Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


111. löggjafarþing 1988.
Þskj. 114  —  111. mál.




Ed.

Frumvarp til laga



um aðför.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



I. ÞÁTTUR
Almenn skilyrði fyrir aðför.
1. KAFLI
Aðfararheimildir o.fl.
1. gr.

    Aðför má gera til fullnustu kröfum samkvæmt eftirfarandi heimildum:
     1.      dómum og úrskurðum, uppkveðnum af íslenskum dómstólum.
     2.      áskorunarstefnum, sem gerðar hafa verið aðfararhæfar met áritun dómara hér á landi.
     3.      sáttum og nauðasamningum, sem komist hafa á fyrir íslenskum dómstólum.
     4.      sáttum, sem gerðar hafa verið fyrir yfirvöldum og eru aðfararhæfar samkvæmt fyrirmælum laga.
     5.      úrskurðum yfirvalda, sem eru aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga.
     6.      ákvæðunum yfirvalda um fésektir, dagsektir og févíti, sem eru aðfararhæfar samkvæmt fyrirmælum laga.
     7.      skuldabréfum fyrir ákveðinni peningaupphæð, hvort sem veðréttindi hafa verið veitt fyrir skuldinni eða ekki, þar sem undirskrift skuldara er vottuð af lögbókanda, hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni, löggiltum fasteignasala eða tveimur vitundarvottum, ef berum orðum er tekið fram í ákvæðum skuldabréfsins að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar.
     8.      víxlum og tékkum, að því leyti sem krafist er fullnægju greiðsluskyldu á grundvelli gildandi réttar samkvæmt slíkum skjölum.
     9.      kröfum um skatta og önnur samsvarandi gjö1d, sem innheimt eru samkvæmt lögum af innheimtumönnum ríkissjóðs, sveitarfélögum eða sameiginlegum gjaldheimtum ríkis og sveitarfélaga.
     10.      kröfum, áður ótö1dum, sem njóta lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum laga.
     11.      úrlausnum eða ákvörðunum erlendra dómstó1a eða yfirvalda eða sáttum gerðum fyrir þeim, ef íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðrétti og með lögum til að viðurkenna slíkar aðfararheimildir, enda verði fullnusta kröfunnar talin samrýmanleg íslensku réttarskipulagi.
    Aðför til fullnustu kröfu skv. 1. mgr. verður, eftir því sem við á, einnig gerð fyrir verðbótum, vöxtum og lögbundnum vanskilaálögum, kostnaði af kröfu, málskostnaði eða innheimtukostnaði, endurgjaldi kostnaðar af gerðinni sjálfri og væntanlegum kostnaði af frekari fullnustuaðgerðum.
    Um heimild til útburðargerða og innsetningargerða án undangengins dóms eða réttarsáttar fer eftir fyrirmælum 12. kafla.

2. gr.

    Sá getur krafist aðfarargerðar, sem aðfararheimild ber með sér að sé rétthafi hennar, svo og sá, sem nýtur handveðréttar í aðfararhæfri kröfu.

3. gr.

    Aðfarar má krefjast hjá þeim, sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Nær þetta einnig til þeirra, sem hafa tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldbindingar skv. 7. eða 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., og þeirra, sem eiga verðmæti, sem standa að veði til tryggingar kröfu skv. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr., ef áskilnaði þessara ákvæða gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart þeim.
    Aðfarar má einnig krefjast hjá öðrum en þeim, sem skylda hvílir á skv. 1. mgr., ef hann hefur tekið á sig ábyrgð á efndum aðfararhæfrar skuldbindingar samkvæmt fyrirmælum laga eða slík ábyrgð hvílir sjálfkrafa á honum lögum samkvæmt.

4. gr.

    Með aðfarargerðir fara sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.
    Um hæfi sýslumanna og fulltrúa þeirra til að fara með aðfarargerð fer eftir reglum laga um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, eftir því sem við getur átt. Ekki veldur það þó vanhæfi sýslumanns að hann fari með innheimtu kröfu, sem aðfararhæf er skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. Ef sýslumaður er vanhæfur til að fara með aðfarargerð, skipar dómsmálaráðherra annan löghæfan mann til að vinna verkið í hans stað. Þóknun hans greiðist samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra úr ríkissjóði.
    Að því leyti, sem málefni samkvæmt lögum þessum koma til kasta héraðsdómstóla, skal þeim beint að héraðsdómstólnum, sem hefur dómsvald í umdæmi þess sýslumanns, sem fer með viðkomandi aðfarargerð, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

2. KAFLI
Aðfararfrestur.
5. gr.

    Aðför má gera eftir dómi eða úrskurði, þegar liðnir eru fimmtán dagar frá uppkvaðningu hans, ef annar aðfararfrestur er ekki tiltekinn. Aðför má gera eftir áskorunarstefnu, þegar hún hefur verið árituð af dómara um aðfararhæfi. Ekki er þörf sérstakrar birtingar dóms, úrskurðar eða áritaðrar áskorunarstefnu, áður en aðför verður gerð, nema þess sé sérstaklega krafist að lögum.
    Ef áfrýjunarstefna hefur verið gefin út vegna aðfararheimildar innan almenns áfrýjunarfrests, verður ekki af fyrirtöku aðfararbeiðni meðan mál er rekið fyrir æðra dómi, nema mælt sé svo fyrir í lögum eða viðkomandi dómi eða úrskurði að áfrýjun fresti ekki aðför. Með sama hætti fer um úrskurði, sem sæta kæru til æðra dóms, ef kært er innan kærufrests.
    Ef aðfararheimild hefur verið áfrýjað að liðnum almennum áfrýjunarfresti, getur gerðarþoli gert þá kröfu við aðfarargerð, að henni verði frestað meðan mál er rekið fyrir æðra dómi, ef ekki er kveðið á annan hátt á um áhrif málskots í lögum, dómnum eða úrskurðinum. Með slíka kröfu skal farið að hætti 26. gr.

6. gr.

    Aðför má gera eftir réttarsátt eða sátt, gerðri fyrir yfirvaldi, þegar krafa samkvæmt henni er komin í gjalddaga. Ef enginn gjalddagi er tiltekinn í sátt, má gera aðför samkvæmt henni að liðnum fimmtán dögum frá gerð hennar. Aðför má gera með sama hætti eftir nauðasamningi, sem komist hefur á fyrir dómstól.
    Ekki tálmar það aðför eftir sátt, þótt krafist sé ógildingar hennar í dómsmáli.

7. gr.

    Áður en aðfarar verður krafist fyrir kröfu, sem talin er í 5., 6., 7., 8. eða 10. tölul. 1. mgr. 1. gr., og eftir að slík krafa er komin í gjalddaga, skal gerðarbeiðandi beina greiðsluáskorun til gerðarþola með minnst fimmtán daga fyrirvara, þar sem tekið er fram, að aðfarar verði krafist fyrir skuldinni, ef áskoruninni verði ekki sinnt. Eins skal að farið, þegar krafist er aðfarar í skjóli ábyrgðar skv. 2. mgr. 3. gr., þótt aðfararheimild eigi undir önnur fyrirmæli 1. mgr. 1. gr.
    Greiðsluáskorun skal send gerðarþola með ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birt honum af einum stefnuvotti. Frestur skv. 1. mgr. telst frá þeim degi, sem gerðarþoli eða sá, sem löghæfur er til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd, fær eintak hennar í hendur, eða þegar birting greiðsluáskorunar á sér stað.

8. gr.

    Áður en aðfarar verður krafist fyrir kröfu skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. og eftir að hún er komin í gjalddaga, skal sá, sem innheimtu hennar hefur með höndum, birta með minnst fimmtán daga fyrirvara almenna greiðsluáskorun í dagblöðum eða með öðrum samsvarandi hætti, þar sem fram kemur að aðfarar verði krafist án frekari fyrirvara fyrir vangoldnum gjöldum, sem hafa verið í gjalddaga á tilteknum tíma. Skal tiltekið í auglýsingunni um hvers konar gjöld er að ræða hverju sinni.

9. gr.

    Aðfarar má krefjast að liðnum aðfararfresti skv. 5.–8. gr. svo lengi, sem hlutaðeigandi krafa er ekki niður fallin fyrir fyrningu, og einnig að liðnum fyrningartíma, ef gerðarþoli mætir við gerð og lýsir yfir að hann beri ekki fyrir sig fyrningu kröfunnar.

II. ÞÁTTUR
Almennar reglur um undirbúning og framkvæmd aðfarar.
3. KAFLI
Aðfararbeiðni o.fl.
10. gr.

    Aðfararbeiðni skal vera skrifleg. Í henni skal koma fram, svo ekki verði um villst, hverjir gerðarbeiðandi og gerðarþoli eru og við hverja heimild hún styðst. Þá skal einnig tiltekið nákvæmlega hvers krafist er með aðfarargerð. Ef krafist er aðfarar til fullnustu kröfu um peningagreiðslu, skal sundurliða fjárhæð hennar svo sem þá er kostur.
    Með aðfararbeiðni skulu fylgja skilríki fyrir aðfararheimildinni og gögn um að greiðsluáskorun hafi verið beint til gerðarþola skv. 7. eða 8. gr., ef við á. Ef aðfarar er krafist til fullnustu kröfu skv. 7. eða 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., skal frumrit viðskiptabréfs fylgja aðfararbeiðni.

11. gr.

    Aðfararbeiðni og fylgigögn hennar skulu send héraðsdómara, ef eitthvað eftirtalinna atriða varðar aðfararheimildina:
    1.    ef krafa styðst við úrskurð eða ákvörðun yfirvalds, sbr. 5. og 6. tölul. 1. mgr. 1. gr.
    2.     ef krafa styðst við skuldabréf, víxil eða tékka, sbr. 7. og 8. tölul. 1. mgr. 1. gr.
    3.     ef um kröfu er að ræða, sem lögtaksréttur er fyrir og 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. tekur til.
    4.     ef krafa styðst við erlenda aðfararheimild, sbr. 11. tölul. 1. mgr. 1. gr.
    5.     ef krafist er aðfarar á grundvelli ábyrgðar, sem 2. mgr. 3. gr. tekur til.
    6.     ef krafist er útburðar- eða innsetningargerðar skv. 12. kafla.
    Þegar svo stendur á, sem í 1. mgr. segir, skal aðfararbeiðni send héraðsdómara á varnarþingi, þar sem heimilt væri að höfða einkamál um viðkomandi kröfu, nema fyrirmæli laga áskilji annað. Aðfararbeiðni og fylgigögn hennar skulu send héraðsdómara í tvíriti.
    Heimilt er gerðarbeiðanda að beina aðfararbeiðni til héraðsdómara, ef hann svo kýs, þótt ákvæði 1. mgr. eigi ekki við um hana.

12. gr.

    Héraðsdómari skal taka aðfararbeiðni, sem honum berst, til athugunar svo fljótt sem við verður komið.
    Telji héraðsdómari skilyrðum til aðfarar fullnægt samkvæmt framkomnum gögnum gerðarbeiðanda, áritar hann beiðnina um að aðför megi gera samkvæmt henni.

13. gr.

    Telji héraðsdómari aðfararbeiðni ófullnægjandi, aðfararheimild ekki fyrir hendi eða ónæg gögn fram komin til stuðnings beiðni, ritar hann á hana að aðför nái ekki fram að ganga samkvæmt henni.
    Ef héraðsdómari telur aðför mega fara fram að hluta samkvæmt aðfararbeiðni, er honum rétt að rita þá ákvörðun sína á hana, þar sem nákvæmlega er tekið fram, að hverju leyti aðför megi gera.
    Héraðsdómari má gefa gerðarbeiðanda kost á að bæta úr annmörkum, áður en aðfararbeiðni er hafnað að öllu leyti eða einhverju skv. 1. eða 2. mgr.

14. gr.

    Við meðferð héraðsdómara skv. 12. og 13. gr. er ekki þörf tilkynningar til gerðarþola eða nærveru hans, sbr. þó 78. gr., nema gerðarbeiðandi hafi sérstaklega óskað eftir því og héraðsdómara þyki rétt að verða við því, eða gerðarþoli hafi áður tilkynnt héraðsdómara að hann hafi andmæli fram að færa gegn kröfum gerðarbeiðanda.
    Þegar nærveru gerðarþola er þörf skv. 1. mgr., fer um málsmeðferð eftir fyrirmælum 13. kafla.

15. gr.

    Þegar héraðsdómara hefur borist aðfararbeiðni, skal hennar getið í sérstakri skrá, sem haldin er eftir nánari reglum, settum af dómsmálaráðherra. Í skránni skulu greind nöfn aðila, um hverja aðfararheimild er að ræða og hverja afgreiðslu beiðni hefur fengið. Frekari bókana er ekki þörf, þegar farið er með beiðni eftir 12. eða 13. gr.
    Þegar héraðsdómari hefur áritað beiðni um að aðför megi gera samkvæmt henni að öllu leyti eða einhverju, varðveitir hann annað eintak hennar með áritun, ásamt samriti fylgigagna.
    Beiðni, sem árituð hefur verið, skal afhenda eða senda gerðarbeiðanda ásamt frumritum þeirra gagna, sem henni fylgdu.
    Þótt héraðsdómari hafi áritað beiðni um að gerð megi fara fram að einhverju leyti eða öllu, er hann óbundinn af þeirri afstöðu, ef ágreiningur rís síðar um beiðnina.

16. gr.

    Beiðni um aðför, sem sætir ekki í upphafi meðferð héraðsdómstóls samkvæmt ákvæðum 11. gr., og aðfararbeiðni, sem árituð hefur verið af héraðsdómara um að gerð megi fara fram, skal að jafnaði beint til sýslumanns í því umdæmi, þar sem gerðarþoli hefur heimilisvarnarþing, en heimilt er einnig að beina aðfararbeiðni til sýslumanns í einhverju því umdæmi, sem hér greinir:
    1.     þar sem rökstudd ástæða er til að ætla að gerðarþoli muni hittast fyrir.
    2.     þar sem gerðarþoli rekur atvinnustarfsemi, ef krafan á rætur að rekja til hennar. Ef atvinnustarfsemi fer fram í fleiri en einu umdæmi, skal beiðst aðfarar í því umdæmi, þar sem aðalstöðvar hennar eru, nema aðfararheimild varði sérstaklega starfsemina á öðrum stað og gerðarbeiðandi kýs það fremur.
    3.     þar sem þau verðmæti er að finna, sem standa að veði til tryggingar hlutaðeigandi kröfu.
    4.     þar sem andlag gerðarinnar er að finna, ef um aðför er að ræða til fullnustu annarrar kröfu en um peningagreiðslu.
    5.     þar sem eignir gerðarþola er að finna, þegar um aðför er að ræða til fullnustu kröfu um peningagreiðslu, ef gerðarþoli á ekki skráð heimili eða aðsetur hér á landi.
    Getið skal ástæðu þess í aðfararbeiðni, ef henni er beint til sýslumanns í öðru umdæmi en þar sem gerðarþoli hefur heimilisvarnarþing.

17. gr.

    Þegar beiðni um aðför hefur borist sýslumanni, kannar hann hvort beiðni og aðfararheimild eru í lögmætu formi, hvort telja megi beiðni komna fram í réttu umdæmi og hvort fullnægt er skilyrðum 8. gr. í þeim tilvikum, sem við á. Ef svo reynist, synjar sýslumaður ekki af sjálfsdáðum um aðför, nema aðfararheimild verði ekki fullnægt samkvæmt efni sínu.
    Telji sýslumaður ágalla vera á málstað gerðarbeiðanda, sem veldur því að aðfarar verði synjað vegna fyrirmæla 1. mgr., skal hann endursenda beiðnina þegar í stað ásamt rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.
    Nú hefur aðfararbeiðni verið beint til sýslumanns í umdæmi, sem heimild er fyrir í 1. mgr. 16. gr., en hann telur nærtækara að aðför verði fremur reynd í öðru umdæmi. Má hann þá framsenda beiðnina hlutaðeigandi sýslumanni að fengnu samþykki gerðarbeiðanda.

18. gr.

    Þegar staðreynt hefur verið að aðfararbeiðni fullnægi skilyrðum 1. mgr. 17. gr., getur sýslumaður hennar í sérstakri skrá, sem haldin er eftir nánari reglum, settum af dómsmálaráðherra. Aðfararbeiðnir skulu þar skráðar í áframhaldandi númeraröð, eftir því sem þær berast. Aðfararbeiðnir skulu áritaðar um móttökudag og auðkenndar númeri samkvæmt framansögðu. Beiðni, sem berst áður en aðfararfrestur skv. 5.–8. gr. er liðinn, telst þó ekki fram komin fyrr en á fyrsta starfsdegi eftir lok frestsins og skal auðkennd samkvæmt því.

4. KAFLI
Upphafsaðgerðir við aðför.
19. gr.

    Ef fyrir liggja tvær eða fleiri beiðnir um aðför hjá gerðarþola og þær varða samkynja skyldu hans, skal sinna beiðni þess, sem sýslumanni barst fyrst, áður en öðrum verður sinnt, enda haldi sá fram rétti sínum án ástæðulausrar tafar. Aðfararbeiðnir, sem berast sýslumanni samtímis, standa jafnar að þessu leyti.
    Aðfararbeiðni, sem framsend hefur verið milli umdæma skv. 3. mgr. 17. gr., nýtur stöðu í samræmi við móttökudag hennar, þar sem hún barst fyrst. Þó raskar hún ekki stöðu beiðni, sem áður hefur verið tilkynnt um að hætti 1. mgr. 21. gr.

20. gr.

    Sýslumaður ákveður svo fljótt, sem við verður komið eftir að aðfararbeiðni hefur borist, hvar og hvenær aðför fari fram, svo sem verða má eftir óskum gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðanda skal tilkynnt sú ákvörðun á þann hátt, sem sýslumanni þykir til hlýða.

21. gr.

    Gerðarþola skal tilkynnt með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram um aðför hjá honum og um meginefni hennar. Honum skal um leið tilkynnt hvar aðför muni byrja og sem nánast á hvaða tíma tiltekins dags. Sýslumaður getur lagt fyrir gerðarbeiðanda að annast þessa tilkynningu.
    Tilkynningu skv. 1. mgr. skal senda gerðarþola með útbornu ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birta honum af einum stefnuvotti.
    Víkja má frá skyldu til tilkynningar skv. 1. mgr., ef einhver eftirtalin atvik eiga við:
    1.     ef um aðför er að ræða til fullnustu kröfu, sem 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. tekur til.
    2.     ef hætt þykir að gerðarþoli muni spilla fyrir aðför, fái hann vitneskju um að hennar sé að vænta.
    3.    ef hætt þykir að gerðarbeiðandi verði fyrir sérstökum réttarspjöllum af drætti, sem verður á aðför vegna tilkynningar.
    4.    ef gerðarþola hefur áður verið send tilkynning um aðför vegna sömu kröfu, en ekki sinnt henni.
    5.    ef krafist er aðfarar að undangengnum úrskurði héraðsdómara skv. 77. gr. eða 13. kafla.
    6.    ef ekki er vitað hvar gerðarþoli hefst við.

5. KAFLI
Framkvæmd aðfarar.
22. gr.

    Ef gerðarþola er send tilkynning skv. 21. gr., skal aðför að jafnaði byrja á starfstofu sýslumanns, nema sýslumanni þyki að höfðu samráði við gerðarbeiðanda annað hentara og samrýmanlegt hagsmunum aðilanna.
    Hafi gerðarþola ekki verið send tilkynning að hætti 21. gr., er rétt að aðför byrji á heimili hans, en ella á vinnustað hans eða þeim stað öðrum, þar sem sennilegast þykir að hann eða málsvari hans muni hittast fyrir. Ef gerðarþoli á hvergi skráð heimili eða aðsetur hér á landi, má þó byrja aðför á starfstofu sýslumanns.

23. gr.

    Ekki verður af aðför, nema gerðarbeiðandi sé viðstaddur eða annar maður, sem að lögum er heimilt að koma fram fyrir hans hönd.
    Víkja má frá fyrirmælum 1. mgr. eftir ákvörðun sýslumanns, ef um aðför er að ræða til fullnustu kröfu skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. Ef svo er gert, skal sýslumaður gæta réttinda gerðarbeiðanda af sjálfsdáðum, annarra en þeirra, sem fyrirmæli 29.–31. gr. og 14. kafla taka til.



24. gr.

    Hafi gerðarþoli eða maður, sem löghæfur er til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd, sannanlega fengið tilkynningu að hætti 21. gr., tálmar það ekki aðför, þótt gerðarþoli sé ekki staddur við gerðina eða einhver, sem málstað hans getur tekið, ef unnt reynist annarra hluta vegna að ljúka henni án nærveru hans. Sýslumaður skal þá gæta þess af sjálfsdáðum að gerðin brjóti ekki gegn þeim réttindum, sem gerðarþola eru tryggð með lögum þessum.
    Ef gerðarþoli, fyrirsvarsmaður hans eða umboðsmaður er ekki viðstaddur, þegar gerðin er tekin fyrir, og honum eða löghæfum manni í hans stað hefur ekki sannanlega borist tilkynning um stað og stund til aðfarar eða ófært reynist af öðrum sökum að ljúka gerðinni vegna fjarveru hans, getur sýslumaður, ef gerðin beinist að einstökum manni, falið maka gerðarþola eða öðrum heimilismanni hans, 18 ára eða eldri, að taka málstað hans. Ef gerðin beinist að öðrum en einstaklingi, getur sýslumaður með sama hætti falið stjórnanda eða starfsmanni gerðarþola að taka málstað hans.
    Ef svo er ástatt, sem í 2. mgr. segir, en enginn þargreindur er tiltækur, sem tekið getur málstað gerðarþola, eða sá getur ekki veitt nauðsynlegar upplýsingar eða atbeina til að ljúka megi gerð, er sýslumanni rétt að fresta gerðinni, ef óreynt er hvort takast muni að ná til gerðarþola innan þess tíma, að hagsmunum gerðarbeiðanda verði ekki spillt. Meðal annars er lögreglumönnum í þessu skyni skylt að boði sýslumanns að leita gerðarþola eða fyrirsvarsmanns hans og boða hann til að mæta til gerðarinnar eða færa hann til hennar. Nú tekst ekki að hafa uppi á gerðarþola eða fyrirsvarsmanni hans með þeim hætti, sem að framan segir, eða hagsmunir gerðarbeiðanda leyfa ekki að gerð verði frestað frekar, og er þá sýslumanni rétt að fara þangað, sem gerðarþoli hefur heimili eða skráð aðsetur, og ljúka þar gerðinni í samræmi við kröfur gerðarbeiðanda, enda standi önnur fyrirmæli laga þessara ekki í vegi þeirra málaloka. Eigi gerðarþoli hvergi skráð heimili eða aðsetur hér á landi, má þegar svo stendur á ljúka gerðinni á starfstofu sýslumanns.

25. gr.

    Aðfarargerð byrjar með því að sýslumaður kynnir gerðarþola eða málsvara hans málavexti og fyrirliggjandi gögn, og skorar á hann að fullnægja þeirri skyldu, sem aðfarar er krafist fyrir. Verði gerðarþoli eða málsvari hans ekki við þeirri áskorun, skal aðför fram haldið eftir því, sem hér á eftir segir.
    Ef aðfarargerð byrjar án nærveru gerðarbeiðanda samkvæmt þeirri heimild, sem greinir í 1. mgr. 23. gr., getur sýslumaður ekki skorast undan að taka við greiðslu kröfunnar, ef hún er boðin fram að einhverju leyti eða öllu.
    Gerðarþoli getur varnað aðför til fullnustu kröfu, sem ágreiningur stendur um, ef hann setur gerðarbeiðanda tryggingu fyrir efndum hennar, sem sýslumaður metur nægjanlega.
    Sýslumanni ber, eftir því sem við á, að veita gerðarþola eða málsvara hans nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu hans við gerðina og um efni kröfu gerðarbeiðanda, á sama hátt og dómara í einkamáli ber að leiðbeina ólöglærðum málsaðila.
    Skylt er gerðarþola eða málsvara hans að segja satt og rétt frá öllu, sem sýslumaður krefur hann svara um og máli skiptir um framgang gerðarinnar.

26. gr.

    Frestir skulu að jafnaði ekki veittir meðan á gerðinni stendur, nema málsaðilar séu á það sáttir.
    Ef gerðarþoli eða sá, sem málstað hans tekur við gerðina, krefst að henni verði frestað, en gerðarbeiðandi fellst ekki á þá kröfu, skal sýslumaður ákveða þegar í stað hvort hann heldur gerðinni áfram eða hvort henni verður frestað til tiltekins tíma.
    Ef sýslumaður ákveður að fresta gerðinni gegn vilja gerðarbeiðanda, getur gerðarbeiðandi krafist úrlausnar héraðsdómara um þá ákvörðun skv. 14. kafla.
    Hafni sýslumaður kröfu gerðarþola um frestun gerðarinnar, skal henni þegar fram haldið, ef gerðarbeiðandi krefst. Ekki stöðvar það framgang gerðarinnar, þótt gerðarþoli lýsi því yfir að hann muni krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerðina.

27. gr.

    Ef gerðarþoli eða sá, sem málstað hans tekur, mótmælir rétti gerðarbeiðanda til að aðför nái fram að ganga eða hún fari fram með þeim hætti, sem gerðarbeiðandi krefst, skal sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda ákveða þegar í stað hvort gerðin fari fram eða hvort henni verði fram haldið og eftir atvikum með hverjum hætti.
    Að jafnaði skulu mótmæli gerðarþola ekki stöðva gerðina, nema þau varði atriði, sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum, eða sýslumaður telur mótmælin af öðrum sökum
valda því, að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi, sem hann krefst fullnægt, eða að hann eigi rétt á að gerðin fari fram með þeim hætti, sem hann krefst.
    Fallist gerðarbeiðandi ekki á ákvörðun sýslumanns skv. 1. mgr., getur hann krafist úrlausnar héraðsdómara um hana samkvæmt fyrirmælum 14. kafla. Frestast þá gerðin að því leyti, sem sýslumaður hefur hafnað kröfum gerðarbeiðanda, þar til leyst hefur verið úr ágreiningsefninu.
    Hafni sýslumaður mótmælum gerðarþola, skal gerðinni fram haldið, ef gerðarbeiðandi krefst. Ekki stöðvar það framgang gerðarinnar, þótt gerðarþoli lýsi yfir að hann muni krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerðina.

28. gr.

    Ef aðfarargerð gæti ranglega skert rétt þriðja manns, er honum heimilt að mæta og krefjast frestunar hennar eða mótmæla framgangi hennar að því leyti, sem hún varðar rétt hans. Farið skal með slíkar kröfur eða slík mótmæli eins og um væri að ræða kröfur eða mótmæli gerðarþola skv. 26. eða 27. gr.

29. gr.

    Færist gerðarþoli undan því að veita þær upplýsingar við aðfarargerð, sem sýslumaður telur óhjákvæmilegar til framgangs hennar, er sýslumanni heimilt að skerða frelsi gerðarþola samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda, þar til gerðarþoli uppfyllir upplýsingaskyldur sínar, þó ekki lengur en í 24 klukkustundir. Lögreglumönnum er skylt að veita sýslumanni atbeina í þessu skyni samkvæmt boði hans. Ef grunur leikur á að gerðarþoli sé með refsiverðum hætti að fyrirbyggja fullnustu kröfu gerðarbeiðanda með synjun sinni um að veita upplýsingar, skal farið eftir fyrirmælum laga um meðferð opinberra mála.
    Ef gerðarþoli færist undan að veita upplýsingar með þeim hætti, sem í 1. mgr. segir, er sýslumanni heimilt að ákveða honum dagsektir samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda. Skulu þær renna til gerðarbeiðanda og falla á, þar til gerðarþoli uppfyllir upplýsingaskyldur sínar eða unnt reynist af öðrum sökum að ljúka gerð án þeirra. Gera má aðför fyrir dagsektum þessum, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. Dagsektum verður ekki beitt, meðan gerðarþoli sætir frelsisskerðingu skv. 1. mgr.
    Ef aðför beinist að öðrum en einstaklingi, má neyta heimilda 1. og 2. mgr. gagnvart fyrirsvarsmanni gerðarþola.

30. gr.

    Samkvæmt boði sýslumanns er gerðarþola eða þeim, sem málstað hans getur tekið skv. 2. mgr. 24. gr., skylt að veita aðgang að húsakynnum hans og lokuðum hirslum hans, ef gerðarbeiðandi krefst og sýslumaður telur það nauðsynlegt vegna framgangs gerðarinnar. Skorist viðkomandi undan því eða honum er það ófært, er sýslumanni rétt að beita valdi í þessu skyni.
    Nú hefur ekki náðst til gerðarþola til að vera við aðför eða neins, sem málstað hans getur tekið, en honum hefur áður verið tilkynnt skv. 1. og 2. mgr. 21. gr. að aðför muni fara fram á þeim stað, þar sem húsakynni hans eru eða lokaðar hirslur er að finna. Er sýslumanni þá rétt að kröfu gerðarbeiðanda að beita valdi með sömu skilyrðum og segir í 1. mgr.
    Nú hefur ekki náðst til gerðarþola eða neins, sem málstað hans getur tekið, en gerðarþola hefur ekki verið tilkynnt um aðför með þeim hætti, sem segir í 2. mgr. Telji sýslumaður allt að einu að aðför megi gera skv. 3. mgr. 24. gr., getur hann að kröfu gerðarbeiðanda krafist úrskurðar héraðsdómara um heimild til að brjóta upp húsakynni gerðarþola og læstar hirslur. Meðan slíkur úrskurður er ófenginn og ekki næst til gerðarþola, er sýslumanni rétt að kröfu gerðarbeiðanda að kveðja til lögreglumenn til að varna því, að nokkuð verði gert, sem raskað gæti rétti gerðarbeiðanda. Ef brýnir hagsmunir gerðarbeiðanda krefjast þess og sérstök hætta þykir á, að hann verði ella fyrir verulegum réttarspjöllum, er sýslumanni þó heimilt samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda að brjóta upp húsakynni gerðarþola eða læstar hirslur án undangengins úrskurðar héraðsdómara. Að öðru leyti skal beita reglum laga um húsleit við rannsókn opinberra mála, eftir því sem við getur átt.

31. gr.

    Ef rökstudd ástæða þykir til að ætla að gerðarþoli kunni að hafa geymda fjármuni á sér eða muni eða gögn, sem máli geta skipt um framgang gerðarinnar, getur sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda skorað á gerðarþola að heimila leit á honum sjálfum.
    Ef gerðarþoli verður ekki við áskorun skv. 1. mgr., er sýslumanni rétt að kröfu gerðarbeiðanda að kveðja til lögreglumenn til að skerða frelsi gerðarþola. Ber sýslumanni án tafar að greina héraðsdómara frá ákvörðun sinni og krefjast úrskurðar hans um heimild til að leit fari fram á gerðarþola. Beita skal að öðru leyti reglum laga um leit á manni við rannsókn opinberra mála, eftir því sem við getur átt.
    Ef aðför beinist að öðrum en einstaklingi, má neyta heimilda 1. og 2. mgr. gagnvart fyrirsvarsmanni gerðarþola.

32. gr.

    Aðfararbeiðni og gögn um aðfararheimild skulu lögð fram við gerðina og merkt með áframhaldandi númeraröð. Einnig skulu lögð fram þau gögn, sem máli geta skipt um réttindi aðilanna og um framgang gerðarinnar að öðru leyti.
    Um varðveislu sýslumanns á framlögðum gögnum og heimildir til aðgangs að þeim eða til afhendingar þeirra skal farið eftir reglum um dómskjöl í einkamálum, eftir því sem við getur átt.

33. gr.

    Sýslumaður færir gerðabók um aðfarargerðir. Fer um form hennar eftir reglum, sem dómsmálaráðherra setur.
    Í gerðabók skal greint hvar og hvenær aðfarargerð fer fram, nöfn aðila og umboðsmanna eða málsvara þeirra, hver gögn hafa verið lögð fram við gerðina og hvernig hún hefur að öðru leyti farið fram.
    Sýslumaður les upp bókun sína við lok gerðar fyrir þá, sem við hana eru staddir, eða kynnir þeim meginatriði bókunarinnar, ef þeir telja það nægja. Þeim skal gefinn kostur á að undirrita bókunina ásamt sýslumanni.

34. gr.

    Fari aðfarargerð fram á starfstofu sýslumanns og gerðarþoli eða umboðsmaður hans er við hana staddur, er ekki þörf votta við gerðina, ef þeir, sem mættir eru, undirrita bókun um hana.
    Þegar aðför fer fram með öðrum hætti en segir í 1. mgr., ber sýslumanni að hlutast til um að staddur sé við gerðina vottur, sem fullnægir hæfiskröfum laga til að vera vottur á dómþingi í einkamáli milli sömu aðila. Votturinn skal undirrita bókun sýslumanns um gerðina.


35. gr.

    Ef ekki reynist unnt að ljúka aðför í því umdæmi, þar sem hún hefur réttilega byrjað, er sýslumanni heimilt, ef hann svo kýs og gerðarbeiðandi óskar þess, að halda gerðinni áfram utan umdæmis síns, ef sú ráðstöfun hefur ekki teljandi kostnaðarauka í för með sér fyrir gerðarþola eða hana verður að telja nauðsynlega í ljósi atvika. Hafa athafnir sýslumanns sama gildi, þegar svo stendur á, og ef þær hefðu gerst innan marka umdæmis hans. Þó skulu réttindi gerðarbeiðanda þoka fyrir rétti þess, sem síðar gerir aðför vegna samkynja skyldu gerðarþola, ef beiðni þess hefur áður borist sýslumanni í því umdæmi, þar sem fyrri gerðinni var fram haldið.
    Ef nauðsyn ber til að aðför verði fram haldið utan þess umdæmis, þar sem hún hefur byrjað, og ekki er neytt heimildar skv. 1. mgr., skal gerðarbeiðandi afla frumskjala vegna gerðarinnar og eftirrits úr gerðabók hjá sýslumanni, sem farið hefur með hana, og senda þau þeim sýslumanni, er við tekur. Sýslumaður, sem heldur gerðinni áfram, þarf ekki að endurtaka þær undirbúningsathafnir, sem farið hafa fram.

III. ÞÁTTUR
Aðför til fullnustu peningakröfu.
6. KAFLI
Andlag fjárnáms.
36. gr.

    Gera má fjárnám til fullnustu peningakröfu í eignum, sem nægja til greiðslu hennar, sbr. 2. mgr. 1. gr., og tilheyra gerðarþola eða öðrum, sem sjálfur býður þær fram til fjárnáms.
    Sýslumaður skal ákveða til hvers kostnaðar gerðarbeiðandi á tilkall úr hendi gerðarþola vegna undirbúnings gerðarinnar og hennar sjálfrar, að því leyti sem hann fellur til eftir öflun aðfararheimildar.

37. gr.

    Gera má fjárnám í peningum eða í fasteign, lausafé, kröfu gerðarþola á hendur öðrum eða annarri eign eða réttindum, sem hafa fjárhagslegt gildi og unnt er að tilgreina nægilega. Fjárnám verður aðeins gert í réttindum, sem fengin eru, þegar gerðin fer fram.
    Gera má fjárnám í eign, þótt lögbönd séu á henni eða annar hafi áður fengið veðréttindi í henni.

38. gr.

    Ekki skal taka fjárnámi meira en það, sem sýslumaður telur munu nægja til fullnustu kröfu gerðarbeiðanda.
    Ef málsaðili telur óvíst um verðmæti eignar, sem taka má fjárnámi, skal sýslumaður virða hana. Skal miðað við það verð, sem ætla má að fáist fyrir hana við nauðungarsölu, að frádregnum kostnaði og að teknu tilliti til réttinda þeirra, sem forgangs kunna að njóta gagnvart kröfu gerðarbeiðanda.
    Sýslumaður getur kvatt til einn eða tvo menn, er sérþekkingu hafa, til að virða innan tiltekins og stutts frests eign, sem fjárnámi má taka, ef þess er krafist við gerðina. Áður en virðing fer fram, skulu virðingarmenn heita að rækja starf sitt eftir bestu vitund. Sýslumaður ákveður þóknun þeirra og úr hendi hvors málsaðila hún greiðist, en að jafnaði skal sá berg kostnað um sinn af virðingu, sem hefur krafist hennar. Heimilt er sýslumanni að áskilja tryggingu fyrir þóknun virðingarmanna úr hendi þess, sem krefst kvaðningar þeirra, áður en hún á sér stað.

39. gr.

    Gerðarþoli eða sá, sem málstað hans tekur við gerðina, á rétt til að vísa á þær eignir, sem fjárnám verður gert í. Gerðarbeiðanda er ekki rétt að hafna fjárnámi í eign, sem bent er á af hálfu gerðarþola, ef hún er metin nægileg trygging fyrir kröfu hans, nema svo standi á, sem í 2.–4. mgr. segir.
    Gerðarþoli á ekki rétt á að varna því, að peningar verði teknir fjárnámi, nema þeir verði undanþegnir fjárnámi skv. 41. gr.
    Gerðarþoli á ekki rétt á að varna því, að fjárnám verði gert í eign, sem gerðarbeiðandi á tryggingarréttindi í fyrir kröfu sinni.
    Gerðarbeiðandi þarf ekki að hlíta að fjárnám verði gert í fasteign, í eign, sem aðrir eiga réttindi yfir, í eign, sem hefur óvisst verðgildi, eða í eign, sem örðugt er að varðveita eða selja, ef til er önnur eign, sem fjárnám má gera í.
    Vísi gerðarþoli eða sá, sem málstað hans tekur, ekki á eignir til fjárnáms, eða enginn er staddur við gerðina af hans hálfu, má gerðarbeiðandi tiltaka þær eignir, sem fjárnám verður gert í. Sýslumaður skal þá gæta þess að fjárnám sé að öðru jöfnu fyrst gert í þeim eignum, sem ætla má að gerðarþoli eða heimilismenn hans geti helst verið án.

40. gr.

    Heimilt er gerðarþola að neyta réttar til skuldajafnaðar við kröfu gerðarbeiðanda með kröfu, sem orðin er aðfararhæf, eða kröfu, sem gerðarbeiðandi viðurkennir rétta, ef almennum skilyrðum skuldajafnaðar er fullnægt.

41. gr.

    Peningaeign má taka fjárnámi, nema eftirfarandi eigi sannanlega við:
     1.      að um sé að ræða fyrirframgreiðslu framfærslueyris með gerðarþola, ef féð er sérgreint í vörslum hans og sá tími er ókominn, sem greiðslan er fyrir.
     2.      að um sé að ræða eingreiðslu bóta fyrir varanlega örorku gerðarþola eða fyrir missi hans á framfæranda, ef féð er sérgreint í vörslum hans og sá tími er ókominn, sem bótafénu er ætlað að bæta tjón hans fyrir.
     3.      að hún sé nauðsynleg til að standa straum af kostnaði um skamman tíma af framfærslu gerðarþola og þeirra, sem hann er framfærsluskyldur við.
    Fasteignir, lausafé og aðrar sambærilegar eignir, sem aflað hefur verið með fé skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr., verða ekki undanþegnar fjárnámi í skjóli þeirra fyrirmæla.
    Fjárnám má gera að ábendingu gerðarþola í peningaeign, sem reglur 1. mgr. taka til.

42. gr.

    Ef fjárnám er gert í fasteign, skrásettu skipi eða loftfari, telst það, ef annað er ekki tekið fram, einnig ná til fylgifjár slíkrar eignar, jafnt þess, sem þegar er fyrir hendi, og þess, sem síðar verður til.
    Fjárnám má aðeins gera í slíku fylgifé einu út af fyrir sig að ábendingu gerðarþola og með samþykki þeirra, sem að öðru leyti eiga réttindi yfir viðkomandi fasteign, skipi eða loftfari, nema fylgiféð hafi áður sérstaklega verið veðsett gerðarbeiðanda til tryggingar kröfunni og veðréttindi hans njóti verndar gagnvart þeim, sem að öðru leyti eiga réttindi yfir því.

43. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í lausafjármunum, sem nauðsynlegir eru gerðarþola og heimilismönnum hans til að halda látlaust heimili með þeim hætti, sem almennt gerist. Heimilt er gerðarþola að auki að undanþiggja eftirfarandi lausafjármuni fjárnámi:
     1.      muni, sem hafa verulegt minjagildi fyrir hann eða fjölskyldu hans, ef verðmæti þeirra er ekki slíkt, að undanþágan verði talin ósanngjörn gagnvart gerðarbeiðanda.
     2.      muni, sem eru nauðsynlegir honum eða heimilismanni hans vegna örorku eða heilsubrests.
     3.      námsgögn, sem eru nauðsynleg honum eða heimilismanni hans vegna skólagöngu.
     4.      muni, sem hann eða heimilismaður hans nýtir til atvinnu sinnar, að samanlögðu verðmæti allt að 50.000 kr. Fjárhæð þessa skal ákvarða hverju sinni í ljósi almennra verðlagsbreytinga frá gildistöku laga þessara.
    Heimildir 1. og 2. mgr. taka ekki til muna, sem standa að veði fyrir kröfu gerðarbeiðanda, eða sem gerðarbeiðandi hefur með gildum hætti áskilið sér eignarrétt að.

44. gr.

    Fjárnám má gera í kröfum gerðarþola á hendur öðrum, þótt skilyrtar séu eða ógjaldfallnar, með þeim takmörkunum, sem leiðir af 45.–48. gr. og fyrirmælum annarra laga.
    Gera má fjárnám í gjaldfallinni kröfu, sem undanskilja má fjárnámi skv. 45.–48. gr., að ábendingu gerðarþola eða ef krafan stendur til tryggingar fyrir kröfu gerðarbeiðanda.
    Ef fjárnám er gert í verðbréfi eða kröfu, telst það, ef annað er ekki tekið fram, einnig ná til arðs eða vaxta af bréfinu eða kröfunni, jafnt þeirra, sem þegar hafa fallið til, og þeirra, sem réttur stofnast til síðar.

45. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í kröfu um ógreidd laun eða annað ógreitt endurgjald fyrir vinnu, nema liðinn sé mánuður frá lokum þess tímabils, sem unnið var til launanna eða endurgjaldsins.
    Fjárnám verður ekki gert í kröfu um eftirlaun fyrr en mánuður er liðinn frá því hún varð gjaldkræf.
    Fjárnám verður ekki gert í kröfu um laun í uppsagnarfresti eða í bótakröfu vegna slita ráðningarsamnings fyrr en mánuður er liðinn frá því hún varð gjaldkræf.

46. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í bótakröfu vegna örorku eða missis framfæranda, eða kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, sem slíkum kröfum tengist, ef bótakrafan tilheyrir tjónþola sjálfum.

47. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í eftirfarandi kröfum, nema einn mánuður sé liðinn frá því þær urðu gjaldkræfar:
     1.      kröfu um framfærslueyri eða meðlag.
     2.      kröfu um bætur, dagpeninga, lífeyri eða styrki úr almannatryggingum eða frá annarri sambærilegri opinberri stofnun.
     3.      kröfu um bætur, dagpeninga eða styrki úr sjúkra- eða styrktarsjóði stéttarfélags.
     4.      kröfu um greiðslu úr viðurkenndum lífeyrissjóði, að því leyti sem hún á rætur að rekja til iðgjaldagreiðslna, sem lögboðnar eru, mælt er fyrir um í kjarasamningi eða teljast af öðrum sökum eðlilegar í ljósi aðstæðna.
     5.      kröfu um greiðslu samkvæmt frjálsri lífeyristryggingu, ef sérstök lagaheimild leiðir til undanþágu hennar frá aðför eða samið hefur verið um hana með gildum hætti í upphafi.

48. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í kröfu samkvæmt gagnkvæmum samningi, ef gerðarþoli hefur ekki efnt hann af sinni hálfu, og það, sem ógert er, er eigin vinna eða verk hans eða eitthvað annað, sem viðsemjandi gerðarþola þarf ekki að una að annar en gerðarþoli láti í té.

49. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í persónubundnum réttindum, sem gerðarþola er óheimilt að framselja á sitt eindæmi, nema þau standi til tryggingar fyrir kröfu gerðarbeiðanda.

50. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í eign, sem gefin hefur verið gerðarþola með fyrirmælum um að hún verði undanþegin aðför, ef honum er jafnframt óheimilt að ráðstafa henni, enda hafi gjafagerningi með slíkum skilmála verið þinglýst, ef réttarvernd er því háð í viðkomandi tilviki. Hið sama á við um arð af slíkri eign, ef skemmri tími en einn mánuður er liðinn frá því hann varð gjaldkræfur.
    Ef eign hefur að nokkru verið gefin gerðarþola með þeim áskilnaði, sem áður segir, en að öðru leyti verið látin af hendi gegn endurgjaldi, tekur 1. mgr. til þess hluta eignarinnar, sem gefinn var.

51. gr.

    Sýslumaður skal bóka af nákvæmni í hverjum eignum fjárnám er gert og fyrir hverjum kröfum. Hafi virðing hins fjárnumda farið fram skv. 38. gr., skal verðmæti þess einnig tiltekið í bókun.
    Heimilt er sýslumanni að gera fjárnám í eign, þótt hún sé á öðrum stað eða í öðru umdæmi en þar sem gerðin fer fram, nema þörf sé á virðingu eignarinnar skv. 38. gr.
    Sýslumaður skal leiðbeina gerðarþola eða þeim, sem málstað hans tekur, um réttaráhrif fjárnáms. Hafi enginn verið við gerðina af hálfu gerðarþola, skal sýslumaður tilkynna honum um fjárnámið, ef vitað er hvar hann er niður kominn.

7. KAFLI
Réttaráhrif fjárnáms og vörslur hins fjárnumda.
52. gr.

    Fyrningu aðfararhæfrar kröfu er slitið, ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og gerðinni er síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar.
    

53. gr.

    Óheimilt er gerðarþola að ráðstafa hinu fjárnumda á nokkurn hátt, sem farið gæti í bága við rétt gerðarbeiðanda.
    Gerðarþola er heimilt að nýta fylgifé, sem fjárnám í eign tekur einnig til eftir 1. mgr. 42. gr., að því leyti, sem nauðsynlegt er til eðlilegra nota eignarinnar.

54. gr.

    Nauðungarsala hins fjárnumda eða önnur lögmæt ráðstöfun þess á grundvelli fjárnáms má ekki fara fram án samþykkis eiganda þess fyrr en fjórar vikur eru liðnar frá því fjárnám var gert.
    Hafi gerðarþoli eða þriðji maður borið ágreining um gerðina undir héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því fjárnám var gert, getur gerðarbeiðandi ekki neytt þeirra réttinda, sem 1. mgr. tekur til, að því leyti sem ágreiningur stendur um gerðina, fyrr en hann hefur verið leiddur til lykta fyrir héraðsdómi.
    Nú ber gerðarþoli eða þriðji maður ágreining um fjárnámsgerð undir héraðsdómara að loknum þeim fresti, sem á undan getur, og stöðvast þá nauðungarsala eða önnur lögmæt ráðstöfun hins fjárnumda, að því leyti sem ágreiningur stendur um gerðina, þar til hann er til lykta leiddur fyrir héraðsdómi. Ekki haggast fyrir þær sakir gildi ráðstafana, sem þegar hafa átt sér stað á hinu fjárnumda.
    Héraðsdómari getur kveðið á um það með sérstökum úrskurði samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda, að rekstur ágreiningsmáls um fjárnámsgerð komi ekki í veg fyrir ráðstöfun hins fjárnumda skv. 2. eða 3. mgr.

55. gr.

    Ef peningar eru teknir fjárnámi og mótmæli koma ekki fram gegn gerðinni, afhendir sýslumaður þá gerðarbeiðanda þegar í stað sem greiðslu upp í kröfuna. Að öðrum kosti tekur sýslumaður þá í vörslur sínar, ef gerðarbeiðandi krefst, og varðveitir á bankareikningi, þar til sá tími er kominn, að gerðarbeiðandi megi ráðstafa hinu fjárnumda skv. 54. gr.

56. gr.

    Ef fjárnám er gert í fasteign, skrásettu skipi, loftfari eða lausafé, á gerðarþoli rétt á að hafa umráð hins fjárnumda þar til nauðsyn ber til annars vegna nauðungarsölu þess, nema annað leiði af reglum 2. eða 3. mgr.
    Hafi fjárnám verið gert í fasteign, skrásettu skipi eða loftfari, getur sýslumaður svipt gerðarþola umráðum hins fjárnumda að kröfu gerðarbeiðanda og falið þau öðrum manni, ef sýnt þykir að brýn hætta sé á að það spillist eða rýrni í umráðum gerðarþola eða að umráð hans muni á annan hátt torvelda nauðungarsölu verulega. Gerðarþoli verður þó ekki af þessum sökum sviptur umráðum fasteignar eða þess hluta hennar, þar sem hann á heimili.
    Hafi fjárnám verið gert í lausafé, skal sýslumaður veita gerðarbeiðanda vörslur þess, ef hann krefst og ástæða þykir til að óttast að það muni spillast eða rýrna í vörslum gerðarþola eða að vörslur hans muni á annan hátt torvelda nauðungarsölu.

57. gr.

    Ef fjárnám er gert í verðbréfum eða kröfum, sem skilríki eru fyrir, tekur sýslumaður vörslur þeirra af gerðarþola, ef gerðarbeiðandi krefst.
    Hafi fjárnám verið gert í kröfu, hvort sem skilríki eru fyrir henni eða ekki, er gerðarbeiðanda rétt að tilkynna það skuldaranum.
    Skuldari kröfu, sem fjárnám hefur verið gert í, losnar ekki undan skyldum sínum með greiðslu til gerðarþola, nema hann hafi hvorki vitað né mátt vita um fjárnámið, þegar greiðslan átti sér stað, eða viðskiptabréf, sem krafan styðst við, hafi verið komið í gjalddaga og verið í vörslum gerðarþola á þeim tíma og ekki borið með sér að fjárnám hafi verið gert í því.
    Nú liggur fyrir að unnt sé að fá greiðslu af kröfu, sem fjárnám hefur verið gert í, en gerðarbeiðandi hefur ekki nýtt sér þau réttindi, sem gerðin veitir honum til ráðstöfunar á kröfunni. Skal sýslumaður þá endurupptaka gerðina samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda og taka greiðsluna fjárnámi samkvæmt þeim reglum, sem kveðið er á um í 55. gr. Um endurupptökuna gilda reglur 9. kafla að öðru leyti en því, að ekki er þörf undanfarandi tilkynningar til gerðarþola eða nærveru hans eða málsvara hans við gerðina.

58. gr.

    Ef gerðarþoli, málsvari hans eða þriðji maður lýsir því yfir meðan á gerðinni stendur, að hann muni krefjast úrlausnar héraðsdómara um hana, getur gerðarbeiðandi ekki krafist umráðasviptingar skv. 56. gr. fyrr en að fjórum vikum liðnum frá því fjárnám var gert, nema hann setji nægilega tryggingu að mati sýslumanns fyrir tjóni, sem hlotist getur af henni.
    Ef gerðarþoli eða þriðji maður krefst úrlausnar héraðsdómara um fjárnámsgerð og meðan það ágreiningsmál hefur ekki verið leitt til lykta fyrir héraðsdómi, gilda fyrirmæli 1. mgr. um heimild gerðarbeiðanda til að krefjast umráðasviptingar skv. 56. gr. Ekki haggast af þeim sökum gildi umráðasviptingar, sem farið hefur fram áður en krafist var úrlausnar héraðsdómara.

59. gr.

    Ef ákvæði 55.–57. gr. leiða til að sýslumanni væri rétt að varðveita hið fjárnumda eða að afhenda það gerðarbeiðanda eða öðrum manni, en lögmæt umráð þriðja manns standa því í vegi, skal gerðarbeiðandi tilkynna umráðamanninum um fjárnámið og að óheimilt sé að viðlagðri ábyrgð að afhenda gerðarþola hið fjárnumda. Tilkynningu skal að jafnaði fylgja staðfest eftirrit gerðarinnar úr gerðabók.

60. gr.

    Fjárnám í lausafé eða kröfu fellur sjálfkrafa niður að liðnu ári frá því það var gert, ef krafa frá gerðarbeiðanda um nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun hins fjárnumda hefur ekki borist héraðsdómara innan þess tíma.
    Ákvæði 1. mgr. gilda ekki, ef nauðungarsölu eða annarrar lögmætrar ráðstöfunar hins fjárnumda hefur ekki verið krafist innan árs frá því fjárnámið var gert vegna réttarágreinings um það eða vegna réttinda þriðja manns, og gerðarbeiðandi krefst hennar innan þriggja mánaða frá því slík hindrun er úr vegi.

61. gr.

    Að því leyti, sem lög þessi kveða ekki sérstaklega á um annað, fer um nauðsyn tryggingarráðstafana fyrir rétti samkvæmt fjárnámi og um stöðu þess réttar gagnvart öðrum réttindum eftir almennum reglum laga.

8. KAFLI
Árangurslaust fjárnám.
62. gr.

    Fjárnámi skal ekki lokið án árangurs, nema gerðarþoli hafi sjálfur verið staddur við gerðina eða málsvari hans, eða hann hvorki finnst né neinn, sem málstað hans getur tekið.

63. gr.

    Ekki er rétt að fjárnámi sé lokið án árangurs, ef bent er á eign gerðarþola, sem að nokkru gæti nægt til tryggingar kröfunni, nema staðreynt hafi verið með virðingu skv. 2. eða 3. mgr. 38. gr. að hún nægi ekki til fullrar tryggingar.

64. gr.

    Ef gerðarbeiðandi rökstyður að ástæða geti verið til að ætla, að gerðarþoli eigi tiltekna eign, sem taka má fjárnámi, en það fæst ekki staðfest af hálfu gerðarþola og skilyrði eru að öðru leyti til að ljúka gerðinni án árangurs að nokkru eða öllu, er sýslumanni rétt að kröfu gerðarbeiðanda að kanna frekar hag gerðarþola með eftirfarandi hætti:
     1.      með því að taka við skýrslum annarra en gerðarþola, sem veitt geta vitneskju um eignina og reiðubúnir eru til að gefa slíka skýrslu að ósk gerðarbeiðanda.
     2.      með því að leita upplýsinga um eignina hjá opinberum stofnunum, öðrum stjórnvöldum, viðskiptabönkum eða sparisjóðum.
    Skylt er þeim, sem 2. tölul. 1. mgr. tekur til, að veita þær upplýsingar, sem sýslumaður krefst og varða hag gerðarþola.

9. KAFLI
Endurupptaka fjárnámsgerðar.
65. gr.

    Endurupptaka skal fjárnámsgerð, ef allir málsaðilar eru á það sáttir.
    Fjárnámsgerð skal enn fremur endurupptekin að kröfu málsaðila, ef úrskurður héraðsdómara eða dómur æðra dóms hefur gengið um breytingu hennar, sbr. 95. gr.


66. gr.

    Fjárnámsgerð verður endurupptekin að kröfu gerðarbeiðanda vegna eftirfarandi atvika:
     1.      ef nauðsyn ber til að svipta gerðarþola umráðum hins fjárnumda eða til að taka við því úr umráðum þriðja manns eða til að taka að öðru leyti upp fyrri ákvörðun um umráð þess, áður en sá tími er kominn, að nauðungarsala eða önnur lögmæt ráðstöfun hins fjárnumda má fara fram.
     2.      ef gerðarbeiðandi vill leysa eign undan fjárnámi.
     3.      ef gerðarbeiðandi krefst að hið fjárnumda verði skrásett með nánara hætti en í upphafi var gert.
     4.      ef þau atvik verða, sem 4. mgr. 57. gr. tekur til.
     5.      ef söluandvirði hins fjárnumda við nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun hefur ekki hrokkið til fullrar greiðslu kröfu gerðarbeiðanda.
     6.      ef gerð hefur verið lokið án árangurs að einhverju leyti eða öllu og gerðarbeiðandi telur unnt að vísa á frekari eignir til fjárnáms.

67. gr.

    Fjárnámsgerð verður endurupptekin að kröfu gerðarþola vegna eftirfarandi atvika:
     1.      ef gerðarþoli hefur ekki verið við gerðina og fjárnám hefur verið gert í eign, sem óheimilt var að taka fjárnámi eða mátti undanþiggja.
     2.      ef fjárnám hefur að einhverju leyti eða öllu fallið niður vegna atvika, sem komið hafa til eftir að gerðin fór fram, eða vegna dómsúrlausnar, sem hnekkt hefur gildi aðfararheimildar að nokkru eða öllu, og gerðarþoli þykir hafa hagsmuni af að gerðin verði endurupptekin af þeim sökum.
    Þriðja manni, sem telur fjárnámsgerð fara í bága við rétt sinn, er heimilt að krefjast endurupptöku fjárnámsgerðar, hafi hann ekki átt þess kost að koma mótmælum fram gegn gerðinni, meðan á henni stóð.

68. gr.

    Beiðni um endurupptöku skal beint til þess sýslumanns, sem lauk fjárnámsgerð.
    Við endurupptöku skal farið eftir þeim reglum, sem gilda um framkvæmd fjárnámsgerðar, eftir því sem við getur átt.
    Sýslumaður er óbundinn af fyrri ákvörðunum sínum, að því leyti, sem þær geta komið til endurskoðunar við endurupptöku.

10. KAFLI
Fjárnám til fullnustu kröfu um dagsektir.
69. gr.

    Þau fyrirmæli þessa kafla, sem fela í sér frávik frá almennum reglum laga þessara, taka til krafna um dagsektir og önnur áfallandi viðurlög, sem lögð hafa verið á gerðarþola til að knýja hann til efnda á skyldu, enda hafi fjárhæð þeirra ekki verið ákvörðuð með þeim hætti, að í þeim felist skaðabætur eða endurgjald til þess, sem gerðarþoli ber skyldu við.

70. gr.

    Ef dagsektarkrafa styðst við aðfararheimild, sem beina á til héraðsdómara skv. 11. gr., nægir að það sé gert í fyrsta sinn, sem fjárnáms er krafist. Ef fjárnáms er krafist á ný til heimtu dagsekta, sem síðan hafa fallið til, má beina aðfararbeiðni til sýslumanns án undanfarandi meðferðar héraðsdómara.
    Fjárnám verður ekki gert til fullnustu kröfu um áfallnar dagsektir fyrr en mánuður er liðinn frá því síðast var gert fjárnám vegna áður tilfallinna dagsekta.


71. gr.

    Ekki verður af fjárnámi til fullnustu dagsekta, ef gerðarþoli hefur efnt skyldur sínar eða býður fram efndir þeirra við gerðina eða atvik eru annars með þeim hætti, að hann hafi losnað undan þeirri skyldu, sem dagsektirnar varða. Fjárnám, sem áður hefur verið gert til fullnustu áfallinna dagsekta, fellur þá niður hvað þær varðar, nema annað leiði af öðrum lagareglum eða ákvæðum aðfararheimildarinnar.

IV. ÞÁTTUR
Fullnusta kröfu um annað en peningagreiðslu.
11. KAFLI
Aðför til fullnustu kröfu um annað en peningagreiðslu.
72. gr.

    Ef aðfararheimild kveður á um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða til að láta gerðarbeiðanda af hendi umráð hennar að einhverju leyti eða öllu. eða til að fjarlægja hluti af henni, skal sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með útburði gerðarþola eða þeirra hluta, sem fjarlægðir verða, og eftir atvikum með innsetningu gerðarbeiðanda.

73. gr.

    Ef aðfararheimild kveður á um skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð annars en þess, sem 72. gr. tekur til, skal sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með því að taka það með valdi úr umráðum gerðarþola og afhenda gerðarbeiðanda.

74. gr.

    Ef aðfararheimild kveður á um skyldu gerðarþola til að gefa út eða rita undir skjal eða til að standa á annan hátt að löggerningi, skal sýslumaður, ef því verður við komið, fullnægja rétti gerðarbeiðanda með því sjálfur að framkvæma viðkomandi athöfn með sömu réttaráhrifum og ef hann hefði umboð gerðarþola til þess.

75. gr.

    Ef aðfararheimild kveður á um skyldu gerðarþola til að láta eitthvað ógert, getur sýslumaður samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda falið lögreglumönnum að varna því að gerðarþoli brjóti gegn því banni.

76. gr.

    Nú er kveðið á í aðfararheimild um aðra skyldu gerðarþola en fyrirmæli 72.–75. gr. taka til, og gerðarþoli verður ekki við áskorun sýslumanns um að efna hana. Kveði aðfararheimild á um sérstakt peningagjald í stað þess, sem upphaflega skyldi innt af hendi, getur sýslumaður gert fjárnám fyrir því þegar í stað, ef gerðarbeiðandi krefst. Að öðrum kosti skal farið að með þeim hætti, sem í 77. gr. segir.

77. gr.

    Ef leitt er í ljós við aðfarargerð að kröfu gerðarbeiðanda verður ekki fullnægt samkvæmt því, sem hér á undan segir, en ómöguleiki eða önnur samsvarandi atvik leysa gerðarþola ekki endanlega undan henni, getur gerðarbeiðandi krafist að héraðsdómari ákveði honum peningagreiðslu úr hendi gerðarþola þess í stað.
    Ef aðfararheimild mælir fyrir um skyldu gerðarþola til að leysa af hendi verk, sem hann fæst ekki til að vinna, getur sýslumaður heimilað gerðarbeiðanda að fá aðra til að vinna það eftir reikningi. Skal héraðsdómari þá að jafnaði ákveða gerðarbeiðanda endurgreiðslu þess reiknings úr hendi gerðarþola.
    Verði sú leið ekki farin, sem í 2. mgr. segir, dómkveður héraðsdómari einn eða tvo menn að kröfu gerðarbeiðanda til að meta hagsmuni hans til fjár. Í því mati skal einkum, eftir því sem við getur átt, farið eftir þeim reglum, sem gilda um ákvörðun eignarnámsbóta.
    Við meðferð héraðsdómara samkvæmt framansögðu skal að öðru leyti farið eftir reglum 14. kafla, eftir því sem við getur átt.
    Héraðsdómari ákveður gerðarbeiðanda endurgjald skv. 2. eða 3. mgr. með úrskurði, sem fullnægja má með fjárnámi samkvæmt almennum reglum.


12. KAFLI
Útburðar- og innsetningargerðir án undangengins dóms eða réttarsáttar.
78. gr.

    Ef manni er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður skv. 83. gr., er honum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis, sem getur í 72. eða 73. gr., verði fullnægt með aðfarargerð, þótt aðfararheimild skv. 1. gr. liggi ekki fyrir.
    Er héraðsdómara hefur borist beiðni skv. 1. mgr. og hann telur að lög leiði ekki til að henni verði þegar vísað á bug, skal hann fara með hana eftir þeim reglum, sem mælt er fyrir um í 13. kafla.

79. gr.

    Ekki stendur það í vegi aðfarargerðar skv. 78. gr., þótt dómsmál sé jafnframt rekið milli sömu aðila um önnur atriði, sem varða réttarsamband þeirra.


V. ÞÁTTUR
Málsmeðferð fyrir héraðsdómi.
13. KAFLI
Meðferð máls um aðfararbeiðni.
80. gr.

    Þegar kveðja þarf gerðarþola fyrir héraðsdóm vegna aðfararbeiðni samkvæmt fyrirmælum 14. eða 78. gr., ákveður héraðsdómari stað og stund til þinghalds og tilkynnir það gerðarþola með símskeyti, ábyrgðarbréfi eða öðrum jafntryggum hætti. Í tilkynningu til gerðarþola skal að auki getið um eftirfarandi í meginatriðum:
     1.      hver krefjist gerðarinnar og við hverja heimild sú krafa styðjist.
     2.      hvers gerðarbeiðandi krefjist í beiðni sinni.
     3.      hverju það varði, ef gerðarþoli sækir ekki þing.
    Tilkynning skv. 1. mgr. skal berast gerðarþola eða þeim, sem löghæfur er til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd, með sama fyrirvara og birta þyrfti honum stefnu í almennu einkamáli. Þó má héraðsdómari ákveða skemmri fyrirvara, ef brýnir hagsmunir gerðarbeiðanda krefjast þess.
    Héraðsdómari tilkynnir gerðarbeiðanda um stað og stund til þinghalds með hæfilegum fyrirvara og sannanlegum hætti.

81. gr.

    Ef gerðarbeiðandi sækir ekki þing, þegar beiðni hans er tekin fyrir, eða ekki verður af þingsókn hans síðar, skal beiðnin teljast fallin niður. Héraðsdómari getur úrskurðað gerðarþola ómaksþóknun úr hendi gerðarbeiðanda, ef sótt hefur verið þing af hálfu gerðarþola og þóknunar verið krafist.

82. gr.

    Ef gerðarþoli sækir ekki þing, þegar aðfararbeiðni er tekin fyrir, eða þingsókn hans fellur síðar niður, kveður héraðsdómari upp úrskurð um hvort og að hverju leyti gerðin nái fram að ganga samkvæmt framkomnum gögnum.
    Héraðsdómari ritar ályktunarorð úrskurðar skv. 1. mgr. á aðfararbeiðni og afhendir eða sendir hana gerðarbeiðanda ásamt samriti fylgigagna.

83. gr.

    Ef sótt er þing af hálfu gerðarþola og varnir, sem ekki verður þegar vísað á bug, koma fram gegn aðfararbeiðni, skal málsaðilum veittur skammur frestur til greinargerða og öflunar sýnilegra sönnunargagna um ágreiningsefnið. Ef sátt tekst ekki, skal málið síðan sótt og varið munnlega, en vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skulu að jafnaði ekki fram fara.
    Varnir verða ekki hafðar uppi gegn aðfararbeiðni um atriði, sem dómstóll hefur áður tekið afstöðu til.
    Héraðsdómari kveður upp úrskurð um hvort eða að hverju leyti gerðin nái fram að ganga samkvæmt skýrslum og málflutningi aðila og framkomnum skjölum. Að jafnaði skal aðfararbeiðni hafnað, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt áðursögðu.

84. gr.

    Almennum reglum um meðferð einkamála í héraði skal annars beitt um mál samkvæmt þessum kafla, eftir því sem við getur átt.
    Úrskurði héraðsdómara samkvæmt þessum kafla má fullnægja þegar með aðför, nema sérstakur aðfararfrestur hafi verið tiltekinn í úrskurðinum.
    Málskot úrskurðar héraðsdómara samkvæmt þessum kafla til æðra dóms frestar ekki aðfarargerð, nema fallist hafi verið á kröfu þess efnis í úrskurðinum.

14. KAFLI
Úrlausn ágreinings, sem rís við framkvæmd aðfarargerðar
eða um endurupptöku hennar.

85. gr.

