Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 132 . mál.


Sþ.

139. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins 1987–1988.

1. Um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Alþjóðaþingmannasambandið (Inter-Parliamentary Union) mun á næsta ári fagna 100 ára starfsafmæli. Það var stofnað á árinu 1889 fyrir atbeina Bretans William Randal Cremer og Frakkans Frederic Passy með það að markmiði að stuðla að bættri sambúð ríkja og friðsamlegri lausn deilumála.
    Sambandið hefur frá upphafi beitt sér mjög í alþjóðlegri friðarviðleitni og átti m.a. þátt í stofnun Alþjóðadómstólsins í Haag sem starfar nú innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.
    Í gildandi starfsreglum Alþjóðaþingmannasambandsins segir að markmið sambandsins sé að stuðla að persónulegum tengslum milli fulltrúa hinna ýmsu þjóðþinga og sameina þá í átaki til að efla og treysta fulltrúalýðræði í aðildarríkjunum. Einnig að vinna að friði og alþjóðlegri samvinnu í heiminum á grundvelli markmiða Sameinuðu þjóðanna.
    Alþjóðaþingmannasambandið hefur beitt sér sérstaklega til að vernda mannréttindi þingmanna. Sérstök nefnd á vegum samtakanna hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga.
    Sérstakar þjóðdeildir í 109 þingum eiga nú aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu. Ástæða er til að nefna að aðeins hluti þeirra er þjóðkjörinn með sama hætti og tíðkast hér á landi og í öðrum vestrænum ríkjum. Þrátt fyrir þetta hefur sambandið reynst ákjósanlegur vettvangur fyrir formleg og óformleg skoðanaskipti um alþjóðamál og þau vandamál sem helst eru á döfinni í samskiptum ríkja.
    Unnt er að taka upp á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins sérhvert alþjóðlegt vandamál sem ætla má að hægt sé að leysa fyrir atbeina þjóðþinganna. Sambandið beitir sér einnig fyrir bættum vinnuaðferðum og nýjungum í þinghaldi og innan vébanda þess starfa sérstök samtök skrifstofustjóra þjóðþinga.
    Stofnanir Alþjóðaþingmannasambandsins eru þing, ráð, framkvæmdanefnd og aðalskrifstofa sem hefur aðsetur í Genf og lýtur stjórn framkvæmdastjóra sambandsins. Því starfi gegnir nú Frakkinn Pierre Corneillon.
    Þingið kemur saman tvisvar á ári til skiptis í aðildarlöndunum. Það mega sækja allt að 8 fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Atkvæðisréttur er þar misjafn og hafa smæstu ríkin 9 atkvæði en hin stærstu 22 atkvæði. Heimilt er að skipta atkvæðum ríkis ef skoðanamunur er í sendinefnd þess um afstöðu til máls sem til meðferðar er.
    Ráðið er hin formlega stjórn samtakanna og sitja tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild í því. Það kýs forseta samtakanna til þriggja ára í senn og ákveður fjárhags- og starfsáætlun hvers árs. Í forsetakjörinu hefur hver fulltrúi í ráðinu eitt atkvæði. Á síðasta fundi ráðsins í september sl. var Senegalinn Daouda Sow, forseti þingsins í Senegal, kosinn forseti Alþjóðaþingmannasambandsins. Tók hann við af Hans Stercken frá Vestur-Þýskalandi, formanni utanríkismálanefndar vestur-þýska þingsins.
    Framkvæmdanefndin, skipuð 13 fulltrúum, hefur umsjón með daglegri starfsemi sambandsins og kemur fram fyrir hönd ráðsins milli funda þess. Í framkvæmdanefndinni situr nú einn norrænn þingmaður, Daninn Ivar Nörgaard.
    Á þingum sambandsins starfa fjórar fastanefndir og eiga allar þjóðdeildir rétt á að sækja fundi þeirra. Að jafnaði koma aðeins tvær nefndir saman á hverju þingi til að fjalla um fyrirliggjandi umræðuefni þingsins og drög að ályktunum. Venjan er sú að kjörnar eru undirnefndir með fulltrúum 10–15 ríkja til þess að fjalla um ályktanadrög og freista þess að ná um þau samstöðu. Takist það eru þau afgreidd án atkvæðagreiðslu á þinginu. Annars koma þau til atkvæða í nefndinni og síðan á þinginu sjálfu.
    Auk hinna reglubundnu þinga Alþjóðaþingmannasambandsins gengst sambandið á hverju ári fyrir nokkrum sérstökum ráðstefnum og fundum um afmörkuð málefni. Þannig hittast t.d. þingmenn ríkja sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum á sérstökum ráðstefnum með reglulegu árabili á vegum sambandsins. Einnig hefur sambandið haldið ráðstefnur um afvopnunarmál, umhverfismál, heilbrigðis- og fólksfjölgunarvandamál svo að fátt eitt sé nefnt.
    Sú venja hefur skapast á þingum sambandsins að konur sem þau sitja halda með sér sérstakan vinnufund og ráða ráðum sínum. M.a. fyrir atbeina þessa hóps var starfsreglum sambandsins breytt á síðasta þingi til að tryggja að ávallt sitji a.m.k. tvær konur í framkvæmdanefnd sambandsins.
    Þá hefur einnig komið saman óformlega á mörgum undanförnum þingum sérstakur hópur áhugamanna um málefni aldraðra. Þeir fundir hafa verið haldnir
að frumkvæði bandaríska fulltrúadeildarþingmannsins Claude Pepper sem sjálfur er 88 ára að aldri og var fyrst kjörinn á Bandaríkjaþing árið 1936.
    Loks má nefna að á þingunum koma saman til formlegs fundar þingmenn ríkja sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum og ráðstefnunni um samvinnu og öryggi í Evrópu. Eru þar ræddar leiðir til að stuðla að bættri sambúð og aukinni samvinnu þessara ríkja og þjóðþinga þeirra.

2. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Alþingi Íslendinga hefur um árabil tekið þátt í starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins og hafa þingflokkar átt kost á senda fulltrúa á þing þess í samræmi við þingstyrk hverju sinni. Þátttaka Íslandsdeildarinnar hefur þó verið breytileg eftir aðstæðum. Þannig sat enginn Íslendingur vorþing sambandsins 1987, en það var haldið í Managva í Nikaragva skömmu fyrir alþingiskosningarnar í apríl.
    Snemma á síðasta þingi tilnefndu allir þingflokkar einn þingmann til að sitja í Íslandsdeildinni þetta kjörtímabil. Þessir þingmenn eru: Geir H. Haarde frá Sjálfstæðisflokki, Ólafur Þ. Þórðarson frá Framsóknarflokki, Sighvatur Björgvinsson frá Alþýðuflokki, Geir Gunnarsson frá Alþýðubandalagi, Júlíus Sólnes frá Borgaraflokki og Kristín Einarsdóttir frá Kvennalista. Einnig tók Karl Steinar Guðnason þátt í starfi deildarinnar fyrir hönd Alþýðuflokks áður en formlegar tilnefningar bárust og sat eitt þing sambandsins.
    Geir H. Haarde var kjörinn formaður deildarinnar en ritari hennar er Ólafur Ólafsson, deildarstjóri í skrifstofu Alþingis.
    Þrjú regluleg þing sambandsins hafa verið haldin á tímabilinu og sóttu fulltrúar Íslandsdeildarinnar þau öll. Hins vegar var engin þátttaka af hálfu Alþingis í aukaráðstefnum á vegum samtakanna.
    Regluleg þing voru haldin í Bangkok í Tælandi haustið 1987, Gvatemalaborg vorið 1988 og í Sofíu í Búlgaríu sl. haust. Formaður deildarinnar og ritari sóttu öll þingin. Þingið í Bangkok sóttu auk þeirra Ólafur Þ. Þórðarson, Geir Gunnarsson og Karl Steinar Guðnason. Sighvatur Björgvinsson og Júlíus Sólnes sóttu þingið í Gvatemala auk formanns og ritara en þau Ólafur Þ. Þórðarson og Kristín Einarsdóttir þingið í Sofíu. Skiptu þingmenn með sér að sitja í ráði sambandsins með formanni.
    Fundi sambands skrifstofustjóra þjóðþinga, sem haldnir eru sjálfstætt samtímis þingum Alþjóðaþingmannasambandsins, sóttu í Bangkok Friðrik Ólafsson
skrifstofustjóri Alþingis og í Gvatemalaborg Helgi Bernódusson deildarstjóri.
    Formaður Íslandsdeildarinnar tók þátt í almennum umræðum á öllum þingunum. Hann var einnig einn þingforseta á þinginu í Sofíu. Kristín Einarsdóttir tók og til máls í almennum umræðum á þinginu í Sofíu.
    Kveðið er á um það í starfsreglum Alþjóðaþingmannasambandsins að sérhver þjóðdeild skuli gefa þingi sínu reglulega skýrslu um starfsemina og um starf sambandsins. Hyggst deildin reyna að koma á þeirri reglu að skýrsla um starfsemi hennar verði kynnt Alþingi árlega. Sömuleiðis hyggst deildin beita sér fyrir því á næstunni að henni verði settar sérstakar starfsreglur eins og einnig er kveðið á um í reglum sambandsins.
    Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum til starfsemi sinnar. Rennur hún til greiðslu árgjalds til sambandsins, ferðakostnaðar fulltrúa á þingum þess og annars kostnaðar sem af þátttöku leiðir. Á árinu 1987 voru 1524 þúsund krónur veittar til deildarinnar en 1840 þúsund krónur á árinu 1988. Fjárveiting ársins 1987 var aðeins nýtt að hluta þar eð starfsemi deildarinnar lá niðri framan af árinu vegna alþingiskosninga og undirbúnings þeirra.

3. Samstarf við aðrar deildir innan sambandsins.
    Þeir fulltrúar norrænu þinganna, sem þátt taka í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins, eiga með sér náið samstarf. Norrænir þingmenn halda reglulega fundi á þingum sambandsins, en einnig hafa fulltrúar norrænu þjóðdeildanna hist reglulega fyrir þingin til að bera saman bækur sínar og undirbúa sig undir þingstörfin.
    Norrænu þjóðdeildirnar skiptast á um að stýra þessu samstarfi og sá danska deildin um það á liðnu starfsári en á komandi ári taka Norðmenn við. Íslandsdeildin sá síðast um þetta samstarf á árinu 1986.
    Íslandsdeildin hefur einnig tekið þátt í samstarfi Vesturlanda innan Alþjóðaþingmannasambandsins, hins svokallaða Tólf plús hóps sem kenndur er við aðildarríkin tólf í Evrópubandalaginu. Þar koma saman fulltrúar flestra ríkja Vestur-Evrópu auk Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Í þessum hópi ráða menn ráðum sínum um störfin innan sambandsins og þau mál sem á dagskrá eru. Sama gera aðrir ríkjahópar eins og t.d. Asíuríki, ríki Austur-Evrópu o.fl. Einnig hittast aðilar að alþjóðasamböndum stjórnmálaflokka með óformlegum hætti meðan á þingum sambandsins stendur.
    Vesturlandahópurinn heldur venjulega samráðsfundi fyrir hvert þing ýmist á þingstaðnum eða í öðru ríki eftir hentugleikum hverju sinni. Fyrir þingið í Bangkok hittist hópurinn á fundarstað, en fyrir Gvatemala þingið var hist í Washington á leið til þingsins og sóttu formaður og ritari þann fund. Til undirbúnings þinginu í Sofíu hélt Tólf plús hópurinn vinnufund í Ósló en þangað fór enginn frá Íslandsdeildinni.
    Á liðnu starfsári fór norska þjóðdeildin með formennsku í Tólf plús hópnum og var formaður hennar, Carl F. Lowzow, jafnframt formaður hópsins og talsmaður hans gagnvart öðrum ríkjahópum á þinginu. Spánverjar höfðu þetta verkefni áður með höndum en á næsta starfsári tekur portúgalska þjóðdeildin við formennskunni.

