Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 432 . mál.


Nd.

792. Frumvarp til lagaum endurbætur og framtíðaruppbyggingu forsetasetursins á Bessastöðum.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)1. gr.

    Fyrir árslok 1990 skal lokið viðgerðum og endurbyggingu á Bessastaðastofu. Viðgerð og endurbyggingu annarra húsa, aðliggjandi Bessastaðastofu, skal lokið fyrir árslok 1991.
    Þegar við gildistöku laga þessara skal gerð áætlun um framkvæmdir skv. 1. mgr. þessarar greinar. Þeirri áætlun skal lokið fyrir 1. júlí 1989.
    Á árinu 1989 er heimilt að verja allt að 45 millj. kr. úr ríkissjóði til verkefna samkvæmt þessari grein.

2. gr.

    Gerð skal heildaráætlun um nýtingu lands og uppbyggingu mannvirkja á Bessastöðum fyrir árslok 1990.
    Til þessa verkefnis er heimilt að verja allt að 5 millj. kr. úr ríkissjóði á árinu 1989.

3. gr.

    Uppbyggingu og viðgerðum annarra mannvirkja en þeirra, sem 1. gr. tekur til, skal lokið innan sex ára frá gildistöku þessara laga.

4. gr.

    Forsætisráðherra skipar nefnd þriggja manna er annast undir yfirstjórn ráðuneytisins áætlanagerð samkvæmt lögum þessum. Nefndin skal með sama hætti sjá um framkvæmdir samkvæmt lögum þessum og gera fjárhagsáætlanir við undirbúning fjárlagagerðar.

5. gr.

    Framkvæmdaáætlun ásamt fjárhagsáætlun fyrir verkið í heild og greinargerð
um framvindu verksins og áfallinn kostnað skal árlega lögð fyrir Alþingi við gerð fjárlaga uns framkvæmdum er lokið.

6. gr.

    Allur stofn- og viðhaldskostnaður samkvæmt lögum þessum skal færast sem sérstakur liður í A-hluta fjárlaga og ríkisreiknings.

7. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að 50 millj. kr. innan lands á árinu 1989 til þess að mæta kostnaði samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á vegum forsetaembættisins og forsætisráðuneytisins er nú unnið að því að gera áætlun um endurbætur og framtíðaruppbyggingu forsetasetursins á Bessastöðum. Í desember 1987 skipaði forsætisráðherra sex manna nefnd til þess að gera tillögur til forsætisráðuneytisins um þessi mál og er formaður hennar Matthías Á. Mathiesen alþingismaður.
    Forseti Íslands bauð fjárveitinganefnd til Bessastaða 15. mars sl. til að skoða ástand húsakosts forsetaembættisins. Að skoðun lokinni var það samdóma álit fjárveitinganefndarmanna, sem þar voru, að nauðsynlegt væri að gera sérstakt átak í því að koma húsum að Bessastöðum í viðunandi ástand.
    Í för fjárveitinganefndar að Bessastöðum kom fram sú skoðun að ef hefja ætti framkvæmdir við endurbyggingu staðarins yrði að gera það á skömmum tíma. Í fjárlögum þessa árs er áætlun fyrir viðhaldsframlagi að fjárhæð 12 millj. kr. og er nú þegar búið að ráðstafa um 8 millj. kr. til verkefna sem tengjast núverandi framkvæmdum á staðnum, þannig að ekki eru neinir fjármunir til að hefja endurbyggingu staðarins miðað við fyrirliggjandi áform án aukafjárveitinga á þessu ári. Hins vegar þótti öllum heldur verri kostur að þurfa að fjármagna þetta með slíkum hætti. Til þess að komast hjá því og jafnframt til þess að tryggja nauðsynlegt fjármagn á skömmum tíma var þeirri hugmynd hreyft að Alþingi samþykki sérstök lög um uppbyggingu Bessastaða og að í þeim lögum yrði tryggt nægilegt fé til framkvæmda. Eflaust yrði það að gerast að meginhluta til með lántökum í ár en mundi endurgreiðast t.d. á næstu tveimur til fjórum árum.
    Þá þykir eðlilegt að framlög til uppbyggingar og viðhalds fasteigna að Bessastöðum verði í framtíðinni aðskilin fjárhag skrifstofu forseta Íslands.
    Um frumvarp þetta vísast að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins og meðfylgjandi fylgiskjals.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. er viðgerð og endurbygging Bessastaðastofu forgangsverkefni samkvæmt lögum þessum. Gengið er út frá því að viðgerð og endurbygging annarra aðliggjandi húsa fari fram eftir að viðgerð Bessastaðastofu er lokið. Þær byggingar, sem 1. gr. tekur til, er auk Bessastaðastofu blómaskáli, bókhlaða, móttökusalur, geymsluhús og svokölluð Hjáleiga. Nánar tilgreint eru þetta þær byggingar sem standa við húsagarð Bessastaðastofu.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að þegar í stað skuli gera áætlun um þær framkvæmdir sem fjallað er um í þessari grein. Nauðsynlegt er að sú áætlun verði gerð tafarlaust. Áætlunin skal fela í sér viðgerðarþörf einstakra mannvirkja og um leið ákvörðun um það hvernig að þeim skuli staðið þannig að unnt sé að hefja framkvæmdir á grundvelli hennar. Áætlunin skal jafnframt taka til ætlaðs kostnaðar við einstakar framkvæmdir.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er kveðið á um heimild til að verja allt að 45 millj. kr. úr ríkissjóði til áætlunargerðar og framkvæmda í ár umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um það að gera skuli heildaráætlun um Bessastaðajörðina. Með slíkri áætlun markar ríkisvaldið stefnu um það hvaða mannvirki skuli vera til frambúðar á Bessastaðajörðinni og um staðsetningu þeirra. Sjálfgefið er að slík skipulagning taki til útlits nánasta umhverfis þeirra mannvirkja, sem þegar eru fyrir hendi, svo og annarra sem ákveðið verður að reisa. Rétt þykir að eigandinn — ríkisvaldið — geri jafnframt upp hug sinn til framtíðarnýtingar annars lands á jörðinni. Þessi áætlun yrði að sjálfsögðu gerð með hliðsjón af aðalskipulagi sveitarfélagins.
    Tekið skal fram að meðal þeirra mannvirkja, sem undir þessa grein falla, eru m.a. Bessastaðakirkja og svokallað Bústjórahús.

