Ferill 349. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 349 . mál.


Nd.

638. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    C-liður 69. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

C


Vaxtabætur.


    Maður, sem skattskyldur er skv. 1. gr. og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, á rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum.
    Vaxtabætur skal ákvarða þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau eru skilgreind í 3. mgr., skal draga fjárhæð er svarar til 5% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í 62. gr. Sé um hjón eða sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr., að ræða skal framangreint hlutfall reiknast af samanlögðum tekjuskattsstofni þeirra beggja. Þannig ákvarðaðar vaxtabætur skulu skerðast í hlutfalli við eignarskattsstofn framteljanda þannig að fyrir hverjar 100.000 kr. sem eignarskattsstofn einstaklings fer fram úr 1.700.000 kr. skulu vaxtabætur skertar um 6% uns þær falla niður. Fyrir hverjar 100.000 kr. sem samanlagður eignarskattsstofn hjóna eða sambýlisfólks fer fram úr 3.400.000 kr. skulu vaxtabætur skertar um 3% uns þær falla niður. Jákvæður mismunur telst vera vaxtabætur. Vaxtabætur geta þó aldrei orðið hærri en 95.000 kr. fyrir hvern mann, 125.000 kr. fyrir einstætt foreldri og 155.000 kr. fyrir hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. Vaxtabætur greiðast út 1. september ár hvert að lokinni álagningu opinberra gjalda og miðast við vaxtagjöld viðkomandi tekjuárs og eignir í lok þess sama árs.
    Vaxtabætur skv. 2. mgr. miðast við fjárhæð vaxtagjalda hjá hverjum framteljanda. Til vaxtagjalda í þessu sambandi teljast:
1.     Vaxtagjöld, afföll og gengistöp skv. 1., 2. og 4. tölul. 51. gr. að því marki sem þau eru umfram vaxtatekjur skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 8. gr., enda séu gjöld þessi vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda séu lánin sannanlega notuð til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Til vaxtagjalda sem verðbætur og gengistöp teljast í þessu sambandi aðeins gjaldfallnar verðbætur og gengistöp á afborganir og vexti. Með eigin notum er átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum.
2.     Vaxtagjöld umfram vaxtatekjur skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 8. gr. vegna annarra lána en um ræðir í 1. tölul., enda er einungis heimilt að telja þau með á næstu fjórum skattárum talið frá og með kaupári ef um er að ræða kaup á íbúð. Sé um nýbyggingu að ræða er heimilt að telja þau með á næstu sjö skattárum talið frá og með því ári þegar bygging hefst eða til og með því ári sem húsnæðið er tekið til íbúðar ef það er síðar.
    Réttur til vaxtabóta stofnast á því ári þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota er keypt eða bygging þess hefst.
    Vaxtabætur skulu bundnar við eignarhald rétthafa á íbúðarhúsnæði. Selji rétthafi það húsnæði sem veitti rétt til vaxtabóta, án þess að hefja byggingu eða festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári, falla bótagreiðslur til hans niður frá og með næsta ári á eftir söluári.
    Vaxtabótum hjóna skal skipt til helminga á milli þeirra. Hið sama gildir um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
    Vaxtabætur greiðast rétthafa að því marki sem eftirstöðvum nemur þegar frá hafa verið dregnar greiðslur opinberra gjalda í þessari forgangsröð:
1.     Tekjuskatts sem á er lagður vegna tekjuársins skv. 67. gr., að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
2.     Annarra þinggjalda sem á eru lögð vegna tekjuársins.
3.     Ógoldinna þinggjalda frá fyrri árum.
4.     Annarra skatta eða gjalda en hér eru tilgreind eftir nánari ákvörðun fjármálaráðherra.
    Komi í ljós að maður hefur fengið greiddar vaxtabætur án þess að eiga rétt á þeim skal honum gert að endurgreiða þær að viðbættu álagi. Álag á of hátt ákvarðaðar bætur skal nema 25%. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein ef maður færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um þá
annmarka á framtali er leiddu til ákvörðunar skattstjóra.
    Ákvæði 99. og 100. gr. gilda um kærurétt vegna vaxtabóta eftir því sem við á.
    Nánari reglur um vaxtabætur, þar á meðal um útborgun þeirra og skuldajöfnun á móti opinberum gjöldum, skulu settar í reglugerð.

