Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 422 . mál.


Nd.

782. Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta samninga um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs, ásamt viðbótarsamningi við samninginn, sem undirritaðir voru í Ósló 13. maí 1987 og samning um réttarstöðu samnorrænna stofnana og starfsfólks þeirra sem undirritaður var í Stokkhólmi 9. desember 1988. Samningarnir eru birtir sem fylgiskjöl með lögum þessum.

2. gr.

    Er samningar þeir, sem um er rætt í 1. gr., hafa öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði þeirra hafa lagagildi hér á landi. Við gildistöku samnings um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs falla úr gildi lög nr. 92/1973, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um skrifstofur ráðherranefndar Norðurlanda og réttarstöðu þeirra, ásamt viðbótarbókun um skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og réttarstöðu hennar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samningurinn um réttarstöðu skrifstofa ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs var undirritaður í Ósló 13. maí 1987. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal I með lagafrumvarpi þessu.
    Með samningnum er skrifstofunum veitt sjálfstæð réttaraðild með sömu lögaðild og aðrir lögaðilar í landinu þar sem þær eru staðsettar. Jafnframt njóta þær friðhelgi. Í samningnum eru ákvæði um réttarstöðu starfsliðs skrifstofanna, skattgreiðslur, tollfrelsi og lífeyrissjóðsréttindi. Jafnframt eru ákvæði um að fastráðinn ríkisstarfsmaður, sem gegnir tímabundnu starfi á skrifstofunum, fái leyfi frá störfum þann tíma sem ráðningin varir eða allt að átta árum.
    Við gildistöku samningsins fellur úr gildi samningur frá 12. apríl 1973 um skrifstofur ráðherranefndar Norðurlanda og réttarstöðu þeirra, með breytingu frá 22. nóvember 1984, ásamt viðbótarbókun frá 15. maí 1973 um skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og réttarstöðu hennar og viðbótarbókun frá 22. nóvember 1984. Talið er því rétt að lög nr. 92/1973, sem veittu samningnum frá 12. apríl 1973 lagagildi, verði felld úr gildi.
    Samningurinn milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um réttarstöðu samnorrænna stofnana og starfsfólks þeirra var undirritaður af samstarfsráðherrum Norðurlanda 9. desember 1988 í Stokkhólmi. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal II með lagafrumvarpi þessu.
    Samningurinn leysir af hólmi Norðurlandasamning um réttarstöðu starfsfólks við samnorrænar stofnanir sem undirritaður var í Reykjavík 31. janúar 1974.
    Í samningnum er samnorræn stofnun skilgreind og henni veitt sjálfstæð réttaraðild sem og aðrir lögaðilar í landinu þar sem hún hefur aðsetur en í eldri samningnum var aðeins fjallað um réttarstöðu starfsfólks samnorrænna stofnana. Valdsvið samningsins er því mun víðtækara en í samningnum frá 1974.
    Í samningnum er jafnframt gætt samræmis við samning um réttarstöðu skrifstofa ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs.
    Samningurinn nær til 43 norrænna stofnana. Þar af eru tvær staðsettar á Íslandi, þ.e. Norræna húsið og Norræna eldfjallastöðin.
    Með lagafrumvarpi þessu fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestu samningana beggja og veiti þeim lagagildi hér á landi.
    Einstakar greinar frumvarpsins þarfnast ekki nánari skýringar.Fylgiskjal I.


SAMNINGUR


um réttarstöðu skrifstofa ráðherranefndar Norðurlanda


og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs.    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,
    sem eru sammála um að efla norrænt samstarf,
    sem hafa í því augnamiði komið á fót skrifstofu fyrir ráðherranefnd Norðurlanda í Kaupmannahöfn,
    sem gera sér ljóst að stjórnarnefnd Norðurlandaráðs hefur í samræmi við 54. gr. samstarfssamnings Norðurlanda frá 1962 (Helsingforssamningsins) komið á fót skrifstofu í Stokkhólmi,
    sem æskja þess að ákveða réttarstöðu þessara skrifstofa ásamt skyldum málefnum,
    hafa orðið sammála um eftirfarandi:

Gildissvið samningsins.


1. gr.

    Samningur þessi gildir fyrir skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs.

Réttarstaða skrifstofanna.


2. gr.

    Hvor skrifstofa um sig er sjálfstæður réttaraðili með sömu lögaðild og aðrir lögaðilar í landinu þar sem hún er staðsett. Þannig geta þær eignast og látið af hendi fasteignir og lausafjármuni og verið málsaðilar fyrir dómstólum.
    Aðalritarinn eða sá eða þeir sem hann tilnefnir skal koma fram fyrir hönd skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda. Ritari stjórnarnefndarinnar eða sá eða þeir sem hann tilnefnir skal koma fram fyrir hönd skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs.

Friðhelgi og sérréttindi.


3. gr.

