Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 189 . mál.


Nd.

222. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 30. gr.:
a.     Í stað „57.375“ og „114.750“ í 1. málsl. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. kemur: 90.000 og 180.000.
b.     Í stað „45.900“ og „91.800“ í 2. málsl. 4. tölul. B-liðar 1. mgr. kemur: 72.000 og 144.000.
c.     Í stað „9.180.000“ og „18.360.000“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 15.400.000 og 30.800.000.

2. gr.

    3. mgr. 1. tölul. 31. gr. fellur niður.

3. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 38. gr.:
a.     1. málsl. 1. mgr. orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 29. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 31. gr. skal fyrning vera árlegur hundraðshluti af fyrningargrunni einstakra eigna eða eignarflokks sem hér segir:
b.     Í stað „10%“ í 1. og 2. tölul. kemur: 8%.
c.     Í stað „15%“ í 3. tölul. kemur: 12%.
d.     Í stað „20%“ í 4. tölul. kemur: 15%.

4. gr.

    40. gr. fellur niður.

5. gr.

    41. gr. fellur niður.

6. gr.

    Við 52. gr. bætist nýr töluliður, er verður 5. tölul., og orðast svo:
    Kostnað við rekstur fólksbifreiða, sem látnar eru framkvæmdastjórum eða öðrum sambærilegum starfsmönnum atvinnurekstrar í té til eigin afnota, nema að því marki sem hlunnindi af notkun viðkomandi fólksbifreiðar hafa verið talin til tekna, samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra, hjá þeim aðila sem heimilt er að hafa hana til umráða í eigin þágu.

7. gr.

    Í stað 2. málsl. 4. mgr. 53. gr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo:
    Til eigna, sbr. 2. mgr., teljast ekki ógreidd hlutafjárloforð, lán til hluthafa svo og lán til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga skv. 1. tölul. 2. gr. Skuldir og inneignir eignaraðila sameignarfélaga, sbr. 3. tölul. 2. gr., teljast ekki til eigna eða skulda við útreikning þennan.

8. gr.

    Í stað „30%“ í 2. málsl. 1. mgr. 54. gr. kemur: 15%.

9. gr.

    Við lögin bætist ný grein, er verður 57. gr. A, og orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 56. og 57. gr. skulu eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum, hjá því félagi sem slitið var, ekki flytjast til þess félags sem við tekur, nema það hafi með höndum sams konar rekstur eða starfsemi og félagið sem slitið var. Sama gildir þegar það félag sem slitið var átti fyrir slitin óverulegar eignir og hafði engan rekstur með höndum.

10. gr.

    Í stað „28,5%“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. kemur: 30,5%.

11. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á A-lið 68. gr.:
a.     Í stað „158 820“ í 1. mgr. kemur: 212 100.
b.     2. mgr. orðast svo:
    Nemi persónuafsláttur skv. 1. mgr. hærri fjárhæð en reiknaður tekjuskattur af tekjuskattsstofni skv. 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun, og skal því ráðstafað fyrir hvern mann til að greiða útsvar hans á álagningarárinu og því, sem þá kann að vera
óráðstafað, til greiðslu eignarskatts hans á álagningarárinu. Sá persónuafsláttur, sem þá er enn óráðstafað, fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars hjóna, sem skattlagt er samkvæmt ákvæðum 63. gr., og skulu þá 80% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars makans bætast við persónuafslátt hins. Nemi þannig ákvarðaður persónuafsláttur síðarnefnda makans í heild hærri fjárhæð en reiknaður skattur af tekjuskattsstofni hans skv. 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun til að greiða útsvar hans á álagningarárinu og því, sem þá kann að vera óráðstafað, til greiðslu eignarskatts hans á álagningarárinu. Sá hluti persónuafsláttar, sem þá verður enn óráðstafað, fellur niður.

12. gr.

    Í stað „365“ í 1. mgr. B-liðar 68. gr. kemur: 455.

13. gr.

    Í stað „16.000“, „24.000“ og „48.000“ í A-lið 69. gr. kemur: 20.900, 31.300 og 62.600.

14. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á B-lið 69. gr.:
a.     Í stað „38.000“ í 2. mgr. kemur: 49.500.
b.     Í stað „600.000“ og „400.000“ í 3. mgr. kemur: 825.000 og 550.000.
c.     Í stað „1.850.000“ og „2.475.000“ í 4. mgr. kemur: 2.850.000 og 4.275.000.

