Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 239 . mál.


Nd.

554. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vaxtalögum, nr. 25 27. mars l987.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Meginmarkmið þessa frumvarps er að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu í lánsviðskiptum, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu felast auk þess eftirfarandi atriði:
1.     Tekin eru af tvímæli um nokkur óljós atriði í vaxtalögum, nr. 25/1987, sbr. 1., 2., 4. og 5. gr. frumvarpsins.
2.     Lögð er sama tilkynningarskylda um vaxtakjör á verðbréfa- og eignarleigufyrirtæki og nú hvílir á viðskiptabönkum og sparisjóðum, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
3.     Sett er í vaxtalögin ákvæði um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða þar sem öll ábyrgð og stefnumörkun er færð í hendur ráðherra, sbr. 8.–10. gr. frumvarpsins.
    Annar minni hl. er samþykkur meginmarkmiði þessa frumvarps en dregur í efa að ákvæði þess séu fullnægjandi til að tryggja framgang þessa markmiðs. Það er t.d. afar ólíklegt að frumvarpið dragi á nokkurn hátt úr svokölluðum affallaviðskiptum sem stundum eru mjög mikil og virðast algjörlega háð aðstæðum á fjármagnsmarkaðinum.
    Annar minni hl. styður þær greinar, sem nefndar eru í 1. og 2. lið hér að ofan, svo og 6. gr. með þeirri breytingu sem lögð er til í breytingartillögum meiri hl. nefndarinnar. Um 3. liðinn gegnir öðru máli, enda kom í ljós við umfjöllun nefndarinnar að málið var ekki hugsað né undirbúið til hlítar. Með þetta í huga þarf að athuga og vinna betur þessar greinar frumvarpsins. Þá telur 2. minni hl. einnig ámælisvert að ekki hefur verið vandað nægilega til frágangs frumvarpsins eins og sést á því að flestar þær breytingar, sem meiri hl. hefur gert á frumvarpinu, miða að því að lagfæra uppsetningu þess.
    Þó að 2. minni hl. styðji meginefni frumvarpsins þá telur hann að vankantar frumvarpsins séu þess eðlis að því beri að vísa til ríkisstjórnarinnar til nánari athugunar. Verði ekki fallist á þá málsmeðferð mun 2. minni hl. sitja hjá við afgreiðslu um þær greinar frumvarpsins sem hann hefur gert athugasemdir við.

Alþingi, 23. febr. 1989.



Kristín Halldórsdóttir.