Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 1 . mál.


Nd.

509. Nefndarálit



um frv. til l. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Eins og fram kemur í athugasemdum meiri hl. nefndarinnar þá hélt nefndin þrettán fundi um frumvarpið og kallaði til sín fjölda aðila og fékk margar umsagnir um málið. Það er hins vegar full ástæða til þess að átelja ríkisstjórn fyrir að leggja frumvarpið fram í núverandi búningi þar sem nefnd sú, er samdi frumvarpið, fékk ekki nægan tíma til að ganga frá því með eðlilegum hætti. Þetta hefur aukið vinnu nefndarinnar og það hefur ekki gert starfið auðveldara að höfundar frumvarpsins voru mjög ósammála um mörg atriði þess. Það er skoðun okkar að hyggilegast hefði verið að vísa frumvarpinu aftur til þeirrar nefndar er samdi frumvarpið til ítarlegrar endurvinnslu.
    Viðskiptaráðherra tók upp í frumvarpið ákvæði þess efnis að hann gæti heimilað Seðlabanka Íslands að láta sömu reglur gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum skv. 1.–3. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands. Nefnd sú er samdi frumvarpið var ekki hlynnt slíku ákvæði. Þegar ráðherra fylgdi frumvarpinu úr hlaði lét hann þau orð falla að hann teldi eðlilegt að hafa þessa heimild inni í frumvarpinu og benti á, máli sínu til stuðnings, að í nokkrum aðildarríkjum OECD eru lagaheimildir til að setja bindiskyldu á aðrar fjármálastofnanir en banka og sparisjóði. Ráðherra tók fram í framsöguræðu sinni að hann teldi þetta öryggisákvæði, eins konar stíflugarð til að koma í veg fyrir að verðbréfafyrirtækin feti sig inn á starfsvettvang innlánsstofnana án þess að á þeim hvíli sömu kvaðir hvað varðar bundið fé. Í meðferð nefndarinnar var ákvæðinu um bindiskyldu breytt verulega og virðist nú sem stjórnmálaflokkarnir vilji ekki hafa þessa heimild í hendi viðskiptaráðherra heldur eigi Seðlabankinn fortakslaust að hafa heimildina. Við erum andvígir því að þessi bindiskylda sé tekin upp með þessum hætti. Við álítum að það séu fyrst og fremst innlánsstofnanir sem eigi að vera háðar bindiskyldu og ef setja eigi bindiskyldu á aðrar fjármálastofnanir eigi allir að búa við hliðstæð réttindi og skyldur.
    Við flytjum breytingartillögur á sérstöku þingskjali. Afstaða okkar til breytingartillagna meiri hl. mun koma fram við atkvæðagreiðslu, en við teljum að það hafi verið tekið tillit til fjölmargra réttmætra athugasemda við frumvarpið og að meginhluti þessara breytingartillagna sé til bóta. Aðrar breytingartillögur meiri hl. eru hins vegar þess eðlis að við getum ekki stutt þær.
    Við viljum að síðustu leggja á það áherslu að mikilvægt er að setja löggjöf um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, en við ítrekum jafnframt þá skoðun okkar að of hart hafi verið gengið eftir því við þá nefnd, er samdi frumvarpið, að hún skilaði sem fyrst frá sér áliti með þeim afleiðingum að á frumvarpinu eru fjölmargir hnökrar og einstakir höfundar þess hafa verið að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpið meðan það var í meðferð fjárhags- og viðskiptanefndar.

Alþingi, 17. febr. 1989.



Ingi Björn Albertsson,

Matthías Bjarnason,


fundaskr.

frsm.