4. Ályktanir og störf síðustu þinga Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Skal nú vikið að málefnum þeim sem rædd hafa verið á undanförnum þremur þingum sambandsins. Meginregla er að umræðuefni á hverju þingi eru ákveðin í lok næsta þings á undan og skulu þau hverju sinni vera á verksviði tveggja af fjórum fastanefndum sambandsins. Geta allar þjóðdeildir gert tillögur um umræðuefni.
    Til viðbótar aðalumræðuefnunum tveimur getur hvert þing tekið á dagskrá eitt viðbótarefni sem snertir sérstaklega atburði líðandi stundar eða talið er óvenjulega mikilvægt. Allar þjóðdeildir geta síðan lagt fram drög að ályktunum um dagskrárefnin eða sent frá sér svokölluð minnisblöð (memoranda) um málin annaðhvort í eigin nafni eða sameiginlega með fleirum.
    Á hverju þingi eru því samþykktar tvær eða þrjár ályktanir, oftast í mjög löngu máli. Ekki eru tök á að birta ályktanir síðustu þinga í skýrslu þessari, en þær eru hins vegar aðgengilegar þingmönnum hjá ritara Íslandsdeildarinnar. Þess í stað verður sagt frá hverri þeirra fyrir sig í stuttu máli og greint frá úrslitum í atkvæðagreiðslum þar sem þær hafa farið fram.

Þingið í Bangkok.
    Á þingi sambandsins í Bangkok dagana 12.–17. október 1987 voru meginumræðuefnin annars vegar mannréttindamál og vandamál flóttamanna í tengslum við þau og hins vegar framkvæmd yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði nýlendna og baráttan gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni.
    Viðbótarumræðuefnið snerist um hvernig binda mætti enda á stríðið milli Írans og Íraks og tryggja öruggar siglingar á Persaflóa á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 598 (1987).
    Svo fór að um síðastnefnda efnið tókst að ná samstöðu milli Írana og Íraka. Var það mál manna að formaður pólítísku nefndarinnar, Spánverjinn Miguel A. Martinez, sem þá var einnig formaður í Tólf plús hópnum, hefði unnið mikið afrek með því að fá alla aðila til að fallast á texta ályktunarinnar. Telja ýmsir að þessi ályktun hafi verið mikilvægt framlag til þess að koma á vopnahléi milli aðila sem tókst nokkrum mánuðum síðar.
    Ályktunin um mannréttindamál og vandamál flóttamanna var samþykkt án atkvæðagreiðslu, en deilur urðu um hina meginályktunina um sjálfstæði nýlendna og baráttuna gegn kynþáttaaðskilnaði. Þótti bæði Marokkóbúum og Indónesíumönnum að sér vegið með ályktuninni vegna tilvísana í ástandið í Vestur-Sahara og á austurhluta Tímor. Breytingartillögur þeirra voru þó felldar. Einnig olli orðalag varðandi Púertó Ríkó, Gvam og bandarísku og bresku Jómfrúreyjarnar miklum ágreiningi sem og afstaðan sem tekin var til tilkalls Argentínumanna til Falklandseyja auk fleiri atriða.
    Þessi ályktun var á endanum samþykkt með 791 atkvæði gegn 122 en 207 greiddu ekki atkvæði. Íslandsdeildin var í hópi þeirra sem greiddu ekki atkvæði.
    Í Bangkok var að venju lögð fram skýrsla fastrar milliþinganefndar sambandsins um málefni einstakra þingmanna víða um heim sem orðið hafa fyrir mannréttindabrotum, verið misþyrmt vegna pólitískra skoðana, fangelsaðir án dóms og laga eða horfið sporlaust. Var gerð ályktun um mál hvers og eins og því beint til viðkomandi ríkisstjórna að gera hreint fyrir sínum dyrum, upplýsa um afdrif þingmanna sem horfið hafa og tryggja öðrum full réttindi. Ríkin, sem hér áttu hlut að máli, eru Chile, Kólumbía, Indónesía, Sómalía, Svasíland, Tyrkland og Víetnam.

Þingið í Gvatemala.
    Meginumræðuefni á þinginu í Gvatemalaborg 11.–16. apríl sl. voru annars vegar afvopnunarmál á grundvelli aukins trausts í samskiptum ríkja og hins vegar umhverfisvernd, hagþróun og varðveisla náttúruauðlinda og menningararfleifðar.
    Viðbótarumræðuefnið var valið með tilliti til þess hvar þingið var haldið og fjallaði um horfur á friði, lýðræði og efnahagslegri og félagslegri framþróun í Mið-Ameríku. Fór fram atkvæðagreiðsla í ráðinu um hvort taka skyldi þetta efni á dagskrá eða málefni Palestínumanna á vesturbakka Jórdanar svo sem einnig var tillaga um. Greiddi Íslandsdeildin atkvæði með því að taka málefni Mið-Ameríku á dagskrá.
    Góð samstaða tókst um ályktanir varðandi öll umræðuefnin á þinginu og voru þær samþykktar án atkvæðagreiðslu.
    Að venju var fjallað um mannréttindabrot gegn einstökum þingmönnum og var að hluta um að ræða sömu aðila og fjallað var um á þinginu á undan og var ályktunum beint til ríkisstjórna Chile, Kólumbíu, Alþýðuríkisins Jemen (Suður-Jemen), Hondúras, Indónesíu, Sómalíu, Tyrklands og Víetnam.

