Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Mánudaginn 16. október 1989


     Frsm. kjörbréfanefndar (Matthías Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Það gekk fremur stirðlega að ná kjörbréfanefnd saman en hafðist þó að lokum að fá fjóra nefndarmenn á fund og þeir tóku fyrir tvö kjörbréf sem hér hafa borist. Það er í fyrsta lagi kjörbréf Unnars Þórs Böðvarssonar, skólastjóra í Reykholti, sem er 2. varamaður Alþb. í Suðurlandskjördæmi og kjörbréf Guðrúnar Tryggvadóttur meinatæknis sem er 2. varamaður Framsfl. í Austurlandskjördæmi. Fyrir lá tilkynning um það að 1. varamaður Alþb. í Suðurlandskjördæmi gæti ekki mætt en 1. varamaður Framsfl. í Austurlandskjördæmi hefur áður tekið sæti hér á Alþingi.
    Kjörbréfanefnd er sammála um það að mæla með því að kjörbréf beggja þessara þm. verði samþykkt.