    Heimilt er gerðarbeiðanda, meðan aðfarargerð er ólokið, að krefjast úrlausnar héraðsdómara um einstakar ákvarðanir, sem sýslumaður tekur um framkvæmd hennar, ef gerðarbeiðandi hefur þá kröfu uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina.
    Gerðarþola er því aðeins heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um einstakar ákvarðanir sýslumanns um aðfarargerð, meðan henni er ólokið, að gerðarbeiðandi samþykki eða gerðinni hafi verið frestað í kjölfar ákvörðunarinnar, enda hafi gerðarþoli þá kröfu uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina. Ef gerðarbeiðandi krefst úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns, er gerðarþola þó frjálst að hafa kröfur uppi um sömu ákvörðun.
    Heimilt er þriðja manni að krefjast úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um aðfarargerð með sömu skilyrðum og gerðarþola, ef sú ákvörðun varðar atriði, sem hann hefur hagsmuni af.
    Heimilt er málsaðila að krefjast úrlausnar héraðsdómara um synjun sýslumanns um endurupptöku aðfarargerðar, ef krafan kemur fram án ástæðulauss dráttar og áður en krafist er frekari ráðstafana á grundvelli gerðarinnar.
    Ákvarðanir sýslumanns um einstök atriði gerðar, sem málsaðili hefur ekki krafist úrlausnar héraðsdómara um skv. 1.–4. mgr., verða ekki lagðar undir úrlausn héraðsdómara síðar nema með þeim hætti, sem mælt er fyrir um í 92. gr.

86. gr.

    Ef málsaðili krefst úrlausnar héraðsdómara með þeim hætti, sem í 1.–3. mgr. 85. gr. segir, frestast gerðin að því leyti, sem hún er háð viðkomandi ákvörðun. Skal sýslumaður bóka nákvæmlega hver sú ákvörðun er, sem krafist er úrlausnar héraðsdómara um, og hverjar kröfur aðilar gera. Skulu jafnframt bókaðar í stuttu máli röksemdir, sem þeir færa fyrir kröfum sínum.
    Ef gerðarþoli er ekki viðstaddur eða neinn, sem málstað hans getur tekið, þegar gerðarbeiðandi krefst úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns, skal sýslumaður tilkynna gerðarþola um málavexti.
    Sýslumaður skal afhenda þeim, sem krefst úrlausnar héraðsdómara, staðfest ljósrit gagna og eftirrit úr gerðabók varðandi aðfarargerðina svo fljótt, sem við verður komið. Sá, sem krefst úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns, skal án tafar senda héraðsdómara málsgögn skv. 3. mgr.
    Heimilt er sýslumanni að senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málefnið.

87. gr.

    Er héraðsdómara hafa borist gögn varðandi aðfarargerðina, ákveður hann stað og stund til þinghalds og tilkynnir málsaðilum það með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara.
    Sá, sem krafist hefur úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns, telst sóknaraðili máls um ágreiningsefnið fyrir héraðsdómi, en gagnaðili að gerðinni varnaraðili máls. Komi sjálfstæðar kröfur fram af hálfu varnaraðila um ákvörðun sýslumanns, skal farið með þær eins og gagnsök í sama máli.

88. gr.

    Ef þinghald skv. 1. mgr. 87. gr. er sótt af hálfu beggja eða aura málsaðila og sættir takast ekki um ágreininginn, veitir héraðsdómari þeim skamman frest til greinargerða og öflunar sýnilegra sönnunargagna, ef þörf krefur. Skal málið síðan sótt og varið munnlega.
    Kröfur verða ekki hafðar uppi í máli samkvæmt kafla þessum í andstöðu við fyrri úrlausn dómstóls um málefnið.

89. gr.

    Ef sóknaraðili sækir ekki þinghald skv. 1. mgr. 87. gr. eða þingsókn hans fellur síðar niður, skal fella málið niður, ef varnaraðili hefur ekki sjálfstæðar kröfur uppi, en ella aðalsök þess. Heimilt er héraðsdómara að úrskurða varnaraðila ómaksþóknun úr hendi sóknaraðila, ef mál er fellt niður og varnaraðili hefur sótt þing og krefst hennar. Ef varnaraðili hefur gert sjálfstæðar kröfur í málinu, skal farið með sök hans samkvæmt reglum 2. mgr., eftir því sem við getur átt að breyttu breytanda.
    Ef varnaraðili sækir ekki þinghald skv. 1. mgr. 87. gr. eða þingsókn hans fellur síðar niður, skal héraðsdómari fella gagnsök niður, ef varnaraðili hefur haft sjálfstæðar kröfur uppi, og gefa sóknaraðila kost á að leggja fram greinargerð í aðalsök, hafi hún ekki áður komið fram. Hafi varnaraðili lagt fram greinargerð, áður en þingsókn hans féll niður, skal sóknaraðila gefinn kostur á að leggja fram stutt skriflegt svar við röksemdum varnaraðila, áður en málið verður tekið til úrskurðar.

90. gr.

    Vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skulu að jafnaði ekki fara fram í málum samkvæmt kafla þessum.
    Í úrskurði héraðsdómara skal á grundvelli skýrslna og málflutnings aðila og framkominna skjala kveðið á um staðfestingu eða ómerkingu ákvörðunar sýslumanns eða lagt fyrir sýslumann að framkvæma gerð með öðrum hætti en hann hafði áður ákveðið.
    Héraðsdómari leggur ekki mat í úrskurði sínum á önnur atriði gerðar en þau, sem krafist hefur verið úrlausnar um, nema um atriði sé að tefla, sem sýslumanni bar að gæta af sjálfsdáðum.

91. gr.

    Almennum reglum um meðferð einkamála í héraði skal annars beitt um mál samkvæmt þessum kafla, eftir því sem við getur átt.
    Aðfarargerð má þegar fram halda, er úrskurður héraðsdómara samkvæmt þessum kafla hefur gengið, ef annað er ekki tekið fram í úrskurðinum.
    Málskot úrskurðar héraðsdómara samkvæmt þessum kafla til æðra dóms frestar ekki aðfarargerð, nema fallist hafi verið á kröfu þess efnis í úrskurðinum.

15. KAFLI
Úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar.
92. gr.

    Heimilt er málsaðilum, þar á meðal þriðja manni, sem hagsmuni hefur af gerðinni, að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því gerðinni var lokið.
    Þegar frestur skv. 1. mgr. er liðinn, verður ágreiningur um aðfarargerð eða ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd hennar ekki lagður fyrir héraðsdómara, nema allir málsaðilar séu á það sáttir eða héraðsdómari telji afsakanlegt að málefnið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð eða til ágreinings komi um gerðina vegna kröfu gerðarbeiðanda um nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun á eign, sem tekin hefur verið fjárnámi.

93. gr.

    Þegar málsaðili krefst úrlausnar um aðfarargerð skv. 92. gr., tilkynnir hann héraðsdómara það skriflega. Í tilkynningunni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      um hverja aðfarargerð er að ræða, hvenær hún fór fram og hverjir aðilar hennar voru.
     2.      hvers krafist er fyrir héraðsdómara.
     3.      á hverjum málsástæðum og lagarökum kröfur eru reistar.
    Með tilkynningu skv. 1. mgr. skulu að jafnaði fylgja staðfest eftirrit framlagðra gagna við aðfarargerðina og bókana í gerðabók sýslumanns um hana, en ella skulu þau afhent héraðsdómara svo fljótt, sem við verður komið.
    Heimilt er sýslumanni að senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málefnið.

94. gr.

    Um málsmeðferð fyrir héraðsdómi gilda fyrirmæli 87.–89. gr. og 1. mgr. 90. gr., en að öðru leyti almennar reglur um meðferð einkamála í héraði, eftir því sem við getur átt.

95. gr.

    Í úrskurði héraðsdómara skal á grundvelli skýrslna og málflutnings aðila og framkominna skjala kveðið á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar, samkvæmt því, sem við á hverju sinni. Ef kveðið er á um breytingu gerðarinnar, skal tiltekið nákvæmlega í hverju hún felst.
    Málskot úrskurðar héraðsdómara samkvæmt þessum kafla til æðra dóms frestar ekki frekari fullnustuaðgerðum, nema fallist hafi verið á kröfu þess efnis í úrskurðinum.

VI. ÞÁTTUR
Ýmis ákvæði.
16. KAFLI
Ábyrgð á aðfarargerð.
96. gr.

    Hafi gerðarbeiðandi krafist fullnustu kröfu eða réttinda með aðfarargerð, sem síðar er leitt í ljós að skilyrði skorti til, ber honum að bæta allt tjón, sem aðrir hafa orðið fyrir af þeim sökum.
    Hafi aðfarargerð farið fram með ólögmætum hætti og verið felld úr gildi af þeim sökum að einhverju leyti eða öllu með dómsúrlausn, á sá, sem fyrir tjóni hefur orðið, rétt til bóta úr hendi gerðarbeiðanda eftir almennum skaðabótareglum.
    Ef svo stendur á, sem í 1. eða 2. mgr. segir, og gerðarþoli hefur sætt frelsisskerðingu, húsleit verið gerð hjá honum eða leit verið gerð á honum, sbr. 29.–31. gr., á hann rétt til miskabóta úr hendi gerðarbeiðanda.

97. gr.

    Heimilt er þeim, sem tilkall á til bóta skv. 96. gr., að beina málsókn til heimtu þeirra að ríkissjóði óskipt með gerðarbeiðanda, ef sýslumaður eða fulltrúi hans hefur sýnt af sér gáleysi við framkvæmd þeirrar athafnar, sem leitt hefur til tjóns.
    Um ábyrgð héraðsdómara fer eftir sérreglum laga.

98. gr.

    Mál til heimtu bóta skv. 96. gr., sbr. 1. mgr. 97. gr., ber að höfða fyrir héraðsdómi áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því sá, sem fyrir tjóni hefur orðið, átti þess fyrst kost að hafa kröfu sína uppi.

17. KAFLI
Gildistaka, brottfallin lög og ákvæði til bráðabirgða.
99. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. jú1í 1990.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirfarandi lög og ákvæði laga:
     1.      Lög um aðför, nr. 19, 4. nóvember 1887.
     2.      8. og 9. tölul. 1. mgr. og 2. og 3. mgr. 1. gr. og 2.–16. gr. laga um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar, nr. 29, 16. desember 1885.
     3.      Í norskum lögum Kristjáns V., 15. apríl 1687, í I. bók, 22. kap.; 19., 22., 23., 24., 28., 39., 40. og 56. gr.
     4.      Kammerréttarskipun 18. mars 1720.
     5.      Tilskipun um aðför eftir áfrýjuðum dómum, 13. janúar 1792.
     6.      Tilskipun um aðför eftir dómum, er leggja fyrir fyllingar- eða synjunareið, 14. september 1792.
     7.      Kansellíumburðarbréf um aðför eftir sátt hjá gjaldheimtumönnum konungs, 16. nóvember 1819.
     8.      Opið bréf um innheimtu eftirgjalds af jarðeignum landssjóðs, 21. maí 1829.
     9.      Opið bréf handa Íslandi, er nákvæmar ákveður um innheimtu á kröfum með forgangsrétti hjá þeim mönnum, sem hafa látið aðra fá sjálfsvörzluveð í lausafé sínu, 11. desember 1869.
     10.      Lög um úrskurðarvald sáttanefnda, nr. 32, 11. júlí 1911.

100. gr.

    Aðfarargerðir skulu ekki fara fram og ekki skal tekið við nýjum aðfararbeiðnum frá og með 15. júní 1990 til og með 30. júní 1990, nema brýnir hagsmunir gerðarbeiðanda krefjist þess að mati fógeta. Heimilt er þó á framangreindu tímabili að ljúka gerð, sem byrjað hefur fyrir 15. júní 1990.

101. gr.

    Beiðnir um aðfarargerðir, sem ekki hefur verið sinnt þann 15. júní 1990 og liggja fyrir við borgarfógetaembættið í Reykjavík, embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli og embætti bæjarfógeta og sýslumanna, skulu endursendar hlutaðeigandi gerðarbeiðendum, nema þeir hafi áður óskað bréflega eftir framsendingu tiltekinna beiðna til héraðsdóms eða embættis sýslumanns, eftir því sem leiðir af fyrirmælum 11. og 16. gr.
    Beiðnir sem framsendar eru samkvæmt fyrirmælum 1. mgr., skulu skráðar skv. 1. mgr. 15. eða 18. gr., og njóta stöðu skv. 1. mgr. 19. gr. í samræmi við þann dag, sem þær bárust borgarfógeta, lögreglustjóra, bæjarfógeta eða sýslumanni, ef þær bera móttökudaginn með sér. Teljast þær ella mótteknar 1. júlí 1990.
    Beiðnir sem endursendar eru gerðarbeiðendum samkvæmt fyrirmælum 1. mgr., glata þeirri réttarvernd, sem þær kunna að njóta samkvæmt gildandi lögum 15. júní 1990.

102. gr.

    Aðför má gera samkvæmt fyrirmælum laga þessara til fullnustu kröfu, þótt hún hafi ekki verið aðfararhæf samkvæmt fyrirmælum eldri laga og þótt gjalddagi hennar eða efndatími hafi verið fyrir 1. júlí 1990. Þetta tekur þó ekki til krafna, sem nutu lögtaksréttar, ef sá réttur er fyrndur samkvæmt eldri lögum við gildistöku þessara laga.
    Ekki er þörf birtingar áskorunar áður en aðför fer fram samkvæmt lögum þessum, þótt svo hafi staðið á um kröfu fyrir gildistöku laganna, sem segir í 9. gr. laga nr. 19/1887.

103. gr.

    Ef aðfarargerð hefur byrjað fyrir gildistöku laga þessara, en er ólokið á því tímamarki, fer um framhald hennar samkvæmt fyrirmælum þessara laga.

104. gr.

    Um heimildir til umráðasviptingar eigna, sem fjárnám eða lögtak hefur verið gert í fyrir 1. júlí 1990, fer eftir 7. kafla frá þeim degi.
    Fyrirmæli 54., 58. og 60. gr. taka ekki til aðfarargerða, sem hafa farið fram fyrir 1. júlí 1990.

105. gr.

    Um heimildir til endurupptöku fjárnáms- eða lögtaksgerða, sem hafa farið fram fyrir 1. júlí 1990, skal farið eftir reglum eldri laga, þótt komið sé fram yfir þann dag. Um framkvæmd víð endurupptöku skal farið eftir fyrirmælum 68. gr., eftir því sem við getur átt.

106. gr.

    Fyrirmæli 10. kafla taka ekki til dagsekta, sem fallið hafa í gjalddaga fyrir 1. júlí 1990.

107. gr.

    Ef rekstur sérstaks ágreiningsmáls hefur byrjað fyrir fógetarétti eða ákvörðun verið tekin um hann fyrir 1. júlí 1990, en málinu hefur ekki verið lokið fyrir þann dag, skal það sjálfkrafa sæta áframhaldandi meðferð fyrir þeim héraðsdómi, sem þá tekur við lögsögu í viðkomandi umdæmi. Meðferð slíks máls skal lokið samkvæmt þeim reglum, sem giltu fyrir gildistöku laga þessara.
    Aðfarargerð, sem lokið hefur verið fyrir 1. júlí 1990, verður ekki borin undir héraðsdóm skv. 15. kafla.

108. gr.

    Fyrirmæli 16. kafla taka ekki til athafna, sem eiga sér stað fyrir 1. júlí 1990, þótt aðfarargerð sé lokið eftir þann tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Unnið hefur verið að gerð þess í samráði við réttarfarsnefnd og laganefnd Lögmannafélags Íslands.
    Frumvarpinu er aðallega ætlað að leysa af hólmi tvenn lög um aðfarargerðir, annars vegar lög um aðför nr. 19, 4. nóvember 1887 (hér á eftir nefnd aðfararlög), og hins vegar lög um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar nr. 29, 16. desember 1885 (hér á eftir nefnd lögtakslög). Að auki tekur frumvarpið til efnis, sem dreifð fyrirmæli í enn eldri réttarheimildum hafa gilt um, eins og sjá má nánar af talningu brottnuminna laga í 99. gr. frumvarpsins. Viðfangsefni frumvarpsins, eins og nefndra núgildandi laga, er að kveða á um almenn úrræði til að fá fullnægt skyldum einstakra manna, félaga, samtaka eða stofnana, sem þeir geta ekki eða vilja ekki efna sjálfviljugir. Það úrræði, sem lög heimila í þessu skyni og ríkisvaldið veitir atbeina sinn til, felst í aðför eða aðfarargerð. Aðför verður almennt beitt til að knýja á um fullnustu skyldu, hvort sem hún er til greiðslu peningaskuldar, til ákveðinnar athafnar eða til að láta eitthvað ógert. Um nánari skilyrði fyrir að krefjast megi aðfarar til fullnustu skyldu er mælt fyrir í lögum. Að meginreglu verður aðför aðeins beitt til að fullnægja dómi eða lögbundnu ígildi hans, eins og sést af fyrirmælum aðfararlaga um fjárnám samkvæmt dómi um skyldu til peningagreiðslu og um aðför til fullnustu annarra skuldbindinga samkvæmt dómi. Um langan aldur hefur þó verið viðurkennt í löggjöf að aðför geti farið fram án slíks aðdraganda, eins og sést af heimild Norskra laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687 til útburðar án undangengins dóms, og fyrirmælum lögtakslaga um aðför til fullnustu tiltekinna tegunda peningakrafna án undanfarandi dóms eða réttarsáttar. Í löggjöf um aðför þarf þó ekki aðeins að taka afstöðu til þess, hverjum skilyrðum þurfi að fullnægja til að ríkisvaldið veiti atbeina með valdbeitingu til að knýja á um efndir skyldu með aðfarargerð, heldur einnig hvernig staðið verði nánar að framkvæmd aðfararinnar og hverjum handhafa ríkisvalds, stjórnvaldi eða dómstól, sé falið að annast það viðfangsefni.
    Frumvarpið er samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan og réttarfar á héraðsdómstigi og tengist þannig frumvarpi til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem dómsmálaráðherra lagði fram á 110. löggjafarþingi 1987–88, en varð ekki útrætt þar. Það frumvarp gerir ráð fyrir umfangsmiklum breytingum á skipan dómstóla í héraði, sem einar sér krefja að löggjöf um aðfarargerðir verði endurskoðuð því til samræmis. Í almennum athugasemdum með því frumvarpi og í 15. lið athugasemda við 10. gr. þess er fjallað um þá meginstefnu, sem fylgt hefur verið við samningu þessa frumvarps, hvað varðar aðgreiningu einstakra viðfangsefna við aðfarargerðir í dómsathafnir og stjórnvaldsathafnir. Þetta frumvarp er gagngert byggt á umræddri stefnu og þeirri forsendu, að frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nái fram að ganga, og kemur það því ekki að haldi í núverandi mynd að óbreyttri skipan héraðsdómstóla eða ef henni verður breytt teljandi á annan veg en ráðgert er í umræddu frumvarpi um aðskilnað.
    Frumvörp þau, sem urðu að aðfararlögum og lögtakslögum hér á landi, voru nánast þýðingar samsvarandi lagafrumvarpa, sem gerð voru í Danmörku á 7. og 8. áratug 19. aldar, og voru lögfest þar í landi um líkt leyti og hér. Dönsk löggjöf um þessi efni hefur margoft sætt endurskoðun og var umfangsmesta breytingin gerð á henni með setningu laga nr. 258/1976 þar í landi. Hér hafa aðfararlög og lögtakslög hins vegar tekið fáum og mjög óverulegum breytingum frá upphaflegri mynd. Fyrirmælum aðfararlaga um muni, sem undanþegnir eru fjárnámi, og um svonefndan frátökurétt þess, sem fjárnám er gert hjá, var að nokkru breytt með lögum nr. 11/1966. Þá voru gerðar breytingar á fyrirmælum aðfararlaga um upphafsstað aðfarar með lögum nr. 15/1988. Nokkrum reglum lögtakslaga um framkvæmd lögtaksgerða var breytt með lögum nr. 108/1950, en aðrar breytingar á þeim lögum og aðfararlögum en þær, sem nú hafa verið nefndar og gerðar hafa verið, hafa takmarkaða almenna þýðingu. Af þessu er ljóst að hér hefur verið búið við nánast óbreytta löggjöf á þessu sviði í meira en eina öld, og því, þótt annað kæmi ekki til, ástæða til endurskoðunar hennar í ljósi verulega breyttra aðstæðna. Þess má einnig geta, að á undanförnum árum hefur ályktunum ýmissa samtaka, m.a. Dómarafélags Íslands, verið beint til dómsmálaráðherra, þar sem kvatt hefur verið til að löggjöf á þessu sviði verði tekin til endurskoðunar.
    Áður en vikið verður nánar að einstökum ákvæðum frumvarpsins, verður gerð nokkur grein fyrir meginefni þess og helstu breytingunum, sem það ráðgerir frá núgildandi lögum, en síðan verður efnisskipan þess skýrð sérstaklega.

1. Helstu efnisatriði frumvarpsins.

I.

    Ein veigamesta breytingin frá núgildandi lögum, sem lögð er til í frumvarpinu, snýr að
eðli aðfarargerða, en sú breyting tengist nánar tiltekið því, hverjir fari með þær. Er miðað við að sýslumenn, sem frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði ráðgerir að hafi með höndum hlutverk umboðsmanna framkvæmdarvaldsins í héraði, fari með framkvæmd aðfarargerða sem stjórnvaldsathafnir. Eins og vikið er þó nánar að hér síðar, er héraðsdómstólum ætlað veigamikið hlutverk við aðfarargerðir samkvæmt frumvarpi þessu, bæði við undirbúning þeirra og við úrlausn réttarágreinings, sem rís við þær, en reglur frumvarpsins fela ekki í sér að sýslumenn fari á neinn hátt með dómsvald í þessum efnum.
    Í aðfararlögum og lögtakslögum hafa gerðir þessar í flestum atriðum verið taldar til dómsathafna. Þessi skipan á sér þá forsögu, að fyrir konungseinveldi hér á landi og í Danmörku önnuðust valdsmenn eða umboðsmenn konungs fullnustugerðir, þar á meðal aðfarargerðir. Þessir valdsmenn (í Danmörku „kongens foged“, hér á landi sýslumenn) fóru ekki í upphafi með dómsvald, en var hins vegar veitt það á tíma einveldis Danakonungs. Upp frá því var dómsvald og framkvæmdarvald í héraði almennt á sömu hendi og lengi nánast engum tilgangi þjónandi að leiða getum að því, hvort fullnustugerðir teldust dómsathafnir eða stjórnvaldsathafnir.
    Eftir afnám konungseinveldis í Vestur-Evrópu þurfti hins vegar að taka afstöðu til þess, hvort aðfarargerðir og ýmsar aðrar fullnustugerðir ættu heima í höndum dómenda eða stjórnvalda við þá skipan ríkisvalds, sem þá komst víða á og studdist almennt við lögmál um þrígreiningu þess. Afstaða var tekin til þessara atriða smám saman í einstökum ríkjum með setningu nýrra réttarfarslaga, sem leystu af hólmi einveldislöggjöf um þau efni, og í nokkrum tilvikum samhliða setningu sérstakrar löggjafar uni aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds.
    Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi var sá kostur valinn, að fela stjórnvöldum að fara með aðfarargerðir, þegar löggjöf aðgreindi störf þeirra og dómenda. Í Danmörku var sú leið hins vegar farin við setningu aðfararlaga og lögtakslaga að telja aðfarargerðir til dómsathafna og fela þar með dómstólum meðferð þeirra. Við aðskilnað dómstarfa og stjórnvaldsstarfa, sem síðar komst þar á, var þessi skipan látin haldast, þótt umdeilt hafi verið.
    Utan Norðurlanda hafa aðfarargerðir almennt ekki verið í höndum þeirra, sem fara með dómsvald. Er ýmist að gerðir þessar eru í höndum stjórnvalda eða sérstakra löggiltra manna, sem að öðru leyti fara ekki með opinber störf.
    Við setningu aðfararlaga og lögtakslaga hér á landi var næsta sjálfgefið að sú skipan yrði tekin upp, sem komst á í Danmörku eftir afnám einveldis. Með því að sömu embættismenn hafa frá setningu þessara laga og allt til þessa dags farið að mestu með bæði framkvæmdarvald og dómsvald í héraði hér á landi, hefur spurningin um hvort aðfarargerðir eigi að vera stjórnvaldsathafnir eða dómsathafnir heldur ekki haft teljandi þýðingu varðandi það, hverjir fari með framkvæmd þeirra. Vegna ráðagerða um aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds, sem byggjast á að sömu menn geti ekki farið með báða þessa valdþætti í senn, reynir hins vegar í þessu tilliti nú fyrst, svo máli skiptir, á það hvort þetta viðfangsefni verði framvegis í höndum stjórnvalda (sýslumanna) eða dómenda (héraðsdómstóla).
    Af því, sem áður er komið fram, er ljóst að löggjöf á umræddu sviði hér á landi og í Danmörku nýtur verulegrar sérstöðu í samanburði við önnur nágrannalönd, með því að aðfarargerðir teljast að meginreglu til dómsathafna. Ef fyrirmæli aðfararlaganna eru skoðuð nánar, sést þó að þar hefur tveimur meginatriðum í reynd verið steypt saman í eina heild. Annars vegar er ráðgert í lögunum að fyrir byrjun aðfarargerðar þurfi að taka afstöðu til þess, hvort heimild sé fyrir henni, en þó svo verði talið, getur einnig risið réttarágreiningur á síðari stigum um einstök atriði gerðarinnar, sem leysa þarf úr. Vart verður um það deilt, að valdið til að leysa úr þessum atriðum aðfarargerða verði með fáum undantekningum að vera hjá dómstólum. Hins vegar felst annað og meira í aðfarargerðinni, sem er sjálf framkvæmd hennar. Meginhluti aðfararlaganna fjallar um framkvæmd aðfarar, enda er þar um að ræða þann þátt þessara gerða, sem mest reynir á. Ekki verður séð að eðli þeirrar athafnar, að framkvæma aðförina sjálfa, krefji að dómstólar fari einnig með hana. Af löggjöf ýmissa nágrannalanda, sem leggja aðfarargerðir að meira eða minna leyti í hendur annarra en dómstóla, sést einmitt að framkvæmdaþáttur þeirra hefur verið falinn stjórnvöldum eða valdsmönnum, meðan valdið til að leysa úr réttarágreiningi um þær er eftir sem áður hjá dómstólum. Munurinn milli íslenskrar og danskrar löggjafar á þessu sviði annars vegar, og til dæmis þeirrar norsku og sænsku hins vegar, felst þannig einkum í því að hér og í Danmörku hefur dómstólum ekki aðeins verið falið að leysa úr réttarágreiningi um aðför, heldur einnig að framkvæma hana að öllu leyti, meðan þessi viðfangsefni hafa verið aðgreind í Noregi og Svíþjóð og falin hvort sínum valdþætti ríkisins, dómstólum og stjórnvöldum.
    Ástæða er til að gefa því nánari gaum, hvers vegna aðfarargerðum var eftir afnám einveldis skipað með þeim hætti hér á landi og í Danmörku, sem að framan er lýst, fremur en að leggja framkvæmd þeirra í hendur stjórnvalda, eins og aðrar nágrannaþjóðir kusu.
    Þegar fjallað var um þessa valkosti í Danmörku nokkru fyrir síðustu aldamót, þóttu þau rök fyrir að dómstólar færu alfarið með aðfarargerðir einkum vega þungt, að réttarágreiningur gæti hæglega komið upp við framkvæmd gerðar, sem verulegt hagræði væri af að dómari, sem annaðist gerðina, gæti leyst úr þegar í stað. Ef hins vegar annar en dómari, t.d. stjórnvald, hefði þetta hlutverk með höndum, yrði að stöðva framkvæmd gerðar, ef ágreiningur risi um hana, meðan málefnið væri borið undir dómara, eða ljúka henni án tillits til ágreiningsins. Þessi meginröksemd að baki því, að dómstólum var falið að fara með aðfarargerðir í Danmörku og þar með einnig hér á landi, á enn við að vissu marki, en við mat á þýðingu hennar nú verður ekki horft hjá eftirfarandi atriðum:
     1.      Frá setningu lögtakslaga hér á landi hefur hreppstjórum verið heimilt í umboði sýslumanna að framkvæma lögtök fyrir kröfum upp að tiltekinni lögbundinni hámarksfjárhæð. Samsvarandi heimild var veitt með lögum um úrskurðarvald sáttanefnda, nr. 32/1911, til að hreppstjórar mættu gera fjárnám fyrir skuldakröfum upp að tiltekinni upphæð í umboði sýslumanns. Heimilda þessara mun hafa verið talsvert neytt fyrr á árum, en þær hafa nú að miklu leyti tapað gildi sínu, þar sem þess hefur ekki verið gætt að hækka heimildarfjárhæðir í samræmi við verðlagsbreytingar undanfarinna áratuga. Aðfarargerðir hreppstjóra eru hins vegar valdsmannsathafnir og er þeim ekki falið dómsvald um ágreining, sem kann að koma upp við framkvæmd gerðarinnar, heldur verður að vísa ágreiningsefninu til sýslumanns til úrlausnar. Þessar heimildir íslenskra laga eru í augljósri andstöðu við framangreinda röksemd.
     2.      Í danskri löggjöf hefur á undanförnum áratugum verið vikið mjög frá því viðhorfi, að nauðsynlegt sé að dómari framkvæmi aðför. Er stjórnvöldum þannig nú heimilað að framkvæma lögtök vegna tekna ríkis og sveitarfélaga („pantefoged“ og „toldfoged“), en fjöldi þeirra gerða mun nema um 65% allra aðfarargerða þar í landi, sem er nokkru hærra hlutfall en hér. Í annan stað hefur í Danmörku verið lögleidd heimild til að ólöglærðir fulltrúar héraðsdómara framkvæmi fjárnám og önnur lögtök en að framan greinir, en þeir fulltrúar fara ekki með dómsvald um réttarágreining. Heimild þessi mun hafa verið verulega notuð og má ætla að meiri hluti aðfarargerða, sem stjórnvöld annast ekki samkvæmt áðursögðu, sé nú framkvæmdur af mönnum án dómsvalds. Er því staðan í reynd orðin sú í Danmörku, að aðrir en dómarar fara með mikinn meiri hluta aðfarargerða, en ef ágreiningur rís við framkvæmd aðfarar við þessar aðstæður, verður að leita úrlausnar dómara um hann. Samkvæmt þessu hefur löggjöf og réttarframkvæmd í Danmörku, heimalandi þeirrar röksemdar, sem hér er til umfjöllunar, í reynd snúið baki við henni. Hér á landi hefur á síðustu áratugum gætt tilhneigingar, sem svipar nokkuð til danskrar réttarframkvæmdar að þessu leyti, hvað varðar framkvæmd lögtaksgerða fyrir sveitarfélög og einstakar ríkisstofnanir. Lögmenn, sem starfað hafa fyrir sveitarfélög, hafa víða fengið löggildingu sem fulltrúar sýslumanna eða bæjarfógeta til að framkvæma lögtök fyrir gjöldum til viðkomandi sveitarfélaga. Löglærðir starfsmenn ríkisstofnana hafa einnig víða fengið löggildingu til að gera lögtök fyrir gjöldum, sem hlutaðeigandi stofnanir innheimta. Umræddir menn hafa formlega séð komið fram í störfum þessum sem handhafar dómsvalds, þótt ekki sé vitað um tilvik, þar sem reynt hefur á það vald þeirra til að leysa úr réttarágreiningi. Þessi þróun hér á landi ber talsverðan keim af viðhorfum að baki dönskum reglum, sem heimila stjórnvöldum að framkvæma lögtaksgerðir, þótt dönsk löggjöf miði sem áður segir við að þær athafnir séu stjórnvaldsathafnir, gagnstætt því, sem formlega gildir í þessum efnum hér.
     3.      Í skýrslu dómsmálaráðherra um viðfangsefni sýslumanna hér á landi á árabilinu 1980 til 1987, sem gerð var í tengslum við frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, kemur fram að árlegur meðalfjöldi aðfarargerða utan Reykjavíkur hefur á því tímabili verið liðlega 11.000. Á sama tímabili hafa að jafnaði verið rekin 15 mál árlega utan Reykjavíkur um réttarágreining, sem risið hefur við framkvæmd aðfarargerða. Sýnir þetta glöggt að mjög lítið reynir á vald þess, sem framkvæmir aðför, til að leysa úr ágreiningsefnum. Að auki verður að taka tillit til, að ef ágreiningur rís á annað borð, er ekki gefið að hægt sé að taka afstöðu til hans þegar í stað, heldur verður að jafnaði að fresta framkvæmd viðkomandi gerðar, meðan sérstakt mál er rekið fyrir fógetarétti til að leysa úr ágreiningsefninu.
    Af því, sem hér hefur verið rakið, virðist mega álykta að umrædd meginröksemd fyrir því, að dómstólar fari fremur með aðfarargerðir en stjórnvöld, hafi orðið mjög óverulega þýðingu. Ljóst er því að líta verður til annarra viðhorfa og röksemda, þegar metið er hvor kosturinn sé ákjósanlegri við aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds hér á landi, annars vegar að halda við óbreyttu ástandi og fela dómstólum að annast aðfarargerðir að öllu leyti, bæði framkvæmd þeirra og úrlausnarvald um ágreining, sem þar rís, eða hins vegar að fela dómstólum eingöngu vald til að kveða á um aðfararhæfi krafna og til að leysa úr réttarágreiningi um aðfarargerðir, en stjórnvöldum aðra þætti aðfarargerða. Eftirfarandi atriði
þykja einkum geta skipt máli í þessu sambandi:
     1.      Í frumvarpi til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði er gert ráð fyrir að héraðsdómstólar verði framvegis átta talsins, hver í sínu kjördæmi, en embætti framkvæmdarvaldshafa í héraði, sýslumanna, verði 27 að tölu, á sömu stöðum og núverandi stjórnsýslu- og héraðsdómsembætti. Við framkvæmd aðfarargerða er ákjósanlegt að sá, sem gerð beinist að, mæti sjálfur til hennar. Vegna réttinda, sem hann nýtur við aðfarargerð, bæði samkvæmt núgildandi lögum og fyrirmælum þessa frumvarps, ber að auki hið minnsta nauðsyn til að honum gefist sanngjarn kostur á að vera staddur við gerð til að gæta réttinda sinna. Þessum þörfum verður ekki mætt, svo vel fari, nema sá embættismaður, sem hefur framkvæmd aðfarargerða með höndum, hafi aðsetur í nálægð við þann, sem gerðin beinist að, því ella hlytist af aukinn kostnaður og fyrirhöfn fyrir alla hlutaðeigandi. Þessi aðstaða mælir mjög með að stjórnvöld (sýslumenn) fari með framkvæmd aðfarargerða fremur en fáir og dreifðir héraðsdómstólar, ef sú skipan verður lögfest, sem áðurgreint frumvarp um aðskilnað ráðgerir.
     2.      Við setningu aðfararlaga og lögtakslaga var sú tilhneiging almennt ríkjandi í löggjöf, að leggja ekki eingöngu eiginleg dómstörf í hendur dómstóla, heldur einnig ýmis framkvæmdastörf, sem tengjast dómstörfum með misnánum hætti. Eins og séð verður af nýlegri löggjöf á sviði réttarfars hér á landi, t.d. gjaldþrotalögum nr. 6/1978, en þó enn skýrar í löggjöf annarra ríkja á Norðurlöndum, þar sem endurskoðun réttarfarslöggjafar er lengra á veg komin, beinist löggjafarþróun nú mjög af þessari braut. Það viðhorf er nú ríkjandi, að færa eigi sem flest þau störf frá dómstólum, sem ekki heyra til eiginlegs verksviðs þeirra. Þessi ríkjandi viðhorf í löggjöf miða að því að létta álagi af dómstólum og leggja ýmis fyrri verkefni þeirra, einkum framkvæmdastörf, í hendur stjórnvalda eða sérstaklega ráðinna manna. Þessi viðhorf mæla eindregið með að framkvæmd aðfarar verði í höndum stjórnvalda hér á landi.
     3.      Eins og málum er nú skipað samkvæmt aðfararlögum og lögtakslögum, að telja framkvæmd aðfarargerða til dómaraverka, verður einstökum ákvörðunum, sem dómari tekur um framkvæmdina, almennt ekki breytt nema með málskoti til Hæstaréttar. Sú meðferð er oft svifasein og kostnaður af henni bitnar ekki eingöngu á málsaðilum, heldur er hann að talsverðu leyti borinn af almannafé. Þessar aðstæður hafa aukið álag á Hæstarétti, oft algerlega að ófyrirsynju. Með því hins vegar að skipa málum svo, að stjórnvöld fari með framkvæmd aðfarargerða og taki nauðsynlegar ákvarðanir um þær, sem bera má síðan með einföldum hætti undir héraðsdóm, sýnist mega telja séð fyrir framangreindum ókostum, hvað aðfarargerðir varðar.
     4.      Eins og málum er nú skipað, fer sami embættismaður með framkvæmd aðfarargerða og með vald til að leysa úr ágreiningi, sem rís um þær. Ef um lögtaksgerðir er að ræða fyrir tekjum ríkissjóðs utan Reykjavíkur, fer sami embættismaður að auki almennt með innheimtu viðkomandi gjalda. Að þessari skipan verður að vísu ekki út af fyrir sig fundið á forsendum gildandi laga. Allt að einu má telja að það horfi til aukins réttaröryggis frá sjónarhóli almennings, ef úrlausn um ágreining við aðfarargerð er fengin hjá dómara, sem ekki hefur áður komið nærri viðkomandi málefni með öðrum hætti. Verður að telja þetta sjónarmið mæla með að stjórnvöld fari með framkvæmd aðfarargerða.
    Framangreind atriði styðja þá niðurstöðu, sem byggt er á í frumvarpi þessu, að eðlilegra sé að stjórnvöld (sýslumenn) fari með framkvæmd aðfarargerða en héraðsdómstólar, þegar aðskilnaður verður milli dómvalds og framkvæmdarvalds í héraði. Við þá skipan mála verður þó sérstaklega að tryggja að greiðfært sé að afla úrlausnar dómstóla um réttarágreining, sem rís við framkvæmd aðfarar, en um leið að sá, sem gerð beinist að, geti ekki spillt framgangi hennar með tilefnislausum mótbárum. Reglum frumvarpsins er ætlað að mæta þessum þörfum, svo sem nánar er skýrt hér síðar.

II.

    Eins og áður hefur verið vikið að, má finna reglur um aðfarargerðir í ýmsum lagafyrirmælum, en þær þýðingarmestu koma þó fram í aðfararlögum og lögtakslögum. Í frumvarpi þessu er leitast við að sameina sem flest fyrirmæli um aðfarargerðir í ein lög. Einn þáttur í þeirri viðleitni er að leggja af mun milli lögtaksgerða annars vegar og fjárnámsgerða hins vegar.
    Í upphaflegri mynd sinni tóku lögtakslögin til innheimtu krafna, sem skáru sig talsvert úr frá þeim kröfum, sem fullnægja varð með fjárnámi samkvæmt almennum reglum. Lögtaksréttur var almennt ekki veittur nema til fullnustu krafna ríkis og sveitarfélaga um skatta og aðrar sambærilegar tekjur. Sérstakt eðli þessara krafna þótti réttlæta að fullnægja mætti þeim með lögtaki, án þess að aflað væri dóms um skyldu gjaldanda til greiðslu þeirra. Á hinn bóginn er almenn regla aðfararlaga að fjárnám fari ekki fram til fullnustu peningaskuldar, nema dómur hafi áður gengið um kröfuna eða réttarsátt verið gerð um hana. Þessi eðlismunur á lögtakshæfum kröfum annars vegar og þeim kröfum hins vegar, sem dóms þurfti að afla um til að fá fullnustu með fjárnámi, leiddi meðal annars til að reglur um framkvæmd lögtaks voru frábrugðnar reglum um framkvæmd fjárnáms, auk þess að mismunandi reglur giltu um réttaráhrif þessara gerða. Allt að einu var frá öndverðu gengið út frá að reglur um fjárnám tækju einnig til lögtaksgerða að því leyti, sem lögtakslög kváðu ekki á um annað.
    Grundvöllurinn fyrir eðlismun milli fjárnáms annars vegar og lögtaks hins vegar hefur mjög tapað gildi sínu frá setningu aðfararlaga og lögtakslaga. Þetta á að talsverðu leyti rætur sínar að rekja til þess, að sérstökum lagaheimildum til að fullnægja kröfum með lögtaki án undangengins dóms eða sáttar hefur fjölgað stórlega. Þessar nýrri lögtaksheimildir eiga oft á tíðum ekkert skylt við upprunalegt einkenni lögtakshæfra krafna, að um tekjur ríkis eða sveitarfélaga sé að ræða, og nýtur þannig talsverður fjöldi krafna einkaaðila nú lögtaksréttar. Sérreglur lögtakslaga hafa átt illa við um fullnustu þessara krafna. Að auki hefur í ýmsum efnum dregið verulega úr mismunandi verklagi við framkvæmd fjárnáms og lögtaks, þannig að í hugum manna er hér í reynd orðið um tvö nöfn að ræða á sama hlut. Gegna þessi heiti þannig orðið litlu hlutverki öðru en að gefa til kynna að mismunandi heimildir búi að baki framkvæmd einstakra aðfarargerða.
    Í frumvarpi þessu hefur sú leið verið valin, að láta sömu reglur gilda að öllu leyti um þær aðfarargerðir, sem til þessa hafa borið heitin fjárnám og lögtak, og nefna þannig allar aðfarargerðir til fullnustu krafna um peningagreiðslu heitinu fjárnám. Þótt sérstakar reglur komi fram í 8. og 23. gr. frumvarpsins um hagræði við undirbúning og framkvæmd fjárnáms til fullnustu skattakrafna ríkis og sveitarfélaga, er ástæðulaust að gefa þeim gerðum sérstakt heiti. Sú breyting, sem hér er ráðgerð, samsvarar breytingu, sem gerð var á danskri löggjöf við áðurnefnda heildarendurskoðun reglna um aðfarargerðir á árinu 1976.
    Ef frumvarp þetta verður að lögum, hafa hugtakið lögtak og orð, samsett úr því, ekki lengur sjálfstæða þýðingu nema að einu leyti. Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins eru taldar í 11 töluliðum þær kröfur, sem fullnægja má með aðför. Í 10. tölul. ákvæðisins er kveðið á um heimild til aðfarar (fjárnáms) til fullnustu kröfum, sem njóta lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum annarra laga. Má því segja að hugtakið lögtaksréttur sé hér notað sem sameinkenni verulegs fjölda ólíkra krafna, sem fullnægja má með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar samkvæmt sérstökum heimildum í öðrum lögum. Sá kostur var valinn að þessu leyti í frumvarpinu, að vísa til fyrirmæla annarra laga fremur en að telja öll slík tilvik sérstaklega meðal aðfararheimilda í 1. gr. þess. Hefur þetta því meðal annars í för með sér, að ráðgert er í fyrirmælum 99. gr. frumvarpsins um brottfallin lög, að 1. gr. lögtakslaga haldi að mestu gildi, enda er þar kveðið á um lögtaksrétt fyrir fjölmörgum kröfum. Við endurskoðun einstakra laga í framtíðinni, sem kveða á um lögtaksheimildir, yrði hins vegar rétt að hafa sérstaklega í huga, að lögtaksréttur fyrir kröfu felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu, að afla verði dóms fyrir peningakröfu, áður en henni verður fullnægt með aðför. Sérstök rök verða því að mæla með að viðkomandi kröfur njóti slíks réttarfarshagræðis, auk þess að form þeirra verður að vera með þeim hætti, að gefa megi þau líkindi að fyrra bragði að þær séu efnislega réttar. Virðist mega draga stórlega í efa að þessara viðhorfa hafi verið gætt nægilega við setningu laga á undanförnum áratugum, sem hafa kveðið á um; lögtaksrétt fyrir einstökum kröfum.

III.

    Þau sérstöku lagahugtök, sem varða aðfarargerðir og notuð eru í frumvarpi þessu, eru að talsverðu leyti hin sömu og þau, sem hefðbundin hafa verið til þessa í framkvæmd og löggjöf. Frá því eru þó undantekningar. Af þeirri ástæðu er rétt að fjalla um nokkur meginhugtök frumvarpsins, áður en lengra er haldið.
     1.      Hugtakið aðfararheimild er sem hingað til notað til að afmarka hvernig réttindum þurfi að vera háttað, til að þeim megi fullnægja með aðför. Talning frumvarpsins á aðfararheimildum í 1. gr. gefur í höfuðatriðum til kynna, að slíkar heimildir séu að jafnaði réttindaskjöl, svo sem dómar, úrskurðir, sáttir eða viðskiptabréf. Þessi mynd er þó ekki alls kostar rétt, því í 1. gr. eru einnig nefndar meðal aðfararheimilda kröfur um skatta o.fl. Slíkar kröfur þurfa ekki að styðjast við réttindaskjöl í bókstaflegri merkingu. Réttara er því að líta svo á, að hugtakið aðfararheimild snúi að þeim eiginleikum, sem krafa þurfi að vera búin til að fullnægja megi henni með aðför, t.d. að dómur hafi gengið um hana sátt hafi verið gerð um hana eða hún sé af ákveðinni tegund.
     2.      Hugtakið aðfararhæfi er almennt notað í frumvarpinu til að merkja að svo sé orðið ástatt um kröfu, að fullnægja megi henni með aðför. Helsta skilyrði aðfararhæfis er að krafa teljist til aðfararheimilda, en fleiri skilyrðum þarf að fullnægja í vissum tilvikum, til að sá tími teljist kominn að fullnægja megi með aðför kröfu, sem telst til aðfararheimilda. Þegar þeim skilyrðum hefur verið fullnægt, telst krafa orðin aðfararhæf.
     3.      Þeir, sem eiga hagsmuna að gæta af aðfarargerð, eru eins og til þessa ýmist nefndir aðilar að henni eða málsaðilar. Aðilar að aðfarargerð þurfa eðli málsins samkvæmt að lágmarki að vera sá, sem um gerðina biður, og sá, sem hún beinist að. Hinn fyrrnefndi er eins og í núgildandi lögum nefndur gerðarbeiðandi í frumvarpinu og hinn síðarnefndi gerðarþoli. Aðfarargerð getur þó á ýmsan hátt varðað réttindi fleiri manna, sem við vissar aðstæður geta látið til sín taka við gerðina til að verja hagsmuni sína. Í frumvarpinu er slíkum aðilum að aðfarargerð valin nafngiftin þriðji maður, sem í öllum verulegum atriðum samsvarar meðalgönguaðila í almennu dómsmáli.
     4.      Eins og áður hefur verið skýrt, leiða fyrirmæli frumvarpsins til að framkvæmd aðfarargerða verði í höndum stjórnvalda, ef það verður að lögum. Til þessa hafa handhafar dómsvalds í héraði farið með þessar gerðir og hafa skv. 2. gr. aðfararlaga verið nefndir fógetar við þau störf, auk hreppstjóra, eins og áður er getið. Við framkvæmd aðfarargerða og úrlausn ágreiningsmála um þær hefur héraðsdómstóllinn verið nefndur fógetaréttur þessu til samræmis. Hugtakið fógeti mun í upphafi eingöngu hafa verið embættisheiti valdsmanna, en ekki þeirra, sem önnuðust meðferð dómsmála á fyrsta stigi. Í seinni tíð hefur hugtakið hins vegar verið notað samsett sem embættisheiti manna (borgarfógetar, bæjarfógetar), þótt meðferð fógetagerða hafi aðeins verið einn margra starfsþátta þeirra. Villandi misræmi hefur þannig verið í notkun þessa hugtaks. Í frumvarpinu eru hugtakið fógeti og samsett orð úr því hvergi notuð, ef frá eru skilin sérstök fyrirmæli í 17. kafla um skil milli eldri laga og yngri, þar sem ekki verður komist hjá skírskotun til þessara hugtaka. Þess í stað er ávallt rætt um sýslumann sem þá persónu, sem fer með framkvæmd aðfarar, og héraðsdómstól eða héraðsdómara, þegar vikið er að því hver fari með dómsvald um málefni, sem tengjast aðfarargerðum. Hér er þannig byggt á sama meginsjónarmiði og í frumvarpi til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, að nefna héraðsdómara annars vegar og framkvæmdarvaldshafa í héraði hins vegar að jafnaði sama embættisheiti, án tillits til þeirra verka, sem þeir vinna hverju sinni. Af þessum sökum á ekki við, ef frumvarp þetta verður að lögum, að nefna þann dómstól fógetarétt, sem leysir úr ágreiningi um aðfarargerð, heldur héraðsdóm, eða að nefna þann fógeta, sem fer með framkvæmd aðfarargerðar, heldur sýslumann.
     5.      Í upphafi þessara athugasemda var vikið að því, hvað felst í hugtökunum aðför og aðfarargerð, en merking þeirra er nánast hin sama. Aðfarargerðir hafa í daglegu tali, og reyndar einnig að nokkru í lögum, jöfnum höndum verið nefndar fógetagerðir. Eins og skýrt er hér á undan, er með öllu horfið frá notkun hugtaksins fógeti og samsettum orðum úr því í frumvarpinu, og er því eðlilega í öllum tilvikum stuðst við hugtökin aðför eða aðfarargerð í stað fógetagerðar.
     6.      Aðfarargerðum hefur verið skipað í einstaka flokka í lögum og fræðiritum, eftir því hvert efni þeirra er. Í aðfararlögum er greint milli aðfarar til fullnustu dóma, „sem eigi dæma menn í peningaútlát“, og fjárnáms, sem er aðför til fullnustu skyldu til peningagreiðslu samkvæmt dómi. Sú tenging, sem aðfararlög setja milli aðfarargerðar og dóms, á ekki við samkvæmt reglum þessa frumvarps, þar sem gert er ráð fyrir að fullnægja megi vissum kröfum með aðför, þótt dómur hafi ekki gengið um þær. Af þeirri ástæðu miðar frumvarpið við að aðför fyrir peningaskuld beri heitið fjárnám, en öðrum aðfarargerðum er ekki gefið almennt heiti fremur en hingað til í lögum.
     7.      Vikið hefur verið að því fyrr í þessum athugasemdum, að frumvarpið ráðgerir að þær aðfarargerðir fyrir peningaskuldum, sem til þessa hafa nefnst lögtök eða lögtaksgerðir, lúti í öllum atriðum sömu lögmálum og fjárnámsgerðir í merkingu núgildandi laga. Af þeirri ástæðu eru allar aðfarargerðir fyrir peningaskuldum nefndar heitinu fjárnám.
     8.      Í 2. kafla frumvarpsins er fjallað um aðfararfrest, en það hugtak varðar aldur aðfararhæfrar kröfu. Nánar tiltekið snýr það að þeim lágmarkstíma, sem líða þarf frá því krafa verður aðfararhæf, þar til aðför má fara fram. Krafa verður til dæmis aðfararhæf samkvæmt fyrirmælum frumvarpsins, þegar dómur hefur gengið um hana eða réttarsátt hefur verið gerð um hana, og einnig í vissum tilvikum við það eitt, að greiðsluáskorun hafi verið beint að skuldara hennar, eftir að hún hefur fallið í gjalddaga. Allt að einu þarf að bíða tiltekinn tíma, frá því krafa öðlast aðfararhæfi og þar til aðförin getur byrjað, en sá tími er aðfararfrestur í skilningi frumvarpsins. Í 2. kafla frumvarpsins er að finna reglu um annað atriði, sem snýr að aldri kröfu, en varðar þó ekki aðfararfrest í þessum skilningi. Í 9. gr. er kveðið á um hámarksaldur kröfu, til að hún njóti enn aðfararhæfis, en hér er í reynd um að ræða fyrningu á aðfararhæfi, ekki aðfararfrest í eiginlegum skilningi.
     9.      Í frumvarpinu er heitið aðfararbeiðni almennt notað um það skjal, sem gerðarbeiðandi lætur frá sér fara með kröfu eða ósk um að aðfarargerð fari fram. Í núverandi framkvæmd er þetta heiti almennt ekki notað, heldur ýmist rætt um gerðarbeiðni eða nafngift hennar nánar tengd heiti þess afbrigðis aðfarargerðar, sem hún varðar, t.d. fjárnámsbeiðni, lögtaksbeiðni o.s.frv. Hugtakið aðfararbeiðni nær yfir öll mismunandi afbrigði þessara beiðna og er stuðst við það í frumvarpinu af tæknilegum ástæðum, til að hægt sé að setja fram reglur í einu lagi. Ósagt skal hins vegar látið hvort lögfesting þessa frumvarps hefði í för með sér breytta hugtakanotkun í framkvæmd, enda tæpast brýn ástæða til.

IV.

    Auk þeirra breytinga, sem frumvarp þetta ráðgerir frá núgildandi lögum og áður hafa verið til sérstakrar umfjöllunar, hefði lögfesting þess í för með sér fjölda annarra þýðingarmikilla breytinga. Til upplýsinga þykir rétt að gera hér nokkra grein fyrir þeim helstu þeirra, en nánari greinargerð er að finna fyrir þeim í athugasemdum við einstök ákvæði frumvarpsins.
     1.      Lögfesting frumvarpsins hefði í för með sér nokkra fjölgun aðfararheimilda frá því, sem nú gildir. Þýðingarmesta breytingin í þessum efnum felst í reglum 7. og 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., þar sem kveðið er á um að aðför megi gera samkvæmt víxlum, tékkum og skuldabréfum án undangengins dóms eða réttarsáttar.
             Breyting af þessum toga var gerð á lagareglum um aðför í Danmörku á árinu 1976 og hefur verið til umræðu hér á landi um árabil. Samkvæmt núgildandi lögum verður að afla dóms eða áritunar áskorunarstefnu um kröfur sem þessar, áður en fjárnám verður gert fyrir þeim. Sú verulega aukning skuldamála, sem komið hafa til kasta almennra dómstóla á undanförnum árum, á að miklu leyti rætur að rekja til vanskila á kröfum sem þessum. Málshöfðanir vegna þeirra hafa leitt af sér gífurlegt álag á dómstólum og hafa haft í för með sér verulegt erfiði við innheimtu krafna og talsverðan kostnað, sem að endingu hefur verið borinn af skuldurum. Kröfur þessar styðjast við formskjöl og er í hverfandi fáum tilvikum tekið til varna gegn þeim. Sú reynsla sýnir að nauðsyn til málshöfðunar vegna þeirra fyrir aðför þjónar ekki brýnum hagsmunum í meginþorra tilvika og er því vert að leitast við að draga úr þeim kostnaði og þyngslum, sem nú fylgja innheimtu þessara krafna.
             Í frumvarpinu er lagt til að kröfur samkvæmt víxlum, tékkum og skuldabréfum komi til sérstakrar skoðunar dómstóla, áður en gera má fjárnám fyrir þeim, en sú skoðun verði stórum einfaldari en nú er við dómsmeðferð. Að auki veita reglur frumvarpsins skuldara úrræði til að fá kröfu hnekkt með tiltölulega einfaldri málsókn eftir lok aðfarargerðar, sem tryggja ætti réttaröryggi nægilega. Með því að kveða á um aðfararhæfi þessara krafna án undangengins dóms má telja að kostnaður af innheimtu þeirra verði talsvert minni og að auki að verulegt hagræði fáist í störfum dómstóla. Þeim sparnaði, sem unnt væri að ávinna í kostnaði af rekstri dómstóla með þessum hætti, mætti verja til nytsamari útgjalda í þeirra þágu.
             Auk fyrirmæla um aðfararhæfi áðurnefndra krafna án undangengins dóms, eru lagðar til ljósari reglur um aðfararheimildir í 1. mgr. 1. gr. en nú gilda, en efnislega er ekki um teljandi breytingar að ræða.
     2.      Í 2. og 3. gr. koma fram reglur um aðild að aðfarargerðum. Er í fyrrnefnda ákvæðinu mælt fyrir um hverjir eigi rétt til að krefjast aðfarargerðar, eða með öðrum orðum, hverjir geti verið gerðarbeiðendur. Er þar annars vegar um þau nýmæli að ræða, að tekin eru af tvímæli um réttindi þeirra, sem hafa fengið aðfararhæfa kröfu framselda, en bein lagafyrirmæli eru ekki fyrir hendi um þetta nú. Hins vegar er sú efnisbreyting lögð til, að þeim, sem nýtur handveðréttar í aðfararhæfri kröfu, er veittur réttur til að krefjast aðfarar fyrir henni. Í 3. gr. eru reglur um það, hjá hverjum megi gera aðför til fullnustu kröfu, eða með öðrum orðum hver geti talist gerðarþoli. Efnislega eru ekki gerðar teljandi breytingar frá núgildandi reglum um það, að hverjum aðför verði beint, aðrar en að kveða á um stöðu þess, sem stendur í ábyrgð fyrir efndum aðfararhæfrar kröfu.
     3.      Í 2. kafla frumvarpsins koma aðallega fram reglur um aðfararfrest, en það hugtak hefur áður verið skýrt. Verulegar breytingar eru lagðar hér til frá gildandi lögum. Af þeim má nefna að ráðgert er með 5. gr. að afnumin verði skylda til að birta dóma eða úrskurði fyrir gerðarþola til að marka upphaf aðfararfrests, en sú skylda ein út af fyrir sig veitir gerðarþola enga sérstaka réttarvernd og hefur óþarfa kostnað og fyrirhöfn í för með sér. Þá er í 6. gr. lögð til regla um aðfararfrest frá gerð sáttar, sem er ítarlegri en núgildandi regla 8. gr. aðfararlaga. Í 7. gr. kemur fram sérstök regla um aðfararfrest vegna krafna, sem dómur hefur ekki gengið um eða sátt verið gerð um, annarra en krafna um skatta og samsvarandi gjöld. Regla þessi miðar upphaf aðfararfrests við birtingu greiðsluáskorunar, sem þó má ekki fara fram fyrr en að liðnum 15 dögum frá gjalddaga viðkomandi kröfu. Þá felast einnig þau nýmæli í 2. mgr. 7. gr. og fleiri ákvæðum frumvarpsins, að birting tilkynninga og áskorana getur með jafngildum hætti átt sér stað með útbornu ábyrgðarbréfi, símskeyti eða atbeina eins stefnuvotts. Í 8. gr. kemur fram sérregla um aðfararfrest vegna krafna um skatta og önnur samsvarandi gjöld, en þar er kveðið á um að birta verði með fimmtán daga fyrirvara almenna greiðsluáskorun í fjölmiðlum eftir gjalddaga þessara krafna, áður en fjárnám verður gert fyrir þeim. Felur þetta ákvæði í sér að afnumin er þörf svonefnds almenns lögtaksúrskurðar samkvæmt fyrirmælum lögtakslaga, en slíkir úrskurðir hafa enga raunhæfa þýðingu. Loks er í 9. gr. kveðið á um hve lengi réttur til aðfarar helst, eftir að krafa er aldurs síns vegna orðin aðfararhæf samkvæmt fyrri ákvæðum kaflans. Þessi regla miðar alfarið við fyrningartíma viðkomandi kröfu, þannig að réttur til aðfarar helst svo lengi sem hún er ófyrnd. Felast í þessu tvær meginbreytingar frá núgildandi lögum. Annars vegar er afnuminn sérstakur fyrningartími lögtaksréttar, sem nú er 2 ár skv. 2. gr. lögtakslaga, þótt krafan sjálf fyrnist á 4 árum skv. 3. tölul. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Hins vegar fellur brott sú skylda skv. 9. gr. aðfararlaga, að birta þurfi gerðarþola sérstaka áskorun, ef meira en ár er liðið frá því fjárnám gat farið fram.
     4.      Í 3. kafla frumvarpsins koma fram reglur um aðfararbeiðnir og undirbúningsaðgerðir fyrir aðfarargerð. Er í 10. gr. regla um efni aðfararbeiðna, sem felur nokkra breytingu í sér frá núgildandi ákvæðum 3. gr. aðfararlaga, en einnig koma fram fyrirmæli í 2. mgr. 10. gr. um fylgigögn með aðfararbeiðnum. Í 11.–15. gr. frumvarpsins eru reglur um það, hvenær leggja þarf aðfararbeiðni fyrir héraðsdómara, áður en hún verður send sýslumanni til framkvæmdar gerðarinnar, og um meðferð héraðsdómara. þegar svo stendur á. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að aðfararbeiðni þurfi að leggja fyrir héraðsdómara, ef dómstólar hafa ekki áður fjallað um viðkomandi kröfu með einhverjum hætti. Frá þessari meginreglu eru þó undantekningar, eins og nánar er lýst síðar. Meðferð héraðsdómara á kröfu á þessu stigi á að vera einföld og greið og er henni ætlað að eiga sér stað að meginreglu án þess að gerðarþoli sé boðaður til að gæta hagsmuna sinna. Héraðsdómari metur því eingöngu hvort lagaskilyrðum til aðfarar sé fullnægt á grundvelli fyrirliggjandi gagna gerðarbeiðanda. Þessi meðferð á sér að talsverðu leyti fyrirmynd í norskri löggjöf. Í 16.–18. gr. er síðan mælt fyrir um fyrstu afskipti sýslumanns af aðfararbeiðni. Kemur fram í 16. gr. að aðfararbeiðni, sem ekki þarf að senda héraðsdómara í upphafi samkvæmt fyrri fyrirmælum kaflans, megi senda sýslumanni beint, en að öðrum kosti berast sýslumanni aðfararbeiðnir að undangenginni þeirri meðferð héraðsdóms, sem hér á undan var lýst í grófum dráttum. Í 16. gr. koma enn fremur fram reglur um það, í hverju umdæmi megi setja fram kröfu um aðför. Þær reglur fela talsverða breytingu í sér frá núgildandi fyrirmælum. Í 17. gr. koma fram nýmæli um heimild til að framsenda aðfararbeiðni milli umdæma, ef hún þykir ekki hafa komið fram á þeim stað, sem réttast væri að byrja aðför, og í 18. gr. kemur einnig fram regla, sem ekki á sér hliðstæðu í gildandi lögum, um að bóka þurfi aðfararbeiðnir og auðkenna þær, er þær hafa borist.
     5.      Í 4. kafla frumvarpsins er fjallað um upphafsaðgerðir við aðför. Í 19. gr. er kveðið á um innbyrðis rétthæð aðfararbeiðna, ef fleiri en ein hafa borist á hendur sama gerðarþola. Þeirri reglu er ætlað að koma í stað fyrirmæla í 22. kapítula I. bókar norskra laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687. Í 20. gr. er áréttað að sýslumanni beri að ákveða að eigin frumkvæði hvenær aðfararbeiðni verði sinnt, og að það skuli ákveðið sem fyrst eftir að hún hefur borist honum, en svipuðum fyrirmælum 33. gr. aðfararlaga hefur ekki verið fylgt bókstaflega í framkvæmd. Þá er í 21. gr. að finna veigamikil nýmæli, þar sem kveðið er á um þá meginreglu, að tilkynna skuli gerðarþola fyrir fram um að aðför sé í vændum, en slík tilkynning ætti að auka líkindi fyrir að gerðarþoli leitist við að afstýra aðför með því að fullnægja skyldu sinni, og jafnframt að tryggja að honum gefist kostur á að undirbúa mótmæli gegn gerðinni, ef forsendur eru fyrir þeim.
     6.      5. kafli frumvarpsins fjallar um framkvæmd aðfarar, en þar er að finna almennar reglur, sem ná til allra afbrigða aðfarargerða, án tillits til hvort um fjárnám er að ræða eða aðför til að fullnægja annarri skyldu gerðarþola. Í 22. gr. kemur fram sú meginregla að aðför skuli að jafnaði byrja á starfstöð sýslumanns, ef gerðarþola hefur áður verið send tilkynning um væntanlega gerð samkvæmt fyrirmælum 21. gr. Regla þessi er efnislega áþekk fyrirmælum aðfararlaga um upphafsstað gerðar, eins og þeim var breytt með lögum nr. 15/1988. Í 23. gr. felst sú breyting frá núgildandi reglum, að gerðarbeiðanda er ávallt skylt að láta mæta við aðfarargerð, en sýslumanni er þó heimilað að ákveða frávik frá þeirri reglu, þegar um fjárnám er að ræða til fullnustu krafna um skatta og önnur samsvarandi gjöld. Þessi fyrirmæli leiða til að þeir, sem fara með innheimtu annarra lögtakshæfra krafna en umræddra gjaldakrafna, eru settir á sama bekk og aðrir, sem krefjast fjárnáms fyrir kröfum sínum og er skylt að lögum að láta mæta við aðför fyrir sína hönd. Í 24. gr. felast talsverðar breytingar frá núgildandi reglum um það, við hverjar aðstæður megi ljúka aðfarargerð, án þess að náðst hafi til gerðarþola. Veigamesta atriði ákvæðisins er það, að leitast er við að tryggja svo sem unnt er að gerð verði ekki lokið án þess að gerðarþola hafi sannanlega verið gefinn kostur á að mæta til hennar eða einhver honum nákominn hafi fengist til að gæta hagsmuna hans. Er með þessu lagt til afnám þeirrar framkvæmdar á grundvelli núgildandi reglna, að fela megi utanaðkomandi mönnum, nánast af tilviljun, að taka málstað gerðarþola, án tillits til tengsla við hann og vitneskju um hagi hans. Í 26.–28. gr. koma fram reglur um heimildir til að fresta aðfarargerð og um áhrif mótmæla gerðarþola eða þriðja manns gegn framgangi hennar. Þessar reglur eiga sér eðlilega ekki fulla samsvörun í núgildandi lögum, enda er hér byggt á þeirri skipan frumvarpsins, að stjórnvöld framkvæmi aðför án dómsvalds um ágreining um umrædd efni. Í 29.–31. gr. eru lagðar til reglur um þvingunarúrræði sýslumanns gagnvart gerðarþola við framkvæmd aðfarargerðar. Þessar reglur eru talsvert frábrugðnar núgildandi lagafyrirmælum. Í 32. og 33. gr. koma fram fyrirmæli um framlagningu gagna við aðför og varðveislu þeirra og um skrásetningu aðfarargerðar, en um síðastgreint atriði koma fram þau nýmæli, að dómsmálaráðherra er falið að setja reglur um form slíkrar skráningar, sem veitir möguleika á annarri tilhögun en að frásögn af aðfarargerð verði handrituð í sérstaka bók. Í 34. gr. felst breyting á núgildandi reglum um þörf votta við aðfarargerðir, sem leiða ætti til sparnaðar og hagræðis.
     7.      Í 6. kafla frumvarpsins koma fram reglur um það, í hverjum eignum gerðarþola megi gera fjárnám. Ákvæði kaflans fela talsverðar breytingar í sér frá núgildandi reglum. Af þeim má helstar nefna að í 38. gr. er horfið frá meginreglu núgildandi laga, að meta þurfi til verðs eignir, sem fjárnám er gert í, en í framkvæmd hefur lengi heyrt til undantekninga að ekki sé lýst yfir af hálfu aðila að gerðinni, að þeir falli frá því að mat eða virðing eigna fari fram. Er því í 38. gr. farin sú leið að kveða á um að virðing fari aðeins fram, ef hennar sé krafist. Í 41.–51. gr. er tiltekið hverjar eignir verði ávallt undanþegnar aðför og hverjar eignir gerðarþola er heimilt að undanskilja fjárnámi að auki. Þessar reglur veita verulega rýmri undanþágur en núgildandi heimildir og eru til muna nákvæmari. Um efni þeirra og nánari samanburð við núgildandi reglur skal vísað til athugasemda um þessi tilteknu ákvæði frumvarpsins.
     8.      Kveðið er á um réttaráhrif fjárnáms og vörslur eigna, sem fjárnám hefur verið gert í, í reglum 7. kafla frumvarpsins. Fyrirmæli þessi eru miklum mun ítarlegri en núgildandi reglur og ýmis nýmæli er þar einnig að finna. Má hér nefna að í 54. gr. er kveðið á um að fjórar vikur verði að líða frá því fjárnám er gert, þar til nauðungarsala má fara fram á þeirri eign, sem tekin hefur verið fjárnámi, en enginn slíkur frestur er að gildandi lögum. Í þessu ákvæði koma einnig fram sérstakar reglur, sem fyrirbyggja að unnt sé að neyta réttar samkvæmt fjárnámi til að fá viðkomandi eign selda, ef ágreiningsmál er rekið um réttmæti fjárnámsgerðarinnar fyrir héraðsdómi. Í 55.–57. gr. eru fyrirmæli um hver skuli hafa vörslur eigna, sem fjárnám hefur verið gert í. Reglur þessar vernda hagsmuni gerðarþola mun betur en núgildandi lagaheimildir. Að öðru leyti felst í þessum fyrirmælum sú nýbreytni, að ráðgert er að lausafjármunir verði ekki teknir úr vörslum gerðarþola í tengslum við aðfarargerð, nema sérstök hætta þyki á að þeim verði spillt. Er hér byggt á því að vörslusviptingar tengist í framtíðinni framkvæmd nauðungarsölu og að munir verði ekki teknir af gerðarþola nema fyrir atbeina þess, sem með hana fer. Þá má loks benda á þýðingarmikla breytingu, sem felst í fyrirmælum 60. gr. Þar er lögð til sú meginregla, að öll réttindi samkvæmt fjárnámi í lausafé eða kröfu falli sjálfkrafa niður að liðnu ári frá því gerðin fór fram, ef nauðungarsölu hefur ekki verið krafist á hinu fjárnumda innan þess tíma. Þessi fyrirmæli koma í stað reglu 50. gr. aðfararlaga, sem hefur aðeins gilt um fjárnám en ekki lögtök, en samkvæmt henni hefur tómlæti fjárnámshafa þau megináhrif að hann glatar rétti gagnvart síðari fjárnámshafa, ef hann hlutast ekki til um að taka lausafjármuni úr vörslum gerðarþolans. Veðréttindi fjárnámshafa í þeim munum, sem fjárnám hefur verið gert í, og réttur til að krefjast nauðungarsölu þeirra, helst samkvæmt núgildandi lögum án tímatakmarkana, en sú regla hefur haft réttaróvissu í för með sér og hefur reynst óheppileg í framkvæmd.
     9.      Í aðfararlögum er ekki kveðið á um skilyrði þess, að fjárnámsgerð verði lokið án árangurs vegna þess að eignir finnast ekki hjá gerðarþola til fullnustu kröfu. Hefur ekki verið útilokað samkvæmt aðfararlögum að ljúka fjárnámi án árangurs, þótt gerðarþoli hafi ekki verið við gerðina eða einhver honum nákominn. Hefur gerðarbeiðandi þannig við tilteknar aðstæður haft að mestu í hendi sér, hvort málalok verði með þeim hætti, og getur skortur á vitneskju um hag gerðarþola haft í för með sér að gerð verði lokið án árangurs, þótt hann kunni að eiga ríflegar eignir til tryggingar viðkomandi kröfu. Þessi aðstaða getur reynst stórlega skaðleg fyrir gerðarþola, þar sem árangurlaus aðför getur meðal annars haft gífurlegt tjón í för með sér fyrir lánstraust manna, en að auki er í lögum kveðið á um ýmis vanefndarúrræði, sem mönnum bjóðast í viðskiptum, ef árangurslaus aðför hefur verið gerð hjá viðsemjanda þeirra. Af þessum sökum eru lagðar til reglur í 8. kafla um sérstök skilyrði fyrir því, að fjárnámi verði lokið án árangurs, og er með þessum hætti leitast við að vernda stöðu gerðarþola í þessum efnum.
     10.      Í 9. kafla er að finna reglur, sem taka til heimilda til endurupptöku fjárnámsgerðar og til framkvæmdar við þær aðstæður. Þessi fyrirmæli eru mun ítarlegri en núgildandi reglur 51. og 52. gr. aðfararlaga.
     11.      Í aðfararlögum er ekki vikið að þeim sérstöku aðstæðum, sem varða fjárnám til fullnustu kröfu um dagsektir, sem lagðar hafa verið á gerðarþola til að knýja hann til efnda á skyldu til tiltekinna athafna. Vegna tilgangs þessara sekta gilda um margt sérstakar reglur um þær, sem óhjákvæmilega verða að hafa áhrif á réttindi gerðarbeiðanda til að krefjast fullnægju þeirra með fjárnámi. Er í 10. kafla leitast við að bæta úr vöntun lögfestra reglna um þetta atriði. Efnisreglur kaflans fela að nokkru í sér tillögu um lögfestingu reglna, sem hafa þótt gilda í framkvæmd í þessu sambandi, en ýmis mikilsverð nýmæli er þó einnig þar að finna.
     12.      Í 11. kafla frumvarpsins eru reglur, sem koma eiga í stað fyrirmæla II. kafla aðfararlaga um aðför til fullnustu krafna um annað en peningagreiðslu, en slíkar aðfarargerðir eru fátíðar í framkvæmd. Reglur 72.–74. gr. samsvara að talsverðu leyti ákvæðum 12.–14. gr. aðfararlaga, en nánari samanburð þessara reglna er að finna í athugasemdum um einstakar greinar frumvarpsins. Í 75.–77. gr. felast hins vegar tillögur um umtalsverðar breytingar frá núgildandi reglum um samsvarandi efni í 11. og 16. gr. aðfararlaga.
     13.      Í 12. kafla frumvarpsins koma fram reglur, sem taka til útburðar- og innsetningargerða án undangengins dóms eða réttarsáttar. Almennar lögfestar reglur hafa ekki verið fyrir hendi um þetta, en heimild fyrir framkvæmd þessara gerða hefur verið sótt í dómvenju á grundvelli reglu norskra laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687, í VI. bók, 14. kapítula, ákvæði 6. Í 78. gr. frumvarpsins er að finna reglu, sem telur helstu skilyrðin fyrir útburðar- og innsetningargerðum án undangengins dóms eða sáttar. Þessi regla, sem er nánar skýrð í athugasemdum um einstök ákvæði frumvarpsins, byggir þó að talsverðu leyti á því viðhorfi að ríkjandi dómvenjur verði sem hingað til að ráða miklu um skilyrðin fyrir þessum gerðum.
     14.      V. þáttur frumvarpsins hefur að geyma reglur um meðferð mála fyrir héraðsdómi, sem varða ágreining um aðfarargerðir. Mismunandi reglur eru lagðar hér til, eftir því á hvaða stigi gerðarinnar ágreiningur rís. Í 13. kafla koma fram reglur um meðferð ágreinings, sem kemur upp við frummeðferð héraðsdóms á aðfararbeiðni, áður en hún er komin í hendur sýslumanns til framkvæmdar á gerðinni sjálfri. Í 14. kafla koma síðan fram sérstakar reglur um meðferð ágreinings um framkvæmd gerðarinnar, en gert er ráð fyrir að takmarkaðar heimildir verði til að fá úrlausn héraðsdómara jafnharðan um réttmæti einstakra ákvarðana sýslumanns um framvindu gerðarinnar. Loks er í 15. kafla að finna reglur, sem ætlað er að gefa málsaðilum kost á að afla úrlausnar dómstóla um öll atriði aðfarargerðar, eftir að henni hefur verið lokið, og eftir atvikum að fá henni efnislega breytt eða fá hana fellda úr gildi.
             Af eðlilegum ástæðum fela reglur 13.–15. kafla í sér tillögur um verulegar breytingar frá núgildandi lögum, enda einkennast þær mjög af því meginatriði frumvarpsins, að stjórnvöld án dómsvalds framkvæmi aðför. Þessar breytingar koma að mestu fram í því, að í stað þess að aðfarargerð stöðvist, meðan leyst er úr einstökum ágreiningsefnum, eins og núgildandi lög hafa í meginatriðum í för með sér, er mjög takmarkað hver ágreiningsefni geti fengið dómsmeðferð jafnharðan og þau koma til, ef málsaðilar eru ekki ásáttir um að leita hennar. Í frumvarpinu er þannig gengið út frá þeirri meginreglu, að aðfarargerð haldi áfram samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda og eftir ákvörðun sýslumanns og verði eftir atvikum lokið, þótt ágreiningur hafi komið upp, en þess í stað megi bera deiluefni um gerðina undir héraðsdómara að henni lokinni. Til að vernda frekar réttindi gerðarþola, sem hefur réttmæt mótmæli fram að færa gegn gerðinni, ráðgera reglur 7. kafla frumvarpsins að gerðarbeiðandi megi almennt ekki nýta sér gerðina til vörslusviptingar fjárnuminna eigna eða til nauðungarsölu þeirra, meðan ágreiningsmál um hana er rekið fyrir héraðsdómi, auk þess að gerðarbeiðandi getur bakað sér bótaskyldu á grundvelli reglna 16. kafla frumvarpsins, ef hann heldur óréttmætri kröfu til streitu við aðför. Sýslumaður getur ákveðið að stöðva framkvæmd gerðar skv. 27. gr. frumvarpsins, ef hann telur réttindi gerðarbeiðanda orka tvímælis í ljósi mótmæla gerðarþola, en slík ákvörðun yrði til að gerðinni yrði ekki haldið áfram án dómsúrlausnar þar um. Þá getur gerðarbeiðandi ávallt farið þá leið að samþykkja að gerðarþoli fái að bera mótmæli sín þegar undir héraðsdóm og að gerðin stöðvist meðan úrlausn er ófengin. Þessar reglur, sem hér hefur verið lýst í stuttu máli, mótast mjög af þeim gagnstæðu hagsmunum, sem aðilar að gerðinni hafa hvor um sig. Hagsmunir gerðarbeiðanda felast í þessu tilliti einkum í því, að hann fái á skjótan hátt tryggingu fyrir kröfu sinni og að gerðin dragist ekki á langinn vegna tilefnislausra ágreiningsmála. Hagsmunir gerðarþola eru ekki veigaminni af því, að aðför verði ekki gerð hjá honum vegna óréttmætrar kröfu og að honum verði auðveldað að ná rétti sínum með því að fá aðförinni hnekkt og eftir atvikum bætur vegna tjóns af henni.
             Reglur 13.–15. kafla frumvarpsins um sjálfa málsmeðferðina fyrir héraðsdómi eru að talsverðu leyti áþekkar núgildandi reglum, sem koma fram í 39.–44. gr. aðfararlaga, auk einstakra ákvæða laga um meðferð einkamála í héraði nr. 85/1936, sbr. 238. gr. þeirra. Um nánari skýringu á þessum reglum, sem sérstaklega er ætlað að stuðla að hraðri og fremur einfaldri málsmeðferð, skal vísað hér til athugasemda um einstök ákvæði frumvarpsins.
     15.      Fyrirmæli 16. kafla frumvarpsins fjalla um bótaábyrgð vegna óréttmætrar aðfarargerðar eða rangrar framkvæmdar hennar, en reglur hafa ekki verið fyrir hendi í lögum um þetta efni. Ákvæði þessa kafla taka að nokkru mið af erlendum lagareglum á þessu sviði, en fela að nokkru í sér tillögu um lögfestingu óskráðra skaðabótareglna, sem hafa þótt gilda um þetta hér á landi.