    Fasteignir skrifstofanna og aðrar eignir eru undanþegnar hvers kyns aðför stjórnvalda og dómstóla, nema með beinu leyfi ráðherranefndar Norðurlanda eða stjórnarnefndar Norðurlandaráðs hverju sinni.

4. gr.

    Húsnæði skrifstofanna, skjalageymslur og öll skjöl í þeirri eigu eða vörslu skulu vera friðhelg, hvar sem þau eru.
    Varðandi birtingu slíkra skjala gilda þær reglur sem ráðherranefnd Norðurlanda eða stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, eftir því sem við á, setur.

5. gr.

    Bréfaskriftir skrifstofanna og aðrar opinberar tilkynningar má ekki ritskoða og hvað varðar meðferð þeirra skulu þær jafnsettar pósti sendiráða.

6. gr.

    Skrifstofurnar, tekjur þeirra og eignir sem notaðar eru við starfsemina, skulu vera undanþegnar allri beinni skattheimtu.
    Skrifstofurnar skulu einnig vera undanþegnar öllum tollgjöldum og öðrum gjöldum með sömu áhrif af hlutum sem eru fluttir inn eða út vegna starfseminnar.
    Ákvæðin í 1. og 2. mgr. eiga ekki við um skatta eða gjöld sem aðeins varða greiðslu fyrir veitta þjónustu.
    Að öðru leyti gilda fyrir hvora skrifstofu um sig sömu skatta- og gjaldareglur og fyrir sendiráð í landinu þar sem hún er staðsett.

7. gr.

    Ekki er hægt að krefjast skatta af launum og öðrum hlunnindum sem skrifstofurnar greiða starfsliði sínu í föstum stöðum. Þetta gildir einnig um greiðslur sem hafa sömu áhrif og beinir skattar. Skrifstofunum ber skylda til að senda viðkomandi stjórnvöldum samningslandanna skrá yfir það starfslið sem heyrir undir þennan lið.
    Ráðherranefnd Norðurlanda eða stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, eftir því sem við á, setur reglur um skyldur þess starfsliðs sem um getur í 1. mgr. til þess að greiða gjald til skrifstofanna í staðinn fyrir skatt.
    Ráðherranefnd Norðurlanda eða stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, eftir því sem við á, ákveður gjaldið.
    Viðurkenndan frádrátt, sem notaður er við ákvörðun stofns vegna útreiknings gjalds samkvæmt reglum þessa samnings, má ekki jafnframt nota sem frádrátt við skattlagningu innanlands.
    Stjórnvöldum samningslandanna er heimilt að hafa hliðsjón af launum og öðrum hlunnindum starfsliðs þess sem um getur í 1. mgr. við útreikning á
skatti sem samkvæmt löggjöf landsins, samanber tvísköttunarsamning Norðurlanda, er lagður á tekjur frá öðrum aðilum en skrifstofunum.

8. gr.


    Starfslið skrifstofanna og þeir í fjölskyldum þess, sem teljast til heimilisfólks, skulu í starfslandinu vera undanþegin tollum og gjöldum af eignum, þar á meðal ökutækjum, sem ætlaðar eru til persónulegra nota og það hefur með sér vegna starfsins í skrifstofunum.

9. gr.

    Eignir, sem fluttar eru inn toll- og gjaldfrítt skv. 6. eða 8. gr., má aðeins framselja í landinu, þar sem þær hafa notið toll- og gjaldfríðinda, með þeim skilyrðum sem viðurkennd eru af stjórnvöldum þess lands.

Réttarstaða starfsliðsins.


10. gr.

    Ráðherranefnd Norðurlanda eða stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, eftir því sem við á, ákveður starfsskipulag og launa- og starfsskilyrði fyrir starfslið skrifstofanna.

11. gr.

    Hver samningsaðili skuldbindur sig til að veita fastráðnum ríkisstarfsmanni, sem á að gegna tímabundnu starfi í skrifstofunum, leyfi frá störfum þann tíma sem ráðningin stendur og að reikna starfstímann þar eins og starf innt af hendi í heimalandinu.
    Tímabundið starf merkir ráðningu sem ekki varir lengur en átta ár.

12. gr.

    Hvert starfsland skuldbindur sig til að láta starfslið skrifstofanna njóta góðs af ríkislífeyrissjóði í starfslandinu samkvæmt sömu skilyrðum og gilda fyrir samsvarandi stöður í ríkisþjónustu í starfslandinu, svo fremi sem annað er ekki ákveðið með samningi við einstaka starfsmenn.
    Samningur, sem er eða kann að verða gerður milli Norðurlanda um samræmingu réttinda sem aflað hefur verið í ríkislífeyrissjóði eða samsvarandi lífeyrissjóði, skal einnig gilda fyrir starfslið skrifstofanna sem hefur lífeyrissjóðsréttindi í þeim Norðurlandanna sem hafa gerst aðilar að samningnum.
    Um réttindi starfsliðsins til tryggingagreiðslna fer samkvæmt samningi Norðurlanda frá 5. mars 1981 um félagslegt öryggi.

