Kosning forseta og skrifara í Nd.
Miðvikudaginn 11. október 1989


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Ég þakka það traust sem mér hefur nú verið sýnt og vænti þess fastlega að í þessari virðulegu þingdeild takist gott samstarf og samvinna um störf hennar svo megi verða Alþingi til sóma. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að eiga góða samvinnu við hv. þm. og skiptir mig þá einu hvort þeir eru úr hópi stjórnarliða eða stjórnarandstæðinga. Af þessu tilefni og ýmsum öðrum gefnum á undanförnum missirum get ég ekki stillt mig um að segja nokkur orð í byrjun starfsferils míns sem forseti Nd.
    Á síðustu árum hefur Alþingi, þessi mikilvægasta stofnun þjóðarinnar, mátt þola umtalsvert aðkast. Á mælistiku skoðanakönnuða er traust þjóðarinnar á Alþingi býsna takmarkað. Þeir sem lesið hafa bók Páls Eggerts Ólasonar um Jón Sigurðsson, ,,Líf og landssaga``, skynja fljótlega rauða þráðinn í baráttu foringjans mikla sem m.a. snerist um það að auka veg og virðingu Alþingis og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu.
    Í umræðum um Alþingi og störf þess að undanförnu hefur ýmsum orðið það á að sjást ekki fyrir í gagnrýni sinni og að gleyma þrískiptingu valdsins. Þannig hefur gagnrýni á stjórnvöld á hverjum tíma og á framgöngu ýmissa þingmanna runnið í einn farveg ómældrar gagnrýni á Alþingi sem stofnun.
    Þeir sem fjalla um stjórnmál og stjórnmálastörf þurfa að mínu mati að átta sig á hlutverki Alþingis sem löggjafa og löggjafarvalds. Alþingi er og verður grundvöllur þess þjóðskipulags sem við Íslendingar búum við og viljum búa við. Á Alþingi er vagga þingræðis og lýðræðis og svo mun verða um ókomna tíð. Stofnunin Alþingi stendur og mun standa óháð umbrotum í stjórnmálalífi og óháð því hvaða stjórnmálamenn koma og fara. Hlutverk Alþingis mun þess vegna ekki breytast.
    Menn takast á í sölum Alþingis um stefnur og leiðir, en það er að mínu mati illt verk að gera því skóna að Alþingi sem stofnun gegni ekki hlutverki sínu. Að mínu mati er mjög tímabært að alþingismenn taki upp harðari vörn fyrir Alþingi og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að styrkja stöðu þess í huga þjóðarinnar. Önnur vinnubrögð eru vart sómasamleg.