Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 189 . mál.


Nd.

335. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Með frumvarpi þessu er lögð til gífurleg þynging tekjuskatts einstaklinga, tekjuskatts fyrirtækja og eignarskatta einstaklinga. Af hálfu fjármálaráðherra hefur með ýmsum hætti verið látið í veðri vaka að skattahækkanir þessar séu minni en frumvarpið gerir í raun ráð fyrir og eru slíkar blekkingartilraunir vítaverðar.
    Skal nú fjallað um hverja skatttegund frumvarpsins fyrir sig.

1. Tekjuskattur einstaklinga.
    Með frumvarpinu er lögð til veruleg hækkun skattbyrði allra hópa gjaldenda frá því sem núverandi lög gera ráð fyrir. Fyrir nefndina hafa verið lagðir skýrir útreikningar sem sanna þetta.
    Verður að teljast sérstaklega ámælisvert að fjármálaráðherra skuli í greinargerð með frumvarpi, í framsöguræðu og í fjölmiðlum hvergi minnast á hvernig tekjuskattar einstaklinga hefðu orðið á næsta ári samkvæmt gildandi lögum heldur einungis bera saman skattbyrði ársins 1988 og áætlaða skattbyrði frumvarpsins.
    Í gildandi tekjuskattslögum eru ákvæði sem eru þess valdandi að skattbyrði lækkar með minnkandi tekjum en hækkar með vaxandi tekjum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breyta þessu með því að afnema viðmiðun persónuafsláttar, húsnæðisbóta, barnabóta og fleiri liða við lánskjaravísitölu en miða þessar stærðir við skattvísitölu ár hvert. Í kynningu á frumvarpinu, í greinargerð, framsöguræðu og annars staðar er þess hvergi getið að þessi breyting sé látin koma fram í samanburði á sköttum fyrir og eftir samþykkt þessa frumvarps.
    Hér er um að ræða slíka fölsun að undirritaðir nefndarmenn þekkja ekki dæmi slíks. Forsendum núverandi kerfis er breytt í grundvallaratriðum áður en
það er borið saman við afleiðingar frumvarpsins og án þess að það sé útskýrt. Gengið hefur verið úr skugga um að hér er ekki um mistök að ræða í framsetningu heldur vísvitandi fölsun. Slíkt siðleysi í vinnubrögðum og málflutningi er bæði til vitnis um spillt hugarfar í stjórnmálum og ömurlegan málstað í því máli sem um ræðir.
    Skattfrelsismörk einstaklings lækka samkvæmt frumvarpinu frá því sem verið hefði í janúar nk. samkvæmt gildandi lögum úr 50.681 kr. í 47.513 kr. Sú breyting, sem meiri hl. nefndarinnar leggur til um persónuafslátt, hækkar mörkin um 65 kr. á mánuði eða í 47.578 kr.! Slík hækkun er þvílík háðung að hún hefði betur verið látin ógerð.
    Skattþynging annarra hópa en einstaklinga frá gildandi lögum er síst minni. Vísast um það efni til þeirra útreikninga sem hagfræðingar ASÍ, VSÍ og BSRB hafa sameiginlega sent fjárhags- og viðskiptanefnd og birtir eru sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu. Á þeim skal þó hafður sá fyrirvari að í þá vantar barnabótaauka, bæði í tölur um núverandi kerfi og það sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Sú gríðarlega skattahækkun, sem hér er gert ráð fyrir, kemur ekki til nokkurra álita við núverandi aðstæður að dómi minni hl. nefndarinnar.