2. Efnisskipan frumvarpsins.
    Efnisskipan frumvarpsins hefur þegar verið skýrð að nokkru með óbeinum hætti með umfjöllun um helstu breytingarnar, sem einstakir kaflar þess ráðgera frá gildandi lögum. Rétt er þó að gera frekari grein fyrir þessu.
    Sú leið hefur verið farin við samningu frumvarpsins að skipta því í 6 þætti, sem hver um sig ber sérstaka yfirskrift, en er aftur skipt í einstaka kafla í áframhaldandi númeraröð með sjálfstæðum fyrirsögnum. Þessi efnisskipan er óvenjuleg í nýrri löggjöf, en fyrirmynd að henni má meðal annars finna í lögum um skipti á dánarbúum, félagsbúum o.fl., nr. 3/1878, þar sem tvíþætt skipting efnisins, í sjálfstæða þætti og kafla, horfir til verulegra skýringa á samhengi. Er það einnig markmiðið með þessum hætti í frumvarpi þessu.
    Fyrsti þáttur frumvarpsins fjallar um almenn skilyrði fyrir aðför, en þau skilyrði eru nánar talin í tveimur köflum, þeim fyrsta um aðfararheimildir og fleiri almenn atriði og þeim öðrum um aðfararfrest. Reglur fyrsta þáttar eru sameiginlegar fyrir alla flokka aðfarar gerða, en þær skera sig úr frá reglum annars þáttar, sem eins stendur á um, með því að efni fyrsta þáttar tekur ekki til sjálfrar atburðarásarinnar við framkvæmd aðfarar, heldur til almennra lagaskilyrða fyrir henni.
     Annar þáttur frumvarpsins geymir sameiginlegar reglur fyrir alla flokka aðfarargerða undirbúning og framkvæmd aðfarar. Reglum hans er skipað í eins konar tímaröð, sem endurspeglar venjulega atburðarás frá byrjun aðfarargerðar og til loka hennar. Í upphafskafla annars þáttar, sem er 3. kafli frumvarpsins, er fjallað um efni aðfararbeiðni og meðferð hennar á fyrstu stigum, bæði sjálfsdáðarathugun á henni af hendi þess, sem henni er beint til, og skráningar vegna hennar. Í 4. kafla er síðan lýst upphafsaðgerðum við aðför, sem varða ákvarðanatöku um hvar og hvenær hún muni fara fram, auk boðunar aðila til hennar. 5. kafli fjallar síðan um sjálfa framkvæmd gerðarinnar. Er þar lýst reglum um möguleika til að framkvæma aðför, þótt gerðarþoli sé ekki staddur við hana, en síðan verklagi við frekari framkvæmd. Er þar meðal annars að finna fyrirmæli um frestun gerðar, um viðbrögð við mótmælum gegn henni og um úrræði við mótstöðu gerðarþola gegn framgangi hennar. Reglur koma loks fram í kafla þessum um framlagningu gagna við aðför, um bókanir um gerðina og vottun hennar og um heimildir til að halda gerð áfram í öðru umdæmi, ef henni verður ekki lokið, þar sem byrjað var á henni.
    Þriðji þáttur frumvarpsins geymir sérstakar reglur um fjárnámsgerðir. Upphafskafli þáttarins, 6. kafli frumvarpsins, kveður á um andlag fjárnáms, eða með öðrum orðum í hverjum eignum fjárnám verði gert. 7. kafli frumvarpsins geymir síðan reglur um réttaráhrif fjárnáms og vörslur eða umráð þeirra eigna, sem fjárnám hefur verið gert í. Í þeim kafla er nánar tiltekið kveðið á um þær heimildir, sem fjárnámsgerð veitir gerðarbeiðanda, og þau höft, sem hún leggur á aðra. Reglur kaflans taka einnig afstöðu til þess, hver skuli hafa umráð fjárnuminna eigna frá því fjárnám er gert og þar til gerðarbeiðandi fær þeim komið í verð, ef með þarf, með nauðungarsölu eða á annan lögheimilan hátt. Í 8. kafla er fjallað um sérstök skilyrði fyrir að fjárnámi verði lokið án árangurs, en 9. kafli frumvarpsins tekur síðan til þess, hvenær heimilt sé að taka upp fjárnámsgerð, sem áður hefur verið lokið, vegna breyttra aðstæðna eða nauðsynjar frekari aðgerða. Í lokakafla þáttarins, þeim tíunda, koma fram sérreglur um fjárnám fyrir dagsektum.
    Fjórði þáttur frumvarpsins geymir sérstakar reglur um aðfarargerðir, þegar leitast er við að fullnægja öðrum skyldum gerðarþola en til greiðslu peningafjárhæðar. Fyrri kafli þáttarins, 11. kafli frumvarpsins, kveður á um aðför í þessu skyni samkvæmt almennum aðfararheimildum. Reglur kaflans taka af skarið um það, hverjum skyldum gerðarþola verði fullnægt eftir aðalefni sínu, þ.e. með þeim hætti, sem aðfararheimildin hefur beinlínis sagt til um. Ef skylda gerðarþolans fellur utan marka þeirra heimilda, geyma reglur frumvarpsins ekki þvingunarúrræði til að knýja hann til að efna hana, heldur verður að meta hagsmuni gerðarbeiðandans af skyldunni til fjár og gera fjárnám fyrir þeirri fjárhæð. Í 12. kafla er hins vegar kveðið á um sérstakar heimildir til að fullnægja skyldu gerðarþola án þess að fyrir liggi dómur, úrskurður eða sátt um hana, en þessar heimildir taka aðeins til þeirra útburðar- og innsetningargerða, sem til þessa hafa verið nefndar beinar fógetagerðir.
    Fimmti þáttur frumvarpsins snýr að meðferð ágreinings um atriði tengd aðfarargerð fyrir héraðsdómi. Eins og áður hefur komið fram, er reglum þessa þáttar skipað í þrjá kafla, þann 13., 14. og 15., sem hver um sig tekur til ágreinings á ákveðnu stigi aðfarargerðar. Reglur þessa þáttar taka ekki til málskots ákvarðana eða úrskurða héraðsdómara í málum sem þessum, enda hefur verið venja fyrir að reglur í þeim efnum komi fram í lögum um Hæstarétt Íslands. Ljóst er hins vegar að lögfesting þessa frumvarps hefði sjálfgefið í för með sér að endurskoða yrði umræddar málskotsreglur, hvað aðfarargerðir varðar.
    Sjötti og síðasti þáttur frumvarpsins geymir ýmis ákvæði, eins og fyrirsögn hans segir. Fyrri kafli þáttarins, hinn 16. í frumvarpinu, geymir sérstakar skaðabótareglur vegna ólögmætra aðfarargerða, en lokakafli frumvarpsins, sá 17., kveður annars vegar á um gildistöku og brottfallin lög og lýsir hins vegar meðferð aðfararbeiðna, framkvæmd aðfarargerða og rekstur ágreiningsmála um aðfarargerðir, sem koma til með að standa á skilum milli eldri laga og yngri, ef frumvarpið verður að lögum. Í þessum síðastnefndu ákvæðum er meðal annars gert ráð fyrir að framkvæmd aðfarargerða stöðvist síðustu 15 dagana fyrir gildistöku laganna, þannig að ráðrúm gefist til aðlögunar að nýjum reglum og til annarra nauðsynlegra ráðstafana af því tilefni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    Í framangreindum almennum athugasemdum um frumvarpið hefur verið fjallað um ráðagerðir þess um veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum og síðan sérstaklega um efnisskipan þess. Hefur í þeirri umfjöllun, einkum þeirri síðarnefndu, verið gerð grein fyrir samhengi milli einstakra þátta og kafla og einnig fyrir meginefni hvers kafla. Munu því ekki koma fram almennar skýringar um efni hvers kafla um sig hér, heldur látið við það sitja að vísa til áðurgreindrar umfjöllunar.

Um 1. gr.

    A. Um 1. mgr.: Í 1. mgr. 1. gr. eru aðfararheimildir taldar upp, en það hugtak hefur áður verið skýrt sérstaklega í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Fyrirmæli 1. mgr. 1. gr. verður að skoða í ljósi þess, að frekari skilyrðum þarf að vera fullnægt til að aðför geti farið fram til að fullnægja skyldu, þótt aðfararheimild sé fyrir hendi. Í því sambandi þarf sérstaklega að taka tillit til reglna 7. og 8. gr., þar sem skilyrði eru sett um tiltekinn aðdraganda, áður en krefjast má aðfarar fyrir ákveðnum kröfum, auk þess að fyrirmæli 5.–8. gr. setja sérstakan aðfararfrest. Að þessum skilyrðum er nánar vikið í athugasemdum við umrædd ákvæði frumvarpsins.
    Talning aðfararheimilda kemur fram í 11 töluliðum í 1. mgr. Hér ber að vekja athygli á því, að í ýmsum töluliðum ákvæðisins eru taldar upp aðfararheimildir, sem fyrirmæli annarra laga taka einnig til, þar á meðal með ummælum um aðfararhæfi. Þá er einnig um það að ræða, að í ýmsum töluliðum 1. mgr. er aðfararhæfi krafna gagngert háð því skilyrði, að jafnframt sé kveðið á um aðfararhæfi þeirra í fyrirmælum annarra laga. Þessum ákvæðum er ekki ætlað að afnema eða skilyrða sérstök fyrirmæli annarra laga um aðfararhæfi tiltekinna heimilda, sem stæðu því óhögguð þrátt fyrir lögfestingu þessa frumvarps, ef þau eru ekki talin meðal brottfallinna lagaákvæða í 99. gr. þess.
    Verða nú einstakir töluliðir 1. mgr. skýrðir nánar hver um sig.
    Um 1. tölul. 1. mgr.: Í þessu ákvæði segir að aðför megi gera samkvæmt dómum og úrskurðum, sem kveðnir eru upp af íslenskum dómstólum. Er regla þessi því efnislega samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, en sá munur milli orðalags þessara ákvæða, sem felst í skírskotun 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga til þess, að dómar og úrskurðir séu uppkveðnir af löglegum dómstólum í ríkinu, hefur ekki sjálfstæða merkingu.
    Þótt regla 1. tölul. 1. mgr. kveði á um að fullnægja megi dómum og úrskurðum með aðför, er sjálfgefið að þessi heimild takmarkist af því, að viðkomandi dómsúrlausn kveði á um tiltekna skyldu, sem unnt er og þörf er á að fullnægja, eins og komið er að með óbeinum hætti í niðurlagi seinni málsliðar 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins. Svokölluðum viðurkenningardómum í hreinni mynd, en það eru dómar, sem einungis slá tiltekinni staðreynd fastri, þarf ekki að fullnægja, hvorki með aðför né öðrum hætti. Dómar, sem kveða til dæmis á um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar, eru sama marki brenndir. Í annan stað er mögulegt að dómur geti kveðið á um skyldu til annars en greiðslu peninga, sem ómögulegt verður talið að fullnægja. Í 76. og 77. gr. frumvarpsins koma fram reglur, sem styðjast má við þegar lengst er gengið í viðleitni til að fullnægja dómi um slíka skyldu. Síðarnefnda ákvæðið gerir sérstaklega ráð fyrir að ómöguleiki geti staðið í vegi fyrir að gerðarþoli efni skyldu samkvæmt dómi, sem hefði því í för með sér að hún falli niður. Í þriðja lagi er unnt að hugsa sér að dómur geti verið það óljós að efni, að ógerningur sé að taka af tvímæli um hver réttindi hann veiti gerðarbeiðanda. Takmörk eru fyrir því, hversu langt verði gengið við aðfarargerð að skýra efni dómsúrlausnar, en eftir atvikum geta slík álitaefni komið til kasta héraðsdómstóls samkvæmt reglum 13. eða 15. kafla frumvarpsins. Loks má nefna í fjórða lagi að hér er, eins og í gildandi lögum, gengið út frá að ákvæði dóma um refsingar í formi fangelsisvistar og ákvæði úrskurða um rannsóknarúrræði við meðferð opinberra mála falli utan vettvangs aðfararheimilda, enda mælt fyrir í sérlögum um fullnustu slíkra dómsúrlausna.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er ekki annað tiltekið en að dómur eða úrskurður þurfi að vera kveðinn upp af íslenskum dómstól. Er þannig ekki gerður greinarmunur á nafngiftum einstakra dómstóla, ef þeir hafa á annað borð vald til að mæla fyrir um skyldu, sem fullnægja má með aðför samkvæmt áðursögðu. Þetta atriði kemur að vísu ekki til með að hafa sömu þýðingu og nú er, ef frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nær fram að ganga, þar sem ákvæði þess hefðu í för með sér að dómstólar í héraði nefnist allir héraðsdómar, en beri ekki mismunandi nöfn eftir verksviðum, eins og nú er. Allt að einu geta sérdómstólar, sem ekki teljast til héraðsdómstóla, kveðið upp aðfararhæfa dóma og úrskurði, t.d. félagsdómur, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938. Þessari aðstöðu kæmu reglur áðurnefnds frumvarps ekki til með að breyta, ef að lögum yrðu. Þá er að sjálfsögðu gengið út frá að dómar og úrskurðir æðri dómstóls teljist aðfararhæfir skv. 1. tölul. 1. mgr.
    Í því skilyrði, að dómur eða úrskurður sé kveðinn upp af íslenskum dómstól, felst þó tvennt enn, sem þarft er að nefna. Annars vegar falla erlendar dómsúrlausnir utan þessarar heimildar, en um þær gildir sérregla í 11. tölul. 1. mgr., sem síðar verður vikið að. Hins vegar verður að huga að því, að orðin „íslenskur dómstóll“ geta haft víðtækari merkingu en hér er ætlast til. Íslenskir gerðardómar geta í ákveðnum skilningi fallið undir þessi orð og jafnvel einnig svonefndir „dómstólar“, sem starfa hér á landi á grundvelli samþykkta félaga eða samtaka og er ætlað að fjalla um ákveðin málefni félagsmanna. Það, sem veldur því að óþarft er að gefa álitaefnum um þýðingu úrlausna slíkra „dómstóla“ frekari gaum, er að hér er stuðst við að dómar og úrskurðir geti því aðeins verið aðfararhæfir, að viðkomandi dómstóll hafi lögfesta heimild til að kveða upp aðfararhæfar úrlausnir. Útilokast þannig jafnt gerðardómar sem úrlausnir stofnana á vegum félagssamtaka frá þessari skilgreiningu.
    Í tilefni síðastgreinds atriðis er rétt að taka fram, að hugað var að því við gerð þessa frumvarps hvort heimila ætti aðför samkvæmt gerðardómum, en úrlausnir gerðardóma eru til dæmis aðfararhæfar skv. 4. tölul. 3. gr. norskra aðfararlaga (lov om tvangsfuldbyrdelse nr. 7/1915 með áorðnum breytingum). Frekari athugun á þeim kosti þótti ekki tímabær hér á landi, þar sem engar lögfestar reglur gilda enn sem komið er um starfshætti og málsmeðferð gerðardóma, en að auki hefur verið umdeilt hvort rétt yrði að heimila aðför samkvæmt úrlausnum sem þessum, jafnvel þótt settra laga nyti við um starfshætti gerðardóma. Lögfesting þessa frumvarps yrði þó ekki til að raska sérstökum fyrirmælum laga um aðfararhæfi úrlausna tiltekinna gerðardóma, en svo vitað sé er einungis eitt dæmi slíkra fyrirmæla í núgildandi lögum, sem finnst í 38. gr. laga um iðnfræðslu nr. 68/1966, þar sem kveðið er á um aðfararhæfi úrlausna gerðardóma um ágreining milli iðnnema og iðnmeistara um námssamninga.
    Um 2. tölul. 1. mgr.: Hér er kveðið á um að aðför megi gera eftir áskorunarstefnum, sem gerðar hafa verið aðfararhæfar með áritun dómara hér á landi. Samsvarandi ákvæði er ekki í aðfararlögum, en mælt er fyrir um aðfararhæfi áritaðra áskorunarstefna í 235. gr. laga nr. 85/1936, eins og þeim var breytt með lögum nr. 54/1988, sbr. áður lög nr. 97/1978.
    Heimildir til höfðunar áskorunarmála eru bundnar við tilteknar tegundir peningakrafna, sem nánar eru taldar í 222. gr. laga nr. 85/1936. Í meginatriðum taka þessar heimildir til krafna samkvæmt víxlum, tékkum, skuldabréfum, öðrum einhliða óskilyrtum skuldaviðurkenningum og kröfum vegna lausafjárkaupa, en í 2. mgr. ívitnaðs ákvæðis eru taldar ýmsar sjaldgæfari kröfutegundir, sem höfða má áskorunarmál um. Eins og vikið var að í almennum athugasemdum hér á undan og nánar verður fjallað um í sambandi við 7. og 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., er ráðgert í frumvarpi þessu að aðför megi gera samkvæmt skuldabréfum, víxlum og tékkum, án þess að áður sé aflað dóms, sáttar eða áritaðrar áskorunarstefnu. Ef frumvarp þetta verður að lögum, má ætla að það hafi í för með sér mjög verulega fækkun áskorunarmála, þar sem slík mál vegna skuldabréfa, víxla og tékka nema háu hlutfalli heildarfjölda þeirra. Allt að einu mundu áskorunarmál gegna hlutverki, hvað varðar aðrar tegundir peningakrafna, sem höfða má mál fyrir í því formi.
    Aðfararheimildin samkvæmt áskorunarstefnu er sú áritun, sem dómari færir á hana um að fullnægja megi kröfum samkvæmt henni með aðför, annaðhvort í heild eða að tilteknum hluta, sbr. 231. gr. og 2. mgr. 234. gr. laga nr. 85/1936. Aðfararheimildin sem slík á ekki að geta orkað tvímælis í þessum tilvikum, þótt hugsanlegt sé að hún geti reynst svo óljós, að verulegur vafi leiki á um skyldur gerðarþola, líkt og áður var nefnt í athugasemdum við 1. tölul. um dóma og úrskurði. Önnur atriði, sem þar var fjallað um og geta torveldað fullnustu dóma og úrskurða, eiga hins vegar ekki við um áskorunarmál, þar sem heimild til höfðunar þeirra er bundin við peningakröfur.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er tiltekið að aðfararheimildin taki til áskorunarstefna, sem dómari hér á landi hefur áritað um aðfararhæfi. Hér er aðfararheimild því enn bundin við íslenskar dómsúrlausnir, en samsvarandi erlendar heimildir geta fallið undir 11. tölul. 1. mgr.
    Um 3. tölul. 1. mgr.: Í þessu ákvæði er mælt fyrir um aðfararhæfi sátta og nauðasamninga, sem komist hafa á fyrir íslenskum dómstólum.
    Með sáttum er hér nánar tiltekið átt við svonefndar réttarsáttir, eins og sést af orðalagi ákvæðisins, þar sem áskilið er að sátt hafi komist á fyrir dómstól. Þessi heimild svarar því efnislega til fyrirmæla í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga.
    Um réttarsáttir er að finna almennar reglur í I. kafla laga nr. 85/1936. Í 4. gr. þeirra laga segir að réttarsátt sé „löglegur aðfarargrundvöllur, enda sé hún gildur samningur og fullnægi formkröfum réttarfars“. Þessi áskilnaður gildir að sjálfsögðu gagnvart reglu 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, þótt hann sé ekki sérstaklega endurtekinn í orðum hennar. Samkvæmt reglum I. kafla laga nr. 85/1936 ber ekki nauðsyn til ítarlegrar skoðunar dómara, sem réttarsátt er gerð fyrir, á því, hvort umræddum áskilnaði 4. gr. laganna sé fullnægt. Því er hugsanlegt að til þess geti komið, að leysa þurfi úr álitaefnum í þessu sambandi við aðför, eins og gert er ráð fyrir í 2. tölul. 5. gr. nefndra laga. Heimildir héraðsdómstóls til að meta einstök atriði réttarsáttar við aðför eru þó takmarkaðar samkvæmt undirstöðureglum réttarfars við þau atriði, sem sá dómur, sem sáttin er gerð fyrir, hefur ekki lagt mat á eða tekið afstöðu til. Þessa síðastgreindu reglu má nú finna í 3. tölul. 5. gr. laga nr. 85/1936 og 1. mgr. 5. gr. aðfararlaga, en í frumvarpi þessu felst hún í fyrirmælum 1. mgr. 17. gr., 2. mgr. 83. gr. og 2. mgr. 88. gr., sbr. 94. gr., þótt hún komi ekki fram berum orðum. Ágreiningsefni um réttarsátt, sem héraðsdómur teldist bær til að leysa úr við aðför samkvæmt framansögðu, kæmi almennt til kasta hans eftir málsmeðferðarreglum 15. kafla frumvarpsins, þótt einnig komi til greina að á þetta geti reynt í málum samkvæmt reglum 13. eða 14. kafla.
    Réttarsáttir geta í aðalatriðum tekið til sömu atriða og dómar, ef aðilar að henni hafa forræði á því sakarefni, sem um er að tefla. Af þeim ástæðum geta komið upp sams konar vafaatriði varðandi réttarsáttir og áður var lýst um dóma eða úrskurði, því ekki er gefið að skylda samkvæmt réttarsátt sé þess eðlis, að henni þurfi að fullnægja, eða að unnt sé að fullnægja henni samkvæmt orðanna hljóðan. Ómöguleiki gæti jafnframt leyst gerðarþola undan skyldu samkvæmt réttarsátt, sem kvæði á um annað en peningagreiðslu. Að auki getur efni réttarsáttar verið það óljóst, að ekki sé fært að fullnægja henni með aðför. Aðstaðan í þessum efnum er því hliðstæð þeirri, sem áður var lýst um dóma og úrskurði í athugasemdum við 1. tölul. 1. mgr. 1. gr., og eiga sömu viðhorf við um úrræði og þar var greint, þótt um réttarsátt sé að ræða.
    Eins og nefnt var hér á undan, eru fyrirmæli 3. tölul. 1. mgr. um aðfararheimild bundin við réttarsáttir. Hefur því ekki verið farin sú leið í frumvarpinu að heimila aðför eftir svonefndum utanréttarsáttum, þótt sá kostur hafi verið tekinn til sérstakrar skoðunar í ljósi þess, að breytingar á danskri löggjöf um aðför á árinu 1976 leiddu til aðfararhæfis slíkra sátta þar í landi, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 478. gr. danskra réttarfarslaga (lov om rettens pleje nr. 90/1916, með áorðnum breytingum). Greinarmunur á réttarsátt annars vegar og utanréttarsátt hins vegar er almennt ljós, þótt vafatilvik geti komið upp. Í 3. gr. laga nr. 85/1936 segir að réttarsátt taki gildi, þegar hennar hefur verið getið í þingbók og aðilar eða umboðsmenn þeirra undirrita bókunina. Það skoðast sem réttarsátt samkvæmt ákvæði þessu, þótt sátt hafi verið færð á laust blað og undirrituð af málsaðilum, ef skjalið er síðan lagt fram í dómi og undirrituð bókun kveður það hafa að geyma sátt. Framlagning sáttar og undirritun bókunar um hana ráða því talsverðu um hvort hún teljist réttarsátt eða utanréttarsátt. Ýmis vafatilvik geta komið upp í framkvæmd um það, hvort lágmarkskröfum þessa ákvæðis til réttarsátta sé fullnægt, en á þau gæti einkum reynt að framkominni kröfu um aðför samkvæmt sátt, þar sem leyst yrði úr hvort um réttarsátt sé að ræða, sem nýtur aðfararhæfis, eða utanréttarsátt, sem ekki telst aðfararhæf.
    Í annan stað kveður 3. tölul. 1. mgr. á um að nauðasamningar njóti aðfararhæfis, ef þeir hafa verið gerðir fyrir íslenskum dómstólum. Með þessum orðum er átt við nauðasamninga, sem gerðir eru fyrir skiptarétti samkvæmt lögum nr. 19/1924, ýmist án undanfarandi gjaldþrotaskipta á búi skuldarans eða eftir upphaf þeirra. Nauðasamningar af báðum þessum gerðum eru aðfararhæfir eftir núgildandi lögum, þótt þeirra sé ekki getið meðal aðfararheimilda í 1. gr. aðfararlaga, því skv. 22., sbr. 46. gr. laga nr. 19/1924, hefur staðfestur nauðasamningur sömu verkanir og réttarsátt milli skuldarans og þeirra lánardrottna, sem samningur bindur, ef kröfur þeirra hafa verið viðurkenndar í samningnum. Í 3. tölul. 1. mgr. er þess fyrirvara að vísu ekki getið, að aðfararheimild samkvæmt nauðasamningi taki aðeins til viðurkenndra krafna lánardrottna, sem bundnir eru af honum. Slíkt er þó óþarfi, þar sem ákvæðið segir að aðfararheimildin sé krafa samkvæmt nauðasamningi, en þau ummæli geta ekki átt við aðrar kröfur en þær, sem viðurkenndar eru í nauðasamningnum sjálfum.
    Úrlausn um það, hverjir lánardrottnar teljist bundnir af nauðasamningi og geti þar með krafist aðfarar á grundvelli hans, ræðst af reglum laga nr. 19/1924. Í 21., sbr. 46. gr. laganna, er tiltekið, hverjir verði bundnir af samningi í þessum skilningi. Nauðasamningur kveður jafnan á um tiltekna hlutfallslega eftirgjöf lánardrottna, sem bundnir eru af samningnum, á kröfum þeirra á hendur skuldaranum, en lög nr. 19/1924 gera þó ráð fyrir að nauðasamningur geti tekið til þess eins að lengja greiðslufrest skulda, án eftirgjafar að öðru leyti. Ber því nauðasamningur með óbeinum hætti með sér, fyrir hverri fjárhæð einstakir lánardrottnar geti krafist aðfarar. Í nauðasamningi kemur einnig fram hver gjalddagi greiðslna samkvæmt honum skuli vera. Ágreiningur getur risið um þessi og fleiri efnisatriði nauðasamnings, ef krafist er aðfarar samkvæmt honum, og gæti héraðsdómstóll, bæði samkvæmt núgildandi lögum og fyrirmælum frumvarpsins, tekið afstöðu til slíkra álitaefna við aðför, í þeim mæli sem sá dómstóll, sem nauðasamningur komst á fyrir, hefur ekki tekið afstöðu til deiluefnisins í tengslum við samningsgerðina. Gilda því í þessum efnum reglur, sem svara til áðurgreindra reglna um heimildir til úrlausnar um réttarsátt við aðför.
    Nauðasamningar samkvæmt fyrirmælum laga nr. 19/1924 voru lengi vel svo til óþekktir í framkvæmd, en á síðustu árum hefur talsverður fjöldi slíkra samninga komist á. Algengara var fram til þess tíma og jafnvel enn, að menn hafi leitað samninga við lánardrottna sína utan réttar um eftirgjafir á kröfum, og þá jafnan með þeim áskilnaði að sams konar eftirgjöf fengist hjá öðrum lánardrottnum. Slík samningsgerð, sem hefur engin lögbundin áhrif, hefur í daglegu tali oft verið ranglega kennd við nauðasamninga. Aðfararheimild skv. 3. tölul. 1. mgr. tekur engan veginn til slíkra samninga, sem leiðir af áskilnaði ákvæðisins um að nauðasamningur hafi komist á fyrir dómstólum, en þeim áskilnaði verður ekki fullnægt með öðrum hætti en eftir reglum laga nr. 19/1924.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er líkt og í fyrstu tveimur töluliðum ákvæðisins tiltekið, að viðkomandi heimildir njóti aðfararhæfis, ef þær hafa fengist fyrir atbeina íslenskra dómstóla. Erlendar heimildir af þessum toga geta hins vegar átt undir 11. tölul. 1. mgr.
    Um 4. tölul. 1. mgr.: Hér er mælt fyrir um aðfararhæfi sátta, sem komist hafa á fyrir yfirvöldum, en sá veigamikli fyrirvari er þó settur, að bein ákvæði annarra laga þurfi að auki að kveða á um að aðför megi gera eftir yfirvaldssátt um viðkomandi málefni. Regla þessi er öllu víðtækari en fyrirmæli í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, þar sem kveðið er á um aðfararhæfi sátta, sem komist hafa á fyrir „yfirvöldum þeim, er í lögum er boðið að leita um sættir í þeim málum er ræðir um“.
    Með sátt er í þessu ákvæði átt við samning, sem gerður hefur verið milli tveggja eða fleiri aðila um málefni, sem hlutaðeigandi yfirvald hefur úrlausnarvald um eða lögbundna heimild til að leita sátta um. Til að sátt sem þessi verði aðfararhæf, verður efni hennar að sjálfsögðu að varða skyldu, sem einhver aðili hennar tekur á sig, og hægt er að fullnægja með aðför samkvæmt reglum frumvarpsins. Það mundi hins vegar ekki skipta máli fyrir aðfararhæfi slíkrar sáttar, hvort sérstaklega hafi verið kveðið á í henni sjálfri um að fullnægja mætti henni með aðför.
    Samningur sem þessi verður að hafa komist á hjá yfirvaldi eða því verið lýst yfir af aðilum hans fyrir yfirvaldinu að efni fyrirliggjandi samnings sé í samræmi við ætlun þeirra. Bókun eða önnur samsvarandi skrásetning yfirvalds um þetta efni þyrfti einnig að liggja fyrir. Hér er með öðrum orðum gengið út frá að samsvarandi viðhorfum verði beitt, ef leysa þarf úr hvort sátt hafi komist á fyrir yfirvaldi, og beitt er um aðgreiningu réttarsátta og utanréttarsátta.
    Með yfirvaldi er í ákvæði þessu átt við embættismenn, sem koma fram sem handhafar framkvæmdarvalds ríkisins, hvort sem um lægri sett stjórnvöld er að ræða eða æðri, og hvort sem um einstakan embættismann er að ræða eða fjölskipað stjórnvald, t.d. nefnd.
    Sem fyrr segir felst eitt þýðingarmesta atriði 4. tölul. 1. mgr. í þeim fyrirvara, að bein lagaheimild þurfi að kveða á um aðfararhæfi sáttar um viðkomandi málefni fyrir yfirvaldi. Regla 4. tölul. 1. mgr. geymir því ekki út af fyrir sig sjálfstæða aðfararheimild. Orðalag þess og framangreind skýring á því gæti heldur ekki haft í för með sér að synjað yrði um aðför, vegna þess að áðurgreindum skilmálum væri ekki fullnægt, ef sérstök lagaheimild kvæði á annað borð á um aðfararhæfi viðkomandi sáttar. Hér er því nánast um leiðbeiningarreglu að ræða, sem þjónar þó tvíþættum tilgangi. Hún vekur annars vegar athygli á því, að sáttir, sem komast á fyrir yfirvöldum, geti verið aðfararhæfar, ef sérlög kveða á um það. Hins vegar hefur hún veigameiri þýðingu sem sérstök ábending um að varast verði að setja sérstök fyrirmæli um aðfararhæfi yfirvaldssátta í önnur lög, sem fullnægja ekki áðurgreindum grundvallarviðhorfum um hvenær rétt sé að veita yfirvaldssátt svo víðtæk áhrif.
    Eftirfarandi dæmi má finna um sérstök lagafyrirmæli um aðfararhæfi sátta, sem komist
hafa á fyrir yfirvaldi:
     1.      6. tölul. 1. mgr. 1. gr. lögtakslaga.
     2.      28. gr. barnalaga nr. 9/1981.
    Þó ekki sé að finna fleiri dæmi af yfirvaldssáttum, sem njóta aðfararhæfis samkvæmt sérstökum fyrirmælum núgildandi laga, má allt að einu telja raunhæft að ætla að slíkum heimildum kunni að fjölga. Benda má á í þessu sambandi að samkvæmt eldri fyrirmælum I. kafla laga nr. 85/1936 var skylt að leita sátta fyrir sérstökum sáttanefndum, áður en einkamál var höfðað, nema sérstakar undanþágur frá sáttameðferð heimiluðu annað. Sátt, sem komst á fyrir sáttanefnd, var aðfararhæf, sbr. 1. mgr. 16. gr. laganna. Sáttanefndir hefðu talist yfirvöld í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. þessa frumvarps, en fyrirmælum I. kafla nefndra laga var breytt með lögum nr. 28/1981, og höfðu þær breytingar meðal annars í för með sér afnám sáttanefnda. Hugmyndir hafa verið uppi um að taka aftur upp reglur um sáttameðferð yfirvalda í tengslum við rekstur einkamála fyrir dómi, þótt í verulega breyttri mynd yrði frá áðurnefndum reglum. Ef af þeim ráðagerðum yrði, er nauðsynlegt að kveða á um aðfararhæfi slíkra sátta, en þær gætu fallið að lýsingu 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
     Ekki er sérstaklega tekið fram í 4. tölul. 1. mgr. að sátt njóti því aðeins aðfararhæfis, að hún hafi komist á fyrir yfirvaldi hér á landi. Unnt er þó að draga þá ályktun af samanburði við reglu 11. tölul. 1. mgr. Sáttir, sem komist hafa á fyrir erlendum yfirvöldum, gætu notið aðfararhæfis hér á landi samkvæmt síðastnefndu ákvæði að fullnægðum öðrum þargreindum skilyrðum.
     Um 5. tölul. 1. mgr.: Í þessum tölulið er mælt fyrir um aðfararhæfi úrskurða yfirvalda, en sams konar fyrirvari er þó settur hér og í 4. tölul. ákvæðisins, að reglur annarra laga þurfi sérstaklega að kveða á um aðfararhæfi slíkra úrskurða. Samsvarandi regla er ekki í fyrirmælum 1. gr. aðfararlaga um aðfararheimildir.
     Í 5. tölul. 1. mgr. eru ekki settar sérstakar formkröfur um yfirvaldsúrskurði, til að þeir geti notið aðfararhæfis. Er það atriði því látið ráðast af fyrirmælum þeirra sérlaga sem veita úrskurði gildi sem aðfararheimild, eða eftir atvikum af almennum reglum stjórnarfarsréttar.
     Með yfirvaldi er hér átt við hið sama og í 4. tölul. ákvæðisins og má því vísa til umfjöllunar í athugasemdum um þá reglu. Þá á hið sama við um 5. tölul. 1. mgr. og áður var greint um 4. tölul., að hér er ekki um sjálfstæða aðfararheimild að ræða út af fyrir sig, því viðkomandi yfirvaldsúrskurðir þurfa einnig að njóta aðfararhæfis samkvæmt sérstakri lagaheimild. Á því umfjöllun um það atriði í athugasemdum við 4. tölul. 1. mgr. einnig við hér.
     Í nokkrum núgildandi lögum er að finna fyrirmæli um aðfararhæfi yfirvaldsúrskurða, en rétt er að benda á, að ekki er ávallt skýrt af hljóðan lagafyrirmæla, hvort þau ætlist til að yfirvald kveði á um tiltekið málefni með úrskurði, sem nýtur aðfararhæfis, eða hvort einfaldlega sé um formlega ákvörðun þess að ræða, sem framfylgja má með aðför. Síðarnefndu tilvikin eiga undir fyrirmæli 6. tölul. 1. mgr., en þau lagaákvæði, sem berum orðum ráðgera að yfirvald kveði upp aðfararhæfan úrskurð, sem regla 5. tölul. 1. mgr. frumvarpsins gæti tekið til, eru eftirfarandi:
     1.      9. gr. laga um einkaleyfi, nr. 12/1923.
     2.      9. gr. laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923.
     3.      10. gr. framfærslulaga, nr. 80/1947.
     4.      26. gr. laga um söluskatt, nr. 10/1960.
     5.      3. og 4. gr. laga um upptöku ólöglegs sjávarafla, nr. 32/1976.
     6.      87. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.
     7.      28. gr. barnalaga, nr. 9/1981.
     8.      108. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.
    Í reglum frumvarpsins er með sama hætti og leiðir af núgildandi lögum gert ráð fyrir að sá, sem skylda hvílir á samkvæmt aðfararhæfum yfirvaldsúrskurði, geti fengið úrlausn um andmæli sín gegn honum í tengslum við aðför. Úrlausn héraðsdóms um slík andmæli yrði fengin eftir reglum 13.–15. kafla frumvarpsins, eftir því hvernig atvikum væri nánar háttað hverju sinni.
    Eins og í 4. tölul. 1. mgr. er hér gengið út frá að það séu eingöngu úrskurðir íslenskra yfirvalda, sem geti notið aðfararhæfis í samræmi við fyrirmæli 5. tölul. Erlendir yfirvaldsúrskurðir gætu eftir atvikum átt undir 11. tölul. 1. mgr.
    Um 6. tölul. 1. mgr.: Hér er mælt fyrir um aðfararhæfi ákvarðana yfirvalda um fésektir, dagsektir og févíti, en enn er gerður sá fyrirvari, að sérstök lagafyrirmæli þurfi að auki að kveða á um að aðför megi gera á grundvelli viðkomandi ákvörðunar. Í talningu aðfararheimilda í 1. gr. aðfararlaga er ekki að finna samsvarandi reglu.
    Í reglu 6. tölul. 1. mgr. eru ekki settar sérstakar kröfur um form viðkomandi yfirvaldsákvarðana. Er því gengið út frá að þær kröfur ráðist ýmist af reglum þeirra laga, sem varða viðkomandi ákvörðun og kveða sérstaklega á um aðfararhæfi hennar, eða af almennum reglum stjórnarfarsréttar. Ákvörðun í skilningi 6. tölul. þarf hins vegar að varða sérstök málefni, því tiltekið er að hún varði álagningu fésektar, dagsekta eða févítis. Er hér því ýmist um viðurlög að ræða samkvæmt ákvörðun yfirvalds eða úrræði yfirvalds til að þvinga fram efndir á lögboðinni skyldu.
    Um afmörkun á því, hvað átt er hér við með yfirvaldi, og um sjálfstætt gildi reglu 6. tölul. 1. mgr. sem aðfararheimildar, á hið sama við og um 4. og 5. tölul. 1. mgr., og skal því vísað til fyrri umfjöllunar um þau efni til nánari skýringa.
    Í umfjöllun um 5. tölul. 1. mgr. var vikið að því, að fyrirmæli einstakra laga eru í ýmsum tilvikum óljós um það, hvort ætlast sé til að yfirvald kveði á um aðfararhæfa skyldu með úrskurði eða hvort ákvörðun yfirvalds nægi ein út af fyrir sig sem aðfararheimild. Í eftirfarandi lagareglum sýnist gengið út frá að það sé ákvörðun yfirvalds, sem njóti aðfararhæfis:
     1.      6. tölul. 1. mgr. 1. gr. lögtakslaga.
     2.      23. gr. póstlaga, nr. 31/1940.
     3.      22. gr. laga um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, nr. 23/1956.
     4.      7. gr. laga um ríkisábyrgðir, nr. 37/1961.
     5.      53. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966.
     6.      6. 10. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, nr. 79/1974.
     7.      36. gr. laga um stimpilgjald, nr. 36/1978.
     8.      49. gr. laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta verslunarhætti, nr. 56/1978.
     9.      30., sbr. 26. gr. laga um brunavarnir og brunamál, nr. 74/1982.
     10.      27. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 109/1984.
     11.      109. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
    Það, sem segir í athugasemdum við 5. tölul. 1. mgr. um heimildir til að hafa uppi andmæli gegn kröfu við aðför samkvæmt yfirvaldsúrskurði og um meðferð erlendra yfirvaldsúrskurða, á einnig við um yfirvaldsákvarðanir skv. 6. tölul. 1. mgr. og skal því vísað til þess hér.
    Um 7. tölul. 1. mgr.: Í þessum lið er kveðið á um aðfararhæfi skuldabréfa, en þau nánari skilyrði eru sett, að skuldabréf sé fyrir ákveðinni peningaupphæð, að undirskrift skuldara sé vottuð með tilteknum hætti og að sérstaklega sé tekið fram í ákvæðum þess að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar.
    Í umfjöllun um helstu breytingar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir frá núgildandi lögum, var sérstaklega vikið að þeim nýmælum þessa ákvæðis, að aðför mætti gera samkvæmt skuldabréfi án undangengins dóms eða sáttar, og voru greindar helstu röksemdir fyrir því. Skal vísað hér til þeirrar umfjöllunar.
    Í núgildandi lögum er ekki almenn heimild til aðfarar samkvæmt skuldabréfi án undangengins dóms eða sáttar. Í 15. gr. lögtakslaga er hins vegar sérregla, sem heimilar aðför án undangengins dóms til fullnustu skuldabréfakröfu, en sú heimild er bundin því, að þinglýst veð í fasteign sé fyrir skuldabréfinu. Mjög algengt er að vísað sé til umrædds lagaákvæðis í skuldabréfum, sem tryggð eru með veði í fasteign. en þessi heimild hefur þó ekki haft teljandi sjálfstæða þýðingu, þar sem slíkri tilvísun fylgir yfirleitt einnig tilvísun til b-liðar 1. tölul. 1. gr. laga nr. 57/1949, sem heimilar að selja fasteign á nauðungaruppboði án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar, ef kveðið hefur verið á um það í fyrirmælum skuldabréfs. Vegna þessarar beinu uppboðsheimildar hefur lítt reynt á reglu 15. gr. lögtakslaga. Regla 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er miklum mun víðtækari en umrætt ákvæði 15. gr. lögtakslaga. Munurinn felst einkum í því að frumvarpsákvæðið áskilur ekki fyrir fram umsaminn veðrétt fyrir skuldabréfi, hvorki í fasteign né annarri eign, og af því leiðir að ekki verður heldur krafist þinglýsingar skuldabréfsins, eins og gert er í umræddri 15. gr. lögtakslaga.
    Hugtakið skuldabréf er hvorki skilgreint í reglu 15. gr. lögtakslaga né í öðrum núgildandi lögum. Í frumvarpinu er það heldur ekki gert, en stuðst er við þá almennu skilgreiningu hugtaksins, að með því sé átt við einhliða, óskilyrta og skriflega viðurkenningu á peningaskuld. Nánari skilyrði fyrir aðfararhæfi skuldabréfs koma fram á grundvelli þessarar skilgreiningar, ýmist í 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. eða öðrum fyrirmælum frumvarpsins. Í fyrsta lagi verður aðfararheimild skv. 7. tölul. 1. mgr. ekki virk samkvæmt reglu 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins fyrr en greiðsluáskorun hefur verið beint að skuldara með fimmtán daga fyrirvara, eftir að skuldin er komin í gjalddaga. Af þeim sökum er óþarft að tiltaka sérstaklega í 7. tölul. 1. mgr. að skuldin þurfi að vera komin í gjalddaga, eins og nú er gert í 15. gr. lögtakslaga. Með því að annað er ekki tekið fram í 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 7. gr., er ætlast til að það ráðist af fyrirmælum viðkomandi skuldabréfs eða af almennum reglum, hvenær skuld samkvæmt því telst komin í gjalddaga, og eru því heldur ekki sett sérstök skilyrði fyrir aðfararhæfi í ákvæðinu um það, að skuld sé komin í gjalddaga vegna einhverra tiltekinna atvika, eins og 15. gr. lögtakslaga felur í sér. Í öðru lagi kemur fram í upphafi 7. tölul. 1. mgr., að skuldabréf þurfi að vera fyrir ákveðinni peningaupphæð, til að fullnægja megi kröfu samkvæmt því með aðför án undangengins dóms eða sáttar. Í þessu skilyrði felst það augljósa atriði, að skuldbindingin verður að vera um greiðslu peninga, en ekki til dæmis um afhendingu annarra verðmæta. Þá felst einnig í þessu, að skuldabréfið verður sjálft að taka af skarið um fjárhæð skuldarinnar. Það verður þannig að bera skýrlega og ótvírætt með sér, hver skuldafjárhæðin er, hvort sem um höfuðstól eða eftirstöðvar hans er að ræða, vexti, verðbætur o.s.frv. Í þriðja lagi er tiltekið í niðurlagi 7. tölul. 1. mgr., sem frekara skilyrði fyrir aðfararhæfi, að það sé kveðið á um heimild til aðfarar án undangengins dóms eða réttarsáttar í sjálfu skuldabréfinu. Um nánari skýringu þessa skilyrðis ber að hafa í huga, að tilgangur þess er að stuðla að því að skuldara samkvæmt bréfinu megi sjálfum vera ljóst, er hann gengst undir skuldbindingu sína, að það megi fullnægja henni með aðför. Ekki ber brýna nauðsyn til að orðalag slíks ákvæðis skuldabréfs sé með nákvæmlega sama hætti og texti 7. tölul. 1. mgr., ef merking þess yrði augljóst talin hin sama. Í fjórða lagi er loks áskilið í 7. tölul. 1. mgr., að undirskrift skuldara sé vottuð með tilteknum hætti. Sú krafa, að undirskrift verði að vera vottuð af ákveðnum mönnum, einum eða fleiri, er tekin upp til samræmis við reglu 15. gr. lögtakslaga, eins og henni var breytt með lögum nr. 73/1978. Brestur á þessu skilyrði yrði til þess að réttur til aðfarar teldist ekki fyrir hendi.
    Frekari skilyrði um form eða efni skuldaviðurkenningar felast ekki í reglu 7. tölul. 1. mgr. Skiptir því til dæmis ekki máli hvort viðkomandi skjal beri ákveðna yfirskrift eða ekki, ef það fullnægir framangreindum skilyrðum til að teljast aðfararhæft skuldabréf af öðrum sökum.
    Heimild skv. 7. tölul. 1. mgr. er ekki takmörkuð við að aðför megi aðeins fara fram hjá útgefanda skuldabréfs eða þeim, sem síðar hefur tekið yfir skuldbindingu hans. Orðalag ákvæðisins sjálfs tekur ekki af skarið í þessum efnum að öðru leyti en því, að skuldabréfið sem slíkt er aðfararheimild, sem leiðir þannig til að krefjast megi aðfarar hjá öðrum en útgefanda, ef skjalið ber með sér að sá sé skuldbundinn af ákvæðum þess. Þetta er þó nánar áréttað í fyrirmælum 1. mgr. 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir að aðför megi gera samkvæmt skuldabréfi hjá þeim, sem hafa tekið að sér sjálfskuldarábyrgð á skuld samkvæmt því, eða hjá eiganda verðmætis, sem hefur verið sett að veði með því, ef skilyrðum 7. tölul. 1. mgr. er einnig fullnægt gagnvart ábyrgðarmanni eða veðeiganda. Það skilyrði, sem mestu getur skipt í þessu tilliti, snýr að vottun undirskriftar ábyrgðarmanns eða veðeiganda, sem þarf að fullnægja áðurgreindum kröfum.
    Um 8. tölul. 1. mgr.: Eins og vikið var að í almennum athugasemdum með frumvarpinu, er lagt til í þessu ákvæði að víxlar og tékkar verði aðfararhæfir án undangengins dóms eða réttarsáttar, og skal vísað til þargreindra röksemda fyrir þeirri breytingu frá núgildandi lögum.
    Regla 8. tölul. er sett fram með þeim hætti, að aðfararhæfi er bundið við kröfu á grundvelli gilds víxil- eða tékkaréttar. Þessi áskilnaður felur í sér að viðkomandi skjöl verði að vera formgild, þ.e. að þau verði að fullnægja kröfum víxillaga nr. 93/1933 eða tékkalaga nr. 94/1933 um form skuldbindingarinnar. Þessi áskilnaður leiðir að auki til að fyrning víxil- eða tékkaréttar samkvæmt fyrirmælum nefndra laga, gagnvart til dæmis ábekingum, útilokar að aðför verði gerð hjá þeim með stoð í þessu ákvæði. Þá hefur þetta loks í för með sér að auðgunarkröfur skv. 74. gr. víxillaga og 57. gr. tékkalaga teljast ekki aðfararhæfar á grundvelli 8. tölul., þar sem þær kröfur byggjast gagngert á þeirri forsendu að víxil- eða tékkaréttur hafi glatast.
    Með því að lagt er til að krefjast megi aðfarar eftir heimild 8. tölul. til fullnustu kröfum samkvæmt víxlum og tékkum, felst í heimildinni að aðfararhæfi snýr ekki einungis að samþykkjanda víxils eða útgefanda tékka, heldur einnig að útgefanda og ábekingum víxils og framseljendum tékka, að fullnægðu framangreindu skilyrði um að víxil- eða tékkaréttur sé gildur gagnvart þeim. Þetta er sérstaklega áréttað í fyrirmælum 1. mgr. 3. gr., þar sem meðal annars er fjallað um heimild til að krefjast aðfarar hjá þeim, sem hafa tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldbindingar skv. 8. tölul. 1. mgr. 1. gr.
    Í 8. tölul. 1. mgr. kemur enginn fyrirvari fram, sem útilokar að aðför megi gera til fullnustu erlendra víxla eða tékka.
    Um 9. og 10. tölul. 1. mgr.: Reglur þessara tveggja ákvæða tengjast með þeim hætti, að þær taka til samans yfir flestar þær tegundir krafna, sem njóta lögtaksréttar samkvæmt núgildandi lögum. Í 9. tölul. er mælt fyrir um aðfararhæfi krafna um skatta og önnur samsvarandi gjöld, sem innheimt eru lögum samkvæmt af innheimtumönnum ríkissjóðs, af sveitarfélögum eða af sameiginlegum gjaldheimtum ríkis og sveitarfélaga, þar sem þær eru starfræktar. Í 10. tölul. er hins vegar kveðið á um aðfararhæfi krafna, sem njóta lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum annarra laga, en falla ekki undir reglur 4., 5., 6. eða 9. tölul. 1. mgr.
    Regla 9. tölul. felur í sér sjálfstæða aðfararheimild, þar sem ekki er krafist að mælt sé fyrir í öðrum lögum um lögtakshæfi eða aðfararhæfi skatta- eða gjaldakrafna, sem hér falla undir, þótt svo sé almennt gert. Að þessu leyti er regla 9. tölul. frábrugðin reglu 10. tölul., sem er alfarið háð sérstökum fyrirmælum annarra laga um lögtaksrétt.
    Ljóst er að aðgreining milli annars vegar skatta og annarra samsvarandi gjalda, sem falla undir 9. tölul., og hins vegar annarra krafna, sem njóta lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum annarra laga og falla undir 10. tölul., getur við vissar aðstæður orðið örðug. Þessi aðgreining hefur umtalsverða þýðingu, þar sem 7. og 8. gr. frumvarpsins gera ráð fyrir mismunandi undirbúningsaðgerðum, eftir því hvort krafa falli undir 9. eða 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. Hin einfaldari meðferð, sem 8. gr. ráðgerir vegna krafna skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr., er einkum lögð til með hliðsjón af nauðsyn þess að innheimtuaðgerðir vegna skatta verði skilvirkar, enda er hér um að ræða meira en helming heildarfjölda aðfarargerða vegna peningakrafna. Dæmigerðar kröfur um skatta og önnur samsvarandi gjöld eru einnig komnar til með álagningu skattyfirvalda, sem lögboðið er að kynna gjaldanda með ákveðnum hætti, og getur ákvörðun gjaldanna almennt sætt kæru til æðra stjórnvalds. Kröfur þessar eru því oftast óumdeildar og réttindi gjaldanda nokkuð trygg vegna kæruheimilda innan stjórnkerfisins. Þessar röksemdir eiga hins vegar ekki við nema um ákveðinn fjölda núverandi lögtaksheimilda. Það hefur af þessum sökum þýðingu að afmarka reglu 9. tölul. með þeim hætti, að hún taki almennt ekki til annarra krafna en þeirra, sem framangreind lýsing á við, þannig að aðrar lögtakshæfar kröfur, sem eiga undir 10. tölul., sæti vandaðri undirbúningsmeðferð.
    Réttarframkvæmd og dómsúrlausnir gefa til kynna, að hugtakið „skattur“ geti haft mjög rúma merkingu og tekið til fleiri tegunda gjalda heldur en ætlast er til með reglu 9. tölul. Af þeim sökum er þörf nánari afmörkunar reglunnar og er lagt til í því skyni að hún takmarkist við skatta og önnur samsvarandi gjöld, sem innheimt eru með tilteknum hætti að boði fyrirmæla annarra laga. Það er ljóst að þessi leið útilokar ekki að ýmis afbrigði gjaldakrafna geti fallið undir reglu 9. tölul., þótt áðurraktar röksemdir eigi ekki fullum fetum við um þau. Í þessum efnum hefði hins vegar ekki verið nægjanlegt að miða aðfararheimild 9. tölul. við sömu atriði og nú er gert í 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. lögtakslaga, þar sem samsvarandi viðleitni til afmörkunar felst í því skilyrði, að gjöld samkvæmt ákvæðinu skuli renna til ríkis, sveitarfélaga eða kirkna. Sú leið er bæði of þröng og of víðtæk. Gjaldakröfur, sem innheimtar eru með opinberum gjöldum í almennri merkingu, renna ekki alltaf endanlega til einhvers þeirra þriggja, sem 1. gr. lögtakslaga nefnir, og gæti slík viðmiðun, ef við hana yrði stuðst í 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, því haft í för með sér að hluti almennrar skattálagningar félli undir það ákvæði, en hluti hennar undir reglu 10. tölul. Slík aðgreining gjalda yrði allt að því ómöguleg í framkvæmd í ljósi núverandi tilhögunar við innheimtu. Umrædd afmörkun að hætti 1. gr. lögtakslaga gæti einnig reynst of rúm, þannig að lögtakshæfar gjaldakröfur, sem komnar væru til dæmis til vegna þjónustu ríkis eða sveitarfélags við einstaka menn, gætu fallið hér undir. Slík leið yrði í andstöðu við áðurgreind rök fyrir sérreglu 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Afmörkun 9. tölul. felst sem áður segir í því skilyrði, að viðkomandi skattakröfur þurfi að vera innheimtar af innheimtumönnum ríkissjóðs, af sveitarfélögum eða af sameiginlegum gjaldheimtum ríkis og sveitarfélaga. Það er áskilið að auki, að sú tilhögun innheimtu þurfi að vera lögbundin. Þessi áskilnaður hefur í för með sér að gjöld, sem slíkir innheimtumenn eða stofnanir taka að sér að innheimta með samningi án lagaskyldu, falla utan marka 9. tölul. Hér er ekki ráðgert að einstök lagafyrirmæli um skatta eða samsvarandi gjöld þurfi beinlínis að tiltaka þessa innheimtuleið, heldur yrði að telja nægjanlegt í þessu sambandi að þau vísi til þess, að innheimta gjaldanna fari eftir sömu reglum og eiga við um tiltekin önnur gjöld, t.d. tekjuskatt og eignarskatt, en nokkrar slíkar tilvísanir er að finna í núgildandi lögum.
    Um afmörkun á 9. tölul. að öðru leyti er vert að árétta, að þessi regla nær aðeins til skatta og annarra samsvarandi gjalda. Þótt það leiði af 2. mgr. 1. gr.. að vextir og önnur vanskilaviðurlög af skatta- eða gjaldakröfu falli hér undir og einnig þargreindur kostnaður, geta ýmis atriði, þessu tengd, staðið utan marka 9. tölul. 1. mgr. Sérstaklega álagðar skattsektir yrðu til dæmis ekki taldar til krafna skv. 9. tölul., heldur ættu þær ýmist undir 5. eða 6. tölul. og yrði því að beita öðrum aðferðum við undirbúning aðfarar fyrir þeim en eiga við um kröfur skv. 9. tölul., sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    Í orðalagi 10. tölul. felst í raun gagnályktun frá reglum 4., 5., 6. og 9. tölul. Ef lög kveða á um lögtaksrétt fyrir kröfu og hún fellur ekki undir lýsingu 4., 5., 6. eða 9. tölul., ber að líta svo á að aðfararheimild felist í 10. tölul. Ætlast verður til að regla 10. tölul. verði skýrð með þeim hætti í framkvæmd, ef frumvarp þetta verður að lögum, að hún geymi almennu regluna um aðfararhæfi lögtakshæfra krafna og að einstök tilvik verði þannig talin falla undir hana, ef þröng skýring lagafyrirmæla leiðir ekki til heimfærslu þeirra undir umrædda fyrri töluliði 1. mgr. Þessi aðgreining hefur einkum þýðingu að því leyti, sem reglur 2. kafla frumvarpsins gera ráð fyrir mismunandi aðdraganda aðfarargerðar, eftir því til hvers töluliðar 1. mgr. 1. gr. viðkomandi aðfararheimild heyrir.
    Um 11. tölul. 1. mgr.: Í þessu ákvæði er mælt fyrir um aðfararhæfi krafna samkvæmt tilteknum úrlausnum erlendra dómstóla og yfirvalda. Þau skilyrði eru sett fyrir aðfararhæfi, að íslenska ríkið hafi skuldbundið sig að þjóðrétti til að viðurkenna slíkar heimildir, að mælt sé fyrir í lögum um þá skuldbindingu og að fullnusta viðkomandi kröfu verði talin samrýmast íslensku réttarskipulagi. Umrædd skilyrði snúa nánar tiltekið að því, að í fyrsta lagi þarf milliríkjasamningur, sem íslenska ríkið er aðili að, að mæla fyrir um viðurkenningu ákveðinna erlendra aðfararheimilda. Í öðru lagi þarf slíkur samningur að hafa verið fullgiltur hér á landi með sérstakri lagasetningu. Í þriðja lagi er sett sérstakt skilyrði, sem kanna þarf hverju sinni með hliðsjón af þeirri kröfu, sem aðfarar er krafist fyrir. Viðkomandi krafa þarf að fullnægja þeim áskilnaði, að fullnusta hennar verði ekki talin fara í bága við íslenskt réttarskipulag („ordre public“), eða með öðrum orðum, að hún taki ekki til einhvers þess, sem talið yrði ólöglegt eða ósiðlegt eftir íslenskum lögum, réttarvitund eða siðferðisvitund.
    Fá dæmi eru af fullgiltum milliríkjasamningum, sem heimila aðför hér á landi samkvæmt erlendum úrlausnum og fallið geta undir reglu 11. tölul., en þau eru eftirfarandi:
     1.      Samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar 16. mars 1932, sbr. lög nr. 30/1932.
     2.      Samningur sömu ríkja 23. mars 1962, sbr. lög nr. 93/1962.
     3.      Samningur sömu ríkja 20. nóvember 1973, sbr. lög nr. 95/1973.
    B. Um 2. mgr.: Í 2. mgr. 1. gr. er afmarkað fyrir hverjum fjárkröfum eða einstökum liðum þeirra megi gera fjárnám, samhliða því að aðför sé gerð til fullnustu á meginskyldu gerðarþola samkvæmt aðfararheimild. Meginskylda gerðarþola í þessum skilningi getur ýmist falist í skyldu til greiðslu ákveðinnar fjárhæðar, sem tiltekin yrði sem höfuðstóll kröfunnar eða eftirstöðvar hans, eða í skyldu hans til annars en peningagreiðslu. Í 2. mgr. 1. gr. er tiltekið nánar, hverjar greiðslukröfur teljist aðfararhæfar með slíkum meginskyldum. Ef aðfarar er krafist fyrir peningaskuld, tekur reglan af tvímæli um að aðfararheimild nái ekki aðeins til höfuðstóls kröfunnar, heldur einnig til vaxta og annarra þeirra liða, sem hún telur upp. Ef aðfarar er aðallega krafist til að fullnægja annars konar skyldu, mætti samhliða gera fjárnám vegna málskostnaðar, kostnaðar af sjálfri gerðinni o.s.frv., að því leyti, sem slíkar peningakröfur geta fylgt meginskyldunni.
    Hér er gengið út frá að ef aðfarar er krafist á grundvelli dóms, úrskurðar eða sáttar, þá sé tiltekið að hverju leyti verðbætur, vextir, málskostnaður og eftir atvikum fleiri liðir fylgi höfuðstól kröfunnar. Talning 2. mgr. snýr þannig einkum að öðrum en þessum aðfararheimildum.
    Einstakir kröfuliðir, sem taldir eru í 2. mgr. 1. gr., skýra sig að mestu sjálfir. Rétt er þó að nefna eftirfarandi til frekari upplýsinga:
     1.      Með „lögbundnum vanskilaálögum“ er átt við ýmis viðurlög önnur en dráttarvexti, sem lögum samkvæmt fylgja vanskilum á greiðslu skatta og annarra gjalda. Sem dæmi af slíkum viðurlögum má vísa til álagsgreiðslna vegna vanskila á söluskatti eða á staðgreiðslufé vegna opinberra gjalda.
     2.      Með „kostnaði af kröfu“ er einkum átt við kröfuliði, sem geta fylgt kröfum samkvæmt skuldabréfum, víxlum eða tékkum, t.d. innheimtukostnað í banka, stimpilgjöld o.fl.
     3.      Með „endurgjaldi kostnaðar af gerðinni sjálfri“ er vísað til þeirrar meginreglu, sem nú telst gilda, að gerðarþoli verði að bera kostnað af aðför. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. frumvarpsins á sýslumaður að ákveða þennan kostnað, að því leyti, sem hann hefur ekki verið ákveðinn með dómi, úrskurði eða sátt. Kostnaður, sem þessi ummæli geta tekið til, gæti fallið til vegna réttargjalda, öflunar dómsendurrita, þóknunar fyrir mót lögmanns gerðarbeiðanda við aðför o.fl.
     4.      Væntanlegur kostnaður af frekari fullnustuaðgerðum er að jafnaði ekki ljós, þegar aðför er gerð. Venja hefur verið í framkvæmd að tiltekið sé við fjárnámsgerð, að réttindi gerðarbeiðanda samkvæmt henni nái einnig til greiðslu þessa kostnaðar úr hendi gerðarþola, án þess að ákveðin fjárhæð sé tiltekin í því skyni. Í 2. mgr. 1. gr. er ekki gert ráð fyrir að unnt sé að breyta þeirri framkvæmdarvenju.
    C. Um 3. mgr.: Í þessu ákvæði er vísað til þess, að reglur um heimildir til innsetningar- og útburðargerða án undangengins dóms eða sáttar komi fram í 12. kafla frumvarpsins. Tilgangur þessarar tilvísunar er einkum að árétta að það sé ekki ætlunin að talning aðfararheimilda í 1. mgr. 1. gr. afnemi þá dómvenju, að unnt sé að krefjast þessara gerða án almennrar aðfararheimildar. Skilyrði fyrir þessari heimild eru greind í 1. mgr. 78. gr. frumvarpsins og verða þau nánar skýrð í athugasemdum við það ákvæði.