2. gr.

    1. mgr. 121. gr. laganna, sbr. 18. gr. laga nr. 97/1988, orðast svo:
    Fjárhæðir sem um ræðir í 68. gr., A-lið 69. gr., 2. mgr. B-liðar 69. gr., fjárhæð þeirra vaxtabóta sem skattstjóri reiknar út skv. 1.–5. málsl. 2. mgr. C-liðar 69. gr. og hámarksfjárhæð vaxtabóta skv. 6. málsl. 2. mgr. C-liðar 69. gr. skulu 1. júlí á staðgreiðsluári taka hlutfallslegri breytingu sem nemur mismun á lánskjaravísitölu sem í gildi er 1. desember næstan á undan staðgreiðsluári og lánskjaravísitölu sem er í gildi 1. júní á staðgreiðsluári.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I um vaxtaafslátt í lögum nr. 49/1987, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, fellur niður.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1990 vegna tekna á árinu 1989 og eigna í lok þess árs.

Ákvæði til bráðabirgða.


I


    Hafi maður fengið ákvarðaðar húsnæðisbætur samkvæmt C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. B-lið 11. gr. laga nr. 49/1987, sbr. C-lið 9. gr. laga nr. 92/1987, skal hann halda þeim rétti og fá greiddar húsnæðisbætur í samræmi við ákvörðun skattstjóra til loka þess tímabils er ákvörðun skattstjóra tók til, þó í engu tilviki lengur en til ársins 1993. Þeir sem fá húsnæðisbætur geta aldrei notið vaxtabóta samtímis. Með framtali fyrir tekjuárið 1989 getur maður, sem áður hefur fengið ákvarðaðar húsnæðisbætur, óskað eftir því við skattstjóra að fá úrskurð um vaxtabætur. Réttur til húsnæðisbóta fellur að fullu niður hjá þeim sem þannig fær ákvarðaðar vaxtabætur.

II


    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga þessara varir réttur þeirra manna til húsnæðisbóta, sem fá úrskurðaðar slíkar bætur á grundvelli umsóknar með framtali 1989 vegna tekjuársins 1988, í eitt ár.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.


Þær breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt sem felast í frumvarpi þessu byggja á tillögum nefndar sem skipuð var af félagsmálaráðherra með bréfi dagsettu 11. maí 1988 til þess að fjalla um hið almenna húsnæðislánakerfi. Nefndina skipuðu Kjartan Jóhannsson formaður, Ásmundur Stefánsson, Gunnar J. Friðriksson, Júlíus Sólnes, Kristín Ástgeirsdóttir, María Ingvadóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þráinn Valdimarsson. Til að starfa með nefndinni voru tilnefndir Bolli Þór Bollason, Ingi Valur Jóhannsson og Yngvi Örn Kristinsson. Að auki hefur Maríanna Jónasdóttir viðskiptafræðingur verið nefndinni til aðstoðar.
    Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk nefndarinnar þannig skilgreint: „


    
að ganga frá tillögum að skipan hins almenna húsnæðismálakerfis í framhaldi af álitsgerð vinnuhóps um þetta efni ... (og) ... semja lagafrumvarp um framkvæmd ráðstafana og leiða í breyttri skipan hins almenna húsnæðislánakerfis með hliðsjón af þeirri leið sem vinnuhópurinn mælir með í álitsgerð sinni og koma með þær tillögur aðrar um þetta efni sem nefndin telur réttar og nauðsynlegar“.
    Sá vinnuhópur sem vitnað er til í skipunarbréfi nefndarinnar skilaði álitsgerð 23. mars 1988. Starfshópinn skipuðu: Kjartan Jóhannsson formaður, Hallgrímur Snorrason, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Sigmundsson og Yngvi Örn Kristinsson.
    Vinnuhópurinn gerði meðal annars tillögu um að í stað húsnæðisbóta og vaxtaafsláttar í núverandi skattkerfi yrðu teknar upp vaxtabætur sem væru breytilegar eftir vaxtabyrði. Vaxtabæturnar áttu að koma í stað niðurgreiðslu vaxta í almenna húsnæðislánakerfinu, enda yrðu þá vextir á almennum húsnæðislánum látnir fylgja markaðsvöxtum langtímalána. Í áliti vinnuhópsins kemur fram að hann telur þessa breytingu forsendu fyrir því að unnt sé að hrinda í framkvæmd annarri tillögu hans um þá nýskipan í húsnæðislánamálum að taka upp skuldabréfaskipti eða svonefnt húsbréfakerfi.