15. gr.

    Í stað „38.000“ í C-lið 69. gr. kemur: 47.400.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr.:
a.     2. mgr. orðast svo:
    Í tekjuskattsstofn manna, sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. en hafa einungis verið heimilisfastir hér á landi hluta tekjuársins, skal deila með fjölda dvalardaga þeirra hér á landi á árinu og margfalda síðan þá útkomu með 365. Tekjuskattur skal síðan reiknast skv. 67. gr. af þannig reiknuðum tekjuskattsstofni, að teknu tilliti til 68. gr., eins og um væri að ræða menn heimilisfasta hér á landi allt árið. Í þá fjárhæð skal deila með 365 og
margfalda þá útkomu með fjölda dvalardaga þeirra hér á landi á árinu. Sú fjárhæð sem þannig fæst skal vera endanlega ákvarðaður og álagður tekjuskattur eða ákvarðaður ónýttur persónuafsláttur.
b.     3. mgr. fellur niður.

17. gr.

    Í stað „48%“ í 72. gr. kemur: 50%.

18. gr.

    Í stað „573.700“ og „1.147.400“ í 78. gr. kemur: 900.000 og 1.800.000.

19. gr.

    83. gr. orðast svo:
    Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 2.500.000 kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af næstu 3.500.000 kr. af eignarskattsstofni greiðist 1,2%. Af eignarskattsstofni yfir 6.000.000 kr. greiðist 1,5%.

20. gr.

    Í stað „0,95%“ í 84. gr. kemur: 1,2%.

21. gr.

    1. mgr. 121. gr. orðast svo:
    Fjárhæðir, sem um ræðir í 68. gr., A-lið 69. gr., 2. mgr. B-liðar 69. gr. og C-lið 69. gr., skulu hinn 1. júlí á staðgreiðsluári taka hlutfallslegri breytingu sem nemur mismun á lánskjaravísitölu sem í gildi er 1. desember næstan á undan staðgreiðsluári og lánskjaravísitölu sem er í gildi 1. júní á staðgreiðsluári.

22. gr.

    122. gr. orðast svo:
    Skylt er að hækka eða lækka fjárhæðir sem um ræðir í 2. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 30. gr., 68. gr., 69. gr., 78. gr. og 83. gr. í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum ár hvert, í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 1990.

23. gr.

    Í stað „292.600“ og „585.200“ í 3. málsl. 2. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða í lögum nr. 92/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, kemur: 460.000 og 920.000.

24. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1989 og gilda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1989 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1990 vegna tekna ársins 1989 og eigna í lok þess árs.
    Þó skulu ákvæði 1. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr., 8. gr., b-liðar 11. gr., 14. gr., 17. gr., 18. gr., 19. gr., 20. gr. og 23. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts og ákvörðun bóta á árinu 1989 vegna tekna á árinu 1988 og eigna í lok þess árs.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. gr. laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, með síðari breytingum, skal skattskylt mark til sérstaks eignarskatts vegna álagningar á árinu 1989 vera 4.250.000 kr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1989 er gert ráð fyrir að tekju- og eignarskattur einstaklinga og fyrirtækja hækki frá því sem orðið hefði að óbreyttum lögum. Þessi hækkun tekju- og eignarskatts er liður í þeirri viðleitni að ná betra jafnvægi í ríkisfjármálum á næsta ári en verið hefur að undanförnu. Jafnframt er boðað í frumvarpi til fjárlaga að skattbyrði hinna tekjulægstu hækki ekki og að þeir sem hafa miklar tekjur og eignir beri hlutfallslega hærri hluta aukinnar skattlagningar. Frumvarp þetta mótast af þessari meginstefnumörkun.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem eiga að tryggja þá tekjuöflun sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga. Hér á eftir verður gerð grein fyrir í hverju breytingar samkvæmt þessu frumvarpi eru fólgnar.

Breytingar á tekjuskatti einstaklinga.


    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 1989 er reiknað með fimm meginbreytingum við álagningu tekjuskatts einstaklinga. Í fyrsta lagi að skatthlutfallið verði hækkað. Í öðru lagi að persónuafsláttur verði hækkaður á móti þannig að skattbyrði lægri tekna héldist óbreytt. Í þriðja lagi að barnabætur hækki
sérstaklega. Í fjórða lagi að tekið verði upp sérstakt skattþrep fyrir háar tekjur. Í fimmta lagi að skattlagning launa og fjármagnstekna, raunvaxta, arðs og söluhagnaðar verði samræmd. Reiknað var með í forsendum fjárlagafrumvarpsins að heildartekjur ríkissjóðs af tekjusköttum einstaklinga yrðu um 9150 millj. kr. á næsta ári.
    Að undanförnu hefur sá möguleiki verið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu að taka upp nýtt skattþrep á háar tekjur. Innan ramma núverandi kerfis er mögulegt að breyta tekjuskattsbyrði mismunandi tekjuhópa umtalsvert með því að hagræða skattprósentu og persónuafslætti. Þannig býður núverandi kerfi upp á mikla möguleika til tekjujöfnunar. Það er þó ekki mögulegt innan ramma þess að hækka skatta hinna tekjuhærri án þess að skattar flestra annarra breytist. Nýtt skattþrep hefur hins vegar þann kost að mögulegt er að auka tekjuskatta þeirra sem hærri tekjur hafa án þess að breyta skattbyrði annarra. Ýmsir annmarkar eru þó varðandi nýtt skattþrep. Í því sambandi hefur verið bent á eftirfarandi atriði:
    Launafólk með sveiflukenndar tekjur innan ársins getur lent í hærra skattþrepi einstaka mánuði, án þess að meðaltekjur þeirra á árinu öllu gæfu tilefni til þess.
    Þeir sem fá laun frá mörgum atvinnurekendum kunna að sleppa undan hátekjuþrepinu, enda þótt tekjur þeirra gæfu ekki tilefni til þess.
    Skattlagning hjóna getur — í ríkari mæli en nú er — orðið misjöfn, eftir því hvernig tekjurnar skiptast á milli þeirra.
    Þetta eru ekki óyfirstíganleg vandamál. Við hinu fyrsta mætti bregðast með því að reikna staðgreiðsluna alltaf frá áramótum. Með því móti er hægt að tryggja fulla nýtingu á lægra skattþrepinu áður en einstaklingur fer í hærra þrepið. Annað vandamálið mætti leysa með því að gera einstaklingum skylt að standa sjálfir skil á staðgreiðslunni í hærra skattþrepinu, ef þeir vinna hjá fleiri en einum atvinnurekanda. Þriðja vandamálið er erfiðara úrlausnar, enda almennt vandamál í skattlagningu en ekki innheimtuvandamál, eins og hin tvö atriðin. Hér kemur þó til greina að miða efra skattþrepið viðæ hærri tekjur en ella, ef annað hjóna er með litlar tekjur. Í þessu felst viss samsköttun, sem gæti lækkað tekjur af nýju skattþrepi.
    Í ljósi ofangreindra og fleiri vandamála er það mat allra sem hafa skoðað þetta mál að ýmsir annmarkar séu á því að koma þessu við í núgildandi staðgreiðslukerfi með svo stuttum fyrirvara. Því er um að ræða tvo möguleika, ef sérstakt hátekjuþrep á að verða að raunveruleika á annað borð á næstu árum. Í fyrsta lagi að nýju skattþrepi verði komið við í álagningu eftir á eingöngu. Í öðru lagi að nýtt skattþrep verði tekið upp í staðgreiðslu síðar. Í báðum
tilfellum mundi það engar tekjur gefa fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1990. Af þessum sökum hefur verið ákveðið að skoða þetta mál betur.
    Í skattlagningu raunvaxta o.fl. felst mikil breyting á tekjuskattskerfinu, auk þess sem hún hefur áhrif á peninga- og vaxtastefnu í landinu. Því er talið nauðsynlegt að þetta mál verði mjög vel undirbúið og er ekki að vænta frumvarps um það fyrr en eftir áramót.
    Í samræmi við það sem að framan er rakið er gert ráð fyrir eftirfarandi atriðum í þessu frumvarpi:
    Almenna skatthlutfallið hækkar úr 28,5% í 31,5%. Þessi hækkun skilar um 2600 millj. kr., brúttó, í ríkissjóð.
    Á móti kemur sérstök hækkun á persónuafslætti og barnabótum, þannig að skattbyrði launþega með 55–60 þús. kr. mánaðartekjur helst óbreytt. Að samanlögðu má reikna með að hækkun á skatthlutfallinu skili tæplega 1 milljarði króna, nettó, í ríkissjóð, þegar persónuafsláttur og auknar barnabætur hafa verið dregnar frá.
    Að heimilt verði að nýta persónuafslátt til greiðslu eignarskatts með sama hætti og hann gengur til greiðslu á tekjuskatti og útsvari.

