Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 188 . mál.


Nd.

982. Nefndarálit



um frv. til þjóðminjalaga.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á mörgum fundum og sent það víða til umsagnar. Svör bárust frá eftirtöldum: starfsfólki Þjóðminjasafns, séra Gísla H. Kolbeins Stykkishólmi, Þórði Tómassyni safnverði í Skógum, Þór Magnússyni þjóðminjaverði, Gunnlaugi Haraldssyni, forstöðumanni Byggðasafns Akraness og nærsveita, Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur, safnverði við Minjasafn Akureyrar, Margréti Hermannsdóttur, fornleifafræðingi við Háskóla Íslands, Ragnheiði H. Þórarinsdóttur borgarminjaverði, Sigríði Sigurðardóttur, minjaverði í Skagafirði, Sveinbirni Rafnssyni prófessor og forseta heimspekideildar Háskóla Íslands, Guðmundi Karlssyni, Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum, Gísla Arasyni, safnverði við Byggðasafn A-Skaftafellssýslu, Ingu Láru Baldvinsdóttur, formanni Félags íslenskra safnmanna, Sigmundi Andréssyni, safnverði við Byggðasafn Vestmannaeyja, Gyðu Gunnarsdóttur, safnverði Sjóminjasafns Íslands, Elísabetu Sigurgeirsdóttur, Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi, Guðleifi Sigurjónssyni, stjórnarformanni Byggðasafns Suðurnesja, Guðrúnu Kristinsdóttur, safnverði við Safnastofnun Austurlands, Ingu Láru Baldvinsdóttur, formanni byggðasafnsnefndar Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka og Magnúsi Jónssyni, byggðasafnsnefnd Hafnarfjarðar.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem tillaga er gerð um á sérstöku þingskjali. Í tillögum þessum er gengið til móts við sjónarmið þeirra sem vilja styrkja þann þátt málsins er lýtur að fornleifum og verndun þeirra. Þannig er m.a. tekin upp sem breytingartillaga (8. brtt.) 3. gr. frumvarps til laga um verndun fornleifa, en það frumvarp hefur einnig verið til umfjöllunar í nefndinni. Nefndin telur einnig rétt að stofnuð verði sérstök fornleifanefnd, skipuð af menntamálaráðherra, sem fari með yfirstjórn fornleifavörslu og fornleifarannsókna í landinu í umboði þjóðminjaráðs. Jafnframt er gert ráð fyrir sérstakri fornleifadeild við Þjóðminjasafn Íslands og skal deildarstjóri þeirrar deildar vera fornleifafræðingur að mennt og sömu kröfur eru gerðar til fornleifavarða er verða ásamt minjaverði einn á hverju minjasvæði.
    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru flestar byggðar á hugmyndum og tillögum sem fram komu í aðsendum umsögnum.

Alþingi, 26. apríl 1989.



Ragnar Arnalds,

Birgir Ísl. Gunnarsson,

Árni Gunnarsson,


form.

fundaskr.

frsm.



Ragnhildur Helgadóttir,

Þórhildur Þorleifsdóttir.

Ólafur Þ. Þórðarson.


með fyrirvara.



Guðmundur G. Þórarinsson.