Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 239 . mál.


Ed.

1013. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vaxtalögum, nr. 25 27. mars 1987.

Frá fjárhags- og viðskiptanefnd.



    Frumvarp þetta er komið til deildarinnar á ný vegna breytinga sem neðri deild hefur gert á 7. gr. þess, þ.e. 1. mgr. 17. gr. vaxtalaga, sem fjallar um okur.
    Tilgangur þessarar greinar frumvarpsins, eins og hann kemur fram í frumvarpi viðskiptaráðherra á þskj. 444, var alls ekki sá að hrófla við gildandi lagaákvæðum um okurvexti og misneytingu, heldur einungis að setja inn ný ákvæði um almenn vaxtamörk til viðmiðunar sem Seðlabankinn hefur heimild til að ákveða.
    Í lagatextanum segir að hver sá, sem hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra til að áskilja sér vexti umfram gildandi vaxtamörk, skuli sæta viðurlögum. Neðri deild hefur nú fellt brott úr greininni orðin „á óréttmætan hátt“.
    Nefndin telur engin rök fyrir þessari breytingu á okurákvæðum vaxtalaganna og álítur að með henni sé beinlínis verið að stofna til óvissu um efni þeirra og beitingu við dómsúrlausnir.
    Í athugasemdum við frumvarp til vaxtalaga, sem samþykkt var á Alþingi vorið 1987, segir svo almennt um vexti:
    „Tilhögunin er sú í stórum dráttum að út af fyrir sig má semja um hvaða almenna vexti sem er. En sé farið ólölega að við samningsgerð, framsal samnings, beitingu hans eða hagnýtingu, samkvæmt því sem lýst er í 17. gr., verður hinn brotlegi að gjalda þess að hafa áskilið sér vexti eða annað endurgjald umfram hæstu gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, á þeim tíma er til skuldar var stofnað. Eftir því sem þetta bil breikkar og vaxtatakan fer lengra umfram vaxtakjör innlánsstofnana, því meiri er áhættan, bæði hættan á því að dómstólar telji um óréttmæta hagnýtingu aðstöðumunar að ræða, svo og á þyngri viðurlögum ef brot sannast.“
    Um orðin „á óréttmætan hátt“ er svo sérstaklega fjallað í athugasemdum um 17. gr., og þar segir m.a.:
    „Hinu ólögmæta atferli er lýst í upphafi 17. gr. frumvarpsins sem því að hagnýta sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti. Hér þarf að vera um misnotkun aðstöðu að ræða, það grófa að dómstólar telji hana refsiverða. Orðin á óréttmætan hátt eru ætluð sem eins konar fyrirvari til dómstóla um mat á refsiverðleika háttseminnar og þrengingu á efnissviði ákvæðisins. Tryggir það á svipaðan hátt og ólögmætisfyrirvari 248. gr. almennra hegningarlaga að ákvæðinu sé beitt með nokkurri varúð. Svipuð aðferð var höfð við lögfestingu 300. gr. b í dönsku hegningarlögunum. Að sjálfsögðu skiptir fjárþröng mestu máli varðandi aðstæður viðsemjandans en rétt þykir að hafa opið ákvæði um hliðstæðan aðstöðumun aðila, t.d. þar sem annar er háður hinum í starfi, vegna fyrri viðskipta, um útvegun fíkniefna o.s.frv. Hæfilega takmörkun á þessu atriði er að finna í óréttmætisfyrirvaranum.“
    Nefndin telur því ekki ástæðu til að breyta gildandi lagaákvæðum um okur og leggur til svofellda

BREYTINGARTILLÖGU:



    Við 7. gr. Á eftir orðunum „hagnýtir sér“ í fyrri efnismgr. komi: á óréttmætan hátt.

    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 3. maí 1989.



Eiður Guðnason,

Valgerður Sverrisdóttir,

Jóhann Einvarðsson.


form., frsm.

fundaskr.



Guðmundur Ágústsson.

Ey. Kon. Jónsson.

Halldór Blöndal.