Breytingar á tekjuskatti fyrirtækja


    Meginstefnan í endurskoðun á skattlagningu fyrirtækja eins og hún er boðuð í fjárlagafrumvarpinu er þríþætt. Í fyrsta lagi að fækka frádráttarliðum og þar með breikka sjálfan skattstofninn. Í öðru lagi að þrengja heimildir til fyrninga og frádráttarheimildir vegna rekstrarkostnaðar fólksbifreiða í eigu fyrirtækja. Í þriðja lagi að samræma skattlagningu fyrirtækja, þannig að hún taki til þeirra aðila sem hingað til hafa verið undanþegnir skattlagningu, svo sem veðdeilda bankanna og fjárfestingarlánasjóða. Tekjuskattar félaga eru taldir geta skilað um 2 700 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári; þó er rétt að hafa í huga að áætlanir um innheimtu tekjuskatta fyrirtækja eru alltaf mjög óvissar. Þetta hefur yfirleitt stafað af óvissu um það, hvernig heildardæmið liti út, þegar tekið hefur verið tillit til þeirra frádráttarliða sem fyrirtækin hafa getað nýtt sér. Þessi óvissa minnkar að sjálfsögðu eftir því sem þessar heimildir eru þrengdar. Á móti þessu vegur núna mikil óvissa um almennar rekstrarhorfur í atvinnulífinu.
    Meginatriði frumvarpsins er varðar fyrirtæki eru þessi:
    Reglur um fyrningu lausafjár verði þrengdar.
    Almennar fyrningar, aðrar en á fasteignum, lækki.
    Heimild til að ráðstafa hluta rekstrarhagnaðar í sérstakan fjárfestingarsjóð verði lækkuð úr 30% í 15%.
    Gjaldfærsla vegna rekstrarkostnaðar fólksbifreiða í eigu fyrirtækja verði takmörkuð.
    Afnumin verði verðbreytingarfærsla hjá hlutafélögum vegna lána til eigenda og framkvæmdarstjóra þeirra.
    Heimild til yfirfærslu taps við kaup eða sameiningu fyrirtækja í óskyldum rekstri verði þrengd.
    Skatthlutfall hækki til samræmis við hækkun á tekjuskatti einstaklinga úr 48% í 50%.

Breytingar á eignarskatti einstaklinga og fyrirtækja.


    Að því er varðar eignarskatt einstaklinga er um að ræða tvær breytingar. Annars vegar hækkun á lægra þrepinu í eignarskatti einstaklinga, úr 0,95 % af nettóeign, þ.e. skuldlausri eign yfir 2500 þús kr., í 1,2%. Hins vegar er gert ráð fyrir nýju skattþrepi, sem verði 1,5%, á skuldlausa eign yfir 6000 þús. kr. hjá einstaklingi, þ.e. 12.000 þús. kr. skuldlausri eign hjá hjónum. Áætlað er að rúmlega 6 þúsund einstaklingar lendi í þessu viðbótarskattþrepi af 182 þúsund framteljendum. Með sama hætti er lagt til að hækka eignarskatts félaga úr 0,95% af nettóeign í 1,2%. Jafnframt er í frumvarpi þessu lögð til breyting varðandi nýtingu á persónuafslætti á þann hátt að heimilt verði að nýta hann til greiðslu á eignarskatti.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þar sem að ekki er gert ráð fyrir því að skattvísitala verði ákveðin í fjárlögum fyrir árið 1989 er nauðsynlegt að færa upp í samræmi við verðlagsþróun þær fjárhæðir laganna sem breytast eiga í samræmi við skattvísitölu samkvæmt 122. gr. laganna. Allar fjárhæðir í þessu frumvarpi eru á verðlagi í desember 1988. Í samræmi við þetta felst í þessari grein að fjárhæðir í 30. gr. hækka í samræmi við verðlagsþróun.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 3. mgr. 1. tölul. 31. gr. er heimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknastarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga, þó ekki yfir 0,5% af aðstöðugjaldsstofni gefanda. Með þessari grein er lagt til að þessi heimild verði felld niður.

Um 3. gr.


