Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 430 . mál.


Ed.

790. Frumvarp til lagaum Félagsmálaskóla alþýðu.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)1. gr.

    Á vegum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja starfar skóli er nefnist Félagsmálaskóli alþýðu. Menningar- og fræðslusamband alþýðu fer með málefni skólans.

2. gr.

    Hlutverk skólans er að mennta fólk úr samtökum launafólks með það fyrir augum að efla sjálfstraust þess, þroska og hæfni til þess að vinna að bættum lífskjörum verkalýðsstéttarinnar.

3. gr.

    Félagsmálaskóli alþýðu skal veita fræðslu um hina íslensku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og viðfangsefni hennar, sögu, skipulag, starfshætti og stefnu. Veita skal fræðslu á sviði félagsfræði og hagfræði auk meginatriða íslenskrar félagsmálalöggjafar.
    Heimilt er að veita fræðslu í almennum námsgreinum, svo sem stærðfræði, íslensku og erlendum tungumálum.
    Leggja skal áherslu á þjálfun nemenda í að setja fram hugsanir sínar í ræðu og riti og að gera þá færa um að taka að sér trúnaðarstörf í þágu verkalýðshreyfingarinnar. Félagsmálaskóli alþýðu starfar allt árið. Starfið fer fram í formi námsanna og námskeiða.
    Starfsemi skólans fer fram í húsakynnum hans eða annars staðar, eftir því sem þörf krefur og henta þykir.
    Nám í Félagsmálaskóla alþýðu skal metið til áfanga í framhaldsnámi, eftir því sem við á.
    Nánari ákvæði um námsefni og námstilhögun skulu sett í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni tillögu skólanefndar.

4. gr.

    Heimilt er að ákveða í reglugerð að tiltekinn aldur sé skilyrði fyrir þátttöku í námskeiði eða námsönn, svo og að nemandi sé félagi í stéttarfélagi og hafi tekið þátt í öðru tilteknu námi.

5. gr.

    Félagsmálaráðherra skipar sjö menn í skólanefnd til fjögurra ára og skulu fjórir nefndarmenn tilnefndir af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, einn af Alþýðusambandi Íslands, einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja en einn skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Tilnefningaraðilar greiða þóknun og annan kostnað vegna starfa fulltrúa sinna í skólanefnd.
    Formaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu er formaður skólanefndarinnar. Skólanefndin kýs úr sínum hópi varaformann og ritara. Skólanefnd ræður skólanum skólastjóra.

6. gr.

    Skólanefnd og skólastjóri ákveða námsframboð með samþykki félagsmálaráðuneytisins.
    Nánar skal kveðið á um verksvið skólanefndar í reglugerð.

7. gr.

    Skólastjóri stjórnar daglegum rekstri og starfi skólans og gætir þess að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma og ber ábyrgð á að fylgt sé fjárhagsáætlun skólans. Skólastjóri ræður annað starfslið skólans í samráði við skólanefnd.
    Skólastjóri situr fundi skólanefndarinnar með málfrelsi og tillögurétti.

8. gr.

