Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 342 . mál.


Nd.

619. Frumvarp til lagaum samningsbundna gerðardóma.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)1. gr.

    Lög þessi taka til samningsbundinna gerðardóma.
    Aðilar geta með samningi ákveðið að leggja réttarágreining sín á milli í gerð, ef þeir hafa forræði á sakarefninu. Slíkan samning má gera hvort heldur er um ágreining sem upp er kominn eða síðar kann að koma upp í tilteknum lögskiptum aðila.

2. gr.

    Hafi mál verið höfðað fyrir almennum dómstólum um ágreiningsefni, sem á undir gerðardóm samkvæmt gildum gerðarsamningi, skal ekki vísa því frá dómi nema krafa komi fram um það.

3. gr.

    Gerðarsamningur skal vera skriflegur. Þar skal koma skýrt fram að um gerðarsamning sé að ræða, hverjir séu aðilar samningsins, og úr hvaða réttarágreiningi skuli leyst.
    Gerðarsamningur skuldbindur ekki aðila, ef í verulegum atriðum er vikið frá ákvæðum 1. mgr., ef úrlausnarefni má ekki leggja í gerð, eða ef ákvæði um skipun gerðarmanna, málsmeðferð eða önnur atriði þykja ekki veita fullnægjandi réttarvernd.
    Gerðardómurinn kýs sér formann nema annað sé ákveðið í gerðarsamningi. Sé frestur til að útnefna gerðarmenn ekki tiltekinn í gerðarsamningi skulu aðilar tilnefna þá innan hæfilegs tíma.

4. gr.

    Rísi ágreiningur um skipun í gerðardóminn getur aðili leitað til þess héraðsdómara sem hefði dómsvald um sakarefnið ef gerðarsamningur lægi ekki fyrir og leysir hann úr ágreiningnum með úrskurði.
    Aðili getur með sama hætti snúið sér til héraðsdómara ef gagnaðili fullnægir ekki skyldum sínum samkvæmt gerðarsamningi um skipun gerðarmanns eða ef aðilar ná ekki samkomulagi um skipun gerðarmanns. Getur dómari þá skipað þann eða þá gerðarmenn. Sama gildir ef gerðardómur verður óstarfhæfur sakir þess að gerðarmaður tekur ekki þátt í störfum gerðardóms vegna veikinda eða annarra atvika.
    Sé ákvæði um skipun og fjölda gerðarmanna ekki til að dreifa í gerðarsamningi og ekki næst samkomulag um aðra tilhögun, skal dómari, eftir kröfu aðila, tilnefna þrjá menn í gerðardóm, þar af einn sem skal vera formaður.

5. gr.

    Beiðni skv. 4. gr. skal vera skrifleg og koma fram strax og tilefni er til. Í henni skal m.a. tilgreina aðila málsins, ágreining þann sem gerðarmál snýst um, tildrög þess að leitað er til héraðsdómara og hverra aðgerða er óskað. Gerðarsamningur eða afrit hans skal fylgja beiðni.
    Dómari gerir aðilum viðvart hvenær mál verði tekið fyrir. Sé þess óskað getur gagnaðili fengið stuttan frest til að semja greinargerð, en að því loknu tekur dómari ágreiningsefnið til úrskurðar eftir að aðilar hafa tjáð sig um það munnlega. Dómari er óbundinn af áliti því er liggur til grundvallar úrskurði ef á það reynir í dómsmáli síðar. Úrskurði verður ekki skotið til Hæstaréttar. Þó má kæra til Hæstaréttar úrskurði þar sem synjað er tilnefningu gerðarmanns.

6. gr.

    Gerðarmenn skulu vera nægjanlega líkamlega og andlega hraustir til að fara með gerðarmál. Þeir skulu vera lögráða og hafa forræði fjár síns. Þeir skulu hafa óflekkað mannorð.
    Gerðarmenn skulu fullnægja sérstökum hæfisskilyrðum héraðsdómara til meðferðar einstaks máls.
    Formaður gerðardóms sker úr ágreiningi um hæfisskilyrði gerðarmanna. Þá úrlausn getur aðili borið undir héraðsdómara með þeim hætti og með þeim áhrifum sem um getur í 5. gr. Héraðsdómari kveður upp úrskurð um ágreiningsefnið og verður honum ekki skotið til Hæstaréttar.

7. gr.

    Kröfur aðila fyrir gerðardómi skulu vera skýrar. Gerðarmenn skulu ávallt gefa aðilum kost á að gera kröfur, færa fram sönnunargögn, kynna sér gögn málsins og tjá sig um sakarefnið. Gæta skal jafnræðisreglu.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð fyrir gerðardómi eftir gerðarsamningi. Þar sem slíkar reglur er ekki að finna ákveður gerðardómur sjálfur málsmeðferð og skal hraða gerðarmáli svo sem kostur er.
    Gerðarmenn skulu allir taka þátt í störfum dómsins. Formaður gerðardóms getur þó einn tekið við skjölum og sinnt öðrum minni háttar framkvæmdaratriðum. Í gerðarsamningi má einnig fela formanni gerðardóms einum að taka ákvarðanir um atriði sem varða rekstur gerðarmáls.
    Afl atkvæða í gerðardómi ræður úrslitum.

8. gr.

    Gerðardómur skal vera skriflegur, skýr, rökstuddur í meginatriðum og undirritaður af þeim gerðarmönnum sem að dómi standa. Sátt fyrir gerðardómi skal vera skrifleg og undirrituð af aðilum og gerðarmönnum.

9. gr.