2. Staðan í dag. – Núverandi kerfi.


2.1 Niðurgreiðsla vaxta.
    Í áliti vinnuhópsins er fjallað ítarlega um niðurgreiðslu vaxta í húsnæðislánakerfinu og áhrif hennar á húsnæðismarkaðinn. Þar segir meðal annars:
    „... Hin mikla niðurgreiðsla vaxta, sem beitt er í íbúðalánakerfinu nú, eykur mjög á eftirspurn eftir íbúðarlánum. Þetta stafar annars vegar af því að hún hvetur alla sem hyggja á íbúðakaup til að sækja um opinber íbúðalán og letur menn til að leita annarra úrræða við fjármögnun íbúðakaupa. Hins vegar hvetja hinir lágu vextir á lánum Húsnæðisstofnunar til fasteignakaupa, þ.e. að menn nýti lán til mjög langs tíma til eignaaukningar í fasteignum þótt þeir hafi enga þörf fyrir viðbótarhúsnæði. Nánar má segja að þegar vextir á húsnæðislánum eru lægri en svarar til almennra ávöxtunarmöguleika á fjármagnsmarkaði sé í því fólgin hvatning til lántöku. Lántakandi hagnast beinlínis á því að taka lánið. Aðili, sem enga þörf hefur fyrir lán, skuldsetur sig og ávaxtar fengið fé á fjármagnsmarkaði. Í þessu er reyndar fólgin hætta á gervisölu íbúðar í því skyni að komast yfir ódýrt lánsfé og hagnast á því.
    ... Í umræðum um hið nýja lánakerfi hefur komið fram að aðilar, sem eiga miklar eignir, hafi sótt um lán vegna íbúðakaupa. Hið sama gildir um ýmsa sem voru að skipta úr dýrari íbúð í ódýrari og þannig að losa fé. Þessir aðilar mundu ekki sækjast eftir lánum ef markaðsvextir væru á húsnæðislánum. Þeir sækja um lánin af því að þeir hagnast á því að skuldsetja sig þannig.
    Lagasetningin í desember 1987 fól í sér viðbrögð við þessari eftirspurn eftir lánsfé frá þeim sem ekki þurfa á lánum að halda. Með skömmtunaraðgerðum var reynt að hindra að þeir fengju lán. Slíkar skömmtunaraðgerðir hafa ekki aðeins áhrif á eftirspurnina sjálfa eða ásóknina í lánin, en eru auk þess mjög erfiðar í framkvæmd og munu bresta í mörgum greinum. Eðlilegra og farsælla er að takast á við eftirspurnina sjálfa, þ.e. að girða fyrir óþarfa umframeftirspurn með því að hafa eðlileg vaxtakjör. Hin niðurgreiddu lánskjör, sem nú gilda, munu leiða til vaxandi vandræða. Með eðlilegum vaxtakjörum ætti umframeftirspurnin hins vegar að hverfa og skömmtunaraðgerðir vegna hennar að verða óþarfar ...“
    Í hnotskurn er því niðurstaða vinnuhópsins sú að hverfa beri frá því niðurgreiðslu- og skömmtunarkerfi sem nú er við lýði í húsnæðiskerfinu. Að öðrum kosti náist ekki að skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaðnum.

2.2 Húsnæðisbætur - vaxtaafsláttur.
    Þegar komið var á staðgreiðslu skatta voru teknar upp sérstakar, tímabundnar húsnæðisbætur til þeirra sem eru að kaupa íbúð „... í fyrsta sinn ...“ Bætur þessar eru greiddar eftir á, í fyrsta skipti á árinu 1988 vegna íbúðarkaupa á árunum 1984–1987, en verða næst greiddar um mitt ár 1989 vegna kaupa á fyrstu íbúð á árinu 1988. Húsnæðisbæturnar eru ákveðnar sem föst krónutala á ári og fái allir jafnháa fjárhæð án tillits til aðstæðna. Árið 1988 voru húsnæðisbætur 46.201 kr. á hvern íbúðareiganda og tvöfaldar fyrir hjón. Fjárhæð húsnæðisbótanna er vístiölubundin og greiðist í sex ár en fellur þá niður.
    Þá er rétt að nefna að samhliða húsnæðisbótakerfinu er annað kerfi við lýði. Það gerir ráð fyrir sérstökum vaxtaafslætti til þeirra sem höfðu áður nýtt sér vaxtafrádrátt. Vaxtaafslátturinn skal nema 40% af frádráttarbærum vöxtum þegar frá þeim hefur verið dregin fjárhæð sem svarar til 7% af tekjuskattsstofni einstaklings, eða samanlögðum tekjuskattsstofni hjóna.
    Á árinu 1988 voru greiddar út rúmlega 400 m.kr. í húsnæðisbætur til 9500 aðila. Af þeim töldu 30% ekki fram nein vaxtagjöld. Er það athyglisvert hvort heldur það er vegna ónákvæmra skattframtala eða þess að þeir greiddu enga vexti. Til viðbótar nam vaxtaafsláttur tæpum 700 m.kr., en hans nutu hins vegar mun fleiri en húsnæðisbótanna, um og yfir 25.000 aðilar. Að jafnaði nam vaxtaafslátturinn því 28 þús. kr. á hvern einstakling. Þannig námu heildarútgjöld ríkissjóðs vegna greiðslu húsnæðisbóta og vaxtaafsláttar 1.100 m.kr. á árinu 1988.
    Framkvæmd húsnæðisbótakerfisins er ýmsum annmörkum háð auk þess sem draga má í efa að hún sé eins sanngjörn og æskilegt væri. Í því sambandi má meðal annars benda á að í mörgum tilvikum verður að skoða skattframtöl aðila nokkur ár aftur í tímann til þess að ákvarða bæturnar þar sem réttur til húsnæðisbóta stofnast aðeins einu sinni fyrir hvern framteljanda. Þegar hjón skilja, taka upp sambýli að nýju eftir skilnað eða gifta sig að nýju þarf að halda því til haga hvaða rétt þau eiga á húsnæðisbótum og að hve miklu leyti hann er nýttur með tilliti til þess hvernig íbúðareign er háttað á hverjum tíma. Allt er þetta flókið og tafsamt í framkvæmd.
    Út frá sanngirnissjónarmiði og því markmiði að létta undir með þeim sem helst þurfa þess með koma jafnframt upp ýmis álitamál. Íbúðarkaup í fyrsta sinn kunna að vera tiltölulega auðveld og léttbær fjárhagslega, en kaup á seinni íbúð vegna stækkandi fjölskyldu langtum erfiðari og þungbærari. Fjölskylda, sem flyst úr verðlítilli íbúð í einu sveitarfélagi, þar sem erfitt er að selja húsnæði, í jafnstóra íbúð á öðrum stað, þar sem íbúðarverð er
hátt, stendur t.d. miklu verr að vígi en fjölskyldan sem er að kaupa sína fyrstu íbúð.
    Einnig má benda á að í húsnæðisbótakerfinu er enginn greinarmunur gerður á fjárhagsstöðu einstaklinga. Það fá allir jafnháar bætur, tekjuháir sem tekjulágir. Einstaklingur í góðum efnum, sem þarf í rauninni engan opinberan stuðning, fær nákvæmlega sömu húsnæðisbætur og láglaunamaðurinn. Skuldlaus einstaklingur er jafnsettur og stórskuldugur í núverandi húsnæðisbótakerfi.
    Allt orkar þetta tvímælis og það verður varla sagt að húsnæðisbótakerfið miði að því að nýta hinn opinbera stuðning sem best í þágu hinna tekjulægri.