    Skattyfirvöld hafa fylgt ákvæðum laga nr. 75/1981, er varða fyrningar, þannig að ekki væri einungis heimilt heldur einnig skylt samkvæmt þeim að fyrna fyrnanlegar eignir og draga frá sem rekstrarkostnað. Í samræmi við þennan skilning hefur framkvæmdin síðan alla tíð miðast. Í kjölfar óvissu sem upp hefur komið í þessu efni nýlega þykir rétt að nýta það tækifæri sem hér gefst og eyða öllum vafa í þessu sambandi. Er því með a-lið greinarinnar lagt til að orðalag 1. málsl. 1. mgr. 38. gr. verði ótvírætt að því er þetta varðar, þ.e. að skylt sé að fyrna fyrnanlegar eignir og þá með þeim fyrningarhlutföllum sem um getur í 38. gr. laganna og draga fyrninguna frá sem rekstrarkostnað. Í hinum stafliðunum eru lagðar til breytingar á almennum fyrningarhlutföllum laganna. Hlutföll þessi þykja fullhá þegar tillit er tekið til stöðugs endurmats á fyrningarstofnum svo og raunverulegs endingartíma fyrnanlegra eigna. Þannig er lagt til í b-lið að fyrningar skipa, skipsbúnaðar, tiltekinna fólksbifreiða, loftfara og fylgihluta þeirra lækki úr 10% í 8%. Samkvæmt c-lið er lagt til að fyrningar verksmiðjuvéla og hvers konar iðnaðarvéla og tækja lækki úr 15% í 12%. Þá er loks lagt til í d-lið að fyrningar véla, tækja til jarðvinnslu og mannvirkjagerðar, bifreiða og annarra flutningatækja o. fl. lækki úr 20% í 15%.

Um 4. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 38. gr. laganna er heimilt samkvæmt 40. gr. að færa kostnaðarverð lausafjár, sem hefur skemmri endingartíma en þrjú ár, að fullu til gjalda á því ári þegar eignanna er aflað og þær teknar í notkun. Samkvæmt þessari grein verður þetta ekki lengur heimilt.

Um 5. gr.


    Samkvæmt 41. gr. laganna er heimilt, þegar kostnarðarverð eigna eða eignarsamstæðna er undir tilteknu lágmarki (108.206 kr. gjaldárið 1988) að færa það til gjalda að fullu á því ári þegar þeirra er aflað þótt endingatími sé lengri en þrjú ár. Með þessi grein er lagt til að þessi heimild verði afnumin.

Um 6. gr.


    Fólksbifreið, sem notuð er bæði til einkaafnota og við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi manns, er eigi heimilt að fyrna svipað og almennt er gert varðandi eignir í atvinnurekstri. Skattyfirvöld líta svo á að slík bifreið sé ekki atvinnurekstrartæki og beri því að færa hana til eignar á persónuframtal manns (ekki á efnahagsreikning). Sama er að segja um skuldir sem tengjast slíkri bifreið; þær eiga að færast á persónuframtal manns. Um meðferð söluhagnaðar þegar bifreið er seld fer eftir ákvæðum 2. mgr. 15. gr. skattalaganna.
    Þegar um er að ræða fólksbifreið í eigu lögaðila, sem notuð er bæði til einkaafnota starfsmanns sem hefur bifreiðina til fullra afnota og við atvinnurekstur lögaðilans, er ekki um að ræða neinar sérstakar takmarkanir á frádrætti lögaðilans vegna rekstrar fólksbifreiðarinnar. Það er litið svo á að um sé að ræða atvinnurekstrartæki sem endurmetið er og fyrnt í hendi lögaðila og allur rekstrarkostnaður vegna bifreiðarinnar fæst dreginn frá skattskyldum tekjum hans. Endurgjaldslaus afnot launþega á bifreið vinnuveitanda eru metin honum til tekna sem skattskyld hlunnindi.
    Í gildandi framkvæmd felst ákveðin mismunun eftir rekstrarformi. Með þessari grein er stefnt að því að leiðrétta þetta og stuðla að því að bifreiðahlunnindi séu talin fram. Samkvæmt henni verður ekki heimilt að telja til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. eða til frádráttar skattskyldum tekjum á einn eða annan hátt kostnað við rekstur fólksbifreiða sem látnar eru framkvæmdarstjórum eða öðrum sambærilegum starfsmönnum atvinnurekstrar til afnota í eigin þágu, nema að því marki sem hlunnindi af notkun viðkomandi bifreiðar er talin til tekna, samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra, hjá þeim aðila sem heimilt er að hafa hana til umráða í eigin þágu.