    Verði verulegur dráttur á meðferð gerðarmáls, sem aðili telur að rekja megi til vanrækslu gerðarmanna á starfsskyldum sínum, getur hann snúið sér til héraðsdómara með þeim hætti sem segir í 4. og 5. gr. með kröfu á hendur gagnaðila og gerðarmönnum um að gerðarmenn, einn eða fleiri, verði leystir frá störfum og aðrir skipaðir í þeirra stað.
    Héraðsdómari tekur ákvörðun um þetta með úrskurði sem kæra má til Hæstaréttar.

10. gr.

    Gerðarmenn eiga rétt á endurgjaldi fyrir verk sitt, svo og ferðakostnaði eftir reikningi. Verði ágreiningur getur aðili borið hann undir héraðsdómara með þeim hætti sem 5. gr. áskilur. Héraðsdómari leysir úr ágreiningsefninu með úrskurði sem kæra má til Hæstaréttar.

11. gr.

    Gerðardómur kveður á um greiðslu málskostnaðar milli aðila eftir kröfu þeirra, þar á meðal kostnaðar sem leiðir af starfsemi gerðardómsins. Frá þessu má víkja með ákvæði í gerðarsamningi.

12. gr.

    Gerðardóm má ógilda að nokkru leyti eða öllu með málsókn í héraði:
1. ef gerðarsamningur var ógildur,
2. ef gerðarmenn voru vanhæfir,
3. ef málsmeðferð var áfátt í verulegum atriðum,
4. ef gerðarmenn hafa farið út fyrir valdsvið sitt,
5. ef gerðardómur er ekki í lögmætu formi,
6. ef gerðardómur er bersýnilega reistur á ólögmætum sjónarmiðum eða
fer í bága við allsherjarreglu.
    Hafi mál verið höfðað skv. 1. mgr., en mótmæli ekki áður komið fram um þau atriði sem málsókn er reist á, verður gerðardómur ekki ógiltur nema mótmælin skipti ekki máli eða afsakanlegt var að slík mótmæli kæmu ekki fram. Sátt fyrir gerðardómi má ógilda með sama hætti og réttarsátt með málsókn í héraði.

13. gr.

    Sé annað ekki ákveðið í gerðarsamningi skal gerðardómur eða sátt, sem gerð er fyrir honum, vera aðfararhæf. Um skilyrði aðfarar, aðfararfrest og framkvæmd aðfarar, fer eftir reglum aðfararlaga.
    Ef aðili byggir rétt fyrir dómi á gerðardómi eða sátt, sem gerð er fyrir gerðardómi, getur gagnaðili vefengt gildi hans vegna þeirra atriða sem greind eru í 12. gr. og sker dómurinn þá úr.

14. gr.

    Gerðardómar, sem kveðnir eru upp í samræmi við þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að, skulu öðlast viðurkenningu og aðfararhæfi hér á landi eftir því sem efni þeirra stendur til.
    Aðrir alþjóðlegir gerðardómar skulu öðlast viðurkenningu og aðfararhæfi ef þeir fullnægja fyrirmælum íslenskra laga um gerðardóma.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

16. gr.

    Við gildistöku þessara laga fellur úr gildi 1. gr. l. bókar 6. kap. norsku laga Kristjáns V., 15. apríl 1687.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins af þeim Stefáni Má Stefánssyni prófessor og Valtý Sigurðssyni borgarfógeta. Við samningu frumvarpsins var haft náið samráð við réttarfarsnefnd sem starfar á vegum ráðuneytisins.
    Með gerðarmeðferð er átt við að aðilar ákveði með samningi sín á milli að útkljá fyrir gerðardómi ákveðinn réttarágreining sem risið hefur i tilteknum lögskiptum þeirra eða kann að rísa síðar. Slíkur samningur leiðir til þess að aðilar undanþiggja sig um leið dómsvaldi lögskipaðra dómstóla ríkisins um sakarefnið. Slík gerðarmeðferð hefur tíðkast lengi í einhverri mynd bæði hér á landi og erlendis enda talin geta haft ýmsa kosti fram yfir hina lögskipuðu dómstólaleið.
    Kostir þess að leggja sakarefni í gerð hafa m.a. verið taldir hraðari málsmeðferð, minni líkur á að deilur aðila komist í hámæli og að aðilar geti að miklu leyti ráðið hverjir séu gerðarmenn. Þá færist það mjög í vöxt, vegna alþjóðlegra viðskipta og fjölþjóðaverkefna, að gerðarmeðferð sé viðhöfð um ágreiningsefni þar sem samningsaðilar í alþjóðlegum viðskiptum telja þá leið í mörgum tilvikum greiðfærari og álitlegri en að leita til dómstóla í viðkomandi ríki. Einstök ríki og alþjóðlegar stofnanir hafa á þessari öld unnið að því styrkja stöðu alþjóðlegra gerðardóma til lausnar alþjóðlegum deilum í verslunarviðskiptum. Er nú talið að 80% af öllum samningum í alþjóðlegum viðskiptum geri ráð fyrir gerðarmeðferð.
    Á hinn bóginn fylgja gerðarmeðferð nokkrir ókostir. Ber þá helst að nefna að gerðarmeðferð er almennt ekki talin veita mönnum sömu réttarvernd og hin almenna dómstólaleið. Því er hugsanlegt að aðili kynni fremur að glata rétti sínum ef hann semur um gerðarmeðferð heldur en ef hann hefði látið reyna á mál sitt fyrir hefðbundnum dómstólum. Til þess að draga úr þessum neikvæðu áhrifum gerðarmeðferðar hefur samningsfrelsið um gerðardóma, m.a. um skipun gerðardóms og málsmeðferð, verið skert nokkuð, bæði til þess að gæta hagsmuna einstaklinga og hins opinbera. Þannig gætir réttarfarssjónarmiða í vaxandi mæli um meðferð gerðardóma bæði hérlendis og erlendis. Þetta kemur m.a. fram í reglum alþjóðlegra gerðardómsstofnana og í þjóðréttarsamningum um gerðardóma. Dómar Hæstaréttar hafa einnig gengið í svipaða átt.
    Nágrannaríki okkar hafa farið þá leið að setja lög um gerðardóma þar sem m.a. eru gerðar ákveðnar lágmarkskröfur um meðferð samningsbundinna gerðarmála og sönnun þess acð aðilar hafi viljað afsala sér rétti til að bera mál sín undir dómstóla. Norðurlöndin, að Íslandi undanskildu, hafa valið þessa leið. Hér á landi hefur gerðarmeðferð til lausnar deilumálum engu að síður verið beitt nokkuð. Það sem helst stendur gerðarmeðferð fyrir þrifum hér á landi er að sett lög skortir að mestu um gerðardóma. Veldur það að sjálfsögðu ýmiss konar óvissu við rekstur gerðarmáls. Reynslan hefur m.a. sýnt að gerðarmenn hafa átt í erfiðleikum með að leysa úr deilum um réttarfarsatriði er upp hafa komið undir rekstri máls. Auk þess hefur það þótt valda bæði erfiðleikum og töfum að gerðardómar eru ekki aðfararhæfir. Með frumvarpinu er ætlað að bæta úr þessu. Leitast er við að halda samningsfrelsi einstaklinga um gerðarmeðferð í þeim mæli sem unnt er án þess að réttaröryggi sé skert að marki.
    Í frumvarpi þessu er m.a. stuðst við norsk, dönsk og sænsk gerðardómslög svo og hliðsjón höfð af svonefndum UNCITRAL lögum um alþjóðlega gerðardóma á sviði viðskipta sem samþykkt voru af nefnd Sameinuðu þjóðanna um alþjóðleg viðskiptalög (United Nations Commission on International Trade Law). Rétt þykir til glöggvunar að geta helstu alþjóðasamninga um gerðardóma svo og helstu alþjóðlegra gerðardómsstofnana.

1. Genfarsamningur frá 1923.
    Samningsaðilar skuldbundu sig til að viðurkenna gerðarsamninga milli aðila sem voru með búsetu í ólíkum samningsríkjum jafnvel þótt gerðardómur starfaði í þriðja ríki. Aðilar geta ráðið gerðarmeðferðinni, en meðferðin fer að auki eftir lögum þess staðar sem gerðardómur starfar í. Ríkin skuldbinda sig til að fullnægja gerðardómum sem kveðnir eru upp í þeirra eigin ríki í samræmi við þær reglur sem í ríkjunum giltu. Þessi samningur var staðfestur af Norðurlöndunum að Íslandi undanskildu.

2. Genfarsamningur frá 1927.
    Þessi samningur mælir í stuttu máli fyrir um að gerðardómar sem kveðnir eru upp í samræmi við ákvæði Genfarsamningsins frá 1923 skuli viðurkenndir og þeim veitt aðfararhæfi að fullnægðum tilteknum skilyrðum sem gerð er nánari grein fyrir í samningnum. Þessi samningur var staðfestur af Norðurlöndunum að Noregi og Íslandi undanskildum.

3. New York samningur frá 1958.

    Þessi samningur er gerður fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna og kemur í stað Genfarsamninganna frá 1923 og 1927. Genfarsamningarnir hafa því aðeins þýðingu fyrir þau ríki sem ekki eru aðilar að New York samningnum frá 1958. Yfir 70 ríki hafa þegar staðfest New York samninginn. Í samningnum felst m.a. að dómstóll eins ríkis verður að vísa máli frá eftir kröfu, ef gerðarsamningur liggur fyrir um sakarefni. Jafnframt eru formreglur um aðfararhæfi gerðardómanna gerðar léttari og einfaldari en var samkvæmt Genfarsamningnum frá 1927 þannig að fullnusta gerðardóma ætti að vera léttari í aðildarríkjunum en áður var.

4. Washington samningur frá 1965.
    Þessi samningur gildir einkum um félög og aðra þá sem hyggjast ráðast í fjárfestingar í öðru ríki og gera saminga um það við viðkomandi ríki. Var af því tilefni sett á laggirnar alþjóðleg gerðardómsstofnun (The International Center for Settlement of Investment Disputes (ICSID) í Washington, DC). Stofnunin tekur ekki mál til meðferðar nema báðir málsaðilar óski þess skriflega. Hún reynir að ná sáttum og auk þess kveður hún upp gerðardóma. Þá ber að viðurkenna í aðildarríkjunum og eru þeir að jafnaði aðfararhæfir þar.

5. Genfarsamningur frá 1961.
    Þessi samningur er gerður á vegum efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (ECE) og tekur sérstaklega til viðskipta milli ríkja Austur- og Vestur-Evrópu. Hér er að finna reglur um skipan gerðardóms, gerðardómsstaðinn og réttarfarsreglur. Þarna eru ekki að finna reglur um viðurkenningu og fullnustu enda er talið að NewYork reglurnar frá 1958 séu fullnægjandi í því efni. Um 20 ríki hafa samþykkt þennan samning þar á meðal Danmörk. en hins vegar ekki önnur Norðurlönd.

