Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 421 . mál.


Sþ.

781. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu Vínarsamnings um vernd ósonlagsins og Montreal-bókunar um efni sem valda rýrnun á ósonlaginu.

(Lögð fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um vernd ósonlagsins sem gerður var í Vín 22. mars 1985 og bókun um efni sem valda rýrnun á ósonlaginu er gerð var í Montreal 16. september 1987.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Á undanförnum árum hafa áhyggjur manna af því að ósonlagið í lofthjúp jarðar sé að þynnast farið vaxandi. Þótt mjög lítið magn sé af lofttegundunni óson (þrígildu ildi) í efstu lögum lofthjúpsins gegnir hún afar þýðingarmiklu hlutverki fyrir lífríki jarðar þar sem hún stöðvar orkumikla útfjólubláa geislun frá sólinni sem er hættuleg flestum lífverum. Eyðing ósonlagsins hefur því í för með sér aukna útfjólubláa geislun við yfirborð jarðar sem raskað getur lífkeðju lands og sjávar. Aukin geislun af þessu tagi getur valdið alvarlegu heilsutjóni hjá fólki þar á meðal aukinni tíðni húðkrabbameins, veikara ónæmiskerfi og augnskemmdum.
    Ýmis efnasambönd eyða ósoni. Hér er sérstaklega um að ræða svokölluð klórflúorkolefni (CFC), en þau eru einkum notuð í úðabrúsum, kæli- og frystikerfum, harð- og mjúkfroðueinangrun og sem leysiefni í efnalaugum og rafeindaiðnaði. Hér koma einnig við sögu svokallaðir halonar, þ.e. kolefnasambönd sem innihalda bróm og sem einkum eru notuð í slökkvitækjum og brunavarnakerfum. Halonar eru jafnvel skaðlegri fyrir óson en klórflúorkolefni, en notkun þeirra er enn tiltölulega lítil.
    Eyðing ósons af völdum klórflúorkolefna og halona gerist á þann hátt að þessar lofttegundir berast upp í efstu lög lofthjúpsins og umbreyta þar ósoni í venjulegt súrefni sem eigi stöðvar hina skaðlegu geislun. Vísindamenn telja sig hafa mælt þynningu á ósonlagi lofthjúpsins bæði yfir Suðurskautssvæðinu og nú einnig yfir norðurhveli jarðar. Hér er um vandamál að ræða sem krefst tafarlausra aðgerða allra jarðarbúa.
    Á árinu 1985 var gerður í Vín alþjóðlegur samningur um vernd ósonlagsins að tilhlutan umhverfsmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn er stefnumarkandi, hann kveður ekki á um ákveðnar aðgerðir, en mælist til þess að aðildarríkin minnki notkun ósoneyðandi efna eftir fremsta megni. Vínarsamningurinn gerir beinlínis ráð fyrir að gerðar séu sérstakar bókanir við hann. Ein slík bókun, svokölluð Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, var gerð í Montreal 1987. Bókunin tekur til tiltekinna efnasambanda og setur fram reglur um hvernig skuli draga úr notkun þeirra. Efnasamböndin sem bókunin tekur til eru eftirfarandi: Klórflúorkolefnin CFC-11, CFC-12, CFC-113, CFC-114, CFC-115, halon 1211, Halon 1301 og Halon 2402.
    Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur verið til umræðu hætta sú sem af eyðingu ósonlagsins stafar. Norræna ráðherranefndin samþykkti á fundi sínum í Stokkhólmi 7. október 1987 að beita sér fyrir aðgerðum til þess að draga úr notkun ósoneyðandi efna og á aukafundi Norðurlandaráðs, sem haldið var á Helsingjaeyri í Danmörku á síðasta hausti, var samþykkt áætlun sem leggur til að gengið verði hraðar fram í að draga úr notkun ósoneyðandi efna en gert var ráð fyrir í tillögum ráðherranefndarinnar.
    Hinn 20. desember sl. samþykkti ríkisstjórnin, að tillögu Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra, aðgerðir til þess að draga úr notkun ósoneyðandi efna hérlendis. Meðal þessara aðgerða var að Íslendingar gerðust aðilar að alþjóðasamningi þeim og bókun við hann sem þingsályktunartillaga þessi fjallar um. Aðgerðirnar, sem að öðru leyti voru ákveðnar í fyrsta áfanga, voru merking úðabrúsa sem innihalda ósoneyðandi efni og síðan bann við sölu þeirra frá 1. júní á næsta ári. Jafnframt var fjallað um aðgerðir til að minnka notkun slíkra efna í kæli - og frystibúnaði, einangrunarefnum, efnalaugum, slökkvitækjum og víðar. Eftirlit og ráðgjöf á þessu sviði var falin Hollustuvernd ríkisins, Iðntæknistofnun og Vinnueftirliti ríkisins og voru forstöðumenn þessara stofnana skipaðir í sérstaka framkvæmdanefnd með bréfi iðnaðarráðherra dags. 2. febrúar sl.
    Tillögur iðnaðarráðherra voru byggðar á niðurstöðum nefndar, sem starfaði á vegum iðnaðarráðuneytisins, undir formennsku Sigurðar M. Magnússonar forstöðumanns Geislavarna ríkisins, en nefndin fjallaði um notkun ósoneyðandi efna á Íslandi árið 1986 og gerði framkvæmdaráætlun um minnkun notkunar og kostnaðarmat af þeim aðgerðum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að notkun ósoneyðandi efna á árinu 1986 hefði numið um 200 tonnum og taldi hún að kostnaður við að draga úr þeirri notkun um helming næmi 30–40 milljónum króna.