2. Tekjuskattur fyrirtækja.
    Að því er þennan þátt varðar er sýnt að leitað hefur verið allra hugsanlegra leiða í skattalögum til að þyngja tekjuskatt lögaðila. Er jafnvel gengið svo langt að tínd eru til smáatriði sem á sínum tíma voru sett í lögin til einföldunar og til þess að hreinsa út illframkvæmanleg eldri ákvæði. Er í þetta ráðist í frumvarpinu þótt vitað sé að slíkar breytingar muni mjög torvelda fyrirtækjum og skattyfirvöldum framkvæmd og að auki skila litlum peningum í ríkissjóð. Hér er sérstaklega átt við ákvæði 4. og 5. gr. frumvarpsins um að fella niður heimildir til að færa kostnaðarverð lausafjár með skamman endingartíma til gjalda við kaup sem og eigna undir tilteknu lágmarksverðmæti.
    Í skýringum með frumvarpinu er þess getið að tekjuskattshækkun fyrirtækja sé hin sama og einstaklinga þar sem álagningarhlutfall hækki úr 48% í 50%. Þessi fullyrðing er mjög villandi og beinlínis röng gagnvart þeim fjölda fyrirtækja sem hagnýtt hafa sér heimildir til að leggja í fjárfestingarsjóði. Með frumvarpinu á að takmarka þá heimild við 15% skattskyldra tekna í stað 30% áður. Þannig er í raun verið að hækka skatthlutfall fyrirtækja, sem leggja í slíka sjóði, úr 33,6% í 42,5%.
    Þó tekur steininn úr í blekkingum þegar því er haldið fram í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé í samræmi við stefnu fyrri ríkisstjórna sem stefnt hafi að lækkun heimilda til að leggja í fjárfestingarsjóði og raunar lækkað hlutfallið úr 40% í 30% í fyrra. Margyfirlýst er og öllum ljóst að stefnan var sú að þrengja þessar heimildir í tengslum við lækkun skatthlutfallsins. Nú á hins vegar að hækka hlutfallið samtímis takmörkun þessara heimilda.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir verulega þrengri möguleikum til fyrninga í atvinnurekstri en verið hefur. Er það í samræmi við afstöðu þeirra sem telja að afskriftir séu í eðli sínu óeðlilegar og óþarfar. Engin efnisrök hafa verið færð fyrir þeim tillögum sem er að finna í frumvarpinu og ekkert hefur komið fram um að endingartími eigna, sem afskrifa má samkvæmt skattalögum, hafi lengst að undanförnu. Þvert á móti má halda því fram að endingartími margra tækja í nútímarekstri, eins og t.d. tölva og tölvubúnaðar, hafi styst og þau eigi því að afskrifa á styttri tíma en áður.
    Stjórnarflokkarnir hafa gefist upp við það áform sitt að afnema heimild til þess að draga gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsókna og líknarstarfsemi frá tekjum í atvinnurekstri. Ber að fagna því.
    Í frumvarpinu er ákvæði til þess ætlað að koma í veg fyrir að hlutafélög láni hluthöfum eða stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum fé. Virðast stjórnarflokkarnir telja í lagi að önnur félög, svo sem samvinnufélög, geti lánað sínum forstjórum fjármuni á vildarkjörum. Að dómi undirritaðra er rétta leiðin til að sporna við misnotkun í þessu efni sú að skylda aðila til að reikna markaðsvexti af slíkum lánum og láta eitt yfir öll félagaform ganga. Meiri hl. féllst ekki á að gera breytingar í þá átt.
    Í stuttu máli eru breytingar á skattareglum fyrirtækja í frumvarpinu svo íþyngjandi og órökréttar að undirritaðir hljóta að leggjast gegn þeim í heild sinni.