6. UNCITRAL gerðardómsreglur.
    Þessar reglur voru samdar af nefnd Sameinuðu þjóðanna um alþjóðleg viðskiptalög (United Nation Commission on International Trade Law). Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mælti með þeim árið 1976. Reglurnar hafa að geyma ákvæði um gerðardómsstað. skipan gerðardóma, hæfi gerðarmanna, réttarfarsreglur, um form gerðardóms og málskostnað. Aðilum er frjálst að semja um að gerðardómsmál skuli fara eftir þessum reglum. Þessar reglur hafa náð talsverðri útbreiðslu og hafa mun meiri þýðingu en Genfarsamningurinn frá 1961. Reglurnar eru notaðar bæði þegar samið er um:gerðardóm í eitt tiltekið skipti og einng í sambandi við meðferð gerðarmála fyrir gerðardómsstofnunum. Alþjóðagerðardómsstofnanir, eins og t.d. ICC, tilnefna gerðarmenn samkvæmt þessum reglum ef því er að skipta.

Samræming laga um gerðardóma.
    Sá staður sem gerðardómur starfar í skiptir oft máli í ýmsu réttarlegu tilliti. Óvissa um hvar gerðardómur skuli starfa skapar því óöryggi í alþjóðlegum viðskiptum. Ástæðan er sú að annan aðila skortir oft yfirsýn um þau réttaráhrif sem tengd eru gerðardómsstaðnum. t.d. um það hvaða lögum skuli beitt um form og efni máls. Af þessum sökum m.a. hefur verið unnið að samræmingu laga um gerðardóma í einstökum löndum. Tvennt skiptir mestu máli í þessu sambandi. Í fyrsta lagi ber að nefna Evrópuráðssamþykkt frá 1966 um samræmda löggjöf um gerðardóma. Þessi samþykkt hefur þó aðeins verið undirrituð af fáum ríkjum enn sem komið er. Í öðru lagi má nefna fyrrnefnd UNCITRAL lög frá 1985 sem eiga að vera fyrirmynd við lagasetningu í einstökum löndum varðandi alþjóðlega gerðardóma í verslunarviðskiptum. Þessar reglur hafa vakið talsverða athygli og hafa Kanada og Holland þegar lögtekið reglur um gerðardóma sem eru að verulegu leyti byggðar á þeim lögum.

Alþjóðlegar gerðardómsstofnanir.


1. Gerðardómur alþjóðlega verslunarráðsins (ICC).
    Hann var stofnaður árið 1923. Gerðardómsstofnun þessi byggist á félagasamtökum sem ekki eru takmörkuð við ákveðin lönd og hafa það að markmiði að efla alþjóðleg viðskipti á ýmsum nánar tilteknum sviðum. Aðalstöðvarnar eru í París en deildir eru í einstökum löndum.
    Gerðardómsstofnunin dæmir ekki sjálf mál en hefur íhlutunarvald við skipun gerðarmanna í einstök gerðarmál og hefur eftirlit með málsmeðferðinni. Þegar gerðarmál er til meðferðar hjá gerðardómsstofnuninni ber að gera skýrslu þar sem sakarefni er lýst, kröfum aðila og þeim deiluatriðum sem gerðardómur á að skera úr um áður en gerðarmál er dæmt. Skal skýrsla undirrituð af aðilum og gerðarmönnum. Síðan ber að senda hana gerðardómsstofnuninni.

2. Stockholms Handelskammares Skiljedomsinstitut.
    Stofnað 1917. Núgildandi reglur eru frá 1976. Stofnunin er í tengslum við Verslunarráðið í Stokkhólmi og er undir eftirliti þriggja manna sem það skipar. Sænsk gerðardómslög gilda nema að því leyti sem reglur stofnunarinnar mæla öðru vísi. Stofnun þessi hefur haft hlutverki að gegna varðandi ágreining sem risið hefur í verslunarviðskiptum milli ríkja í austri og vestri.

3. Aðrar alþjóðlegar gerðardómsstofnanir á Norðurlöndum.
    Hér ber helst að nefna alþjóðlegu gerðardómsstofnunina í Kaupmannahöfn (The Copenhagen Court of International Arbitration) sem sett var á laggirnar 1981, finnsku alþjóðlegu verslunargerðardómsstofnunina (The Board of Arbitration of the Central Chamber of Commerce of Finland) sem stofnuð var 1979, og loks gerðardómsstofnun verslunarráðs Óslóar (Oslo Handelskammers Voldgiftsinstitutt) sem starfað hefur frá 1. jan. 1983.

4. London Court of International Arbitration (LCIA).
    Hún var stofnuð 1892. Í Englandi ríkir löng hefð varðandi alþjóðlega gerðardóma. Gerðardómsreglur í Englandi hafa þótt nokkuð flóknar og hefur það leitt til þess að dregið hefur úr þýðingu enskra gerðardóma á síðari árum. Árið 1979 voru þó sett lög sem settu undir þennan leka að því er varðar erlenda gerðardóma. LCIA hefur aðsetur í London. Reglur stofnunarinnnar eru sniðnar með það í huga að þær megi nota alls staðar í heiminum.