Um 2. gr.

    Í þessu ákvæði kemur fram hverjir geti krafist aðfarar á grundvelli aðfararheimildar skv. 1. mgr. 1. gr. Í þeim efnum er meginreglan að sá geti verið gerðarbeiðandi, sem aðfararheimildin ber sjálf með sér að sé rétthafi að henni.
    Flestar aðfararheimildir skv. 1. mgr. 1. gr. ættu eftir formi sínu að bera með sér, hver verði talinn eigandi eða rétthafi að kröfu. Hér ber þó að gæta að því, að upphaflegur rétthafi getur oftast framselt réttindi sín. Orðalag 2. gr. er með þeim hætti, að framsalshafi geti krafist aðfarar, en það skilyrði er þó sett, að aðfararheimildin beri réttindi hans með sér. Framsalshafi að dómi yrði þannig að framvísa endurriti dómsins með áritun upphaflegs dómhafa um framsal og eftir atvikum með óslitinni framsalsröð til sín.
    Skuldabréf geta eftir atvikum ýmist verið nafnbréf eða handhafabréf. Ef krafist yrði aðfarar samkvæmt nafnbréfi, yrði það að vera gefið út til gerðarbeiðandans eða bera með sér óslitna framsalsröð til hans. Handhöfn gerðarbeiðandans yrði hins vegar nægjanleg. ef um handhafabréf væri að ræða. Handhöfn yrði á sama hátt fullnægjandi heimild fyrir gerðarbeiðanda, ef krafist væri aðfarar samkvæmt tékka eða víxli og slíkt skjal væri framselt eyðuframsali.
    Í niðurlagi 2. gr. kemur fram að handveðréttarhafi í aðfararheimild geti krafist aðfarar á grundvelli hennar. Þessi regla á sér ekki hliðstæðu í fyrirmælum aðfararlaga, en hún þykir eðlileg, bæði í ljósi almennra reglna um réttindi handveðhafa í öðrum tilvikum og vegna þess, að færst hefur í vöxt að tryggingar í viðskiptum séu veittar með þessum hætti, t.d. með handveði í skuldabréfum. Ekki er ástæða til að sporna við að handveðhafi geti innheimt kröfu, sem hefur verið sett að veði til hans með þessum hætti, enda er að jafnaði gengið út frá að atborganir gangi upp í kröfu hans sjálfs á hendur veðsala.
    Það verður að ráðast af almennum reglum um veðréttindi, hvort litið verður svo á að gerðarbeiðandi njóti handveðréttar í aðfararheimild. Gerðarbeiðandinn verður að bera sönnunarbyrði um tilvist þessara réttinda, ef ágreiningur rís um þau við aðför. Hugtakið handveðréttur er ekki notað í víðtækari merkingu hér en almennt. Því er þannig ekki ætlað að taka til réttinda þess, sem hefur gert fjárnám í aðfararhæfri kröfu og fengið vörslur hennar, enda er í slíku tilviki ekki um handveðrétt að ræða í venjulegum skilningi þess hugtaks.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er að finna reglur um hjá hverjum megi gera aðför, en þær fela í sér afmörkun á því, hver verði talinn gerðarþoli í skilningi frumvarpsins. Meginreglan í þeim efnum kemur fram í upphafi fyrri málsgreinar ákvæðisins, þar sem segir að gera megi aðför hjá þeim, sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Þessi regla ætti að eiga við í miklum meiri hluta tilvika. Fjárnám fyrir kröfu um skatta eða önnur samsvarandi gjöld yrði þannig gert hjá þeim, sem álagning hljóðar á. Aðför yrði gerð eftir dómi hjá dómþola og eftir sátt hjá þeim, sem tekið hefur á sig skuldbindingu með henni, hvort sem um einn mann er að ræða eða fleiri. Í 3. gr. koma ekki fram sjálfstæð skilyrði fyrir hæfi manns, félags eða samtaka til að geta talist gerðarþoli, og er því í þessum efnum miðað við almennar reglur um hæfi til að eiga aðild að einkamáli fyrir dómi, sbr. 45. gr. laga nr. 85/1936. Hugtakið gerðarþoli er notað jafnt um einstaka menn og um svokallaðar lögpersónur, þ.e. félög, samtök o.þ.h. Sérstök fyrirmæli koma ekki fram í frumvarpinu um fyrirsvar fyrir lögpersónu, sem aðför beinist að, eða um fyrirsvar fyrir einstaka menn, sem óhæfir eru til að gæta eigin hagsmuna. Er því ætlast til að almennar reglur veiti svör við því, hver teljist bær um að svara fyrir lögpersónu við aðför eða til dæmis ólögráða mann. Meginreglu um það efni má finna í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/1942.
    Áðurnefnd meginregla 3. gr. ætti út af fyrir sig að leiða til þess, að krefjast mætti aðfarar jafnt hjá útgefanda víxils og samþykkjanda, svo dæmi sé tekið. Til að taka þó af tvímæli um þetta, er sérstaklega tekið fram í seinni málslið 1. mgr. 3. gr., að krefjast megi aðfarar hjá þeim, sem hefur tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á víxli, tékka eða skuldabréfi. Þessi heimild er að sjálfsögðu háð því að ábyrgðin sé gild eftir almennum reglum um viðkomandi viðskiptabréf, t.d. vegna fyrningar eða nauðsynjar afsagnargerðar. Heimildin er einnig bundin því, að um sjálfskuldarábyrgð sé að ræða, og er því ekki hægt að krefjast aðfarar hjá þeim, sem hefur tekið á sig svonefnda einfalda ábyrgð á greiðslu skuldabréfs. Þá er loks tekið fram í 1. mgr. 3. gr., að sérstökum skilyrðum 7. eða 8. tölul. 1. mgr. 1. gr. fyrir aðför hjá aðalskuldara þurfi einnig að vera fullnægt gagnvart ábyrgðarmanni, ef krefjast á aðfarar hjá hinum síðarnefnda. Hvað skuldabréf varðar, hefur þetta í för með sér að undirskrift ábyrgðarmanns þarf að vera vottuð með þeim hætti, sem 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. áskilur, og fyrirmæli skuldabréfs um aðfararhæfi þurfa að sjálfsögðu einnig að hafa verið í texta þess, þegar ábyrgðarmaður ritaði nafn sitt á það. Hvað víxla eða tékka varðar, leiðir þessi fyrirvari 1. mgr. 3. gr. einkum til að útiloka að krafist verði aðfarar fyrir auðgunarkröfu á grundvelli víxils eða tékka hjá ábyrgðarmanni án undangengins dóms.
    Í 1. mgr. 3. gr. er tekið sérstaklega fram, að krefjast megi aðfarar hjá eiganda verðmætis, sem sett hefur verið að veði til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfi. Hér eru hafðar í huga þær aðstæður, að veðsetning hafi átt sér stað með skuldabréfi eða tryggingarbréfi, án þess að heimild sé fyrir hendi til að krefjast nauðungarsölu hins veðsetta án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar. Til að öðlast rétt til nauðungarsölu veðsins við þessar aðstæður yrði kröfueigandi að gera fjárnám í því, eins og þarf samkvæmt núgildandi reglum. Ekki er gefið að eigandi veðsins sé einnig útgefandi skuldabréfs eða að hann sé af öðrum sökum skuldbundinn til greiðslu samkvæmt því. Er því gert ráð fyrir að krefjast megi sjálfstæðrar aðfarar hjá eiganda veðsins, en þá eingöngu til að fá fjárnám gert í hinni veðsettu eign. Fyrirmæli 1. mgr. 3. gr. heimila ekki að gerðarbeiðandi geti krafist fjárnáms í öðrum eignum veðeigandans.
    Algengt er að aðfararheimildir hljóði á greiðsluskyldu fleiri en eins manns, t.d. dómar, áritaðar áskorunarstefnur eða réttarsáttir. Ef frumvarp þetta verður að lögum, yrði sams konar staða uppi varðandi aðför samkvæmt víxlum, tékkum og skuldabréfum, þar sem algengt er að ábyrgð fleiri en eins geti komið til álita. 3. gr. frumvarpsins ráðgerir ekki breytingu frá núgildandi reglum að því leyti, að gerðarbeiðandi hefur almennt sjálfdæmi um það, hjá hverjum samábyrgra hann krefjist aðfarar. Honum væri óþarft að gefa öðrum kost á að gæta hagsmuna sinna en þeim, sem hann hefur í hyggju að beina aðförinni að. Ef um kröfu væri að ræða, sem ekki mætti fullnægja með aðför nema að undangenginni greiðsluáskorun skv. 7. gr. frumvarpsins, væri nægilegt að gerðarbeiðandi beindi slíkri áskorun að þeim eina ábyrgðarmanni, sem hann vill reyna aðför hjá. Tilkynningu um væntanlega aðför skv. 21. gr. þyrfti heldur ekki að senda öðrum en þeim, sem gerðarbeiðandi vill beina gerðinni að. Hér er því ekki um að ræða neina nauðsyn samaðildar, þótt gerðarbeiðandi eigi þess kost samkvæmt aðfararheimild að reyna aðför hjá fleiri en einum. Það sama á einnig við, ef aðfarargerð samkvæmt skuldabréfi er beint að eiganda veðsettra verðmæta, þótt sá sé ekki greiðsluskyldur samkvæmt skuldabréfinu. Gerðinni mætti beina að eigandanum einum, án þess að aðalskuldara eða ábyrgðarmönnum yrði gert kunnugt um hana. Við þær aðstæður, sem hér hafa verið nefndar í dæmaskyni, kæmi til álita að aðrir en sá, sem gerðinni er beint að, telji sig hafa hagsmuna að gæta við hana. Slíkir menn yrðu ekki taldir gerðarþolar, þótt þeir mættu við gerðina og hefðu uppi andmæli, heldur nytu þeir réttarstöðu þriðja manns við gerðina, sbr. 28. gr.
    Í 2. mgr. 3. gr. er að finna undantekningar frá þeirri meginreglu, sem felst í fyrri málsgrein ákvæðisins, um að aðfarar verði ekki krafist hjá öðrum en þeim, sem aðfararheimildin sjálf hljóðar á. Þar er í fyrsta lagi að finna undantekningu um þá, sem taka á sig ábyrgð á aðfararhæfri kröfu samkvæmt fyrirmælum laga. Reglur 1. mgr. 1. gr. taka almennt til þess, við hverjar aðstæður heimilt yrði talið að gera aðför hjá ábyrgðarmanni að kröfu. Þær reglur fela meðal annars í sér, að þótt maður gengist að uppkveðnum dómi í ábyrgð fyrir að dómþoli efni skyldur sínar samkvæmt honum, yrði ekki hægt að gera aðför á grundvelli dómsins sem slíks hjá ábyrgðarmanninum. Umrædd regla í 2. mgr. 3. gr. heimilar hins vegar í undantekningartilvikum að krefjast megi aðfarar hjá ábyrgðarmanni fyrir aðfararhæfri skuldbindingu, en með því skilyrði að sett lagaregla gildi um það, með hverjum hætti slík ábyrgð komi til. Sem dæmi um slíka lögmælta ábyrgð má nefna ábyrgð erfingja á skuldbindingum látins manns samkvæmt reglum laga nr. 3/1878. Eftir reglu 2. mgr. 3. gr. væri heimilt að krefjast aðfarar samkvæmt dómi, sem hljóðar á arfláta, hjá erfingja hans, sem hefur gengist við arfi og skuldum eftir fyrirmælum nefndra laga. Í öðru lagi er kveðið á um það í 2. mgr. 3. gr., að krefjast megi aðfarar hjá þeim, sem ber sjálfkrafa ábyrgð á aðfararhæfri kröfu samkvæmt fyrirmælum laga, þótt krafan hljóði ekki á hann sjálfan. Lagafyrirmæli um ábyrgð sem þessa eru fá og varða flest innheimtu opinberra gjalda, sbr. t.d. 32. gr. laga nr. 73/1980 og 113. og 114. gr. laga nr. 75/1981. Í 109. gr. laga nr. 50/1987 er þó að finna reglu um ábyrgð sem þessa, sem snýr ekki að skattheimtu.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. 4. gr. er kveðið á um að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra framkvæmi aðfarargerðir. Hér er tekið mið af þeirri skipan, sem frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði gerir ráð fyrir, en eins og áður hefur verið skýrt í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu, er hér byggt á því að sýslumenn fari með framkvæmd aðfarargerða sem stjórnvaldsathafnir. Í frumvarpi til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði er kveðið á um það embættisgengisskilyrði um sýslumenn, að þeir séu lögfræðingar að mennt. Þá er ráðgert þar að fulltrúar starfi við embætti sýslumanna, sem ýmist yrðu löglærðir eða ekki. Við framkvæmd aðfarargerða samkvæmt reglum þessa frumvarps gæti reynt á fjölmörg lögfræðileg álitaefni og verður því að telja varhugavert að heimila að ólöglærðir starfsmenn sýslumanna annist þessi verk. Af þeim sökum er áskilið í 1. mgr. 4. gr. að löglærður fulltrúi sýslumanns annist framkvæmd aðfarargerðar, ef sýslumaður gerir það ekki sjálfur.
    Í ýmsum reglum frumvarpsins, sem fjalla nánar um framkvæmd aðfarargerða, er tekið svo til orða að sýslumaður gegni tilteknu hlutverki, taki ákvörðun um málefni o.s.frv. Þær reglur verður að skoða í ljósi 1. mgr. 4. gr., þannig að þær eiga að sjálfsögðu eins við um löglærða fulltrúa sýslumanna, ef þeir fara með aðfarargerðir.
    Almennar lögfestar reglur eru ekki fyrir hendi um það, við hverjar aðstæður stjórnvöld verða talin vanhæf til að sinna lögboðnu hlutverki sínu. Til að komast hjá því að leggja til setningu ítarlegra hæfisreglna í frumvarpinu, sem einungis hefðu þýðingu fyrir aðfarargerðir, er sú leið farin í 2. mgr. 4. gr. að kveða á um að reglur um hæfi dómara í einkamáli gildi um hæfi sýslumanns eða löglærðs fulltrúa hans til að fara með aðfarargerð hverju sinni, að því leyti sem þær reglur geta átt. við að breyttu breytanda. Tilvísun þessi á við reglur 36. og 37. gr. laga nr. 85/1936, en eðlilegt verður að telja að samsvarandi hæfiskröfur séu hér gerðar, þótt um stjórnvaldsathöfn sé að ræða. Í niðurlagi 2. mgr. 4. gr. er finna sérstaka undantekningu frá skírskotun ákvæðins til hæfisreglna um dómara, sem tekur til þeirra umdæma, þar sem sýslumenn gegna einnig hlutverki innheimtumanna ríkissjóðs eða annast sameiginlega innheimtu fyrir ríki og sveitarfélög. Undantekning þessi kveður á um að slík innheimta valdi því ekki, að sýslumaður teljist vanhæfur til að gera fjárnám fyrir kröfum um skatta og önnur samsvarandi gjöld. Telja verður að þessi undantekning sé algerlega óhjákvæmileg af tilliti til framkvæmdar í þessum efnum.
    Í 3. mgr. 4. gr. er kveðið á um viðbrögð, ef sýslumaður reynist vanhæfur til að framkvæma tiltekna aðfarargerð vegna fyrirmæla 2. mgr. 4. gr. Samkvæmt reglu þessari skipar dómsmálaráðherra annan löghæfan mann til að framkvæma gerðina. Löghæfur yrði maður talinn í þessum skilningi, ef hann fullnægði skilyrðum til að gegna starfi löglærðs fulltrúa sýslumanns. Þóknun þess, sem ynni viðkomandi verk í stað sýslumanns, yrði greidd úr ríkissjóði samkvæmt seinni málslið þessa ákvæðis.
    Um reglu 2. og eftir atvikum 3. mgr. 4. gr. ber að vekja athygli á, að ekki er mæli fyrir um að sýslumaður víki sæti með tilteknum hætti, ef hann telur sig vanhæfan til að fara með aðfarargerð. Hér væri því um ákvörðun hans að ræða, sem hann yrði að tilkynna dómsmálaráðherra um, til að öðrum manni verði falið að vinna viðkomandi verk. Ráðherra yrði væntanlega heimilt að meta sjálfstætt hvort nauðsyn beri til að sýslumaður færist undan að framkvæma gerðina. Í umræddum ákvæðum er heldur ekki mæli fyrir um formleg viðbrögð sýslumanns, ef málsaðili ber því við að hann sé vanhæfur til að annast viðkomandi gerð. Ef sýslumaður teldi sig hæfan til að fara með gerð, þrátt fyrir gagnstæða skoðun málsaðila, færi hann eftir sem áður með hana eftir eigin ákvörðun, sem ekki yrði endurmetin nema við málsmeðferð fyrir héraðsdómi eftir almennum reglum 14. og 15. kafla frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 4. gr. er að finna almenn fyrirmæli um til hvers héraðsdómstóls beina eigi málefnum samkvæmt reglum frumvarpsins. Segir að það skuli vera sá dómstóll, sem fer með dómsvald í umdæmi þess sýslumanns, sem framkvæmir hlutaðeigandi gerð. Fyrirvari er þó gerður um að þetta eigi ekki við, að því leyti sem einstakar reglur frumvarpsins mæla fyrir um að tiltekin málefni skuli borin undir dómstól á ákveðnum stað. Þessi fyrirvari snýr einkum að reglu 11. gr., þar sem sérstök fyrirmæli koma fram um til hvers héraðsdóms eigi að senda aðfararbeiðni, þegar þörf er á upphafsmeðferð hans áður en beiðni er komið á framfæri við sýslumann.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. 5. gr. koma fram reglur um hversu fljótt gera megi aðför eftir dómum, dómsúrskurðum og árituðum áskorunarstefnum. Er mælt fyrir um að aðför megi gera að liðnum 15 dögum frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar, en þegar í stað eftir áritun áskorunarstefnu. Umræddur 15 daga aðfararfrestur frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar á þó aðeins við, ef annað hefur ekki verið tekið fram í viðkomandi dómsúrlausn. Má því hvort heldur lengja eða stytta aðfararfrest með fyrirmælum í dómsúrlausn, ef aðrar lagareglur takmarka ekki þann kost sérstaklega. Í niðurlagi 1. mgr. er áréttað það inntak fyrri fyrirmæla ákvæðisins, að aðfararfrestur miðast almennt við uppkvaðningu dómsúrlausnar eða áritun áskorunarstefnu, en ekki við birtingu þessara heimilda fyrir dómþola. Er hér lögð til breyting frá núgildandi reglum, sem miða fresti varðandi dóma og úrskurði við birtingu, en þær koma meðal annars fram í 3. og 4. mgr. 194. gr. laga nr. 85/1936. Þau ákvæði eru ekki talin meðal lagareglna, sem gert er ráð fyrir að falli brott skv. 99. gr. frumvarpsins, enda geta þau haft þýðingu í öðrum efnum en þeim, sem snúa að aðfararhæfi dómsúrlausnar. Ef frumvarp þetta verður að lögum, verður allt að einu að telja eftir almennum lögskýringarviðhorfum að nefndar reglur séu fallnar úr gildi, hvað birtingu dómsúrlausnar varðar sem skilyrði aðfarar. Niðurlagsorð 1. mgr. 5. gr., sem gera ráð fyrir þeirri undantekningu að birting dómsúrlausnar fyrir dómþola geti talist skilyrði aðfarar, miðast þannig aðeins við sérstakar lagareglur um ákveðin tilvik, en ekki almennar reglur eins og áðurnefnd ákvæði laga nr. 85/1936.
    Í 2. og 3. mgr. 5. gr. koma fram reglur um áhrif áfrýjunar eða kæru á dómi, úrskurði eða áritaðri áskorunarstefnu til æðra dóms. Reglurnar eru tvenns konar, eftir því hvort áfrýjun á sér stað innan almenns áfrýjunarfrests eða ekki. Með almennum áfrýjunarfresti er hér samkvæmt málvenju átt við þann tíma, sem heimilt er að áfrýja dómsúrlausn án þess að afla þurfi leyfis dómsmálaráðherra til þess. Sá frestur getur verið mislangur samkvæmt fyrirmælum laga, eftir því hvert úrlausnarefni máls hefur verið.
    Reglur 2. mgr. 5. gr. taka til áhrifa áfrýjunar, sem á sér stað innan almenns frests. Meginregla ákvæðisins er að áfrýjun dóms eða úrskurðar hafi í för með sér að aðfararbeiðni á grundvelli hans verði ekki tekin fyrir, meðan máli er ólokið fyrir æðra dómi. Til að tálma aðför með þessum hætti yrði gerðarþoli að minnsta kosti að framvísa útgefinni áfrýjunarstefnu. Almennur áfrýjunarfrestur í skilningi 2. og 3. mgr. 5. gr. er yfirleitt ýmist 12 vikur eða 3 mánuðir. Í ljósi þess, að aðfararfrestur skv. 1. mgr. ákvæðisins yrði að jafnaði 15 dagar, gætu aðstæður orðið þær í einstökum tilvikum að áfrýjunarstefna hafi ekki enn verið tekin út, þegar aðfararbeiðni kemur fram. Gerðarþoli gæti almennt ekki stöðvað aðför með því að lýsa yfir fyrirætlun um áfrýjun aðfararheimildar. Í 21. gr. kemur hins vegar fram sú regla, að tilkynna verði gerðarþola um væntanlega aðför með nokkrum fyrirvara. Slíkur fyrirvari ætti að jafnaði að nægja gerðarþola til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja aðför um sinn með áfrýjun aðfararheimildar í tæka tíð.
    Í 2. mgr. 5. gr. koma fram undantekningar frá þeirri reglu, að áfrýjun dómsúrlausnar innan almenns áfrýjunarfrests hindri aðför. Fela þær í sér að aðför megi gera á grundvelli dómsúrlausnar, þótt máli sé skotið til æðra dóms innan almennra fresta, ef ákvörðun þess efnis er að finna í úrlausninni sjálfri eða ef fyrirmæli annarra laga girða fyrir frestandi áhrif málskots. Fyrrnefndu tilvikin, að dómsúrlausn kveði sjálf á um að áfrýjun hennar eða eftir atvikum kæra fresti ekki aðför, eru nánast óþekkt í framkvæmd hér á landi, en öllu algengari í nágrannalöndum. Ekki er rétt að útiloka þessa leið með fyrirmælum í löggjöf um aðför, enda eðlilegra að afstaða sé tekin til heimildar fyrir henni í almennri réttarfarslöggjöf. Síðarnefndu tilvikin eru fáið, þar sem lagafyrirmæli girða fyrir frestandi áhrif áfrýjunar. Dæmi af slíku snýr þó að einni algengustu aðfararheimildinni í núverandi framkvæmd, aðfararhæfum áskorunarstefnum, en skv. 235. gr. laga nr. 85/1936, sbr. lög nr. 54/1988, frestar áfrýjun áskorunarmáls ekki aðför.
    Í 3. mgr. 5. gr. er mælt fyrir um áhrif áfrýjunar aðfararheimildar, sem á sér stað að loknum almennum áfrýjunarfresti. Er sú regla lögð til að slík áfrýjun fresti almennt ekki aðför, enda hefur gerðarþoli þá að jafnaði þegar haft yfirdrifinn tíma til ákvörðunartöku um málskot. Í ákvæði þessu er þó ráðgert, að gerðarþoli geti krafist frestunar aðfarargerðar vegna áfrýjunar við þessar aðstæður, en um meðferð á slíkri frestskröfu er vísað til reglu 26. gr., sem byggist á að frestir verði almennt ekki veittir án samþykkis allra aðila að gerðinni. Má því ætla að frestun gerðar við þær aðstæður, sem 3. mgr. 5. gr. tekur til, komi ekki til álita nema við sérstakar aðstæður.
    Eftir núgildandi lögum á dómhafi þess kost, ef aðfararheimild hans er áfrýjað og girt er þannig fyrir framkvæmd fjárnáms, að krefjast svonefndrar löggeymslu í eignum dómþola til tryggingar meðan máli er ólokið fyrir æðra dómi. Heimild þessari hefur mjög sjaldan verið beitt í framkvæmd, en hún styðst við fyrirmæli í ákvæðum 24 og 28 í 22. kapítula I. bókar norskra laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687, sem ráðgert er að falli niður skv. 99. gr. frumvarpsins. Stefnt er að því að ný fyrirmæli um slíkar tryggingargerðir til bráðabirgða komi fram í væntanlegu frumvarpi að lögum um kyrrsetningu og lögbann.
    Reglur 5. gr. miðast aðallega við aðfararheimildir skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 1. gr., sem fengnar hafa verið fyrir íslenskum dómstólum. Þótt þess sé ekki sérstaklega getið í 5. gr., er allt að einu ætlast til að sömu reglur gildi um erlendar dómsúrlausnir, sem njóta aðfararhæfis skv. 11. tölul. 1. mgr. 1. gr.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er að finna reglur um hvenær aðför megi gera til fullnustu kröfum samkvæmt réttarsáttum, sáttum gerðum fyrir yfirvöldum og nauðasamningum. Reglur þessar, sem skýra sig að mestu sjálfar, miða við að aðför megi gera, ef kröfur samkvæmt umræddum heimildum eru komnar í gjalddaga samkvæmt ákvæðum þeirra sjálfra. Ef engin fyrirmæli er að finna um gjalddaga í heimildum sem þessum, má ekki hefjast handa um aðför samkvæmt þeim fyrr en 15 dögum frá því sátt eða nauðasamningur komst á.
    Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram regla til að taka af tvímæli um að kröfugerð í dómsmáli um ógildingu á sátt fyrirbyggi ekki aðför. Ekki verður séð að regla þessi þarfnist sérstakra skýringa.
    Reglum 6. gr. yrði beitt um erlendar sáttir og nauðasamninga, sem nytu aðfararhæfis hér á landi í skjóli 11. tölul. 1. mgr. 1. gr.

Um 7. gr.

    Í 5. og 6. gr. er ekki kveðið á um þörf sérstakra aðgerða af hálfu gerðarbeiðanda til undirbúnings því að krefjast aðfarar, ef aðfararheimild hans fellur undir nefndar reglur. Sú skipan mála er komin til af því, að slíkar aðfararheimildir hafa orðið til að undangenginni formlegri meðferð málefnisins á öðrum vettvangi, þar sem ýmist hefur verið þörf beinnar þátttöku gerðarþola eða honum hefur a.m.k. gefist kostur á að halda uppi andmælum gegn umkrafinni skyldu. Gerðarþola á jafnan að vera fullkunnugt um þau réttindi, sem gerðarbeiðandi vill fá fullnægt með aðför á grundvelli einhverrar þessara heimilda. Þessi viðhorf eiga hins vegar ekki með öllu við um þær aðfararheimildir, sem reglur 7. og 8. gr. taka til. Að vísu hefur gerðarþola í ýmsum þessum tilvikum gefist kostur á að hafa uppi athugasemdir við kröfu á fyrri stigum og í öðrum hefur hann sjálfur átt þátt að tilurð aðfararheimildar. Þrátt fyrir það er hætt við að réttur gerðarþola yrði ekki nægilega tryggur, ef gerðarbeiðanda yrði heimilað að krefjast aðfarar í þessum tilvikum án frekari aðdraganda. Af þessum sökum er kveðið á um það í 7. og 8. gr. að gerðarbeiðandi þurfi að beina áskorun til gerðarþola um að efna skuldbindingu sína samkvæmt aðfararheimildinni, áður en krefjast má fullnustu hennar með aðför. Áskorun sem þessi getur haft umtalsverða þýðingu sem áminning til gerðarþola og leitt þannig til að hann efni skuldbindingu sína án aðfarar. Áskorunin getur einnig orðið tilefni til að gerðarþoli komi mótmælum á framfæri gegn kröfu gerðarbeiðanda, eins og gert er ráð fyrir í niðurlagi 1. mgr. 14. gr., þannig að úrlausn gæti fengist um ágreining um kröfuna samkvæmt reglum 13. kafla.
    Í 7. gr. er að finna reglur um þörf sérstakrar greiðsluáskorunar til gerðarþola, áður en gerðarbeiðanda er heimilt að krefjast aðfarar á grundvelli heimilda skv. 5.–8. og 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. Sams konar greiðsluáskorunar er einnig þörf, ef gerðarbeiðandi styður heimild sína til aðfarar við ábyrgð gerðarþola á kröfu, sem 2. mgr. 3. gr. tekur til, og skiptir þá ekki máli hvort aðfararheimildin gagnvart aðalskuldara sé þess eðlis, að greiðsluáskorunar væri ekki þörf gagnvart honum. Þótt það sé ekki tekið fram berum orðum í 7. gr., er einnig ætlast til að farið sé með erlendar aðfararheimildir, sem lýsing 5.–8. eða 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. gæti átt við, á sama hátt og 7. gr. mælir fyrir um vegna íslenskra aðfararheimilda af þessum toga.
    Um efni greiðsluáskorunar eru ekki ítarleg fyrirmæli í 1. mgr. 7. gr. Ætlast verður þó til að í henni komi fram nægilega glögg lýsing á viðkomandi kröfu til að gerðarþola megi vera ljóst um hverja sé að ræða. Þá verður samkvæmt fyrirmælum nefnds ákvæðis að koma fram áskorun um greiðslu og aðvörun um að aðfarar verði krafist, ef áskoruninni verður ekki sinnt. Um efni þessarar orðsendingar að öðru leyti má vekja athygli á því, að gerðarbeiðandi getur um leið sinnt skyldu sinni skv. 21. gr. til að tilkynna gerðarþola um stað og stund væntanlegrar aðfarargerðar, ef hann hefur undirbúið hugsanlegar aðgerðir sínar nægilega á því stigi máls.
    Greiðsluáskorun að hætti 7. gr. verður ekki beint að gerðarþola fyrr en eftir gjalddaga viðkomandi kröfu og aðfarar verður ekki krafist til að fullnægja henni fyrr en að 15 dögum liðnum frá því greiðsluáskorun var komið á framfæri. Í 2. mgr. ákvæðisins eru nefndir þrír valkostir um það, hvernig birting áskorunar geti farið fram. Tiltekið er að senda megi áskorun með ábyrgðarbréfi eða símskeyti, eða að einn stefnuvottur geti birt hana. Sending áskorunarinnar í ábyrgðarpósti eða símskeyti nægir þó ekki út af fyrir sig, því í 2. mgr. 7. gr. er miðað við að umræddur 15 daga frestur byrji fyrst að líða, þegar áskorunin kemst í hendur gerðarþola eða einhvers, sem telst hæfur skv. VIII. kafla laga nr. 85/1936 til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd. Frestur ákvæðisins byrjar því fyrst að líða við viðtöku áskorunar, ekki við sendingu hennar. Hefur þetta í för með sér að gerðarbeiðandi verður að tryggja sér sönnur fyrir að áskorun hafi verið komið á framfæri með umræddum hætti, sem almennt yrði ekki gert nema ábyrgðarbréf eða símskeyti hafi verið borið út og honum verið endursend viðtökukvittun fyrir sendingunni. Má geta þess um þennan hátt á sendingu tilkynninga, að réttarfarsnefnd hefur fengið staðfest af hálfu Póst- og símamálastofnunarinnar að hún geti mætt þessum þörfum fyrir sitt leyti.
    Eins og áður var vikið að í athugasemdum við 3. gr., nægir gerðarbeiðanda að beina tilkynningum, þar á meðal greiðsluáskorun skv. 7. gr., að þeim, sem hann hyggst krefjast aðfarar hjá. Er honum því óskylt að beina tilkynningum eða greiðsluáskorun að samskuldurum gerðarþola, ef hann telur sig ekki þurfa að reyna aðför hjá þeim fyrir kröfu sinni.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. er sérregla um greiðsluáskorun til gerðarþola, ef um kröfu er að ræða um skatta eða önnur samsvarandi gjöld, sem njóta aðfararhæfis skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. Gagnstætt því, sem regla 7. gr. kveður á um, er hér lagt til að greiðsluáskorun verði almenn, þ.e. að hún verði birt með opinberri auglýsingu til allra þeirra í senn, sem ráðgert er að krefjast fjárnáms hjá fyrir gjaldaskuldum, án þess að þeir verði nafngreindir hver um sig.
    Til athugunar var við samningu frumvarpsins hvort rök væru fyrir sérreglu sem þessari varðandi innheimtu skattskulda. Sá háttur, sem mælt er fyrir um í 7. gr., er vissulega tryggari gagnvart gerðarþola. Hún á þó öðrum þræði rætur að rekja til þess viðhorfs, að nauðsyn beri til að gerðarþola sé kynnt krafa, áður en aðfarar verður krafist fyrir henni, og að hann eigi þess kost að koma fram mótmælum gegn henni. Um skattskuldir gegnir hins vegar nokkuð öðru máli. Að baki þeim býr að jafnaði álagning, sem kynnt hefur verið gjaldanda og honum hefur gefist kostur á að koma fram athugasemdum við, eftir atvikum með kæru gjaldákvörðunar. Í framkvæmd tíðkast einnig að senda ýmiss konar áminningar, ef gjaldfallnar skattskuldir greiðast ekki. Að þessu leyti þjóna álagning og hefðbundin vinnubrögð við innheimtu sama tilgangi og sérstök greiðsluáskorun skv. 7. gr. Af þessum sökum og með hliðsjón af þeim verulega fjölda aðfarargerða, sem krafist er vegna skulda sem þessara, þótti ekki ástæða til að gera sömu kröfur í þessum tilvikum og þeim, sem regla 7. gr. tekur til. Hér verður einnig að líta til þess, að samkvæmt núgildandi lögum er ekki þörf annarra undirbúningsathafna fyrir lögtaksgerðir vegna opinberra gjalda en uppkvaðningar svonefnds almenns lögtaksúrskurðar og opinberrar birtingar hans, meðan lög áskilja að svonefndur sérstakur lögtaksúrskurður verði kveðinn upp hverju sinni um flestar aðrar lögtakshæfar kröfur og að sá úrskurður verði birtur fyrir hverjum skuldara um sig. Að þessu leyti eru reglur 7. og 8. gr. í reynd áþekkar núgildandi reglum lögtakslaga um aðdraganda aðfarargerða fyrir mismunandi tegundum krafna.
    Með 8. gr. er lagt til að almennir lögtaksúrskurðir dómstóla leggist af sem undanfari aðfarargerða til fullnustu á skattkröfum. Þeir úrskurðir hafa í reynd engum tilgangi þjónað, enda fer engin skoðun fram á réttmæti krafna í tengslum við uppkvaðningu þeirra. Þess í stað er ráðgert að innheimtumaður birti í dagblöðum eða öðrum fjölmiðlum auglýsingu, sem hefði að geyma almenna áskorun til gjaldenda um að standa skil á gjaldföllnum skuldum og aðvörun um að aðfarar verði krafist án frekari fyrirvara að öðrum kosti. Ráðgert er að auglýsing sem þessi hafi einungis þýðingu varðandi þau gjöld, sem eru fallin í gjalddaga við birtingu hennar. Aðfarar mætti síðan fyrst krefjast að liðnum 15 dögum frá birtingu auglýsingarinnar. Þá er áskilið í niðurlagi 8. gr., að það beri að tiltaka í auglýsingunni hverjar þær tegundir gjalda eru, sem hún varðar, og á hverju tímabili þau hafa fallið í gjalddaga.

Um 9. gr.

    Í þessu ákvæði kemur sú regla fram, að réttur til aðfarar fylgi kröfum frá þeim tímamörkum, sem mælt er fyrir um í 5.–8. gr., og þar til þær hafa fallið niður fyrir fyrningu. Regla þessi felur ekki í sér efnislega breytingu frá núgildandi lögum nema að tvennu leyti. Annars vegar felst í henni að felldur er niður sérstakur fyrningartími á lögtaksrétti, en skv. 2. gr. lögtakslaga glatast aðfararhæfi lögtakshæfra krafna á tveimur árum, án tillits til þess, á hversu löngum tíma kröfurnar sjálfar fyrnast. Þessi sérregla styðst ekki orðið við veigamikil rök, enda getur hún reynst skuldara óhagstæð, því kröfueigandi fer á mis við réttindi sín ef hann hefst ekki handa um aðför innan umrædds frests, hvort sem hann hefði verið tilleiðanlegur til að sýna lengri biðlund eða ekki. Umrædd tillaga um breytingu felur þannig í sér að aðfarar megi krefjast fyrir lögtakshæfum kröfum fram að því að þær falla sjálfar niður fyrir fyrningu samkvæmt almennum reglum. Hins vegar felst sú efnisbreyting í fyrirmælum 9. gr., að gerðarbeiðanda yrði óþarft að endurtaka birtingu áskorana til gerðarþola, þótt einhver tími liði frá því krafa varð aðfararhæf og þar til beiðst er aðfarar fyrir henni. Samkvæmt 9. gr. aðfararlaga er slík endurtekin birting nú skilyrði fyrir aðför, ef lengri tími en eitt ár líður frá því aðför gat farið fram.
    Í niðurlagi 9. gr. kemur fram sérstök regla, sem heimilar að aðför fari fram fyrir kröfu, þótt fyrningartími hennar sé liðinn, ef gerðarþoli mætir sjálfur við gerð og lýsir yfir að hann beri ekki fyrningu hennar fyrir sig. Eftir almennum reglum er skuldara það í sjálfsvald sett. hvort hann vilji víkjast undan kröfu með því að halda fram fyrningu hennar. Unnt er að fá dóm fyrir kröfu, þótt fyrningartími hennar sé liðinn, ef skuldari mætir í dómsmáli og heldur ekki fyrningu fram. Hér er gert ráð fyrir að sams konar regla gildi um aðför, þannig að hún geti náð fram að ganga án tillits til fyrningartíma. Þetta er hins vegar háð því skilyrði að gerðarþoli lýsi því gagngert yfir, eftir atvikum að fengnum leiðbeiningum sýslumanns við aðfarargerð, að hann verjist ekki kröfuna á grundvelli fyrningar. Fáist slík yfirlýsing ekki við gerðina, yrði ekki frekar úr henni. Ef fyrningartími væri liðinn vegna kröfu, sem leggja þyrfti fyrir héraðsdóm skv. 11. gr., væri möguleiki frekari aðgerða við aðför með sama hætti háður því, að gerðarþoli mætti fyrir dóm og léti uppi þá yfirlýsingu, sem fjallað er um í niðurlagi 9. gr.

Um 10. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um efni aðfararbeiðni og þau gögn, sem henni þurfa að fylgja. Í upphafi 1. mgr. þess kemur fram það fortakslausa skilyrði, að beiðnin þurfi að vera skrifleg. Í þessu felst afnám sérstakrar heimildar fyrir munnlegri aðfararbeiðni í 2. mgr. 3. gr. aðfararlaga, en sú heimild hefur ekki orðið raunhæfa þýðingu vegna úreltrar miðunar hennar við hámarksfjárhæð, sem krefjast má aðfarar munnlega fyrir. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því, að engin undantekning er gerð frá þessu skilyrði, þótt um aðför sé að ræða til fullnustu skattkröfu, sem sami sýslumaður fer með innheimtu á og framkvæmir aðför fyrir.
    Í 1. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um að skýrar upplýsingar þurfi að koma fram í aðfararbeiðni um málsaðila og um þá heimild, sem hún styðst við. Nákvæmni tilgreiningar síðastnefnds atriðis í aðfararbeiðni yrði háð atvikum hverju sinni, eftir því hvers konar heimild býr að baki henni. Þótt ekki yrði þörf langrar útlistun um þetta í beiðni, sem styðst við dómsúrlausn, er ljóst að ítarlegri frásögn yrði að koma fram, ef krafist yrði til dæmis aðfarar á grundvelli skuldabréfs. Meginatriðið í þessu sambandi er að efni beiðninnar sem slíkt gefi nægjanlega til kynna hver sú krafa er, sem um er að ræða. Þá kemur fram í 1. mgr. 10. gr. að það verði að tiltaka hvers krafist sé með aðfarargerð. Þörf væri nokkuð nákvæmrar kröfugerðar, ef krafist yrði aðfarar til fullnustu annarri skyldu en til peningagreiðslu. Ef krafist yrði fjárnáms, yrði ekki margra orða þörf um þá kröfugerð sem slíka, en hins vegar kæmi þá til kasta lokamálsliðar 1. mgr. 10. gr., þar sem áskilið er að sundurliða verði nákvæmlega kröfufjárhæð, ef um fjárnám er að ræða. Ætlast er til með þessum fyrirmælum að fram komi í aðfararbeiðni fullkominn útreikningur skuldafjárhæðar miðað við þann tíma, sem beiðni er gerð, þar á meðal á vöxtum og kostnaði.
    Í síðari málsgrein 10. gr. koma fram reglur um fylgigögn með aðfararbeiðni. Er þar áskilið með sama hætti og í 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga að heimildarskjöl verði að fylgja beiðninni, t.d. endurrit dóms, árituð áskorunarstefna o.s.frv. Þá er einnig ráðgert að gerðarbeiðandi þurfi að sýna fram á að hann hafi sinnt nauðsynlegum tilkynningum skv. 7. eða 8. gr., ef því er að skipta. Yrði þetta gert með framvísun gagna um viðtöku sérstakra tilkynninga, sbr. 7. gr., eða með eintaki auglýsingar, sbr. 8. gr. Loks er mælt fyrir um það í 2. mgr. 10. gr., að ef aðfarar er krafist á grundvelli skuldabréfs, víxils eða tékka, skuli frumrit slíkra skjala fylgja beiðninni. Er þetta nauðsynlegt vegna heimilda, sem fylgt geta handhöfn viðskiptabréfa samkvæmt almennum reglum.

Um 11. gr.

    Í áðurgreindum almennum athugasemdum með frumvarpinu kom fram, þegar fjallað var um forsendur fyrir að fela sýslumönnum framkvæmd aðfarargerða sem stjórnvöldum, að frumvarpið byggir á þeirri meginreglu að ákvörðun um hvort aðför fari fram fyrir kröfu verði almennt að vera tekin af dómstól, meðan eftirfarandi framkvæmd gerðarinnar verði í höndum stjórnvalds. Þær heimildir, sem 1. mgr. 1. gr. kveður á um að fullnægja megi með aðför, eru af ýmsum uppruna. Sumar þeirra eru beinlínis komnar til fyrir tilverknað dómstóla, t.d. dómar, úrskurðir og áritaðar áskorunarstefnur. Aðrar eiga rætur að rekja til óbeinna afskipta dómstóla, t.d. réttarsáttir og nauðasamningar. Enn aðrar eru hins vegar því marki brenndar, að engin dómsmeðferð hefur átt sér stað, áður en aðfararbeiðni er gerð. Á þetta til dæmis við um aðfararheimildir, sem tengjast athöfnum yfirvalda, og víxla, tékka og skuldabréf. Að því leyti, sem einstakar tegundir aðfararheimilda hafa hlotið meðferð dómstóla í einni eða annarri mynd, áður en aðfararbeiðni verður gerð, er óþarft gagnvart áðurgreindri meginreglu frumvarpsins að sérstök könnun dómstóla eigi sér aftur stað á kröfu, áður en aðför getur farið fram. Dómar kveða á um hverjar þær skyldur dómþola séu, sem fullnægja má með aðför, svo dæmi sé nefnt, og gæti síðari skoðun hliðsetts dómstóls engu breytt um þá niðurstöðu. Hins vegar gegnir öðru máli um þær kröfur, sem enga undanfarandi skoðun hafa hlotið fyrir dómstólum og sem áður eru nefndar.
    Framangreind atriði búa að baki þeirri skipan frumvarpsins, að í vissum tilvikum er kveðið á um nauðsyn þess að aðfararbeiðni sé í byrjun beint til héraðsdómstóls, áður en farið er með hana til sýslumanns til framkvæmdar gerðarinnar, meðan í öðrum tilvikum er gert ráð fyrir að beiðnum sé komið beint á framfæri við sýslumann. Þau tilvik, þar sem frumvarpið áskilur að aðfararbeiðni hljóti undanfarandi könnun héraðsdómstóls, áður en henni verður beint til sýslumanns, eru talin í 1. mgr. 11. gr. Sú talning er tæmandi, enda mælt svo fyrir í 1. mgr. 16. gr. að í öðrum tilvikum megi koma beiðni á framfæri við sýslumann án umræddrar dómsmeðferðar.
    Aðfararheimildir að baki aðfararbeiðnum, sem 1. mgr. 11. gr. áskilur að beint sé í byrjun til héraðsdóms, eiga það sameinkenni að dómstólar hafa að jafnaði ekki áður fengið hlutaðeigandi kröfur til athugunar. Í ákvæðinu eru nánar tiltekið taldar allar aðfararheimildir, sem svo stendur á um, nema kröfur á grundvelli sátta, sem komist hafa á fyrir yfirvöldum, og kröfur um skatta og önnur samsvarandi gjöld. Fyrri undantekningin er byggð á því viðhorfi, að sátt komist ekki á fyrir yfirvaldi fremur en fyrir dómi nema með þátttöku þess, sem skylda hvílir á samkvæmt henni. Óverulegur eðlismunur er á því umhverfi, sem réttarsáttir og yfirvaldssáttir eru gerðar við. Sýnist af þeim sökum ástæðulaust að gera greinarmun að þessu leyti á þessum tveimur tegundum sátta, enda ekki áskilið í 1. mgr. 11. gr. að aðfararbeiðni á grundvelli réttarsáttar þarfnist upphafsathugunar dómstóla. Síðari undantekningin, sem snýr að skattkröfum, byggist einkum á þeirri staðreynd, að þær kröfur eiga sér að jafnaði vandaðan aðdraganda innan stjórnkerfisins. Til stuðnings aðfararbeiðni við þessar aðstæður yrði almennt ekki unnt að láta önnur gögn af hendi en einhliða yfirlit innheimtumanns um greiðslustöðu gerðarþola. Slík yfirlit gefa tæpast til kynna hvort gjaldandi kunni að telja sig eiga varnir gegn kröfunni, enda byggjast varnir við þessar aðstæður í framkvæmd að öðru jöfnu á ágreiningi um skýringu laga, sem álagning eða ákvörðun gjalda styðst við. Sérstakar formkröfur eru heldur ekki gerðar að lögum um skilríki fyrir skattkröfum. Gæti frumathugun héraðsdómstóls á aðfararbeiðni við þessar aðstæður því í reynd hvorki tekið til sérstakra efnisatriða varðandi kröfuna né til þess, hvort formi hennar sé áfátt. Af þessum sökum verður ekki séð að umrædd frumathugun geti þjónað þeim hagsmunum, þegar skattkröfur eiga í hlut, að stuðla að vernd réttinda gerðarþola líkt og í þeim tilvikum, sem reglur 1. mgr. 11. gr. taka til.
    Sú upphafsmeðferð héraðsdóms, sem regla 1. mgr. 11. gr. kveður á um vegna tiltekinna aðfararheimilda, er næsta einföld og viðurhlutalítil, eins og nánar er lýst í athugasemdum við 12.–15. gr. frumvarpsins. Þessi meðferð á að öðru jöfnu að fara fram án þess að gerðarþola sé gert viðvart til að gæta hagsmuna sinna og beinist í höfuðatriðum að könnun á formi kröfu og því, hvort telja megi veruleg líkindi á grundvelli fyrirliggjandi skjala gerðarbeiðanda fyrir að krafa sé rétt. Hún felur á engan hátt í sér endanlega afstöðu dómstóla til réttmætis kröfu gerðarbeiðanda, enda gert ráð fyrir að gerðarþoli geti á marga vegu fengið úrlausn andmæla sinna gegn henni á síðari stigum.
    Í 2. mgr. 11. gr. koma fram fyrirmæli um það, til hvers héraðsdóms beina megi aðfararbeiðni þegar sú meðferð á við. Er kveðið á um að það skuli vera héraðsdómur á varnarþingi, þar sem heimilt væri að höfða einkamál um kröfuna. Regla þessi felur því í sér tilvísun til almennra varnarþingsreglna VII. kafla laga nr. 85/1936 og eftir atvikum sérstakra lagafyrirmæla um varnarþing vegna einstakra málaflokka. Ef fleira en eitt varnarþing kæmi til álita samkvæmt nefndum lagareglum, ætti gerðarbeiðandi val um það, hvert hann beinir beiðni sinni. Rétt er að geta þess í þessu sambandi, að unnt yrði að beita reglu 83. gr. laga nr. 85/1936 vegna aðfararbeiðni, líkt og öðrum almennum varnarþingsreglum, en hún veitir stefnanda einkamáls, sem beinir málsókn að mönnum búsettum á mismunandi varnarþingum, heimild til að velja á varnarþingi hvers hinna stefndu hann höfðar mál. Beiting þessarar reglu um aðfararbeiðni yrði hins vegar háð því, að gætt hafi verið undirbúningsaðgerða skv. 7. gr. gagnvart þeim skuldara, sem á varnarþing þar sem beiðni er afhent héraðsdómstól, og að krafa um aðför beinist að honum meðal annarra.
    Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. á að senda héraðsdómi aðfararbeiðni og fylgigögn hennar í tvíriti, ef fyrirmæli 1.–6. tölul. 1. mgr. eiga við um aðfararheimild. Eins og nánar kemur fram í 15. gr., er gert ráð fyrir að héraðsdómur varðveiti annað eintak beiðninnar og fylgigagna hennar, ef aðför er heimiluð, en að gerðarbeiðanda verði endursend gögnin að öðru leyti með viðeigandi áritunum.
    Í 4. mgr. 11. gr. kemur fram regla, sem heimilar gerðarbeiðanda að beina aðfararbeiðni til héraðsdómstóls, þótt það sé óskylt skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. 11. gr. Notkun þessarar heimildar hefði tæpast raunhæfa þýðingu við aðrar aðstæður en þegar gerðarbeiðanda er kunnugt um að gerðarþoli telji sig hafa varnir fram að færa gegn kröfu. Ef svo væri, gæti gerðarbeiðandi óskað eftir að héraðsdómari boði gerðarþola til þinghalds um beiðnina. sbr. 1. mgr. 14. gr., þar sem kostur gæfist á að fá leyst úr ágreiningi með skjótum hætti þegar í upphafi með málsmeðferð skv. 13. kafla frumvarpsins.

Um 12.–15. gr.

    Reglur þessara ákvæða fjalla um meðferð héraðsdómara á aðfararbeiðnum, sem berast samkvæmt fyrirmælum 11. gr. Hentugast þykir að lýsa í stuttu máli inntaki þessara reglna sameiginlega.
    Í fyrri málsgrein 12. gr. er kveðið á um að héraðsdómari eigi að taka aðfararbeiðni til athugunar svo fljótt sem verða má, eftir að hún berst honum. Með ákvæði þessu er lögð áhersla á að dómsmeðferð aðfararbeiðna taki almennt mjög skamman tíma, enda ætti að vera unnt að afgreiða þær nánast jafnharðan. Þær reglur 12.–15. gr., sem á eftir koma, lýsa því síðan nánar hvernig héraðsdómari eigi að standa að meðferð aðfararbeiðna.
    Í 1. mgr. 14. gr. kemur fram regla, sem hefur þýðingu við upphaf meðferð héraðsdómara, en þar er kveðið á um að meðferð þessi eigi að meginreglu að fara fram án þess að gerðarþola gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna. Er þetta byggt á því að dómskönnun á þessu stigi beinist fyrst og fremst að formi hlutaðeigandi kröfu en ekki að efnislegu réttmæti hennar, eins og það yrði metið að framkomnum mótmælum gerðarþola. Þetta er afleiðing af því, að kröfur, sem veitt er aðfararhæfi án undangengins dóms eða réttarsáttar, eru almennt álitnar að lögum svo traustar, að ætla má að fyrra bragði að rökstudd mótmæli komi ekki fram gegn efni þeirra. Frá umræddri meginreglu 1. mgr. 14. gr. eru þó þrjár undantekningar, þar sem mælt er fyrir um að boða þurfi gerðarþola til þinghalds um framkomna aðfararbeiðni og fara síðan með hana eftir sérreglum 13. kafla. Í fyrsta lagi er slík undantekning gerð, ef krafist er útburðar- eða innsetningargerðar án undanfarandi dóms eða réttarsáttar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi geti óskað sérstaklega eftir boðun gerðarþola, sem einkum yrði raunhæft, ef hann teldi líklegt að til ágreinings muni hvort eð er koma um kröfuna. Í þriðja lagi er mælt fyrir um skyldu til að boða gerðarþola til þinghalds um aðfararbeiðni, ef hann hefur áður tilkynnt héraðsdómara að hann vilji andmæla kröfu gerðarbeiðanda. Þessi síðastnefndi réttur gerðarþola er bundinn við þau tilvik, þar sem héraðsdómur fær aðfararbeiðni til meðferðar skv. 1. eða 3. mgr. 11. gr. Ætla má að á þetta geti fyrst og fremst reynt í framhaldi af því að gerðarþola berist greiðsluáskorun frá gerðarbeiðanda skv. 7. gr. og búi þannig yfir vitneskju um væntanlega meðferð héraðsdóms á aðfararbeiðni. Hér er gengið út frá að gerðarþoli geti komið tilkynningu sinni á framfæri, þótt aðfararbeiðni hafi ekki enn borist héraðsdómara. Ef einhver þessara þriggja undantekninga á við, fer frekari meðferð aðfararbeiðni sem áður segir eftir sérstökum reglum 13. kafla, sbr. 2. mgr. 14. gr., og koma því reglur 12.–15. gr. ekki til nánari skoðunar, þegar svo stendur á.
    Ef ekki ber að boða gerðarþola fyrir dóm vegna aðfararbeiðni, ráðgera reglur 12. og 13. gr. að afdrif málefnis geti orðið með einhverju af þrennu móti. Í fyrsta lagi kemur fram í 2. mgr. 12. gr. að ef héraðsdómari telur skilyrðum aðfarar fullnægt samkvæmt framkomnum skjölum, þá áritar hann aðfararbeiðni um að aðför megi fara fram samkvæmt henni. Í öðru lagi tekur regla 2. mgr. 13. gr. til þess, ef héraðsdómari telur aðför mega fara að nokkru fram samkvæmt aðfararbeiðni, en ekki með öllu. Í slíku tilviki yrði kveðið á um það í áritun á beiðninni, að hverju leyti aðför sé heimil. Í þriðja lagi gerir 1. mgr. 13. gr. ráð fyrir þeim möguleika, að héraðsdómari telji skilyrðum fyrir aðför ófullnægt hvað kröfu gerðarbeiðanda varðar í heild. Í því tilviki yrði áritun þess efnis færð á beiðnina. Í 3. mgr. 13. gr. er héraðsdómara veitt heimild til að gefa gerðarbeiðanda kost á að bæta úr annmörkum, sem leitt gætu til höfnunar aðfararbeiðni að öllu leyti eða einhverju, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. Nærtækt er að ætla að heimild þessi yrði fyrst og fremst nýtt, ef annmarkar eru óverulegir og að fyrirsjáanlega mætti bæta úr þeim með einföldum og skjótum aðgerðum.
    Ef farið er með aðfararbeiðni samkvæmt þeim reglum, sem nú hefur verið lýst og varða aðstæður, þar sem gerðarþoli er ekki boðaður til þinghalds um hana, er kveðið á um það í 1. mgr. 15. gr. að héraðsdómari þurfi ekki að skrásetja eða bóka annað um meðferð beiðninnar en með færslu í málaskrá. Frekari skráningar ætti ekki að vera þörf, enda mæli fyrir um það í 2. mgr. 15. gr. að héraðsdómari varðveiti eintak áritaðrar beiðni og fylgigagna hennar, ef aðför hefur verið heimiluð að öllu leyti eða einhverju. Slík gögn og færslur í málaskrá verða að teljast nægilegar til að unnt yrði að kanna málefni frekar á síðari stigum, ef ástæða væri til.
    Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. á héraðsdómari að koma áritaðri aðfararbeiðni og frumritum fylgigagna hennar til gerðarbeiðanda að meðferð sinni lokinni. Er málum skipað á þennan hátt til að gerðarbeiðandi geti í framhaldi komið sama eintaki beiðninnar og frumritum fylgigagna á framfæri við sýslumann til framkvæmdar á sjálfri aðförinni, ef beiðnin hefur verið árituð um að gerðin megi fara fram.
    Í 4. mgr. 15. gr. kemur sú regla fram, að héraðsdómari sé óbundinn af þeirri afstöðu í áritun á aðfararbeiðni, að gerð megi fara fram, ef ágreiningur rís síðar um það efni. Þessi regla er nánast til áréttingar, þar sem almennar réttarfarsreglur um bindandi áhrif ákvarðana dómara leiða til sömu niðurstöðu.


Um 16. gr.

    Í upphafi 1. mgr. þessa ákvæðis koma fram fyrirmæli um hvenær aðfararbeiðni verður beint til sýslumanns. Um þetta atriði, sem einkum snýr að nauðsyn upphafsmeðferðar héraðsdómara á aðfararbeiðni, má að mestu vísa til athugasemda við 11. gr. Í 1. mgr. 16. gr. er byggt á því að aðfararbeiðni berist sýslumanni annaðhvort með áritun héraðsdómara um heimild til aðfarar, ef fyrirmæli 1. mgr. 11. gr. eiga við, eða að hún komi í hendur hans án slíkrar áritunar, ef undanfarandi dómsmeðferðar er ekki þörf samkvæmt gagnályktun frá nefndu ákvæði.
    Meginefni 1. mgr. 16. gr. snýr hins vegar að því, í hverju umdæmi gerðarbeiðandi megi leita til sýslumanns með gerðarbeiðni til framkvæmdar aðfarar. Aðalreglan í þeim efnum er að þetta skuli gert í því umdæmi, sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing. Ákvörðun þess ræðst af sömu viðhorfum og gilda um heimilisvarnarþing við meðferð einkamála fyrir dómi, sbr. 73. gr. laga nr. 85/1936. Þessari aðalreglu er ætlað að stuðla að því að aðför verði framkvæmd í umdæmi, sem að jafnaði má telja mest líkindi fyrir að gerðarþoli sé staddur í, enda er, eins og getið er hér áður í almennum athugasemdum, keppikefli af mörgum sökum að til hans náist við framkvæmd gerðar.
    Frá framangreindri aðalreglu 1. mgr. 16. gr. eru gerðar undantekningar, sem taldar eru í 1.–5. tölul. 1. mgr. Notkun þessara undantekningarheimilda kæmi til að frumkvæði gerðarbeiðanda, sem bæri skv. 2. mgr. 16. gr. að gera sérstaka grein fyrir því í aðfararbeiðni, af hverjum ástæðum hann vilji víkja frá meginreglunni um heimilisvarnarþing. Sýslumanni er falið í 17. gr. að meta hvort unnt sé að verða við óskum gerðarbeiðanda í þessum efnum, og gæti hann ýmist synjað um aðför eða framsent beiðni í annað umdæmi með samþykki gerðarbeiðanda, ef hann fellst ekki á viðhorf gerðarbeiðanda. Einstakar undantekningarheimildir í 2.–5. tölul. 1. mgr. þykja skýra sig nægilega sjálfar, en rétt er að víkja nokkuð að efni 1. tölul. Þar er mælt fyrir um heimild til að beina aðfararbeiðni til sýslumanns í því umdæmi, þar sem gerðarbeiðandi telur að rökstudd ástæða sé til að ætla að gerðarþoli verði staddur þegar að framkvæmd gerðar kemur. Þessi heimild gæti einkum átt við ef gerðarþoli dvelst um einhvern tíma utan heimilisvarnarþings, til dæmis vegna atvinnu, en fleiri áþekk tilvik gætu fallið hér undir. Ástæða er til að vara við of rúmri notkun þessarar heimildar, ef frumvarp þetta verður að lögum, enda hætt við að hún gæti raskað þeim hagsmunum, sem reglum 19. gr. er ætlað að tryggja.