Þingið í Sofíu.
    Meginumræðuefnin á þinginu í Búlgaríu 16.–24. september sl. voru að venju tvö. Annars vegar hvernig efla mætti alþjóðlegt samstarf í mannúðarmálum og samræma löggjöf í einstökum löndum alþjóðlegum mannréttindaviðmiðunum. Hins vegar hvernig hrinda mætti í framkvæmd ályktunum Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði nýlendusvæða, afnám nýlendustefnu og kynþáttaaðskilnaðar.
    Fyrri ályktunin var samþykkt án atkvæðagreiðslu en hin síðari með 878 atkvæðum gegn fjórum, en 141 sat hjá. Öll atkvæði Íslandsdeildarinnar féllu með ályktuninni. Þessi ályktun var svipaðs efnis og ályktun Bangkok-fundarins, en farið var nokkru mildari höndum um ýmis þau atriði sem mestum deilum ollu á þeim fundi. Náðist því betri samstaða um ályktunina í þetta sinn.
    Aukaályktun þessa fundar fjallaði um uppreisn almennings gegn hernámi Ísraelsmanna á arabískum landsvæðum. Í þessari ályktun er Ísraelsstjórn fordæmd mjög harkalega og Palestínumönnum veittur afdráttarlaus stuðningur.
    Eins og vænta mátti var hart deilt um þetta mál bæði í þeirri nefnd er um það fjallaði sem á þinginu sjálfu. Atkvæði féllu þannig að ályktunin var samþykkt með 636 atkvæðum gegn 139 en 211 sátu hjá. Hinum níu atkvæðum Íslandsdeildarinnar var skipt þannig að fimm atkvæði Geirs H. Haarde féllu á móti tillögunni en Ólafur Þ. Þórðarson, sem fór með fjögur atkvæði, sat hjá.
    Á þinginu var einnig samþykkt með afbrigðum sérstök aukaályktun þar sem fagnað var friðarviðræðum Írana og Íraka.
    Loks voru samþykktar ályktanir um mál einstakra þingmanna og þeim beint til ríkisstjórna Chile, Kólumbíu, Gíneu-Bissá, Hondúras, Indónesíu, Malasíu, Sómalíu og Tyrklands.

5. Næstu fundir Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Regluleg þing sambandsins á árinu 1989 verða haldin í Búdapest í marsmánuði og London í september. Verður þá jafnframt minnst 100 ára afmælis samtakanna. Að auki er gert ráð fyrir ráðstefnu um ferðamál í Haag í apríl,
fundi um þátttöku kvenna í stjórnmálum í Madrid í október og ráðstefnu í Harare í Simbabve einhvern tíma á árinu um baráttuna gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni. Þá hefur verið ráðgerður fundur í Búkarest með þingmönnum frá ríkjum þeim sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum, en óvíst er hvort af honum verður á árinu. Hafa vestræn ríki viljað fresta þessum fundi um óákveðinn tíma vegna ástandsins í Rúmeníu.
    Ákveðið hefur verið að vorþing Alþjóðaþingmannasambandsins 1990 verði í Nikósíu á Kýpur og að þingið haustið 1992 verði í Madrid. Íslandsdeildin telur koma til álita að þing sambandsins verði haldið í Reykjavík einhvern tíma á næstu árum, en um það liggja þó engar ákvarðanir fyrir.

Alþingi, 24. nóvember 1988.



Geir H. Haarde.

Geir Gunnarsson.

Júlíus Sólnes.



Kristín Einardóttir.

Ólafur Þ. Þórðarson.



Sighvatur Björgvinsson.

Ólafur Ólafsson, ritari.