Vínarsamningurinn.
     Samningurinn, sem gerður var í Vín 22. mars 1985, er árangur af viðamiklu alþjóðlegu samstarfi sem eins og áður er sagt er unnið með forustu umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
    Í 2. gr. samningsins er kveðið á um almennar skyldur aðildarríkjanna. Þær eru meðal annars samstarf á sviði rannsókna, að skiptast á upplýsingum, gera lagalegar og aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eyðingu ósonlagsins og að vinna með alþjóðastofnunum sem málið varðar að framkvæmd samningsins og bókana við hann.
    Samkvæmt 3. gr. skuldbinda aðildarríkin sig til þess að hefja eða taka þátt í rannsóknum sem lúta að ósonlaginu á einn eða annan hátt. Til dæmis hvaða efnasambönd hafa áhrif á ósonlagið, hvaða áhrif eyðing ósonlagsins hefur á fólk og hvort eyðing ósonlagsins hafi áhrif á loftslag jarðar.
    Í 4. gr. er kveðið á um að aðildarríkin skuli hvetja til þess að skipst verði á upplýsingum á sviði vísinda, tækni, viðskipta, löggjafar o.fl. Aðildarríkin skulu senda upplýsingar um aðgerðir sem ætlað er að framfylgja samningnum.
    Í 11. gr. er kveðið á um lausn ágreiningsmála. Samkvæmt 3. tölul. þessa ákvæðis er ríkjum heimilt að gefa út sérstaka skriflega yfirlýsingu þegar þau gerast aðilar að samningnum um að þau samþykki lögsögu gerðardóms og/eða alþjóðadómstólsins í Haag í ágreiningsmálum sem kunna að rísa út af samningnum. Sé slík yfirlýsing ekki gefin sérstaklega teljast ríkin ekki viðurkenna lögsögu þessara tveggja stofnana með aðild sinni. Ágreiningsmál verða þá einungis leyst með viðræðum eða fyrir sáttanefnd. Ríkisstjórnin ætlar sér ekki að gefa út sérstaka yfirlýsingu á grundvelli 3. tölul. 11. gr.