    Um fjárveitingar til Félagsmálaskóla alþýðu gildir eftirfarandi:
    a. Rekstrarkostnaður skólans skal greiddur að fullu úr ríkissjóði, annar en rekstrarkostnaður heimavistar sem greiðist 80%.
    b. Stofnkostnaður kennsluhúsnæðis, sem byggt verður eftir gildistöku laga þessara, skal greiddur að 80% úr ríkissjóði og skal hið sama gilda um heimavist.
    Þó skal framlag ríkissjóðs samkvæmt a- og b-liðum hér að framan miðast að hámarki við kostnað í ríkisskólum á framhaldsskólastigi.
    Eignaraðilar skulu gera með sér samning um skiptingu annars rekstrar- og stofnkostnaðar.
    Skólanefnd undirbýr árlega ásamt skólastjóra tillögur til fjárlaga og sendir þær félagsmálaráðuneyti. Í upphafi hvers árs gerir skólanefnd fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgist með að henni sé framfylgt. Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga svo sem innritunargjöld, efnisgjöld og pappírsgjöld. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar og um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur.
    Skilyrði fyrir fjárveitingu til rekstrar er að félagsmálaráðuneyti samþykki árlega áætlanir um rekstrarkostnað.
    Framlög til stofnkostnaðar greiðast eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum, enda liggi áður fyrir samþykki stjórnvalda fyrir nýjum byggingarframkvæmdum þegar um þær er að ræða.
    Nú er skóli þessi lagður niður eða svo fer, að ekki er hagnýtt í þágu skólans skólahúsnæði hans, hvort sem er til kennslu eða heimavistar, og fær ríkið þá eignarráð yfir hlutaðeigandi húsnæði í samræmi við stofnkostnaðarframlög sín. Ef ágreiningur verður um eignaskiptingu skal dómkveðja þrjá óvilhalla menn til þess að kveða á um skiptinguna og er úrskurður þeirra endanlegur.
    Stofnkostnaðar- og rekstrarreikningur skal gerður í febrúarmánuði og sendur ásamt fylgiskjölum Ríkisendurskoðun til endurskoðunar.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem ríkisstjórnin samþykkti að skipa að tillögu félagsmálaráðherra. Í starfshópnum, sem var skipaður 15. nóvember 1988, áttu sæti: Helgi Guðmundsson, tilnefndur af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, Karl Steinar Guðnason, tilnefndur af þingflokki Alþýðuflokksins, Ragnar Arnalds, tilnefndur af þingflokki Alþýðubandalagsins, Þóra Hjaltadóttir, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokksins og Gylfi Kristinsson, skipaður formaður án tilnefningar.
    Hinn 20. janúar 1989 skipaði félagsmálaráðherra, að ósk BSRB, Sigurveigu Sigurðardóttur til setu í starfshópnum. Helgi Guðmundsson gegndi starfi ritara hópsins.
    Málefni því, sem frumvarp þetta tekur til, hefur oft verið hreyft áður. Dæmi um þetta er frumvarp um Félagsmálaskóla alþýðu sem lagt var fyrir 94. löggjafarþingið 1973. Það frumvarp var eigi útrætt. Annað hliðstætt frumvarp var lagt fram á 100. löggjafarþinginu 1978. Það hlaut sömu örlög og hið fyrra og varð ekki afgreitt.
    Það frumvarp sem nú er lagt fyrir Alþingi er að stofni til byggt á frumvörpunum frá árunum 1973 og 1978. Þó hafa verið gerðar á því nokkrar veigamiklar breytingar sem gerð er grein fyrir síðar í athugasemdum þessum.
    Eins og í fyrri frumvörpum er gert ráð fyrir að stofnaður verði Félagsmálaskóli alþýðu. Markmiðið með stofnun skólans er að skapa starfandi og verðandi forustumönnum samtaka launafólks, áhugamönnum um störf verkalýðshreyfingarinnar og hverjum félaga hennar sem njóta vill möguleika til haldgóðrar fræðslu í þeim greinum sem tengdastar eru starfi alþýðusamtakanna.
    Í athugasemdum og greinargerðum með fyrri frumvörpum hefur verið vakin athygli á þeirri skyldu þjóðfélagsins við verkalýðsstéttina að veita henni tækifæri til þeirrar fræðslu sem henni er nauðsynleg til þess að geta rækt félagslegt hlutverk sitt, eflt samtök sín og þroska. Þessi skylda hefur þegar hlotið viðurkenningu í verki víða um lönd, svo sem í Bretlandi og meðal frændþjóða okkar annars staðar á Norðurlöndum þar sem fullorðinsfræðsla á sér langa hefð. Það sem greinir Ísland frá öðrum Norðurlöndum í þessu efni er umfangið og fjárveitingar hins opinbera, en hvort tveggja er mum minna hér á landi. Þátttakendur greiða í flestum tilfellum ekkert fyrir námið og í undantekningartilvikum meira en þriðjung kennaralauna. Í Svíþjóð eru í gildi lög um launuð námsfrí og til stendur að setja svipuð lög í Danmörku. Þess ber að geta að þrátt fyrir að slík lög gildi ekki í Danmörku, Finnlandi og Noregi eiga fjölmennir hópar fólks á vinnumarkaði kost á fræðslu á fullum launum í þeim löndum.