3. Eignarskattar einstakling a.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir gríðarlegum hækkunum að því er varðar eignarskatta einstaklinga. Svo miklum að jafnvel meiri hl. stjórnarflokkanna í nefndinni blöskraði og flytur nú breytingartillögu um að hækka viðmiðunarmörk í ráðgerðu stóreignaskattþrepi úr 6 í 7 millj. kr.
    Í upphaflegu frumvarpi var enn gerð tilraun til að blekkja þingheim og almenning með því að láta líta svo út sem 2,7% skattþrep væri aðeins 1,5% þrep. Þessar blekkingar voru afhjúpaðar þegar við l. umr. og hefur meiri hl. nú gert tillögu um að texti frumvarpsins segi það sem alltaf stóð til. Þó hefur fjármálaráðherra lagt blátt bann við því að talan 2,7% fái að sjást.
    Einnig var reynt að villa um fyrir fólki með því að upplýsa í greinargerð með frumvarpinu að í stóreignaskattinum lentu aðeins 6 þúsund manns af 182 þúsund framteljendum. Hinn eðlilegi samanburður er hins vegar við tölu eignarskattsgreiðenda, en þeir munu vera rúmlega 48 þúsund og því var áformað að íþyngja 12% þeirra sérstaklega með hinu nýja eignarskattsþrepi. Eitthvað mun fækka í þessum hópi nái breytingartillaga meiri hl. fram að ganga.
    Séu þær hækkanir á eignarskatti, sem hér eru ráðgerðar, og hækkanir á hinum sérstaka skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði teknar saman er ljóst að ríkisstjórnin áformar að ná sér sérstaklega niðri á því fólki sem á eignir í formi verslunar- og skrifstofuhúsnæðis. Útkoman er hins vegar einnig sú að þeim hluta Íslendinga, sem býr í skuldlausum og þokkalega verðmiklum íbúðum, er freklega refsað fyrir þá sjálfsbjargarviðleitni sína.
    Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir því að einstaklingur í Reykjavík, sem býr í skuldlausri eign að fasteignamati 8 millj. kr., greiði á næsta ári 11.600 kr. á mánuði í eignarskatta til ríkis og borgar, en fasteignagjöld til borgarinnar eru 0,421% af fasteignamati.
    Sé miðað við það tekjuskattshlutfall, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, 37,5% að meðtöldu útsvari, jafngildir þetta því að slíkur einstaklingur greiddi sjálfum sér 30.900 kr. í húsaleigu á mánuði og innti síðan af hendi skatt af leigunni. Ávöxtunarkrafan, sem ríkisstjórnin telur eðlilegt að gerð sé til slíks húsnæðis, jafngildir því hvorki meira né minna en 4,6% raunvöxtum.
    Meiri hl. leggur til með breytingartillögum sínum að eignarskattar slíks einstaklings verði rúmlega 10.300 kr. á mánuði í stað 11.600 kr. Samkvæmt gildandi reglum er þessi fjárhæð nú tæplega 7.900 kr. á mánuði og mörgu eldra fólki ofviða.
    Undirritaðir nefndarmenn hafna algerlega þeim hugmyndum sem liggja að baki þessum hækkunum og geta ekki sætt sig við þessa gríðarlegu hækkun á eignarsköttum ofan á allt annað.

4. Niðurstaða.
    Ljóst er af því sem að ofan greinir að það er eindregin skoðun undirritaðra að frumvarpið beri að fella. Við bendum jafnframt á það siðleysi að ætla að láta hluta frumvarpsins koma til framkvæmda vegna tekna á árinu 1988 og hafa þannig afturvirk áhrif. Mjög slæm reynsla er af slíkum ákvæðum og raunar mikill vafi á því að þau standist stjórnarskrá. Nægir í því sambandi að
vitna til dómsmála sem spunnust síðast þegar núverandi stjórnarflokkar sátu saman í ríkisstjórn, en þá eins og nú létu þeir það verða eitt sitt fyrsta verk að leggja á afturvirka skatta.

Alþingi, 21. desember 1988.



Ingi Björn Albertsson,

Geir H. Haarde,


fundaskr.

frsm.







Fylgiskjal I.


Skattanefnd atvinnuveganna:

Ályktun vegna fyrirhugaðra skattahækkana.


(19. des. 1988.)



    Þær hugmyndir um skattahækkanir, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi, munu, ef í framkvæmd komast, leiða af sér aukna erfiðleika í atvinnulífinu og bæta við fyrirsjáanlegt atvinnuleysi. Ekki er óvarlegt að reikna með að allt að 1000 störf séu í hættu eingöngu vegna þessara skattahækkana. Með auknu atvinnuleysi er líka verið að rýra sjálfa skattstofnana og gera kröfur um aukin útgjöld ríkisins. Meiningin er að afgreiða fjárlög með tekjuafgangi en fyrirsjáanlegt er að halli verður áfram á ríkissjóði ef þessi leið verður farin.
    Eina leiðin til þess að ná hallalausum ríkisbúskap og tryggja jafnframt sem kostur er atvinnuna á þessum erfiðleikatímum er að lækka ríkisútgjöldin sjálf og sjá til þess að framleiðslustarfsemin haldist uppi. Með því móti verður undirstaðan undir skattheimtunni eins öflug og unnt er. Nauðsynlegt er að sams konar átak verði gert til hagræðingar og sparnaðar í ríkisrekstrinum og nú er verið að gera í langflestum fyrirtækjum landsins. Það er lykilatriði til þess að erfiðleikar þjóðarbúsins komi réttlátlega niður. Þær
skattahækkanir, sem áformaðar eru, þyngja hins vegar byrðar atvinnulífs og almennings og gera samdráttinn tilfinnanlegri en þörf er á.