Um 17. gr.

    Í 17. gr. er fjallað um frumkönnun sýslumanns á aðfararbeiðni, sem ætlast er til að fari fram þegar eftir að hún hefur borist honum. Í 1. mgr. er mælt fyrir um þau atriði, sem könnun þessi á að taka til, en í 2. og 3. mgr. eru reglur um viðbrögð sýslumanns, ef hann telur á grundvelli könnunar sinnar að ágallar séu á aðfararbeiðni eða málstað gerðarbeiðanda að öðru leyti.
    Helstu athugunarefni sýslumanns við frumkönnun eru talin í upphafi 1. mgr. 17. gr., þar sem segir að hann kanni hvort beiðni og aðfararheimild séu í lögmætu formi. Könnun sýslumanns beinist hér að formi, ekki að efnislegu réttmæti krafna gerðarbeiðanda. Í könnun þessari yrði sýslumaður enn fremur bundinn af fyrri meðferð héraðsdóms á aðfararbeiðni, þannig að atriði, sem komið hafa til skoðunar við þá meðferð, þarfnast ekki frekari athugunar af hendi sýslumanns. Ef aðfararbeiðni hefur hins vegar ekki sætt undanfarandi meðferð héraðsdóms, yrði athugun sýslumanns einkum að beinast að hvort heimild sé fyrir aðför í viðkomandi tilviki á grundvelli reglna 1. mgr. 1. gr., hvort skilríki fyrir aðfararheimildinni séu í réttum búningi og hvort aðfararbeiðni fullnægi reglum 10. gr. Þá eru einnig talin tvö atriði enn í 1. mgr. 17. gr., sem sýslumanni ber að gæta að á þessu stigi, en þau eru annars vegar hvort beiðni hafi komið fram í réttu umdæmi og hins vegar, ef um kröfu er að ræða, sem 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. tekur til, hvort almenn greiðsluáskorun skv. 8. gr. hafi verið réttilega birt og hvort hún hafi tekið til þeirra skattskulda, sem aðfarar er krafist fyrir.
    Ef aðfararbeiðni stenst könnun þeirra atriða, sem hér á undan voru talin, er mælt svo fyrir í niðurlagi 1. mgr. 17. gr. að sýslumaður synji ekki af sjálfsdáðum um aðför, nema aðfararheimild verði ekki fullnægt samkvæmt efni sínu. Hér eru tvö atriði, sem rétt er að víkja nánar að. Annars vegar felst í þessum ummælum að sýslumaður geti synjað um aðför, ef hann telur ómöguleika eða önnur hliðstæð atvik fyrirbyggja að hægt sé að fullnægja kröfu gerðarbeiðanda eftir efni hennar. Þessa reglu verður að skoða í ljósi þess, að ómöguleiki getur almennt ekki leyst gerðarþola undan skyldu til greiðslu peningaskuldar, auk þess að reglur 11. kafla mæla fyrir um ýmis úrræði, ef gerðarþoli fæst ekki til að veita atbeina til að skyldu til annars en peningagreiðslu verði fullnægt. Hindranir í þessum efnum eða fyrirsjáanlegar hindranir gætu ekki talist til ómöguleika, sem gæfu tilefni til að sýslumaður synji um aðför af sjálfsdáðum. Hins vegar felst í áðurröktum ummælum að sýslumaður megi ekki neita um að aðför verði reynd, ef áðurtöldum formskilyrðum er fullnægt. Skiptir hér ekki máli hvort sýslumaður telji efnislega annmarka geta verið á málstað gerðarbeiðanda eða álíti fyrirsjáanlegt að aðrar hindranir komi upp og girði fyrir aðför. Slíkir annmarkar gætu einungis komið til athugunar, ef tilefni gæfist til við framkvæmd gerðarinnar, en þá gæti sýslumaður til dæmis stöðvað frekari framkvæmd gerðarinnar samkvæmt kröfu gerðarþola á grundvelli 2. mgr. 27. gr.
    Í 2. mgr. 17. gr. er kveðið á um að sýslumaður eigi að endursenda gerðarbeiðanda aðfararbeiðni, ef hann telur hana ekki standast áðurnefnda könnun skv. 1. mgr. 17. gr. Er tekið fram í ákvæðinu að sýslumaður verði að láta rökstuðning fylgja til gerðarbeiðanda fyrir ákvörðun sinni. Er þetta lagt til í ljósi þess að gerðarbeiðandi gæti borið ákvörðun sem þessa undir héraðsdómara samkvæmt reglum 14. kafla og því eðlilegt að gerðarbeiðanda sé gert ljóst af hverjum sökum synjað hefur verið um aðför.
    Í 3. mgr. 17. gr. er lögð til sérstök heimild til að sýslumaður framsendi gerðarbeiðni til annars umdæmis, ef hann telur nærtækara að aðför verði fremur reynd þar. Um þessa reglu ber í fyrsta lagi að geta þess, að ákvæðið tiltekur að það varði aðeins tilvik, þar sem heimilt væri samkvæmt reglum 1. mgr. 16. gr: að framkvæma aðför á þeim stað, sem beiðni hefur borist. Ef engin stoð er í 1. mgr. 16. gr. fyrir að reyna aðför, þar sem beiðni barst, ber að endursenda hana gerðarbeiðanda skv. 2. mgr. 17. gr. Í öðru lagi er regla þessi skilyrt á þann hátt, að gerðarbeiðandi verður að samþykkja það viðhorf sýslumanns, að nærtækara sé að aðför verði fremur reynd í öðru umdæmi. Fáist slíkt samþykki ekki, verður ekki vikist undan að reyna aðför, þótt það kunni síðar að kosta þær aðgerðir, sem mælt er fyrir um í 35. gr.

Um 18. gr.

    Í 18. gr. koma einkum fram reglur um færslu sýslumanna á upplýsingum um aðfararbeiðnir í sérstakar málaskrár. Er ætlast til að færsla þessi eigi sér stað þegar að lokinni þeirri könnun, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 17. gr., ef beiðni hefur ekki verið endursend gerðarbeiðanda eða framsend milli umdæma með samþykki hans. Mælt er fyrir um að færa skuli beiðnir í skrár sem þessar í áframhaldandi númeraröð, eftir því sem þær berast. Með þeirri reglu er leitast við að tryggja vissu fyrir þeirri innbyrðis stöðu beiðna á hendur sama gerðarþola, sem ákvæði 1. mgr. 19. gr. tekur til. Þá er einnig kveðið á um að gerðarbeiðnir skuli auðkenndar með færslunúmeri í málaskrá.
    Ráðgert er í 18. gr. að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um umræddar málaskrár sýslumanna. Er sú leið fremur valin en að leggja til lögfestingu nánari reglna um þessi efni til að auðvelda aðlögun þeirra að hugsanlegri tækniþróun við skráningu upplýsinga.
    Í 4. málsl. 18. gr. kemur fram sérregla um færslu gerðarbeiðni í málaskrá. ef hún berst sýslumanni áður en aðfararfrestur hennar skv. 5., 6. eða 8. gr. er liðinn. Er þar gert ráð fyrir að slík beiðni verði varðveitt fram yfir lok aðfararfrests og að færsla um hana í málaskrá eigi sér þá fyrst stað. Tengist þessi tilhögun álitaefnum um innbyrðis stöðu gerðarbeiðna skv. 1. mgr. 19. gr., sem málaskrám er meðal annars ætlað að veita upplýsingar um, en áhrif móttöku gerðarbeiðni í því tilliti eru óhjákvæmilega háð því að aðfararfresti vegna hennar sé lokið.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. koma fram reglur sem kveða á um það, í hverri röð aðfararbeiðnir á hendur sama gerðarþola verði teknar fyrir, ef fleiri en ein liggja fyrir án þess að aðför hafi verið framkvæmd á grundvelli einhverrar þeirra. Reglum þessum er ætlað að koma í stað ákvæða 22 og 23 í 22. kapítula I. bókar norskra laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687.
    Í 1. mgr. 19. gr. kemur fram að ef tvær eða fleiri beiðnir hafa borist um aðför vegna samkynja skyldu gerðarþola, þá beri fyrst að sinna þeirri aðfararbeiðni, sem fyrr eða fyrst barst. Regla þessi leiðir því til þess, að móttaka aðfararbeiðni hefur þau áhrif í för með sér að hlutaðeigandi gerðarbeiðanda er tryggður réttur til að leitað verði fullnustu á kröfu hans, áður en aðför verður reynd fyrir síðar kominni beiðni. Á þessa reglu getur aðeins reynt við þær aðstæður, að beiðnir varði báðar eða allar sams konar skyldu gerðarþolans, eins og fram kemur í 1. mgr. 19. gr. Ef ein beiðni væri þannig um fjárnámsgerð, en önnur um útburðargerð á munum gerðarþola úr leiguhúsnæði, yrði ekki um samkynja skyldu gerðarþola að ræða í þessari merkingu og þyrfti því ekki að sinna beiðnum þessum í þeirri röð, sem sýslumaður tók við þeim. Helst gæti reynt á reglu 1. mgr. 19. gr. varðandi beiðnir um fjárnámsgerðir, þar sem krafist er fullnustu á skyldum gerðarþola til peningagreiðslna. Óeðlilegt væri að veita þeim gerðarbeiðanda, sem fyrst kæmi beiðni sinni á framfæri, óskilyrtan rétt umfram síðari gerðarbeiðendur, enda gæti sú staða leitt til tafa og réttarspjalla fyrir hina síðarnefndu, ef fyrsti gerðarbeiðandi léti hjá líða að fylgja beiðni sinni eftir. Er það skilyrði því sett fyrir réttarstöðu fyrsta gerðarbeiðanda, að hann þurfi að halda fram rétti sínum án ástæðulausrar tafar. Hann verður með öðrum orðum að fylgja beiðni sinni eftir, með því að óska eftir ákvörðun sýslumanns á tíma til framkvæmdar gerðarinnar eða með því að nýta sér tíma, sem sýslumaður gefur honum kost á í því skyni, að því viðlögðu að síðar móttekinni aðfararbeiðni verði sinnt á undan hans.
    Þótt þess sé ekki berum orðum getið í 1. mgr. 19. gr., hvílir réttarstaða fyrsta gerðarbeiðanda á þeirri augljósu forsendu, að engir annmarkar hafi verið á beiðni hans, þegar hún var móttekin, sem gætu hindrað að aðför yrði þegar framkvæmd á grundvelli hennar. Beiðni, sem sýslumaður synjar að framkvæma aðför eftir skv. 2. mgr. 17. gr., nyti þannig ekki verndar gagnvart síðari gerðarbeiðendum eftir reglu 1. mgr. 19. gr., þótt síðar yrði bætt úr göllum á henni. Beiðni nyti heldur ekki slíkrar verndar, ef aðfararfrestur vegna kröfunnar væri ekki úti við móttöku hennar, ef ný beiðni bærist innan aðfararfrestsins, sem engir annmarkar væru á. Nyti því gerðarbeiðandi ekki stöðu á grundvelli beiðni sinnar nema frá þeim tíma talið, sem aðfararfresti væri lokið.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. kemur fram regla, sem mælir fyrir um stöðu gerðarbeiðenda, ef atvikum yrði þannig háttað að beiðnir þeirra bærust sýslumanni samtímis. Samkvæmt reglu þessari ber að telja báðar eða allar beiðnirnar standa jafnar um það, í hverri röð þeim verði sinnt. Ef þessar aðstæður kæmu til, yrði sýslumaður að gefa báðum eða öllum gerðarbeiðendum kost á að mæta til framkvæmdar aðfarar á sama tíma. Ef ekki yrði hægt að fullnægja kröfu hvors eða hvers um sig óháð fullnustu hinna, yrði þrautalendingin óhjákvæmilega að verða sú, að báðir eða allir gerðarbeiðendur fengju jafna fullnustu krafna sinna að tiltölu af andvirði sömu eignar. Með því atriði umrædds ákvæðis, að tvær eða fleiri beiðnir berist sýslumanni samtímis, er ekki átt við að þær komi bókstaflega í hendur sýslumanns á einu og sama augnabliki. Þessa aðstöðu yrði að telja fyrir hendi, ef mjög skammur tími, t.d. fáar mínútur, liði milli þess að sýslumaður fengi beiðnir og tilviljun hafi nánast ráðið hvor þeirra kom fyrr í ljós. Sú regla, sem hér er lögð til, felur nokkra breytingu í sér frá áðurívitnuðum fyrirmælum norskra laga Kristjáns V., en þar er kveðið á um að staða aðfararbeiðna, sem samtímis berast, geti ráðist af aldri aðfararheimilda að baki þeim. Slík viðmiðun yrði ekki heppileg hér í ljósi þess, hversu fjölbreytilegar aðfararheimildir eru samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 1. gr. og óhæfar til samanburðar á aldri að þessu leyti.
    Í 2. mgr. 19. gr. koma fram fyrirmæli um stöðu aðfararbeiðni, sem framsend er milli umdæma eftir heimild í 3. mgr. 17. gr. Er kveðið á um þá meginreglu, að staða slíkrar beiðni gagnvart öðrum beiðnum á hendur sama gerðarþola, sem kunna að liggja fyrir á síðari móttökustaðnum, ráðist af móttökutíma hennar, þar sem hún barst fyrst. Aðfararbeiðni gæti þannig gengið fram fyrir beiðnir, sem áður voru komnar fram í því umdæmi, þar sem aðför verður framkvæmd. Regla þessi er byggð á því viðhorfi að framsending aðfararbeiðna sé fyrst og fremst til hagræðis við framkvæmd aðfarargerða, þannig að framkvæmdin fari fram á þeim stað, sem aðstæður benda til að sé vænlegastur til árangurs. Það er skilyrði fyrir framsendingu sem þessa, að aðför mætti framkvæma á grundvelli 1. mgr. 16. gr. á þeim stað, sem beiðni barst fyrst, enda ráðgert í 3. mgr. 17. gr. að gerðarbeiðandi geti haldið óskum sínum í þessum efnum til streitu. Óeðlilegt væri að hindra viðleitni til hagræðingar og eftir atvikum aukinnar réttarverndar gerðarþola með því að gerðarbeiðandi ætti á hættu að framsending beiðni hans hefði missi forgangsstöðu hans í för með sér. Þykir því eðlilegra kveða á um það í reglu 2. mgr. 19. gr. að slík framsending hafi að meginreglu engin réttarspjöll í för með sér fyrir þann gerðarbeiðanda, sem hlut á að máli. Frá þessari meginreglu er þó gerð undantekning í seinni málslið 2. mgr. 19. gr., sem kveður á um að réttur gerðarbeiðanda verði að þoka, ef tími til framkvæmdar á aðför samkvæmt annarri beiðni hefur áður verið ákveðinn á þeim stað, sem aðfararbeiðnin er framsend til. Þessi undantekning verður að teljast óhjákvæmileg til að tryggja að ákvörðun tíma til aðfarar eftir framkominni aðfararbeiðni standist, þótt síðar berist óvænt eldri aðfararbeiðni úr öðru umdæmi, sem að öðrum kosti hefði orðið að sinna fyrst.

Um 20. gr.     

    Í ákvæði þessu er mælt fyrir um að sýslumaður eigi, sem fyrst eftir að aðfararbeiðni berst, að hlutast til um ákvörðun tíma til framkvæmdar aðfarar, svo sem verða má eftir óskum gerðarbeiðanda. Regla þessi er áþekk núgildandi fyrirmælum í 1. mgr. 33. gr. aðfararlaga. Framkvæmd hefur hins vegar verið nokkuð önnur en ætla mætti af bókstaflegum skilningi orða síðastnefnds ákvæðis, því almennt er beðið frumkvæðis gerðarbeiðanda um ákvörðun tíma til aðfarar. Með fyrirmælum 20. gr. er leitast við að breyta þessari aðstöðu og stuðla að auknu frumkvæði þess. sem framkvæmir aðför, frá því sem hingað til hefur verið. Ætlast er til að sýslumaður ákveði beinlínis að eigin frumkvæði tíma til aðfarar, ef gerðarbeiðandi lætur ekki frá sér heyra að fyrra bragði í þessu skyni að framkominni beiðni Sýslumanni er ætlað sjálfum að ákveða tíma til framkvæmdar aðfarar, en eins og fram kemur í fyrirmælum þessa ákvæðis, ber að gera þetta að jafnaði í samráði við gerðarbeiðanda eða umboðsmann hans.     
    Í seinni málslið 20. gr. er mælt fyrir um að sýslumaður tilkynni gerðarbeiðanda um ákvörðun sína á tíma til framkvæmdar aðfarar með þeim hætti, sem honum þykir til hlýða. Gengið er út frá að í þessum efnum verði sem hingað til nær ávallt um óformlega tilkynningu að ræða og er því ráðgert að sýslumaður ákveði hvernig staðið verði að henni innan marka þess, sem talið verður viðeigandi fyrir hagsmuni gerðarbeiðanda.

Um 21. gr.

    Í 21. gr. er sú meginregla lögð til, að skylt verði að tilkynna gerðarþola um framkomna aðfararbeiðni á hendur honum og um leið hvar og hvenær fyrirhugað sé að aðför verði framkvæmd. Fyrirmæli eru um undantekningar frá þessari skyldu í 3. mgr. ákvæðisins, sem nánar er vikið að hér á eftir.
    Sú regla, sem hér um ræðir, á sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum, þótt nú sé ráðgert í 2. mgr. 33. gr. aðfararlaga, eins og henni var breytt með lögum nr. 15/1988, að gerðarþola megi boða með tilteknum fyrirvara til aðfarar á starfstöð fógeta, sem svipar um sumt til fyrirmæla 21. gr. frumvarpsins. Umrædd regla 2. mgr. 33. gr. aðfararlaga kveður hins vegar ekki á um skyldu til að tilkynna gerðarþola fyrir fram um væntanlega aðför.
    Ástæður þess, að hér er lagt til að skylt verði að tilkynna gerðarþola fyrir fram um væntanlega aðfarargerð, eru um margt komnar til af tilliti til þeirrar fjölgunar aðfararheimilda, sem 1. mgr. 1. gr. felur í sér frá núgildandi lögum. Sú fjölgun snýr almennt að kröfum, sem ekki hafa áður komið til kasta dómstóla á þann hátt, að gerðarþola hafi gefist kostur á að koma fram athugasemdum við kröfu gerðarbeiðanda, ef ástæða er til. Með því að veita gerðarþola vitneskju um, að aðför sé í vændum, opnast leið til að hann geti kannað grundvöll fyrir mótmælum gegn kröfunni og eftir atvikum undirbúið þau. Með þessu er gerðarþola einnig gefið tilefni til að afstýra aðför með því að efna kröfu gerðarbeiðanda. Þessi sömu viðhorf leiddu til breytinga í þessum efnum á danskri löggjöf um aðfarargerðir á árinu 1976, en þar gildir nú hliðstæð regla þeirri, sem lögð er til í 21. gr.
    Þótt ljóst megi vera af framangreindu að sú meginregla sé æskileg, sem felst í 21. gr., má ekki horfa hjá þeirri hættu, að gerðarþoli misnoti vitneskju um væntanlega aðför, t.d. til að dylja tilvist eigna. Þessar aðstæður gefa meðal annarra tilefni til að heimilaðar séu undantekningar frá skyldu til að tilkynna honum fyrir fram um væntanlega aðfarargerð. Örðugt er hins vegar að taka fyllilega af skarið um hversu langt skuli ganga í slíkum undantekningum. Þýðing undanfarandi tilkynningar til gerðarþola kemur að verulegu leyti fram í reglum 5. kafla frumvarpsins, þar sem greinarmunur er gerður á heimildum til að ljúka aðför eða beita þvingunarúrræðum gagnvart gerðarþola, eftir því hvort tilkynning að hætti 21. gr. hafi verið send eða ekki. Af þeim sökum bitnar vöntun tilkynningar um margt á gerðarbeiðanda, sem leiðir í reynd til þeirrar spurningar, hvort ekki megi láta honum eftir að ákveða hvort tilkynnt skuli eða ekki og þar með hvort hann njóti víðtækra eða takmarkaðra úrræða, ef framvinda gerðarinnar verður með öðrum hætti en æskileg væri. Þegar slíkri spurningu er svarað, verður ekki litið hjá því að framkvæmd gerðar verður að öðru jöfnu þyngri eftir reglum frumvarpsins, ef tilkynningu hefur ekki verið sinnt. Þau þyngsl hljóta að leiða til aukinna starfa sýslumanna og þar með aukinna útgjalda, bæði af almannafé og úr hendi gerðarþola. Af þeirri ástæðu má ekki eingöngu horfa til vilja gerðarbeiðanda í þessum efnum og verður því að telja æskilegt að takmarka undantekningar frá meginreglu 21. gr. svo sem verða má.
    Í 1. mgr. 21. gr. koma fram fyrirmæli um efni tilkynningar til gerðarþola. Er gert ráð fyrir að fram komi að tiltekin aðfararbeiðni hafi borist sýslumanni og hvers efnis sú beiðni sé í aðalatriðum. Vitneskju þessari mætti koma á framfæri við gerðarþola með því að láta samrit aðfararbeiðni og eftir atvikum frekari heimildarskjala fylgja tilkynningu til hans. Þá er kveðið á um að tilkynning segi til um hvar gerðin muni byrja og sem nánast á hverjum tíma. Í tengslum við þessi síðastnefndu atriði verður að hafa hliðsjón af reglu 1. mgr. 22. gr., þar sem mælt er fyrir um að aðför skuli að jafnaði byrja á starfstofu sýslumanns, en hann geti þó ákveðið að þetta skuli gert á öðrum stað, ef hentara þykir. Sýslumaður kann að telja rétt að láta aðför byrja samkvæmt þessari heimild á heimili gerðarþola, en örðugt getur þá verið að tiltaka með nægri nákvæmni á hvaða tíma dags það yrði gert. Þótt rétt væri að leitast við að tilkynna að aðför muni byrja á einhverjum nákvæmlega tilteknum tíma, geta þessar aðstæður haft í för með sér að ógerningur sé að gefa þetta til kynna með nánari hætti en svo, að skakki jafnvel einni eða fleiri klukkustundum. Tilgreining staðar til aðfarar í tilkynningu til gerðarþola getur tæpast orðið til vandkvæða, en vegna framangreindra aðstæðna er ekki fært að ætlast til að tímasetningar verði í öllum tilvikum getið af ítrustu nákvæmni. Ekki eru gerðar ákveðnar kröfur um þann fyrirvara, sem hafa ber á tilkynningu til gerðarþola, heldur er látið við það sitja að mæla svo fyrir að tilkynning skuli send með hæfilegum fyrirvara. Að jafnaði ætti ekki að vera þörf á lengri fresti en svo, að gerðarþoli geti átt þess kost að hliðra til dæmis vinnu til að vera staddur við gerð og eftir atvikum að leita upplýsinga um réttarstöðu sína. Fyrirvarinn í þessum efnum getur hins vegar þurft að vera lengri vegna hagsmuna gerðarbeiðanda en af tilliti til gerðarþola, þannig að tíminn nægi til að gerðarbeiðandi fái í hendur staðfestingu á að tilkynningu hafi verið komið á framfæri við gerðarþola, og ef misbrestur hefur orðið á því, að leitast þá við að tilkynna á ný.
    Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 21. gr. getur sýslumaður lagt fyrir gerðarbeiðanda að annast tilkynningu samkvæmt ákvæðinu. Þessi framsetning reglunnar felur í sér ráðagerð um að sýslumaður annist þetta viðfangsefni fremur en gerðarbeiðandi, en hafi þó ákvörðunarvald um aðra tilhögun. Er með þessum hætti eftirlátið framkvæmd að þróa nánari verklagsvenjur í þessum efnum. Hér má benda á að möguleiki er til nokkurrar hagræðingar, ef gerðarbeiðandi annast tilkynningu, því fullnægja mætti þessari tilkynningarskyldu samhliða því að beina greiðsluáskorun skv. 7. gr. til gerðarþola, eins og nánar er vikið að í athugasemdum um það ákvæði.
    Í 2. mgr. 21. gr. kemur fram að tilkynning skuli send gerðarþola með útbornu ábyrgðarbréfi eða í símskeyti, eða að einn stefnuvottur birti honum hana. Um hliðstæða valkosti um sendingu tilkynninga hefur þegar verið fjallað í athugasemdum við 7. gr., sem hér má vísa til. Þótt það komi ekki fram í 2. mgr. 21. gr., ræðst framkvæmd gerðar að verulegu leyti af því, hvort sannanlegt sé að tilkynning hafi borist gerðarþola eða öðrum, sem hæfur yrði til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd samkvæmt reglum VIII. kafla laga nr. 85/1936. Þessi þýðing móttöku tilkynningar er nánar skýrð í athugasemdum við ákvæði 5. kafla, sem hér skal vísað til.
    Í 3. mgr. 21. gr. eru talin þau atvik, sem heimila að vikið sé frá meginreglu 1. mgr. ákvæðisins um skyldu til að tilkynna gerðarþola fyrir fram um aðfarargerð. Fyrsta undantekningin tekur til krafna um skatta og önnur samsvarandi gjöld, sem falla undir aðfararheimild skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. Ástæða þess, að almenn undantekning sé hér gerð um þær kröfur, er sú, að þær eru oft mjög lágar að fjárhæð og árangur af þessum gerðum er almennt til muna torsóttari en við aðför fyrir öðrum kröfum. Ekki er líklegt að mesta hagræðið, sem gerðarbeiðandi getur uppskorið af tilkynningu og leiðir af reglu 1. mgr. 24. gr., komi verulega að gagni við þessar gerðir. Þótt heimild sé hér veitt til að komast hjá því að senda gerðarþola tilkynningu um væntanlega aðför fyrir skattkröfum, má gera ráð fyrir að slík tilkynning yrði allt að einu algeng við þessar gerðir. Í 2. tölul. 3. mgr. 21. gr. kemur fram heimild til að víkja frá skyldu til tilkynningar, ef hætt þykir að gerðarþoli muni spilla fyrir aðför. Hér er lagt á vald sýslumanns að ákveða hvort regla þessi eigi við í einstökum tilvikum, en gera má ráð fyrir að gerðarbeiðandi veki almennt máls á þeim aðstæðum, sem hér um ræðir. Í 3. tölul. er heimilað að láta hjá líða að senda tilkynningu, ef hætta þykir á að gerðarbeiðandi verði fyrir sérstökum réttarspjöllum vegna tafa af hennar sökum. Þessa heimild til undantekningar yrði að skýra þröngt, þannig að hún eigi aðeins við ef mjög brýnum hagsmunum gerðarbeiðandans yrði stefnt í hættu með frekari bið. Í 4. tölul. er sérstök undantekningarheimild, sem tekur mið af þeim aðstæðum að gerðarþola hafi áður verið tilkynnt um stað og stund til aðfarar vegna sömu kröfu, en ekki sinnt henni. Ef ekki hefur reynst mögulegt að ljúka aðför í fyrri tilraun og hana á að reyna á ný, er almennt ástæðulaust að endurtaka tilkynningu vegna hagsmuna gerðarþola. Í 5. tölul. kemur fram undantekning frá skyldu til tilkynningar, ef framkvæma á aðför að undangengnum úrskurði héraðsdómara um að gerð sé heimil. Við þær aðstæður hefur gerðarþola áður gefist kostur á að taka til andsvara gegn kröfum gerðarbeiðanda fyrir dómi og því almennt ástæðulaust til verndar hagsmunum gerðarþola að tilkynna honum um væntanlega framkvæmd gerðarinnar. Í 6. tölul. kemur fram síðasta undantekningin frá meginreglu 21. gr., en samkvæmt henni má láta hjá líða að reyna að koma tilkynningu á framfæri við gerðarþola, ef ekki er kunnugt um hvar hann hefst við. Með síðastgreindu orðalagi eru þær aðstæður einkum hafðar í huga, að gerðarþoli eigi hvergi skráð heimili eða að fyrir liggi að slík skráning sé röng, og gerðarbeiðandi býr ekki yfir vitneskju um dvalarstað gerðarþola eða aðra nærtæka möguleika til að koma tilkynningu á framfæri. Við þessar aðstæður má fyrir fram vera ljóst að tilraun til að tilkynna gerðarþola um væntanlega aðför muni ekki þjóna tilgangi.

Um 22. gr.

    Í 22. gr. koma fram reglur um hvar aðför byrji, en þær eru mismunandi eftir því, hvort tilkynning að hætti 21. gr. hefur verið send eða ekki. Hér ber að vekja athygli á að reglur um byrjunarstað geta ráðist af hvort tilkynning hafi verið send, en ekki hvort hún hafi sannanlega borist gerðarþola eða öðrum, sem hæfur er til að taka við henni fyrir hans hönd. Sending tilkynningar ein út af fyrir sig getur því haft þýðingu að þessu leyti, en reglur um áframhaldandi framkvæmd gerðarinnar, t.d. um hvar ljúka megi aðför, ráðast að mestu af hinu, hvort tilkynning hafi sannanlega borist.
    Ef tilkynning að hætti 21. gr. hefur verið send, hefur gerðarþoli, eins og þar er mælt fyrir um, fengið boðun um að mæta til gerðar á tilteknum stað. Í 1. mgr. 22. gr. er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að sá staður skuli vera skrifstofa eða önnur starfstöð sýslumanns. Frá þessu má sýslumaður þó víkja í samráði við gerðarbeiðanda, ef annar byrjunarstaður aðfarar þykir hentugri og hann samrýmist hagsmunum aðilanna. Slíkrar ákvörðunar yrði að sjálfsögðu að hafa verið getið í tilkynningu til gerðarþola. Heppilegt gæti verið að nota umrædda heimild vegna ýmissa atvika. Vera má að fyrir fram sé ljóst að ekki verði hægt að ljúka gerð nema með því að fara á heimili gerðarþola, t.d. vegna virðingar eigna, og því haganlegra að gerð fari þar fram að öllu leyti. Eins má vera að óhjákvæmilegt þyki í víðlendu umdæmi að gerð byrji á einhverjum stað utan skrifstofu sýslumanns, sem er nærri heimkynnum gerðarþola. Þá kann einnig að liggja fyrir, að þótt tilkynning að hætti 21. gr. hafi verið send gerðarþola, þá hafi hún ekki borist honum, og því útilokað að ljúka gerðinni á þeim stað, sem hann var boðaður til að mæta á. Við þær aðstæður væri væntanlega nærtækt að reyna fremur að byrja gerðina á stað, sem líklegt er að gerðarþoli eða löghæfur málsvari hans muni hittast fyrir. Það er sýslumanns að ákveða hvort heimild verði beitt til að byrja gerð utan starfstofu hans, en ætlast er til að það verði almennt ekki gert nema með samþykki gerðarbeiðanda.
    Í 2. mgr. 22. gr. koma fram fyrirmæli um hvar byrja skuli aðför, ef tilkynning skv. 21. gr. hefur ekki verið send. Reglur þessar eiga því við þau tilvik, sem undantekningar skv. 3. mgr. 21. gr. taka til. Nokkrir kostir eru taldir í ákvæðinu um hvar aðför geti byrjað við þessar aðstæður, en óskylt er að byrja á einhverjum einum tilteknum stað fremur en öðrum. Markmið talningar mögulegra byrjunarstaða aðfarar er hér að árétta, að það skuli gert þar sem mest líkindi eru fyrir að gerðarþoli verði staddur. Ef tilkynning skv. 21. gr. hefur ekki sannanlega borist gerðarþola eða málsvara hans, leiða reglur 24. gr. til að aðför verði almennt ekki lokið nema með því að hann hittist fyrir eða tilteknir menn, honum nákomnir. Gefur því augaleið að það hefur ekki verulega þýðingu að þessu leyti hvar aðfarargerðin byrjar formlega. Í niðurlagi 2. mgr. 22. gr. kemur fram sérregla, sem tekur til þeirra aðstæðna að gerðarþoli eigi ekki þekkt heimili hér á landi og ekki hefur tekist að koma tilkynningu um væntanlega gerð til hans. Ef svo stendur á, er gert ráð fyrir að gerð megi byrja á starfstofu sýslumanns. Hér er um reglu að ræða, sem reikna má með að heyri til algerra undantekninga að reyni á.

Um 23. gr.

    Í fyrri málsgrein 23. gr. kemur fram sú meginregla, að ekki verði af aðfarargerð, nema gerðarbeiðandi eða umboðsmaður hans sé viðstaddur. Í seinni málsgrein ákvæðisins er þó kveðið á um undantekningu frá þessari meginreglu, en hún tekur til fjárnámsgerða vegna skatta og annarra samsvarandi gjalda, sem styðjast við aðfararheimild 9. tölul. 1. mgr. 1. gr.
    Umrædd meginregla 1. mgr. 23. gr. er sama efnis og ákvæði 1. mgr. 34. gr. aðfararlaga, en samkvæmt henni ber gerðarbeiðanda eða umboðsmanni hans að vera staddur við gerð, sem reglur þeirra laga taka til. Gagnstæð regla hefur hins vegar gilt um lögtaksgerðir samkvæmt fyrirmælum lögtakslaga og mega þær fara fram án viðveru gerðarbeiðanda. Þessi tilhögun á rætur að rekja til þess, að í upphaflegri mynd lögtakslaga var lögtaksréttur almennt aðeins fyrir gjöldum, sem bæjarfógetar og sýslumenn önnuðust bæði innheimtu á og fóru með lögtaksgerðir fyrir. Við þær aðstæður var fráleitt að gera ráð fyrir að mætt yrði sérstaklega til gerðar fyrir gerðarbeiðanda. Eins og skýrt var í almennum athugasemdum hér áður, hefur þróunin hins vegar orðið sú, að lögtaksréttur hefur verið veittur fyrir fjölda krafna, sem innheimtar eru með öðrum hætti en áður segir, auk þess að skattheimta er nú víða komin úr höndum þeirra, sem fara með framkvæmd aðfarargerða. Er því í raun brostinn grundvöllur fyrir að lögtaksgerðir fari almennt fram án þess að gerðarbeiðandi mæti, ef hann er annar en sá, sem framkvæmir gerðina. Af þessum ástæðum er lagt til í 23. gr. að afnema núverandi almenna heimild lögtakslaga fyrir að gerðarbeiðandi þurfi ekki að mæta til gerðar, enda fer fjarri að það samrýmist almennum réttarreglum nú á dögum að sá, sem framkvæmir aðför, eigi ávallt að gæta hagsmuna þess, sem um gerðina biður. Allt að einu er óhjákvæmilegt að víkja frá því meginviðhorfi, þegar um skattkröfur er að ræða, sem sami sýslumaður innheimtir og gerir aðför fyrir, enda ekki frekar hægt nú en við setningu lögtakslaga að gera ráð fyrir að sá maður bregði sér í líki tveggja. Undantekningarheimild 2. mgr. 23. gr. er að vísu ekki bundin eftir orðanna hljóðan við að sýslumaður sé einnig innheimtumaður viðkomandi krafna, en gengið er út frá að sýslumaður heimili almennt ekki undantekningu frá 1. mgr. ákvæðisins við aðrar aðstæður.
    Við endurskoðun danskra reglna um aðfarargerðir, sem leiddi til áðurnefndrar lagasetningar þar í landi á árinu 1976, var verulega fjallað um hvort heimila ætti að aðför gæti farið fram án viðveru gerðarbeiðanda, og þá einkum vegna lágra fjárkrafna. Niðurstaðan þar varð sú, að mæla svo fyrir að gerðarbeiðanda sé óskylt að mæta, ef höfuðstóll kröfu er innan 2.500 danskra króna, sbr. 2. mgr. 492. gr. danskra réttarfarslaga. Við samningu þessa frumvarps var hugað að hvort leggja ætti til samsvarandi reglu hér á landi. Varð niðurstaðan að slíkt yrði óæskilegt, jafnvel þótt kröfufjárhæðir geti verið lágar við þessar aðstæður. Eins og nefnt var hér á undan, skapast óeðlileg staða, ef sá, sem framkvæmir aðför, á einnig að gæta hagsmuna utanaðkomandi gerðarbeiðanda. Ákvörðun ýmissa atriða við framkvæmd aðfarar er háð afstöðu gerðarbeiðanda og yrði til verulegra þyngsla í framkvæmd, ef fresta þyrfti gerð hverju sinni, sem ekki yrði komist lengra án hennar. Miklu máli getur skipt fyrir gerðarbeiðanda, hvernig til tekst um framkvæmd gerðar, jafnvel þótt kröfufjárhæð sé lítilfjörleg. Þótt kostnaður af viðveru hans við gerð falli að endingu á gerðarþola, er almennt ekki um teljandi fjárhæð að ræða og getur sýslumaður spornað við augljósri misnotkun aðstæðna í þeim efnum skv. 2. mgr. 36. gr. Verður í þeim efnum heldur ekki litið hjá því, að tilefni aðfarar er jafnan vanefnd gerðarþola á réttmætri skyldu, og verður því eðlilega að gæta hófs um setningu reglna, sem honum eru til hagsbóta á kostnað hagsmuna gerðarbeiðanda.

Um 24. gr.

    Í 24. gr. koma fram reglur sem snúa einkum að því, að hverju leyti framkvæmd og lok aðfarargerðar sé háð viðveru gerðarþola og til hverra úrræða grípa megi, ef hann mætir ekki til gerðar eða ekki næst til hans.
    Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. má ljúka aðför að gerðarþola fjarstöddum, ef tilkynning skv. 21. gr. hefur sannanlega borist honum eða einhverjum, sem hæfur er samkvæmt reglum VIII. kafla laga nr. 85/1936 til að taka við stefnu fyrir hans hönd. Fjarvera gerðarþola skoðast þannig í raun sem tjáning af hans hendi um að hann hafi ekkert við kröfur gerðarbeiðanda að athuga. Til að því skilyrði ákvæðisins sé fullnægt, að tilkynning hafi sannanlega komist til skila, verður gerðarbeiðandi að geta lagt fram gögn, sem staðfesta afhendingu hennar, hvort sem um er að ræða viðtökukvittun fyrir ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birtingarvottorð stefnuvotts. Þótt þessum skilyrðum sé fullnægt, er samt ekki gefið að hægt sé að ljúka aðför. Framkvæmd hennar getur verið háð nánari vitneskju um fjárhag gerðarþola eða önnur atriði, sem snúa að andlagi gerðarinnar. Ef um fjárnám er til dæmis að ræða og gerðarbeiðandi getur bent á ákveðna eign gerðarþola, sem aðför má gera í, ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að gerð verði lokið samkvæmt reglu þessari að gerðarþola fjarstöddum. Sú leið er hin sama og nú er heimil skv. 25. og 34. gr. aðfararlaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 15/1988. Hér verður að árétta, að þessi málalok eru háð því að gerðarbeiðandi geti bent á tiltekna eign gerðarþola, sem taka má fjárnámi. Gerðarbeiðandi verður að geta veitt það nánar upplýsingar um eignina, að ekki orki tvímælis um hverja sé að ræða, og nægja því að sjálfsögðu ekki getsakir af hans hendi um hugsanlega og lítt skilgreinda eign gerðarþola. Ef gerðarbeiðandi býr hins vegar ekki yfir vitneskju um eignir gerðarþola, verður gerðinni ekki lokið með svo einföldum hætti, heldur er óhjákvæmilegt að ná til gerðarþola eða einhvers, sem honum er nákominn, til að veita nauðsynlegar upplýsingar. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því, að reglur 8. kafla girða almennt fyrir að fjárnámi verði lokið án árangurs, ef gerðarþoli eða málsvari hans hefur ekki lýst yfir að eignir hans nægi ekki til fullnustu hlutaðeigandi kröfu. Verður gerð því almennt ekki lokið með þeim hætti án viðveru gerðarþola, jafnvel þótt hann hafi fengið tilkynningu um hana og hafi látið hjá líða að mæta til hennar. Þá verður einnig að skoða reglu 1. mgr. 24. gr. í ljósi þess, að örðugt getur verið að ljúka öðrum gerðum en fjárnámum með umræddum hætti. Ef um gerð er að ræða skv. 11. kafla, getur reynst nauðsynlegt að ná til gerðarþola eða málsvara hans, t.d. vegna þeirra aðstæðna, sem 76. gr. tekur til. Fjarvera gerðarþola yrði hins vegar ekki afgerandi við framkvæmd gerða skv. 72.–75. gr.
    Um reglu 1. mgr. 24. gr. er rétt að benda sérstaklega á, að ef skilyrðum hennar til að ljúka gerð án viðveru gerðarþola er fullnægt, þarf ekki að fela tilkvöddum manni að gæta hagsmuna hans við gerðina. Þá er einnig rétt að vekja athygli á að mælt er svo fyrir í síðari málslið ákvæðisins, að sýslumaður eigi að gæta að því að gerð brjóti ekki gegn þeim réttindum, sem gerðarþola eru tryggð með reglum frumvarpsins, ef henni er lokið án viðveru hans. Í þessu felst að sýslumaður verður til dæmis að gæta þess að fjárnám sé ekki gert í eign, sem er undanþegin því samkvæmt fyrirmælum 6. kafla.
    Í 2. mgr. 24. gr. koma fram reglur, sem taka jafnt til tvenns konar aðstæðna. Þær eiga annars vegar við þau tilvik, þar sem annaðhvort gerðarþola hefur ekki verið send tilkynning um gerðina, vegna undantekningar frá skyldu til slíks skv. 3. mgr. 21. gr., eða ekki er unnt að sanna að tilkynning hafi komist til skila með réttum hætti, en í hvorugu þessara tilvika verður reglu 1. mgr. 24. gr. beitt til að ljúka gerð. Hins vegar snúa reglur 2. mgr. 24. gr. að þeim aðstæðum, þegar tilkynning skv. 21. gr. hefur að vísu komist réttilega til skila, en gerðarþoli hefur ekki mætt eða látið mæta við gerðina og vöntun vitneskju um eignir hans eða aðrar hindranir fyrirbyggja málalok að hætti 1. mgr. 24. gr. Þegar þessar aðstæður eru fyrir hendi, er mælt svo fyrir í 2. mgr. 24. gr. að sýslumaður megi fela tilteknum mönnum, nákomnum gerðarþola, að taka málstað hans. Mögulegir málsvarar gerðarþola eru tæmandi taldir í 2. mgr. 24. gr., þannig að ef ekki næst til einhvers, sem þar er talinn, verður að ljúka gerð eftir reglum 3. mgr. ákvæðisins.
    Ef sú leið er farin við framkvæmd gerðar, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 24. gr., leiðir af eðli máls að hún fari fram á stað, þar sem einhver þargreindur finnst. Er byggt hér á því að gerðin annaðhvort byrji á slíkum stað eða að áður byrjaðri gerð verði fram haldið, þar sem mögulegur málsvari gerðarþola hittist fyrir. Tvær ástæður geta einkum búið að baki því, að finna þurfi málsvara fyrir gerðarþola með þessum hætti. Ef tilkynning skv. 21. gr. hefur ekki sannanlega komist til skila, er með þessu öðru fremur verið að tryggja að hagsmuna gerðarþola verði gætt. Ef tilkynnt hefur verið hins vegar um gerðina, er leit að málsvara væntanlega að öðru jöfnu komin til af því, að upplýsingar vantar um eignir gerðarþola til að ljúka megi gerðinni.
    Í 3. mgr. 24. gr. er að finna fyrirmæli um viðbrögð, ef enginn málsvari hefur fundist fyrir gerðarþola að hætti 2. mgr. 24. gr., en sömu atvik og þar greinir hindra að gerðinni verði lokið að honum fjarstöddum. Meginregla 3. mgr. er sú, að gerð verði frestað til að reyna að ná til gerðarþola sjálfs. Er sérstaklega mælt fyrir um að sýslumaður geti falið lögreglumönnum að leita að gerðarþola og að þeir annaðhvort boði hann til gerðarinnar eða færi hann til hennar, með valdbeitingu ef með þarf. Gert er þó ráð fyrir undantekningum frá þessari meginreglu. Má láta þetta ógert, ef sýslumanni þykir þegar fullreynt að ekki takist að ná til gerðarþola, eða ef hagsmunir gerðarbeiðanda af því að gerðinni verði lokið sem fyrst eru það brýnir, að hætt sé við réttarspjöllum af frekari töfum. Við þessar aðstæður er gert ráð fyrir að sýslumaður og gerðarbeiðandi fari á skráð heimili eða aðsetur gerðarþola og ljúki þar gerðinni eftir kröfum gerðarbeiðandans. Þessi málalok eru háð því að engar aðrar hindranir fyrirbyggi þau og verður gerðarbeiðandi þannig til dæmis að geta bent á eignir gerðarþola til fjárnáms, ef því er að skipta. Sömu leið má fara til málaloka, ef reynt hefur verið án árangurs að ná til gerðarþola með aðstoð lögreglu. Í niðurlagi 3. mgr. kemur fram sérregla, sem á við ef gerðarþoli á ekkert skráð heimili eða aðsetur hér á landi, en þá má ljúka gerð að fullnægðum framangreindum skilyrðum á starfstofu sýslumanns.
    Í þeim tilvikum, sem aðför yrði lokið eftir 3. mgr. 24. gr., er ekki þörf á að skipa mann til að gæta hagsmuna gerðarþola.

Um 25. gr.

    Í 25. gr. er að finna ýmsar reglur, sem varða aðstæður við byrjun aðfarargerðar. Í 1. mgr. er mæli fyrir um að sýslumaður kynni gerðarþola eða málsvara hans framkomin gögn og skori á hann að fullnægja þeirri skyldu, sem aðfarar er krafist fyrir. Hér er gert ráð fyrir að sýslumaður geri gerðarþola nokkra grein fyrir málavöxtum samhliða því að veita honum leiðbeiningar um réttarstöðu hans, eins og mælt er fyrir um í 4. mgr. ákvæðisins.
    Í 2. mgr. 25. gr. er boðið að sýslumanni sé skylt að taka við greiðslu frá gerðarþola upp í kröfu gerðarbeiðanda eða fyrir henni í heild, ef gerðarbeiðandi er ekki við gerðina samkvæmt undantekningarheimild í 2. mgr. 23. gr. Full greiðsla þeirrar fjárhæðar, sem gerðarbeiðni hljóðar á, yrði til að varna fjárnámi við þessar aðstæður. Er af þessum sökum brýnt fyrir hagsmuni gerðarbeiðanda að hann hafi gætt þeirrar nákvæmni í framsetningu kröfugerðar í gerðarbeiðni, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 10. gr. Ef greitt væri upp í kröfu, yrði fjárnám gert fyrir sundurliðaðri heildarkröfu gerðarbeiðanda, að frádreginni innborgun. Afstaða yrði þá ekki tekin til þess við fjárnámsgerðina, upp í hverja kröfuliði innborgun eigi að ganga. Varðandi reglu 2. mgr. 25. gr. er vert að benda á, að ekki er mælt fyrir um samsvarandi skyldu gerðarbeiðanda til að taka við greiðslu, ef hann er staddur við gerðina. Á þetta þær augljósu rætur, að tilgangur fjárnáms er að knýja á um efndir, sem gerðarbeiðandi sæi tæpast ástæðu til að hafna. Ef svo ólíklega færi hins vegar að gerðarbeiðandi neitaði að taka við heildargreiðslu eða innborgun frá gerðarþola við fjárnám, á gerðarþoli þess kost að krefjast að fjárnám verði gert í peningum, sbr. 39. og 41. gr., sem leiddi til sömu niðurstöðu.
    Í 3. mgr. 25. gr. er gerðarþola veitt heimild til að varna aðför með setningu tryggingar fyrir efndum á kröfu gerðarbeiðanda. Þessi heimild er þó bundin við tilvik, þar sem ágreiningur stendur milli málsaðila um kröfuna. Ráðgert er að sýslumaður meti hver trygging verði talin næg í þessu skyni. Um nánari framkvæmd í þessum efnum, sem vænta má að lítt geti reynt á, yrði rétt að beita áþekkum aðferðum við mat á tryggingu, ákvörðun á formi hennar o.fl., og mælt er fyrir um í lögum um kyrrsetningu og lögbann.
    Að leiðbeiningarskyldu skv. 4. mgr. 25. gr. hefur þegar verið vikið í tengslum við 1. mgr. Umfang leiðbeininga færi eftir sömu viðhorfum og beitt er í framkvæmd skv. 114. gr. laga nr. 85/1936.
    Í 5. mgr. 25. gr. er mælt fyrir um skyldu gerðarþola eða málsvara hans til að skýra satt frá því, sem hefur þýðingu fyrir gerðina og sýslumaður krefur hann svara um. Röng frásögn gerðarþola eða málsvara hans gæti varðað refsingu skv. 146. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um 26. gr.

    Í þessu ákvæði koma fram fyrirmæli um frestun aðfarargerðar, sem byrjað hefur verið á. Meginreglan í þeim efnum kemur fram í 1. mgr., þar sem segir að gerð skuli að jafnaði ekki fresta nema málsaðilar, báðir eða allir, séu sammála um það. Þessi regla er hin sama og nú kemur fram í 1. málsl. 43. gr. aðfararlaga. Hún á rætur að rekja til þess, að gerðarbeiðandi á ekki að þarfnast frestunar gerðar fyrir sitt leyti, enda hefur hann almennt í hendi sér að biðja ekki um gerð fyrr en honum þykir það sjálfum tímabært. Hvað gerðarþola varðar, byggist regla þessi á því, að löglíkindi eru fyrir að krafa gerðarbeiðanda sé rétt og því ósennilegt að gerðarþoli muni hafa uppi mótmæli gegn henni, sem hald er í. Með undanfarandi tilkynningu um aðför mætti gerðarþoli og vera undir það búinn að færa rök við gerðina fyrir mótmælum sínum og þarfnast því ekki frestunar hennar af þeim sökum. Á hinn bóginn væri alls endis óeðlilegt að standa í vegi fyrir að málsaðilar geti frestað framkvæmd gerðar með samkomulagi sín á milli.
    Í 2. mgr. 26. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður taki þegar í stað ákvörðun um hvort gerð verði haldið áfram, ef gerðarþoli krefst frestunar hennar gegn andmælum gerðarbeiðanda. Gerðarþoli yrði við þessar aðstæður að færa rök fyrir kröfu sinni og sýslumaður að meta hvort þau séu nægileg til að brjóta á bak aftur framangreinda meginreglu um að frestir verði almennt ekki veittir án samkomulags málsaðila. Ljóst er að rök gerðarþola fyrir frestsbeiðni þurfa að varða veigamikil atriði fyrir framgang gerðar, ef taka á hana til greina. Ekki yrði til dæmis nægilegt að gerðarþoli vilji frest til að kynna sér nánar kröfu gerðarbeiðanda. Í meginatriðum þyrfti gerðarþoli að geta sýnt fram á að frestun væri honum nauðsynleg til að afla gagna, sem hann átti alls ekki fyrr kost á og sem fyrirsjáanlega yrðu til að leiða í ljós að krafa gerðarbeiðanda sé röng eða að gerðin megi ekki fara fram með þeim hætti, sem gerðarbeiðandi krefst. Þessar kröfur í garð gerðarþola eru vissulega strangar, en hafa ber hér í huga að meginleið frumvarpsins til að leysa úr álitaefnum um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda eða um gerðina sem slíka felst í reglum 15. kafla, sem taka til meðferðar ágreiningsmála eftir lok aðfarargerðar. Ákvörðun sýslumanns um að hafna frestsbeiðni gerðarþola hefði því ekki teljandi réttarspjöll í för með sér fyrir gerðarþola, auk þess að gerðarbeiðandi getur orðið bótaskyldur gagnvart gerðarþola samkvæmt reglum 16. kafla, ef hann hefur knúið fram aðför án þess að gefa gerðarþola færi á að koma fram réttmætum athugasemdum.
    Ákvörðun sýslumanns skv. 2. mgr. 26. gr. yrði sem áður segir almennt tekin þegar í stað og er því ekki gert ráð fyrir að hann taki sér umhugsunarfrest af þessu tilefni. Slík ákvörðun yrði bókuð sérstaklega, sbr. 33. gr. Um framvindu mála að fenginni þeirri ákvörðun er fjallað í 3. og 4. mgr. 26. gr. Ef sýslumaður hefur fallist á kröfu gerðarþola um frest, á gerðarbeiðandi þess kost skv. 3. mgr. að krefjast úrlausnar héraðsdómara um þá ákvörðun, en frekari meðferð slíks máls færi eftir reglum 14. kafla. Ef sýslumaður hefur hafnað frestskröfu gerðarþola, er kveðið á um það í 4. mgr. að gerðinni skuli þegar fram haldið án tillits til frekari mótmæla hans, ef gerðarbeiðandi krefst. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort gerðarþoli hafi uppi áskilnaði um að reyna á réttmæti ákvörðunar sýslumanns fyrir héraðsdómi á síðari stigum. Hér er því byggt á þeim meginreglum, sem fram koma í 14. kafla frumvarpsins, en eins og síðar verður nánar skýrt, getur gerðarþoli almennt ekki hindrað framgang gerðar með því að krefjast dómsúrlausnar jafnharðan um einstakar ákvarðanir sýslumanns. Ef gerðarbeiðandi vill hins vegar ekki að gerðin haldi áfram að svo stöddu, að framkominni ákvörðun sýslumanns um höfnun frestsbeiðni gerðarþola, opnast gerðarþola leið skv. 2. mgr. 85. gr. til að fá úrlausn héraðsdómara um réttmæti þeirrar ákvörðunar áður en lengra er haldið.

Um 27. gr.

    Reglur þessa ákvæðis fjalla um hvernig brugðist skuli við, ef gerðarþoli hefur uppi mótmæli gegn kröfu gerðarbeiðanda við framkvæmd gerðar eða andmælir kröfum gerðarbeiðanda um það, hvernig staðið verði að gerðinni. Þessar reglur tengjast nokkuð fyrirmælum 26. gr., því gera má ráð fyrir að gerðarþoli kunni að telja þörf á frestun gerðar til gagnaöflunar eða nánari röksemdafærslu um mótmæli sín. Ef sýslumaður hafnar frestskröfu gerðarþola samkvæmt reglum 26. gr., verður hann að taka afstöðu til mótmæla gerðarþola þegar í kjölfarið, á grundvelli þeirra gagna eða raka, sem gerðarþoli hefur tiltæk.
    Í 1. mgr. 27. gr. er kveðið á um að sýslumaður eigi að taka afstöðu til mótmæla gerðarþola með ákvörðun sinni, þegar í stað er þau hafa komið fram. Ákvörðun sýslumanns yrði annaðhvort um að gerðinni verði fram haldið, án tillits til mótmæla gerðarþola, eða að hún verði stöðvuð vegna þeirra. Hér er líkt og í 26. gr. gert ráð fyrir að ákvörðun sé tekin án umhugsunarfrests, þannig að halda megi gerðinni rakleitt áfram, ef sýslumaður fellst ekki á mótmælin.
    Í 2. mgr. 27. gr. kemur fram sú meginregla, að mótmæli gerðarþola gegn framgangi gerðar eigi að jafnaði ekki að stöðva hana. Hér er á ný byggt á þeim viðhorfum, sem áður var lýst í athugasemdum við 26. gr. og búa að baki því að frestsbeiðnir gerðarþola verði almennt ekki teknar til greina. Frá þessari meginreglu eru tilteknar tvær undantekningar. Annars vegar kann gerðarþoli að bera fyrir sig atriði, sem sýslumaður hefði átt að gæta af sjálfsdáðum og hefur látið hjá líða. Þau atriði gætu einkum snúið að þeirri frumkönnun, sem sýslumanni ber að framkvæma að framkominni aðfararbeiðni skv. 1. mgr. 17. gr. Ef gerðarþoli vekur athygli á annmarka, sem með réttu hefði átt að leiða til sjálfsdáðarsynjunar sýslumanns á aðfararbeiðni þegar í upphafi og sá annmarki er enn fyrir hendi, verður ekki komist hjá að sýslumaður taki mótmæli gerðarþola þegar til greina og stöðvi gerðina. Hins vegar getur það leitt til ákvörðunar sýslumanns um stöðvun gerðar, ef gerðarþoli ber fram mótmæli, sem valda því að mati sýslumanns að óvíst sé að krafa gerðarbeiðanda sé rétt eða að gerðin megi fara þannig fram, sem gerðarbeiðandi vill. Örðugt er að setja fram almenn viðhorf um það, hvenær þessar aðstæður geti talist fyrir hendi, enda verður að gera ráð fyrir að meta þurfi atvik hverju sinni. Sýslumaður verður að nálgast ákvörðun um mótmæli gerðarþola með því hugarfari, að með því að löggjöf kveður á um heimild til aðfarar fyrir kröfu af þeirri gerð, sem gerðarbeiðandi krefst fullnustu á, verði að fyrra bragði að telja kröfuna rétta. Gerðarþoli verður því ekki aðeins að geta dregið í efa að krafa gerðarbeiðanda sé rétt, heldur verður hann að færa rök fyrir að líklegra sé að hún sé röng en ekki. Sýslumaður verður einnig að gæta að því, að framgangur gerðar er á ábyrgð gerðarbeiðanda og því nærtækt að ætla að gerðarbeiðandi tefli ekki eigin hagsmunum í tvísýnu með því að hafa uppi kröfu, sem almennt má telja hæpna. Síðast en ekki síst er almenn regla frumvarpsins sú, að ágreiningi um réttmæti málstaðar gerðarbeiðanda eigi fyrst að ráða til lykta fyrir dómi, eftir að gerðinni sem slíkri er lokið, ef gerðarbeiðandi vill fara þá leið gegn mótmælum gerðarþola. Verður því sýslumaður að beita valdi til að stöðva framkvæmd gerðar vegna mótmæla gerðarþola nánast með því hugarfari, að það verði ekki gert nema sýnt sé fram á að verulega líklegt sé að krafa gerðarbeiðanda fái ekki staðist að lögum.
    Ef sýslumaður ákveður að gerð stöðvist vegna mótmæla gerðarþola, er kveðið á um úrræði gerðarbeiðanda í 3. mgr. 27. gr., ef hann sættir sig ekki við þá ákvörðun. Honum er heimilt er að bera ákvörðunina undir úrlausn héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum 14. kafla. Ef sýslumaður hefur ákveðið að stöðva gerð með öllu, verður henni ekki fram haldið nema að fenginni dómsúrlausn um annað. Ef sýslumaður ákveður hins vegar að gerð megi fara fram að nokkru, en að hún verði stöðvuð að öðru leyti vegna mótmæla gerðarþola, getur gerðarbeiðandi borið hina neikvæðu ákvörðun undir úrlausn héraðsdómara, en krafist að gerðinni verði þegar fram haldið að öðru leyti.
    Ef ákvörðun sýslumanns er gerðarþola í óhag, eru reglur um úrræði hans nánast hinar sömu og áður var lýst í athugasemdum við 4. mgr. 26. gr. um höfnun á frestsbeiðni hans, og má vísa til þess, sem þar kemur fram.

Um 28. gr.

    Í 28. gr. koma fram reglur um heimildir annarra en gerðarbeiðanda og gerðarþola til að mæta við aðfarargerð og leitast við að hafa áhrif á framvindu hennar. Heimild til slíkra afskipta þriðja manns er háð því samkvæmt upphafsorðum ákvæðisins, að hann sýni fram á að gerð geti ranglega skert réttindi hans. Réttindaskerðing, sem heimilað gæti þriðja manni slík afskipti, þarf ekki endilega að vera fólgin í til dæmis hættu á að eign hans verði tekin fjárnámi í þeirri röngu trú að hún tilheyri gerðarþola. Í skilningi ákvæðisins gæti hætta á réttindaskerðingu allt eins verið fólgin í því, að þriðji maður standi í ábyrgð fyrir kröfu, sem fjárnáms hefur verið krafist fyrir hjá samskuldara hans, og hann hafi tilefni til að óttast að gerðarþoli muni ekki hafa uppi réttmæt andmæli gegn kröfunni. Ef gerðarþoli öðlaðist rétt til að krefja þriðja mann um endurgreiðslu kröfunnar að henni innleystri, hefði þriðji maður beina hagsmuni af því að afstýra að gerðarþoli verði knúinn til greiðslu kröfunnar.
    Mat á þeim hagsmunum, sem réttlætt geta aðild þriðja manns að aðfarargerð, yrði að ráðast af nánast sömu viðhorfum og beitt er við úrlausn um heimild þriðja manns til meðalgöngu fyrir dómi í einkamáli, sbr. 50. gr. laga nr. 85/1936. Yrði því þriðji maður að sýna fram á lögvarða hagsmuni sína af málefninu, sem taldir verði nægilega brýnir til að hann fái að grípa inn í lögskipti annarra aðila. Er hér að verulegu leyti einnig um sömu viðhorf að ræða og stuðst er við um heimild þriðja manns til afskipta af framgangi nauðungaruppboðs, sbr. 4. tölul. 8. gr. laga nr. 57/1949.
    Í 40. gr. aðfararlaga kemur fram núgildandi heimild til afskipta þriðja manns af aðfarargerð, sem er háð því skilyrði að „gerðin mundi ganga of nærri rétti“ hans. Það orðalag er eins og séð verður annað en það, sem fram kemur í upphafi 28. gr. Ekki er ætlast til þess með breyttu orðalagi að heimildir þriðja manns til afskipta af gerð verði taldar aðrar en álitið hefur verið eftir núgildandi lagafyrirmælum.
    Ef þriðji maður, sem mætir við gerð, fullnægir skilyrðum til afskipta af framgangi hennar, er honum heimilt skv. 28. gr. að krefjast frestunar eða að mótmæla framgangi hennar. Er kveðið á um að farið skuli með kröfur eða mótmæli þriðja manns eins og kröfur eða mótmæli gerðarþola skv. 26. eða 27. gr. Er staða þriðja manns í þessu tilliti því hin sama og þegar hefur verið gerð grein fyrir varðandi gerðarþola.

Um 29.–31. gr.

    Í þessum ákvæðum koma fram reglur um heimildir sýslumanns til valdbeitingar og notkunar þvingunarúrræða vegna mótstöðu af hendi gerðarþola, sem torveldar eða útilokar framgang gerðar. Reglur þessar heimila sýslumanni, ýmist með eða án dómsúrskurðar, að skerða frelsi gerðarþola og leggja á dagsektir, ef hann veitir ekki nauðsynlegar upplýsingar til framgangs gerðarinnar, að brjóta upp húsakynni gerðarþola eða læstar hirslur, sem aðgangur fæst ekki að með öðru móti, og að framkvæma líkamsleit á gerðarþola, ef grunur leikur á að hann geymi á sér muni, sem máli geta skipt fyrir gerðina.
    Þær heimildir, sem getið er hér á undan, eru um margt hliðstæðar þeim, sem nú gilda samkvæmt fyrirmælum 36. gr. og 2. mgr. 37. gr. aðfararlaga. Þó er umtalsverður eðlismunur hér á að einu leyti. Núgildandi reglur einkennast af því, að fógeti fer með dómsvald, og er honum í skjóli þess falið að kveða upp dómsúrskurði um þvingunarúrræði eða valdbeitingu. Reglur 29.–31. gr. einkennast hins vegar af því, að ef þörf er dómsúrskurðar til notkunar þessara úrræða, verður að afla hennar fyrir héraðsdómi, en sýslumanni er almennt ekki falið vald til ákvörðunar um þessi efni upp á sitt eindæmi í ríkara mæli en lögreglustjóri hefur til hliðstæðra aðgerða við frumrannsókn opinberra mála. Auk þess er dregið nokkuð úr þeim hörðu úrræðum, sem núgildandi lög heimila að nokkru, og er leitast við að færa þau til samræmis við almenn löggjafarviðhorf um beitingu þvingunarúrræða.
    Notkun núgildandi heimilda til valdbeitingar og þvingunar er allt að því óþekkt og er ástæðulaust að vænta annars en að hið sama muni eiga við um reglur 29.–31. gr., ef frumvarp þetta verður að lögum.
    Reglur 29.–31. gr. byggjast á sömu grundvallarreglu og núgildandi reglur aðfararlaga, að þvingunarúrræðum verði ekki beitt við aðfarargerð nema samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda og á ábyrgð hans. Er því ávallt um það að ræða í þessum efnum, að gerðarbeiðandi verður að hafa uppi kröfu um að tilteknu úrræði verði beitt, og sýslumaður verður að fallast á að lagaskilyrðum sé fullnægt til þess. Sýslumanni er ætlað að taka afstöðu til kröfu gerðarbeiðanda með ákvörðun, sem má eftir atvikum bera undir úrlausn héraðsdómara, eftir því um hvert málefni er að ræða eða hver niðurstaða sýslumanns hefur orðið.
    Í 29. gr. er mælt fyrir um úrræði við því, að gerðarþoli neiti að veita þær upplýsingar, sem sýslumaður telur óhjákvæmilegar til framgangs aðfarargerðar. Strangar kröfur verður að gera til þess, að viðkomandi upplýsinga verði ekki aflað með öðrum nærtækum hætti. Að auki verða viðkomandi upplýsingar að hafa slíka þýðingu, að gerðin geti ekki náð fram að ganga án þeirra með sama eða hliðstæðum árangri. Væri því ekki unnt að neyta úrræða þessa ákvæðis við þær aðstæður, að gerðarþoli færðist til dæmis undan að veita upplýsingar um ætlaða bifreiðaeign sína við fjárnámsgerð, ef upplýsingar væru fyrir hendi um aðra eign hans, sem gæti veitt gerðarbeiðanda nægilega tryggingu fyrir kröfu hans. Þau þvingunarúrræði, sem 29. gr. heimilar, eru verulega ólík þeim, sem 2. mgr. 37. gr. aðfararlaga kveður á um, en samkvæmt þeirri reglu má skerða frelsi gerðarþola í allt að sex mánuði, ef hann veitir ekki upplýsingar við gerð. Í 29. gr. er sýslumanni annars vegar heimilað að skerða frelsi gerðarþola án dómsúrskurðar í allt að 24 klukkustundir. Er þessi heimild m.a. ætluð til að ráðrúm gefist til athugunar á hvort háttsemi gerðarþola kunni að vera refsiverð og að fyrirbyggja að hann eigi þess kost að spilla sakargögnum eða hagsmunum gerðarbeiðanda á annan hátt, meðan sú athugun stendur yfir. Ef sýslumaður telur gerðarþola kunna að hafa gerst sekan um refsiverða háttsemi með neitun sinni um veitingu upplýsinga, er gert ráð fyrir því í 29. gr. að frekari afdrif málefnisins fari eftir almennum reglum um rannsókn opinberra mála. Sýslumanni er óheimilt að beita frekari frelsisskerðingu en þessu nemur, en að þeim tíma liðnum, sem hún má standa yfir, kann að koma til þess að gerðarþola verði gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar, sem beinist að grunsemdum um refsiverða háttsemi hans. Hitt úrræðið, sem sýslumanni er heimilt að beita skv. 29. gr., er að leggja dagsektir á gerðarþola þar til hann veitir viðkomandi upplýsingar. Tekið er fram í ákvæðinu að þessu úrræði verði ekki beitt á sama tíma og gerðarþoli sætir frelsisskerðingu skv. 1. mgr. 29. gr. Þetta bann nær aðeins til þess tímabils, sem frelsisskerðing stendur yfir á grundvelli nefnds ákvæðis, en það útilokar ekki beitingu dagsekta á eftirfarandi tímabili, sem gerðarþola kynni að vera gert að sæta gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn opinbers máls. Dagsektir skv. 2. mgr. 29. gr. eru aðfararhæfar skv. 6. tölul. 1. mgr. 1. gr., auk þess að væntanlega yrði unnt að krefjast afplánunar þeirra skv. 2. mgr. 55. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sérstaklega er tekið fram í 3. mgr. 29. gr., að úrræðum beggja undanfarandi málsgreina megi beita gagnvart fyrirsvarsmanni gerðarþola, ef aðför beinist að lögaðila.
    Eins og fram hefur komið, tekur sýslumaður ákvörðun um hvort beitt verði úrræðum 1. eða 2. mgr. 29. gr. Ef hann hafnar kröfu gerðarbeiðanda þess efnis, mætti gerðarbeiðandi bera þá ákvörðun undir héraðsdómara samkvæmt reglum 14. kafla. Gerðarþola væri heimilt að bera ákvörðun sýslumanns um að beita úrræðum þessum þegar í stað undir héraðsdómara á grundvelli 2. mgr. 85. gr., enda má telja það liggja í hlutarins eðli að því skilyrði þess ákvæðis fyrir umræddri heimild gerðarþola, að gerð hafi frestast í kjölfar ákvörðunar, hljóti að jafnaði að vera fullnægt við þessar aðstæður.
    Um fyrirmæli 29. gr. má benda á, að við endurskoðun fyrirmæla danskra réttarfarslaga um aðför á síðasta áratug var regla, sem efnislega er samhljóða 2. mgr. 37. gr. aðfararlaga, látin haldast í óbreyttri mynd. Samsvarandi kostur þótti ekki viðunandi við undirbúning þessa frumvarps.
    Í 30. gr. koma fram reglur um skilyrði fyrir því, að sýslumaður framfylgi ákvörðun sinni um að brjóta upp húsnæði gerðarþola eða læstar hirslur hans samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda. Í 31. gr. eru síðan fyrirmæli um heimildir til leitar á gerðarþola sjálfum eða fyrirsvarsmanni gerðarþola, ef aðför beinist að lögaðila. Verður ekki séð að einstök atriði þessara ákvæða þarfnist sérstakra skýringa.