    Samtök launafólks á Norðurlöndum hafa með höndum umfangsmikla fræðslustarfsemi. Þau eiga og reka fjölda skóla og fræðslusetra af ýmsu tagi. Þar að auki eiga flest atvinnugreinasambönd einn eða fleiri skóla og fræðslusamböndin enn aðra. Menntunarframboð fyrir félaga í verkalýðshreyfingunni stendur því á gömlum merg og hefur hlotið almenna viðurkenningu af hálfu samfélagsins í því formi að til hennar renna árlega háar upphæðir úr sameiginlegum sjóðum.
    Lýðháskólar eru mikilvægur hluti fullorðinsfræðslu og hafa starfað í meira en 100 ár. Segja má að skólastarf verkalýðshreyfingarinnar standi að nokkru leyti á grunni lýðháskólahugmynda en skólar hennar hafa verið aðlagaðir nýjum
aðstæðum og breyttum tímum. Til að skýra þetta nánar má taka sem dæmi skóla norska Alþýðusambandsins á Sörmarka rétt fyrir utan Ósló.
    Starf skólans er tvískipt. Í fyrsta lagi lýðháskóli sem starfar í tveimur önnum. Fyrri önnin stendur í sex vikur. Á hverjum vetri eru þrjár slíkar annir. Síðari önnin stendur í átta vikur og er ein á hverjum vetri.
    Námsefni fyrri annarinnar fjallar fyrst og fremst um innra starf verkalýðshreyfingarinnar en síðari önnin er að mestu helguð hinu norska samfélagi almennt. Samtals er þessi starfsemi talin um 15% af allri starfsemi skólans. Leiðbeinendur eru að hluta til fastráðnir leiðbeinendur skólans en að stærstum hluta aðkomufyrirlesarar, flestir úr verkalýðshreyfingunni.
    Hinn hluti starfseminnar eru margvísleg námskeið sem flest standa í eina viku. Hin ýmsu landssambönd stéttarfélaga ákveða námsefnið á um 60% námskeiðanna en fræðslusambandið ákveður námsefni á um fjórðungi námskeiða sem koma fyrst og fremst minni samböndunum til góða.
    Meðalaldur nemenda er um 35 ár. Meðan á skólavistinni stendur geta nemendur valið um að fá helgarfrí eða fá fjölskyldurnar til sín. Skólinn rekur barnaheimili fyrir börn nemenda og starfsfólks.
    Nýlega er lokið við miklar endurbætur og viðbyggingar við skólann sem áætlað var að kostuðu um 40 milljónir norskra króna.
    Á öllum Norðurlöndunum er talið að nú séu starfandi um 400 lýðháskólar, u. þ.b. 85 í Danmörku, 90 í Finnlandi og Noregi og nokkuð á annað hundrað í Svíþjóð. Það er sameiginlegt með starfsemi skólanna að hið opinbera fjármagnar nærri alla starfsemina án þess að skipta sér að marki af rekstri þeirra. Eigendur þeirra eru fjölmörg félagasamtök af ólíku tagi, m.a. samtök launafólks. Eigendurnir ráða í aðalatriðum námsefninu þó innan þess ramma sem skilyrði til fjárveitinga frá hinu opinbera setja.
    Ekki liggja fyrir jafn haldgóðar upplýsingar um slíka starfsemi í öðrum löndum Evrópu. Þó er vitað að í Þýskalandi, Benelúx-löndunum og Frakklandi á fullorðið fólk marga kosti til menntunar og samtök launafólks reka umfangsmikla fræðslustarfsemi með styrk samfélagsins, ekki síst í Sambandslýðsveldinu Þýskalandi. Í Englandi eru einnig skólastofnanir sem helga sig málefnum verkalýðssamtaka. Má þar nefna Ruskin college sem enn starfar 80 árum eftir að einn af frumkvöðlunum að stofnun Alþýðusambands Íslands, Jónas Jónsson frá Hriflu, stundaði þar nám.
    Hér á landi hafa samvinnuhreyfingin og samtök í verslun og viðskiptum rekið skóla með tilstyrk ríkisvaldsins um áratugi. Kirkjan á einnig sína menntastofnun í Skálholti. Það sýnist því eðlilegt þegar liðin eru meira en
100 ár frá upphafi stéttarsamtaka í landinu að helstu samtök launafólks eigi sér menntastofnun er njóti sambærilegs styrks frá hinu opinbera.
    Bent hefur verið á margvísleg rök sem mæla með öflugum stuðningi hins opinbera við skólahald alþýðusamtakanna. Þar vega ef til vill þyngst sífellt flóknari samningar aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör. Samningagerð þeirra er nú orðið vandasamt verkefni sem krefst mikillar þekkingar, jafnt á högum þeirra sem hún snertir hverju sinni, sem og á félagsmálalöggjöf þjóðarinnar, svo sem vinnulöggjöf, löggjöf um öryggi og hollustu á vinnustöðum á sjó og landi, trygginga og skattalöggjöf og rekstri atvinnuveganna og þjóðarbúsins í heild. Enn fremur er nauðsynleg þekking á alþjóðasamþykktum og tillögum um vinnumál sem hafa verið afgreiddar af ýmsum alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að.