5. The American Arbitration Association (AAA).
    Hér er um að ræða sjálfseignarstofnun sem var sett á laggirnar 1926. Nú telst hún stærsta gerðardómsstofnun í heiminum. Hún hefur aðsetur í New York og skiptist í 24 deildir sem hafa aðsetur víðs vegar í Bandaríkjunum. Stofnunin fjallar um meira en 40 þúsund mál á ári. Stofnunin sinnir einnig fræðistörfum margs konar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæði 1. mgr. kveða á um það að lögin taki ekki til svonefndra lögbundinna gerðardóma.
    Með hugtakinu réttarágreiningur í 2. mgr. er átt við ágreining sem varðar réttarreglur sem dómstólar hafa vald til að dæma um. Eðlilegt er að dómsvald gerðardóma sé háð sömu takmörkunum og dómsvald dómstóla að þessu leyti þar sem gerðardómum verður fullnægt með aðför eins og öðrum dómum sbr. 13. gr. frumvarpsins. Eftir skilgreiningunni mundu t.d. vinnudeilur, sem ekki fjalla um réttarágreining, falla utan hugtaksins.
    Í 2. mgr. er enn fremur gert ráð fyrir að aðilar skuli hafa forræði á því sakarefni sem þeir leggja í gerð. Það fer eftir löggjöf á hverjum tíma að hvaða marki aðilar eiga forræði á sakarefni. Samkvæmt því væri t.d. ekki unnt að leggja í gerð ágreining um rétt manns til að fá að kjósa til Alþingis.
    Samningur um gerðardóm getur tekið til tiltekins réttarágreinings sem upp er kominn í skiptum aðila. Með gerðarsamningi má einnig ákveða að allur ágreiningur sem kann að rísa í tilteknum lögskiptum skuli falla undir gerðarmeðferð.
    Gerðarsamning ber að skýra þannig að aðilar geti, þrátt fyrir gerðarsamning. komið fram kyrrsetningu og lögbanni eftir þeim reglum sem um það gilda nema annað sé tekið fram berum orðum í samningnum.

Um 2. gr.


    Þegar aðilar hafa samið um gerðarmeðferð er ljóst að dómara brestur vald til að dæma um það sakarefni sem gerðarsamningur nær til. Af þeim ástæðum ber að vísa slíku máli frá dómi ef krafa kemur fram um frávísun. Komi slík krafa hins vegar ekki fram er réttmætt að líta svo á að aðili hafi fallið frá rétti sínum eftir gerðarsamningnum en það er honum að sjálfsögðu heimilt. Dómari skal einnig vísa máli frá dómi ef útivist verður af hálfu varnaraðila nema ljóst sé af málsgögnum að varnaraðili hafi fallið frá gerðarmeðferð.
    Hugsanlegt er að verjandi haldi því fram fyrir héraðsdómi að gerðarsamingur sé ógildur. Fallist dómari á þá málsástæðu þá hefur hann að sjálfsögðu vald til að dæma í málinu. Frávísunarkrafa á því ekki við í slíku tilviki.

Um 3. gr.


    Með samningi um gerðardómsmeðferð afsala aðilar gerðarsamnings sér meðferð almennra dómstóla um þann réttarágreining er samningurinn tekur til. Það afsal kann að skerða réttaröryggi þeirra sem að gerðarsamningi standa svo sem áður hefur verið vikið að. Þess vegna verður að gera ríkar kröfur til sönnunar um það að aðilar hafi við gerð samnings viljað fara þá leið að leggja málið í gerð.
    Krafa um að gerðarsamningur skuli vera skriflegur er ekki gerð í dönsku og sænsku gerðardómslögunum en er hins vegar m.a. meginregla í finnsku, þýsku og norsku lögunum um gerðardóma. Þá ber þess einnig að geta að samkvæmt New York samningnum frá 1958 og UNCITRAL reglunum er gert ráð fyrir skriflegum gerðarsamningum.
    Í gerðarsamningi verður að vera skýrt kveðið á um nokkur meginatriði sem talin eru upp í 1. mgr. 3. gr. Þannig verður að vera ljóst úr hvaða deiluefni eigi að skera, milli hvaða aðila og hvort yfirleitt sé ætlunin að leggja mál í gerð. Ákvæði 2. mgr. kveða á um að gerðarsamningur sé óskuldbindandi ef vikið er verulega frá ákvæðum 1. mgr. Þá er hér einnig gert ráð fyrir að gerðarsamningar geti orðið ógildir eftir þeim almennu reglum sem gilda um loforð og loks ef hann fullnægir ekki þeim lágmarkskröfum sem réttarfarslög setja um réttarvernd. Tilgangur þessara reglna er að gæta þess að aðilar verði ekki fyrir réttarspjöllum vegna skuldbindinga sinna samkvæmt gerðarsamningi.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ætíð sé formaður í gerðardómi. Hefur þetta fyrirkomulag m.a. fyrirmynd í norskum og sænskum gerðardómslögum. Formanni er m.a. ætlað það hlutverk að ákveða hvar og hvenær gerðarmál er tekið fyrir svo og að stýra gerðardómi.
    Í 4. mgr. er ákvæði sem á að koma í veg fyrir að aðili geti dregið á langinn að útnefna gerðarmann af sinni hálfu. Gagnaðili á hér það úrræði að snúa sér til héraðsdómara með þeim hætti sem rætt er um í 2. mgr. 4. gr. til verndar rétti sínum.

Um 4. gr.