Greinargerð.
    Aukin skattlagning magnar þá erfiðleika sem atvinnulíf landsmanna á við að etja um þessar mundir. Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgar og atvinnu þúsunda einstaklinga er teflt í tvísýnu. Með fyrirhuguðum skattahækkunum er enn fremur verið að eyðileggja möguleika fyrirtækjanna til þess að byggja upp varasjóði og mæta áföllum.
    Sú leið, sem fara á í skattamálum atvinnurekstrarins, er hreint afturhvarf til fortíðarinnar og fráhvarf frá þeirri stefnu að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í baráttu þeirra við erlenda keppinauta. Í helstu viðskiptalöndum okkar er þróunin í þá átt að lækka skatta á atvinnulíf og stuðla að uppbyggingu fyrirtækja. Með áformuðum skattahækkunum er farin öndverð leið.
    Hækkanir á tekjuskatti og eignarskatti einstaklinga og fyrirtækja munu hafa víðtæk áhrif á atvinnulífið. Þau áform, sem liggja fyrir um hækkun á tekjuskatti einstaklinga, gera ráð fyrir að skattar tekjulægri hópa hækki hlutfallslega meira en þeirra tekjuhærri. Enn fremur liggur fyrir að hækkun tekjuskatts á einstaklinga mun leiða til aukinna kaupkrafna í komandi kjarasamningum og gera lausn samninga á vinnumarkaði erfiðari.
    Vegna taprekstrar greiðir stór hluti fyrirtækja ekki tekjuskatt en þessi fyrirtæki greiða hins vegar ýmsa aðra skatta sem eru m.a. orsökin að taprekstri þeirra. Sem dæmi um þessa skatta eru aðstöðugjöld, fasteignagjöld, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, launaskattur, stimpilgjöld o.s.frv. Auk þess hafa skattar sem leggjast á vöru og þjónustu, svo sem söluskattur, lántökuskattur, tollar og vörugjöld, áhrif á afkomu fyrirtækjanna.
    Hækkun á tekjuskatti og eignarskatti fyrirtækja veikir afkomu þeirra og hlýtur að kalla á viðbrögð frá stjórnendum. Annaðhvort leitast fyrirtækin við að velta skattlagningunni út í verðlagið eða skera niður í rekstri, þar á meðal launakostnað. Lausleg skoðun á áhrifum hækkunar á tekjuskatti og eignarskatti fyrirtækja, eins og lagt er til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, bendir til þess að verðlag geti hækkað um allt að 1% ef hækkuninni er velt út í verðlag. Ef brugðist er við þessari hækkun tekjuskatts og eignarskatts með niðurskurði á launakostnaði væri algengt að fyrirtæki þyrftu að lækka launakostnað um 3%–4% með minni yfirvinnu eða uppsögnum. Ekki er unnt að sjá fyrir hver viðbrögð fyrirtækja verða en ljóst er að bæði verður þrýstingur á
verðlagshækkanir og atvinna milli 500 og 1000 manns er í tvísýnu vegna þessara fyrirhuguðu skattahækkana.
    Annað veigamikið atriði í áformuðum hækkunum á tekjuskatti og eignarskatti fyrirtækja er lækkun á fyrningarhlutföllum og framlagi í fjárfestingarsjóð. Með slíkum aðgerðum er verið að eyðileggja möguleika fyrirtækja til þess að mynda varasjóði til að mæta áföllum þegar illa árar. Eitt meginmarkmið efnahagsstjórnar á Íslandi hefur hingað til verið að auka aðlögunarhæfni atvinnulífsins að sveiflum. Nú er gengið í þveröfuga átt og ljóst að á samdráttartímum í framtíðinni mun þurfa að skerða lífskjör þjóðarinnar enn meir en blasir við í þeim erfiðleikum sem nú er við að etja. Þykir þó flestum nóg um í þessum efnum núna. Enn fremur liggur fyrir að atvinnulíf á Íslandi þarf að mæta stóraukinni samkeppni erlendis frá á næstu árum og þessar skattahækkanir munu enn frekar draga út samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
    Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar á að draga úr möguleikum fyrirtækja að yfirfæra tap við kaup á öðrum fyrirtækjum. Þetta er sérstaklega varhugavert á núverandi erfiðleikatímum þar sem uppstokkun og endurskipulagning fyrirtækja er nauðsynleg. Ef áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika magnast erfiðleikar þeirra fyrirtækja sem eiga í rekstrarerfiðleikum eða eru að verða gjaldþrota. Gjaldþrotunum sjálfum mun fjölga og fleiri skuldir munu tapast. Ekki síst munu erfiðleikar þeirra fjölmörgu einstaklinga sem eru í ábyrgðum fyrir skuldum fyrirtækja verða tilfinnanlegir. Það lýsir e.t.v. betur en flest annað andanum í skattahækkunum ríkisstjórnarinnar að vilja gera sér erfiðleika gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga að sérstakri féþúfu. Þetta ákvæði mun líka stuðla að enn meira atvinnuleysi vegna þess hve það mun auka á vandræði þeirra sem eru í erfiðleikum.
    Þá eru í tekjuskattsfrumvarpinu ákvæði um að ekki megi lengur gjaldfæra kaup á smáhlutum. Með þessu er verið að stórauka umstang við skattframtöl og skatteftirlit án þess að það hafi neina umtalsverða tekjuaukningu fyrir ríkið í för með sér. Fyrningaskrár verða mun umfangsmeiri og erfitt að henda reiður á því að nákvæmlega sé rétt fært. Furðulegt er að beina skatteftirliti í þann farveg að eltast við smáupphæðir. Enn fremur á að banna gjaldfærslu á hlutum með skemmri endingartíma en þrjú ár. Ljóst er að t.d. tölvur og hugbúnaður úreldist í mörgum tilvikum á skemmri tíma en þremur árum og því óeðlilegt að banna gjaldfærslu á slíkum kaupum.
    Það sýnir e.t.v. betur en annað andann í áformum ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir að fyrirtæki skuli ekki lengur eiga að fá að draga frá tekjum gjafir og styrki til menningarmála, rannsókna og líknarstarfsemi. Það er
vægast sagt einkennilegt hversu umhugað fjármálaráðherra er um að leggja stein í götu starfsemi þeirra fjölmörgu áhugamannafélaga sem starfa að margvíslegum menningar- og framfaramálum.
    Síðan eru ákvæði um afturvirkni margra ákvæða tekjuskattsfrumvarpsins forkastanleg. Margvíslegar ákvarðanir hafa þegar verið teknar um einstök atriði einmitt á grundvelli núverandi skattalaga og það er algjörlega óviðunandi að ríkisvaldið skuli þá koma í bakið á þeim sem búnir eru að gera ráðstafanir á þessum grundvelli.
    Áform um hækkun vörugjalds boða sömuleiðis fráhvarf frá þeirri stefnu sem verið hefur í skattamálum, að hafa skatta sem almennasta og veikja ekki um of samkeppnishæfni atvinnuveganna. Að svo miklu leyti sem hækkun vörugjaldsins er stefnt gegn innflutningi er beinlínis verið að falsa enn frekar gengi krónunnar. Með hækkun almennu vörugjaldsprósentunnar úr 14% í 20% er verið að mismuna enn frekar þeim vörutegundum sem þetta gjald fá á sig. Er þó í mörgum tilfellum um að ræða algengar heimilisvörur sem flokkast undir nauðsynjar á hverju nútímaheimili.
    Sérstöku 25% vörugjaldi á sælgæti og gosdrykki er fyrst og fremst stefnt gegn nokkrum einstökum fyrirtækjum og því fólki sem þar vinnur. Hollustu- og manneldissjónarmiðum hefur verið haldið fram í þessu sambandi en þau rök eru haldlaus. Þessar vörur eru ekki nema lítill hluti af þeirri neyslu sem kallast getur óholl og sum hver nýtur jafnvel sérstakrar velvildar ríkisvaldsins.
