóðseignar sinnar, en verða ekki gerðir ábyrgir umfram það enda hefur eigandi hlutdeildarskírteinis réttarstöðu lánardrottins gagnvart verðbréfasjóði, sbr. ákvæði 20. gr.

Um 25. gr.


    Í greininni er lagt til að fjárvörslum verðbréfasjóða sé hagað þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Lagt er til að varðveisla verðbréfa fari fram í sérstöku öryggishólfi, en stjórn verðbréfafyrirtækis og samþykktir geta mælt fyrir um vörslu fjármuna verðbréfasjóðs hjá banka- eða sparisjóði. Slíkar stofnanir hafa yfirleitt sérútbúin öryggishólf til gæslu fjármuna, en einnig er hugsanlegt að sérstök fjárvörslufyrirtæki komi sér upp slíkri aðstöðu. Kröfur um trygga varðveislu verðbréfa, eins og hér er fyrir mælt, þykja eðlilegar og tíðkast í þeim ríkjum Evrópu sem sett hafa löggjöf um þessa starfsemi.

Um 26. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði sem sett eru til þess að girða fyrir að óeðlileg verðbréfaviðskipti geti átt sér stað milli starfsmanna verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóðs í umsjón fyrirtækisins.

Um 27. gr.


    Hér er að finna ákvæði sem takmarkar heimild verðbréfafyrirtækis til þess að taka lán í nafni verðbréfasjóðs í umsjón fyrirtækisins. Einnig um bann við veitingu peningalána úr sjóðnum eða að láta hann ganga í ábyrgðir fyrir aðra.

Um 28. gr.


    Tilgangur þessa ákvæðis er að tryggja áhættudreifingu verðbréfasjóða. Heimilt er að víkja frá reglunum ef um er að ræða örugg verðbréf sem nánar eru talin upp í greininni og einnig má víkja frá reglunum í upphafi rekstrar sjóðsins.

Um 29. gr.


    Hér er að finna ákvæði um lausafjárskyldu verðbréfasjóða, en hún er miðuð við að sjóðirnir hafi jafnan yfir fé að ráða til þess að innleysa daglega hlutdeildarskírteini eins og óskað er eftir við venjulegar aðstæður sem samkvæmt reynslu mun vera nærri 2%.
    Rætt hefur verið um að hafa lausafjárskylduna hærri í ljósi þess að upp geta komið þær aðstæður að fjöldi eigenda hlutdeildarskírteina óskar innlausnar á sama tíma. Slík skylda mundi lækka ávöxtun sjóðanna þar eð lausafé þeirra hefur að öðru jöfnu lægri ávöxtun, en það fé sem bundið er til lengri tíma. Á móti taka eigendur hlutdeildarskírteina þá áhættu að þurfa að sæta fresti á innlausn skírteinanna, ef hlutfallslega margar innlausnarbeiðnir berast á sama tíma. Að sjálfsögðu geta stofnendur verðbréfasjóðs þó sett sér hærri lausafjárkvöð í samþykktum sjóðsins og er ráð fyrir því gert í c-lið 18. gr.

Um 30. gr.


    Um þetta ákvæði eru skiptar skoðanir í nefnd þeirri sem frumvarpið samdi og lagði nefndin ekki til að slík bindiskylda verði lögfest. Viðskiptaráðherra telur hins vegar eðlilegt að heimild til slíkrar bindiskyldu sé í lögum og má benda á að í nokkrum OECD-löndum er heimild til bindiskyldu á aðrar fjármálastofnanir en banka og sparisjóði lögfest enda þótt henni sé ekki beitt nema í undantekningartilvikum, sé eðlilegt að svo sé einnig hér á landi. Ýmis rök eru færð með heimild til bindiskyldu, þar á meðal er á það bent að óeðlilegt sé að séu kvaðir settar á útlán banka og sparisjóða í hagstjórnarskyni, þá geti verðbréfasjóðir hlaupið í skarðið með skuldabréfakaupum af almenningi og lögaðilum, þannig að hagstjórnaraðgerðir nái ekki tilgangi sínum. Hefur verið bent á að beita mætti bindiskyldu á verðbréfasjóði, þannig að hún nái til ákveðinna flokka verðbréfa, en ekki til annarra, t.d. ekki til markaðsverðbréfa.

Um V. kafla.


    Í V. kafla er fjallað um ársreikninga og endurskoðun verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða, en ítarleg reikningsgerð og áreiðanleg endurskoðun reikninga er grundvöllur fyrir viðskiptatrausti þeirra og vörn gegn misferli í rekstrinum.