Montreal-bókunin.
    Montreal bókunin um efni sem valda rýrnun ósonlagsins var gerð 16. september 1987. Eins og áður getur fjallar hún um tiltekin efni sem valda rýrnun ósonlagsins, en gert er ráð fyrir að fleiri slíkar bókanir kunni að bætast við síðar.
    1. gr. bókunarinnar hefur að geyma hugtaksskilgreiningar og þar er orðið „notkun“ skilgreint sem framleiðsla að viðbættum innflutningi og að frádregnum útflutningi þeirra efna sem bókunin tekur til.
    Í 4. gr. er kveðið á um að banna skuli innflutning frá 1. janúar 1989 á efnum sem bókunin tekur til og eru frá löndum sem ekki eru aðilar. Innan
þriggja ára frá gildistöku bókunarinnar skulu aðildarríkin á grundvelli ákvæða 10. gr. Vínarsamningsins gera viðauka með lista yfir framleiðsluvörur sem innihalda þau efni sem bókunin tekur til. Aðildarríki sem ekki mótmæla viðaukanum sérstaklega skulu innan árs frá því er hann tekur gildi banna innflutning á þessum framleiðsluvörum frá ríkjum sem ekki eru aðilar að bókuninni.
    Samkvæmt 7. gr. skulu ríki senda upplýsingar þremur mánuðum eftir að þau gerast aðilar um notkun þeirra efna sem bókunin tekur til.
    Í 2. gr. er að finna þær skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld taka á sig gerist Ísland aðili að bókuninni:
a.     Á tólf mánaða tímabili, talið frá 1. júlí 1989 og sérhverju síðara tólf mánaða tímabili, skal notkun efna er falla undir flokk I (klórflúorkolefni), í viðauka A, ekki vera meiri en notkunin var árið 1986. (1. tölul.)
b.     Á sérhverju tólf mánaða tímabili frá 1. janúar 1992 skal notkun efna er falla undir flokk II (halónar), í viðauka A, ekki vera meiri en notkunin var árið 1986. (2. tölul.)
c.     Á tímabilinu 1. júlí 1993 – 30. júní 1994 og sérhverju síðara tólf mánaða tímabili skal notkun efna er falla undir flokk I í viðauka A hafa dregist saman um 20% miðað við notkun ársins 1986. (3. tölul.)
d.     Á tímabilinu 1. júlí 1998 – 30. júní 1999 og sérhverju síðara tólf mánaða tímabili skal notkun efna er falla undir flokk I í viðauka A hafa dregist saman um 50% miðað við notkun ársins 1986. Víkja má frá þessu ákvæði ef 2 / 3 hluti aðila samþykkja. (4. tölul.)
    Samkvæmt 2. gr. er heimilt að breyta ákvæðum bókunarinnar að því tilskildu að breytingarnar séu samþykktar með 2 / 3 hlutum atkævða og að aðildarríkin sem samþykki breytingarnar noti a.m.k. 50% þeirra efna sem bókunin tekur til. Til að breyta viðaukum bókunarinnar þarf samþykki 2 / 3 hluta þeirra aðildarríkja sem mætt eru á fundi og greiða atkvæði.
    9. gr. skyldar aðildarríkin til að skila skýrslu á tveggja ára fresti m.a. um hvernig staðið hefur verið að því að koma til almennings vitneskju um þýðingu ósoneyðandi efna fyrir umhverfið og hvernig ríkin hafa uppfyllt skyldu sína um að skiptast á upplýsingum við önnur aðildarríki um málefni sem snerta ósonlagið og eyðingu þess.
    10. gr. fjallar um tæknilega aðstoð í þeim tilgangi að gera öllum ríkjum kleift að gerast aðilar að bókuninni og framkvæma ákvæði hennar.

Framkvæmd samningsins og bókunarinnar hér á landi.
    Þar sem engin ósoneyðandi efni eru framleidd hér á landi leiðir aðild Íslendinga að bókuninni til þess að einungis verður að draga úr notkun þeirra efna er hún tekur til. Notkun verður heimil eins og hér segir:


     Klórflúorkolefni:
         1. júlí 1989–30. júní 1990.     Leyfileg notkun 200 tonn.
         1. júlí 1992–30. júní 1994.     Leyfileg notkun 160 tonn.
         1. júlí 1998–30. júní 1999.     Leyfileg notkun 100 tonn.

     Halónar:
         1. janúar 1992–31. desember 1192.     Leyfileg notkun 14,5 tonn.

    Notkun verður að reikna út í hlutfalli við eyðingarmátt efnanna.
    Ríkisstjórnin mun leggja fram frumvarp til laga á grundvelli 4. gr. Montreal-bókunarinnar þar sem innflutningur á þeim efnum, sem bókunin tiltekur, verður bannaður. Þá hefur ríkisstjórnin skipað sérstaka framkvæmdanefnd um aðgerðir til að draga úr notkun ósoneyðandi efna eins og að framan greinir. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur þegar sett reglugerð um bann við innflutningi á úðabrúsum sem nota klórflúorkolefni sem drifmiðil og um merkingar á úðabrúsum.
    Þessar aðgerðir eru nægileg fyrstu skref í framkvæmd Montreal-bókunarinnar. Næsta skref er að setja reglur um notkun halóna t.d. í slökkvitækjum.



Fylgiskjal.


— REPRÓ Í GUTENBERG —