    Fleiri atriði hníga í sömu átt. Undanfarna áratugi hafa orðið miklar breytingar á atvinnulífinu í heiminum og bendir margt til þess að þær verði örari í nánustu framtíð. Mannaflinn hefur færst frá hefðbundnum framleiðslugreinum til þjónustustarfa. Vélvæðing, sjálfvirkni og breytt verkskipulag hafa það í för með sér að mörg störf taka miklum breytingum eða úreldast og ný störf taka við sem gera aðrar kröfur til starfsfólks. Þekking og færni úreldist, kunnátta sem áður var mikils metin verður einskis virði; í öðrum starfsgreinum er hins vegar krafist æ meiri fræðilegrar kunnáttu. Gjörbreytt viðhorf til samskipta stjórnenda og starfsmanna og réttur starfsfólks til að hafa áhrif á vinnuumhverfi sitt krefjast þess að samtök launafólks haldi vöku sinni í fræðslumálum.
    Við samningu þessa lagafrumvarps var höfð hliðsjón af lögum um hliðstæða skóla og hér er gert ráð fyrir að stofna. Þau helstu eru lög nr. 51/1976, um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi, og lög nr. 31/1977, um Skálholtsskóla. Í þessum lögum er viðurkennd skylda ríkisins til að styðja fræðslu á vegum starfsstétta og að styrkja menntun sem byggir á grundvelli kristinnar kirkju. Einnig hefur verið tekið tillit til ákvæða l. nr. 57/1988, um framhaldsskóla, einkum að því er varðar hlutverk og ábyrgð skólanefndar og skólastjóra.
    Frumvarpið byggir einnig á þeirri reynslu sem verkalýðshreyfingin hefur aflað frá árinu 1975 með starfrækslu Félagsmálaskóla alþýðu. Sá rekstur hefur verið á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu. Á því er ekki vafi að tilvist þessa skóla hefur markað heillarík spor í þágu verkalýðsreyfingarinnar. Því er hins vegar ekki að leyna að fjárhagsgrundvöllur skólans hefur verið mjög veikur og hefur það komið í veg fyrir að skólinn næði þeim vexti sem nauðsynlegur er. Því er lagt til í þessu frumvarpi að ríkissjóður kosti rekstur og byggingarframkvæmdir skólans eftir sömu reglum og gilda um Skálholtsskóla, Verslunarskólann o.fl.
    Við samningu frumvarpsins hefur einnig verið reynt að sníða af vankanta sem ýmsir þóttust sjá á fyrri frumvörpum um sama efni. Um þetta er fjallað nánar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein kemur fram að Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja standa að Félagsmálaskóla alþýðu. Hér er um að ræða breytingu frá fyrri lagafrumvörpum sama efnis en í þeim var gert ráð fyrir að skólinn starfaði á vegum ASÍ. Nú hefur samkomulag tekist á milli ASÍ og BSRB um samvinnu um þetta mikilvæga verkefni en samanlagt hafa þessi samtök u. þ. b. 80 þúsund félagsmenn.
    Einnig kemur fram í greininni að Menningar- og fræðslusamband alþýðu fari með málefni skólans í umboði þeirra aðila sem að honum standa. Þetta ákvæði byggist á eindreginni ósk þeirra og þeim rökum að MFA hefur nú orðið 20 ára reynslu af fjölbreyttu fræðslustarfi fyrir félagsmenn verkalýðsfélaga. Þar á meðal er starfræksla Félagsmálaskóla alþýðu sem hóf starfsemi árið 1975. Skólinn hefur verið verkalýðsskóli fyrir félagsmenn Alþýðusambands Íslands. Auk almennrar félagsmálakennslu hefur verið fjallað um ýmis þau málefni sem tengjast stéttarfélögum, svo sem vinnurétt, skipulag, starf og sögu ASÍ, þætti úr hagfræði, launakerfi o.fl. Annir skólans hafa verið þrjár, í tvær vikur hver. Nemendur eru fyrst á 1. önn, síðan á 2. önn og loks á 3. önn þegar þeim hentar. Leiðbeinendur hafa verið úr röðum samtaka launfólks eða utanaðkomandi aðilar. Skólastarfið hefur farið fram í Ölfusborgum og hafa verið haldnar fjórar til fimm annir á vetri. Hámarksfjöldi á hverri önn hefur verið miðaður við 25 nemendur. Auk þessara anna hefur skólinn boðið upp á námskeið á afmörkuðum sviðum, svo sem í tölvunotkun, námskeið ætluð yngri aldurshópum innan verkalýðshreyfingarinnar, námskeið um útgáfumál o.fl. Gert er ráð fyrir að skólahald sem byggist á frumvarpi þessu verði með svipuðu sniði. Þess skal getið að stjórn MFA er skipuð sjö mönnum sem kosnir eru af þingi Alþýðusambands Íslands. Tekjur fræðslusambandsins eru ferns konar: 1. Gjöld frá verkalýðsfélögum í ASÍ sem eru 10% af árgjöldum þeirra til sambandsins. 2. Framlag úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum ár hvert. 3. Tekjur af sölu fræðslurita sem MFA gefur út. 4. Þátttökugjöld nemenda.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um hlutverk skólans. Fram kemur að það felst í að mennta
fólk úr samtökum launafólks. Markmiðið er að efla sjálfstraust þess, þroska og hæfni til þess að bæta lífskjör verkafólks.
    Í fyrri frumvörpum hefur verið bent á þá tvímælalausu skyldu þjóðfélagsins við verkalýðsstéttina að veita henni tækifæri til þeirrar fræðslu sem henni er nauðsynleg til að geta rækt félagslegt hlutverk sitt. Þessi rök eru enn í fullu gildi.