Um 32. gr.

    Í fyrri málsgrein 32. gr. koma fram fyrirmæli um framlagningu gagna við aðfarargerð. Ætlast er til að gerðarbeiðandi afhendi sýslumanni aðfararbeiðni og gögn um aðfararheimild, sem sýslumaður auðkennir síðan á sama hátt og gert hefur verið til þessa við aðfarargerðir. Þá er gert ráð fyrir að bæði gerðarbeiðandi og gerðarþoli geti eftir þörfum lagt fram frekari gögn, sem varða málefnið.
    Eins og áður hefur komið fram við umfjöllun um reglu 3. mgr. 15. gr., er ætlunin að gerðarbeiðandi fái frumskjöl aftur í hendur, þegar hann hefur aflað áritunar héraðsdómara á aðfararbeiðni í þeim tilvikum, sem þess gerist þörf. Þessi sömu skjöl yrðu síðan lögð fram við framkvæmd aðfarargerðar skv. 1. mgr. 32. gr. Bæði í þeim tilvikum og þeim, þar sem aðfararbeiðni er beint til sýslumanns án undanfarandi meðferðar héraðsdómara, yrðu framlögð gögn varðveitt til frambúðar við embætti sýslumanns. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. ber að haga þeirri varðveislu eftir sömu reglum og gilda um dómskjöl í einkamálum, eftir því sem við getur átt. Tilvísun þessi á einkum við fyrirmæli 43. og 44. gr. laga nr. 85/1936.

Um 33. gr.

    Í 1. og 2. mgr. 33. gr. kemur fram að sýslumaður eigi að færa gerðabók um aðfarargerðir, þar sem nánar tiltekin atriði komi fram um framkvæmd hverrar gerðar. Í slíkri bókun ætti almennt að geta sömu atriða og nú tíðkast við framkvæmd aðfarargerða, sem ekki er ástæða til að tíunda frekar. Rétt er þó að vekja athygli á að ætlast er til að í bókun komi fram um allar ákvarðanir, sem sýslumaður hefur beinlínis orðið að taka vegna sérstakra krafna, mótmæla eða athugasemda málsaðila, sbr. 1. mgr. 86. gr. Í 1. mgr. 33. gr. er heimilað að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um form gerðabókar. Með þessu er reynt að einfalda möguleika á að hægt verði að hagnýta þróun í aðferðum við tölvuskráningu upplýsinga, sem sýnist vel geta komið til álita um bókanir sem þessar, en lögfesting beinna reglna um þetta er bæði óþörf og gæti staðið hagræðingu fyrir þrifum síðar.
    Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. á sýslumaður annaðhvort að lesa bókun sína frá orði til orðs fyrir þá, sem staddir eru við gerð, eða að kynna þeim efni hennar á þann hátt, sem þeir telja nægja. Gert er ráð fyrir að málsaðilar, sem viðstaddir eru, undirriti bókunina með sýslumanni, en neitun málsaðila um það hefði ekki önnur áhrif en að nauðsyn bæri til að vottur væri til staðar, sem gæti staðfest með undirskrift sinni undir bókun að málsaðilar hafi ekki haft uppi efnislegar athugasemdir um hana.

Um 34. gr.

    Í fyrri málsgrein þessa ákvæðis kemur sú regla fram, að ekki þurfi að hafa vott við aðfarargerð, ef hún fer fram á starfstofu sýslumanns, mætt er af hálfu gerðarþola og viðstaddir rita allir undir bókun sýslumanns. Ef einu eða fleirum af þessum skilyrðum er hins vegar ófullnægt, kemur fram í 2. mgr. að sýslumaður eigi að hlutast til um að vottur sé viðstaddur, a.m.k. þegar bókun um gerðina er kynnt málsaðilum, og að hann riti nafn sitt undir hana. Er mælt svo fyrir að votturinn verði að fullnægja hæfisskilyrðum til að vera vottur á dómþingi í einkamáli milli sömu málsaðila, en sú tilvísun á við 41. gr. laga nr. 85/1936. Ekki er kveðið sérstaklega á um tilkall votts til þóknunar fyrir ómak sitt, enda er hér gert ráð fyrir að starfsmenn sýslumanns á föstum launum gegni þessu hlutverki, ef með þarf. Ef utanaðkomandi maður væri hins vegar kvaddur til þessa hlutverks, væri sýslumanni rétt að ákveða honum þóknun, sem gerðarbeiðandi yrði að greiða um sinn með öðrum kostnaði af gerðinni.

Um 35. gr.

    Samkvæmt 2. tölul. 29. gr. laga nr. 85/1936 má sá, sem framkvæmir aðför samkvæmt núgildandi lögum, vinna embættisverk vegna gerðar utan lögsagnarumdæmis síns. Regla þessi er bundin við héraðsdómara og kæmi því ekki að haldi við framkvæmd aðfarar, ef frumvarp þetta verður að lögum. Af þeim sökum er í fyrri málsgrein 35. gr. sett sérstök heimild til að sýslumaður megi ljúka aðför utan umdæmis síns, ef hún hefur byrjað réttilega innan marka þess, en með síðastgreindum ummælum er átt við að heimild hafi verið fyrir að byrja gerðina í umdæmi viðkomandi sýslumanns samkvæmt reglum 1. mgr. 16. gr. Heimild þessi er nokkuð víðtækari en ætla má að rétt sé að skýra núgildandi heimild laga nr. 85/1936, hvað aðfarargerðir varðar, en tillaga er gerð um rýmri heimild að þessu leyti til hagræðis og einföldunar í framkvæmd.
    Auk þess skilyrðis, sem þegar hefur verið nefnt fyrir að sýslumaður ljúki gerð utan umdæmis síns, er kveðið á um það í 1. mgr. 35. gr. að þetta skuli aðeins gert eftir kröfu gerðarbeiðanda og að þetta megi ekki leiða til teljandi kostnaðarauka fyrir gerðarþola, nema nauðsyn beri til að hafa þennan hátt á, án tillits til kostnaðar, í ljósi atvika. Síðastgreindu skilyrði yrði tæpast fullnægt nema mjög óvenjulegar aðstæður kæmu til, t.d. að gerðarþoli forði sér úr umdæmi rétt fyrir byrjun gerðar eða meðan á henni stæði og ekki væri talið unnt að ljúka henni án viðveru hans. Sýslumanni er falið ákvörðunarvald um hvort skilyrðum 1. mgr. 35. gr. sé fullnægt, Ef þessi heimild er nýtt, hefur gerðin sömu áhrif að lögum og ef henni hefði verið lokið innan umdæmis viðkomandi sýslumanns.
    Eins og áður hefur komið fram í skýringum við 19. gr., gilda ákveðnar reglur um það, í hverri röð sýslumanni ber að sinna framkomnum aðfararbeiðnum á hendur sama gerðarþola. Þessar reglur geta haft í för með sér að gerðarbeiðandi þurfi að bíða eftir að aðför sé gerð eftir fleiri en einni beiðni, sem hafa komið fram á undan beiðni hans, áður en henni verður sinnt. Möguleikar eru fyrir því eftir reglum 1. mgr. 16. gr. að aðfararbeiðni geti talist réttilega framkomin í fleiru en einu umdæmi. Sú aðstaða, sem hér á undan er lýst, gæti kallað á misnotkun gerðarbeiðanda á heimildum 1. mgr. 16. gr., í þeirri viðleitni að komast fram fyrir aðra í röð gerðarbeiðenda. Meðal annars til að draga úr hættu á þeirri misnotkun, er mælt fyrir um það í 3. málsl. 1. mgr. 35. gr., að réttur gerðarbeiðanda, sem farið hefur með sýslumanni yfir í annað umdæmi, skuli þoka fyrir rétti þeirra, sem síðar gera aðför í sama verðmæti, ef aðfararbeiðni þeirra hefur áður verið móttekin í því umdæmi, þar sem gerðinni var lokið.
    Í síðari málsgrein 35. gr. koma fram reglur um hvernig staðið verði að færslu gerðar milli umdæma, ef heimildar fyrri málsgreinar ákvæðisins hefur ekki verið neytt. Reglur ákvæðisins um verklag í þessum efnum skýra sig sjálfar, en rétt er að vekja sérstaka athygli hér á því, að regla 2. mgr. 51. gr. dregur mjög verulega úr þörf á að gerð sé flutt milli umdæma frá því, sem leiðir af núgildandi reglum.


Um 36. gr.

    Ákvæði þetta er hið fyrsta í 6. kafla frumvarpsins, en í honum er fjallað um þau verðmæti, sem taka má fjárnámi.
    Í 1. mgr. þessa ákvæðis kemur sú meginregla fram, að gera megi fjárnám til fullnustu peningakröfu í eignum, sem nægja til greiðslu hennar og tilheyra gerðarþola eða öðrum, sem sjálfur býður eignir sínar fram til fjárnáms fyrir kröfunni. Eins og áður hefur verið skýrt, er hugtakið fjárnám notað samkvæmt venju í frumvarpi þessu til að tákna aðfarargerð, sem fram fer til að fá tryggingu fyrir peningakröfu eða til að ná greiðslu hennar með reiðufé. Það hefur einnig verið skýrt áður, að í frumvarpinu er lagt til að þær gerðir, sem til þessa hafa talist til lögtaksgerða, verði hér eftir einnig taldar til fjárnámsgerða. Reglur um andlag fjárnáms hafa verulega þýðingu, því með þeim er tekin afstaða til þess, hver verðmæti gerðarþola verði tekin af honum eða heft með veðböndum til að fullnægja peningakröfu gerðarbeiðanda.
    Í upphafi 1. mgr. 36. gr. er kveðið á um að fjárnám verði gert í eignum gerðarþola, sem nægja til greiðslu kröfu gerðarbeiðanda. Í þessu felst tvíþætt regla, annars vegar að eignirnar eða réttindin, sem fjárnám er gert í, skuli tilheyra gerðarþola, og hins vegar að eignirnar séu í senn nægilegar fyrir kröfunni og að þeim sé ekki ofaukið fyrir henni. Margháttaða fyrirvara verður þó að gera um þessa grundvallarreglu, sem lýsir aðeins meginkjarna reglna um andlag fjárnáms, því bæði kemur nánari fylling hennar fram í öðrum reglum frumvarpsins og takmarkanir á henni. Fjölmargar reglur 6. kafla mæla fyrir um eignir, sem ýmist má ekki taka fjárnámi eða sem gerðarþoli má undanþiggja. Hliðstæð fyrirmæli koma einnig fram í öðrum lögum, sem mundu gilda eftir sem áður, ef frumvarp þetta yrði að lögum. Takmarkast því framangreind meginregla 1. mgr. 36. gr. af slíku. Þá raskast þessi meginregla einnig af fyrirmælum í niðurlagi þessa sama ákvæðis, sem er í samræmi við ríkjandi framkvæmd og felur í sér að það megi ekki aðeins taka eignir gerðarþolans sjálfs fjárnámi, heldur einnig eignir annarra, sem vilja bjóða þær fram til fjárnáms.
    Eins og hér á undan segir, felst í meginreglu 1. mgr. 36. gr. að fjárnám verði almennt aðeins gert í eign, sem tilheyrir gerðarþola. Ekki liggja ávallt fyrir skráðar heimildir um hver eigi tiltekna hluti eða réttindi. Vandamál geta risið við aðför, ef hlutur blasir við eða vitneskja liggur fyrir um annars konar réttindi, en skráðar heimildir kveða ekki á um eignarréttindi yfir viðkomandi gæðum. Augljóst má vera að verulegum vandkvæðum væri bundið, ef ætlast yrði til að gerðarbeiðandi þyrfti að sanna eignarhald gerðarþola að munum, sem hverju sinni kæmu til álita við fjárnám. Af þeim sökum er hér líkt og í gildandi rétti byggt á tilvist þeirrar líkindareglu um þessar aðstæður, að vörslur gerðarþola á hlut eða umráð hans yfir honum gefi að fyrra bragði til kynna eignarrétt hans, nema annað sannist eða megi ráða af skráðum heimildum.
    Í 1. mgr. 36. gr. segir að fjárnám skuli gert í eignum, sem nægja til greiðslu viðkomandi kröfu. Heildarfjárhæð kröfu ræðst af reglu 2. mgr. 1. gr., þar sem fram kemur fyrir hverjum liðum megi gera fjárnám, auk þess að sérreglur koma fram um ákvörðun kostnaðar af gerð, sem hér teldist einnig með og fjárnám mætti gera fyrir. Mat á því, hversu miklar eignir þurfi að taka fjárnámi fyrir tiltekinni kröfu, er framkvæmt eftir reglum, sem koma fram í 38. gr.
    Í 2. mgr. 36. gr. er sett sú regla, að sýslumaður eigi að ákveða við gerðina fyrir hverjum kostnaði gerðarbeiðanda fjárnám verður gert. Er hér miðað við að sýslumaður ákveði ekki aðeins kostnað af framkvæmd gerðarinnar sjálfrar, heldur einnig að hann ákveði innheimtukostnað gerðarbeiðanda og aðra tilfallna liði, sem afstaða hefur ekki áður verið tekin til í dómsúrlausn eða annarri aðfararheimild. Þessari ákvörðun verða málsaðilar báðir að hlíta að minnsta kosti um sinn, hvað umfang fjárnámsgerðar varðar, en um þetta væri unnt að fá úrlausn héraðsdómara eftir reglum 14. eða 15. kafla eða að fá leyst úr því í tengslum við nauðungarsölu hins fjárnumda eða í almennu dómsmáli. Ágreiningur um kostnað yrði ekki til að hefta heimildir gerðarbeiðanda til að nýta sér réttindi á grundvelli fjárnáms vegna óumdeildra atriða, sbr. 2. mgr. 54. gr.
    Þótt regla um ákvörðun sýslumanns á kostnaði af aðfarargerð komi fram í 6. kafla frumvarpsins, sem fjallar um andlag fjárnáms, tekur hún einnig til ákvörðunar kostnaðar af gerðum, sem að meginefni taka til annars en efnda á peningakröfu. Eins og áður hefur verið minnst á, má taka kostnað af slíkri gerð fjárnámi samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda, samhliða því að meginskyldu gerðarþola verði fullnægt. Lýtur slíkt fylgifjárnám almennum reglum III. þáttar, þar á meðal reglu 2. mgr. 36. gr.

Um 37. gr.

    Í fyrri málsgrein 37. gr. kemur fram almenn regla um að fjárnám megi gera í peningum gerðarþola, fasteign hans eða lausafé, kröfuréttindum hans eða öðrum réttindum. Þessi atriði afmarkast öll nánar af öðrum fyrirmælum frumvarpsins og eru því nánast til yfirlits um meginefni annarra ákvæða. Í 1. mgr. 37. gr. koma hins vegar fram fleiri atriði, sem hafa verulega sjálfstæða þýðingu. Í fyrsta lagi segir að fjárnám verði gert í umræddum eignum, sem hafa fjárhagslegt gildi. Af þessu ber að gagnálykta að eign, sem víst er að ekkert sé unnt að fá fyrir, verði ekki tekin fjárnámi. Í öðru lagi segir að fjárnám verði gert í áðurtöldum eignum, sem unnt er að tilgreina nægilega. Í þessu felst einkum það skilyrði, að viðkomandi verðmæti séu þess eðlis að hægt sé að afmarka þau nægilega til að öðrum verði ljóst um hvað ræði. Hér er þó einnig fólgin ábending um að ljóst þurfi að vera í hverju fjárnám er gert, svo sem áréttað er nánar í upphafi 1. mgr. 51. gr. Í þriðja lagi kemur fram í 1. mgr. 37. gr. að fjárnám verði aðeins gert í réttindum, sem fengin eru, þegar það fer fram. Í þessu felst almenn regla um að fjárnám verði ekki gert í gæðum, sem gerðarþoli hefur ekki enn öðlast tilkall til. Beint bann víð slíkum ráðstöfunum má finna í ákvæðum ýmissa sérlaga, auk þess að ýmsar reglur 6. kafla taka til þessa atriðis.
    Í 2. mgr. 37. gr. er líkt og í 2. mgr. 20. gr. aðfararlaga tekið fram til áréttingar, að fjárnám megi gera í eign, þótt veðréttindi, kvaðir eða önnur samsvarandi höft hvíli þegar á henni. Í reglu þessari felst sá sjálfgefni áskilnaður, að eldri réttindi gangi fyrir fjárnáminu, ef almennar reglur leiða til að þau teljist njóta verndar fyrir því.

Um 38. gr.

    Í 1. mgr. 38. gr. er kveðið á um að ekki skuli taka meira fjárnámi en það, sem sýslumaður telur að muni nægja fyrir kröfu gerðarbeiðanda. Í þessu felst öðrum þræði tilvísun til þeirrar meginreglu, sem áður var nefnd, að ekki eigi að taka meira fjárnámi en til þarf. Meginatriði þessarar reglu er þó það, að með henni er lagt til að afnema þá tilhögun 1. mgr. 19. gr. aðfararlaga, að virðingarmenn þurfi að meta eign í þessu skyni, nema málsaðilar telji það óþarft, og í hennar stað að fela sýslumanni að leggja almennt mat á hvort eign sé hæfileg til fjárnáms og láta við það sitja, nema gefið sé tilefni til annars, sbr. 2. og 3. mgr. 38. gr. Þessi breyting er í samræmi við ríkjandi framkvæmd, þar sem virðingargerðir heyra til undantekninga.
    Í 2. mgr. 38. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður verðleggi eign sérstaklega, ef málsaðili er í vafa um verðmæti hennar. Þetta yrði aðeins gert að gefnu tilefni frá málsaðila. Við verðlagningu ber að taka mið af því, hvað sýslumaður telji að muni fást fyrir viðkomandi eign við nauðungarsölu, að frádregnum kostnaði af sölunni og að teknu tilliti til krafna. sem rétthærri veðhafar en gerðarbeiðandi gætu gert í söluandvirði eignarinnar. Í þessari reglu er gert ráð fyrir að sérstök verðlagning heyri til undantekninga, en ef hennar gerist þörf, sé meginreglan að sýslumaður annist hana. Aðstæður geta hins vegar verið þær, að um eign sé að tefla, sem ekki verður ætlast til að sýslumaður hafi þekkingu til að verðleggja. Af þeim sökum er gert ráð fyrir sérstakri heimild í 3. mgr. 38. gr. til að sýslumaður geti kvatt til einn eða tvo sérfróða menn um verðlag á slíkum hlutum, sem um er að ræða, og falið þeim að virða eign gerðarþola. Ekki er ætlast til að þessi leið verði farin, nema sérþekkingar sé þörf, og þetta verður aðeins gert að kröfu málsaðila. Sérstök ástæða er til að ítreka það í ljósi ríkjandi framkvæmdarvenju, að hér má einungis kveðja til sérfróða menn til að framkvæma mat.
    Reglur 38. gr. eru settar fram með þeim hætti, að einungis er ætlast til að ein þeirra leiða, sem hún heimilar, verði notuð hverju sinni. Málsaðilar verða að láta það í ljós áður en fjárnám er gert í ákveðnum hlut, hvort þeir telji þörf á verðlagningu hans, og ef svo er, hvort sýslumaður eigi að annast það verk eða sérfróðir menn. Hér er því ekki um heimild að ræða til endurskoðunar á fyrri niðurstöðu eða einhvers kyns yfirmats, heldur ber að hlíta þeirri leið, sem valin er í upphafi.
    Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. má ýmist kveðja til einn eða tvo sérfróða virðingarmenn til að verðleggja eign gerðarþola. Við ákvörðun um fjölda virðingarmanna má hafa hliðsjón af reglu 1. mgr. 137. gr. laga nr. 85/1936, sbr. lög nr. 54/1988. Rétt væri einnig að taka tillit til álits málsaðila um þetta.
    Telja má að önnur atriði 38. gr., en nú hafa verið nefnd, skýri sig sjálf.

Um 39. gr.

    Í þessu ákvæði koma fram reglur um svonefndan ábendingarrétt, en fyrirmæli um þetta efni koma nú fram í 24. og 25. gr. aðfararlaga. Með ábendingarrétti er nánar tiltekið átt við það, hver hafi heimild til að ráða hvaða eign verði tekin fjárnámi, ef fleiri kostir en einn standa til boða. Með sama hætti og nú gildir, er gert ráð fyrir þeirri meginreglu í 1. mgr. 39. gr. að gerðarþoli eða málsvari hans eigi ábendingarrétt, en á þessu eru þó takmarkanir. Bæði er að gerðarbeiðandi getur hafnað ábendingu gerðarþola, þannig að hann verði öðru sinni að vísa á eign, og einnig getur gerðarbeiðandi sjálfur átt réttinn til ábendingar, ef gerðarþoli notar ekki sinn rétt. Ef litið er fyrst til þeirra tilvika, þar sem gerðarbeiðandi getur hafnað ábendingu gerðarþola, kemur í fyrsta lagi fram sú regla í 1. mgr. 39. gr., að gerðarbeiðandi geti hafnað fjárnámi í eign, sem ekki er metin nægileg trygging fyrir kröfu hans. Í öðru lagi leiðir af fyrirmælum 2. mgr. 39. gr., að gerðarbeiðandi má hafna ábendingu gerðarþola, ef hann bendir á annað en fyrirliggjandi peningaeign, hvort sem hún nægir fyrir kröfunni allri eða einungis hluta hennar. Frá þessu eru þó undantekningar samkvæmt fyrirmælum 41. gr. Í þriðja lagi þarf gerðarbeiðandi ekki að hlíta ábendingu gerðarþola, ef hann á þegar veð eða önnur tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í tiltekinni eign gerðarþola. Getur gerðarþoli því ekki, þegar svo stendur á, bundið gerðarbeiðanda með ábendingu á aðra eign en þá veðsettu, sbr. 3. mgr. 39. gr. Í fjórða lagi þarf gerðarbeiðandi ekki að hlíta ábendingu gerðarþola á fasteign, á eign, sem aðrir eiga veð eða tryggingarréttindi í, á eign. sem hefur óvisst verðgildi eða á eign, sem erfitt væri að selja eða varðveita. Fyrirvari er þó gerður um þennan síðastnefnda rétt gerðarbeiðanda í 4. mgr. 39. gr., sem hefur í för með sér að hann geti ekki hafnað fjárnámi í eign, sem eitthvað framangreint á við um, ef hún nægir til tryggingar og engin önnur eign stendur til boða.
    Ef gerðarþoli eða málsvari hans vill ekki eða getur ekki bent á eignir til fjárnáms, er kveðið á um ábendingarrétt gerðarbeiðanda í 5. mgr. 39. gr. Gerðarbeiðandi á sama rétt, þegar enginn er staddur við gerðina af hálfu gerðarþola, ef heimilt er allt að einu að ljúka gerðinni, sbr. 1. og 3. mgr. 24. gr. Notkun á þessum rétti er að sjálfsögðu háð því skilyrði, að gerðarbeiðanda sé kunnugt um eign, sem taka má fjárnámi. Hann verður almennt ekki krafinn um sönnur fyrir eignarrétti gerðarþola að þeirri eign, sem hann kýs að benda á, nema að gefnu tilefni frá málsaðila. Fjárnám yrði að jafnaði gert í eign í ljósi þess almenna áskilnaðar, að gerðarbeiðandi öðlist ekki ríkari rétt til eignar en gerðarþoli átti sjálfur. Sýslumanni er þó ekki heimilt að fara fortakslaust að ábendingu gerðarbeiðanda, ef gerðarþoli er ekki viðstaddur eða málsvari hans, því honum ber að gæta að því af sjálfsdáðum að fjárnám verði fyrst gert í munum, sem má ætla að gerðarþoli eða heimilismenn hans geti helst verið án, eins og segir í niðurlagi 5. mgr. 39. gr.

Um 40. gr.

    Í þessu ákvæði er mælt fyrir um rétt gerðarþola, sem með nokkru tengist ábendingarrétti hans, en samkvæmt því getur gerðarbeiðandi ekki færst undan því við aðför að gerðarþoli lýsi yfir skuldajöfnuði við hann með gagnkröfu, að nánari skilyrðum uppfylltum. Gerðarþoli getur skuldajafnað við kröfu gerðarbeiðanda, hvort sem skuldajöfnuðurinn nægir aðeins móti hluta kröfunnar eða fyrir henni allri. Ef skilyrði eru fyrir skuldajöfnuði. felst í honum greiðsla á kröfu gerðarbeiðanda, að hluta eða með öllu, og kemur því ekki til aðfarar að því leyti, sem greiðslan hrekkur til.
    Eitt helsta skilyrði 40. gr. fyrir rétti gerðarþola til skuldajafnaðar er að krafa hans á hendur gerðarbeiðanda sé orðin aðfararhæf. Nægir því ekki í þessum efnum að gerðarþoli eigi til dæmis gjaldfallna víxilkröfu á hendur gerðarbeiðanda, því frekari aðgerða er þörf, áður en krafan er orðin aðfararhæf í þessum skilningi. Krafa gerðarþola verður því með öðrum orðum að vera þeim eiginleikum gædd, að hann mætti þegar krefjast aðfarar fyrir henni, ef því væri að skipta. Þetta skilyrði er þó ekki fortakslaust, því ef gerðarbeiðandi viðurkennir að krafa gerðarþola sé rétt, þótt ekki mætti enn gera aðför fyrir henni, þá nýtur gerðarþoli sama réttar til skuldajafnaðar.
    Þótt öðru framangreindra skilyrða sé fullnægt, nægir það ekki til að gerðarþoli geti knúið fram skuldajöfnuð gegn andmælum gerðarbeiðanda. Samkvæmt 40. gr. er þessi réttur gerðarþola að auki háður því, að almennum skilyrðum skuldajafnaðar sé fullnægt. Þessi tilvísun á einkum við almennar reglur kröfuréttar, sem ekki er ástæða til að rekja hér nánar.

Um 41. gr.

    Í upphafi 41. gr. kemur sú almenna regla fram, að fjárnám megi gera í peningaeign gerðarþola, sem takmarkast aðeins af tilteknum undanþágum samkvæmt talningu ákvæðisins. Eins og áður hefur komið fram í athugasemdum við 39. gr., getur gerðarþoli almennt ekki færst undan að fjárnám verði gert í peningaeign hans. Með peningaeign er hér ekki aðeins átt við peningaseðla eða aðra innlenda eða erlenda gjaldgenga mynt, sem kann að finnast í fórum gerðarþola, heldur einnig sambærileg verðmæti, t.d. óinnleystan tékka, innstæðu á bankareikningi o.fl. Ef peningaeign er tekin fjárnámi, felst almennt greiðsla í þeirri aðgerð, þar sem meginregla 55. gr. kveður á um að peningar skuli þegar afhentir gerðarbeiðanda í því skyni. Ef þannig tekst til, fæst fullnusta skyldu gerðarþola við fjárnámsgerð, og er ekki þörf frekari ráðstafana í því skyni.
    Undanþágur eru sem fyrr segir frá þeirri reglu, að peningar verði teknir fjárnámi, og eru þær taldar í 1.–3. tölul. 1. mgr. 41. gr. Sú fyrsta þeirra kveður á um að fjárnám verði ekki gert í peningaeign, sem komin er til með fyrirframgreiðslu framfærslufjár með gerðarþola, ef féð er sérgreint í vörslum hans og sá tími er ekki enn kominn, sem fénu er ætlað honum til framfærslu. Hér er hugað að þeim aðstæðum, að framfærslufúlga hafi verið greidd gerðarþola fyrir aðförina og að féð liggi í heild eða að hluta fyrir í formi peninga, sem hafa ekki blandast við annað fé hans. Að því leyti, sem slíkir peningar voru greiddir til að framfæra gerðarþola á tilteknu og ókomnu tímabili, teljast þeir undanþegnir fjárnámi. Ef gerðarþoli á hins vegar eftirstöðvar framfærslufjár, sem hann fékk til nota á liðnu tímabili, njóta þær ekki verndar við fjárnám. Með reglu þessari er leitast við að sporna við að gerðarbeiðandi hafi hag af því, að gerðarþoli hafi fengið í einu lagi greiðslu framfærslufjár, sem ætlast hefur verið til að sjái fyrir honum á ókomnum tíma. Í öðru lagi er gerð undantekning um bætur, sem gerðarþoli hefur fengið greiddar í einu lagi vegna örorkutjóns eða missi framfæranda. Samsvarandi skilsmunur er hér gerður og um framfærslufé milli bótafjár, sem ætlað er að framfæra gerðarþola á ókomnu tímabili og er því undanþegið fjárnámi, og fjár, sem snýr að þegar liðnu tímabili og taka má fjárnámi. Loks er í þriðja lagi mælt fyrir um undantekningu peningaeignar, sem gerðarþoli þarf á að halda um skamman tíma til að framfæra sig og þá, sem hann er framfærsluskyldur við. Með því orðalagi 3. tölul. 1. mgr. 41. gr., að gerðarþoli þarfnist fjárins til framfærslu „um skamman tíma“, er ráðgert að lengd framfærslutímans verði miðuð við þann dag, sem gerðarþoli má næst vænta launaútborgunar eða annarrar greiðslu til þessara þarfa. Yrði að ákvarða fjárhæð, sem hæfileg yrði talin til daglegra framfærsluútgjalda á tímabilinu. Að auki yrði rétt að taka tillit í þessum efnum til væntanlegra útgjalda gerðarþola á tímabilinu af greiðslu húsaleigu, orkukostnaðar og annars sambærilegs, sem telja verður að gerðarþoli þurfi að eiga fyrir til að fyrirbyggja tilfinnanleg velferðarspjöll. Fjárhæð, sem gerðarþoli mætti halda undan fjárnámi í þessu skyni, yrði ekki reiknuð af teljandi nákvæmni, en hafa ætti að leiðarljósi að ofætla hana fremur en að vanætla.
    Í 2. mgr. 41. gr. kemur fram regla til að taka af tvímæli um að eignir, sem gerðarþoli hefur fest kaup á með fyrirframgreiddu framfærslufé eða bótafé, séu ekki undanskildar fjárnámi, þótt peningaeign, þannig komin til, hefði getað verið það. Í ákvæðinu er nefnt að undanþága 1. mgr. 41. gr. geti ekki náð til fasteigna, lausafjár og annarra sambærilegra eigna, sem keyptar hafa verið með umræddum fjármunum. Þessa reglu verður að skýra í ljósi tilgangs 1. mgr. 41. gr., en eins og áður var nefnt, er þar reynt að koma í veg fyrir að gerðarþoli missi nauðsynlega fjármuni, sem hann hefur fengið fyrirframgreidda til að standa straum að framfærslukostnaði. Ráðstöfun á slíkri fyrirframgreiðslu til kaupa á innanstokksmunum eða húsnæði samrýmist ekki tilgangi hennar eða undanþágunnar, sem til hennar tekur. Á hinn bóginn verður ekki ætlast til að fé sem þetta verði nauðsynlega að vera varðveitt í peningaseðlum eða á bankareikningi, því allt eins má umbera gerðarþola að féð sé varðveitt í formi verðtryggðra spariskírteina eða á annan álíka hátt. Kæmi því til álita að beita undanþágu 1. mgr. 41. gr. um slíka eign.
    Í upphafi 1. mgr. 41. gr. kemur fram að peningaeign sé undanþegin aðför, ef atvik 1., 2. eða 3. tölul. eiga sannanlega við um hana. Felur þetta í sér að gerðarþoli verður að geta sýnt fram á að peningaeign hafi orðið til af umræddum ástæðum og verður hann að bera halla af sönnunarskorti í þeim efnum.
    Í 3. mgr. 41. gr. kemur fram að gerðarþoli megi benda á peningaeign til fjárnáms, þótt reglur 1.–3. tölul. 1. mgr. gætu átt við um hana. Er þetta eðlilegt í ljósi þess að undanþágurnar eru gerðar af tilliti til hagsmuna gerðarþola og má honum því vera frjálst að afsala sér þessari vernd.

Um 42. gr.

    Í fyrri málsgrein þessa ákvæðis kemur fram regla til að taka af tvímæli um það, að hverju marki fjárnám í fasteign, skipi eða loftfari telst ná til fylgifjár slíkra eigna, ef afstaða er ekki tekin til þess álitaefnis í gerðinni sjálfri. Sú regla, sem hér er lögð til, er í samræmi við það, sem hingað til hefur þótt gilda um þetta í framkvæmd.
    Í seinni málsgrein 42. gr. eru reistar skorður við að fjárnám verði einungis gert í fylgifé þeirra eigna, sem hér á undan voru taldar. Þær takmarkanir, sem hér koma fram, eru settar af tilliti til hagsmuna annarra en gerðarbeiðanda, sem eiga veð eða önnur tryggingarréttindi í viðkomandi eign með fylgifé hennar. Í þessum efnum verður að hafa í huga að fylgifé getur verið nauðsynlegt til viðhalds eignar og hún þannig tapað verðgildi sínu svo um muni, ef fylgiféð yrði ekki til óheftra nota í þessu skyni. Til hliðsjónar má hér benda á reglu 2. mgr. 53. gr., sem lögð er til af sömu ástæðu og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Um 43. gr.

    Í þessu ákvæði er að finna reglur um lausafjármuni, sem ýmist eru alfarið undanþegnir fjárnámi eða sem gerðarþola er heimilt að undanskilja.
    Núgildandi reglur um þetta efni koma fram í 27. gr. aðfararlaga, eins og henni var breytt með lögum nr. 11/1966. Samkvæmt því ákvæði má ekki gera fjárnám í rúmi, sængurfötum, líni eða íverufötum. Þá er gerðarþola heimilt að undanskilja muni fjárnámi, ef hann á fyrir heimili að sjá, upp að tilteknu virðingarverði. Umfang þessa undanþáguréttar er háð fjölskyldustærð gerðarþola, eða frá 20 kr., ef um einstakling er að ræða, til 100 kr., ef gerðarþoli hefur fyrir fjölskyldu að sjá, en þá bætast við 20 kr. fyrir hvert barn á „skylduframfæri“ hans. Ef fjárhæðir þessar eru framreiknaðar með vísitölu frá fyrrgreindri lagabreytingu, mun þessi svonefndi frátökuréttur gerðarþola nema á þriðja tug þúsunda, ef hann hefur fyrir fjölskyldu að sjá. Umdeilt hefur hins vegar verið, hvort heimilt sé gagnvart gerðarbeiðanda að beita framreikningi, enda engin lagafyrirmæli þar að lútandi. Í framkvæmd er sárasjaldgæft að farið sé bókstaflega eftir fyrirmælum aðfararlaga í þessum efnum, með því að virða lausafjármuni og láta síðan gerðarþola velja muni til frátöku, heldur er almennt látið við það sitja að taka af skarið um hvort fjárnám megi yfirleitt gera í heimilis- eða innanstokksmunum með lauslegu yfirliti. Sú leið er þó háð velvilja gerðarbeiðanda og er miklu rýmri en beiting frátökuréttar yrði.
    Í 43. gr. eru gerðar tillögur, sem miða að verulegri rýmkun frá framangreindum lagareglum um undanþágu lausafjármuna frá fjárnámi. Hvað innanstokksmuni varðar, eru fyrirmæli 1. mgr. um margt samsvörun við áðurlýst verklag í framkvæmd. Þá er í 2. mgr. að finna heimildir gerðarþola til að undanþiggja frekari muni frá fjárnámi, en þær reglur eiga sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum. Þær reglur, sem hér eru lagðar til, svara mjög til danskra reglna um sama efni, eins og þeim var breytt á árinu 1976.
    Í 1. mgr. 43. gr. kemur fram regla, sem leggur bann við að fjárnám verði gert í lausafjármunum, sem eru nauðsynlegir gerðarþola og heimilismönnum hans til að „halda látlaust heimili með þeim hætti, sem almennt gerist“, eins og segir í ákvæðinu. Hér er því lagt til að hverfa frá þeirri tilhögun núgildandi reglna, að undanskilja muni sem þessa að tilteknu andvirði. Að auki felst í reglunni bann við fjárnámi í munum þessum, gagnstætt því að núgildandi reglur heimila gerðarþola að undanþiggja muni. Sú viðmiðun, sem ákvæðið leggur til grundvallar um undanþágu og felst í framangreindri tilvitnun til þess, kann að virðist óákveðin við fyrstu sýn. Hér er merkingarlega um hið sama að ræða og tiltekið er í 1. mgr. 509. gr. danskra réttarfarslaga með þeim ummælum, að munir séu undanþegnir, sem nauðsynlegir eru „til opretholdelse af et beskedent hjem“. Þessi regla hefur þótt gefast sérlega vel í framkvæmd þar í landi. Kostir hennar felast ekki síst í þeim sveigjanleika, sem hún veitir, bæði til að taka tillit til aðstæðna í hverju tilviki og til að aðlaga viðmiðun í þessum efnum að breytingum, sem verða á almennum lífskjörum og viðhorfum um muni, sem hverjum er nauðsyn að eiga aðgang að. Þessi leið getur átt sérlega vel við hér á landi, þar sem töluleg viðmiðun er óæskileg vegna örra verðlagsbreytinga og ekki síður í ljósi stökkbreytinga í almennum lífskjörum, sem valda meðal annars að hlutir, sem á tilteknu tímamarki töldust til munaðarvöru, komast í eigu alls þorra almennings og þykja ómissandi til heimilishalds. Þarf ekki að líta lengra aftur um aðstæður þessar í þróun hér á landi en til útbreiðslu ýmissa raftækja, t.d. sjónvarpstækja.
    Við ákvörðun undanþágu á grundvelli 1. mgr. 43. gr. verður að hafa í huga, að það samrýmist ekki orðið almennri réttarvitund að gengið sé svo nærri gerðarþola, að teknir verði af honum munir, sem að jafnaði teljast nauðsynlegir til almenns heimilishalds. Gerðarbeiðandi getur tæpast haft hagsmuni af að fá fjárnám í heimilismunum og fá þá selda á nauðungaruppboði fyrir verð, sem vart fer fram úr kostnaði af aðgerðum í því sambandi, á sama tíma og vöntun þeirra veldur gerðarþola erfiðleikum og jafnvel velferðarspjöllum. Út frá þessum viðhorfum verður að gefa sér, að ákveðnir munir fyrirfinnast að jafnaði og þyki sjálfsagðir á hverju heimili, og að þetta séu þeir munir, sem stefnt er að með 1. mgr. 43. gr. að verði látnir óáreittir við fjárnám. Í fyrirmælum 1. mgr. 43. gr. er þessi undanþága bundin viðmiðun við „látlaust heimili“. Liggur í þessum ummælum að undanþágan tekur ekki til munaðarvöru, heldur aðeins þess, sem reikna má með að finnist fyrir á íburðarlausu heimili.
    Með tilhögun 1. mgr. 43. gr. er eftirlátið réttarframkvæmd að móta venjur um það, hverja muni megi telja tilheyra látlausu heimili í almennum skilningi á hverjum tíma og njóta þannig undanþágu frá fjárnámi. Ber að leggja áherslu á, að nauðsynlegt er að slíkar venjur staðni ekki, heldur verða þær að þróast með breyttum heimilisháttum og lífskjörum almennings.
    Ef telja ætti til nánari afmörkunar, hvað haft hefur verið í huga við samningu þessa frumvarps að telja eigi til látlauss heimilis, má í stuttu máli nefna að fjárnám yrði ekki gert eftir þessari viðmiðun í rúmum, sængurfötum eða fatnaði, fremur en 1. mgr. 27. gr. aðfararlaga heimilar nú. Einfalda skartgripi, úr, klukkur og fleira slíkt, sem eru til persónulegra nota, yrði einnig að telja bannað að taka fjárnámi. Bann 1. mgr. 43. gr. tæki einnig yfir mataráhöld og flest ef ekki öll almenn áhöld og raftæki til matreiðslu og varðveislu matvæla. Einnig tæki það til þvottavéla og annars samsvarandi búnaðar til þrifnaðar, og einfaldra heimilisverkfæra. Bannið tæki og til íburðarlítilla húsgagna, t.d. stóla, sófa og tilheyrandi borða, borðstofuhúsgagna, skrifborða, skápa og hillna, auk rafljósa, svonefnds heimilisbókasafns, ódýrra málverka eða mynda og ýmissa skraut- eða nytjasmámuna. Sjónvarpstæki, hvort sem er í litum regnboga eða sauða, er tvímælalaust til á hverju látlausu heimili, auk útvarpstækja og einfaldra hljómflutningstækja, og lætur nærri að í bráð kunni einnig að verða að telja myndbandstæki með í þessu safni muna. Húsgögn í vistarverum barna kunna hugsanlega að tilheyra foreldri, auk barnavagna og annarra muna, sem þörf er á til umönnunar ungbarna, en fráleitt er að hrófla víð slíku við fjárnámsgerð. Þessi talning muna er engan veginn tæmandi, heldur einungis sett fram í dæmaskyni. Hér verður að árétta, að þótt ýmiss konar munir séu hér nefndir í þessu skyni, þá er það gert með þeim fyrirvara að þeir verði taldir „látlausir“. Greinarmun verður að gera í þessum efnum á því, hvort til dæmis stofuhúsgögn eru einföld að gerð eða hvort þau eru leðurbólstruð, hvort málverk er nánast verðlaust eða megi selja dýru verði og hvort bókasafn er hóflegt að stærð og geymi aðeins algengar bækur eða hvort þar er að finna fágæta safngripi. Í slíku getur falist eðlismunur, sem réði úrslitum um hvort undanþága 1. mgr. 43. gr. taki til muna eða ekki, enda ekki tilgangur ákvæðisins að eftirláta gerðarþola söfnun dýrrar munaðarvöru utan seilingar lánardrottna.
    Með 1. mgr. 43. gr. er að mestu aðeins stefnt að því að vernda muni, sem hafa notagildi innan veggja heimilis gerðarþola. Þessi regla gæti því ekki náð til bifreiðar eða vélhjóls, svo dæmi séu nefnd.
    Í 2. mgr. 43. gr. eru taldir lausafjármunir, sem gerðarþoli má undanþiggja fjárnámi. Þessar undanþáguheimildir eru til viðbótar við bann 1. mgr. 43. gr., og má því beita báðum ákvæðum samhliða, ef með þarf. Í 1. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að gerðarþoli megi undanþiggja muni, sem hafa verulegt minjagildi fyrir hann eða heimilismenn hans. Með þessu er átt við hluti, sem hafa tilfinningalegt gildi, t.d. verðlaunagripir, eða munir, sem tengjast ætt gerðarþola, eða sem gerðarþoli hefur fengið að gjöf af sérstöku tilefni. Í þessari reglu er ekki að finna hámarksandvirði þeirra muna, sem hér um ræðir. Gætu því fallið hér undir munir, sem hafa umtalsvert verðgildi. Sá varnagli er hins vegar sleginn í þessum efnum, að verðgildi munanna megi ekki vera slíkt, að undanþágan verði talin ósanngjörn gagnvart gerðarbeiðanda. Þessi ummæli beinast að verulegu leyti að hagsmunamati, sem fælist í samanburði á tilfinningalegu gildi munar fyrir gerðarþola annars vegar og eðli og stærð kröfu gerðarbeiðanda hins vegar og aðstæðna hans að öðru leyti. Hér yrði einnig að líta til hvort gerðarbeiðandi er einstaklingur eða fyrirtæki, og hvort það hafi nokkur teljandi áhrif á fjárhag hans að innheimta kröfunnar takist. Ef gerðarbeiðandi er til dæmis einstaklingur, sem er að leita fullnustu bótakröfu vegna örorku úr hendi gerðarþola, væri tæpast nein réttlæting fyrir að láta tilfinningargildi muna fyrir gerðarþola hafa áhrif. Öðru máli kynni að gegna, ef gerðarbeiðandi er lánastofnun og krefst fjárnáms fyrir óverulegri skuld, sem gerðarþoli er ábyrgðarmaður fyrir. Í 2. tölul. 2. mgr. er mælt fyrir um heimild gerðarþola til að undanþiggja muni, sem honum eða heimilismönnum hans eru nauðsynlegir vegna örorku eða heilsubrests. Hér undir geta fallið ýmis hjálpartæki og sjúkramunir, hvort sem gerðarþoli notar hlutina sjálfur, maki hans eða barn. Að auki gæti sérstaklega búin bifreið öryrkja átt hér undir og jafnvel bifreið, sem gerðarþoli þarf að nota við akstur fatlaðs heimilismanns. Í þessum síðastnefndu efnum ber þó að hafa hugfast, að ákvæðið bindur undanþáguna við muni, sem eru nauðsynlegir. Þótt fallist yrði á til dæmis að bifreið sé nauðsyn fyrir öryrkja, felst ekki í þeirri afstöðu að engu skipti hvert verðmæti bifreiðarinnar er. Hér yrði beinlínis að taka tillit til verðgildis hlutarins og horfa til þess, hvort gerðarþoli geti komist af með verðminni hlut heldur en hann hefur aflað sér. Til álita gæti komið við þessar aðstæður að undanskilja tiltekið hlutfall munar við fjárnám, sem þætti svara til þess, sem gerðarþoli þyrfti að hafa í höndum til að afla sér ódýrari hlutar til sömu þarfa. Andvirði slíks hlutfalls mætti skila gerðarþola af verði, sem fengist fyrir viðkomandi hlut við nauðungarsölu. Í 3. tölul. 2. mgr. er kveðið á um undanþágu námsgagna, sem gerðarþola eða heimilismanni hans eru nauðsynleg vegna skólagöngu. Með þessu er einkum verið að líta til námsbóka, sem oft kunna að hafa talsvert verðgildi. Hugsanlega geta einnig fallið hér undir einfaldir hlutir, sem þarf að nota í tengslum við bóklegt nám, t.d. ódýr ritvél, eða til verklegs náms. Verðmæti slíkra hluta verður að vera innan hóflegra marka, enda er undanþágan bundin við nauðsynjar til umræddra þarfa. Loks er í 4. tölul. að finna heimild til að undanþiggja muni, sem gerðarþoli eða heimilismaður hans notar til atvinnu sinnar, að verðmæti allt að 50.000 kr. Þeir munir, sem hér kæmu til skoðunar, gætu einkum verið verkfæri, áhöld til heimilisiðnaðar í tekjuöflunarskyni eða jafnvel bækur eða önnur gögn, sem gerðarþoli notar í atvinnu sinni. Hér gæti einnig hugsanlega átt undir mjög ódýr bifreið, sem gerðarþoli notar til leiguaksturs eða sem væri beinlínis óhjákvæmilegur þáttur í atvinnustarfsemi hans. Töluleg viðmiðun ákvæðisins setur hins vegar þröngar skorður fyrir undanþágunni. Ekki kæmi til álita að gerðarþoli fengi að undanskilja fjárnámi hluta af tæki, ef verðmæti þess færi fram úr umræddri hámarksfjárhæð. Þá hluti, sem hér gætu komið til álita, yrði að verðleggja eftir einhverjum valkosti 38. gr. Mælt er fyrir um það í 4. tölul. 2. mgr. 43. gr. að þargreinda fjárhæð eigi að ákvarða hverju sinni í ljósi almennra verðlagsbreytinga frá því frumvarp þetta öðlast gildi sem lög, ef af verður. Sýslumaður yrði því að framreikna fjárhæðina með einhverjum opinberum verðlagsmæli eða vísitölu. Hér er þó ekki ráðgert að fjárhæðin verði framreiknuð nákvæmlega, heldur ákvörðuð í ljósi breytts verðgildis.
    Í 3. mgr. 43. gr. kemur fram regla, sem takmarkar bæði bann 1. mgr. við fjárnámi í heimilismunum og undanþáguheimild 2. mgr. varðandi annað lausafé. Gerðarþoli getur hvorki borið fyrrgreint bann fyrir sig né krafist undanþágu, ef viðkomandi hlutur stendur að veði fyrir kröfu gerðarbeiðanda eða gerðarbeiðandi hefur gert eignarréttarfyrirvara um hann. Með veði er hér ekki eingöngu átt við veðsetningu með samningi, heldur einnig lögveðréttindi, ef því er að skipta. Um eignarréttarfyrirvara ber að líta til þess, að ef gerðarþoli hefur aflað sér hlutar með slíkum áskilnaði, getur hluturinn almennt ekki talist eign hans í skilningi 1. mgr. 36. gr., heldur eign gerðarbeiðanda. Í reynd væri því að jafnaði ekki þörf fjárnáms af hendi gerðarbeiðanda í viðkomandi hlut, ef vanskil yrðu, heldur gæti hann haft uppi kröfu um afhendingu eignar sinnar með innsetningargerð. Gerðarbeiðanda væri þó þrátt fyrir eignarréttarfyrirvara almennt einnig heimilt að leitast við að fá fullnustu kaupverðsins úr hendi gerðarþola og leiðir þá af 3. mgr. 43. gr. að fjárnám megi gera í viðkomandi hlut, án tillits til 1. eða 2. mgr. 43. gr.

Um 44. gr.

    Í 1. mgr. 44. gr. kemur sú meginregla fram, að fjárnám megi gera í kröfum gerðarþola á hendur öðrum, með þeim takmörkunum sem leiða af reglum 45.–48. gr. og fyrirmælum annarra laga. Með kröfum er í ákvæði þessu almennt átt við fjárkröfur, eða með öðrum orðum inneignir gerðarþola eða annars konar tilkall hans til greiðslu úr hendi annars. Af fyrirmælum 48. gr. kann þó að leiða, að hægt sé að gera fjárnám í kröfu gerðarþola um annað en peningagreiðslu, en þær aðstæður geta sjaldan átt við. Í 1. mgr. 44. gr. er tekið fram að fjárnám megi gera í kröfu, þótt hún sé skilyrt eða ógjaldfallin. Með þessu er áréttað að það skerði ekki rétt gerðarbeiðanda til fjárnáms í kröfu gerðarþola, þótt gjalddagi inneignar gerðarþola sé ókominn, greiðsla hennar sé háð ókomnu skilyrði eða umdeilanlegt sé hvort gerðarþoli eigi yfirleitt tilkall til viðkomandi greiðslu. Í þessum efnum verður þó að hafa þá reglu í huga, sem áður hefur verið nefnd í öðru samhengi, að gerðarbeiðandi öðlast almennt ekki víðtækari rétt með fjárnámi en gerðarþoli á sjálfur. Gerðarbeiðandi verður því almennt að hlíta óloknum greiðslufresti á kröfu, sem hann gerir fjárnám í, og hann verður að þola sömu andmæli gegn tilvist kröfunnar og gerðarþoli hefði annars þurft.
    Í 1. mgr. 44. gr. er sem fyrr segir vísað til þeirrar takmörkunar á rétti gerðarbeiðanda til fjárnáms í kröfum gerðarþola, að reglur 45.–48. gr. og fyrirmæli annarra laga geti falið í sér bann við fjárnámi eða heimild handa gerðarþola til að undanþiggja viðkomandi verðmæti. Almenn fyrirmæli koma hins vegar fram í 2. mgr. 44. gr., sem hafa áhrif á umræddar takmarkanir að tvennu leyti. Er þar nánar tiltekið kveðið annars vegar á um að fjárnám megi gera í gjaldfallinni kröfu skv. 45.–48. gr., ef gerðarþoli bendir sjálfur á hana í því skyni. Reglur 45.–48. gr. eru í meginatriðum ætlaðar til að vernda hagsmuni gerðarþola og er því eðlilegt að honum sé sjálfum frjálst að afsala sér þeirri vernd. Á hinn bóginn gæti ótakmarkaður réttur gerðarþola í þessum efnum haft óviðunandi áhrif á réttindi þess, sem gerðarþoli á greiðslu í vændum frá. Gerðarþola kynni til dæmis að standa á sama hvort fjárnám yrði þegar gert í væntanlegum vinnulaunum hans á næstu mánuðum. Slík aðstaða gæti hins vegar stefnt hagsmunum þess í hættu, sem kæmi til með að greiða launin. Er af þessum sökum tekið fram í umræddri reglu, að gerðarþoli geti aðeins bent á verndaðar kröfur sínar, sem gjaldfallnar eru, en með þeim hætti yrðu hagsmunir gagnaðila gerðarþola almennt tryggðir. Hins vegar er tiltekið í 2. mgr. 44. gr., að fjárnám megi gera í kröfu, sem reglur 45.–48. gr. ná til, ef hún stendur til tryggingar fyrir kröfu gerðarbeiðanda á hendur gerðarþola. Ef gerðarþoli hefði þannig veðsett gerðarbeiðanda kröfu sína samkvæmt nefndum ákvæðum, gæti gerðarbeiðandi fengið fjárnám í kröfunni án tillits til afstöðu gerðarþola, þegar til aðfarar kæmi. Gerðarbeiðandi yrði þannig ekki háður því að gerðarþoli
bendi á kröfu sína og hann þyrfti heldur ekki að hlíta óskum gerðarþola um að krafan verði undanþegin fjárnámi.
    Í 3. mgr. 44. gr. kemur fram almenn regla um það, að hverju leyti fjárnám í kröfu taki til vaxta eða arðs af henni. Segir í reglu þessari að ef annað er ekki tekið fram, teljist fjárnámið taka til vaxta eða arðs, hvort sem ógreiddir vextir eða arður eigi rætur að rekja til tímabils, áður en fjárnám var gert, eða falli til eftir þann tíma. Víkja má hins vegar frá þessari reglu með ákvörðun við fjárnámsgerð.

Um 45. gr.

    Í þessu ákvæði koma fram reglur, sem leggja bann við að fjárnám verði gert í kröfum um ógreidd laun eða annað endurgjald fyrir vinnu, kröfum um eftirlaun, kröfum um laun í uppsagnarfresti eða bótakröfum vegna slita ráðningarsamnings. Kröfum þessum er aðeins veitt vernd um tiltekinn tíma, frá því þær urðu til eða urðu gjaldkræfar. Er sú takmörkun komin til af því, að kröfur sem þessar njóta verndar vegna framfærsluþarfa gerðarþola. Ef krafa gerðarþola stendur inni hjá skuldara um einhvern tíma, eftir að unnt hefði verið að krefjast greiðslu hennar, er ljóst að framfærsluviðhorf geta ekki lengur réttlætt bann við fjárnámi í henni. Er og möguleiki á að of víðtæk vernd þessara krafna gæti verið misnotuð með málamyndagerningum af hálfu gerðarþola.
    Fyrirmæli 1. mgr. varða ógreiddar kröfur gerðarþola um laun og annað endurgjald fyrir vinnu. Hér eru sömu hugtök notuð og í 1. tölul. 84. gr. laga nr. 3/1878 og er ætlast til að þau verði skýrð hér með sama hætti, en merking þeirra er orðin verulega afmörkuð af dómaframkvæmd um ívitnaða reglu. Kröfur þessar njóta verndar í einn mánuð frá lokum þess tímabils, sem unnið var til þeirra. Verndin er þannig ekki háð gjalddaga krafnanna, heldur vinnutímabili, en nauðsyn ber til þessarar leiðar til að fyrirbyggja samninga milli gerðarþola og launagreiðanda um óeðlilegan gjaldfrest hins síðarnefnda til að fyrirbyggja fullnustugerðir.
    Í 2. mgr. er lagt bann við fjárnámi í kröfu gerðarþola um eftirlaun, en slík krafa nýtur verndar í einn mánuð frá gjalddaga hennar. Ekki verður séð að hér sé sama þörf á að miða verndartímabilið við önnur mörk en gjalddaga og getið var um reglu 1. mgr.
    Í 3. mgr. er lagt bann við fjárnámi í kröfu gerðarþola um laun í uppsagnarfresti og bótakröfu hans vegna slita ráðningarsamnings, þar til einn mánuður er liðinn frá gjalddaga viðkomandi kröfu. Hér ber að hafa í huga, að þótt fjárhæð bótakröfu af þeim toga, sem hér um ræðir, kunni að ráðast missi vinnutekna á vissu ókomnu tímabili, yrði hún allt að einu komin í heild í gjalddaga við slit ráðningarsamnings. og byrjar því sá mánuður, sem ekki má gera fjárnám í kröfunni, að líða á því tímamarki.

Um 46. gr.

    Í þessu ákvæði er lagt bann við að fjárnám verði gert í kröfu gerðarþola um skaðabætur vegna örorkutjóns hans eða missis hans á framfæranda. Bann þetta tekur einnig til bótakrafna gerðarþola vegna ófjárhagslegs tjóns hans, sem kunna að tengjast umræddum kröfum. Vernd þessara krafna er háð því, að gerðarþoli sé sjálfur tjónþoli. Ef gerðarþoli hefur þannig fengið kröfu annars manns um bætur sem þessar framselda, má gera fjárnám í henni. Þessar kröfur gerðarþola njóta verndar frá því þær verða til og þar til greiðsla eða framsal hefur átt sér stað. Eftir greiðslu eða framsal er banni við fjárnámi skv. 46. gr. því aflétt, en hér ber að taka tillit til að bann getur eftir sem áður legið við fjárnámi í þeirri fjárhæð, sem greidd er gerðarþola eða sem hann hefur fengið við framsal, í skjóli reglu 2. tölul. 1. mgr. 41. gr.
    Bann við fjárnámi í kröfum þessum styðst við ýmis rök. Kemur hér einkum til sama viðhorf og býr að baki ýmsum áðurlýstum reglum 6. kafla um sams konar hindranir við fjárnámi, að fjármunir þessir eru ætlaðir til framfærslu gerðarþola á ókomnum tíma. Kröfur þessar eru einnig persónulegs eðlis og því óviðeigandi að lánardrottnar tjónþola geti haft áhrif á ákvörðun um hvort krafan verði höfð uppi eða um hverja bótafjárhæð yrði samið.
    Finna má dæmi um ákvæði annarra laga, sem eru skyld reglu 46. gr. Má nefna í því sambandi 25. gr. laga nr. 43/1947, 123. gr. laga nr. 20/1954, 61. gr. laga nr. 67/1971 og 40. gr. laga nr. 35/1985.

Um 47. gr.

    Reglur 47. gr. mæla fyrir um bann við fjárnámi í ýmiss konar kröfum gerðarþola um framfærslueyri, styrki og lífeyri. Bannið er í þessu tilviki enn stutt við áðurrakin sjónarmið um nauðsyn þess að varna að fjárnám verði gert í greiðslum, sem eru ætlaðar gerðarþola til framfærslu á ókomnu tímabili. Bann er við fjárnámi í kröfum gerðarþola skv. 47. gr., þar til einn mánuður er liðinn frá gjalddaga þeirra.
    Í talningu 47. gr. er í fyrsta lagi mælt fyrir um bann við fjárnámi í kröfu um framfærslueyri eða meðlag. Hér er einungis átt við kröfur um slíkar greiðslur með gerðarþola sjálfum. Krafa hans um framfærslueyri eða meðlag með öðrum, sem hann annast um, félli því ekki hér undir. Skiptir ekki máli um tímamörk bannsins í þessu sambandi, hvort gjalddagi miðast við fyrirframgreiðslu eða greiðslu eftir á. Ef um fyrirframgreiðslu yrði að ræða, ber að huga að tengslum þessa ákvæðis við reglu 1. tölul. 1. mgr. 41. gr. Í öðru lagi eru taldar til kröfur um ýmis afbrigði greiðslna úr almannatryggingum eða frá öðrum sambærilegum opinberum stofnunum. Kröfur um slíkar greiðslur úr almannatryggingum eru einnig undanþegnar fjárnámi skv. 61. gr. laga nr. 67/1971. Í þriðja lagi er kveðið á um bann við fjárnámi í kröfu um greiðslu úr sjúkra- eða styrktarsjóðum verkalýðsfélaga, sem óþarft er að skýra frekar. Í fjórða lagi er mælt fyrir um bann við fjárnámi í kröfu um greiðslu úr viðurkenndum lífeyrissjóði. Með viðurkenndum lífeyrissjóði er hér átt við hið sama og í ákvæðum laga nr. 55/1980. Sú takmörkun kemur fram á banni við fjárnámi í kröfum sem þessum í 4. tölul. 47. gr., að það taki einungis til kröfu, sem á rætur að rekja eðlilegra iðgjaldagreiðslna í viðkomandi sjóð. Ef gerðarþoli á þannig kröfur um greiðslur úr lífeyrissjóði, sem hafa komið til á annan hátt en með iðgjaldagreiðslum eða með óeðlilega miklum iðgjaldagreiðslum, má gera fjárnám í þeim. Ýmis sérfyrirmæli má finna í lögum um bann við fjárnámi í greiðslukröfum eða öðrum réttindum á hendur lífeyrissjóði, t.d. í lögum nr. 64/1955, 29/1963, 16/1965, 49/1974 og 50/1984. Loks er í 5. tölul. 47. gr. kveðið á um bann við fjárnámi í kröfu samkvæmt frjálsri lífeyristryggingu, ef sérstök lagaheimild leiðir til undanþágu hennar frá aðför eða ef kveðið hefur verið á um undanþágu frá fjárnámi frá byrjun í samningi milli gerðarþola og viðsemjanda hans um trygginguna.

Um 48. gr.

    Í reglum þessa ákvæðis er mælt fyrir um heimildir til að gera fjárnám í réttindum gerðarþola samkvæmt gagnkvæmum samningi. Regla þessi er að orðalagi nokkuð frábrugðin núgildandi fyrirmælum 3. mgr. 28. gr. aðfararlaga um sama efni, en efni 48. gr. er í samræmi við þann skilning, sem lagður hefur verið í nefnt ákvæði aðfararlaga.
    Fyrirmæli 48. gr. fela í sér reglu, sem væntanlega má telja gilda á grundvelli almennra reglna kröfuréttar án sérstakrar lögfestrar heimildar. Rétt þykir hins vegar að regla þessi komi hér berum orðum fram til áréttingar. Um skýringu hennar má hins vegar styðjast við umfjöllun um áðurgreindar reglur kröfuréttar.

Um 49. gr.

    Hér er mælt fyrir um að fjárnám verði ekki gert í persónubundnum réttindum, sem gerðarþoli má ekki framselja upp á sitt eindæmi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið tryggingu í þeim fyrir kröfu sinni. Regla þessi á rætur að rekja til hagsmuna þess, sem látið hefur gerðarþola viðkomandi réttindi í té. Henni er ætlað að taka til réttinda, sem gerðarþoli má ekki framselja án atbeina þess, sem þau hefur veitt. Réttindin þurfa að hafa verið veitt gerðarþola á þeirri forsendu, að hann njóti þeirra en ekki einhver annar. Hér geta einkum fallið undir tilvik, þar sem gerðarþoli hefur fengið réttindi eða hlunnindi án endurgjalds eða gegn litlu endurgjaldi vegna vinfengis eða ætternis eða af áþekkum ástæðum. Eins gætu komið hér til álita tilvik, þar sem áðurnefnd tengsl standa ekki milli gerðarþola og þess, sem veitt hefur honum réttindi, en hinn síðarnefnda skiptir þó meginmáli að gerðarþoli sé viðsemjandi hans en aðrir ekki. Að því leyti er nokkur skyldleiki milli þessa ákvæðis og reglu 48. gr.

Um 50. gr.