Um 7. gr.


    Það hefur tíðkast nokkuð að hlutafélög veiti eigendum sínum eða stjórnendum veruleg peningalán, oftar en hitt á vildarkjörum, vaxtalaust og óverðtryggt. Þegar áhrif verðbreytinga á eignir og skuldir félags eru metin myndar þessi neikvæða ávöxtun á peningaeign fyrirtækja stofn til gjaldfærslu. Telja verður óeðlilegt að félög geti lækkað skattskyldar tekjur sínar með lánafyrirgreiðslu af þessu tagi. Því er lagt til í þessari grein að lán hlutafélaga til hluthafa, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga teljist ekki sem eignir við útreikning á verðbreytingarfærslu samkvæmt þessari grein
laganna.

Um 8. gr.


    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 2/1988, sem fjalla um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, var hámarkstillag í fjárfestingarsjóð lækkað úr 40% í 30%. Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 2/1988 var getið að um væri að ræða fyrsta skrefið á þeirri braut að fella heimild þessa til frestunar á skattgreiðslum niður að fullu. Í samræmi við þetta markmið er í þessari grein lagt til að hámarkstillagið í fjárfestingarsjóð lækki úr 30% í 15% af skattstofni.

Um 9. gr.


    Við sameiningu eða samruna félaga, hvort sem um er að ræða hlutafélög, samvinnufélög eða sameignarfélög, hafa allar skattaréttarlegar skyldur og réttindi þess félags sem slitið var flust til þess félags sem við tekur, sbr. 56. og 57. gr. laganna. Nokkur brögð hafa verið að því að félög, sem í raun hafa hætt allri starfsemi, séu keypt af fyrirtækjum, sem eru í fullum rekstri, vegna þess að eftir stendur í reikningum þeirra ójafnað tap frá því að þau voru í rekstri. Félög þessi kunna hins vegar að öðru leyti að vera skuldlaus og eignalaus. Kaupandi nýtir sér þetta ójafnaða tap til lækkunar á skattskyldum tekjum því að hann yfirtekur allar skattaréttarlegar skyldur og réttindi félagsins sem selt var. Þá eru einnig dæmi um samruna félaga í alls óskyldum atvinnugreinum í þessu skyni.
    Þar sem telja verður að kaup af því tagi sem að framan er lýst hafi í raun engan tilgang annan en þann að komast hjá greiðslu tekjuskatts er í þessari grein lagt til að eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum hjá því félagi sem slitið var flytjist ekki til þess félags sem við tekur, nema það hafi með höndum sams konar rekstur eða starfsemi og félagið stundaði sem slitið var. Einnig felst í greininni að eftirstöðvar rekstrartapa þess félags sem slitið var flytjast ekki til þess félags sem við tekur hafi það félag sem slitið var hætt starfsemi sinni fyrir slitin og átt óverulegar eignir.

Um 10. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækkar tekjuskattshlutfall einstaklinga úr 28,5% í 31,5%. Um áhrif þessa vísast til þess sem rakið er í almennum athugasemdum svo og til dæma í fylgiskjölum sem frumvarpinu fylgja.

Um 11. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er stefnt að því að skattbyrði lægri tekna haldist óbreytt þrátt fyrir hærra skatthlutfall með því að hækka persónuafslátt, barnabætur og barnabótaauka. Við það er miðað að skattar einstaklinga með allt að 60.000 kr. mánaðartekjur lækki eða haldist óbreyttar. Samkvæmt a-lið þessarar greina er persónuafsláttur hækkaður úr 158.820 kr. í xxxxx kr. Miðað er við verðlag í desember 1988.
    Með lögum nr. 28/1988 var ákveðið að að árinu 1988 gengi ónýttur persónuafsláttur til greiðslu eignarskatts að tilteknu hámarki. Með þessu var verið að tryggja fulla nýtingu á persónuafslætti þeirra ellilífeyrisþega sem voru undir skattleysismörkum en hefðu engu að síður fengið álagðan eignarskatt á árinu 1988 ef ekkert hefði verið að gert. Eðlilegt þykir að regla þessi gildi áfram. Með vísun til þess sem að framan er rakið var ákveðið að leggja til að heimilt verði að nýta persónuafslátt til greiðslu eignarskatts. Með b-lið þessarar greinar er gerð tillaga um þetta.