Um 3. gr.


    Í greininni er fjallað um námsgreinar sem kenna á í skólanum. Um er að ræða hliðstætt námsefni og er kennt í núverandi Félagsmálaskóla alþýðu og gerð hefur verið grein fyrir í athugasemdum við 1. gr.
    Í næstsíðustu málsgrein er tekið fram að nám í skólanum skuli meta eftir því sem við eigi sem áfanga í framhaldsnámi. Þetta þýðir að óhjákvæmilegt er að hafa nokkurt samráð við forsvarsmenn framhaldsskólastigsins við val á námsefni.
    Í síðustu málsgrein er tekið fram að skólanefnd leggi tillögur að reglugerð fyrir félagsmálaráðherra en endanleg ákvörðun um efnisatriði liggur hjá ráðherra.

Um 4. gr.


    Þessi grein fjallar um þau skilyrði sem sett eru fyrir þátttöku í námi í Félagsmálaskóla alþýðu. Um er að ræða tvö almenn skilyrði, þ.e. aldur og aðild að stéttarfélagi. Í greininni felst efnisbreyting frá fyrri frumvörpum þar sem tiltekinn aldur var gerður að skilyrði fyrir skólavist eða þátttöku í starfi skólans. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að heimilt sé að setja slíkt skilyrði í reglugerð. Sama á við um aðild að stéttarfélagi. Ein af ástæðunum fyrir þessari breytingu er sú að talið er rétt að halda opinni þeirri leið að bjóða fólki, sem er tímabundið utan vinnumarkaðar eða sem á í erfiðleikum með að fá vinnu og ekki er í verkalýðsfélagi, þátttöku í námi á vegum skólans. Hér koma m.a. til álita þeir sem hafa verið heimavinnandi eða nemendur í framhaldsskólum sem gætu átt möguleika á að taka málefni verkalýðshreyfingarinnar sem valgrein í Félagsmálaskóla alþýðu.
    Hins vegar er rétt að leggja áherslu á mikilvægi þess að skólinn geti sett sem skilyrði fyrir inngöngu að nemendur hafi starfað á almennum vinnumarkaði og tekið þátt í störfum stéttarfélags. Að öllu jöfnu er það forsenda þess að hægt sé að tileinka sér námið með virkum hætti.
    Loks þykir rétt að gera það að skilyrði fyrir þátttöku í síðari námsönnum að fyrri áföngum sé lokið með fullnægjandi árangri.

Um 5. gr.


    Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að Félagsmálaskóli alþýðu heyri stjórnskipulega undir félagsmálaráðuneytið og að félagsmálaráðherra skipi honum skólanefnd. Þessi háttur er talinn eðlilegur með hliðsjón af 4. gr. reglugerðar nr. 96/1969 um Stjórnarráð Íslands. Í greininni er m.a. kveðið á um það að félagsmálaráðuneytið hafi til meðferðar vinnu, þar á meðal stéttarfélög launafólks og atvinnurekenda. Enn fremur er gert ráð fyrir margvíslegum afskiptum félagsmálaráðuneytisins af vinnumálum og samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins í IX. kafla laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála. Með tilliti til þeirra umræðna sem áttu sér stað um fyrri frumvörp um þetta málefni kom til álita að skólinn heyrði til verksviðs menntamálaráðuneytisins en eðli málsins samkvæmt var komist að þeirri niðurstöðu að réttara væri að hann heyrði undir félagsmálaráðuneytið.
    Í greininni kemur einnig fram að skólanefndina skipi sjö menn og jafnmargir til vara. Af þeim skuli fjórir tilnefndir af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, einn af Alþýðusambandi Íslands, einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja en einn skal skipaður án tilnefningar. Hér er breyting frá fyrri frumvörpum sem gerðu ráð fyrir þriggja manna skólanefnd.
    Síðasta málsgrein greinarinnar fjallar um það að formaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu skuli gegna formennsku og er þá gert ráð fyrir að hann sé í hópi þeirra fjögurra fulltrúa sem fræðslusambandið tilnefnir. Að öðru leyti kjósi skólanefnd úr sínum röðum varaformann og ritara. Loks er tekið fram að skólastjóri sé ráðinn af skólanefnd.

Um 6. gr.


    Í fyrri lagafrumvörpum hefur hlutverk skólanefndar einungis verið lítillega skilgreint. Þetta er hins vegar gert í greininni og er í öllum megin atriðum stuðst við ákvæði í 8.gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, með þeirri undantekningu að fjallað er um afskipti skólanefndar af fjármálum í 8.gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að skólanefnd og skólastjóri ákveði í upphafi hvers árs námsmagnið með samþykki félagsmálaráðherra en geti síðar lagað námsframboðið að eftirspurn.

Um 7. gr.


    Það sama gildir um þessa grein og 6.gr. Hlutverk skólastjóra hefur lítt verið skilgreint í fyrri frumvörpum og er því ákvæði greinarinnar nýmæli sem styðst við hliðstætt ákvæði í 9. gr. laga um framhaldsskóla.

Um 8. gr.


    Í greininni er fjallað um fjárveitingar til skólans og er það svipað ákvæðum í lögum nr. 51/1976, um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi, og l. nr. 31/1977, um Skálholtsskóla. Í báðum þessum lögum er gert ráð fyrir því að rekstrarkostnaður skuli greiddur að fullu, annar en rekstrarkostnaður heimavistar þar sem hennar er þörf, en til hennar skal veitt fjárveiting er nemur 80% af kostnaði. Einnig er tekið fram að stofnkostnaður kennsluhúsnæðis skuli greiddur úr ríkissjóði að 80% og skuli það sama gilda um heimavist þar sem hennar er talin þörf. Þess skal getið að auk Skálholtsskóla gilda sömu reglur um Samvinnuskólann og Verslunarskóla Íslands.
    Í þriðju málsgrein er gert ráð fyrir því að Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja geri með sér samning um skiptingu annars rekstrar og stofnkostnaðar.
    Verði skólinn lagður niður skulu eignarráð á því húsnæði sem hann kann að hafa til umráða færast til ríkisins í samræmi við stofnkostnaðarframlög þess. Komi upp ágreiningur um eignaskiptingu skal dómkveðja þrjá óvilhalla menn til þess að kveða á um skiptinguna. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við hliðstætt ákvæði í lögum um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi.
    Áætlaður árlegur stofn- og rekstrarkostnaður er talinn verða 27.715.000 kr. og er miðað við áætlun um starfsemi skólans sem gerð er grein fyrir í fylgiskjali I. Í fylgiskjali II kemur fram nánari sundurliðun á kennslukostnaði og kostnaði vegna heimavistar.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar en þess er þó vert að geta að ekki kemur til fjárveitinga til skólans samkvæmt lögum þessum fyrr en á fjárlagaárinu 1990, þar sem fjárveitingar og starfsemi skólans á yfirstandandi ári hafa þegar verið ákveðnar.


    Sjá fylgiskjöl 1 og 2 í prentuðu þingskjali.