    Í 29. gr. aðfararlaga er kveðið á um að ekki megi gera fjárnám í eign, sem samið hefur verið milli gerðarþola og annars manns um að verði undanþegin aðför. Lítið hefur reynt í framkvæmd á reglu þessa, sem að mestu var ætlað að taka til gjafagerninga með umræddum áskilnaði. Hún er hins vegar það víðtæk eftir orðanna hljóðan, að veruleg hætta getur verið á misnotkun hennar.
    Í 50. gr. er lögð til regla, sem leysa ætti fyrrnefnda 29. gr. aðfararlaga af hólmi. Tekur regla þessi einungis til eigna, sem gefnar hafa verið gerðarþola með fyrirmælum í gjafagerningi um að þær verði undanþegnar aðför. Þau skilyrði eru að auki sett fyrir að eign verði undanþegin aðför af þessum sökum, að gerðarþola sé óheimilt að ráðstafa henni og að gjafagerningi með skýrum fyrirmælum um undanþáguna hafi verið þinglýst, ef um slíka eign er að tefla, að þörf sé þinglýsingar til að vernda réttindi gerðarþola. Er með þessum hætti leitast við að draga úr augljósri hættu á málamyndagerningum, sem boðið er upp á með jafnvíðtækri heimild og 29. gr. aðfararlaga geymir.
    Í 2. mgr. 50. gr. kemur fram sérregla um þær aðstæður, að eign hafi að hluta verið gefin gerðarþola með umræddum áskilnaði, en hann hafi fengið eignina að öðru leyti gegn endurgjaldi. Ef svo er, tekur undanþága fyrri málsgreinarinnar einungis til þess hluta eða hlutfalls eignarinnar, sem gerðarþoli fékk að gjöf.
    Í niðurlagi fyrri málsgreinar 50. gr. koma fram fyrirmæli um heimild til fjárnáms í arði af eign, sem gefin hefur verið gerðarþola með umræddum hætti. Er þar mælt fyrir um að fjárnám megi gera í arðinum, þegar mánuður er liðinn frá því hann varð gjaldkræfur. Er með þessu horft til þess, að ástæða gjafar sem þessarar getur oft verið viðleitni gefandans til að veita gerðarþola framfærslufé með arði af hinu gefna.

Um 51. gr.

    Í 51. gr., sem er lokaákvæði 6. kafla, koma fram reglur um framkvæmd fjárnáms, sem snúa sérstaklega að andlagi þess.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að sýslumaður skuli færa nákvæmlega í gerðabók í hverjum eignum fjárnám hefur verið gert og fyrir hverjum kröfum. Er brýnt að skýrt komi fram í bókun hvert andlag fjárnáms hefur orðið, því að jafnaði þarf gerðarbeiðandi að færa sér gerðina í not til frekari fullnustuaðgerða, t.d. með vörslusviptingu af gerðarþola og nauðungarsölu. Hætt er við að fjárnámsgerð komi ekki að haldi til þeirra þarfa, ef tvímælis orkar hvert andlag slíkra aðgerða eigi að vera. Þá er enn fremur brýnt hagsmunaefni beggja eða allra málsaðila að ljóst sé bæði hver sú krafa gerðarbeiðandans hefur verið, sem fjárnám var gert fyrir, og til hverrar fjárhæðar það tekur nákvæmlega. Þessu til viðbótar er kveðið á um það í 1. mgr., að ef virðing hefur farið fram skv. 2. eða 3. mgr. 38. gr., þá eigi virðingarverð hvers hlutar að koma fram við tilgreiningu hans í bókun sýslumanns.
    Í 2. mgr. kemur fram regla, sem ekki á sér hliðstæðu í núgildandi lögum, en vænta má að hafi verulegt hagræði í för með sér. Regla þessi kveður á um að fjárnám megi gera í eign, þótt hún sé utan marka umdæmis þess sýslumanns, sem framkvæmir gerðina. Hefur þetta í för með sér að ef fjárnám er til dæmis gert í fasteign í öðru umdæmis, er óþarfi að flytja framkvæmd gerðarinnar til viðkomandi umdæmis til að ljúka henni, en núgildandi reglur leiða til að það þurfi að gera. Þá er einnig vert að vekja athygli á að regla 2. mgr. er ekki bundin við að hina fjárnumdu eign sé að finna hér á landi, heldur heimilar hún sýslumanni að ljúka fjárnámi í hlut, sem staðsettur er erlendis. Þýðing þessarar heimildar takmarkast þó af því, að ekki er gefið að fjárnámsgerð, sem hefur fram farið hér á landi, komi að haldi til frekari fullnustuaðgerða erlendis. Frá heimildum 2. mgr. er þó gerð undantekning, sem tekur fyrir að sýslumaður geti lokið gerð með framangreindum hætti. Ef þörf er virðingar eignar skv. 2. eða 3. mgr. 38. gr., liggur í hlutarins eðli að fara verður til skoðunar á þann stað, sem viðkomandi eign er að finna. Ef tilefni vaknar til virðingar, er að jafnaði óljóst á því stigi gerðar hvort fjárnám verði gert í eigninni vegna fyrirmæla 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 38. gr., og eftir atvikum 4. tölul. 2. mgr. 43. gr. Af þessum sökum þjónar ekki tilgangi að leitast við að ljúka gerð, hvort heldur til fulls eða með skemmri hætti, fyrr en virðing hefur átt sér stað. Er því óhjákvæmilegt að gerð verði fram haldið í viðkomandi umdæmi eftir reglu annarrar hvorrar málsgreinar 35. gr.
    Í 3. mgr. kemur fram regla, sem tengist almennum fyrirmælum 4. mgr. 25. gr. um leiðbeiningar sýslumanns við gerðarþola. Er hér sérstaklega áréttað að sýslumaður leiðbeini gerðarþola eða málsvara hans um réttaráhrif fjárnáms. Hefur þetta verulega þýðingu. m.a. vegna reglu 1. mgr. 53. gr. og þeirrar refsi- eða skaðabótaábyrgðar, sem broti gegn henni gæti fylgt. Ef enginn hefur verið staddur við gerðina af hálfu gerðarþola, er kveðið á um það í síðari málslið 3. mgr. að sýslumanni beri að tilkynna gerðarþola um fjárnámið, ef vitað er hvar hann er niður kominn. Slíkri tilkynningu mætti koma á framfæri með ýmsum hætti, þótt vænta megi að það verði einkum gert bréflega. Rétt er að tilkynningu sem þessari sé komið á framfæri, svo fljótt sem verða má til að fyrirbyggja að gerðarþoli ráðstafi hinu fjárnumda í grandleysi um réttindi gerðarbeiðanda. Ætlast er til að réttaráhrifa fjárnáms sé getið í tilkynningu sem þessari, með sama hætti og gert hefði verið munnlega, ef gerðarþoli eða málsvari hans hefði verið staddur við gerðina.

Um 52. gr.

    Í 52. gr., sem er fyrsta ákvæði 7. kafla frumvarpsins um réttaráhrif fjárnáms og vörslur hins fjárnumda, er að finna reglu um slit fyrningar aðfararhæfrar kröfu. Er kveðið á um að nægjanlegt sé til slita á fyrningu að aðfararbeiðni berist héraðsdómara, sbr. 11. gr., eða sýslumanni, sbr. 16. gr., áður en fyrningartímanum er lokið. Það skilyrði er þó sett að auki, að gerðinni þurfi að vera fram haldið án ástæðulauss dráttar.
    Þeir atburðir, sem 52. gr. kveður á um að slíti fyrningu, eru að aðfararbeiðni berist annaðhvort dómara eða sýslumanni. Fyrningu verður því ekki slitið með þeim sérstöku undirbúningsathöfnum fjárnáms, sem reglur frumvarpsins mæla fyrir um, t.d. með greiðsluáskorunum skv. 7. eða 8. gr. Það nægir heldur ekki að aðfararbeiðni hafi verið send innan fyrningartíma, því hún þarf að minnsta kosti að vera komin á starfstöð eða í póstkassa héraðsdómara eða sýslumanns í tæka tíð, til að hún verði talin hafa borist.
    Atvik kunna að vera með þeim hætti, að aðfararbeiðni hafi að vísu borist í framangreindum skilningi í tæka tíð, en annmarkar eru á henni eða aðfararheimildinni, eða beiðninni hefur til dæmis verið beint til rangs embættis. Afstaða er ekki tekin til þessara aðstæðna berum orðum í 52. gr., en svar felst þó í fyrirmælum ákvæðisins við því, hvort fyrningu sé slitið með þessum hætti. Því skilyrði 52. gr., að gerð sé fram haldið án ástæðulauss dráttar, verður ekki fullnægt nema unnt sé að afgreiða málefnið í beinu framhaldi af að beiðni hafi komið fram. Ef héraðsdómari synjar um áritun á gerðarbeiðni, sbr. 1. mgr. 13. gr. , yrði gerðinni ekki fram haldið án ástæðulauss dráttar í þessum skilningi. Hið sama á við, ef sýslumaður synjar um aðför, sbr. 1. og 2. mgr. 17. gr. Aðfararbeiðni yrði því ekki talin hafa borist með þeim hætti, að fyrningu verði slitið.
    Það skilyrði, að gerð sé fram haldið án ástæðulauss dráttar, hefur ekki verulega sjálfstæða þýðingu að öðru leyti en áður er nefnt. Þetta skilyrði fyrirbyggir þó að fyrningu verði slitið, ef gerðarbeiðandi sinnir ekki málefninu með þeim hætti, sem almennt tíðkast, eftir að hún hefur borist héraðsdómara eða sýslumanni.
    Í 12. gr. laga nr. 14/1905 er að finna reglu um slit fyrningar kröfu með fjárnámi, lögtaki eða nauðungaruppboði án undanfarandi dóms eða sáttar. Samkvæmt henni verður fyrningu slitið með því að gerð byrji innan fyrningartíma. Sérstakar reglur koma einnig fram um hver áhrif það hafi á fyrningu, ef gerð verður ekki framkvæmd vegna framkominna mótmæla eða ef æðri dómur fellir hana úr gildi. Ekki er lagt til í 99. gr. að þetta ákvæði falli brott, þótt efni þess sé í andstöðu við reglu 52. gr. og þá tilhögun, sem reglur frumvarpsins geyma almennt um framkvæmd aðfarar. Kemur það til af því, að regla 12. gr. laga nr. 14/1905 varðar einnig nauðungaruppboð og yrði afnám hennar þannig til þess, að engar settar reglur tækju til þess málefnis. Þess er hins vegar vænst að frumvarp til nýrra laga um nauðungarsölu verði komið fram áður en komið yrði að gildistökudegi skv. 99. gr. þessa frumvarps, og yrði þá unnt að taka endanlega afstöðu til formlegs brottfalls umræddrar 12. gr. eða til nýrrar reglu í hennar stað.

Um 53. gr.

    Í fyrri málsgrein 53. gr. kemur sú regla fram, að gerðarþoli megi ekki ráðstafa hinu fjárnumda á nokkurn hátt, sem fari í bága við rétt gerðarbeiðanda. Þau réttindi gerðarbeiðanda, sem ákvæði þetta tekur til, koma að nokkru fram í síðari fyrirmælum 7. kafla, en að öðru leyti kemur til kasta annarra lagafyrirmæla og óskráðra reglna. Réttindi gerðarbeiðanda, sem hér hafa mesta þýðingu, eru þau tryggingarréttindi, sem hann öðlast almennt yfir hinu fjárnumda fyrir kröfu sinni, og fela bæði í sér heimild hans til að hinu fjárnumda verði komið í verð til fullnustu kröfu hans og að því verði ekki ráðstafað á einhvern hátt, sem fari í bága við þá hagsmuni hans. Regla 1. mgr. 53. gr. snýr einkum að banni við að gerðarþoli ráðstafi hlut í andstöðu við umrædd réttindi, en slíkt gæti bakað gerðarþola skaðabótaskyldu eða varðað refsingu.
    Í síðari málsgrein 53. gr. kemur fram sérregla til að taka af tvímæli um að gerðarþola sé heimilt að nýta fylgifé með fasteign, skipi eða loftfari til eðlilegra nota eignarinnar, ef fjárnám hefur í senn verið gert í viðkomandi eign og fylgifénu. Með slíkri notkun gerðarþola ætti staða gerðarbeiðanda almennt ekki að rýrna, því fylgiféð væri orðið hluti af sjálfri eigninni og verðmæti þess hefði að sama skapi færst þar á milli. Heimild gerðarþola til nýtingar fylgifjár er bundin því, að það sé notað til endurbóta á eða viðskeytingar við eign, sem gerðarbeiðandi á einnig fjárnám í. Má gerðarþoli því ekki nýta það í þágu annarrar eignar, sem gerðarbeiðandi á ekki réttindi yfir. Ef fjárnám hefur einungis verið gert í fylgifénu sem slíku samkvæmt heimild í undantekningarreglu 2. mgr. 42. gr., yrði gerðarþola hins vegar með öllu óheimil notkun þess, sbr. 1. mgr. 53. gr.

Um 54. gr.

    Samkvæmt a-lið 1. tölul. 1. gr. laga nr. 57/1949 öðlast gerðarbeiðandi rétt á grundvelli fjárnáms eða lögtaks til að krefjast að hið fjárnumda verði selt á nauðungaruppboði. Eru aðfarargerðir því settar á bekk með öðrum uppboðsheimildum og gilda ekki almenn afbrigði um uppboð á grundvelli þeirra samkvæmt nefndum lögum.
    Fyrirhugað er að innan tíðar verði gert frumvarp til laga, sem ætlað verður að leysa lög nr. 57/1949 af hólmi. Má reikna með tillögum um umtalsverðar breytingar á möguleikum til að koma eignum í verð með nauðungarsölu. Reglur þessa frumvarps bera nokkurn keim af þeim ráðagerðum, svo sem sést af þeirri hugtakanotkun, að ekki er vikið að nauðungaruppboðum í reglum þess, heldur nauðungarsölu. Ýmsar reglur eru sniðnar gagngert að því, að fleiri ráðstöfunarmöguleikar geti staðið til boða en uppboðssala. Regla 54. gr. er þessu marki brennd, en hún snýr að sérstökum atriðum varðandi rétt fjárnámshafa til að koma fram nauðungarsölu eða annarri lögmætri ráðstöfun á hinu fjárnumda. Fyrirmæli 54. gr. eru hins vegar ekki fremur en önnur ákvæði frumvarpsins háð því, að ný löggjöf verði sett um nauðungarsölu, heldur geta þau farið saman við núgildandi reglur laga nr. 57/1949.
    Í 1. mgr. er lögð til regla, sem ekki á sér hliðstæðu í núgildandi lögum, en samkvæmt henni yrði ekki heimilt að selja hið fjárnumda að kröfu gerðarbeiðanda fyrr en að fjórum vikum liðnum frá fjárnámi, nema eigandi þess samþykki. Regla þessi er einkum lögð til með hliðsjón af tvennu. Annars vegar er vert að lögbinda sérstakan frest fyrir gerðarþola eða annan eiganda fjárnuminna muna til að reyna að varna nauðungarsölu með greiðslu eða samningum við gerðarbeiðanda. Án slíkrar reglu væri unnt að fá hið fjárnumda selt þegar í stað, eins og nú gildir. Hins vegar er þörf sérstakra reglna um möguleika gerðarþola eða eiganda hins fjárnumda til að hnekkja fjárnámi, ef með þarf, áður en nauðungarsala getur átt sér stað. Þessi þörf kemur um margt til af þeirri skipan frumvarpsins, að stjórnvöld fari með framkvæmd aðfarar án dómsvalds. Er þannig að finna reglur í síðari málsgreinum 54. gr. um að krafa um úrlausn héraðsdómara um fjárnám geti um sinn girt fyrir heimild gerðarbeiðanda til að koma fram nauðungarsölu. Þær reglur þarfnast þess að mælt sé fyrir um tímabil, þar sem gerðarþoli getur undirbúið dómsmál af sinni hendi án þess að hætta sé á að nauðungarsölu verði komið við áður en þeim undirbúningi lýkur. Sá frestur, sem regla 2. mgr. 54. gr. veitir gerðarþola í þessu skyni, er hinn sami og 1. mgr. kveður á um, eða fjórar vikur frá því fjárnám var gert.
    Regla 1. mgr. girðir ekki fyrir að gerðarbeiðandi setji fram kröfu um nauðungarsölu eða undirbúi hana á annan hátt á umræddum fjórum vikum. Hún girðir einungis fyrir að gerðarbeiðandi fái eignina selda á þeim tíma og hefur því heldur ekki áhrif á að aðrir en gerðarbeiðandi geti komið sölunni fram innan frestsins. Gerðarþoli eða eigandi hins fjárnumda, ef hann er annar, getur afsalað sér fresti skv. 1. mgr., ef honum sýnist svo. Slík yfirlýsing hans mundi því heimila gerðarbeiðanda að koma sölu fram án tillits til frestsins.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um það, að ef gerðarþoli eða þriðji maður, sem hagsmuni hefur af gerðinni, ber ágreining um hana undir héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því henni lauk, þá geti gerðarbeiðandi ekki komið fram nauðungarsölu meðan mál er rekið, að því leyti sem ágreiningur er um gerðina. Ef litið er nánar til einstakra atriða þessa ákvæðis, ber í fyrsta lagi að árétta að þriðji maður getur eins og gerðarþoli haft uppi kröfu um úrlausn héraðsdómara, sem hefði umrædd áhrif í för með sér. Sömu skilyrði ættu hér við um heimild þriðja manns til afskipta af gerðinni og áður voru rakin varðandi 28. gr. Þess er ekki krafist hér, að þriðji maður hafi mætt við gerðina sjálfa, til að hann njóti þessarar heimildar, heldur nægir að hann gefi sig fyrst fram við héraðsdómara að henni lokinni, eins og sést af 1. mgr. 92. gr. Hér er ekki gert ráð fyrir þeim möguleika, að gerðarbeiðandi girði fyrir heimild sjálfs sín til nauðungarsölu með því að bera gerðina undir héraðsdóm, en ef það yrði gert að hluta, nyti gerðarbeiðandi eftir sem áður heimildar til að krefjast nauðungarsölu á grundvelli óumdeildra atriða gerðarinnar, eins og nánar er vikið að hér á eftir. Í öðru lagi ber að nefna, að málsaðili telst hafa borið ágreining undir héraðsdómara í skilningi 2. mgr., þegar tilkynning hans þar um berst héraðsdómara, sbr. 1. mgr. 93. gr. Í þriðja lagi segir í 2. mgr., að rekstur máls fyrir dómi fyrirbyggi nauðungarsölu, að því leyti sem ágreiningur er um gerðina. Ef krafa lýtur að því að gerðin verði felld niður í heild, tekur ágreiningur til gerðarinnar allrar og verður sölu því að engu leyti komið fram. Ef hins vegar væri aðeins deilt til dæmis um hvort einn þriggja muna hafi réttilega verið tekinn fjárnámi, gæti gerðarbeiðandi komið fram sölu hinna tveggja, ef honum sýndist svo.
    Regla 3. mgr. kveður á um áhrif rekstrar ágreiningsmáls um fjárnámsgerð fyrir héraðsdómi, ef málið er ekki borið undir dómara fyrr en að liðnum fjögurra vikna fresti skv. 1. og 2. mgr. Samkvæmt 3. mgr. stöðvast aðgerðir við nauðungarsölu af þessu tilefni, að því leyti sem þær hafa byrjað. Rekstur ágreiningsmáls hefði hins vegar ekki áhrif á gildi ráðstafana, sem gerðarbeiðandi hefði áður gripið til vegna nauðungarsölunnar, t.d. með vörslusviptingu hins fjárnumda.
    Í 4. mgr. 54. gr. kemur fram heimild handa gerðarbeiðanda til að afla sérstaks úrskurðar héraðsdómara um að rekstur ágreiningsmáls stöðvi ekki nauðungarsölu, þrátt fyrir fyrirmæli 2. eða 3. mgr. Slíks úrskurðar yrði aflað í aukamáli undir rekstri þess ágreiningsmáls, sem að gerðinni lýtur. 4. mgr. 54. gr. telur engin atriði, sem hafa mætti til hliðsjónar við mat á því, hvort taka ætti kröfu sem þessa til greina. Það má hins vegar vera ljóst, þegar vegna þess að reglan felur í sér frávik frá undanfarandi meginreglum um vernd réttinda gerðarþola, að heimild 4. mgr. verður að beita af varfærni. Helst gæti heimild skv. 4. mgr. komið til álita, ef gerðarþoli eða þriðji maður dregur mál óeðlilega á langinn fyrir héraðsdómi og málatilbúnaður hans ber þess áberandi vott, að hann reki málið til þess eins að verða sér úti um frest á nauðungarsölu. Úrlausn sem þessi gæti þó hugsanlega einnig átt við, ef skiptar skoðanir væru milli málsaðila um það, hvort ágreiningur þeirra hafi áhrif á tiltekin atriði gerðarinnar eða ekki.

Um 55. gr.

    Hér koma fram reglur um áhrif fjárnáms, sem gert er í peningum. Samkvæmt þeim ber sýslumanni að jafnaði að afhenda gerðarbeiðanda hið fjárnumda þegar í stað og telst hann þá hafa fengið greiðslu sem því nemur. Reglur þessar fela hins vegar í sér, að ef mótmæli koma fram við framkvæmd gerðarinnar af hendi gerðarþola eða þriðja manns, er sýslumanni rétt að taka peningana úr vörslum gerðarþola samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda og varðveita þá á sérgreindum bankareikningi, þar til fjórar vikur eru liðnar frá gerðinni. Hafi gerðarþoli eða þriðji maður ekki krafist úrlausnar héraðsdómara innan nefnds tíma, afhendir sýslumaður gerðarbeiðanda féð ásamt vöxtum, og telst greiðsla þá eiga sér stað á kröfunni sem því nemur. Ef úrlausnar héraðsdómara er hins vegar krafist innan umræddra fjögurra vikna eða annars áður en sýslumaður greiðir gerðarbeiðanda féð, ber sýslumanni að varðveita féð áfram með sama hætti, þar til máli lýkur fyrir héraðsdómi. Féð yrði þá afhent í samræmi við niðurstöðu dómsmáls.
    Af framangreindu er ljóst, að regla 55. gr. ætti almennt ekki við, nema mótmæli hafi komið fram af hálfu gerðarþola eða þriðja manns við framkvæmd fjárnámsins. Eins og orðalagi ákvæðisins er háttað, er þó ekki útilokað að gerðarbeiðandi geti sjálfur óskað eftir að sýslumaður varðveiti fjárnumda peninga með framangreindum hætti, þótt engin mótmæli hafi komið fram meðan á gerðinni stóð. Þótt ósennilegt sé að til þess geti komið, kann að vera að gerðarbeiðandi telji veruleg líkindi fyrir að til ágreiningsmáls komi um gerðina, og því heppilegra að féð verði varðveitt að hætti ákvæðisins, þar til það kemur í ljós.
    Reglur 55. gr. eru byggðar á þeim viðhorfum, að rétti gerðarþola eða þriðja manns geti verið stefnt í hættu, ef gerðarbeiðandi fær fullnustu kröfu sinnar þegar við fjárnám með greiðslu peninga, án tillits til mótmæla gegn gerðinni. Fjárnám í peningum nýtur þeirrar sérstöðu, að ekki er þörf sérstakra áframhaldandi aðgerða til að gerðarbeiðandi fái endanlega fullnustu, t.d. með nauðungarsölu. Ef fjárnám er hins vegar gert í öðrum eignum en peningum, nýtur gerðarþoli eða þriðji maður verndar af reglum 54. gr., þannig að endanleg ráðstöfun hins fjárnumda á sér að jafnaði ekki stað fyrr en að fenginni dómsúrlausn, ef með þarf. Markmið 55. gr. er að gera gerðarþola eða þriðja mann eins settan í þessum efnum, þótt fjárnám hafi verið gert í peningum.
    Ætlast er til að hugtakið „peningar“ í 55. gr. verði skýrt með sama hætti og áður hefur verið gerð grein fyrir í athugasemdum við 41. gr.

Um 56. gr.

    Í 56. gr. koma fram reglur um hver eigi rétt til að fara með umráð fasteignar, skrásetts skips, loftfars eða lausafjár, sem fjárnám hefur verið gert í. Meginreglan í þeim efnum kemur fram í 1. mgr. ákvæðisins, en samkvæmt henni á gerðarþoli rétt á að hafa umráð hins fjárnumda, þar til nauðsyn ber til annars vegna nauðungarsölu þess.
    Í tengslum við framangreinda reglu er gert ráð fyrir þeirri frambúðarskipan varðandi svonefndar vörslusviptingar, að þær aðgerðir fari að jafnaði fram í tengslum við nauðungarsölu og fyrir atbeina þess, sem með hana fer, eins og heimild er reyndar þegar fyrir í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1949, sem virðist þó ekki vera nýtt í framkvæmd. Vörslusviptingar ættu því almennt ekki að tengjast fjárnámsgerðinni sem slíkri, eins og nú tíðkast á grundvelli fyrirmæla aðfararlaga. Sú leið, sem hér er stefnt að, verður að teljast hafa marga kosti umfram þá, sem nú ríkir. Núgildandi reglur veita gerðarþola til dæmis enga tryggingu fyrir að eign, sem tekin hefur verið úr vörslum hans, verði seld innan hæfilegs tíma á uppboði. Að auki stendur vörslusviptingin sem slík eftir eðli sínu í nánari tengslum við sölu eignar heldur en við fjárnámsgerðina, sem hefur það meginmarkmið að veita gerðarbeiðanda tryggingu fyrir kröfu með veðréttindum í eign gerðarþola, ef peningar finnast ekki til fullnustu. Þótt sú skipan komist á, sem hér um ræðir, er allt að einu nauðsynlegt að heimildir standi til að svipta gerðarþola umráðum hins fjárnumda þegar við fjárnámsgerð eða við endurupptöku hennar, ef hætta er á að hann muni spilla hagsmunum gerðarbeiðanda verulega að óbreyttum umráðum. Af þeim sökum eru lagðar til sérstakar heimildir handa sýslumanni í 56.–58. gr. til að svipta gerðarþola umráðum hins fjárnumda samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda. Þessar heimildir ber þó að skoða í ljósi þess, sem hér á undan kemur fram, þannig að ekki er ætlast til að þeim verði beitt, ef sá tími er kominn að gerðarbeiðandi geti komið fram nauðungarsölu hins fjárnumda og fengið vörslusviptingu í tengslum við þá aðgerð, sbr. 1. tölul. 66. gr.
    Fyrirmæli 2. mgr. 56. gr. heimila að svipta gerðarþola umráðum fasteignar, skrásetts skips eða loftfars, sem fjárnám hefur verið gert í, ef gerðarbeiðandi krefst þess og sýnt þykir að brýn hætta sé á spjöllum eða rýrnun eignarinnar að óbreyttum umráðum eða að þau muni torvelda nauðungarsölu hennar verulega. Sú takmörkun er þó gerð á þessari heimild, að ekki megi svipta gerðarþola umráðum húsnæðis, sem hann heldur heimili í. Ef skilyrði eru fyrir umráðasviptingu sem þessari, fær gerðarbeiðandi ekki umráð eignarinnar, heldur annar maður, sem sýslumaður felur sérstaklega að fara með þau. Umráðasvipting sem þessi er aðgerð, sem ekki verður gripið til nema af brýnni nauðsyn, eins og ráða má af orðalagi skilyrða hennar í 2. mgr. 56. gr.
    Í 3. mgr. 56. gr. er heimild handa gerðarbeiðanda að krefjast, án tengsla við væntanlega nauðungarsölu, að honum verði fengnar vörslur lausafjár, sem fjárnám hefur verið gert í. Skilyrði þess, að þetta verði gert, eru til muna vægari en í 2. mgr. 56. gr. Nægir hér að ástæða þyki vera til að óttast að vörslur gerðarþola muni leiða til spjalla eða rýrnunar á hinu fjárnumda, eða að þær muni torvelda nauðungarsölu verulega. Gert er ráð fyrir að gerðarbeiðandi fái vörslur hins fjárnumda, ef skilyrðum vörslusviptingar er fullnægt.

Um 57. gr.

    Í 57. gr. koma fram sérstakar reglur um réttarstöðu málsaðila, ef fjárnám hefur verið gert í kröfu gerðarþola á hendur öðrum.
    Í 1. mgr. 57. gr. kemur fram óskilyrt heimild til að taka verðbréf og skilríki fyrir öðrum kröfum úr vörslum gerðarþola, ef gerðarbeiðandi krefst. Fyrirmæli þessi taka ekki af skarið um hver skuli taka við vörslunum, en þar gæti hvort sem er verið um sýslumann eða gerðarbeiðanda að ræða. Vörslutaka sem þessi getur verið nauðsynlegt öryggisúrræði fyrir gerðarbeiðanda til að tryggja rétt sinn samkvæmt fjárnámi, þótt úrræði skv. 2. mgr. ákvæðisins eða áritun viðskiptabréfs um fjárnám geti komið að haldi í þeim efnum.
    Reglur 2. og 3. mgr. 57. gr. kveða á um leiðir til að koma í veg fyrir að skuldari kröfu geti leyst sig undan skuldbindingu sinni með greiðslu til gerðarþola, enda er markmið fjárnámsins við þessar aðstæður að greiðslan komi að notum til fullnustu kröfu gerðarbeiðanda. Í þessu skyni er kveðið á um það almenna úrræði gerðarbeiðanda í 2. mgr., að hann tilkynni skuldaranum um fjárnámið. Ef um viðskiptabréf er að ræða, verður gerðarbeiðandi að auki ýmist að hlutast til um að það verði tekið úr vörslum gerðarþola eða að það verði áritað um fjárnámið. Ef þessa er gætt, getur skuldarinn almennt ekki greitt gerðarþola, svo bindandi verði fyrir gerðarbeiðanda, svo sem fram kemur í 3. mgr.
    Þótt gerðarbeiðandi gæti þeirra ráðstafana, sem 2. og 3. mgr. fela í sér, hefur hann allt að einu ekki öðlast rétt til að krefja skuldarann um greiðslu kröfunnar. Er þar um sömu stöðu að ræða og eftir núgildandi lögum. Fjárnám veitir gerðarbeiðanda aðeins tryggingarrétt í kröfu gerðarþola á hendur öðrum. Til að fá greiðslu verður gerðarbeiðandi almennt að hlutast til um að kröfunni verði komið í verð og fá andvirðið í sinn hlut. Samkvæmt núgildandi reglum laga nr. 57/1949 er meginleiðin í þessum efnum að krafa verði seld á nauðungaruppboði, en þó er einnig að finna sérstakar heimildir til innheimtu kröfu fyrir atbeina uppboðshaldara, sbr. 49. gr. laganna.
    Í 4. mgr. 57. gr. kemur fram regla, sem ætluð er til að mæta þörfum gerðarbeiðanda og eftir atvikum einnig skuldara kröfu, sem fjárnám hefur verið gert í, meðan henni hefur ekki verið komið í verð með framangreindum hætti. Þar sem gerðarbeiðandi getur ekki sjálfur krafið skuldarann um greiðslu á þessu stigi, heimilar 4. mgr. að fjárnámsgerð verði endurupptekin, ef greiðsla stendur til boða, og að sýslumaður geri fjárnám í henni samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda. Farið yrði með greiðsluna eftir sömu reglum og gilda, þegar fjárnám er gert í peningum, sbr. 55. gr.

Um 58. gr.

    Í ákvæði þessu koma fram reglur um takmörkun heimilda gerðarbeiðanda til að knýja fram umráðasviptingu skv. 56. gr., ef ágreiningur er uppi um fjárnámsgerð.
    Í fyrri málsgrein 58. gr. kemur fram regla um þá aðstöðu, að gerðarþoli eða þriðji maður lýsi yfir við fjárnámsgerð að hann muni leita úrlausnar héraðsdómara um hana. Getur gerðarbeiðandi þá ekki náð fram umráðasviptingu skv. 56. gr. fyrr en að liðnum fjórum vikum frá því fjárnámið var gert, nema hann setji næga tryggingu að mati sýslumanns fyrir tjóni, sem hún kann að leiða til. Hér er líkt og í hliðstæðum tilvikum í reglum frumvarpsins gert ráð fyrir að sýslumaður meti fjárhæð tryggingar eftir svipuðum sjónarmiðum og gilda um tryggingu samkvæmt reglum laga um kyrrsetningu og lögbann, og að form tryggingar verði einnig með samsvarandi hætti.
    Í síðari málsgrein 58. gr. koma fram reglur um sömu skilyrði fyrir umráðasviptingu og í 1. mgr., ef gerðarþoli eða þriðji maður hefur krafist úrlausnar héraðsdómara um ágreining um gerðina áður en gerðarbeiðandi krefst umráðasviptingar. Regla þessi á því aðeins við, að krafa gerðarþola eða þriðja manns hafi þegar borist héraðsdómara, sbr. 1. mgr. 93. gr. Ef því skilyrði er fullnægt, getur gerðarbeiðandi ekki komið fram umráðasviptingu án tryggingar, meðan ágreiningsmál hefur ekki verið leitt til lykta fyrir héraðsdómi. Í niðurlagi 2. mgr. 58. gr. er tekið fram til áréttingar, að rekstur ágreiningsmáls fyrir dómi haggi ekki gildi umráðasviptingar, sem hefur farið fram áður en úrlausnar héraðsdómara var krafist.

Um 59. gr.

    Í þessu ákvæði koma fram fyrirmæli um þá aðstöðu, að lögmæt umráð þriðja manns yfir hinu fjárnumda komi í veg fyrir vörslu- eða umráðatöku skv. 55.–58. gr. Veitir ákvæðið gerðarbeiðanda ekki sérstaka heimild til að krefjast að hið fjárnumda verði tekið úr vörslum þriðja manns, en hann getur tryggt rétt sinn gagnvart gerðarþola og umráðamanninum með því að tilkynna þeim síðarnefnda um fjárnámið og eftir atvikum að láta fylgja endurrit úr gerðabók til sönnunar um það.

Um 60. gr.

    Í fyrri málsgrein 60. gr. kemur fram regla um að fjárnám í lausafé eða kröfu falli niður, ef krafa um nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun hins fjárnumda hefur ekki borist héraðsdómara innan eins árs frá því fjárnám var gert. Regla þessi, sem á sér nokkra fyrirmynd í 4. mgr. 526. gr. danskra réttarfarslaga, felur í sér verulega breytingu frá fyrirmælum 2. mgr. 50. gr. aðfararlaga, sem varða réttindi fjárnámshafa í lausafé.
    Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. verður krafa gerðarbeiðanda um nauðungarsölu á hinu fjárnumda að hafa borist héraðsdómara innan árs frá því fjárnámi var lokið. Um það, hvenær krafa telst hafa borist héraðsdómara í þessum skilningi, má vísa til umfjöllunar um sama efni í athugasemdum við 52. gr. Ef kröfu um nauðungarsölu er ekki komið fram í tæka tíð, hefur það í för með sér að fjárnámið fellur með öllu niður. Hér missir gerðarbeiðandi því ekki aðeins stöðu sína gagnvart síðari fjárnámshöfum eða þrotabúi gerðarþola, eins og 2. mgr. 50. gr. aðfararlaga hefur í för með sér, heldur fellur tryggingarréttur hans samkvæmt fjárnáminu niður og öll önnur réttindi hans samkvæmt því. Vörslusvipting á hinu fjárnumda veitir gerðarbeiðanda engin aukin réttindi samkvæmt ákvæðinu, þótt hún hafi átt sér stað innan árs frá lokum fjárnámsgerðar, andstætt því, sem nefnd regla aðfararlaga kveður á um.
    Með því að 1. mgr. 60. gr. leiðir til að fjárnám falli sjálfkrafa niður, þarf gerðarþoli almennt ekki að grípa til neinna sérstakra ráðstafana til að áhrifa þess gæti ekki meir. Hafi fjárnámsgerð verið þinglýst, yrði gerðarþoli þó í eigin þágu að hlutast til um að fá réttindi gerðarbeiðanda afmáð. Ef gerðarbeiðandi hefur náð fram vörslusviptingu á hinu fjárnumda, á gerðarþoli rétt á að fá það aftur, en hann getur þurft að leita atbeina dómstóla til að fylgja þeim rétti fram.
    Í 2. mgr. 60. gr. er kveðið á um sérstaka undantekningu frá fyrirmælum 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt henni glatar gerðarbeiðandi ekki rétti samkvæmt fjárnámi, þótt ár líði frá lokum gerðar án þess að krafa berist frá honum um nauðungarsölu, ef ágreiningsmál hefur verið rekið um fjárnámsgerðina eða þriðji maður hefur haft lögmæt umráð hins fjárnumda. Til að halda rétti sínum við þessar aðstæður, verður gerðarbeiðandi þó að koma fram kröfu um nauðungarsölu innan þriggja mánaða frá því endanleg dómsúrlausn gekk í ágreiningsmáli eða umráðaheimild þriðja manns lauk. Rétt er að taka fram í þessu sambandi, að ef hindrun fyrir nauðungarsölu af þeim toga, sem hér um ræðir, var úr vegi innan skamms tíma frá því fjárnám var gert, breytir regla 2. mgr. 60. gr. því ekki, að gerðarbeiðandi heldur rétti sínum í eitt ár á grundvelli fyrri málsgreinar ákvæðisins. Ef hindruninni er hins vegar fyrst aflétt, þegar minna er orðið eftir af ársfrestinum en þrír mánuðir, á gerðarbeiðandi ávallt þriggja mánaða frest samkvæmt reglu 2. mgr. 60. gr. til að halda rétti sínum við.

Um 61. gr.

    Í reglu þessari koma fram almenn fyrirmæli um nauðsyn tryggingarráðstafana fyrir rétti samkvæmt fjárnámi, sem þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 62.–64. gr.

    Í ákvæðum þessum koma fram sérstakar reglur um árangurslaus fjárnám, en fjárnám telst árangurslaust í þessum skilningi, ef eignir koma ekki fram við gerðina, sem nægja til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda.
    Þau atvik að nægilegar eignir komi ekki fram við fjárnám, geta komið til af þeirri augljósu ástæðu, að gerðarþoli sé eignalaus. Annað getur þó komið til, því ef gerðarþoli mætir ekki við fjárnám eða málsvari hans, er ekki sjálfgefið að gerðarbeiðandi búi yfir vitneskju um eignir gerðarþola, sem fjárnám má gera í. Við þær aðstæður má með vissum hætti segja, að eignir komi ekki fram við gerðina. Í reglum 62. gr. eru hins vegar lagðar verulegar hömlur við að upplýsingaskortur geti leitt til að fjárnámi verði lokið án árangurs. Þau málalok koma að jafnaði því aðeins til greina samkvæmt reglu þessari, að náðst hafi til gerðarþola eða málsvara hans, sem í reynd jafngildir því, að fjárnámi verður ekki almennt lokið án árangurs nema vegna frásagnar gerðarþola um eignaleysi. Frá þessu kemur þó fram undantekning í niðurlagi 62. gr., sem heimilar þessi málalok, ef gerðarþoli finnst ekki eða neinn, sem getur tekið málstað hans.
    Þau skilyrði 62. gr., sem hér hafa verið rakin, fela í sér verulega breytingu frá núgildandi reglum. Aðfararlög kveða að vísu ekkert á um árangurslausa gerð, en í framkvæmd hefur verið staðið þannig að verki, að gerðarbeiðandi ræður því í reynd hvort gerð verði lokið með þessum hætti, ef ekki næst til gerðarþola og ekki er kunnugt um eign, sem fjárnám má gera í. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu er vikið að rökum fyrir þeirri breytingu, sem 62. gr. leggur til í þessum efnum, og skal vísað hér til þeirrar umfjöllunar.
    Í 63. gr. kemur fram sérregla um þá aðstöðu, að eign komi að vísu fram við fjárnám, en líkindi þykja fyrir að hún nægi ekki til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Þrír kostir koma almennt til greina, þegar svo stendur á. Gerðarbeiðandi getur fengið fjárnám í eigninni án frekara tillits að svo stöddu til hvort eignin muni nægja. Á það yrði síðan reynt með nauðungarsölu, hversu langt andvirði hennar hrekkur, og ef það reyndist ekki nægja, gæti gerðarbeiðandi fengið gerðina endurupptekna til að leita frekari trygginga, sbr. 5. tölul. 66. gr. Í annan stað gæti gerðarbeiðandi kosið að fá fjárnám í eigninni, svo langt sem hún nær, en að gerð verði að öðru leyti árangurslaus, ef frekari eignir eru ekki fyrir hendi. Í þriðja lagi gæti gerðarbeiðandi með öllu hafnað fjárnámi í eigninni og látið ljúka gerðinni án nokkurs árangurs. Regla 63. gr. tekur til tveggja síðastnefndra möguleika. Ef bent hefur verið á eign til fjárnáms, en gerðarbeiðandi vill ljúka gerð án árangurs, hvort sem það er að nokkru eða öllu, kveður 63. gr. á um það skilyrði þeirra málaloka, að virðing fari fram á eigninni skv. 2. eða 3. mgr. 38. gr. til að staðreyna árangursleysi. Þetta skilyrði er sett til að tryggja að hagsmunir gerðarþola verði ekki fyrir borð bornir í þessum efnum.
    Í 64. gr. koma fram sérreglur um öflun upplýsinga í tengslum við fjárnámsgerð, en þeim verður aðeins beitt, ef skilyrðum 62. og eftir atvikum 63. gr. er fullnægt til að ljúka fjárnámi að nokkru leyti eða öllu án árangurs. Ákvæði 64. gr. heimila sýslumanni, samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda, bæði að taka við skýrslum annarra en gerðarþola, ef þeir búa yfir vitneskju um eign hans og eru viljugir til að gefa skýrslu að ósk gerðarbeiðanda, og að leita svara opinberra stofnana, annarra stjórnvalda, viðskiptabanka eða sparisjóða um tilvist tiltekinnar eignar gerðarþola. Aðgerðir þessar koma aðeins til greina, ef gerðarbeiðandi getur rökstutt að gerðarþola kunni að tilheyra ákveðin eign, sem fæst ekki staðfest við gerðina. Hér ber að leggja áherslu á, að ekki nægir að gerðarbeiðandi telji víst að gerðarþoli hljóti að eiga einhverjar ótilteknar eignir, heldur verður hann að afmarka nánar tegund eignarinnar og færa rök fyrir grun sínum um tilvist hennar. Ef þessu er fullnægt, skiptir ekki höfuðmáli hver tilsvör gerðarþola eða málsvara hans yrðu, hvort hann neiti að viðkomandi eign sé til eða færist undan að svara. Við þessar aðstæður gæti þó einnig komið til álita að beita úrræðum 29. gr., ef gerðarbeiðandi krefst, hvort heldur einum sér eða samhliða upplýsingaöflun skv. 64. gr.
    Skýrslur að hætti 1. tölul. 1. mgr. 64. gr. verða ekki teknar nema með vilja þess, sem hlut á að máli. Ákvæðið heimilar ekki sýslumanni að skylda viðkomandi til svara. Eins og orðalag þessarar reglu gefur til kynna, er ekki ætlast til að sýslumaður boði viðkomandi til skýrslugjafar, heldur er gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi hlutist til um að skýrslugjafinn gefi sig fram við sýslumann í þessu skyni. Í 2. tölul. 1. mgr. 64. gr. er á hinn bóginn gert ráð fyrir að sýslumaður afli sjálfur upplýsinga frá þeim, sem þar eru taldir, ef gerðarbeiðandi krefst. Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. er þessum aðilum skylt að veita umbeðnar upplýsingar, að því marki sem þær varða efnahag gerðarþola.

Um 65. gr.

    Í ákvæðum 65.–68. gr. koma fram fyrirmæli um endurupptöku fjárnámsgerðar, sem áður hefur verið lokið, bæði um skilyrði endurupptöku og um framkvæmd hennar. Í 65. gr. er fjallað um þau tilvik, þar sem skylt er að endurupptaka gerð, en reglur 66. og 67. gr. fela að mestu í sér heimildir til endurupptöku, annars vegar að kröfu gerðarbeiðanda og hins vegar að kröfu gerðarþola eða þriðja manns.
    Í fyrri málsgrein 65. gr. er kveðið á um skyldu sýslumanns til að endurupptaka gerð. ef allir málsaðilar eru sammála um það. Málaleitan sem þessi getur komið til af margvíslegum ástæðum, t.d. ef málsaðilar eru sammála um að eign verði leyst undan fjárnámi og önnur tekin í hennar stað.
    Í síðari málsgrein 65. gr. er mælt fyrir um rétt málsaðila, eins eða fleiri, til að fá gerð endurupptekna, ef úrlausn héraðsdómara eða æðra dóms hefur verið fengin um ágreining um gerðina, sbr. reglur 15. kafla, og málalok fela í sér að gerðinni skuli breytt með ákveðnum hætti. Úrlausn héraðsdómara eða æðra dóms við þessar aðstæður gæti hvort heldur falið í sér að gerðin í heild falli niður eða staðfestingu á réttmæti kröfu málsaðila um tiltekna breytingu á henni. Endurupptöku væri almennt ekki þörf í fyrra tilvikinu, því dómsúrlausnin ein út af fyrir sig yrði nægjanleg til að afmá öll réttindi gerðarbeiðanda á grundvelli fjárnáms. Í síðara tilvikinu er hins vegar almennt að finna tilefni til endurupptöku, því dómsúrlausn gæfi fyrirmæli um að rétt sé að breyta gerðinni á ákveðinn veg. Slík breyting kæmi ekki til af sjálfu sér við það eitt, að dómsúrlausn hafi gengið um réttmæti kröfu um hana. Fjárnámsgerðinni sem slíkri yrði að breyta til samræmis við úrlausnina með endurupptöku. Sýslumaður tæki ekki upp gerðina af sjálfsdáðum við þessar aðstæður, heldur yrði krafa um endurupptöku að koma fram frá málsaðila.

Um 66. gr.

    Hér eru talin upp þau tilvik, þar sem gerðarbeiðanda er heimilt að krefjast endurupptöku fjárnámsgerðar.
    Í 1. tölul. er mælt fyrir um heimild til endurupptöku, ef gerðarþoli hefur haldið umráðum hins fjárnumda eftir meginreglu 1. mgr. 56. gr., en gerðarbeiðandi telur síðar tilkomin atvik leiða til nauðsynjar umráðasviptingar samkvæmt reglum 55.–58. gr. Það er skilyrði fyrir endurupptöku í þessu skyni, að ekki sé komið að því að gerðarbeiðandi geti krafist nauðungarsölu eða annarrar lögmætrar ráðstöfunar hins fjárnumda vegna reglna 54. gr. Þetta skilyrði er sett af tilliti til þess, sem getið var í athugasemdum við 56. gr., að frumvarpið byggir á því meginviðhorfi að umráða- eða vörslusviptingar fari ekki fram í tengslum við aðfarargerðir, heldur fyrir atbeina þess, sem annast nauðungarsölu eða aðra ráðstöfun hins fjárnumda.
    Í 2. tölul. er endurupptaka heimiluð, ef gerðarbeiðandi vill leysa eign undan fjárnámi. Almennt þarf ekki endurupptöku, þótt gerðarbeiðandi vilji falla frá fjárnámi í eign, því í flestu tilliti er nægilegt að gerðarþoli fái yfirlýsingu þess efnis í hendur, t.d. til að afmá þinglýsingu.
    Í 3. tölul. er gert ráð fyrir að endurupptaka geti átt sér stað, ef gerðarbeiðandi vill láta skrásetja hið fjárnumda nánar en gert hefur verið í upphafi. Hér eru hafðar í huga þær aðstæður, að fjárnám hafi til dæmis verið gert í safni lausafjármuna, án þess að hver einstakur hlutur hafi verið talinn upp í bókun um gerðina. Gerðarbeiðanda getur reynst örðugt að nýta sér gerðina frekar, ef það orkar tvímælis hvort ákveðinn hlutur hafi fallið undir safnheiti, sem fram kemur í bókun. Staða hans gæti einnig verið ótrygg gagnvart þeim, sem síðar krefst fjárnáms hjá sama gerðarþola.
    Í 4. tölul. koma fram fyrirmæli, sem vísa til sérreglu 4. mgr. 57. gr. um endurupptöku til að gera fjárnám í greiðslu af kröfu, sem gerðarbeiðandi hefur áður fengið fjárnám í. Má vísa til fyrri athugasemda um þá reglu.
    Í 5. tölul. er heimilað að endurupptaka fjárnám, ef eign, sem upphaflega var tekin fjárnámi, hefur verið komið í verð og andvirði hennar ekki nægt fyrir kröfu gerðarbeiðanda. Það skiptir ekki teljandi máli hvort sú aðgerð, að gerðarbeiðandi leiti fjárnáms í frekari eignum af þessum sökum, sé nefnd endurupptaka fyrri gerðar eða verði talin ný fjárnámsgerð fyrir eftirstöðvum kröfunnar.
    Í 6. tölul. er kveðið á um að endurupptaka megi fjárnámsgerð, sem lokið hefur verið án fulls árangurs, ef gerðarbeiðandi telur sig geta bent á eignir gerðarþola, sem vitneskja lá ekki fyrir um áður. Með sama hætti og nefnt var hér á undan varðandi 5. tölul., gæti þessi aðgerð hvort sem er átt sér stað með endurupptöku eða nýju fjárnámi.

Um 67. gr.

    Í 1. mgr. 67. gr. koma fram reglur um heimildir gerðarþola til að krefjast endurupptöku. Í fyrri tölulið ákvæðisins er mælt fyrir um þá heimild, ef gerðarþoli hefur ekki verið staddur við gerðina og fjárnám hefur verið gert í eign, sem ekki mátti taka fjárnámi eða hann hefði mátt undanþiggja, sbr. 41.–50. gr. Við þessar aðstæður ætti gerðarþoli einnig það úrræði, að krefjast úrlausnar héraðsdómara um gerðina samkvæmt reglum 15. kafla. Er því eðlilegt að heimila endurupptöku af þessum sökum til að draga úr nauðsyn rekstrar dómsmáls, ef aðeins er þörf leiðréttingar augljósra mistaka. Regla þessi er bundin við umrædd tilvik og heimilar hún því ekki endurupptöku að kröfu gerðarþola, ef hann telur til dæmis að fjárnám hafi verið gert í eign þriðja manns. Í síðari tölulið 1. mgr. 67. gr. er heimiluð endurupptaka að kröfu gerðarþola, ef atvik eftir lok fjárnámsgerðar, t.d. greiðsla kröfu gerðarbeiðanda, hafa í för með sér að hún falli niður, eða dómsúrlausn hefur gengið, sem hefur hnekkt aðfararheimild gerðarbeiðanda að einhverju leyti eða öllu. Heimild þessi er háð því skilyrði, að gerðarþoli hafi hagsmuni af endurupptöku. Það skilyrði er sett í ljósi þess, að almennt þyrfti gerðarþoli ekki endurupptöku af umræddum ástæðum, þar sem réttaráhrif fjárnáms ættu að falla niður af sjálfu sér og yfirlýsingar gerðarbeiðanda eða önnur heimildarskjöl ættu að nægja gerðarþola til flestra þarfa. Hugsanlegt er þó að gerðarbeiðandi fáist til dæmis ekki til að afmá þinglýsingu réttinda sinna og ætti gerðarþoli þá fárra annarra kosta völ en að afla staðfestingar fyrir brottfalli þeirra með endurupptöku.
    Í 2. mgr. 67. gr. kemur fram regla um heimild þriðja manns til að krefjast endurupptöku. Er honum heimilað það, ef hann hefur ekki átt kost á að koma fram mótmælum, meðan á gerðinni stóð, og hann telur fjárnámið brjóta gegn rétti sínum. Aðild þriðja manns að kröfu sem þessari er háð sömu skilyrðum og áður var lýst í athugasemdum við 28. gr. Ýmis tilefni geta verið fyrir kröfu þriðja manns um endurupptöku, t.d. ef fjárnám hefur ranglega verið gert í eign hans. Þriðji maður gæti krafist úrlausnar héraðsdómara um gerðina við þessar aðstæður, sbr. 1. mgr. 92. gr. Býr því hér að baki sama röksemd fyrir að heimila endurupptöku og áður var lýst varðandi 1. tölul. 1. mgr. 67. gr.

Um 68. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. á að beina beiðni um endurupptöku til þess sýslumanns, sem lauk viðkomandi gerð. Ef gerðin hefur verið færð milli sýslumanna skv. 2. mgr. 35. gr., ber að krefjast endurupptöku hjá þeim, sem síðast fór með hana.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að farið skuli við endurupptöku eftir almennum reglum um framkvæmd fjárnáms, að því leyti sem þær eiga við. Þessi ummæli verður að skilja í ljósi þess, að endurupptaka beinist almennt að einum tilteknum þætti gerðar, og þarf því ekki að fjalla á ný um aðra hluti. Að framkominni beiðni yrði sýslumaður að kanna hvort hún geti stuðst við einhverja heimild til endurupptöku skv. 65.–67. gr. Ef engin þessara heimilda á við að mati sýslumanns, er honum rétt að vísa beiðninni þegar á bug, en um slíka ákvörðun hans má krefjast úrlausn héraðsdómara skv. 4. mgr. 85. gr. Að öðrum kosti tilkynnir sýslumaður málsaðilum um stað og stund fyrirtöku, sbr. 20. og 21. gr., þar á meðal þriðja manni, sem kann að hafa gefið sig fram við fjárnámsgerðina, ef skilyrðum 28. gr. var fullnægt fyrir aðild hans. Hér ber þó að vekja athygli á sérreglu 4. mgr. 57. gr., þar sem kveðið er á um að óþarft sé að boða gerðarþola til endurupptöku við þargreindar aðstæður. Um frekari framkvæmd við endurupptöku yrði unnt að beita viðeigandi reglum um fjárnámsgerðir.
    Í 3. mgr. kemur fram regla, sem skýrir sig sjálf.

Um 69. gr.

    Í 69.–71. gr. koma fram sérstakar reglur um fjárnám til fullnustu kröfum um dagsektir, en eins og vikið var að í almennum athugasemdum, eru kröfur sem þessar sérstaks eðlis, og því þörf sérreglna um ýmis atriði.
    Í 69. gr. er skilgreint hverjar þær kröfur eru, sem sérreglur 10. kafla taka til. Segir að það séu kröfur um dagsektir og önnur áfallandi viðurlög, sem hafa verið lögð á gerðarþola til að knýja hann til efnda á skyldu, ef fjárhæð þeirra hefur ekki verið ákveðin á þann hátt, að skaðabætur felist í henni eða endurgjald til þess, sem gerðarþoli ber skyldu við.
    Ummæli ákvæðisins um „önnur áfallandi viðurlög“ eiga rætur að rekja til þess, að þvingunarúrræðin, sem það tekur til, eru í ýmsum tilvikum nefnd öðru heiti en dagsektir. Það heiti hefur einnig verið notað um annað en það, sem rétt mætti telja samkvæmt bókstaflegum skilningi á því. Má þannig finna dæmi þess að þvingunarviðurlög kallist dagsektir, þótt þau falli til dæmis á fyrir hverja viku eða mánuð, sem skyldu er ekki sinnt.
    Tilgangur dagsekta er í meginatriðum að hvetja einhvern eða þvinga til að sinna tiltekinni skyldu. Hvatningin eða þvingunin er fólgin í þeirri aðstöðu, að meðan skyldunni er ekki sinnt, hækka sektirnar dag frá degi og yfir vofir að fjárnám verði gert fyrir þeim. Ef skyldunni er hins vegar sinnt, falla áður áfallnar sektir að öðru jöfnu niður. Annars konar áfallandi viðurlög eru hins vegar til, sem líkjast dagsektum, en hafa þó víðtækari tilgang. Ýmis dæmi má finna af því í samningum, að kveðið sé á um tiltekna skyldu, en verði henni ekki sinnt, komi til greiðslu ákveðinnar fjárhæðar fyrir hvern dag sem það dregst. Slíkar greiðslur er stundum nefndar dagsektir í samningum sem þessum, en ættu væntanlega með réttu að nefnast févíti. Tilgangur þessara greiðslna er oft á tíðum í senn að hvetja til efnda í tæka tíð og að bæta tjón, sem dráttur á efndum leiðir til. Þessi lýsing gæti til dæmis átt við svonefndar dagsektir í verksamningum. Vegna þeirra skaðabóta, sem felast í viðurlögum sem þessum, kemur almennt ekki til álita að þau falli með öllu niður, þegar skylda hefur verið efnd. Það er af þessum ástæðum sem 69. gr. tiltekur það sérstaklega, að fyrirmæli 10. kafla taki ekki kröfu um viðurlög, ef skaðabætur eða annars konar endurgjald felast í fjárhæð hennar.

Um 70. gr.

    Unnt er að ákveða dagsektir með dómi til að þvinga dómþola til efnda á tiltekinni skyldu, sbr. 3. tölul. 193. gr. laga nr. 85/1936. Ef fjárnám ætti að gera fyrir kröfu um dagsektir samkvæmt dómi, yrði aðfararbeiðni beint til sýslumanns án undanfarandi meðferðar héraðsdóms, sbr. 1. mgr. 16. gr. Leggja má hins vegar á dagsektir með öðrum hætti samkvæmt lögum, t.d. með úrskurði eða ákvörðun yfirvalds, eins og fram kemur í talningu lagafyrirmæla í athugasemdum við 5. og 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þyrfti að afla áritunar héraðsdómara á aðfararbeiðni, sem byggð væri á slíkri heimild, áður en henni yrði beint til sýslumanns til framkvæmdar fjárnáms. Dagsektir geta fallið á í langan tíma og gerðarbeiðandi því haft hagsmuni af að fjárnám verði gert oftar en einu sinni á tímabilinu fyrir dagsektum, sem fallið hafa til. Er af þessum sökum kveðið á um það í fyrri málsgrein 70. gr., að ef krafa um fjárnám fyrir dagsektum styðst við heimild, sem bera þarf undir héraðsdómara skv. 11. gr., þá sé nægilegt að afla áritunar hans á aðfararbeiðni í fyrsta skipti, sem fjárnáms er krafist. Er þetta gert til að auðvelda framkvæmd, enda engin sérstök atriði, sem þarfnast sjálfstæðrar athugunar héraðsdómara hverju sinni sem fjárnám á að gera eftir sömu heimild. Í síðari málsgrein 70. gr. er regla, sem einnig á rætur að rekja til þess, að fjárnáms kunni að vera krafist oftar en einu sinni fyrir dagsektum af sama tilefni, en þar er kveðið á um að fjárnám verði ekki gert oftar en mánaðarlega fyrir áföllnum dagsektum. Er þetta gert til að fyrirbyggja að gerðarbeiðandi baki gerðarþola óhóflegan kostnað og auki erfiði sýslumanns með því krefjast fjárnáms til dæmis vikulega eða daglega fyrir því, sem fallið hefur til frá síðasta fjárnámi. Verður ekki séð að gerðarbeiðandi geti almennt haft hagsmuni af svo tíðum aðgerðum, sem tilefni er til að vernda.

Um 71. gr.

    Reglur 71. gr. eru byggðar á þeim viðhorfum, sem lýst var í athugasemdum við 69. gr. um eðli og tilgang dagsekta. Eru þannig fyrirmæli í fyrri málslið 71. gr. um að fjárnám verði ekki gert fyrir áföllnum dagsektum, ef gerðarþoli hefur þegar efnt skyldur sínar, býðst til gera það við gerðina eða sýnir fram á að skyldurnar séu fallnar niður vegna ómöguleika eða af öðrum sökum. Þessu til samræmis er kveðið á um það í síðari málslið 71. gr., að fjárnám, sem hefur verið gert fyrir áföllnum dagsektum, falli niður, hvað þær varðar, vegna efnda gerðarþola á skyldu sinni, nema annað leiði af lögum eða beinum fyrirmælum aðfararheimildarinnar. Fyrirmæli laga um að innheimta megi áfallnar dagsektir án tillits til efnda viðkomandi skyldu eru mjög fátíð, en dæmi af slíku má þó finna í 10. gr. laga nr. 79/1974. Sá fyrirvari, sem felst í þeim orðum síðari málsliðar 71. gr., að fjárnám fyrir dagsektum falli niður „hvað þær varðar“, tekur tillit til að fjárnám kann að hafa verið gert um leið fyrir málskostnaði eða öðrum kröfum. Fjárnám félli við þessar aðstæður aðeins niður fyrir dagsektum, en ekki öðrum kröfum.
    Um síðari málslið 71. gr. er rétt að vekja athygli á að fjárnám fyrir dagsektum fellur niður af sjálfu sér, ef gerðarþoli efnir skyldur sínar, og getur gerðarbeiðandi því ekki nýtt sér frekar réttindi samkvæmt gerðinni. Þetta hefði þannig í för með sér brottfall fjárnáms, sem til dæmis hefði verið gert í fasteign gerðarþola, og gæti hann neytt áðurlýstra úrræða til láta afmá þinglýsingu þess. Gerðarþoli yrði því í reynd eins settur að þessu búnu og ef fjárnámið hefði aldrei verið gert. Atvik geta hins vegar orðið önnur. Ef gerðarbeiðandi hefði fengið til dæmis fjárnám í peningum í stað fasteignar, breyta síðari efndir gerðarþola á skyldu ekki þeirri staðreynd, að greiðsla dagsekta hefur þegar átt sér stað. Við þessar aðstæður gerir brottfall réttinda gerðarbeiðanda á grundvelli 71. gr. gerðarþola ekki eins settan og ef fjárnámið hefði aldrei farið fram. Regla 71. gr. felur ekki í sér sjálfstæða heimild handa gerðarþola til að endurkrefja gerðarbeiðanda um það, sem hann kann að hafa fengið með fjárnámi, áður en það féll niður.

Um 72. gr.

    Regla þessa ákvæðis, um útburð gerðarþola eða muna hans af fasteign samkvæmt dómi eða annarri aðfararheimild skv. 1. mgr. 1. gr., er efnislega hin sama og regla 12. gr. aðfararlaga. Þykir því ekki þörf á að skýra ákvæði þetta nánar.

Um 73. gr.

    Í 13. gr. aðfararlaga koma fram reglur um fullnustu dóma um skyldu gerðarþola til að láta hlut af hendi til gerðarbeiðanda. Regla 73. gr. um innsetningargerðir er efnislega hin sama, þótt orðalag hennar sé með nokkuð öðrum hætti. Felst þannig ekki efnisleg breyting í því, að 73. gr. fjallar um fullnustu skyldu samkvæmt aðfararheimild, en rætt er í 13. gr. aðfararlaga um fullnustu dóms. Þessi orðalagsmunur er kominn til af því, að aðfararheimildir skv. 1. mgr. 1. gr. eru ekki eingöngu dómar. Þá er heldur ekki um efnisbreytingu að ræða, þótt 73. gr. taki eftir upphafsorðum sínum til aðfararheimilda um skyldu gerðarþola til að láta af hendi umráð annars en þess, sem 72. gr. tekur til, en 13. gr. aðfararlaga fjallar eftir orðanna hljóðan um fullnustu skyldu til að láta hlut af hendi. Tilvísun 73. gr. til þess, að um aðrar umráðabreytingar sé að ræða en með útburðargerð skv. 72. gr., felur í sér að hér er fjallað um sama efni og í 13. gr. aðfararlaga. Meðal ástæðna fyrir þessari breyttu framsetningu er sú, að 13. gr. aðfararlaga gildir t.d. um innsetningu í forræði barns. Er ekki við hæfi að regla um slíkt efni sé orðuð þannig, að um skyldu sé að ræða til að láta „hlut“ af hendi.

Um 74. gr.

    Í 74. gr. eru reglur um hvernig unnt er að fullnægja með aðför skyldu gerðarþola til að rita undir eða gefa út skjal eða til að standa á annan hátt að löggerningi. Úrræði reglunnar felst í því, að sýslumaður framkvæmir þá athöfn, sem gerðarþoli vill ekki veita atbeina sinn til, og hefur ráðstöfun hans sömu þýðingu og ef hann hefði haft umboð gerðarþola til hennar. Regla þessi er að mestu leyti efnislega samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. aðfararlaga. Í 74. gr. er þó að finna þá viðbót við núgildandi reglu, að þessari aðferð verði beitt til að fullnægja skyldu gerðarþola til að „standa á annan hátt að löggerningi“, ef því verður komið við. Er hér haft í huga að gerðarþola getur verið skylt að standa að löggerningi í öðru formi en skriflegu. Væntanlega má þó skýra nefnda reglu 14. gr. aðfararlaga á þann hátt, að hún geti tekið til athafnar sem þessarar.

Um 75. gr.

    Í 75. gr. er að finna reglur um fullnustu aðfararheimildar, sem skyldar gerðarþola til að láta eitthvað ógert. Er gert ráð fyrir að aðfarargerð fari þannig fram við þessar aðstæður, að sýslumaður árétti við gerðarþola skyldu hans til að láta af athöfn eða framkvæma hana ekki. Ef gerðarbeiðandi krefst þess, getur sýslumaður þessu til viðbótar ákveðið að fela lögreglumönnum að hindra viðkomandi athöfn gerðarþola. Beiting þess úrræðis yrði hins vegar háð eðli athafnarinnar, sem um er að ræða hverju sinni. Unnt væri til dæmis að fela lögreglu að stöðva byggingarframkvæmdir gerðarþola eða að fyrirbyggja að hann haldi þeim áfram. Hins vegar væri ómögulegt að hindra með þessum hætti athöfn gerðarþola, sem fælist til dæmis í notkun hans á starfsheiti í andstöðu við dómsúrlausn. Sýslumaður yrði því að meta hverju sinni, hvort beiting lögregluvalds geti komið til álita. Ákvörðun hans um hvort fela eigi lögreglumönnum að gæta réttinda gerðarbeiðanda teldist þáttur í aðfarargerð, sem að jafnaði yrði þar með lokið. Geta því málsaðilar krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sem þessa eftir reglum 15. kafla.
    Ef skilyrði þykja ekki fyrir að hindra athöfn gerðarþola með lögregluvaldi, getur komið til álita að beita reglum 77. gr. og meta til fjár hagsmuni gerðarbeiðanda af banni, sem gerðarþoli fæst ekki til að hlíta, ef gerðarbeiðandi krefst. Fjárnám mætti síðan gera hjá gerðarþola fyrir þeirri fjárhæð.
    Með reglu 75. gr. er lagt til að afnumin verði heimild gerðarbeiðanda skv. 16. gr. aðfararlaga til að höfða einkarefsimál gegn gerðarþola vegna brota þess síðarnefnda gegn banni og fá hann dæmdan til sekta eða fangelsisvistar. Ekki er vitað til að þeirrar heimildar hafi verið neytt í framkvæmd, enda er hún nú orðið í verulegu ósamræmi við almenn lagaviðhorf.

Um 76. gr.