13. gr.

    Um réttindi starfsliðsins gildir að öðru leyti það sem í ráðningarsamningi segir eða ráðherranefnd Norðurlanda eða stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, eftir því sem við á, ákveður.

14. gr.

    Deilur um túlkun eða notkun ráðningarsamnings skulu útkljáðar af sáttanefnd.
    Sáttanefnd skal skipa ef annar deiluaðila krefst þess.
    Sáttanefndin skal skipuð þremur mönnum og tilnefna deiluaðilar sinn manninn hvor, sem í sameiningu tilnefna hinn þriðja, sem verður formaður sáttanefndarinnar.
    Ef deiluaðilar verða ekki ásáttir um tilnefningu þriðja manns skal fara þess á leit við formann þess dómstóls í starfslandinu, sem fer með vinnudeilur, að hann tilnefni þriðja mann.
    Úrskurður sáttanefndar skal vera skriflegur og undirritaður af nefndarmönnum.
    Sáttanefndin ákveður sjálf starfsreglur sínar.
    Ráðherranefnd Norðurlanda eða stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, eftir því sem við á, ákveður þóknun sáttanefndar eftir tillögu frá sáttanefndinni.
    Sáttanefndin ákveður skiptingu kostnaðar hvors deiluaðila um sig af sáttameðferðinni.

Lokaákvæði.


15. gr.

    Samningur þessi öðlast gildi 30 dögum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt norska utanríkisráðuneytinu að hann hafi verið samþykktur.
    Norska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku þessara tilkynninga og um þann dag er samningurinn öðlast gildi.
    Við gildistöku samnings þessa fellur úr gildi samningur frá 12. apríl 1973 um skrifstofur ráðherranefndar Norðurlanda og réttarstöðu þeirra, með breytingu frá 22. nóvember 1984, ásamt viðbótarbókun frá 15. maí 1973 um skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og réttarstöðu hennar og
viðbótarbókun frá 22. nóvember 1984 við samning um breytingu á samningi um skrifstofur ráðherranefndar Norðurlanda og réttarstöðu þeirra, um gildi samningsins um breytinguna fyrir skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og um stöðu hinna ráðnu í sambandi við afturhvarf til starfa í heimalandi sínu.

16. gr.

    Samningsaðili getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu þess efnis til norska utanríkisráðuneytisins sem tilkynnir þá öðrum samningsaðilum um móttöku slíkrar tilkynningar og um efni hennar.
    Uppsögn tekur aðeins til þess aðila sem að uppsögninni stendur og tekur gildi sex mánuðum eftir að norska utanríkisráðuneytinu barst tilkynning um uppsögnina.

17. gr.

    Frumrit samnings þessa skal varðveitt í norska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum samningsaðilum staðfest afrit af því.

    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar, sem til þess höfðu fullt umboð, undirritað samning þennan.
    Gjört í Ósló hinn 13. maí 1987 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og skulu allir textar jafngildir.

VIÐBÓTARSAMNINGUR


við samning um réttarstöðu skrifstofa ráðherranefndar Norðurlanda


og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs.    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,
    sem hafa í dag gert samning um réttarstöðu skrifstofa ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs,
    hafa orðið sammála um eftirfarandi:

1. gr.

    Samningsaðilar munu við mat í sambandi við starfstíma í ríkisþjónustu telja ráðningartíma á skrifstofunum til sérstakrar starfshæfni, þannig að löndin geti nýtt sér til hins ýtrasta þá innsýn í og reynslu af norrænni samvinnu sem starfsmennirnir öðlast við að gegna störfum hjá skrifstofunum.
    Samningsaðilar eru sammála um að mæla með því við aðra vinnuveitendur að þeir veiti starfsmönnum leyfi til að starfa við skrifstofurnar með sömu kjörum og ríkisstarfsmenn í samræmi við réttarstöðusamninginn.
    Samningsaðilar munu veita þeim starfsmönnum, sem lokið hafa starfi hjá norrænni skrifstofu, aðstoð, innan ramma gildandi lagareglna og stjórnvaldsákvæða, við að fá starf hjá ríkinu eða öðrum aðilum í heimalandi sínu.

2. gr.

    Samningur þessi öðlast gildi sama dag og samningur um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs tekur gildi.

3. gr.

    Frumrit viðbótarsamnings þessa skal varðveitt í norska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum samningsaðilum staðfest afrit af því.

4. gr.

    Þessum viðbótarsamningi má segja upp í samræmi við ákvæði 16. gr. samnings um réttarstöðu skrifstofa ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs. Verði samningnum sagt upp fellur viðbótarsamningur þessi sjálfkrafa úr gildi.

    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar, sem til þess höfðu fullt umboð, undirritað viðbótarsamning þennan.
    Gjört í Ósló hinn 13. maí 1987 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og skulu allir textar jafngildir.


Fylgiskjal II. – REPRÓ Í GUT.