Um 3. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að sett verði á fót nefnd þriggja manna er starfi undir yfirstjórn forsætisráðuneytisins. Þessari nefnd er ætlað mikið og vandasamt hlutverk. Hún á að bera ábyrgð á því að þeim áætlunum og framkvæmdum, sem kveðið er á um með lögunum, verði hrundið í framkvæmd. Hlutverk hennar verður þannig m.a. setja fram mótandi tillögur í áætlanagerð og að fengnu samþykki ráðuneytisins og fjárveitingavaldsins að hrinda þeim í framkvæmd. Ljóst er að óhjákvæmilegt verður að nefndin afli sér margs konar sérfræðiaðstoðar við framkvæmd verkefna sinna. Með sama hætti verður það á ábyrgð nefndarinnar að fylgjast með því að framkvæmdir verði innan ramma fjárlaga og samþykktra áætlana.

Um 5. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Eðlilegt þykir að kostnaður við framkvæmd laga þessara verði sérstakur liður í fjárlögum og ríkisreikningi, aðskilinn frá almennum rekstrarkostnaði embættis forseta Íslands.

Um 7. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 8. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Greinargerð húsameistara ríkisins, Þorsteins Gunnarssonar arkitekts


og Ístaks hf. um endurreisn forsetasetursins að Bessastöðum.    Endurreisn mannvirkja að Bessastöðum má í reynd skipta í eftirfarandi sex framkvæmdaþætti:
1.     Lokaáfangi í viðgerð og endurbyggingu Bessastaðastofu.
2.     Endurbygging aðliggjandi húsakosts umhverfis húsagarð.
3.     Bygging nýs forsetabústaðar.
4.     Endurreisn Bessastaðakirkju.
5.     Endurbætur á öðrum húsakosti Bessastaða.
6.     Endurbætur á umhverfi og aðkomu.
    Bessastaðastofa var reist á árunum 1761–66 sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Engar upprunalegar teikningar eru til af húsinu, en ráða má af líkum að Jakob Fortling, byggingarmeistari dönsku hirðarinnar, hafi teiknað húsið. Byggingarkostnaðurinn var 4292 ríkisdalir og 77 skildingar.
    Ásamt nokkrum öðrum húsum, sem reist voru á síðari hluta 18. aldar, en þeirra á meðal eru t.d. Viðeyjarstofa, Nesstofa, Hóladómkirkja og Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg, hefur Bessastaðastofa bæði menningarsögulegt og listrænt gildi. Eins og kunnugt er voru Bessastaðir gerðir að forsetasetri árið 1944. Þá var útlit hússins fært í upprunalegt horf að hluta samkvæmt teikningum Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts, og jafnframt aukið við húsakost á staðnum og byggt anddyri, blómaskáli og móttökusalur. Tveimur áratugum síðar var byggt bókasafn við Bessastaðastofu.
    Svo sem kunnugt er hefur þegar verið lokið við hluta þeirra endurbóta á Bessastaðastofu sem hófust árið 1987.
    Þessa dagana er unnið að lokafrágangi á fornminjakjallara undir Bessastaðastofu. Er þess vænst að þeirri framkvæmd ljúki í maí 1989.
    Ásamt hönnun á frágangi fornminjakjallara hefur í vetur verið unnið að tillögugerð er varðar framkvæmdaþætti 1. og 2. Tillögugerð, sem varðar framkvæmdaþátt 2, er á frumáætlunarstigi, en hún leggur grundvöllinn að ákvarðanatöku varðandi nýtingu Bessastaðastofu.
    Verður nú framkvæmdaþáttunum sex lýst nokkru nánar:

1.      Lokaáfangi í viðgerð og endurbyggingu Bessastaðastofu.
    Undir þennan framkvæmdaþátt fellur endurbygging þaks, innrétting þakhæðar og breytingar í norðaustur horni 1. hæðar þar sem nú er eldhús. Um endurbyggingu og innréttingu þakhæðarinnar var gerð sérstök kostnaðaráætlun ásamt framkvæmdarlýsingu í desember sl. Sú áætlun, sem var að upphæð tæpar 55 millj. kr., náði þó ekki til breytinga á núverandi svæði eldhúss.
    Helstu atriðum þessa framkvæmdaþáttar verður nú lýst. Þak verður endurgert sem næst upprunalegu horfi, þakviðir verða endurnýjaðir eftir þörfum, þak einangrað og sett ný þakklæðning úr brenndum rauðum steini á allt þakið. Vesturkvistur verður endurbyggður, en austurkvistur verður fjarlægður. Allir gluggar á þakhæð verða endurnýjaðir.
    Við innréttingu þakhæðar er miðað við að þar verði komið fyrir bókhlöðu ásamt vinnustofu, hvíldarherbergi, þjónustuherbergi og snyrtingu í stað þeirrar íbúðar forseta sem nú er á þakhæðinni.
    Miðað er við að komið verði fyrir nýjum snyrtingum, fatahengi, útgangi í húsagarð og stiga niður í fornminjakjallara þar sem nú er eldhús á 1. hæð. Um leið yrði snúið aðalstiga milli 1. hæðar og þakhæðar á þann veg að innangengt verði úr stigaforstofu í forrými að nýjum gestasnyrtingum.
    Gera þarf ráð fyrir fornleifarannsókn á 15 m*h2 grunni undir núverandi eldhúsi og frágangi þeirra fornminja.
    Hönnun framkvæmdaþáttar 1 verður lokið í áföngum á þessu ári. Fyrst verður lokið verkhönnun þaks og glugga á þakhæð þannig að framkvæmdir við þakið geti hafist nú á miðju sumri. Í byrjun vetrar á verkhönnun innan húss að vera lokið þannig að framkvæmdir innan húss verði unnar á vetrarmánuðum og lokið á fyrri hluta árs 1990.
    Reiknað er með að þessi framkvæmd í heild kosti um 60–70 millj. kr. Sundurliðuð áætlun um framkvæmdir á 1. hæð liggur þó enn ekki fyrir. Miðað er við að 45 millj. kr. fari til þessara framkvæmda á árinu 1989.

2.      Endurbygging aðliggjandi bygginga umhverfis húsagarð.
    Undir þennan framkvæmdaþátt fellur endurbygging þeirra bygginga, annarra en Bessastaðastofu, sem standa umhverfis húsagarðinn, m.a. svonefndri Hjáleigu. Stefnt er að því að þessar byggingar verði endurbyggðar eins og samfelld heild sem umlykur húsagarðinn á alla vegu og tengist Bessastaðastofu með gangi þar sem nú er bókhlaða. Endurbyggð verður þessi umgjörð um húsagarðinn með áþekku yfirbragði og nú er þannig að í hæð og hlutföllum verður áherslan áfram á Bessastaðastofu.
    Í þessari endurbyggðu umgjörð um húsagarðinn er áætlað að verði ný borðstofa með beinum tengslum við núverandi móttökusal. Við borðstofuna verður komið fyrir nýju eldhúsi og snyrtingum. Auk þess verða í þessari sambyggingu aðstaða fyrir starfsfólk og öryggisgæslu, svo og geymslur, þvottaherbergi og jafnvel bílgeymslur. Einnig er gert ráð fyrir í þessum áfanga tæknirými fyrir loftræstingu, vararafstöð o.þ.h.
    Gera þarf ráð fyrir verulegum fornleifarannsóknum samhliða þessum framkvæmdum.
    Gerðar hafa verið frumtillögur að þessum framkvæmdarþætti, en að fullnaðarhönnun þessa verks verður unnið fram á fyrri hluta árs 1990. Að því er stefnt að þetta verk verði framkvæmt á árinu 1990 og fram á síðari hluta árs 1991. Sundurliðuð kostnaðaráætlun um þennan þátt liggur ekki fyrir, en stærð hans er lauslega áætluð um 60 millj. kr.