    Í 76. gr. kemur fram regla, sem varðar önnur tilvik en þau, sem fyrirmæli 72.–75. gr. taka til, ef aðfararheimild kveður á um aðra skyldu gerðarþola en til peningagreiðslu. Skyldum, sem 76. gr. tekur til, verður ekki fullnægt með aðför á annan hátt en ákvæðið sjálft lýsir. Sú leið, sem hér er mælt fyrir, felst í því að sýslumaður skori á gerðarþola að efna skylduna. Ef gerðarþoli verður ekki við þeirri áskorun og aðfararheimildin kveður til vara á um sérstaka peningagreiðslu hans, getur sýslumaður gert fjárnám fyrir henni að kröfu gerðarbeiðanda. Ef aðfararheimildin geymir hins vegar ekki fyrirmæli um slíka greiðslu, er lokaúrræði frumvarpsins að kröfu gerðarbeiðanda verði umbreytt í peningakröfu eftir reglum 77. gr. og fjárnám gert fyrir henni samkvæmt kröfu hans.
    Framangreind tilhögun er hin sama og kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 11. gr. aðfararlaga. Verður ekki séð að raunhæf úrræði séu tiltæk til að þvinga gerðarþola frekar en hér var lýst til efnda á skyldu, sem fellur utan marka 72.–75. gr. Efndir slíkra skyldna eru almennt brenndar því marki að vera háðar atbeina gerðarþola sjálfs að meira eða minna leyti. Valdbeiting getur ekki komið til álita sem valkostur til að þvinga gerðarþola til að sinna skyldu með eigin athöfn. Hugsanlega mætti setja reglur um heimild til ákvörðunar dagsekta við aðför í þessu skyni, eins og víða má finna dæmi um í erlendum rétti. Slík leið hefur hins vegar enga kosti umfram þá, sem hér er kveðið á um, auk þess að gerðarbeiðanda gefst að jafnaði kostur á að krefjast dóms um dagsektir, samhliða því að krefjast að kveðið verði á um skyldu til tiltekinnar athafnar, ef hann telur þá leið vænlegri.

Um 77. gr.

    Eins og fram kemur í upphafsummælum 1. mgr. 77. gr., kemur til kasta reglna ákvæðisins, ef úrræði 72.–76. gr. leiða ekki til fullnustu kröfu gerðarbeiðanda og ómöguleiki eða önnur samsvarandi atvik leysa gerðarþola ekki undan þeirri skyldu, sem krafist er aðfarar fyrir. Ef aðstæður eru þessar, getur gerðarbeiðandi krafist að héraðsdómari ákveði peningagreiðslu handa honum úr hendi gerðarþola í stað skyldu, sem gerðarþoli fæst ekki til að sinna. Kæmi því í hlut héraðsdómara að taka afstöðu til hugsanlegrar mótbáru gerðarþola, um að hann hafi losnað undan skyldu sinni vegna ómöguleika á efndum.
    Reglur 2.–5. mgr. 77. gr. fjalla að mestu um málsmeðferð fyrir héraðsdómi, ef umbreyta þarf hagsmunum gerðarbeiðanda í peningakröfu, og með hverjum hætti eigi að ákvarða þá fjárhæð, sem komi í stað skyldu gerðarþola. Um málsmeðferð vísar 4. mgr. 77. gr. til reglna 14. kafla og eiga almenn fyrirmæli hans að mestu við. Þó er til dæmis vikið frá reglum 14. kafla með sérreglu 3. mgr. 77. gr. um dómkvaðningu matsmanna, sem felur í sér undantekningu frá fyrirmælum 1. mgr. 90. gr., auk þess að sönnunarmat héraðsdómara getur orðið bundið af reglu 2. mgr. 77. gr.
    Í 2. mgr. 77. gr. kemur fram sérregla um þau tilvik, þar sem hægt er að láta aðra leysa af hendi verk, sem gerðarþoli neitar að sinna. Þessi tilvik hafa þá sérstöðu, að við aðfarargerðina má sýslumaður taka ákvörðun um að heimila gerðarbeiðanda að leita til annarra en gerðarþola um að vinna viðkomandi verk gegn reikningi. Í framhaldi af því yrði gerðarbeiðandi þó að fara eftir almennum leiðum 77. gr. og krefjast úrlausnar héraðsdómara um endurgjald úr hendi gerðarþola. Samkvæmt 2. mgr. 77. gr. yrði héraðsdómari hins vegar almennt bundinn um ákvörðun endurgjaldsins við þá reikningsfjárhæð, sem gerðarbeiðandi hefur orðið að gjalda vegna verksins. Gerðarþoli gæti ekki krafist mats á hagsmunum gerðarbeiðanda að hætti 3. mgr. 77. gr., þegar þessi leið er farin, en gæti leitast við að hnekkja reikningsfjárhæðinni, ef hún yrði talin sýnilega úr hófi.
    Samkvæmt 3. mgr. 77. gr. er almenna leiðin um ákvörðun endurgjalds handa gerðarbeiðanda sú, að einn eða tveir dómkvaddir menn meti hagsmuni hans til fjár. Dómkvaðningu þessa á héraðsdómari að framkvæma að kröfu gerðarbeiðanda undir rekstri máls skv. 14. kafla og yrði farið eftir almennum reglum 136.–144. gr. laga nr. 85/1936 í þeim efnum. Í mati sínu eiga hinir dómkvöddu menn að fara eftir viðhorfum, sem ráða ákvörðun eignarnámsbóta, eftir því sem þau geta átt við. Hér ættu matsmenn með öðrum orðum að taka mið af því, hverjar bætur gerðarbeiðandi ætti að fá, ef réttindi hans á hendur gerðarþola yrðu tekin eignarnámi. Ef ekki reynist fært að ákvarða endurgjald með þessum hætti, yrði að styðjast við mat á tjóni gerðarbeiðanda af vanefnd gerðarþola eftir almennum viðhorfum. Þýðing matsgerðar samkvæmt þessum reglum fyrir endanlega ákvörðun endurgjalds til gerðarbeiðanda yrði hin sama og almennt á við um matsgerðir í dómsmálum. Fyrirmæli 3. mgr. 77. gr. eru í verulegum atriðum frábrugðin reglum 3. og 5. mgr. 11. gr. aðfararlaga um samsvarandi efni.
    Samkvæmt 5. mgr. 77. gr. er endurgjald gerðarbeiðanda ákveðið í úrskurði héraðsdóm-
ara og fullnægir sýslumaður úrskurðinum að kröfu gerðarbeiðanda með fjárnámi eftir almennum reglum.

Um 78. og 79. gr.

    Í þessum ákvæðum koma fram sérstök fyrirmæli um útburðar- og innsetningargerðir án almennra aðfararheimilda skv. 1. mgr. 1. gr., en gerðir sem þessar hafa verið nefndar beinar fógetagerðir eða beinar aðfarargerðir í framkvæmd.
    Í 1. mgr. 78. gr. koma fram fyrirmæli um hver þau réttindi eru, sem fullnægt verður með gerðum þessum, og hver skilyrði þess eru. Eins og skýrt er í almennum athugasemdum með frumvarpinu, er ekki að finna almennar reglur um þetta efni í núgildandi lögum, en gerðir sem þessar hafa löngum þótt heimilar á grundvelli dómvenju. Reglu 1. mgr. 78. gr. er ekki ætlað að telja skilyrði fyrir beinum aðfarargerðum með tæmandi hætti og er því gert ráð fyrir að stuðst verði áfram við sömu viðhorf og nú ríkja í þessum efnum, ef frumvarp þetta verður að lögum.
    Afmörkun á því, um hverjar aðfarargerðir er hér að ræða, kemur annars vegar fram í upphafsorðum 1. mgr. 78. gr. og hins vegar í niðurlagi ákvæðisins. Samkvæmt upphafi reglunnar er gerðum þessum ætlað að vinna bug á því, að gerðarbeiðanda sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda. Í niðurlagi ákvæðisins segir að fullnægja megi með gerðum þessum skyldum þess efnis, sem reglur 72. og 73. gr. taka til, þótt aðfararheimild skv. 1. mgr. 1. gr. liggi ekki fyrir. Með því að 72. gr. tekur til útburðargerða og 73. gr. til innsetningargerða, felur 1. mgr. 78. gr. í sér heimild til að fullnægja rétti gerðarbeiðanda til umráða fasteignar með útburði gerðarþola eða muna hans og til að fullnægja rétti gerðarbeiðanda til umráða annars en fasteignar með töku þess úr vörslum gerðarþola. Að fullnægðum skilyrðum ákvæðisins geta gerðir þessar náð fram að ganga, þótt aðfararheimildar eftir almennum reglum hafi ekki verið aflað.
    Skilyrðum fyrir að beiðni um gerð sem þessa nái fram að ganga er lýst í 1. mgr. 78. gr. með þeim orðum, að gerðarbeiðandi eigi svo ljós réttindi, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem má afla fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. Felur þessi afmörkun annars vegar í sér það sjálfsagða skilyrði, að gerðarbeiðandi sé réttur aðili að kröfu um gerðina. Hins vegar kemur fram skilyrði, sem snýr að hversu ljóst eða skýrt réttmæti tilkalls gerðarbeiðanda þurfi að vera. Honum þarf að takast að sanna réttindi sín með gögnum, sem 83. gr. heimilar honum að styðja mál sitt við fyrir dómi. Þau gögn eru einungis skjöl, svo og skýrslur aðila og málflutningur, en ekki vitnaleiðslur eða mats- og skoðunargerðir. Sönnunargildi þeirra gagna, sem gerðarbeiðandi má styðja kröfu sína við, þarf að auki að vera verulegt, því í síðari málslið 3. mgr. 83. gr. segir að hafna eigi gerðarbeiðni að jafnaði, ef varhugavert verður talið að gerð nái fram að ganga á grundvelli framkominna gagna. Í fræðikenningum jafnt sem dómaframkvæmd hefur löngum verið byggt á því, að það sé skilyrði beinnar aðfarargerðar að krafa gerðarbeiðanda sé skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana. Litið hefur verið svo á, að krafa fullnægi þessum áskilnaði, ef hægt er að sýna fram á réttmæti hennar með þeim takmörkuðu sönnunargögnum, sem heimilt er að afla við aðför, þannig að ekki verði talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga. Má því segja að regla 1. mgr. 78. gr., með hliðsjón af fyrirmælum 83. gr., feli í sér tillögu um stuttorða lögfestingu á skilyrðum beinna aðfarargerða samkvæmt dómvenju.
    Beiðni um beina aðfarargerð á að beina til héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum 78. gr. Honum er ætlað skv. 2. mgr. ákvæðisins að taka afstöðu til þess, þegar að framkominni beiðni, hvort lög leiði til að henni verði þegar vísað á bug. Með þessu er átt við að héraðsdómari eigi að kanna atriði, sem varða formhlið beiðninnar. Athugun hans ætti einkum að beinast að hvort beiðni sé komin fram í réttu umdæmi, hvort hún sé réttilega úr garði gerð skv. 10. gr., og hvort krafa samkvæmt henni sé þess efnis að fullnægja megi henni með útburðar- eða innsetningargerð. Á hinn bóginn á héraðsdómari ekki að leggja á þessu stigi mat á sönnunargildi gagna gerðarbeiðanda eða líkindi fyrir að krafan geti náð fram að ganga. Þetta má vera ljóst af því, að ekki hefur reynt á hvort gerðarþoli muni viðurkenna kröfu gerðarbeiðanda, þegar til kemur, og getur því veikburða sönnunarstaða gerðarbeiðandans á þessu stigi ekki valdið höfnun kröfu hans. Ef krafa gerðarbeiðanda stenst þessa frumskoðun héraðsdómara, er honum boðið í 2. mgr. 78. gr. að fara með hana eftir málsmeðferðarreglum 13. kafla. Honum er af þessum sökum skylt að boða gerðarþola til þinghalds, eins og einnig kemur fram í tilvísun í fyrri málsgrein 14. gr. Máli, sem farið er með eftir reglum 13. kafla, lýkur með úrskurði héraðsdómara, þar sem kveðið er á um hvort gerð megi ná fram að ganga. Samkvæmt 2. mgr. 84. gr. verður slíkum úrskurði fullnægt með aðför. Getur því gerðarbeiðandi snúið sér til sýslumanns að fengnum úrskurði um heimild til útburðar- eða innsetningargerðar og mundi sýslumaður framkvæma gerðina eftir almennum reglum.
    Í 79. gr. kemur fram regla, þar sem kveðið er á um að það standi ekki í vegi beinnar aðfarargerðar, að dómsmál sé samtímis rekið milli sömu aðila um önnur atriði, sem varða réttarsamband þeirra. Þótt regla þessa efnis sé ekki fyrir í lögum, hefur hún almennt þótt gilda í framkvæmd. Með henni er ætlunin að taka af tvímæli um að höfðun almenns dóms- máls um önnur atriði réttarsambands málsaðila hafi ekki áhrif skv. 3. mgr. 104. gr. laga nr. 85/1936 á heimild gerðarbeiðanda til að krefjast beinnar aðfarargerðar og gagnkvæmt.

Um 80. gr.

    Í 80.–84. gr. koma fram reglur um meðferð mála fyrir héraðsdómi, þegar boða þarf gerðarþola til þinghalds um aðfararbeiðni samkvæmt fyrirmælum 14. og 78. gr. Þótt fyrirsögn þess kafla frumvarpsins, sem 80.–84. gr. heyra til, kveði á um að þetta séu reglur um meðferð máls um aðfararbeiðni, má ekki skilja hana svo bókstaflega að öll ágreiningsmál, þar sem reynt getur á aðfararbeiðni, lúti reglum kaflans, enda yrði sá skilningur í andstöðu við fyrirmæli 1. mgr. 80. gr.
    Auk afmörkunar á gildissviði 13. kafla fjallar 1. mgr. 80. gr. um ákvörðun héraðsdómara á stað og stund til þinghalds, þar sem aðfararbeiðni verður tekin fyrir, og um efni boðunar, sem honum ber að senda gerðarþola af því tilefni með símskeyti, ábyrgðarbréfi eða öðrum jafntryggum hætti. Um aðferðir við sendingu boðunar þessarar gilda um margt sömu viðhorf og áður var lýst í athugasemdum við 7. gr., sem hér skal vísað til. Því til viðbótar skal þó bent á, að nægjanlegt er að boða með jafntryggum hætti og ef það væri gert með ábyrgðarbréfi eða símskeyti. Héraðsdómari hefur því fleiri valkosti í skjóli þessarar heimildar, sem hann mætti beita eftir eigin mati. Talið er upp í þremur töluliðum við 1. mgr., hvað þurfi að koma fram í boðun til gerðarþola. Segir að þessara atriða skuli getið í meginatriðum og er því ekki gert ráð fyrir að orðsending sem þessi sé ítarlegri en þarf til að gerðarþola megi vera ljóst um hverja kröfu sé að ræða og hver áhrif það geti haft á hagsmuni hans, að hann sæki ekki þinghaldið.
    Í 2. mgr. 80. gr. kemur fram að boðun til gerðarþola þurfi að berast honum eða þeim, sem er löghæfur til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd, með sama fyrirvara og birta þyrfti honum stefnu í almennu einkamáli. Í ákvæðinu felst í fyrsta lagi að það sé skilyrði fyrir fyrirtöku aðfararbeiðni, að tilkynning um þinghald hafi komist til skila. Nægir því ekki það eitt, að slík tilkynning hafi verið send. Í öðru lagi þarf tilkynning að hafa borist gerðarþola sjálfum eða einhverjum, sem mætti birta stefnu á hendur honum fyrir samkvæmt reglum VIII. kafla laga nr. 85/1936. Ef ekki er kunnugt um hvar gerðarþoli hefst við, felst í þessum ummælum að birta mætti tilkynningu með þeim hætti, sem greinir í 2. mgr. 95. gr. nefndra laga. Í þriðja lagi þarf tilkynningin að hafa borist með sama fyrirvara og stefnufrestur hefði þurft að vera skv. 99., sbr. 101. gr. laga nr. 85/1936, ef einkamál væri höfðað um sömu kröfu fyrir sama héraðsdómstól. Tekið er þó fram í niðurlagi 2. mgr. 80. gr. að héraðsdómari megi ákveða skemmri fyrirvara en stefnufrest, ef brýnir hagsmunir gerðarbeiðanda krefjast þess. Ætlast verður til að þeirri undantekningu verði beitt af varfærni.
    Í 3. mgr. eru fyrirmæli um boðun gerðarbeiðanda til þinghalds. Þarfnast þau ekki sérstakra skýringa.

Um 81. gr.

    Í 81. gr. er fjallað um áhrif þess, að gerðarbeiðandi láti ekki sækja þing, þegar aðfararbeiðni er tekin fyrir. Á sú regla jafnt við um fyrstu fyrirtöku beiðninnar og síðari þinghöld um hana. Segir að útivist gerðarbeiðanda leiði til að beiðni hans skuli teljast fallin niður. Í 1. mgr. 84. gr. er mælt fyrir um að almennar reglur um meðferð einkamála í héraði gildi um mál skv. 13. kafla, að því leyti sem annað leiðir ekki af reglum hans. Ber því að skoða fyrirmæli 81. gr. um útivist gerðarbeiðanda í ljósi reglna 3. og 4. mgr. 118. gr., sbr. 7. mgr. 110. gr. laga nr. 85/1936, um lögmæt forföll sækjanda máls frá þinghaldi.
    Ef útivist verður af hendi gerðarbeiðanda, getur héraðsdómari ákveðið gerðarþola ómaksþóknun með sérstökum úrskurði, ef hann hefur sótt þing og haft uppi kröfu um slíka þóknun. Athygli skal vakin á því, að hér er almennt ekki gert ráð fyrir að gerðarþola verði ákveðinn málskostnaður eftir reglum XII. kafla laga nr. 85/1936, þótt aðfararbeiðni falli niður vegna útivistar gerðarbeiðanda. Slíkt kæmi þó til álita, ef greinargerð hefur áður komið fram af hálfu gerðarþola skv. 83. gr.

Um 82. gr.

    Í fyrri málsgrein 82. gr. er mælt fyrir um áhrif útivistar gerðarþola og á reglan jafnt við, hvort sem gerðarþoli sækir ekki fyrsta þinghald um aðfararbeiðni eða þingsókn af hans hálfu fellur síðar niður. Með sama hætti og greint var í athugasemdum við 81. gr., ber að taka tillit í þessum efnum til reglna laga nr. 85/1936 um lögmæt forföll frá þinghöldum.
    Útivist gerðarþola hefur þær afleiðingar, að gerðarbeiðandi getur lagt kröfu sína í úrskurð héraðsdómara, eftir atvikum að framlögðum skriflegum athugasemdum um málatilbúnað gerðarþola, hafi hann tekið til varna áður en þingsókn hans féll niður. Héraðsdómari kveður síðan á um hvort aðför megi framkvæma samkvæmt beiðni gerðarbeiðanda á grundvelli framkominna gagna. Við úrlausn málsins ber héraðsdómara vegna ákvæða 1. mgr. 84. gr. að fara eftir reglum 2. mgr. 118. gr. laga nr. 85/1936, og er því leyst úr máli með sama hætti og úr almennu einkamáli, þar sem útivist hefur orðið af hálfu stefnda. Gæta ber þó sérreglu 3. mgr. 83. gr. um sönnunarmat í slíkri úrlausn.
    Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. á héraðsdómari að færa ályktunarorð úrskurðar síns á aðfararbeiðni, þegar hann hefur verið kveðinn upp, og endursenda hana ásamt eintökum fylgigagna til gerðarbeiðanda. Er þessi háttur hafður á vegna þarfa gerðarbeiðanda, þegar beiðninni er beint til sýslumanns til framkvæmdar á gerðinni. Form úrskurðar héraðsdómara ræðst af almennum reglum 190. gr. laga nr. 85/1936, og má því ekki að skilja fyrirmæli 2. mgr. 82. gr. á þann veg, að úrskurður þurfi ekki að koma fram í öðru formi en sem áritun á aðfararbeiðni.

Um 83. gr.

    Í 83. gr. koma fram reglur um málsmeðferð, sem snúa aðallega að tilvikum, þar sem gerðarþoli heldur uppi vörnum gegn kröfum gerðarbeiðanda, en þær geta einnig átt við um gagnaöflun og málatilbúnað gerðarbeiðanda, þótt gerðarþoli láti málefnið ekki til sín taka. Reglur þessar eru í flestum atriðum sama efnis og fyrirmæli 39., 40. og 44. gr. aðfararlaga.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að ef gerðarþoli sækir þing og hefur uppi varnir, sem ekki verður þegar vísað á bug, skuli málsaðilum veittur skammur frestur til greinargerða og gagnaöflunar. Að þeim fresti loknum ber að flytja mál munnlega, ef réttarsátt tekst ekki milli málsaðila, en bann er lagt við öflun vitnaskýrslna og mats- og skoðunargerða. Ef litið er nánar til einstakra atriða í ákvæði þessu, ber í fyrsta lagi að vekja athygli á að þriðji maður getur jafnt sem gerðarþoli látið málefnið til sín taka, þótt þess sé ekki getið berum orðum. Sú heimild helgast af 28. gr. frumvarpsins og almennri heimild 50. gr. laga nr. 85/1936. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að héraðsdómari geti látið ógert að veita frest til greinargerða og tekið málefnið þegar til úrskurðar að kröfu gerðarbeiðanda, ef þeim vörnum, sem gerðarþoli lýsir munnlega í þinghaldi, verður þegar vísað á bug. Heimild til sömu meðferðar hefur talist gilda á grundvelli 3. mgr. 39. gr. aðfararlaga. Þessari heimild ætti ekki að beita nema héraðsdómari telji algerlega tvímælalaust að varnir gerðarþola hafi enga þýðingu. Í þriðja lagi leggur regla þessi áherslu á að málsmeðferð verði hröð, enda tilskilið að frestir verði skammir. Reglur 105. gr. laga nr. 85/1936 ná til þeirra greinargerða, sem aðilar mega leggja fram að loknum skömmum fresti, sbr. 1. mgr. 84. gr. frumvarpsins. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að gera megi réttarsátt um kröfur málsaðila, en almennar reglur I. kafla laga nr. 85/1936 ættu sem hingað til við um sátt, sem kæmist á við þessar aðstæður. Slík réttarsátt yrði aðfararhæf eftir almennum reglum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. Í fimmta lagi er skylt að flytja mál munnlega, ef vörnum gerðarþola hefur ekki verið vísað á bug þegar í upphafi. Er ekki heimilt að víkja frá þessu, þótt samkomulag yrði um það milli málsaðila. Í sjötta og síðasta lagi skal þess getið, að bann 1. mgr. 83. gr. við öflun vitnaskýrslna og matsgerða er í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 41. gr. aðfararlaga. Regla þessi á stoð í því viðhorfi, að ætlast er til að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar, að þær þarfnist ekki stuðnings af sönnunargögnum sem þessum. Ef brestur er á því, ber að jafnaði að hafna um aðför, sbr. 3. mgr. 83. gr. Heimild í niðurlagi 1. mgr. 83. gr. til að víkja frá banni við sönnunarfærslu sem þessari ber eftir venju að skýra þröngt, og yrðu því sammæli aðila um slíka gagnaöflun ein út af fyrir sig ekki talin nægja.
    Regla 2. mgr. 83. gr. er í samræmi við reglu 1. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 39. gr. aðfararlaga og almennar reglur réttarfars um heimildir dómstóls til að endurmeta úrlausn hliðsetts dómstóls.
    Regla fyrri málsliðar 3. mgr. 83. gr. felur í sér, að úrskurður héraðsdómara kveði aðeins á um hvort aðfarargerð megi framkvæma eða ekki, og er hún því í samræmi við núgildandi meginreglur um valdsvið dómstóla við úrlausnir um heimildir til aðfarargerða. Um reglu síðari málsliðar 3. mgr. hefur þegar verið fjallað nokkuð í tengslum við 1. mgr. 78. gr. Hún
felur í sér það viðhorf, að vafi um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda valdi því að hafna beri um
aðför.

Um 84. gr.

    Í 1. mgr. 84. gr. segir að beita eigi almennum reglum um meðferð einkamála í héraði við meðferð mála samkvæmt kaflanum, að því leyti sem reglur hans kveða ekki á um annað. Tilvísun þessi á við reglur laga nr. 85/1936, auk ólögfestra meginreglna á umræddu sviði. Notkun þessara reglna takmarkast ekki aðeins af gagnstæðum fyrirmælum 13. kafla, heldur ber einnig að hafa hugfast, að þær geta ekki allar átt við eftir eðli máls. Hér áður hefur verið getið nokkurra reglna umræddra laga, sem tengjast beinlínis einstökum fyrirmælum 13. kafla. Auk þeirra má í aðalatriðum ganga út frá að eftirtaldar reglur laga nr. 85/1936 eigi við um málsmeðferð eftir 13. kafla:
          kafla um réttarsáttir
          ákvæði 36. og 37. gr. um vanhæfi og meðdómendur, ef þeirra yrði þörf
          ákvæði 39.–44. gr. um þinghöld o.fl.
          reglur IV. kafla um sakaraðila
          reglur VI. kafla um sakarefni
          ákvæði VII. kafla um varnarþing, sbr. 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins
          reglur 104.–117. gr. um málsmeðferð, en reglu 120. gr. yrði að jafnaði ekki beitt við þessar aðstæður í ljósi 3. mgr. 83. gr. frumvarpsins
          reglur 121.–123. gr. um sönnun
          reglur 124.–135. gr., ef vitnaleiðslur yrðu heimilaðar í undantekningartilvikum
          reglur 136.–144. gr., ef mats- eða skoðunargerða yrði aflað í undantekningartilvikum
          reglur 145.–159. gr. um skjöl
          ákvæði XI. kafla um gjafsókn, þótt þær geti sjaldan komið til álita eftir eðli máls
          reglur XII. kafla um málskostnað, ef ágreiningsmál hefur verið munnlega flutt
          reglur XIII. kafla um réttarfarssektir
          ákvæði 190.–192. gr., 1. og 2. mgr. 194. gr. og 2. mgr. 195. gr.
          reglur XVII. kafla, ef aðfarar er krafist samkvæmt víxli, tékka eða skuldabréfi.
    Í 2. mgr. 84. gr. kemur fram, að fullnægja megi úrskurði héraðsdómara skv. 13. kafla þegar í stað, ef sérstaks aðfararfrests er ekki getið í honum. Þarf því almennt ekki að láta neina fresti líða, áður en sýslumaður má framkvæma aðför eftir úrskurðinum samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda. Héraðsdómara væri þó heimilt eftir kröfu gerðarþola að kveða á um aðfararfrest, ef eðli málefnisins þykir slíkt, að rétt væri að gefa gerðarþola umþóttunartíma áður en fullnusta færi fram.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um þá meginreglu, að málskot héraðsdómara fresti ekki framkvæmd aðfarar, en sama regla kemur fram í 3. mgr. 44. gr. aðfararlaga. Þau nýmæli eru þó lögð til í niðurlagi 3. mgr. 84. gr., að héraðsdómari megi ákveða hið gagnstæða eftir kröfu einhvers málsaðila. Þessi undantekning er einkum lögð til með þau tilvik í huga, þar sem hagsmunir gerðarþola af málefni eru ófjárhagslegs eðlis og tjón hans yrði ekki bætt með fégreiðslu, ef gerðin yrði framkvæmd í kjölfar úrskurðar og æðri dómur kæmist síðar að gagnstæðri niðurstöðu við héraðsdómara. Hér gæti enn fremur átt undir, ef sérstakt tillit þarf að taka til andlags aðfarargerðar, svo sem við innsetningargerð í forræði barns.

Um 85. gr.

    Í 85.–91. gr. koma fram reglur, sem heyra til 14. kafla frumvarpsins og varða öflun úrlausnar héraðsdóms, meðan aðfarargerð er enn ólokið, um ágreining sem kemur upp við framkvæmd sýslumanns á gerð eða við endurupptöku hennar. Þessi ákvæði eru eins konar framhald almennra reglna 26.–28. gr. um ákvarðanir, sem sýslumaður tekur um framkvæmd gerðar. Það eru að meginreglu slíkar ákvarðanir, sem leggja má undir úrlausn héraðsdómara eftir 14. kafla.
    Hvorki er í reglum 14. kafla né öðrum ákvæðum frumvarpsins kveðið sérstaklega á um það, um hver efni þær ákvarðanir sýslumanns geti verið, sem afla má dómsúrlausnar um samkvæmt þessum heimildum. Eiga reglur þessar því við um allar ákvarðanir, sem sýslumaður tekur um framkvæmd aðfarargerðar. Þær ákvarðanir geta varðað það grundvallaratriði, hvort gerðin verði yfirleitt framkvæmd, hvort sem er vegna ófullnægjandi undirbúnings eða málatilbúnaðar gerðarbeiðanda eða vegna mótmæla gerðarþola gegn efnislegu réttmæti kröfu gerðarbeiðanda. Hér er þó fremur hugsað til þess, að ákvarðanir sýslumanns varði afmarkaðri atriði, t.d. í hverri eign fjárnám verður gert.
    Í 85. gr. kemur fram afmörkun á heimildunum til að leggja ágreining um ákvörðun sýslumanns fyrir héraðsdómara, meðan aðfarargerð er enn ólokið. Þessar reglur einkennast af því, að verulegar takmarkanir eru lagðar við að framkvæmd gerðar verði stöðvuð til öflunar dómsúrlausnar, enda ganga reglur frumvarpsins út frá því, að meginleiðin til úrlausnar ágreinings um einstök atriði verði með rekstri máls skv. 15. kafla, eftir að framkvæmd aðfarargerðar er lokið. Reglur þessar eru lagðar til í ljósi þeirrar nauðsynjar, að gerðarþola gefist ekki kostur á að bregða fæti við framkvæmd aðfarar með því að halda uppi andmælum gegn kröfum gerðarbeiðanda til málamynda. Ef varnir gerðarþola eru hins vegar á rökum reistar, er staða hans tryggð verulega, þótt gerð hafi náð fram að ganga. Sú trygging felst einkum í heimild til öflunar dómsúrlausnar eftir lok gerðar skv. 15. kafla, en meðan slíkt mál er rekið, tryggja reglur 7. kafla t.d. að hagsmunir hans verði ekki fyrir frekari röskun en leiðir af tryggingarréttindum gerðarbeiðanda í eignum hans og þeim höftum, sem fjárnámsgerð leggur á heimildir til ráðstöfunar þeirra. Gerðarþoli á einnig rúman rétt til skaðabóta úr hendi gerðarbeiðanda, ef gerð hefur náð fram að ganga í andstöðu við réttmæt mótmæli hans. Sömu viðhorf eiga að verulegu leyti við um réttarstöðu þriðja manns, sem telur gerð koma sér við, en hann er almennt eins settur og gerðarþoli samkvæmt einstökum reglum frumvarpsins. Af þessu er ljóst, að takmarkanir eftir reglum frumvarpsins við því, að gerð verði stöðvuð vegna framkominna mótmæla, eru fyrst og fremst settar til verndar hagsmunum gerðarbeiðanda. Eftir reglum 85. gr. á gerðarbeiðandi rúman rétt til að afla úrlausnar héraðsdómara um einstakar ákvarðanir sýslumanns, en þennan rétt kaupir gerðarbeiðandi því verði, að gerðin stöðvast meðan úrlausnar er aflað og verður því ekki lokið um sinn. Oft gæti sú staða komið af sjálfu sér, t.d. ef sýslumaður ákveður að stöðva gerð vegna mótmæla gerðarþola eða þriðja manns, sbr. 2. mgr. 27. gr. Við aðrar aðstæður kynni ákvörðun sýslumanns hins vegar að vera þess eðlis, að gerðin geti haldið áfram á grundvelli hennar, en með öðru móti en gerðarbeiðandi hefði helst kosið. Reynir þá á mat gerðarbeiðanda á því, hvort þjóni betur hagsmunum hans að una um sinn við ákvörðun sýslumanns, fá gerðinni lokið og bera kröfur sínar eftir á undir héraðsdómara í máli skv. 15. kafla, eða að stöðva gerðina þegar í stað til að fá dómsúrlausn um kröfu. Gerðarbeiðanda er að auki ávallt frjálst að samþykkja að gerðarþoli eða þriðji maður fái að bera ákvörðun, sem sýslumaður hefur tekið gerðarbeiðanda í hag, undir úrlausn héraðsdómara skv. 14. kafla. Sú afstaða gerðarbeiðanda kostar að gerðin frestast um sinn, en hún kann að vera hyggilegri til lengdar til að varna bótaskyldu, ef ákvörðun sýslumanns yrði hrundið.
    Í 1. mgr. 85. gr. kemur fram sú almenna regla, sem vikið hefur verið að hér á undan, að gerðarbeiðandi má ávallt krefjast úrlausnar um ákvörðun sýslumanns varðandi framkvæmd gerðar, ef hann hefur kröfu þess efnis uppi við sýslumann, áður en lengra er haldið við gerðina. Sá áskilnaður, að krafan komi þegar fram, verður að teljast eðlilegur til að koma í veg fyrir að frekari aðgerðir fari fram á grundvelli ákvörðunar, sem afla á dómsúrlausnar um. Ef gerðarbeiðandi hefur kröfu sem þessa uppi, stöðvast frekari framkvæmd gerðarinnar sjálfkrafa skv. 1. mgr. 86. gr., að því leyti, sem hún er háð hinni umdeildu ákvörðun.
    Í 2. mgr. 85. gr. koma fram skilyrði fyrir rétti gerðarþola til að krefjast dómsúrlausnar um ákvörðun sýslumanns, þannig að frekari framkvæmd gerðar stöðvist. Samkvæmt fyrirmælum ákvæðisins á gerðarþoli þennan rétt aðeins í tveimur tilvikum, annars vegar ef gerðarbeiðandi samþykkir að ágreiningur verði þegar borinn undir héraðsdómara, og hins vegar ef frekari framkvæmd gerðar hefur frestast hvort eð er í kjölfar ákvörðunarinnar. Um síðarnefnda tilvikið er ekki áskilið að frestun hafi komið til af einhverjum tilteknum sökum. Gerðarþola ber, eins og áður er lýst varðandi gerðarbeiðanda, að hafa kröfu þessa efnis uppi áður en frekari framkvæmd gerðar á sér stað á grundvelli umdeildrar ákvörðunar. Í lok 2. mgr. 85. gr. kemur fram regla til að taka af tvímæli um það, að gerðarþoli megi ávallt hafa uppi sjálfstæðar kröfur fyrir sitt leyti um ákvörðun, sem gerðarbeiðandi krefst dómsúrlausnar um í skjóli 1. mgr. Er gerðarþoli því ekki bundinn við það, að mega einungis krefjast fyrir héraðsdómi að ákvörðun sýslumanns verði látin standa óbreytt. Hér ber að undirstrika, að heimild gerðarþola til sjálfstæðrar kröfugerðar er bundin því, að hún varði sömu ákvörðun sýslumanns og gerðarbeiðandi krefst dómsúrlausnar um. Getur gerðarþoli því ekki borið fyrri ákvarðanir sýslumanns undir dóm í skjóli þessarar heimildar, sbr. þó niðurlag 3. mgr. 90. gr.
    Samkvæmt 3. mgr. 85. gr. gilda sömu reglur um heimildir þriðja manns til að krefjast dómsúrlausnar um ákvörðun sýslumanns og eiga við gerðarþola skv. 2. mgr. Sá nánast sjálfgefni áskilnaður kemur fram í niðurlagi ákvæðisins, að þessi réttur þriðja manns sé háður því að ákvörðunin varði hagsmuni hans.
    Í 4. mgr. 85. gr. kemur fram sérregla um heimildir til að krefjast úrlausnar héraðsdómara um synjun sýslumanns á beiðni um endurupptöku aðfarargerðar, en hér er átt við endurupptöku skv. 9. kafla. Málsaðilar eiga allir jafnan rétt í þessu tilliti, en kröfu um þetta efni ber að hafa uppi svo fljótt sem verða má og áður en krafist er frekari ráðstafana á grundvelli gerðar, t.d. umráðasviptingar, nauðungarsölu o.fl. Sömu rök eiga ekki við hér og um aðstæður, sem reglur 2. og 3. mgr. taka til, fyrir að takmarka sérstaklega rétt gerðarþola eða þriðja manns til að afla dómsúrlausnar, enda ættu tafir vegna rekstrar ágreiningsmáls ekki að bitna svo mjög á hagsmunum gerðarbeiðanda í ljósi tímatakmarkana 4. mgr.
    Í 5. mgr. 85. gr. kemur fram regla til áréttingar á atriðum, sem í reynd felast í fyrri fyrirmælum greinarinnar. Er hér kveðið á um að ef gerð hefur verið haldið áfram í kjölfar ákvörðunar sýslumanns, þá verður ákvörðunin ekki síðar borin undir héraðsdómara nema í máli skv. 15. kafla eða í tengslum við nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun á grundvelli fjárnáms. Tekur regla þessi af tvímæli um annars vegar að ákvörðun verður bindandi fyrir málsaðila um framkvæmd gerðarinnar, um leið og áfram er haldið á grundvelli hennar, og hins vegar að dómstólar geti innan vissra marka endurskoðað einstakar ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd gerðar, þótt henni hafi verið lokið á grundvelli þeirra.

Um 86. gr.

    Í upphafi 1. mgr. er kveðið á um að frekari framkvæmd gerðar frestist, ef málsaðili lýsir yfir við sýslumann að hann krefjist dómsúrlausnar um ákvörðun hans, en þessi regla á því aðeins við, að heimild sé fyrir öflun dómsúrlausnar á því stigi máls í reglum 85. gr. Þessi þáttur reglunnar hefur þegar verið skýrður að öðru leyti í tengslum við 85. gr. Heimilt er þó samkvæmt fyrirmælum þessum að halda gerð áfram við þessar aðstæður, að því leyti sem hún er ekki háð umdeildri ákvörðun sýslumanns. Mætti þannig til dæmis gera fjárnám fyrir óumdeildum höfuðstól kröfu gerðarbeiðanda, þótt sýslumaður hafi ákveðið vegna mótmæla gerðarþola að fjárnám verði ekki gert fyrir umkröfðum vöxtum og gerðarbeiðandi hefur krafist dómsúrlausnar um þá ákvörðun. Að öðru leyti varða fyrirmæli 1. mgr. bókanir sýslumanns, þegar krafa hefur komið fram um dómsúrlausn. Hér er ekki gert ráð fyrir að endanleg eða bindandi lýsing komi fram af hálfu málsaðila á þeim kröfum og málsástæðum, sem þeir vilja hafa uppi fyrir dómi. Bókun sýslumanns um þessi atriði þjónar hins vegar þeim tilgangi, að málsgögn bera sjálf með sér, þegar þau berast héraðsdómara, hvert það ágreiningsatriði sé, sem úrlausnar hans er krafist um.
    Í 2. mgr. er boðið að sýslumaður tilkynni gerðarþola að gerðarbeiðandi hafi krafist dómsúrlausnar um ákvörðun, ef enginn hefur verið viðstaddur af hálfu gerðarþola, þegar hún var tekin. Er kveðið á um þetta til að gerðarþola berist vitneskja um væntanlegt dómsmál og geti undirbúið málatilbúnað sinn, ef hann hyggst láta málið til sín taka. Er alls ekki gefið að nokkur sé viðstaddur af hálfu gerðarþola, þegar umdeild ákvörðun er tekin, enda gæti hún varðað ákvarðanir sýslumanns um undirbúning gerðar eða framkvæmdaratriði, sem snúa sérstaklega að aðstæðum, þegar gerðarþoli mætir ekki til hennar.
    Í 3. og 4. mgr. er kveðið á um að sýslumaður afhendi þeim, sem krafist hefur úrlausnar héraðsdómara, staðfest ljósrit gagna og endurrit bókana um gerðina, en þeim málsaðila ber síðan að senda héraðsdómara gögnin. Er í báðum ákvæðunum lögð áhersla á hraða í þessum efnum, enda gert ráð fyrir að rekstur mála skv. 14. kafla taki skamman tíma. Fyrirmæli þessi fela þá meginreglu í sér, að sá, sem krafist hefur dómsúrlausnar, verði að annast að mál komi fyrir héraðsdómara. Má þó ekki skilja þau þannig, að lagt sé bann við að gagnaðili þess, sem krafist hefur dómsúrlausnar, afli málsgagna hjá sýslumanni og komi þeim á framfæri við héraðsdómara, enda gæti sá haft hagsmuni af að tafir verði sem minnstar af þessum sökum. Málum þessum á að beina til þess héraðsdómstóls, sem leiðir af reglu 4. mgr. 4. gr.
    Samkvæmt 5. mgr. má sýslumaður senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málefnið, ef honum þykir ástæða til. Sýslumaður er að sjálfsögðu ekki aðili að dómsmáli, sem kemur til með þessum hætti, en hann kann allt að einu að telja brýnt að koma útskýringum á framfæri um ákvörðun sína, sem málið varðar. Gæti þetta einkum átt við, ef hann hefur ákveðið að framkvæma gerð með öðrum hætti en gerðarbeiðandi krefst, án þess að sú ákvörðun hafi verið tekin vegna mótmæla eða kröfu gerðarþola eða þriðja manns. Héraðsdómara væri rétt að leggja athugasemdir sem þessar fram í ágreiningsmálinu og taka fullt tillit til þeirra við úrlausn málsins. Sýslumanni er óskylt að senda athugasemdir sínar samkvæmt ákvæðinu, en ef hann neytir heimildar til þess, yrði að koma þeim á framfæri áður en héraðsdómari tæki ágreiningsmálið til úrskurðar.

Um 87. gr.

    Í 1. mgr. koma fram fyrirmæli um boðun héraðsdómara til þinghalds, þegar málsgögn hafa borist honum. Á hann að tilkynna málsaðilum stað og stund til þinghalds með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Ekki er áskilið að tiltekin atriði komi fram í tilkynningu, enda á málsaðilum að vera kunnugt um málefnið fyrir, m.a. gerðarþola vegna reglu 2. mgr. 86. gr. Héraðsdómari hefur hér nokkurt svigrúm um ákvörðun aðferðar við boðun þinghalds og þarf aðeins að geta sannað eftir á að tilkynningu hafi verið komið á framfæri með sanngjörnum fyrirvara. Ætla má þó að hér yrði að jafnaði beitt sömu aðferðum við tilkynningar og mælt er fyrir um í t.d. í 7. gr. og 1. mgr. 80. gr. Í reglu 1. mgr. 87. gr. felst ekki skilyrði fyrir fyrirtöku máls um að sönnun liggi fyrir um viðtöku málsaðila á tilkynningu.
    Í 2. mgr. kemur fram regla, sem ræður hver telst sóknaraðili að dómsmáli skv. 14. kafla og hver varnaraðili. Með því að ákvörðun um þetta skiptir miklu fyrir áhrif útivistar annars hvors málsaðilans, er eðlilegt að sá, sem krafist hefur úrlausnar héraðsdómara, sé sóknaraðili, þannig að mál falli niður, ef hann sækir ekki þing. Reglan tekur ekki afstöðu til þeirra aðstæðna, sem hugsanlega gætu komið upp, að báðir eða allir aðilar að gerð hafi krafist dómsúrlausnar. Er svo færi, yrði héraðsdómari að ákvarða aðild í ljósi kröfugerðar hvors eða hvers þeirra í boðun til þinghalds. Gert er ráð fyrir því í síðari málslið 2. mgr., að sjálfstæðar kröfur geti komið fram um málefnið af hálfu þess, sem talinn verður varnaraðili, þannig að báðir eða allir málsaðilar krefjist tiltekinna breytinga á ákvörðun sýslumanns um framkvæmd gerðar. Er kveðið á um að fara eigi með slíkar sjálfstæðar kröfur varnaraðila eins og gagnsök í málinu. Þessi regla hefur einkum þýðingu, ef útivist verður af hálfu sóknaraðila, eins og nánar kemur fram í 89. gr. Að öðrum kosti yrði almennt ekki þörf á greiningu máls í aðalsök og gagnsök.

Um 88. gr.

    Í fyrri málsgrein 88. gr. koma fram reglur um rekstur máls, sem samsvara fyrirmælum 1. mgr. 83. gr. að öðru leyti en því, að hér er ekki heimild til að taka mál þegar til úrskurðar án greinargerða málsaðila, eins og þar er kveðið á um, auk þess að regla 14. kafla um takmarkanir á sönnunarfærslu kemur fram í 1. mgr. 90. gr. Má að þessu gættu vísa til athugasemda við 1. mgr. 83. gr. um skýringar á efni 1. mgr. 88. gr.
    Regla síðari málsgreinar 88. gr. er sama efnis og 2. mgr. 83. gr. og eiga athugasemdir um það ákvæði því við hér.

Um 89. gr.

    Í fyrri málsgrein 89. gr. koma fram fyrirmæli um afleiðingar útivistar sóknaraðila, sem eiga jafnt við, hvort sem hann sækir ekki fyrsta þinghald í máli eða þingsókn hans fellur síðar niður. Útivist sóknaraðila hefur hér þá þýðingu, að málið er fellt niður, hvað hann varðar, en hér ber að gæta sömu fyrirvara um þýðingu lögmætra forfalla og getið var í athugasemdum við 81. gr. Með því að málið verður fellt niður, hvað sóknaraðila varðar, hefur það þýðingu í þessu sambandi hvort sjálfstæðar kröfur hafi komið fram af hálfu varnaraðila, sem vikið er að í síðari málslið 2. mgr. 87. gr. Ef engar slíkar kröfur liggja fyrir, fellur málið alfarið niður, en ella ber að halda því áfram með sama hætti og lýst er í reglum 2. mgr. 89. gr., einungis til úrlausnar um kröfur varnaraðila. Nægilegt yrði í þessu sambandi að sjálfstæðar kröfur varnaraðila komi fyrst fram í þinghaldi, þegar útivist verður af hálfu sóknaraðila, ef greinargerð hefur ekki áður komið fram af hálfu varnaraðila. Ef mál fellur með öllu niður fyrir héraðsdómi samkvæmt framansögðu, gæti sóknaraðili hugsanlega komið því þangað á ný með því að hafa aftur uppi kröfu um dómsúrlausn, um leið og sýslumaður tekur gerðina aftur fyrir. Ef varnaraðili getur hins vegar haldið sjálfstæðri kröfu sinni til dóms samkvæmt áðursögðu, þrátt fyrir útivist sóknaraðila, fengist bindandi dómsúrlausn um viðkomandi ákvörðun sýslumanns, sem sóknaraðilinn gæti ekki krafist nýrrar úrlausnar um.
    Fyrirmæli 1. mgr. 89. gr. um ómaksþóknun samsvara reglu síðari málsliðar 81. gr., sem skýringar hafa áður komið fram við.
    Síðari málsgrein 89. gr. tekur aðallega til meðferðar máls, ef útivist verður af hálfu varnaraðila, hvort sem hún verður í fyrsta þinghaldi eða síðar. Áður framkomnar athugasemdir um áhrif lögmætra forfalla í þessu sambandi eiga hér við. Útivist varnaraðila hefur meðal annars þær afleiðingar að sjálfstæðar kröfur, sem hann kann að hafa gert í málinu, falla niður. Málið yrði tekið til úrskurðar eftir kröfu sóknaraðila, eftir atvikum að undangenginni framlagningu greinargerðar af hans hálfu eða að framlögðum stuttum skriflegum svörum við greinargerð varnaraðila, hafi hún komið fram. Dómsúrlausn um viðkomandi ákvörðun sýslumanns yrði bindandi fyrir varnaraðila og því tilgangslaust að hafa aftur uppi mótmæli á sama grunni við áframhaldandi framkvæmd gerðar eða eftir lok hennar.

Um 90. gr.

    Regla 1. mgr. 90. gr. svarar efnislega til fyrirmæla í niðurlagi 1. mgr. 83. gr., sem áður
hefur verið fjallað um.
    Í 2. mgr. 90. gr. er annars vegar kveðið á um þann grundvöll, sem úrskurður héraðsdómara verður byggður á, og hins vegar er mælt fyrir um efni niðurstöðu hans, sem regla 3. mgr. ákvæðisins snýr einnig að. Fyrrnefnda atriðið er í samræmi við almennar reglur einkamálaréttarfars, að gættri sérreglu 1. mgr. 90. gr. um takmörkun á gögnum, sem dómsúrlausn verður almennt studd við í máli sem þessu. Um síðarnefnda atriðið, efni úrskurðar héraðsdómara, ber að hafa í huga, að í þessum tilvikum hefur ágreiningur verið lagður fyrir hann um réttmæti afmarkaðrar ákvörðunar sýslumanns um framkvæmd aðfarargerðar. Úrlausnin á því aðeins að segja til um hvort sú ákvörðun skuli standa óhögguð eða hvort framkvæma eigi aðförina með öðrum tilteknum hætti, sem málsaðili hefur gert kröfu um. Til að komast að niðurstöðu um þetta kann héraðsdómari að þurfa að taka afstöðu til grundvallaratriða í réttarsambandi málsaðila, t.d. hvort krafa gerðarbeiðanda sé yfirleitt til. Þótt niðurstaða byggðist á mati á slíku atriði, kvæði hún allt að einu aðeins á um hvort eða hvernig framkvæma ætti gerðina. Þessi afmörkun á efni úrlausnar héraðsdómara hefur sjálfgefin áhrif á það, hvernig málsaðilum ber að haga kröfugerð í málum sem þessum.
    Regla 3. mgr. 90. gr. er í samræmi við almennar réttarfarsreglur að því leyti, að héraðsdómari á ekki að taka afstöðu í úrskurði sínum til annarra atriða gerðarinnar en þeirra, sem kröfur málsaðila taka til. Samkvæmt sérstakri heimild í niðurlagi ákvæðisins má héraðsdómari þó víkja frá kröfum málsaðila í niðurstöðu úrskurðar, ef fram kemur í málinu að sýslumaður hafi ekki gætt þeirra atriða af sjálfsdáðum við gerðina, sem honum bar. Að frátalinni reglu 1. mgr. 17. gr., er ekki að finna mörg dæmi af fyrirmælum í frumvarpinu, sem gera ráð fyrir að sýslumaður gæti tiltekinna atriða af sjálfsdáðum. Má því ætla að regla þessi geti fyrst og fremst varðað þau atriði, sem 1. mgr. 17. gr. tekur til. Ef héraðsdómari verður áskynja um brest í meðferð sýslumanns að þessu leyti, sem hefði átt að hafa synjun um framkvæmd gerðar í för með sér, er heimild 3. mgr. 90. gr. það víðtæk, að héraðsdómari gæti fellt úr gildi það, sem framkvæmt hefur verið við gerðina. Heimildar þessarar mætti neyta, hvort sem málsaðili hefur byggt á þessu eða ekki.

Um 91. gr.

    Í 1. mgr. er að finna sams konar tilvísun til almennra reglna um meðferð einkamála í héraði og fram kemur í 1. mgr. 84. gr. Skal vísað hér til athugasemda um það ákvæði.
    Reglur 2. og 3. mgr. 91. gr. samsvara ákvæðum 2. og 3. mgr. 84. gr., sem áður hefur verið gerð grein fyrir.

Um 92. gr.

    Reglur 92.–95. gr., sem heyra til 15. kafla frumvarpsins, varða úrlausn ágreinings um aðfarargerð, sem lagður er fyrir héraðsdómara eftir að henni hefur verið lokið. Eins og áður hefur komið fram, er gert ráð fyrir að þetta verði meginleiðin til úrlausnar um mótmæli, sem gerðarþoli eða þriðji maður hafa fram að færa gegn kröfu gerðarbeiðanda eða um atriði, sem tengjast framkvæmd sýslumanns á gerðinni. Þótt ætla verði að gerðarbeiðandi færi fremur þá leið, sem reglur 14. kafla heimila, til að fá úrlausn um atriði varðandi framkvæmd sýslumanns á gerðinni, sem hann vill ekki una við, stendur honum allt að einu opin leið til að afla dómsúrlausnar eftir 15. kafla.
    Í fyrri málsgrein 92. gr. kemur fram að báðir eða allir aðilar að aðfarargerð geti krafist dómsúrlausnar um hana, eftir að henni hefur verið lokið. Nær heimild þessi einnig til þriðja manns, sem hefur ekki mætt við framkvæmd gerðarinnar. Í ljósi 1. mgr. 95. gr. geta málsaðilar haft hér uppi kröfur um að aðfarargerð verði felld niður eða staðfest eða um breytingu hennar á tiltekinn veg. Með því að heimildir 15. kafla koma fyrst til álita eftir lok gerðar og regla 1. mgr. 92. gr. segir, að krefjast megi dómsúrlausnar „um aðfarargerð“, er unnt að byggja þessar kröfur á hverju atriði sem er, sem varðar gerðina frá upphafi til enda eða efnislegt réttmæti kröfu gerðarbeiðanda, að því leyti sem dómstóll hefur ekki áður tekið afstöðu til málefnisins. Skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort málsaðili hafi haft uppi mótmæli eða áskilnað jafnharðan um viðkomandi atriði gerðarinnar eða hvort hann hafi yfirleitt verið staddur við hana.
    Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. verður krafa málsaðila um úrlausn héraðsdómara að berast hinum síðarnefnda innan átta vikna frá því viðkomandi gerð var lokið. Krafa málsaðilans verður því að vera komin í hendur héraðsdómara í tæka tíð í sama skilningi og lýst var í athugasemdum við 52. gr. Frestur þessi er þó ekki með öllu fortakslaus, því skv. 2. mgr. 92. gr. má héraðsdómari taka mál til meðferðar, þótt krafa berist fyrst eftir lok frestsins, ef allir málsaðilar samþykkja eða héraðsdómara þykir afsakanlegt að málefnið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð. Ekki er afmarkað nánar í 2. mgr. 92. gr. hvenær það verði talið afsakanlegt, að krafa hafi ekki borist nægjanlega fljótt. Slíkt gæti átt við, ef málsaðila hefur ekki borist vitneskja um gerðina innan frests 1. mgr. 92. gr. Í þessum efnum gæti einnig komið til álita að styðjast við svipuð viðhorf og við beitingu heimildar 111. gr. laga nr. 6/1978. Þótt unnt sé að sýna fram á að málsaðili hafi ekki getað komið kröfu sinni fram innan frests skv. 1. mgr. 92. gr., verður að ætlast til að málaleitan sem þessi sé borin upp við héraðsdómara án ástæðulauss dráttar, eftir að málsaðila verður þetta fært. Reglur 92. gr. setja hins vegar engar takmarkanir á hversu lengi eftir lok gerðar megi reyna að afla úrlausnar héraðsdómara eftir undantekningum 2. mgr.
    Ef málsaðili fer á mis við möguleika til að bera ágreining um aðfarargerð undir héraðsdómara vegna frestsreglna 92. gr., stendur honum enn opinn möguleiki til að bera kröfur sínar undir dómstóla, því 2. mgr. ákvæðisins kveður á um að hægt sé að hafa uppi athugasemdir um fjárnámsgerð í tengslum við nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun hins fjárnumda. Þessi möguleiki er hins vegar sá síðasti, sem tiltækur er, því skv. 2. mgr. verður ágreiningur um aðfarargerð ekki borinn undir dómstóla með öðrum hætti en þar er talið upp.

Um 93. gr.

    Í 1. mgr. 93. gr. kemur fram, með hverjum hætti málsaðili á að leggja ágreining um aðfarargerð fyrir héraðsdóm. Er þetta gert með skriflegri tilkynningu til héraðsdómara, sem málefnið á undir skv. 4. mgr. 4. gr., en í henni þurfa að koma fram upplýsingar um gerðina, sem úrlausnar er krafist um, og um málsaðila, og þarf einnig að tiltaka hvers krafist er fyrir héraðsdómara og við hverjar málsástæður og lagarök kröfur styðjist. Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. eiga staðfest eftirrit framlagðra gagna við gerðina og endurrit bókana um hana að jafnaði að fylgja tilkynningunni til héraðsdómara.
    Samkvæmt 3. mgr. 93. gr. er sýslumanni heimilt að senda héraðsdómara athugasemdir um málefnið, en hér er um sams konar heimild að ræða og mælt er fyrir um í 5. mgr. 86. gr., sem áður hefur verið fjallað um.

Um 94. gr.

    Í ákvæði þessu er mælt fyrir um að tilteknar reglur 14. kafla gildi um meðferð mála skv. 15. kafla, auk almennra reglna um meðferð einkamála í héraði. Fyrra atriði þessarar tilvísunar skýrir sig sjálft, en um síðara atriðið má vísa til athugasemda við 1. mgr. 84. gr.

Um 95. gr.

    Í fyrri málsgrein 95. gr. er kveðið á um efni úrskurðar héraðsdómara í málum skv. 15. kafla. Í athugasemdum við 1. mgr. 92. gr. er vikið að sjónarmiðum um hverjar kröfur aðilar að málum sem þessum geti haft uppi. Þar sem efni úrskurðar héraðsdómara er í aðalatriðum hið sama, má vísa hér til þeirrar umfjöllunar. Hér ber að vekja athygli á, að ef úrskurður héraðsdómara kveður á um tiltekna breytingu aðfarargerðar, getur orðið þörf á endurupptöku hennar skv. 2. mgr. 65. gr.
    Í síðari málsgrein 95. gr. kemur fram, að málskot úrskurðar héraðsdómara í máli skv. 15. kafla fresti ekki frekari fullnustuaðgerðum á grundvelli viðkomandi aðfarargerðar, nema mælt hafi verið svo fyrir í úrskurðinum. Ef úrskurður kveður þannig á um staðfestingu gerðarinnar að öllu leyti eða einhverju og mælir ekki fyrir um frestandi áhrif málskots, er gerðarbeiðanda heimilt að krefjast umráðasviptingar eða nauðungarsölu án tafar, ef um fjárnámsgerð er að ræða. Málsaðila væri einnig heimilt að krefjast endurupptöku gerðar skv. 2. mgr. 65. gr. þegar að uppkveðnum úrskurði, ef kveðið er á í honum um tiltekna breytingu hennar, sem endurupptöku er þörf til að framkvæma. Um beitingu heimildar til að mæla fyrir um frestandi áhrif málskots í úrskurði sem þessum má vísa til umfjöllunar um hliðstætt efni í athugasemdum við 3. mgr. 84. gr.

Um 96. gr.

    Reglur 96.–98. gr., sem tilheyra 16. kafla frumvarpsins, geyma fyrirmæli um bótaábyrgð vegna aðfarargerða.
    Í 1. mgr. 96. gr. eru reglur um bótaábyrgð gerðarbeiðanda, ef hann hefur krafist fullnustu kröfu eða réttinda með aðfarargerð, sem síðar er leitt í ljós að skilyrði hafi skort til. Ber honum að bæta allt tjón, sem aðrir hafa orðið fyrir af þeim sökum. Regla þessi felur nánar tiltekið í sér að gerðarbeiðandi ábyrgist að fjárkrafa hans eða önnur réttindi, sem hann hefur krafist fullnustu á með aðför, séu efnislega rétt. Hann ábyrgist einnig að almennum skilyrðum I. þáttar sé fullnægt fyrir aðför, t.d. að aðfararheimild sé fyrir hendi, að hann sé réttur aðili til að krefjast aðfarar og að sama skapi að kröfu hans sé beint að réttum aðila, að aðfararfrestur sé liðinn og að krafan sé ekki fallin niður fyrir fyrningu. Bótaábyrgð gerðarbeiðanda nær til alls tjóns, sem aðrir kunna að bíða vegna aðgerða hans, hvort sem tjón hefur orðið af því einu að hann hefur krafist aðfarar eða vegna þess að gerðin sjálf hefur verið tekin fyrir eða náð fram að ganga. Takmarkanir eru ekki á aðild að bótakröfum af þessu tilefni, eins og sést af því að 1. mgr. 96. gr. kveður á um bótaskyldu gerðarbeiðanda vegna tjóns, sem „aðrir“ hafi beðið. Er bótaregla þessi því ekki bundin við gerðarþola einan eða þriðja mann, sem hefur látið gerðina til sín taka. Það er ekki sett að skilyrði fyrir bótaskyldu þessari, að aðfararbeiðni eða aðfarargerð hafi verið hrundið með tilteknum hætti, t.d. í máli skv. 13., 14. eða 15. kafla, heldur nægir að síðar sé leitt í ljós að skilyrði hafi skort fyrir kröfu gerðarbeiðanda. Slíkt mætti leiða í ljós, þótt gerð hafi náð fram að ganga og kröfu gerðarbeiðanda verið fullnægt að öllu leyti, án þess að komið hafi til rekstrar ágreiningsmáls á neinu stigi gerðarinnar eða að henni lokinni. Bótaábyrgð gerðarbeiðanda er ekki háð sök af hans hendi, og er því hér um hlutræna bótareglu að ræða.
    Í 2. mgr. 96. gr. kemur fram regla um ábyrgð á framkvæmd aðfarargerðar, sem felld hefur verið úr gildi að einhverju leyti eða öllu með dómsúrlausn. Gildissvið hennar er ekki það sama og reglu 1. mgr., því hér getur komið til bótaskyldu vegna rangrar framkvæmdar gerðar, þótt krafa gerðarbeiðanda hafi verið efnislega rétt og almennum skilyrðum fyrir aðför til fullnustu hennar hefur verið fullnægt, þannig að forsendur bótaskyldu skv. 1. mgr. væru ekki fyrir hendi. Regla 2. mgr. snýr að þeim aðstæðum að ranglega hafi verið staðið að aðfarargerð, en slíkt gæti einkum komið til af broti gegn fyrirmælum II.–IV. þáttar. Það skilyrði er sett fyrir bótaskyldu, að brot gegn nefndum reglum hafi haft í för með sér að viðkomandi gerð hafi verið felld niður að einhverju leyti eða öllu með dómsúrlausn. Slík dómsúrlausn yrði því að fást í máli skv. 14. eða 15. kafla eða eftir atvikum í ágreiningsmáli í tengslum við kröfu gerðarbeiðanda um nauðungarsölu á eign, sem fjárnám hefur verið gert í. Heimild til að hafa uppi kröfu um skaðabætur er ekki hér fremur en í reglu 1. mgr. bundin við tiltekna aðila að aðfarargerð. Bótaskylda gerðarbeiðanda skv. 2. mgr. getur bæði tekið til mistaka, sem hann hefur sjálfur gert varðandi aðfarargerð og leitt hafa til ógildingu hennar, og mistaka, sem héraðsdómari eða sýslumaður hafa gerst sekir um með sömu afleiðingum. Með því að bótaskylda gerðarbeiðanda samkvæmt reglu þessari fer eftir almennum skaðabótareglum, verða mistök hans sjálfs eða annarra að eiga rætur að rekja til saknæmrar ásetnings- eða gáleysisathafnar eða athafnaleysis með sama skilorði.
    Í 3. mgr. 96. gr. kemur fram heimild handa gerðarþola til að krefja gerðarbeiðanda um miskabætur, ef atvik eru þau, sem lýst er í 1. eða 2. mgr., og gerðarþoli hefur sætt frelsissviptingu skv. 29. gr. við framkvæmd gerðarinnar, húsakynni hans eða læstar hirslur verið brotin upp skv. 30. gr., eða líkamsleit verið gerð á honum skv. 31. gr. Að því leyti, sem aðgerðir þessar kunna að hafa beinst að fyrirsvarsmanni gerðarþola, ætti hann tilkall til miskabóta samkvæmt reglu þessari. Bótaréttur samkvæmt ákvæðinu er ekki háður því, að gerðarþoli krefjist einnig bóta eða eigi sjálfur rétt til þeirra eftir 1. eða 2. mgr. 96. gr.

Um 97. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. getur sá, sem höfðar mál á hendur gerðarbeiðanda til heimtu skaðabóta eftir reglum 96. gr., einnig beint málsókninni að ríkissjóði til að fá hann dæmdan til greiðslu bóta óskipt með gerðarbeiðanda, ef sýslumaður eða fulltrúi hans hefur sýnt af sér gáleysi með athöfn sinni eða athafnaleysi við framkvæmd þess atriðis aðfarargerðar, sem leitt hefur til tjóns. Sýslumaður eða fulltrúi hans verður samkvæmt reglu þessari að hafa gert mistök við framkvæmd gerðarinnar, sem verða metin honum til sakar. Eins og regla 1. mgr. 97. gr. er sett fram, getur tjónþoli ekki beint kröfum sínum að ríkissjóði einum. Honum væri hins vegar þarflaust að beina málsókn sinni að auki að þeim sýslumanni eða fulltrúa, sem hefur komið við sögu.
    Í reglu 2. mgr. 97. gr., sem kveður ábyrgð héraðsdómara fara eftir sérreglum laga, felst tilvísun til 34. gr. laga nr. 85/1936.

Um 98. gr.

    Hér er mælt fyrir um sérstakan frest til að höfða mál á hendur gerðarbeiðanda til heimtu bóta skv. 96. gr., eftir atvikum óskipt með ríkissjóði skv. 1. mgr. 97. gr. Fresturinn til málshöfðunar er skammur, eða þrír mánuðir frá því tjónþoli átti þess fyrst kost að hafa kröfu sína uppi. Upphafsmörk frestsins verða að ráðast af atvikum hverju sinni. Ef um bótakröfu væri að ræða eftir 1. mgr. 96. gr., getur nokkur tími liðið frá því krafa kom fram um aðför eða gerð var framkvæmd, þar til tjónþola berst vitneskja um atvik, sem gefa tilefni til að telja að skilyrði hafi ekki verið fyrir aðgerðum gerðarbeiðanda. Ef bóta væri krafist skv. 2. mgr. 96. gr., gæti frestur þessi fyrst byrjað að líða, þegar dómsúrlausn hefur gengið um ógildingu gerðar. Í báðum þessum dæmum gæti að auki komið til, að tjón vegna atviksins hafi ekki komið fram fyrst í stað.

Um 99. gr.

    Í 1. mgr. 99. gr. er kveðið á gildistöku, ef frumvarp þetta verður að lögum. Er miðað við sama gildistökudag og í frumvarpi til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, enda miðast reglur þessa frumvarps við skipan dómstóla og framkvæmdarvalds í héraði samkvæmt því frumvarpi.
    Í 2. mgr. 99. gr. eru talin brottfallin lög og lagaákvæði. Að nokkru er að finna úreltar lagareglur í talningu þessari, sem eru orðnar ósamþýðanlegar öðrum lögum eða almennum reglum, og hefur þeim því ekki beitt í framkvæmd. Formlegt brottfall þeirra skiptir ekki teljandi máli, en þar sem þau varða efni, sem tengist aðfarargerðum, þykir rétt að leggja það til hér.

Um 100. og 101. gr.

    Í ákvæðum þessum koma fram fyrirmæli um verklag við þau umskipti, sem gildistaka reglna frumvarpsins hefði í för með sér fyrir framkvæmd aðfarargerða. Er ráðgert í 100. gr. að síðustu 15 dagar fyrir gildistöku nýrra reglna verði nýttir til að ljúka gerðum eftir reglum
eldri laga, sem áður hafa byrjað en verið frestað af einhverjum sökum, en nýjar gerðir byrji ekki, nema brýnir hagsmunir gerðarbeiðanda séu í húfi. Ráðgert er að umræddum 15 dögum verði einnig varið til að yfirfara og endursenda eða framsenda aðfararbeiðnir, sem liggja fyrir. Á þessu tímabili ætti einnig að skrásetja fyrirliggjandi beiðnir, sem ekki yrðu endursendar skv. 1. mgr. 101. gr., og undirbúa aðfarargerðir eftir gildistöku nýrra reglna með boðunum og öðrum aðgerðum.

Um 102.–108. gr.

    Í ákvæðum þessum koma fram reglur um skil eldri laga og yngri varðandi afmörkuð efni. Verður ekki séð að þær þarfnist skýringa í einstökum atriðum.