Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 182 . mál.


Ed.

731. Frumvarp til laga



um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

(Eftir 2. umr. í Ed., 4. apríl.)



    Samhljóða þskj. 204 með þessum breytingum:

    4. gr. hljóðar svo:
    Dómarar við héraðsdómstóla nefnast héraðsdómarar. Við héraðsdóm Reykjavíkur skulu vera 21 héraðsdómari, við héraðsdóm Vesturlands 1, við héraðsdóm Vestfjarða 1, við héraðsdóm Norðurlands vestra 1, við héraðsdóm Norðurlands eystra 3, við héraðsdóm Austurlands 1, við héraðsdóm Suðurlands 3 og við héraðsdóm Reykjaness 7. Þar sem héraðsdómarar eru þrír eða fleiri við dómstól má skipta honum í deildir eftir málaflokkum með samþykki dómsmálaráðherra.
    Einn héraðsdómari skipar dóm í hverju máli. Um heimild dómara til að kveðja meðdómsmenn til setu í dómi fer eftir reglum laga um meðferð einkamála í héraði og laga um meðferð opinberra mála.
    Sérhver héraðsdómari starfar sjálfstætt og á eigin ábyrgð að dómstörfum.
    Þar sem héraðsdómarar eru fleiri en einn við dómstól skipar dómsmálaráðherra einn þeirra dómstjóra héraðsdómsins til 6 ára í senn að fenginni tillögu þeirra. Láti dómstjóri af störfum við dómstólinn áður en starfstímabili hans lýkur skal nýr dómstjóri skipaður til næstu 6 ára. Nú verður sæti dómstjóra laust um stundarsakir eða hann forfallast og fer þá sá dómari með dómstjórn sem elstur er að embættisaldri við dóminn.
    Dómstjórar héraðsdóma hafa yfirstjórn þeirra með höndum og bera á henni ábyrgð. Þeir fara með fyrirsvar héraðsdómsins út á við. Þeir úthluta héraðsdómurum málum til meðferðar og skipa þeim í deildir ef héraðsdómur er deildaskiptur.

    13. gr. hljóðar svo:
    Sýslumaður skal hafa skrifstofur í umdæmi sínu eftir því sem dómsmálaráðherra kveður á um hverju sinni og fé er veitt til á fjárlögum.

    14. gr. hljóðar svo:
    Forseti Íslands skipar sýslumenn. Málefni sýslumanna eiga undir dómsmálaráðherra.
    Engan má skipa sýslumann, nema hann fullnægi skilyrðum 1. og 3.–7. tölul. 1. mgr. 5. gr.

    16. gr. hljóðar svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.

    18. gr. hljóðar svo:
    Þeir sem skipaðir eru borgardómarar, borgarfógetar og sakadómarar, yfirborgardómari, yfirborgarfógeti og yfirsakadómari í Reykjavík og sakadómari í ávana- og fíkniefnamálum við gildistöku laga þessara skulu hafa forgang til skipunar í embætti héraðsdómara í Reykjavík. Nú óska fleiri þeirra eftir skipun í embætti héraðsdómara en heimild er fyrir í 1. mgr. 4. gr. og er þá dómsmálaráðherra heimilt að fjölga dómaraembættum í Reykjavík um allt að 5 embætti, en eigi skal skipað á ný í þau dómaraembætti sem losna fyrr en dómarar verða 21 talsins í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Þeir sem skipaðir eru borgarfógetar í Reykjavík við gildistöku laga þessara og neyta eigi forgangsréttar síns samkvæmt framanskráðu geta, ef þeir svo kjósa, tekið við störfum hjá embætti sýslumanns í Reykjavík, en halda skulu þeir sömu launakjörum og héraðsdómarar, þótt starfsheiti þeirra breytist. Sá sem skipaður er í embætti yfirborgarfógeta í Reykjavík skal hafa forgang til skipunar í embætti sýslumanns í Reykjavík.
    Þeir sem við gildistöku laga þessara eru skipaðir bæjarfógetar, héraðsdómarar og sýslumenn utan Reykjavíkur skulu njóta forgangsréttar til skipunar í embætti héraðsdómara við þann dómstól sem með lögum þessum er falið dómsvald í umdæmi þeirra. Sama gildir um þann sem skipaður er í embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli. Nú kjósa fleiri að neyta forgangsréttar síns en dómarar eru í viðkomandi lögsagnarumdæmi skv. 1. mgr. 4. gr. og er þá dómsmálaráðherra heimilt að fjölga dómaraembættum um eitt á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi og á Suðurlandi og um tvö á Reykjanesi. Eigi skal skipað á ný í þau dómaraembætti, sem losna í hverju lögsagnarumdæmi, fyrr en fjöldi héraðsdómara verður í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Ef dómaraembættum fjölgar við héraðsdóma Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands vestra og Austurlands samkvæmt þessari grein er dómsmálaráðherra eigi skylt að skipa dómstjóra við dómstólana en
meðan þessi skipan helst skal sá dómari, sem eldri er að embættisaldri, fara með dómstjórn.
    Við skipun héraðsdómara samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. þarf eigi að leita álits dómnefndar skv. 2. mgr. 5. gr.
    Þeir sem skipaðir eru í embætti bæjarfógeta og sýslumanna við gildistöku laga þessara og neyta ekki forgangsréttar síns til skipunar í embætti héraðsdómara samkvæmt ákvæðum 2. mgr. skulu sjálfkrafa verða sýslumenn á aðsetursstað sínum, sbr. 11. gr. Sama gildir um þann sem skipaður er í embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli.