Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 413 . mál.


Nd.

773. Frumvarp til laga



um hagstofnun landbúnaðarins.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



I. KAFLI

Um aðsetur og hlutverk.

1. gr.

    Hagstofnun landbúnaðarins er ríkisstofnun, er lýtur sérstakri stjórn samkvæmt lögum þessum, undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra.
    Hagstofnun landbúnaðarins skal hafa aðsetur á Hvanneyri í Andakílshreppi og skal rekstur hennar vera í nánum tengslum við búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri.
    Kostnaður af starfi hagstofnunar landbúnaðarins greiðist úr ríkissjóði og af sértekjum sem henni er heimilt að afla sér m.a. með því að taka að sér að vinna sérstök verkefni fyrir stofnanir, félagasamtök og einstaklinga.

2. gr.

    Hlutverk hagstofnunar landbúnaðarins er:

1.     Að vinna heildarupplýsingar um afkomu landbúnaðarins, afkomu bænda í einstökum landshlutum og afkomu einstakra búgreina fyrir hvert ár og taka saman yfirlit um þróun þessara mála. Slíkar upplýsingar skulu unnar úr niðurstöðum búreikninga sem berast frá bókhaldsstofum bænda svo og öðrum þeim gögnum sem nauðsynleg þykja og tiltæk eru.
2.     Að vinna nauðsynlegar upplýsingar vegna verðlagningar búvara, hagskýrslugerðar og annars sem þurfa þykir, að því leyti sem það fellur innan starfssviðs stofnunarinnar.
3.     Að hafa yfirumsjón með hagrannsóknum í landbúnaði í samvinnu og samstarfi við stofnanir sem annast sambærilegar rannsóknir.
4.     Að hafa frumkvæði um áætlanagerð við búrekstur, útgáfustarf og hagrænar leiðbeiningar til bænda í samvinnu við leiðbeiningaþjónustu bændasamtakanna og aðra þá aðila sem sinna fræðslu um landbúnað.
5.     Að stuðla að því að sem flestir bændur færi bókhald fyrir bú sín, m.a. með skipulagðri fræðslustarfsemi meðal bænda um gagnsemi bókhalds og útgáfu leiðbeininga um bókhald og skattskil.
6.     Að hafa yfirumsjón með gerð og þróun bókhaldsforrita fyrir bókhaldsstofur bænda svo og forrita fyrir áætlanagerð í búrekstri í samvinnu við bændasamtökin.
7.     Að hafa samstarf við deildarstjórn búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri um kennslu í landbúnaðarhagfræði.

II. KAFLI

Um skipan stjórnar og hlutverk.

3. gr.

    Landbúnaðarráðherra skipar fimm menn í stjórn hagstofnunar landbúnaðarins til fjögurra ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu deildarstjórnar búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri, einn eftir tilnefningu Hagstofu Íslands, einn eftir tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, einn eftir tilnefningu Þjóðhagsstofnunar og einn eftir tilnefningu Stéttarsambands bænda. Sömu aðilar tilnefna varamenn.
    Landbúnaðarráðherra skipar formann úr röðum stjórnarmanna og ákveður stjórnarlaun.

4. gr.

    Hlutverk stjórnar er m.a.:
1.     Stjórn annast ráðningu forstjóra stofnunarinnar.
2.     Stjórn leggur árlega, í samvinnu við forstjóra, fram tillögur til fjárlaga varðandi fjárþörf stofnunarinnar, skipt upp eftir starfssviðum. Einnig gerir hún tillögur til landbúnaðarráðherra um gjaldskrá fyrir veitta þjónustu svo og viðmiðunargjaldskrá fyrir bókhaldsstofur bænda.
3.     Stjórn tekur ákvarðanir um mótun á starfsemi stofnunarinnar og hefur eftirlit með að hún þjóni því hlutverki sem henni er ætlað.
4.     Stjórn skal halda minnst tvo fundi árlega, þar af annan á þeim tíma sem tillögur til fjárlaga eru gerðar. Halda skal stjórnarfund ef meiri hluti stjórnar krefst þess.

5. gr.

    Hlutverk forstjóra er m.a.:
1.     Forstjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar samkvæmt ákvörðunum stjórnar svo og það samstarf við aðrar stofnanir sem nauðsynlegt er talið.
2.     Forstjóri er ábyrgur fyrir að stofnunin starfi í samræmi við gildandi löggjöf og sinni því hlutverki og þeim skyldum sem á hana eru lagðar.
3.     Forstjóri hefur umsjón með mannahaldi við stofnunina.

III. KAFLI

Um bókhaldsstofur bænda.

6. gr.

    Búnaðarsamböndin í landinu skulu hvert fyrir sig, eða í samstarfi sem nær yfir nánar tiltekið svæði, koma á fót bókhaldsstofum sem annast gagnaskráningu og uppgjör búreikninga fyrir bændur. Einnig skulu þær vera færar um að veita bændum leiðbeiningar og aðstoð við skattskil.
    Bókhaldsstofum er heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu og skulu þær hafa hliðsjón af viðmiðunargjaldskrá hagstofnunar landbúnaðarins.
    Hagstofnun landbúnaðarins skal hafa umsjón með að form eyðublaða, skráning gagna og uppgjör reikninga fari fram á samræmdan hátt, þannig að samanburður á niðurstöðum sé marktækur.
    Bókhaldsform sem bókhaldsstofur bænda bjóða upp á skal við það miðað að bændum sé kleift að halda einkafjárhag sínum utan við bókhald búa sinna.

7. gr.

    Fyrir hvern búreikning, sem skilað er til hagstofnunar landbúnaðarins til úrvinnslu og er í samræmi við þær reglur sem stofnunin setur, skal hún greiða
30% af kostnaði við hann samkvæmt viðmiðunargjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur. Heimilt er að greiða aukalega fyrir öflun sérstakra upplýsinga sem nauðsynlegar teljast.

8. gr.

    Hagstofnun landbúnaðarins skal veita þeim bændum, sem ekki eiga kost á bókhaldsþjónustu á vegum bændasamtaka í heimahéraði, aðstoð við útvegun á sambærilegri þjónustu og bókhaldsstofur bænda veita í öðrum héruðum, þannig að tryggt sé eftir því sem unnt er að upplýsingar um rekstur og afkomu bænda geti borist til samræmds uppgjörs alls staðar af landinu.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

9. gr.

    Stjórn og starfsmönnum hagstofnunar landbúnaðarins, svo og starfsmönnum þeirra bókhaldsstofa sem sjá um uppgjör búreikninga, er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um embættis- og sýslunarmenn að skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að sökum starfa síns um efnahag, tekjur eða gjöld einstakra manna eða stofnana. Skulu þeir ætíð gæta þess að fara með upplýsingar og gögn frá bændum sem trúnaðarmál.

10. gr.

    Skylt er að veita hagstofnun landbúnaðarins þær upplýsingar, er hún óskar eftir og þarf á að halda vegna starfsemi sinnar. Nýtur hún í þessu efni sömu réttinda og Hagstofa Íslands og sömu viðurlög liggja við ef út af er brugðið.

11. gr.

    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um rekstur og tilhögun hagstofnunar landbúnaðarins þar sem m.a. er kveðið á um samstarf og samvinnu hagstofnunar landbúnaðarins og búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri.

12. gr.

    Brot á ákvæðum laga þessara varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál út af brotum skal fara að hætti opinberra mála.
    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felld lög nr. 20 22. apríl 1967, um Búreikningastofu landbúnaðarins.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þar til bókhaldsstofur bænda og hagstofnun landbúnaðarins geta sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt lögunum skulu Búreikningastofa landbúnaðarins og Búnaðarfélag Íslands gegna þeim verkefnum þeirra sem tök eru á með þeim réttindum og skyldum sem lög þessi ákveða.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1.      Stefna bændasamtakanna varðandi hagstofnun landbúnaðarins.
    Á undanförnum árum hafa bæði Búnaðarþing og aðalfundur Stéttarsambands bænda samþykkt ályktanir um nauðsyn þess að koma á fót hagstofnun landbúnaðarins „þar sem á einni hendi væru hagtölur landbúnaðarins“ og þar sem hagfræðilegar áætlanir fyrir landbúnaðinn yrðu unnar.
    Markmið bændasamtakanna með að hvetja til stofnunar hagstofnunar landbúnaðarins hefur verið að fá á einn stað og samræma þá öflun hagtalna fyrir landbúnaðinn sem nauðsynleg er talin, ásamt því að leggja meiri áherslu á úrvinnslu og túlkun þeirra tölulegu staðreynda sem fyrir hendi eru. Þörfin fyrir markvissa vinnu á þessum vettvangi er brýnni nú en nokkru sinni fyrr og því mikilvægt að þessi mál séu mótuð á þann veg sem bestur þykir.

