Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 182 . mál.


Ed.

708. Nefndarálit



um frv. til l. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað rækilega um frumvarpið. Markús Sigurbjörnsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, starfaði með nefndinni að athugun málsins. Þá bárust nefndinni umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Lögmannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, sakadómi Reykjavíkur, Sýslumannafélagi Íslands, réttarfarsnefnd, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Jóhannesi Árnasyni, sýslumanni Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.
    Í athugasemdum við frumvarpið er rakin ítarlega umræða hér á landi um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds allt frá árinu 1914, þegar Alþingi samþykkti þingsályktun um það efni, og sú þróun sem orðið hefur á því sviði síðan. Mest hefur breytingin orðið í Reykjavík þar sem veruleg aðgreining hefur átt sér stað. Frekari breytingar munu hingað til hafa strandað á auknum kostnaði sem þær hefðu í för með sér og tregðu á umbyltingu á svo þýðingarmiklum þætti þjóðfélagsins sem dómstólarnir eru. Í flestum umsagnanna, sem nefndinni bárust, kemur hins vegar fram sú afstaða að ekki verði nú lengur frestað að taka ákvörðun um þetta mál. Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Einstökum nefndarmönnum er þó ljóst að við svo umfangsmiklar breytingar á dómstólaskipaninni, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, hljóti að koma fram ýmis álitamál.
    Veigamesta breytingartillagan sem nefndin flytur er við 16. gr., um að gildistöku laganna verði frestað um tvö ár, til 1. júlí 1992. Með því gefst betri tími til að undirbúa breytingarnar þannig að þær megi verða sem hagkvæmastar, bæði með tilliti til kostnaðar fyrir ríkissjóð og fyrir þá einstaklinga sem starfsemi dómstólanna tekur til. Komi í ljós meðan á undirbúningi stendur að einhverjar breytingar séu æskilegar á lögunum frá því sem frumvarpið kveður á um verður tími til að gera þær fyrir gildistökuna.
    Í öðru lagi er fellt niður úr 14. gr. frumvarpsins ákvæði sem segir að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli heyri undir þann ráðherra sem fer með mál er tengjast framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951. Niðurfelling þessa ákvæðis breytir þó ekki sjálfkrafa þeirri skipan sem nú er á þeim málum þar sem áfram verða í gildi lög nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl.
    Í þriðja lagi eru felld niður úr 13. gr. ákvæði sem fyrir eru í lögum nr. 32/1965, um hreppstjóra.
    Í fjórða lagi er kveðið skýrar á um ákvæði í 4. og 18. gr. án þess að um efnisbreytingar sé að ræða.
    Salome Þorkelsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson og Jóhann Einvarðsson skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Alþingi, 3. apríl 1989.



Jón Helgason,

Guðmundur Ágústsson,

Salome Þorkelsdóttir,


form., frsm.

fundaskr.

með fyrirvara.



Jóhann Einvarðsson,

Ey. Kon. Jónsson,

Skúli Alexandersson.


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Eiður Guðnason.