Um 31. gr.


    Í greininni er lagt til að reikningsár verðbréfafyrirtækis og verðbréfasjóðs skuli ákveðið í samþykktum þeirra og að fyrir hvert reikningsár skuli gerður ársreikningur.
    Í 2. mgr. er kveðið svo á að ársreikningur skuli gerður samkvæmt lögum og góðri reikningskila venju. Ráðherra er jafnframt veitt heimild til að setja í reglugerð nánari reglur um gerð ársreikninga af þessu tagi, en nauðsynlegt kann að vera að setja sérstakar kröfur um form reikninganna til þess að tryggja betur hagsmuni almennings.

Um 32. gr.


    Lagt er til að endurskoðun verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja verði í höndum löggiltra endurskoðenda. Óheimilt er að ráða endurskoðendur fyrirtækjanna til annarra starfa í þágu þeirra en til endurskoðunar. Í greininni er lögð rík skylda á verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði til að veita endurskoðendum aðgang að öllum þeim skjölum og bókum sem nauðsynlegar eru vegna endurskoðunarstarfanna.

Um 33. gr.


    Í greininni eru ákvæði um áritun endurskoðenda á ársreikninginn og hvernig þeir skuli að öðru leyti gera grein fyrir niðurstöðum sínum. Þá er í greininni kveðið á um rétt bankaeftirlitsins til þess að afla upplýsinga frá endurskoðendum og um skyldu endurskoðenda til þess að gera bankaeftirlitinu aðvart um ágalla á rekstri verðbréfasjóðs sem veikt geta fjárhagsstöðu hans.

Um VI. kafla.


    Í VI. kafla er fjallað um eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands með rekstri verðbréfasjóða. Bankaeftirlitið hefur haft slíkt eftirlit með höndum. Annars vegar er það með stoð í 15. gr. laga um verðbréfamiðlun, nr. 27 frá 1986, þar sem lögfest var að bankaeftirlitið skyldi eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá verðbréfamiðlara og verðbréfasjóði sem varða starfsemina og sem nauðsynlegar eru við framkvæmd eftirlitsins. Hins vegar hefur eftirlit þess haft stoð í lögunum um viðskiptabanka og um sparisjóði, svo og lögum og reglugerð um Seðlabanka Íslands, þar sem það skal fylgjast með því að aðrir aðilar stundi ekki viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi, en þeir sem uppfylla sett skilyrði.

Um 34. gr.


    Í greininni eru bankaeftirlitinu veittar víðtækar heimildir til eftirlits með rekstri verðbréfasjóða og um viðbrögð við því að fjárhagur sjóðanna reynist ótraustur eða eigi er farið eftir réttum reglum í rekstrinum.

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla eru ýmis sameiginleg ákvæði er gilda um þá starfsemi sem nánar er fjallað um hér að framan.

Um 35. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 36. gr.


    Greinin er hliðstæð 16. gr. núgildandi laga um verðbréfamiðlun. Frumvarp þetta er mun víðtækara en gildandi lög, þannig að ákvæðin um viðurlög gera víðtækari háttsemi refsiverða. Í því sambandi má t.d. benda á bann við innherjaviðskiptum skv. 2. gr. Í nágrannaríkjunum eru viðurlög við slíkum brotum bæði í formi sekta og fangelsisrefsinga. Í Danmörku er einungis beitt sektum, í Noregi og Finnlandi sektum eða allt að sex mánaða fangelsi, í Svíþjóð sektum og allt að 12 mánaða fangelsi. Meðal annars vegna mála, sem komið hafa upp í Noregi, er nú þar rætt um að herða refsingar vegna misferlis í sambandi við verðbréfaviðskipti.

Um 37. gr.


    Grein þessi er hliðstæð 17. gr. núgildandi laga um verðbréfamiðlun og þykir ákvæðið nauðsynlegt úrræði ef upp kemur sú aðstaða er greinin lýsir.

Um 38. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Varðandi ákvæði til bráðabirgða skal sérstaklega bent á 3. lið en þar er þeim sem við gildistöku laga þessara starfrækja verðbréfamiðlun samkvæmt lögum nr. 27/1986, verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði gefinn frestur til þess að aðlaga starfsemi sína nýrri löggjöf. Þeir sem fengið hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt núgildandi lögum er eigi skylt að sækja námskeið um verðbréfamiðlun skv. 3. gr. laganna.