2.3 Opinber aðstoð í einum farvegi.
    Af framangreindu má ráða að sambland af niðurgreiddum vöxtum og aðstoð í gegnum skattkerfið sem nú ríkir er frekar ómarkvisst. Jafnframt hefur niðurgreiðsla vaxta í húsnæðislánakerfinu óæskileg áhrif á húsnæðismarkaðinn. Af þessum ástæðum er ljós þörf þess að endurskoða hina opinberu aðstoð og koma henni í einn skýran farveg í gegnum skattkerfið. Lagt er til að sú aðstoð sem hið opinbera veitir og nú felst í mikilli niðurgreiðslu vaxta á íbúðalánum færist að mestu leyti yfir í skattkerfið. Með þessu móti væri unnt að slá á óþarfa eftirspurn eftir húsnæðislánum af hálfu þeirra sem í raun þurfa ekki á lánum að halda. Lánamarkaðurinn yrði jafnframt heilbrigðari og samstæðari. Þessi breyting gefur líka færi á mun markvissari stuðningi við þá einstaklinga sem raunverulega þurfa á því að halda. Loks má segja að þessi breyting sé forsenda þess að komið verði á eðlilegum viðskiptum með fasteignaverðbréf hérlendis. Þessi breyting er einnig forsenda þess að unnt verði að koma á húsbréfakerfi í fasteignaviðskiptum því að húsbréfin þurfa að vera markaðshæf og bera markaðsvexti.
    Hins vegar eru ákvæði í núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins þess efnis að ríkisstjórnin taki ákvörðun um vexti af hverjum lánaflokki á hverjum tíma að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabanka Íslands. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þessu fyrirkomulagi um ákvörðun vaxta.
    Á undanförnum árum hefur verið mikill munur á vöxtum á skuldabréfum lífeyrissjóðanna og útlánsvöxtum Byggingarsjóðs ríkisins. Augljóst er að á því þarf að verða breyting ef hægt á að vera að treysta fjárhagsgrundvöll sjóðsins.
    Útlánsvextir Byggingarsjóðs ríkisins verða að taka mið af þeim vöxtum sem samið er um við lífeyrissjóðina vegna skuldabréfakaupa. Stefna ríkisstjórnarinnar er að ná niður raunvöxtum en það leiðir til þess að vaxtamismunur á skuldabréfum lífeyrissjóða og á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins minnkar.

3. Vaxtabætur.


3.1 Forsendur og markmið.
    Tillaga nefndarinnar er að tekin verði upp greiðsla vaxtabóta í gegnum skattkerfið sem leysi af hólmi húsnæðisbætur og vaxtaafslátt samkvæmt núgildandi tekjuskattslögum. Sú heildarfjárhæð sem til þessa yrði varið tæki mið af áætluðum kostnaði við húsnæðisbóta- og vaxtaafsláttarkerfið og áætlaða vaxtaniðurgreiðslu í núgildandi kerfi húsnæðislána.
    Þörfin fyrir opinberan stuðning stenst ekki þá raun að íbúðareigendur beri til lengdar mjög háa raunvexti, t.d. þá sem hafa verið hér á landi að undanförnu. Niðurgreiðsla vaxta af húsnæðislánum á fyrst og fremst að ráðast af hæð vaxta á hverjum tíma. Til lengdar litið ætti reglan að vera sú að vextir af húsnæðislánum væru ekki niðurgreiddir nema þeir fari umfram ákveðið mark, þ.e. að vaxtaniðurgreiðslan fari eftir vaxtastiginu og hverfi alveg við tiltekna lágmarksvaxtabyrði. Almenn niðurgreiðsla vaxta til lengdar, óháð vaxtastigi, hefur óæskileg áhrif á lánsfjáreftirspurn eins og áður var lýst auk þess sem hún kallar á ört vaxandi útgjöld ríkisins og þar með hækkun vaxta.
    Af þessum sökum er eðlilegt að teknar verði upp sérstakar vaxtabætur sem ráðist af hæð vaxta en hætt verði að greiða húsnæðisbætur og vaxtaafslátt á núverandi formi. Þar sem vaxtabæturnar taka mið af greiðslubyrði vaxta er óþarfi að greiða sérstakar bætur til þeirra sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn né heldur er ástæða til að þær séu tímabundnar. Það er nefnilega vaxtabyrðin sem skiptir meginmáli í þessu sambandi.
    Í annan stað er ástæðulaust og óeðlilegt að greiða vaxtabætur til þeirra sem ekki þurfa á lánum að halda, þ.e. þeirra sem eiga verulegar eignir. Í þriðja lagi verður að hafa að leiðarljósi að vaxtabæturnar nýtist betur hinum tekjulægri en hinum tekjuhærri.