3.      Bygging nýs forsetabústaðar.
    Stefnt er að því að byggt verði nýtt íbúðarhús fyrir forseta austan við Bessastaðastofu, t.d. á grunni núverandi ráðsmannshúss sem talið er gjörónýtt. Ráðsmannshúsið er sterkur þáttur í heildarmynd Bessastaða, einkum með hliðsjón af aðkomu frá suðri og vestri. Forsetabústaður á þeim grunni er einnig ákjósanlegur með tilliti til eðlilegrar aðgreiningar á einkalífi forseta frá meginumsvifum forsetasetursins. Hús á þeim stað snýr vel við sólu, getur haft nokkurn einkagarð og einkabílskúr, án þess að vera þó nema steinsnar frá þjónustu- og öryggisgæslu staðarins.
    Meginforsendur við hönnun slíks bústaðar yrðu þær að húsið yrði virðulegur en þægilegur rammi utan um einkalíf forsetans og fjölskyldu hans, þ.e. vandað einbýlishús með þeim almennu gæðum sem slíku húsi fylgja. Auk þess þarf í hönnun og frágangi að fella húsið að heildarmynd og virðuleika staðarins.
    Áætlaður kostnaður við slíkt hús og umhverfi þess gæti numið um 40–50 millj. kr. Stefnt er að því að framkvæmdir við húsið geti hafist á árinu 1991 og ljúki 1992.

4.      Endurreisn Bessastaðakirkju.
    Á þessu stigi hefur aðeins verið gerð frumúttekt á Bessastaðakirkju, en ekki tekin endanleg ákvörðun um stefnumótun. Hins vegar hefur á undanförnum árum fengist mikil reynsla af endurbyggingu Hóladómkirkju og má draga af henni ýmsan lærdóm. Við endurreisn Bessastaðakirkju er þó margt sem hafa þarf í huga, m.a. menningarsögulegt og listrænt gildi hennar. Bessastaðakirkja er sóknarkirkja Bessastaðahrepps auk þess að vera ein af höfuðkirkjum þjóðarinnar.
    Að því er stefnt að framkvæmdum við kirkjuna verði lokið á miðju ári 1994, en þá eru 200 ár liðin frá vígslu hennar. Búist er við að framkvæmdir við kirkjuna muni kosta um 40–60 millj. kr.

5.      Endurbætur á öðrum húsakosti Bessastaða.
    Endurmeta verður hlutverk annarra bygginga að Bessastöðum. Hér er m.a. átt við fjós ásamt hlöðu, svo og önnur útihús og hús bílstjóra. Taka verður til þess afstöðu hver þessara húsa eru órjúfanlegir þættir heildarmyndar Bessastaða og hvert er mikilvægi þeirra fyrir rekstur staðarins. Að lokinni slíkri úttekt yrðu gerðar endurbætur á húsunum í samræmi við mikilvægi þeirra, en sum yrðu jafnvel rifin.
    Á þessi stigi brestur forsendur til að verðleggja þennan framkvæmdaþátt þótt ljóst sé að hann geti numið nokkrum tugum millj. kr. Miðað er við að þessar framkvæmdir verði fyrst á síðari hluta árs 1993 og verði ekki að fullu lokið á árinu 1994.

6.      Endurbætur á umhv erfi og aðkomu.
    Undir þessum þætti er átt við allar aðrar endurbætur á jörðinni Bessastöðum en þær sem að framan hafa verið taldar. Endurmeta þarf nýtingu allrar landareignarinnar og staðfesta þá nýtingu við endurskoðun aðalskipulags Bessastaðahrepps.
    Undir umbætur í þessum lið falla t.d. endurbætur á heimreið og annarri vegalagningu, endurbætur á göngustígum, girðingum og annarri afmörkun jarðarinnar, svo sem aðalhliði við þjóðveg. Reiknað er með að snyrta og lagfæra fornar minjar sem heyra til staðnum, svo sem eins og Skansinn o.fl. Undir þennan lið fellur einnig lýsing utan húss, hugsanleg gróðursetning eða önnur umhverfisleg breyting.
    Forsendur liggja á þessu stigi ekki fyrir til þess að verðleggja megi þessar framkvæmdir.
    Í reynd er við því búist að þessum þætti verði dreift á nokkur ár. T.d. yrðu aðkoma og nánasta umhverfi hinna einstöku bygginga að fylgja þeim í framkvæmd, en þó innan samfelldrar áætlunargerðar.
    Þannig er miðað við að heimreið frá þjóðvegi að Bessastaðastofu verði unnin á árinu 1991, en aðkoma og umhverfi nýs forsetabústaðar verði unnin á
árinu 1992. Að því er stefnt að öllum umhverfislegum þáttum verði lokið eigi síðar en á miðju ári 1994.

Tekið saman í apríl 1989.Húsameistari ríkisins.


Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.


Ístak hf.
    Sjá mynd og töflu í prentuðu þingskjali.