Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 189 . mál.


Nd.

340. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Fyrir ári gengu í gildi róttækar breytingar á skattalögunum sem m.a. voru undirbúnar af milliþinganefnd skipaðri fulltrúum allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins. Frumvarpið, sem hér er til afgreiðslu, felur í sér margvíslegar breytingar á þeim lögum sem þurfa miklu nánari athugunar við en ráðrúm leyfir.
    Í frumvarpinu er m.a. lagt til að hætta að miða framreikning persónuafsláttar og barnabóta við lánskjaravísitölu eins og lögin kveða á um, en taka þess í stað upp skattvísitölu sem breytist árlega. Með því er horfið frá því markmiði að tengja skattbyrði einstaklinganna við verðlagsþróun, en samkvæmt núgildandi lögum minnkar skattbyrðin hlutfallslega ef samdráttur er í launum. Auk þess er í frumvarpinu lögð til hækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga sem þýðir hærri álögur en ella yrði á fólk með meðaltekjur og lægri. Þessar breytingar getur 2. minni hl. ekki sætt sig við og flytur breytingartillögur á þskj. 337 sem fela það í sér að núgildandi lög verði óbreytt hvað varðar framreikning persónuafsláttar og barnabóta og að skatthlutfall verði ekki hækkað.
    Annar minni hl. minnir á að við skattalagabreytingarnar fyrir ári lagði Kvennalistinn til að háar tekjur yrðu skattlagðar sérstaklega, bæði í tekjuskatti og útsvari. Ekki eru gerðar tillögur um það nú, en Kvennalistinn er þó enn sömu skoðunar og mun vinna áfram að því máli.
    Annar minni hl. er einnig þeirrar skoðunar að skattleggja beri eignir umfram hófleg mörk, svo sem ætlunin er skv. 19. gr. frumvarpsins, en telur að sú tillaga sé ekki grundvölluð á nægilega miklum athugunum. Viðmiðunarmörkin voru þó hækkuð í meðförum nefndarinnar og telur 2. minni hl. það til bóta.
    Að tillögunum á þskj. 337 samþykktum mun 2. minni hl. sitja hjá við afgreiðslu málsins í heild, en greiða atkvæði gegn því ella. Ástæða þess er sú að 2. minni hl. er samþykkur í meginatriðum ýmsum þeim breytingum sem lagðar eru til á reglum varðandi skattlagningu fyrirtækja, en telur að þær hafi ekki fengið nægilega umfjöllun frekar en margt annað sem keyrt er gegnum þingið þessa dagana.

Alþingi, 21. des. 1988.


Kristín Halldórsdóttir.