Um 12. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækkar sjómannaafsláttur úr 365 kr. í 455 kr. sem er hlutfallslega sama hækkun og á persónuafslætti.

Um 13. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækka barnabætur í samræmi við hækkun á persónuafslætti. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda og athugasemda við 10. gr.

Um 14. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækkar barnabótaauki í samræmi við hækkun á persónuafslætti. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda og athugasemda við 10. gr.

Um 15. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækka húsnæðisbætur í samræmi við hækkun á persónuafslætti. Miðað er við verðlag í desember 1988.

Um 16. gr.


    Með þessari grein er lagt til að sú breyting verði gerð á ákvæðum laganna um útreikning tekjuskatts þeirra sem eru heimilisfastir á Íslandi hluta úr ári, að dvalartími, sem er útreikningsgrundvöllur gjalda, verði miðaður við
dagafjölda í stað almanaksmánaða eins og nú er gert. Er þar átt við þá daga sem menn raunverulega dvelja hér á landi á viðkomandi almanaksári.
    Breyting þessi horfir til einföldunar á útreikningi gjalda og endanlegrar álagningar og miðast einnig við að gera ákvæðin þannig úr garði að þau verði í sama eða svipuðu formi og ákvæðin um innheimtu í staðgreiðslukerfinu.
    Í staðgreiðslunni er fjárhæð persónuafsláttar miðuð við þann dagafjölda sem launamaður starfar í þjónustu hvers launagreiðanda. Núgildandi álagningarreglur 70. gr. laganna miða álagningarárin við almanaksmánuði. Telst brot úr mánuði heill mánuður. Álagning gjalda miðast því við forsendur sem eru verulega frábrugðnar þeim reglum sem í staðgreiðslu gilda. Hefur þessi mismunur skapað verulegt misræmi milli staðgreiðslu og endanlegrar álagningar og jafnframt ósamræmi innbyrðis hjá gjaldendum sem í reynd dvöldu og störfuðu jafnlengi hér á landi ef þannig stóð á komu- og brottfarartíma.
    Einföldun eins og lagt er til með þessari grein eyðir einnig óvissu útlendinga og launagreiðenda þeirra um endanlega útkomu og skapar einföldunin skattstjórum svigrúm til að sinna þessum málaflokki betur en verið hefur.

Um 17. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækkar skatthlutfall lögaðila úr 48% í 50%. Eins og fram hefur komið er í þessu frumvarpi gerð tillaga um að hækka tekjuskatt hjá einstaklingum. Þykir eðlilegt að skatthlutfall fyrirtækja hækki í takt við hækkun á tekjuskatti einstaklinga til þess að raska ekki gildandi hlutföllum í skattlagningu milli einstakra rekstrarforma. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 18. gr.


    Með þessari grein eru hámarksfjárhæðir eignarskattsfrjálsrar hlutabréfaeignar og stofnsjóðsinnistæðna hækkaðar í samræmi við verðlag. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 1. gr.

Um 19. gr.


    Samkvæmt þessari grein er eignarskattshlutfall hjá einstaklingum hækkað úr 0,95% í 1,2%. Þá er jafnframt tekið upp nýtt skattþrep sem er 1,5% af skuldlausri eign yfir 6 millj. kr. hjá einstaklingi og 12 millj. kr. hjá hjónum. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 20. gr.


    Samkvæmt þessari grein er eignarskattshlutfall lögaðila hækkað úr 0,95% í 1,2%. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 21. og 22. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum felast í frumvarpi þessu umfangsmiklar breytingar á álagningu tekjuskatts einstaklinga, persónuafslætti og barnabótum. Til þess að koma í veg fyrir að hækkun skatthlutfallsins leiði til hærri skattgreiðslna hjá einstaklingum með miðlungstekjur eða lægri er nauðsynlegt að hækka persónuafsláttinn verulega. Jafnframt eru barnabætur hækkaðar sérstaklega til þess að koma til móts við barnafjölskyldur.
    Samkvæmt 20. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þær fjárhæðir, sem eru ákveðnar árlega í samræmi við 21. gr. frumvarpsins, hækki sem næst í takt við almennar launabreytingar á miðju staðgreiðsluárinu, þannig að skattbyrðin taki ekki miklum breytingum yfir árið.
    Samkvæmt 21. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um að tengja fjárhæð persónuafsláttar, sjómannaafsláttar, húsnæðisbóta, barnabóta og barnabótaauka við sérstaka skattvísitölu með sama hætti og aðrar fjárhæðir í lögunum. Skattvísitalan er ákveðin í fjárlögum ár hvert. Þetta þýðir að fjárhæð þessara afslátta og bótafjárhæða verði ákveðin í tengslum við fjárlagaafgreiðslu hverju sinni.