    Eftir núgildandi reglum ríkir óvissa um málsmeðferð þegar ágreiningur hefur komið upp um skipan gerðarmanna milli aðila gerðarsamnings eða þegar annar aðili hefur látið hjá líða að fullnægja skyldum sínum um skipan gerðarmanns samkvæmt gerðarsamningi eða lögum. Þegar svo stendur á er erfiðleikum bundið að skipa gerðardóm.
    Enn fremur er hugsanlegt að gerðarmaður geti ekki tekið þátt í störfum dómsins vegna veikinda eða annarra forfalla eða hann færist undan að sinna gerðardómsstörfum. Í síðarnefndum tilvikum er ljóst að gerðardómur er óstarfhæfur.
    Þegar aðili hefur ekki fullnægt skyldum sínum, eða ágreiningur verður um skipun gerðarmanns, hefur verið talið að samningsaðili hans gæti leitað til dómstólanna og fengið gagnaðila sinn dæmdan til að fullnægja skyldum sínum samkvæmt samningnum. Ljóst er að slík leið er bæði torsótt og seinfarin og samrýmist því illa tilgangi gerðarmeðferðar. Hér er ætlunin að bæta úr og gera gerðarmeðferð skilvirkari að þessu leyti. Þá er einnig opnaður sami möguleiki til að leita til héraðsdómara ef gerðardómur verður óstarfhæfur vegna atvika er varðar gerðarmenn. Ekki er gert ráð fyrir því að aðilar geti leitað aðstoðar héraðsdómara um önnur atriði en um er fjallað í 4. gr. (sbr. þó 5., 9. og 10. gr. ). Öll önnur ágreiningsatriði, sem upp koma við rekstur gerðarmáls, svo sem um gildi gerðarsamningsins, skal bera undir gerðardóminn sjálfan.
    Í 1. og 2. mgr. er efnislega tekið fram að dómari taki ákvörðun um skipun gerðardóms. Við þá ákvörðun styðst hann fyrst og fremst við gerðarsamninginn sjálfan og þær forsendur sem hann er byggður á.
    Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að héraðsdómari geti úrskurðað um deiluatriði skv. 4. gr. með einföldum og skjótvirkum hætti. Þá er gert ráð fyrir að úrskurðir þessir sæti almennt ekki kæru. Hvort tveggja er nauðsynlegt til að flýta meðferð gerðarmála.
    Aðili gerðarsamnings (varnaraðili) kann að bera það fyrir sig að gerðarsamningur sé ógildur. Til að hraða gerðarmeðferðinni er nauðsynlegt að ekki sé rannsakað á þessu stigi ofan í kjölinn um gildi samningsins: Með þetta í huga er tekið fram í greininni að dómari sé óbundinn af áliti því sem fram kemur í úrskurði ef á það reynir síðar í dómsmáli.

Um 6. gr.


    Starf gerðarmanna byggist á samningi þeirra við aðila. Gerðarmenn hafa frjálst val um það hvort þeir taka gerðarstarf að sér eða ekki, nema að lög kunni að mæla á annan veg. Gerðarmönnum ber sjálfum að vinna gerðarstarfið. Fyrir þá vinnu eiga þeir rétt á þóknun. Þeim er almennt ekki rétt að stofna til útgjalda við rekstur gerðarmáls nema með heimild aðila. Það fer einnig eftir almennum reglum samningsréttar hvenær gerðarmönnum er rétt að láta af gerðarstarfi. Þykir ekki ástæða til að kveða á um þetta sérstaklega í frumvarpi þessu.
    Gengið er út frá því að aðilar eigi að hafa frjálst val um það hverjum þeir treysta til að útkljá mál þeirra með gerð. Er það reyndar talinn einn af kostum gerðarmeðferðar. Réttur aðila til tilnefningar gerðarmanns takmarkast þó jafnan af rétti gagnaðila og opinberum hagsmunum um hlutlæga málsmeðferð.
    Í 1. mgr. er fjallað um almenn hæfisskilyrði gerðarmanna. Í því sambandi er farið eftir meginsjónarmiðum sem fram koma í Hrd. 1966, bls. 561. Tekið skal fram að það er ekki skilyrði til setu í gerðardómi að gerðarmenn séu lögfræðingar eða hafi aðra sérfræðikunnáttu varðandi sakarefnið.
    Í 2. mgr. er fjallað um sérstök hæfisskilyrði til meðferðar einstaks máls. Gerðarmenn fara með vald sem má líkja við dómsvald. Þeir skera úr réttarágreiningi í deilum sem að öðrum kosti heyra undir dómstóla landsins. Úrlausnir þeirra eru aðfararhæfar og þeim verður að jafnaði ekki hnekkt. Af þessum ástæðum er eðlilegt að gerðar séu sömu kröfur til hæfis gerðarmanna og til hæfis dómara. Reglan gildir um alla gerðarmenn og á því jafnt við um þá gerðarmenn sem aðilar kunna að tilnefna sjálfir í gerðardóm. Sú regla felur í mörgum tilvikum í sér frávik frá því sem nú tíðkast um skipun gerðardóma enda eru þess mörg dæmi að aðilar skipi gerðarmenn sem fullnægja engan veginn þeim hæfisskilyrðum sem dómurum eru sett.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að formaður gerðardóms skeri úr um hvort hæfisskilyrðum sé fullnægt. Heimildin er bundin við formann gerðardómsins. Kosturinn við þessa leið er sá að hún veldur litlum töfum á störfum gerðardómsins. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fá megi dómsúrlausn um hæfi gerðarmanna með þeim skjótvirka hætti sem um getur í 5. gr. frumvarpsins. Með því er reynt að koma í veg fyrir að gerðardómur verði síðar ógiltur vegna vanhæfis gerðarmanna en slíkt mundi leiða til kostnaðar og óhagræðis fyrir aðila gerðarmáls. Ókosturinn er hins vegar sá að þessi aðferð getur tafið rekstur gerðarmáls. Ekki þykir ástæða til að heimila málskot m.a. af því að ágreiningsefnið er unnt að bera undir héraðsdómara síðar.

Um 7. gr.


    Einn kostur við gerðardómsmeðferð hefur verið talinn sá að aðilar gerðarsamnings og gerðarmenn eru ekki bundnir af formreglum réttarfarslaga. Gerðarmeðferð getur því á margan hátt verið frjálslegri en meðferð venjulegra dómsmála og er 7. gr. frumvarpsins í samræmi við þetta sjónarmið. Vakin er athygli á ákvæði 103. gr. A í eml. í þessu sambandi en samkvæmt þeirri grein getur verið heimilt að taka vitnaskýrslu fyrir dómstólum til notkunar í gerðarmáli.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir vissum meginreglum réttarfars, sem ávallt ber að gæta við gerðarmeðferð, en að öðru leyti ber við málsmeðferð að fara eftir gerðarsamningi og ákvörðun gerðardóms að því leyti sem þar eru ekki að finna nein ákvæði um málsmeðferðina. Um hraða gerðarmáls skal farið eftir því sem segir í gerðarsamningi, en séu engin ákvæði um það þar að finna ber gerðarmönnum að hraða gerðarmáli svo sem kostur er. Sé brugðið út af þeim reglum, sem hér hafa verið raktar um málsmeðferð, getur komið til ógildingar skv. 12. gr. frumvarpsins.
    3. mgr. er í samræmi við meginregluna um milliliðalausa málsmeðferð. Hún er þó ekki fortakslaus. Gert er ráð fyrir að formaður gerðardóms geti framkvæmt minni háttar athafnir svo sem að taka á móti skjölum sem leggja skal fram í gerðarmáli og enginn ágreiningur er um. Einnig er ráð fyrir því gert að unnt sé að víkja frá þessari meginreglu í gerðarsamningi t.d. með þeim hætti að formanni gerðardóms sé falið að taka tilteknar ákvarðanir við rekstur gerðarmáls eins og að úrskurða ágreining um frest.
    Afl atkvæða ræður úrslitum gerðardóms. Séu atkvæði jöfn er hugsanlegt að gerðarsamningur kveði á um hvernig með skuli fara t.d. að atkvæði formanns ráði úrslitum. Séu engin ákvæði um þetta í gerðarsamningi verður að líta svo á að forsendur gerðarmeðferðarinnar hafi brostið og aðilar séu óbundnir af gerðarsamningi.

Um 8. gr.


    Gerðardómar skulu vera skýrir og skriflegir. Þetta er eðlileg krafa m.a. af því að þeir eru aðfararhæfir. Þá verður að telja nauðsynlegt að þeir séu rökstuddir í meginatriðum m.a. þar sem annars getur reynst erfitt að staðreyna í ógildingarmáli á hverju þeir voru byggðir. Þá er og eðlileg sú krafa að gerðarmenn undirriti gerðardóminn. Sé gerðardómur ekki undirritaður af öllum gerðarmönnum skal fylgja því skýring.
    Þar sem sátt fyrir gerðardómi er aðfararhæf með líkum hætti og réttarsátt er eðlilegt að gerðar séu svipaðar formkröfur um þessar tvær tegundir aðfararheimilda sbr. 3. og 42. gr. eml. Ekki er þó gerð krafa til að gerðarmenn færi sátt í sérstaka gerðarbók.

Um 9. gr.


    Í 7. gr. er á því byggt að gerðarmáli skuli hraðað eða a.m.k. að því skuli lokið á þeim tíma sem segir í gerðarsamningi. Rétt þykir að aðili gerðarmáls eigi úrræði ef verulegur dráttur verður á meðferð máls vegna vanrækslu gerðarmanna. Ekki kemur til þess að krafa komi frá báðum aðilum þar sem þeir geta í slíku tilviki svipt gerðarmenn umboði sínu til að fara með gerðarmál. Kröfu ber að gera á hendur gagnaðila og einnig gerðarmönnum sjálfum því að nauðsynlegt þykir að gefa þeim færi á að tjá sig um umrædda kröfu þar sem úrslit um hana kunna að skipta þá máli. Verði gerðarmenn leystir frá störfum koma þeir ekki meira við sögu í því gerðarmáli. Ákvörðun dómara um þetta skiptir alla aðila slíku máli að rétt þykir að heimila málskot ákvörðunarinnar til Hæstaréttar enda þótt málsmeðferðin kunni enn að tefjast af þeim sökum.

Um 10. gr.


    Rétt þykir að gefa aðilum fljótvirkt úrræði til þess að fá leystan ágreining sem upp kann að koma um þóknun til gerðarmanna. Þessar reglur eru líkar þeim sem gilda um matsmenn í matsmálum og eru til þess fallnar að eyða óvissu. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.

Um 11. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir því að gerðardómurinn ákveði málskostnað milli aðila þar á meðal kostnað af gerðardómsmeðferðinni. Ákvörðun um málskostnað er að sjálfsögðu undir því komin að aðilar geri um það kröfu.

Um 12. gr.


    Aðalreglan er sú að gerðardómur er endanleg niðurstaða um sakarefnið og verður honum ekki hnekkt. Lagarök fyrir þessari reglu eru einkum þau að það dragi mjög úr gildi gerðardóma ef ógilding þeirra væri heimiluð í víðtækum mæli. Þetta á sérstaklega við um sjálfa efnisúrlausnina. Aðilar gerðarsamnings verða því að jafnaði að sætta sig við þá niðurstöðu sem gerðardómur hefur komist að og geta ekki fengið hana endurskoðaða með neinum hætti.
    Ákveðnar ástæður geta þó leitt til þess að ógilda má gerðardóma en þeim er þó þröngur stakkur skorinn. Koma þessar ástæður fram í 1.– 6. tölul. 1. mgr. Að því er varðar 3. tölul. skal tekið fram að málsmeðferð getur bæði verið áfátt sé hún ekki í samræmi við fyrirmæli í gerðarsamningi og ef hún fullnægir ekki þeim kröfum. sem gerðar eru í 1. og 3. mgr. 7. gr. Að því er 6. tölul. varðar skal tekið fram sérstaklega að gerðardómur verður ekki ógiltur nema í undantekningartilviki þótt niðurstaða hans sé ekki í samræmi við hefðbundna túlkun eða beitingu réttarreglna. Slík regla er í samræmi við UNCITRAL lögin og er m.a. lögð til grundvallar í norsku, dönsku og sænsku gerðardómslögunum.
    Hugtakið allsherjarregla á einkum við um alþjóðlega gerðardóma. Í því felst fyrirvari um það að erlendum gerðardómi verði ekki beitt hér á landi ef beiting þeirra reglna sem hann er reistur á fer í bága við grundvallarreglur íslensks réttar. 2. mgr. er ætlað að veita aðilum aðhald um að koma með þau mótmæli, sem þeir kunna að hafa gegn gerðarmönnum. málsmeðferð eða öðrum atriðum, sem reisa má ógildingu á, strax og tilefni er til. Stundum eru málsatvik þannig að mótmæli hefðu hvort eð er ekki skipt máli og stundum kann að vera afsakanlegt að þau komu ekki fram. Er það dómara að meta hvort svo hafi verið í tilteknu falli.
    Um ógildingu sátta fyrir gerðardómi með málssókn í héraði gilda svipaðar reglur og um réttarsáttir. Gert er ráð fyrir að málssákn samkvæmt þessari grein frumvarpsins sé án tímatakmarka. Rökin eru í fyrsta lagi þau að þær ástæður er ógilding kann að vera byggð á koma oft ekki í ljós fyrr en löngu seinna. Í öðru lagi er þetta í samræmi við reglurnar um réttarsáttir en þar gilda engir ákveðnir frestir til að höfða ógildingarmál. Hins vegar gilda hér almennar reglur um tómlæti.

