Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 163 . mál.


Nd.

1203. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 56/1972, um lögreglumenn, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr. í Nd., 16. maí.)



1. gr.

    Í stað 1. mgr. 5. gr. laganna koma þrjár málsgreinar svohljóðandi:
    Lögreglumenn, hvort sem þeir eru í föstu starfi eða kvaddir lögreglunni til aðstoðar, eru opinberir starfsmenn og njóta sömu verndar og aðstöðu og þeir menn er gegna borgaralegri skyldu.
    Engan má ráða eða skipa lögreglumann eftir 1. júlí 1990 án þess að hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Heimilt er að lausráða nema til reynslu til lögreglustarfa meðan á námi þeirra stendur í Lögregluskóla ríkisins. Reynsluráðning skal aldrei standa lengur en tvö ár. Heimilt er að ráða til lögreglustarfa menn án prófs frá Lögregluskóla ríkisins til afleysinga í sumarleyfum á tímabilinu 15. maí til 30. september ár hvert. Ákvæði varðandi próf frá Lögregluskóla ríkisins ná ekki til skipshafna á varðskipum, tollvarða, héraðslögreglumanna eða varalögreglumanna; þó skulu þeir, sem lokið hafa prófi frá Lögregluskóla ríkisins, ganga fyrir um þessi störf þar sem það á við.
    Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni lögreglustörfum. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum nema þyngri refsing liggi við að lögum og skal með mál út af brotum þessum fara að hætti opinberra mála.

2. gr.

    2. mgr., er verður 4. mgr., 5. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður skal bæta lögreglumönnum meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.