3.2 Tillaga um ákvörðun vaxtabóta.
    Samkvæmt tillögum nefndarinnar skulu vaxtagjöld á skattframtali mynda stofn til ákvörðunar vaxtabóta.
    Ákvörðunin byggir á eftirfarandi viðmiðunarreglum:
    Vaxtabætur skulu að hámarki vera 95 þús. kr. fyrir einstakling, 125 þús. kr. fyrir einstætt foreldri og 155 þús. kr. fyrir hjón.
    Öllum er gert að bera tiltekinn hluta vaxtagjalda, eða sem svarar til 5% af tekjuskattsstofni einstaklings eða samanlögðum tekjuskattsstofni hjóna. Skal sú fjárhæð, þannig reiknuð, dregin frá frádráttarbærum vöxtum.
    Að auki skulu vaxtabætur skerðast, fari eignarskattsstofn yfir 1.700 þús. kr. – tvöföld sú fjárhæð fyrir hjón, uns þær falla niður við 3.400 þús. kr. – tvöföld sú fjárhæð hjá hjónum.
    Samandregið er því tillagan sú að vaxtabæturnar verði ákvarðaðar sem frádráttarbær vaxtagjöld að frádregnum 5% af tekjuskattsstofni, þó þannig að þær skerðast um 3% fyrir hverjar 100 þús. kr. sem samanlagður eignarskattsstofn hjóna fer yfir 3.400 þús. kr., uns þær falla niður. Fyrir einstakling/einstætt foreldri gildir með sama hætti að vaxtabæturnar skerðast um 6% fyrir hverjar 100 þús. kr., sem eignarskattsstofn fer yfir 1.700 þús. kr., uns þær falla niður. Jafnframt er gert ráð fyrir að hámark útgreiddra bóta verði 95 þús. kr. fyrir einstakling, 125 þús. kr. fyrir einstætt foreldri og 155 þús. kr. fyrir hjón. Ofangreindar fjárhæðir eru metnar á desemberverðlagi ársins 1988 og skulu hinn 1. júlí ár hvert taka hlutfallslegri breytingu samkvæmt lánskjaravísitölu á næstliðnum sex mánuðum, sbr. 1. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