2.      Staða bókhaldsmála landbúnaðarins.
    Eins og kunnugt er þá er færsla búreikninga nú skipulögð og framkvæmd á tvennan hátt, annars vegar af Búreikningastofu landbúnaðarins sem er undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands og hins vegar hjá búnaðarsamböndum með svokölluðu bændabókhaldi.
    Lög um Búreikningastofu landbúnaðarins voru endurskoðuð á árunum 1966–1967 og var þá lagður grunnur að því tölvuvædda uppgjöri búreikninga sem fer nú fram hjá Búreikningastofunni.
    Reikningar sem gerðir eru upp hjá Búreikningastofu landbúnaðarins hafa á undanförnum árum verið á milli 170 og 180.
    Búreikningastofan gerir upp úrtak þeirra reikninga fyrir verðlagningu hjá stærstu búgreinunum (mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt) fyrir utan hefðbundna ársskýrslu sem sýnir m.a. meðaltals niðurstöðu ýmissa þátta í rekstri hefðbundinna greina, framlegð og eiginfjárstöðu mismunandi bútegunda og vinnuþörf við reksturinn. Þeim búum sem koma til uppgjörs í ársskýrslu hefur farið fækkandi eða úr um 160 fyrir 11–12 árum niður fyrir 100 á síðustu árum.
    Á árunum eftir 1980 hófst vinna við að gera mögulegt að flytja viðskiptafærslur beint úr tölvubókhaldi kaupfélaga yfir í
bændabókhaldsforritið sem þróað var af starfsmönnum Búnaðarfélags Íslands. Á þann veg sparast allnokkur fyrirhöfn við frumvinnu og skráningu. Á hitt ber einnig að líta að misjafnt er milli landshluta hve viðskipti bænda dreifast á marga viðskiptaaðila þannig að þessi möguleiki nýtist ekki allsstaðar á landinu. Fjöldi þeirra reikninga sem unnir eru hjá búnaðarsamböndunum hefur farið vaxandi og var um 200 á síðasta ári.
    Niðurstöður þeirra gagna sem aflað er með bændabókhaldi eru ekki gerðar upp sameiginlega.

3.      Hver eru helstu áhersluverkefni?
    Forgangsverkefni við mótun búreikningahalds í framtíðinni er að endurskipuleggja upplýsingaöflun með færslu búreikninga hjá bændum þannig að hægt verði að afla þeirra gagna sem þörf er á um afkomu stéttarinnar í heild svo og þann mismun sem fyrir hendi er innan hennar, verðlagningu búvara og ýmsar tegundir hagrannsókna. Jafnframt þarf að samræma að fullu það reikningsform sem unnið er eftir.
    Þegar rætt er um endurskipulagningu og eflingu ráðanautaþjónustu á landsbyggðinni er búreikningahald eitt þeirra verkefna sem möguleiki er á að geti staðið undir auknum mannafla. Hér yrði bæði um að ræða störf við skráningu frumgagna og uppgjör reikninga, svo og við leiðbeiningar eftir niðurstöðum reikninganna. Samræmd úrvinnsla fyrir landið allt færi síðan fram á landsvísu hjá hagstofnun landbúnaðarins.
    Samandregið yfirlit um markmið og verkefni hagstofnunar landbúnaðarins má skilgreina á eftirfarandi hátt:
a.     Yfirumsjón og skipulagning búreikningahalds ásamt samræmdri úrvinnslu búreikninga.
b.     Vinnsla hagskýrslna í landbúnaði ásamt ýmiss konar sérverkefnum.
c.     Grunnvinna fyrir verðlagningu búvara.
d.     Stuðla að aukinni notkun búreikninga við rekstrarkannanir og áætlanagerð.
e.     Framkvæmd og umsjón með hagrannsóknum í landbúnaði.
f.     Umsjón með hagrænum leiðbeiningum í landbúnaði
g.     Útgáfustarfsemi.

4.      Röksemdir fyrir fjármögnun hins opinbera á rekstri hagstofnunar landbúnaðarins og hluta í rekstri bókhaldsstofa bænda.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim efnisatriðum sem renna stoðum undir þáttöku hins opinbera hvað varðar fjármögnun hagstofnunar landbúnaðarins.
    Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað innan bændasamtakanna hefur ekki verið rætt mikið um á hvern hátt ríkisvaldið kæmi inn í stjórn og fjármögnun fyrrgreindrar stofnunar. Hér verður reynt að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum og röksemdum sem skjóta stoðum undir þátttöku ríkisins.
    Ríkisvaldið fjármagnar nú þegar og hefur yfirumsjón með margvíslegri gagnaöflun og gagnaúrvinnslu er varðar landbúnaðinn. Má þar til dæmis nefna verkefni hjá eftirfarandi stofnunum:
a.      Búnaðarfélag Íslands. Þar fer fram margvísleg gagnaöflun, t.d. varðandi framkvæmdir samkvæmt jarðræktarlögum, ásetningsskýrslum er safnað þar saman og unnið úr þeim, búfjárskýrsluhald og kynbótastarfsemi er undir umsjón BÍ. og þannig mætti áfram telja.
b.      Búreikningastofa landbúnaðarins. Hún er undir stjórn Búnaðarfélags Íslands en starfar eftir sérstökum lögum. Hennar hlutverk er m.a. að annast skipulagningu og úrvinnslu búreikninga, miðlun á niðurstöðum þeirra og veita verðlagsnefnd búvöru nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt niðurstöðum þeirra.
c.      Framleiðsluráð landbúnaðarins. Fjármögnun þess er ekki á fjárlögum, heldur samkvæmt sérstöku gjaldi á heildsöluverð búvara. Þar fer fram margvísleg gagnaskráning hvað varðar framleiðslu- og sölumál landbúnaðarins. Yfirlit um framleiðslumagn hvers einstaks framleiðanda er fært hjá Framleiðsluráði og sömuleiðis yfirlit um tekjur og gjöld úr kjarnfóðursjóði.
d.      Hagstofa Íslands og Þjóðhagsstofnun sinna ýmiss konar verkefnum og útreikningum er varða landbúnaðinn sérstaklega.
    Almenn rök fyrir þátttöku ríkisvaldsins í leiðbeiningarþjónustu, gagnaöflun og rannsóknum varðandi atvinnuveginn eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi eiga leiðbeiningar, fræðsla og þar með aukin þekking framleiðenda að skila sér í lægra verði til neytenda og betri afkomu framleiðenda. Ljóst er að ef hið opinbera tekur ekki að hluta til þátt í fjármögnun þessara liða þá myndu þeir koma beint inn í verðmyndun búvara.
    Í öðru lagi er gagnaöflun almennt samfélagslegt atriði, grunnupplýsingar um staðreyndir eru nauðsynlegar ýmissa hluta vegna, svo sem í sambandi við tryggingar og skattamál. Í búvörulögum er kveðið á um upplýsingaskyldu hins opinbera við verðlagninguna.
    Í þriðja lagi eru rannsóknir forsenda framfara, bæði þær sem leiða til framþróunar og þær sem fækka mistökum.
    Í fjórða lagi en ekki síst er þáttaka ríkisvaldsins nauðsynlegur þáttur til að gefa niðurstöðum slíkrar stofnunar hlutleysi gagnvart öllum aðilum.
Væri töluleg úrvinnsla eins og hér hefur verið fjallað um einvörðungu á ábyrgð og undir stjórn bændasamtakanna þá væri hætta á því að þeim yrði tekið með ákveðnum fyrirvara um hlutdrægni af hálfu þeirra aðila sem standa hins vegar við borðið. Þetta atriði er afar mikilvægt hvað varðar þann trúnað sem þær niðurstöður fá sem birtast á vegum stofnunarinnar.

5.      Kostnaðaráætlun.
    Ekki verður hér gerð nákvæm grein fyrir væntanlegum kostnaði ríkissjóðs vegna starfrækslu hagstofnunar landbúnaðarins. Þó er ljóst að hann verður tvenns konar:
a.     Beinn rekstarkostnaður hagstofnunar landbúnaðarins á Hvanneyri og
b.     b.     greiðslur til bænda/bókhaldsstofa fyrir afnot af uppgerðum búreikningum.
    Reiknað er með að í upphafi starfi hjá hagstofnun landbúnaðarins þrír háskólamenntaðir starfsmenn og einn ritari, sem í byrjun sinntu uppbyggingu bókhaldsþjónustu í héruðunum, umsjón hagrænna leiðbeininga og úrvinnslu uppgerðra búreikninga. Kostnað vegna þessa, þ.e. a-liðar, má áætla þannig (í þús. kr.):


    Laun ...................         5000
    Önnur gjöld ............         3000
    Stofnkostnaðir 1) .......         1500

1) Tölvubúnaður og skrifstofuáhöld.


    Ef fjöldi þeirra bænda sem nú nýta sér bókhaldsþjónustu á vegum Búreikningastofu og búnaðarsambanda yrði óbreyttur þyrfti að greiða fyrir um 370 reikninga skv. b-lið hér að framan. Þar sem bókhaldsþjónusta í héruðunum er á byrjunarstigi og viðmiðunargjaldskrá hagstofnunar landbúnaðarins er ekki til þá verður að áætla gróft hvað hér sé um háa heildarupphæð að ræ°a. Þeir sem til þekkja telja að hlutur ríkisins í hverjum reikningi gæti numið a.m.k. 10 þús. kr. Þannig má áætla að kostnaður ríkissjóðs yrði um 4.000 þús. kr. vegna greiðslna fyrir uppgerða reikninga.
    Samtals er því kostnaður ríkissjóðs samkvæmt framangreindu á fyrsta ári hagstofnunar landbúnaðarins áætlaður 13.500 þús. kr.
    Á móti kemur í fyrsta lagi beinn sparnaður vegna yfirtöku verkefna Búreikningastofu landbúnaðarins. Einnig er hugsanlegt í öðru lagi að staða hagfræðiráðunauts hjá BÍ. flyttist til hagstofnunar landbúnaðarins og að sparnaður verði í rekstri
búvísindadeildar vegna kennslu í hagfræði. Þess má að lokum geta að kostnaður við rekstur Búreikningastofunnar einnar var tæplega 6 millj. kr. á síðasta ári og er því ljóst að hér er ekki um verulegan kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð, þótt ekki sé tekið tillit til annarrar hagkvæmni af breyttu fyrirkomulagi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin felur í sér ákvörðun um stofnun og starfrækslu hagstofnunar landbúnaðarins, og stjórnskipulega stöðu hennar.
    Tekin er ákvörðun um að aðsetur hagstofnunar landbúnaðarins verði á Hvanneyri og að hún starfi í nánum tengslum við búvísindadeild Bændaskólans þar. Forsendur fyrir þessari staðsetningu eru aðallega tvenns konar: Í fyrsta lagi er ljóst að með breyttum aðstæðum í landbúnaði, samdrætti í helstu greinum hans og harðnandi afkomu vegna t.d. hárra raunvaxta og mikils kostnaðar við fjármagn, ber brýna nauðsyn til þess að efla menntun tilvonandi leiðbeinenda í landbúnaði í hagfræðigreinum. Sé það vilji stjórnvalda að háskólanám í búvísindum fari fram á Hvanneyri, hér eftir sem hingað til, er það mikilvægt atriði að hinn hagræni hluti kennslunnar verði efldur. Það verður ekki gert á annan veg en að gera Hvanneyri að miðstöð hagtölulegrar úrvinnslu, hagrannsókna og hagskýrslugerðar í landbúnaði. Á þann hátt mun samnýting starfskrafta í vinnu fyrir hagstofnun landbúnaðarins og til kennslu við búvísindadeild verða möguleg.
    Í öðru lagi er þessi ákvörðun byggðastefna í framkvæmd. Stofnanir landbúnaðarins eiga tilveru sína undir búsetu á landsbyggðinni. Því er það skylda atvinnuvegarins að flytja þær stofnanir sem mögulegt er frá Reykjavík út á land til að stuðla að eflingu byggðar í dreifbýli.
    Lagt er til að kostnaður við hagstofnun landbúnaðarins greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga. Rökstuðningur fyrir þeirri skipan kemur fram í almennum hluta greinargerðarinnar.
    Ef hagstofnun landbúnaðarins á að sinna því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt frumvarpinu og fyllsta hlutleysis er gætt, þannig að hún hafi trúnað yfirvalda, bænda og neytenda, er eðlilegt að hún verði opinber stofnun.

Um 2. gr.


    Greinin ákvarðar hlutverk hagstofnunar landbúnaðarins.

1. Afkoma stéttarinnar.
    Það er viðurkennt að til þess að gögn um afkomu hinna einstöku atvinnugreina séu marktæk verður vinnsla þeirra að vera framkvæmd af óháðum og opinberum aðilum. Því er það útilokað að einstök hagsmunasamtök eða stofnanir sem eru alfarið á vegum þeirra sjái um þessa vinnu, ef niðurstöðurnar eiga að vera marktækar af hálfu allra þeirra aðila er málið varðar.
    Á vegum hagstofnunar yrði unnið að úttektum á afkomu landbúnaðarins í heild sinni, svo og einstökum greinum hans og niðurstöður þeirra birtar í hagskýrslum landbúnaðarins. Til greina kemur að þessi vinna verði unnin af eða í samstarfi við Þjóðhagsstofnun ef tekst að koma á virku samstarfi við hana. Þar vinnur starfsfólk sem er sérhæft til þessara verka. Á þessum vettvangi er eðlilegt að unnið sé að ýmsum sérverkefnum og úttektum eftir því sem ástæða þykir til. Gera skal ráð fyrir að þessi „sérverkefni“ séu oft fjármögnuð með öðrum hætti en hefðbundinn rekstur.

2. Verðlagning búvara og samningar við ríkisvaldið.
    Opinber verðlagning búvara hefur hingað til að mestu verið bundin við hinar „hefðbundnu“ búgreinar, en þetta hefur breyst verulega á síðustu tímum. Líkur benda til að meiri hluti búvara verði verðlagður af sexmannanefnd ef fer fram sem horfir. Það skiptir ríkisvaldið ekki síður máli en framleiðendur og neytendur að verðlagning búvara sé byggð á vönduðum og marktækum gögnum, þar sem búvöruverð hefur áhrif á þróun framfærslu- og lánskjaravísitölu. Slíkar upplýsingar hljóta að byggjast á bókhaldi frá bændum sem gert er upp eftir ákveðnu samræmdu kerfi.
    Sem stendur ákvarðar sexmannanefnd verð búvara í sex búgreinum, þ.e. framleiðslu mjólkur og nautakjöts, kindakjöts, kartaflna, eggja, kjúklinga og hrossakjöts. Það er því ljóst að ekki verður lengur við það unandi að einungis séu gerðir upp reikningar úr hinum „hefðbundnu“ búgreinum þar sem opinber verðlagning er orðin svo umfangsmikil. Einnig ber á það að minna að æ færri reikningar koma til uppgjörs fyrir hinar hefðbundnu greinar þar sem búskapur verður fjölbreyttari og þeim búum fækkar sem hafa svokallaðan „hreinan“ rekstur.
    Því ber nauðsyn til þess að skipuleggja gagnaöflun um allar greinar landbúnaðarins til að geta staðið undir þeim kröfum sem verðlagningin gerir. Búvörusamningar milli Stéttarsambands bænda og ríkisvaldsins eru mjög
umfangsmiklir og vandasamir, bæði samningsgerðin sjálf, svo og framkvæmd þeirra. Glöggt kom fram við þá samninga sem þegar hafa verið gerðir hve skortur á ýmsum tölulegum upplýsingum varðandi landbúnaðinn háir því að hægt sé að skoða ýmis atriði nánar. Þetta er mikilvægt atriði sem brýnt er að verði betur á vegi statt þegar næst verður sest að samningaborði um verðábyrgð ríkisins á ákveðnu magni landbúnaðarafurða.
    Þess ber að lokum að geta að eftir því sem opinber verðlagning verður umfangsmeiri þeim mun meiri líkur eru til þess að þróunin verði í þá átt að bændasamtökin semji í heild við ríkisvaldið um verð búvara, verðábyrgð ríkisins, styrki, niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur o.fl. þess háttar.

3. Hagrannsóknir í landbúnaði.
    Hagrannsóknir í landbúnaði eru nær óplægður akur hérlendis enn sem komið er. Þegar rætt er um hagrannsóknir í landbúnaði er m.a. verið að tala um rannsóknir er varða fjárfestingar, verðmyndun landbúnaðarafurða, verðlagsþróun, áhrif og mótun framleiðslustjórnunar og annað í þeim dúr. Líklegt er að það fjármagn, sem lagt yrði í hagrannsóknir, mundi skila árangri, sérstaklega þar sem fortíðin er harla döpur hvað þetta snertir. Hér er það enn mikilvægt atriði að mismunandi hagsmunahópar komi inn sem stjórnunaraðilar til þess að hlutleysis verði gætt í meðferð efnis og túlkun niðurstaðna.

4. Fræðslustarf, rekstrarkannanir og áætlanagerð.
    Vegna breyttra aðstæðna í rekstrarskilyrðum landbúnaðarins eru hagfræðileiðbeiningar sá þáttur leiðbeininga sem einna mest þörf er á að auka verulega. Þessari miklu þörf hefur ekki tekist að mæta innan leiðbeiningarþjónustunnar og rannsóknarstarfsemi ekki verið fyrir hendi í faginu og er því brýn þörf úrbóta.
    Þegar rætt er um vaxtarbrodda í leiðbeiningarþjónustu á komandi tímum eru hagfræðileiðbeiningar því sá þáttur sem hefur alla burði til að vaxa verulega að umfangi frá því sem nú er.
    Rekstrarleiðbeiningar og áætlanagerð sem byggjast á nákvæmri úttekt á mikilvægustu forsendum hjá viðkomandi bónda, eru líklega þeir þættir leiðbeiningarþjónustunnar sem hvað skemmst eru á veg komnir. Jafnframt eru allir sammála um að á þessu sviði sé hvað mest þörf fyrir markvisst átak og hraða framvindu mála. Þar sem rök eru fyrir því að ríkið styðji almenna leiðbeiningaþjónustu, þá eru rök fyrir því að ríkið taki fjárhagslegan þátt í uppbyggingu og rekstri þessarar starfsemi, því hér er mikils árangurs að vænta.
    Hlutverk hagstofnunar landbúnaðarins myndi vera forysta á þessum vettvangi, t.d. með úrvinnslu ýmissa gagna úr niðurstöðum búreikninga og gera ráðunautum þannig mögulegt að nýta sér þann fróðleik til leiðbeininga. Einnig að annast leiðbeiningar og menntun í gegnum námskeiðahald og aðra fræðslu og stunda rannsóknir á þessu sviði, svo sem hvað varðar vinnubrögð við hagfræðilegar leiðbeiningar.
    Stofnunin skal að gangast fyrir námskeiðum um búreikningahald og niðurstöður þess ásamt öðru er viðkemur hagrænum málefnum landbúnaðarins í samvinnu við bændaskóla og bændasamtök.
    Einnig er gert ráð fyrir að á vegum hagstofnunar verði um að ræða útgáfustarfsemi af ýmsum toga. Þar er til dæmis um að ræða útgáfu á skýrslum sem unnar eru upp úr niðurstöðum búreikninga um afkomu einstakra búgreina og atvinnuvegarins í heild sinni. Einnig yrðu gefnar út niðurstöður ýmissa sérverkefna. Jafnframt má minna sérstaklega á útgáfu handbókar sem í væru flestar nauðsynlegar upplýsingar og viðmiðunartölur til þess að auðvelda gerð rekstraráætlana í landbúnaði. Hagstofnun landbúnaðarins skal sjá um vinnslu þessarar bókar og gefa hana út árlega.

5. Bókhald bænda.
    Viðurkennt er að ein megin forsenda þess að geta rekið fyrirtæki, búrekstur sem önnur á hagkvæman og arðsaman hátt, er að hafa nákvæmt eftirlit með rekstrinum og yfirsýn yfir tekjur og gjöld.
    Aukin hagkvæmni í rekstri, sem skapast af markvissu eftirliti og stjórn hans, á að skila lægra búvöruverði eins og reynslan sýnir. Viðurkennt hefur verið af stjórnvöldum að þetta sé það mikilvægt atriði að það ásamt fleiru réttlæti opinbera þáttöku í kostnaði við uppgjör búreikninga.
    Við framtíðarskipulagningu bókhalds á vegum bændasamtakanna skal að því stefnt að skráning gagna og uppgjör einstakra reikninga fari fram á vegum búnaðarsambandanna og/eða annarra samtaka þeirra. Þess skal þó getið að ekki skal útiloka þann möguleika að einstakir aðilar geti tekið að sér bókhaldsþjónustu, ef það er gert í samvinnu við og undir eftirliti hagstofnunar. Þeir búreikningar, sem gerðir eru upp á vegum búnaðarsambandanna, verða síðan teknir til samræmdrar úrvinnslu á vegum hagstofnunar.
    Hagstofnun landbúnaðarins skal vera bókhaldsstofum bænda innan handar um leiðbeiningar varðandi bókhald, reikningsskil og uppgjörsreglur. Einnig skal stofnunin taka saman hverju sinni leiðbeiningar varðandi skattskil og breytingar á þeim skattareglum er landbúnaðinum við koma.

6. Samræmd þróun forrita.
    Þróun forrita og annað er viðkemur þróun búreikninga þarf bæði að fylgja kröfum tímans og vera gert á þann hátt að samræmd úrvinnsla geti farið fram án erfiðleika. Tölvuforrit til áætlanagerðar þurfa einnig að hæfa þeim grunngögnum sem fyrir hendi eru og mikilsvert er að héraðsráðunautum séu tryggð aðgengileg og samræmd hjálpartæki við áætlanagerð o.fl. Þessi vinna yrði framkvæmd undir yfirstjórn hagstofnunar í samvinnu við sérfræðinga á vegum bændasamtakanna þar sem mikilvægt er að fyllsta samræmis sé gætt í þessum málum.

Um 3. gr.


    Lagt er til að stjórn hagstofnunar sé skipuð fimm mönnum frá eftirtöldum aðilum með þeim rökum sem hér er greint frá:
a.     Hagfræðiskor búvísindadeildar á Hvanneyri sem vistunar- og samstarfsaðili.
b.     Hagstofa Íslands sem yfirstjórnandi hagtöluöflunar í landinu og samstarfsaðili.
c.     Búnaðarfélag Íslands sem miðstöð leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði.
d.     Þjóðhagsstofnun sem æðsta stofnun hagskýrslugerðar og vinnslu skýrslna um afkomu atvinnuveganna og samstarfsaðili.
e.     Stéttarsamband bænda sem aðili að verðlagssamningum og stéttarfélag bænda.
    Landbúnaðarráðherra skipar stjórnarmenn til fjögurra ára samkvæmt tilnefningum og skipar síðan formann úr röðum stjórnarmanna. Stjórnin velur sjálf varaformann og ritara úr sínum röðum.
    Ljóst er að hlutverki hagstofnunar, ef af verður, er ætlað að spanna yfir það víðfeðmt starfssvið að ekki er hægt að telja eðlilegt að stjórn, rekstur og fjármögnun verði að mestu eða öllu leyti í höndum bændasamtakanna. Hins vegar er jafnljóst að þau verða að hafa umtalsverð áhrif á stjórn og stefnumótun þannig að hægt sé að setja þau verkefni í forgangsröð sem eru mest aðkallandi hverju sinni.
    Í reglugerð sem sett verður við lögin er rétt að kveða nánar um verksvið, starfsreglur og ábyrgð stjórnar.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um hlutverk stjórnar, lágmarksfjölda stjórnarfunda á ári, ábyrgð stjórnar o.fl.
    Í 2. tölul. er gert ráð fyrir að stjórn geri annars vegar tillögur um gjaldskrá fyrir ýmiss konar þjónustu sem stofnunin kann að þiggja greiðslur fyrir og hins vegar viðmiðunargjaldskrá fyrir bókhaldsstofurnar sem þær hafi hliðsjón af við verðlagningu sinnar þjónustu. Í báðum tilfellum skulu gjaldskrárnar staðfestar af landbúnaðarráðherra.
    Gert er ráð fyrir að bókhaldsstofum verði frjálst að innheimta hvort sem er hærra eða lægra gjald fyrir bókhaldsþjónustu en viðmiðunargjaldskrá gerir ráð fyrir þar sem rekstrarmöguleikar þeirra geti verið mismunandi milli héraða.