Um 13. gr.


    Því hefur oftlega verið haldið fram að skortur á aðfararhæfi hafi staðið gerðardómsmeðferð fyrir þrifum. Hér er lagt til að gerðardómum og sáttum fyrir gerðardómi verði veitt aðfararhæfi.
    Miðað við núgildandi lög verður að ætla að fógeti hafi heimild til að fresta aðför samkvæmt gerðardómi eða sátt fyrir gerðardómi þegar málsókn er hafin skv. 7. gr. frumvarpsins, sbr. 7. gr. aðfararlaga. Varðandi 2. mgr. er þess að geta að málsmeðferð hjá þeim dómstólum sem þarna eru nefndir er frábrugðin og yfirleitt meiri takmörkunum háð en meðferð fyrir almennum héraðsdómstólum. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.

Um 14. gr.


    Um erlenda gerðardóma gildir nú sú regla að þeir eru almennt viðurkenndir hér á landi. Þetta þýðir að þeir eru að jafnaði ekki endurskoðaðir að efni til ef á þá reynir fyrir dómstólum hér á landi heldur aðeins um tiltekin atriði líkt og íslenskir gerðardómar. Samkvæmt þessu myndu íslenskir dómstólar t.d. kanna hvort um gerðardóm væri að ræða, hvort gerðarsamningur lægi til grundvallar honum, hvort gerðarmenn hefðu farið út fyrir valdsvið sitt, hæfi gerðarmanna, hvort réttum reglum um málsmeðferð hafi verið fylgt o.s.frv. Erlendir gerðardómar eru hins vegar ekki aðfararhæfir hér á landi fremur en íslenskir gerðardómar. Þess vegna hefur hingað til þurft að leggja gerðarmál fyrir hina almennu héraðsdómstóla ef veita á þeim aðfararhæfi.
    Hér er lagt til að þeim gerðardómum sem kveðnir eru upp í samræmi við þjóðaréttarsamninga sem Ísland kann að gerast aðili að verði veitt aðfararhæfi. Íslenskir dómstólar verða þá að vísu að kanna hvort tiltekinn gerðardómur sé kveðinn upp í samræmi við skilyrði þau sem sett eru fram í viðkomandi þjóðréttarsamingi. Þetta er ekki ósvipuð leið og Norðmenn hafa farið. Rétt væri að lögtaka þjóðréttarsamninga um gerðardóma sem Ísland kynni að gerast aðili að.
    Danir hafa farið þá leið að gefa dómsmálaráðherra sínum heimild til þess að setja reglur um skilyrði fyrir aðfararhæfi allra erlendra gerðardóma. Slíkt framsal á lagasetningarvaldi er mjög vítt og er tæpast í samræmi við þá þróun milli EB- og EFTA-ríkja sem þegar hefur leitt til samnings um varnarþing og um gagnkvæma viðurkenningu og aðfararhæfi dóma í einkamálum, (svonefndur Luganosamningur). Gildir þetta jafnt þótt haft sé í huga að ólíkar réttarfarsreglur séu tæpast eins mikið vandamál í þjóðréttarsamningum um gerðardóma. Í Svíþjóð hefur verið farin enn önnur leið. Þar í landi eru sérstök lög um alþjóðlega gerðarsamninga og gerðardóma. Í lögunum er m.a. að finna skilgreiningu á því hvað sé erlendur gerðarsamningur og erlendur gerðardómur. Þá er þar að finna skilyrði sem erlendir gerðardómar verða að fullnægja til þess að þeir geti orðið bindandi. Loks eru ákvæði um það að sá sem hefur erlendan gerðardóm í höndum verði að snúa sér með hann til dómstóla þar í landi með beiðni um að hann verði gerður aðfararhæfur. Slík krafa er tekin til greina sé skilyrðum lagannna fullnægt.
    Að því er varðar 2. mgr. skal tekið fram að því aðeins er rétt að veita slíkum gerðardómum aðfararhæfi að þeir fullnægi fyrirmælum íslenskra laga um gerðardóma. Hins vegar ber að hafa í huga að reynt hefur verið að haga samningu frumvarpsins þannig að ákvæði þess fari a.m.k. ekki í bága við UNCITRAL lögin sem fyrr hafa verið nefnd.

Um 15. og 16. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.