Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 1 . mál.


Nd.

625. Frumvarp til laga



um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

(Eftir 3. umr. í Ed., 15. mars.)



    Samhljóða þskj. 516 með þessum breytingum:

    2. gr. hljóðar svo:
    Þeir, sem lög þessi taka til og hafa atvinnu af viðskiptum með verðbréf, skulu afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru, þ.e. skrá nöfn þeirra, kennitölur og heimili á reikninga eða uppgjör vegna viðskiptanna. Einnig ber öllum, sem atvinnu hafa af viðskiptum með verðbréf, að geyma afrit eða ljósrit af öllum skjölum, sérgerðum vegna viðskiptanna. Um geymsluskyldu skal fara eftir almennum bókhaldsreglum.
    Sérhverjum þeim aðila, sem býr yfir trúnaðarupplýsingum um útgefanda markaðsverðbréfa eða um önnur atriði sem ekki hafa verið gerð opinber, en líklegar eru til þess að hafa veruleg áhrif á markaðsverð bréfanna ef opinberar væru, er óheimilt að kaupa eða selja viðkomandi verðbréf fyrir eigin reikning eða reikning vandamanna sinna í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón. Hann má heldur ekki veita öðrum aðila vitneskju byggða á trúnaðarupplýsingum sem ætla verður látna í té í því skyni að sá aðili hagnist eða forðist fjárhagslegt tjón með kaupum eða sölu verðbréfanna. Ákvæði þetta tekur jafnt til einstaklinga sem lögaðila.

    15. gr. hljóðar svo:
    Almennt útboð markaðsverðbréfa annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla skal fara fram með milligöngu verðbréfafyrirtækja. Þó er hlutafélögum, er hafa til þess heimild Verðbréfaþings Íslands, heimilt að annast sjálf útboð markaðsverðbréfa sinna. Markaðsútgáfu verðbréfa skal tilkynna til Seðlabanka Íslands eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu ásamt upplýsingum um öll helstu einkenni útgáfunnar svo sem fjárhæð, fyrirhugað sölutímabil, sölustaði og sameiginleg einkenni
bréfanna. Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um gerð útboðsgagna og hann getur sett reglur um fyrsta söludag einstakra verðbréfaflokka í því skyni að koma í veg fyrir sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðnum.
    Við lok sölu eða í lok hvers ársfjórðungs, séu þau fyrr, skal verðbréfafyrirtæki tilkynna Seðlabankanum um heildarsölu bréfa í flokknum á nafnverði og markaðsverði samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum og í lok hvers árs skal enn fremur tilkynna um útistandandi eftirstöðvar í flokknum. Sama gildir um almennt útboð markaðsverðbréfa á vegum annarra aðila eftir því sem við á. Seðlabanki Íslands skal birta reglulega upplýsingar um markaðsverðbréf samkvæmt þessari grein.

    30. gr. hljóðar svo:
    Reikningsár verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis skal ákveðið í samþykktum þeirra. Ársreikning skal semja fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma ársskýrslu, rekstrarreikning og efnahagsreikning.
    Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju bæði að því er varðar mat á hinum ýmsu liðum og framsetningu. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings í reglugerð.

    31. gr. hljóðar svo:
    Endurskoðun skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Endurskoðandi verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis má ekki sitja í stjórn þeirra, vera starfsmaður eða að öðru leyti starfa í þeirra þágu að öðru en endurskoðun.
    Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eigum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum verðbréfasjóðs og jafnframt skulu starfsmenn verðbréfafyrirtækis veita honum allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.

    32. gr. hljóðar svo:
    Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann skal gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Hann skal láta í ljós álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
    Telji endurskoðandi að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar
ef þess er kostur. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
    Endurskoðanda er skylt að veita bankaeftirlitinu allar þær upplýsingar um málefni verðbréfafyrirtækis og verðbréfasjóðs og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir og hann getur látið í té.
    Ef endurskoðun leiðir í ljós verulega ágalla á rekstri verðbréfafyrirtækis eða verðbréfasjóðs varðandi framkvæmd rekstursins, greiðslutryggingar eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins skal endurskoðandi sjóðsins gera stjórn hans og bankaeftirlitinu viðvart.

    33. gr. hljóðar svo:
    Senda skal bankaeftirliti Seðlabankans endurskoðaða ársreikninga verðbréfasjóðs í síðasta lagi 30 dögum eftir undirritun þeirra og eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Reikningunum skal fylgja skýrsla löggilts endurskoðanda þar sem m.a. komi fram hvernig útreikningi á verðbréfaeign sjóðsins er háttað. Meginniðurstöður ársreikninga skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu einnig liggja frammi í starfsstöðvum viðkomandi verðbréfafyrirtækis og vera aðgengilegar fyrir viðskiptamenn.
    Ársfjórðungslegt efnahagsyfirlit í því formi, sem bankaeftirlitið ákveður, skal einnig senda því og það skal liggja frammi á starfsstöðvum verðbréfafyrirtækis.
    Auk reikninga verðbréfasjóða samkvæmt framangreindu skal einnig senda bankaeftirliti Seðlabankans endurskoðaða ársreikninga verðbréfafyrirtækis í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs og verðbréfafyrirtækjum er skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1986.

    34. gr. hljóðar svo:
    Starfsemi verðbréfamiðlara, verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja er háð eftirliti bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þessum aðilum sem, að mati bankaeftirlitsins, eru nauðsynlegar vegna eftirlitsins. Að öðru leyti skulu gilda um eftirlitið sömu reglur og um eftirlit með innlánsstofnunum, sbr. lV. kafla laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, eftir því sem við getur átt.
    Telji bankaeftirlitið að starfsemi verðbréfamiðlara, verðbréfafyrirtækis eða verðbréfasjóðs brjóti gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim eða sé að öðru leyti óeðlileg eða ótraust getur það veitt
viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta, nema brot séu alvarleg. Verði ekki orðið við kröfum bankaeftirlitsins innan tilskilins frests getur það lagt til við ráðherra að hann afturkalli rekstrar- og/eða starfsleyfi verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtækis.
    Afturkalli ráðherra leyfi verðbréfafyrirtækis skv. 2. mgr. skal hann skipa þriggja manna skilanefnd sem sér um ráðstöfun þeirra verðbréfasjóða sem fyrirtækið hefur rekið, um flutning þeirra til annars verðbréfafyrirtækis eða um slit fyrirtækisins, sölu verðbréfaeignar og skil á innkomnu söluverði til eigenda hlutdeildarskírteina og annarra kröfuhafa.

    35. gr. hljóðar svo:
    Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum verðbréfamiðlara, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða vegna viðskipta þeirra með erlend verðbréf í samræmi við þær reglur sem gilda um starfsemi þess.

    36. gr. hljóðar svo:
    Sá sem öðlast vill leyfi til verðbréfamiðlunar skv. 3. gr. skal standast próf eftir því sem greinir í lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Prófnefnd, sem viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn og í eiga sæti fimm menn, þar af einn tilnefndur af stjórn Verðbréfaþings Íslands, skal standa fyrir prófi þessu ákveði viðskiptaráðherra eigi aðra tilhögun. Varamenn skal skipa með sama hætti.
    Viðskiptaráðherra setur með reglugerð ákvæði um prófgreinar, framkvæmd prófa, störf og skipan prófnefndarmanna. Prófnefnd ákveður prófsefni fyrir upphaf námskeiðs.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um tilhögun námskeiðs, námsgreinar, kennslu og kennslugjöld að tillögu prófnefndar.

    37. gr. hljóðar svo:
    Brot á lögum þessum varðar sektum eða fangelsi allt að átta mánuðum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

    38. gr. hljóðar svo:
    Viðskiptaráðherra er heimilt að svipta verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtæki starfsleyfi um stundarsakir standi yfir opinber rannsókn vegna meints brots leyfishafa á ákvæðum laga þessara. Í slíku tilviki skal ráðherra skipa umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir til þess að tryggja hag viðskiptamanna viðkomandi aðila.

    39. gr. hljóðar svo:
    Viðskiptaráðherra getur í reglugerð hækkað lágmarksfjárhæð hlutafjár skv. 11. gr. í samræmi við verðlagsbreytingar frá gildistöku laga þessara.

    40. gr. hljóðar svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru þá úr gildi felld lög nr. 27 frá 2. maí 1986, um verðbréfamiðlun.

    Ákvæði til bráðabirgða hljóða svo:
1.     Við gildistöku laga þessara ber þeim, sem telur til eignar eða annars réttar yfir markaðsverðbréfi sem fullnægir ekki ákvæðum 5. mgr. 1. gr. laga þessara, að árita það um eignarhald sitt eða réttindi til þess. Sama skylda hvílir á þeim sem varðveitir slík verðbréf í umboði eiganda við gildistöku laga þessara.
2.     Verðbréfamiðlurum, sem hlotið hafa réttindi samkvæmt lögum nr. 27/1986, ber að tilkynna útgáfu markaðsverðbréfa skv. 5. mgr. 1. gr., sbr. 14. gr. laga þessara, sem átt hefur sér stað með milligöngu þeirra fyrir 1. janúar 1989, á þann hátt sem fyrir er lagt í 14. gr.
3.     Þeir sem við gildistöku laga þessara starfrækja verðbréfamiðlun samkvæmt lögum nr. 27/1986, verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði skulu uppfylla ákvæði laga þessara eigi síðar en 1. mars 1989. Bankaeftirliti Seðlabankans er þó heimilt að veita lengri frest mæli sérstakar ástæður með því. Slíkur frestur verður þó aldrei veittur lengur en til 1. júní 1989.
.      Þeir sem fengið hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum nr. 27/1986 við gildistöku laga þessara skal eigi skylt að sækja námskeið samkvæmt d-lið 3. gr.
4.     Hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum, sem út hafa verið gefin fyrir gildistöku laga þessara, halda gildi sínu þótt þau fullnægi ekki ákvæðum 21. gr. laganna.
5.     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. þessara laga er viðskiptaráðherra heimilt, að fenginni umsögn prófnefndar, að veita þeim, er uppfylla skilyrði 4. gr. laga nr. 27/1986, tímabundið leyfi til verðbréfamiðlunar í átján mánuði, enda fullnægi viðkomandi öllum skilyrðum 3. gr. laga þessara. Heimilt er að framlengja þann frest um allt að sex mánuði ef sérstaklega stendur á.