Um 5. gr.


    Hér er kveðið á um hlutverk forstjóra, ábyrgð hans og verksvið.

Um 6. gr.


    Hér er fjallað um hlutverk og skyldur búnaðarsambanda í uppbyggingu og framkvæmd búreikningahalds meðal bænda með stofnun og starfrækslu bókhaldsstofa fyrir bændur. Þar skulu færðir og gerðir upp búreikningar sem eru bæði ætlaðir til notkunar við leiðbeiningar fyrir viðkomandi bónda svo og til gagnaöflunar fyrir heildina. Á þann hátt er stefnt að því að tryggja að gagnaöflun verði fyrir komið á þann veg sem nauðsynlegt er fyrir einstaklinginn og heildina.
    Einnig er kveðið á um eftirlits- og umsjónarhlutverk hagstofnunar gagnvart nefndum bókhaldsstofum.
    Loks er að finna ákvæði sem kveður á um að bókhaldsþjónustan skuli við það miðuð að bændum sé kleift að halda einkafjárhag sínum utan við bókhald búa sinna. Ástæðan er annars vegar sú að bændur eigi í þessum efnum að búa við sambærilegar aðstæður og almennt tíðkast um aðra atvinnurekendur og hins vegar að talin er þörf á hvatningu til að menn almennt geri sér grein fyrir að rekstur bús er í raun rekstur fyrirtækis þar sem bóndinn þiggur laun og fær arð af eigin fé þegar vel gengur. Þrátt fyrir þetta geta bókhaldsstofur boðið bændum, sem það kjósa, aðstoð við heimilisbókhald og persónuframtal.

Um 7. gr.


    Í greininni er kveðið á um að hagstofnunin skuli greiða bændum/bókhaldsstofum bænda framlag vegna þeirra reikninga sem koma til úrvinnslu hjá henni. Þessar greiðslur skulu inntar af hendi sem þóknun fyrir
framlag bænda og bókhaldsstofa til öflunar hagtalna og vera þáttur í að greiða niður kostnað við uppgjör búreikninga. Framlag þetta er nauðsynlegt sem spor í þá átt að tryggja hagstofnuninni nægjanlega marga búreikninga eða frágengnar vinnuskýrslur. Sömuleiðis er fjárhagslegur grundvöllur bókhaldsstofanna mikilvægt atriði til að starfsemin geti hafist.
    Í reglugerð sem sett yrði við lögin er nauðsynlegt að kveða nánar á um þær kröfur sem gerðar verða til þeirra reikninga sem teknir verða til úrvinnslu.

Um 8. gr.


    Í héruðum og landshlutum þar sem búnaðarsambönd hafa ekki aðstæður eða möguleika til að sjá um uppgjör búreikninga, skal hagstofnun landbúnaðarins vera bændum innan handar um útvegun á aðstöðu og aðstoð við færslu búreikninga. Nauðsyn ber til að hafa atriði sem þetta inni til að tryggt verði eins og frekast er unnt að búreikningar og vinnuskýrslur af landinu öllu fáist til uppgjörs og uppgerðar skýrslur verði fyllilega marktækar fyrir stéttina í heild sinni, svo og að hægt verði að leggja mat á aðstæður bænda alls staðar á landinu.

Um 9. gr.


    Greinin á sér hliðstæðu, t.d. í 4. gr. gildandi laga um Búreikningastofu landbúnaðarins og þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.


    Fordæmi þessarar greinar er að finna í 3. gr. laga um Þjóðhagsstofnun, nr. 54 21. maí 1974.

Um 11. gr.


    Greinin er nýmæli þar sem ekki er gert ráð fyrir reglugerð í gildandi lögum um Búreikningastofu landbúnaðarins.
    Í reglugerð er þörf fyrir nákvæmari skýringar á einstökum atriðum, svo sem tengslum búvísindadeildar og hagstofnunar, verkefnum hagstofnunar, skyldum hennar og réttindum og verksviði stjórnar. Einnig yrði fjallað um nánar um skipan bókhaldsstofa.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.