    Ekki eru nein efnisleg rök sjáanleg fyrir því að ríkisvaldið fari með þessum hætti að skipta vörum í „góðar“ og „vondar“ vörur. Því ætti það sama að gilda um þessar vörur eins og aðrar og þær ætti ekki að skattleggja sérstaklega.
    Sérstakt 10% vörugjald á byggingarvörur er undrunarefni þegar húsbyggjendur þurfa á víðtækri aðstoð að halda. Það er enn fremur ljóst að þetta gjald mun hafa í för með sér mikinn samdrátt í byggingariðnaði einmitt þegar samdráttur í þessari atvinnugrein er að verða tilfinnanlegur af öðrum ástæðum.
    Hækkun vörugjalds veikir því enn atvinnugrundvöllinn og hætta er á að uppsagnir verði í kjölfar hækkunarinnar í byggingariðnaði, sælgætis- og gosdrykkjaiðnaði og í verslun. Nokkur hundruð störf gætu verið í hættu af þessum ástæðum.
    Þá liggur einnig fyrir að hækkun vörugjaldsins mun hafa í för með sér 0,5% hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar og 3–4% hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar. Lánskjaravísitalan hækkar þá í framhaldinu.
    Nú virðist sýnt að hækkun á skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði nái fram að ganga. Þessi hækkun eykur húsnæðiskostnað atvinnulífsins og sérstaklega húsnæðiskostnað verslana. Þessi skattur mismunar freklega á milli atvinnugreina og hlýtur með einum eða öðrum hætti að koma fram í verði þeirrar vöru eða þjónustu sem hann leggst á. Húsaleiga mun hækka um allt að 20% þegar skoðuð eru saman áhrif af hækkun á þessum skatti ásamt hækkun á tekjuskatti og eignarskatti. Það getur þýtt yfir 0,5% í vöruverði.
    Ríkisstjórnin hyggst enn fremur framlengja svo til óbreytt ákvæði um skatt á erlendar lántökur. Þessi skattur var upphaflega settur á tímabundið í því skyni að fá fyrirtæki til þess að fresta fjárfestingum og lántökum af þeim sökum. Voru gefnar út yfirlýsingar af fyrri ríkisstjórn þess efnis að skatturinn félli niður um næstu áramót. Fjöldi fyrirtækja breytti ákvörðunum sínum í samræmi við þessa yfirlýsingu. En nú er sem oftar komið í bakið á þeim sem leggja traust sitt á yfirlýsingar stjórnvalda. Fer það nánast að verða regla að óhætt sé að ganga út frá því að yfirlýsingar stjórnvalda um skattamál standist ekki.
    Þegar allt er talið eiga nýjar álögur að gefa ríkissjóði tæpar 4.200 millj. kr. í auknar tekjur á næsta ári. Þetta eru tæpar 67.000 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessar skattahækkanir lenda á heimilunum í landinu með einum eða öðrum hætti. Bein áhrif þessarra hækkana þýða 2,4% lækkun á kaupmætti ráðstöfunartekna. En þegar tekið er tillit til atvinnusamdráttar og annarra afleiðinga fyrir atvinnulífið er ljóst að óbein áhrif skattahækkananna geta verið allt að því annað eins.




Fylgiskjal II.


Til fjárhags- og viðskiptanefndar
neðri deildar Alþingis.

16. des. 1988.

Áhrif tekjuskatts- og eignarskattsbreytinganna á nokkrar fjölskyldugerðir.



    Við undirrituð höfum kannað tillögur þær sem ríkisstjórnin hefur lagt fram
á Alþingi um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og höfum komist að eftirfarandi niðurstöðu um áhrif þeirra á nokkrar fjölskyldugerðir.

Ari Skúlason.

Hannes G. Sigurðsson.



Lilja Mósesdóttir.

Björn Arnórsson.






— REPRÓ Í GUT. —