3.3 Tölulegt mat.
    Til glöggvunar eru í fylgiskjali með frumvarpi þessu tekin nokkur dæmi um ákvörðun vaxtabóta samkvæmt framangreindum reglum miðað við mismunandi hæð tekna og eigna hjá framteljanda. Þannig ætti að fást nokkuð skýr mynd af því kerfi sem hér er lagt til að leysi húsnæðisbóta- og vaxtaafsláttarkerfi af hólmi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Réttur til vaxtabóta er háður beinum kostnaði manna vegna lántöku í tengslum við öflun á eigin húsnæði. Eru vaxtabætur miðaðar við framtal manna vegna næstliðins almanaksárs og því hluti af lokaálagningu gjalda.
    Hvernig vaxtabætur eru ákveðnar og hámark þeirra er skilgreint í 2. mgr. og ræðst fjárhæð þeirra m.a. af fjölskyldustöðu viðkomandi rétthafa. Bæturnar skerðast í hlutfalli við tekjur og nettóeign.
    Í 3. mgr. eru vaxtagjöld þau sem vaxtabæturnar miðast við skilgreind. Eru vaxtagjöldin ákvörðuð á sama hátt og frádráttarbær vaxtagjöld í gildistíð vaxtafrádráttar hjá einstaklingum. Greiddar og gjaldfallnar verðbætur eru m.a. taldar til vaxta. Vísast um þetta til ákvæða 1. tölul. E-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og hann hljóðaði fyrir gildistöku ákvæða um húsnæðisbætur.
    Í 4. mgr. koma fram reglur um skerðingu vaxtabóta í hlutfalli við eignarskattsstofn.
    Í 5. og 6. mgr. er skilgreint upphaf og lok þess tímabils er vaxtabæturnar tilheyra.
    Vaxtabæturnar skiptast milli hjóna að jöfnu. Sama regla á við um sambýlisfólk sem fullnægir skilyrðum til samsköttunar, þ.e. á sama lögheimili og hefur átt barn saman, á von á barni eða hefur átt sama lögheimili í a.m.k. tvö ár.
    Um ráðstöfun vaxtabóta gilda sömu reglur og um ráðstöfun barnabóta. Vaxtabætur koma til útborgunar skv. 7. mgr. þegar þeim hefur verið skuldajafnað á móti opinberum gjöldum í nánar tiltekinni röð.
    Í 8. mgr. eru ákvæði um að endurgreiða beri of hátt ákvarðaðar vaxtabætur með álagi. Er hér um að ræða sömu reglu og gilda um barnabætur.
    Í 9. mgr. er tekið fram að kæra megi vaxtabótaákvörðun skattstjóra eftir þeim kæruleiðum sem gilda um skattákvarðanir. Sambærileg úrræði er ekki að finna varðandi húsnæðisbætur og skapaði það viss vandamál. Er talið eðlilegt að ákvarðanir um vaxtabætur verði kæranlegar til ríkisskattanefndar er kveði upp endanlegan úrskurð.
    Gert er ráð fyrir sérstakri reglugerð um skuldajöfnun og útborgun vaxtabóta. En eðli sínu samkvæmt koma þær ekki til útborgunar fyrr en á seinni hluta ársins. Að þessu leyti er munur á útborgunarreglum milli vaxtabóta og barnabóta sem greiddar eru með fjórum greiðslum á viðkomandi ári.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er lagt til að hámarksfjárhæðir vaxtabóta breytist í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu. Aðrar fjárhæðir greinarinnar munu hins vegar taka breytingum í samræmi við skattvísitölu skv. 122. gr. laganna enda er þar um að ræða skerðingarstofna en ekki greiðslustærðir.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að reglur um vaxtaafslátt falli niður. Vaxtabótaréttur stofnast hjá mönnum sem hafa greiðslubyrði vegna vaxta af lánum sem tekin eru til öflunar á íbúðarhúsnæði. Skiptir ekki máli hvenær húsnæðis var aflað ef öðrum skilyrðum er fullnægt.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Gera verður ráð fyrir því sem aðalreglu að þeir sem fengið hafa húsnæðisbætur haldi rétti til þeirra þar til þær hafa runnið sitt skeið á enda þó aldrei lengur en til ársins 1993. En slíkir menn eru þó á sama tíma útilokaðir frá vaxtabótum. Þegar húsnæðisbótum sleppir geta menn eftir atvikum átt rétt til vaxtabóta að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Gert er ráð fyrir að þeir menn, sem hafa fengið úrskurðaðar húsnæðisbætur, geti óskað eftir að breyta úr húsnæðisbótum yfir í vaxtabótakerfið. Slíkt val á sér þó einungis stað einu sinni, þ.e. með framtali 1990.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í þessu ákvæði er kveðið á um að þeir, sem sækja um húsnæðisbætur í fyrsta sinn með framtali 1989 og hafa því ekki fengið ákvarðaðar bætur er frumvarp þetta öðlast gildi nái það fram að ganga, fái aðeins greiddar húsnæðisbætur á þessu ári.