Um 23. gr.


    Þar sem að ekki er gert ráð fyrir því að skattvísitala verði ákveðin í fjárlögum fyrir árið 1989 er nauðsynlegt að færa upp í samræmi við verðlagsþróun þær fjárhæðir laganna sem breytast eiga í samræmi við skattvísitölu samkvæmt 122. gr. laganna. Allar fjárhæðir í þessu frumvarpi eru á verðlagi í desember 1988. Í samræmi við þetta felst í þessari grein að hámarksfjárhæðir í ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 92/1987 er varða vaxtaafslátt hækka í samræmi við verðlagsþróun.

Um 24. gr.


    Í þessari grein, sem fjallar um gildistöku einstakra ákvæða frumvarpsins, er kveðið á um hvaða ákvæði koma til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1989, hver við álagningu 1989 og hver við álagningu 1990.
    Samkvæmt greininni koma allar breytingar á fjárhæðum persónuafsláttar, sjómannaafsláttar, barnabóta og húsnæðisbóta til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1989. Hækkun á skattprósentu einstaklinga kemur með
sama hætti til framkvæmda í staðgreiðslu á árinu 1989 og gildir við álagningu 1990 vegna tekna ársins 1989.
    Öll ákvæði frumvarpsins sem varða álagningu eignarskatts vegna eigna í lok ársins 1988 koma til framkvæmda við álagningu á árinu 1989. Þá koma einnig til framkvæmda breytingar á fjárhæðum er varða barnabótaauka. Mörg ákvæði er varða skattlagningu fyrirtækja koma til framkvæmda við álagningu 1989, t.d. ákvæði sem varða skattprósentu, almennu fyrningarhlutföllin, þrengingu á heimildum til fyrninga og frádráttarheimildir vegna hlunninda.
    Ákvæði sem gilda frá 1. janúar 1989 koma til framkvæmda við álagningu 1990 eru m.a. skattprósenta einstaklinga og niðurfelling á heimild fyrirtækja til draga frá tekjum af atvinnurekstri gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknastarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í 2. gr. laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, er kveðið á um það að skattskylt mark til sérstaks eignarskatts skuli breytast samkvæmt skattvísitölu samkvæmt 122. gr. laga nr. 75/1981. Þar eð ekki er gert ráð fyrir því að skattvísitala verði ákveðin í fjárlögum fyrir árið 1989 er nauðsynlegt að færa upp í samræmi við verðlagsþróun þær fjárhæðir laganna sem breytast eiga í samræmi við skattvísitölu. Allar fjárhæðir í þessu frumvarpi eru á verðlagi í desember 1988. Í samræmi við þetta felst í þessari grein að skattskylt mark til sérstaks eignarskatts hækkar í samræmi við verðlagsþróun. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 1. gr. og 23. gr.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneytið
Hagdeild:


Nokkur dæmi um áhrif breytinga á tekjuskatti, persónuafslætti


og barnabótum á skattgreiðslur.


(11. des. 1988.)



     Hvað er þetta?: að undanförnu farið fram athugun á því hvernig unnt væri að taka upp sérstakt skattþrep á háar tekjur. Er það mat allra sem hafa skoðað þetta mál að ýmsir annmarkar séu á því að koma þessu við í núgildandi staðgreiðslukerfi, að minnsta kosti með svo stuttum fyrirvara. Á hinn bóginn er í sjálfu sér unnt að koma þessu við í álagningu eftir á, þ.e. á árinu 1990. Af þessum sökum hefur verið ákveðið að undirbúa þetta mál betur og er gert ráð fyrir því að fyrir þingslit næsta vor verði lagt fram frumvarp um sérstakt hátekjuþrep. Að því er varðar skattlagningu raunvaxta o.fl. hefur komið í ljós að þessi þáttur þarfnast frekari athugunar við og verður því ekki lagt fram frumvarp um hann fyrr en eftir áramót. Hins vegar er í frumvarpi þessu lögð til breyting varðandi nýtingu á óráðstöfuðum persónuafslætti á þann veg að heimilt verði að nýta hann til greiðslu eignarskatts.